Færsluflokkur: Bloggar

Sorfið að Taiwan-Formósu. Nýi kvenskörungurinn, Tsai Ing-Wen, og fleiri slíkir

Á síðmiðöldum höfðu Japanar og Vesturveldin, einkum Bretar og Portúgalar, seilst til áhrifa í kínverska Qing heimsveldinu - eins og víðar um alla suður og austur Asíu. Kínverjar voru þá sem nú samheiti aragrúa þjóða og ættbálka innan landamæra kínverska heimsveldisins.

Eiginleg yfirráð heimsveldisins var í höndum kjarnakonunnar, keisaraynjunnar Dowager Cixi (1835-1908). Þrátt fyrir tilburði í þá átt að aðlagast vestrænum lífsháttum voru árekstrar við Vesturveldin óhjákvæmilegir. Breska heimsveldið háði svokölluð opíumstríð við Kínverja með tæpra tuttugu ára millibili, hið fyrra 1842 og hið síðara 1860. Átta nýlenduveldi; Þýskaland, Japan, Rússland, Breska heimsveldið, Frakkar, Bandaríki Norður-Ameríku, Ítalir og Austurríki-Ungverjaland, gerðu innrás í landið aldamótaárið 1900. Hinir svonefndu „boksarar,“ hreyfing kínverskra bænda, sem snerust öndverðir gegn ásælni útlendinga, veitti sameinuðum innrásarher viðspyrnu. Boksarar nutu stuðnings keisaraynjunnar. Innrásarherinn taldi rúm fimmtíu þúsund hermanna, sem studd voru fjölda herskipa og annarra stríðstóla.

Boksararnir og keisaraynjan lutu í lægra haldi. Í kjölfar hernaðarósigurs ynjunnar fylgdu vopnaðar uppreisnir gegn henni. Náðarhöggið átti sér stað í Xinhai byltingunni árið 1911. Hún ól af sér stofnun hins „Kínverska lýðveldis“ ári síðar. Læknirinn og stjórnspekingurinn, Sun Yat-sen (1866-1925), var fyrsti bráðabirgðaforseti lýðveldisins. Það var fjölmennasta lýðveldi sögunnar árið 1949, í lok borgarastyrjaldarinnar. Sun var einnig fyrsti formaður kínverska þjóðarflokksins, Kuomintang. Nafni hans er haldið í heiðri bæði í Kínverska alþýðulýðveldinu á meginlandinu og í Kínverska lýðveldinu á Taiwan, áður Formósu.

Þriðja eiginkona Sun, Rosamond Soong Ching-ling (1893-1981), komst til verulegra áhrifa í Kínverska alþýðulýðveldinu. En það komst á koppinn árið 1949 í borgarstyrjöldinni undir forustu Mao Zedong (1893-1976 -Maó formanns). Rósamunda var m.a. varaformaður ríkisins og formaður fastanefndar byltingarflokksins (kommúnistaflokksins) á árunum 1976-1978. Síðastnefnda embættið fól í raun í sér hlutverk formanns alþýðulýðveldisins. Rosamond lifði af hina illskeyttu menningarbyltingu Maós formanns og varð fyrsti kvenþjóðarleiðtogi í „lýðræðissögu“ Kínverja um tveggja ára skeið. Við andlát hennar var Rósamundu veittur heiðurstitillinn: „Heiðursforseti kínverska alþýðulýðveldisins.“

Eins og ýjað var að skildu leiðir Kuomintang og Kínverska byltingarflokksins í borgarstyrjöldinni, þegar Kínverjar börðust sameinaðir gegn japanska innrásarhernum. Chiang Kai-Shek (1887-1975) tók við forystu Kuomintang af Sun árið 1928. Við byltingu Maós formanns árið 1949 hrökklaðist hann til Taiwan (þá Formósu) og „flutti með sér“ „Kínverska lýðveldið.“ Chiang var forseti þess fram í andlátið.

Formósa og eyjarnar umhverfis höfðu lengi verið bitbein Kínaverja og Japana. Árið 1895 hafði kínverska Qing ættarveldið afsalað sér eyjunni til Japana. Íbúar þess lýstu yfir lýðveldisstofnun í maí á því ári og kölluðu „Formósu lýðveldið.“ En það varð skammlíft. Japanskar hersveitir greiddu því banahögg tæpu hálfu ári síðar. Í uppgjöri stórveldanna við Japana í lok seinni heimsstyrjaldar var Kínverska lýðveldinu, undir stjórn Kuomintang, veitt yfirráð yfir eyjunni.

Chiang stjórnaði samkvæmt herlögum fram til ársins 1987. Ofbeldisstjórn hans var viðbrugðið, bæði á fastlandinu og á Formósu. Hann var annálaður glæphundur og þaggaði miskunnarlaust niður í erfiðum eyjarskeggjum í anda þeirra ofsókna og ógnarstjórnar, þ.e. „hvítu ógnarstjórnarinnar,“ sem hann áður hafði stundað á meginlandinu. Ofsóknir Kuomintang minntu um margt á ofsóknir stjórnvalda í BNA undir forystu Joseph Raymond McCarty (1908-1957) á sjötta áratugi síðustu aldar. Chiang ríkti jafnlengi og Maó formaður, þ.e. í 46 ár.

Öndvert við Maó hallaði Chiang sér að Vesturveldunum, eftir nokkur „ástarævintýri“ við Rússa, Leon Trotsky (1879-1940) meðal annarra. Hann gerði Formósuríkið að bandamanni Vesturveldanna, undirróðurs- og hernaðarbækistöð i Austur-Asíu. Fyrir vikið hefur lýðveldið hlotið umtalsverða „þróunaraðstoð,“ sér í lagi frá BNA. Kínverska lýðveldið á Taiwan skipaði sæti Kínverja hjá Sameinuðu þjóðunum til ársins 1971, þegar allsherjarþing þeirra útskúfaði því og hafnaði sömuleiðis umsókn þess um aðild árið 2007.

Ríki Chiang á Formósu var aldrei annað en einflokks lýðræði, skipað „innfluttum“ Kínverjum, sem hafði það á stefnuskránni að leggja undir sig Alþýðulýðveldið handan sundsins, þ.e. Taiwan sunds. Á nýrri heimaslóð hegðaði Kuomintang sér eins og hvert annað nýlenduveldi, sem m.a. bannaði tungur innfæddra. „Hvít ógnarstjórn“ Chiang var enn í fullum blóma.

Þrátt fyrir þykjustulýðræðið á Taiwan studdu Vesturveldin ríki Chiang með ráðum og dáð, samtímis því, að atvinnulífið fékk að blómstra að miklu leyti samkvæmt lögmálum hins frjálsa markaðar, en undir undir ríkisforsjá. Því má segja, að Lýðveldið Kína hafði orðið fyrirmynd Alþýðulýðveldisins, að þessu leyti. Á sínum tíma var Taiwan talið einn hinna fjörurra efnahagstígra í Asíu, ásamt Singapore, Suður-Kóreu og Hong Kong.

Alþýðulýðveldið hefur aldrei viðurkennt, hvorki yfirráð nýlenduveldanna yfir fornu kínversku landsvæði, né yfirráð Chiang og félags hans yfir Taiwan. Eins og kunnugt er gerði Alþýðulýðveldið samning við breska heimsveldið í andláti þess, um að Hong Kong yrði skilað. Það hefur nú komið til framkvæmda með svipuðu fyrirkomulagi og á við um fyrrum nýlendu Portúgala, óseyraborgina Macao eða Maká, fyrrum verslunarsetur þeirra, samkvæmt leigusamningi við kínversk yfirvöld. Þau eru bæði kölluð sérstök sjálfsstjórnarhéröð í Alþýðulýðveldinu.

Þegar „rauði hershöfðinginn,“ Chiang, var allur, tók við stjórnartaumunum sonur hans og nafni, Ching-kuo (1910-1988). Hann mætti jafnvel kalla „bleika“ hershöfðingjann. Chiang yngri menntaðist í Rússlandi, meðan flest lék í lyndi milli Kuomintang og hins kínverska byltingarflokks Maó formanns í baráttu þeirra við Japana og innlendar andstöðufylkingar.

Rússnesku bolsévikkarnir, klofningsbyltingarflokkur Vladimir Ilyich Ulyanov eða Lenin (1870-1924), studdu baráttu Kuomintang. Chiang var því vel undir það búinn að starfa í ógnarstjórn föðurins sem innsti koppur í búri, m.a. sem varnarmálaráðherra, forsætisráðherra og yfirmaður leynilögreglunnar. Engin veit nákvæmlega, hvaða óþverragjörningum hann er ábyrgður fyrir og hversu margir hafa horfið fyrir hans atbeina. Þess má „til gamans“ geta, að Joseph Vissarionovich Stalin (1878-1953) sendi hann í námavinnu, þegar Kuomintang sneri við Rússum baki.

Chiang yngri slakaði smám saman á stjórnartaumunum, jók málfrelsi og minnkaði ofsóknir gegn innfæddum og aðfluttum meginlandskínverjum (þangað fluttum eftir 1949). Við embætti Chiang yngri tók Lee Teng-hui (1923-2020), sérvalinn af forvera sínum. Síðar var hann valinn í beinum kosningum af eyjarskeggjum. Lee beitti sér fyrir lýðræðislegum stjórnarháttum og lagði áherslu á að efla tengsl og vináttu á alþjóðagrundvelli. Tsai Ing-Wen (f. 1956) tók við keflinu 2020 og virðist ætla að halda merki forvera síns á lofti eins og hjálögð grein ber með sér, enda þótt úr öðrum flokki sé, þ.e. „Framsækna lýðræðisflokknum.“

Tasi er merkileg kona, hámenntuð í heimalandi sínu, Bandaríkjum Norður-Ameríku (BNA) og Englandi. Hún hefur lagt stund á lögfræði og alþjóðaviðskipti. Tsai nýtur lýðhylli á Taiwan, ógift „kattakona,“ sem á ættir að rekja til frumbyggja eyjarinnar (Paiwan). Hún hlaut yfirburðafylgi í beinu kjöri til forseta.

Í baráttunni fyrir frama í stjórnmálum hefur hún lýst yfir stuðningi við lesbíur-homma-tvíkynunga-og kynskiptinga og beitt sér fyrir hjónabandi fólks af sama kyni. Vígorð hennar voru m.a.: ”Ég er Tsai Ing-Wen, stuðningsmaður jafnréttis til hjónabands” og ”gerum öllum kleift að stunda frjálsar ástir og höndla hamingjuna.” (Lög þess efnis tóku gildi 2019.)

Tsai hefur þar að auki t.d. beitt sér fyrir opinberri jafngildinu upprunalegra tungumála á eyjunni. Mandarín, tungumál kínverska ”innrásarhersins” forðum daga, heldur því ekki lengur velli sem einasta, opinbera tungumál eyjarskeggja. Á alþjóðavettvangi lítur Tsai eins og forverar hennar hafa gert, einkum til BNA, samtímis því að leggja áherslu á eflingu tengsla við ríki á Indlands-Kyrrahafssvæðinu. Hervæðing liggur henni skiljanleg þungt á hjarta, enda er beðið í spenningspínu eftir innrás (alvöru) Kínverja. Hún hefur hafnað nálgun Alþýðulýðveldisins um endursameiningu; „eitt ríki, tvö kerfi.“

https://www.foreignaffairs.com/articles/taiwan/2021-10-05/taiwan-and-fight-democracy?utm_medium=newsletters&utm_source=twofa&utm_campaign=Taiwan%20and%20the%20Fight%20for%20Democracy&utm_content=20211008&utm_term=FA%20This%20Week%20-%20112017


Píkutorfan. "Hálfgerð Biblía fyrir konur“

Á nýliðnu aldamótaári kom fyrir almennings sjónir merkilegt kynjafræðirit; Píkutorfan. Bókin er þýdd úr sænsku og heitir á frummálinu „Fittstim,“ gefin út árið 1999. Þýðendur eru Hugrún R. Hjaltadóttir og Kristbjörg Kona Kristjánsdóttir. Þýðendur komast yfirleitt vel frá erfiðu verkefni. Ritstjórar eru: Linda Norrman Skugge, Belinda Olsson og Brita Zilg. Linda og Belinda skrifa báðar greinar í ritið, en þær eru í frumútgáfunni sautján talsins, auk inngangs.

Í íslensku útgáfunni er aukreitis inngang þýðenda að finna, fræðslu um Bríeti, félag ungra kvenfrelsara (femínista), sem stofnað var ári áður en bókin kom út í Svíþjóð, og sérstakan viðauka Guðrúnar Margrétar Guðmundsdóttur, mannfræðings, sem ber heitið: „Femínistasían. Um uppeldi á femíníska vísu.“ Guðrún Margrét er sömuleiðis einn ritstjóra Kynungabókar Katrínar Jakobsdóttur, sem kom út árið 2010.

Hér og hvar er skotið inn athugasemdum; tilvitnunum til kvenfrelsara einkum og fróðleiksmolum úr innlendum og útlendum skýrslum, sem sýna bága stöðu kvenna í veröldinni.

T.d.: „Alveg þangað til að konur fóru að skrifa bækur var bara til ein hlið á málinu. Í gegnum söguna höfðu bækurnar verið skrifaðar með sæði en ekki tíðablóði.“ (Erica Jong: Fear of Flying.)

„Það er álitið að 85 til 114 milljónir kvenna í heiminum séu umskornar. Á hverju ári bætast 2 milljónir við í hópinn.“ (UNICHEF – United Nations International Children‘s Emergency Fund – Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna.)

„1960 voru bestu geimfarar NASA 13 konur. Þær voru betri en allir karlarnir. Þær voru í réttri þjálfun en af röngu kyni. Þess vegna fengu þær ekki að fara út í geim, þess vegna fengu þær ekki að fara til tunglsins. Háttsettur yfirmaður hjá NASA, Chris Kraft, sagði við bandaríska þingið: „Mér líður illa við tilhugsunina um bandaríska kvenkyns geimfara. Ég sendi frekar apa út í geim en hóp af konum.“ (The Sunday Times Magazine)

„Það er karlmannlegt að: Drottna og taka mikið pláss, vera sjálfselskur, taka ákvarðanir, hafa takmark, vera ögrandi, vera sterkur, ráða yfir öðrum, þéna peninga, hafa völd, hafa sterka kynhvöt.“ (Cecilia von Melen, Um frelsi.)

Nafngift bókarinnar vekur athygli, en það er samkvæmt upplýsingum ritstjóra þannig til komið, að árið 1992 ku formaður sænska Alþýðusambandsins hafa kallað félagsskap kvenjafnaðaramanna „helvítis píkutorfu“ (jävla fittstim), sbr. síldartorfu. Orðið „fitta“ á sænsku (d. og n. fitte) merkir kynfæri kvenna, píku. Hins vegar þýðir það líka konu eða stúlku. Hugsanlega þekkja þýðendur ekki þá merkingu.

Hér eru umsagnir ungra kvenna um bókina (Vera 2011): ”Strákur í bekknum mínum hljóp á eftir mér og sparkar svo í rassinn á mér. Þegar ég kvartaði við kennarann sagði hann: ”Iss, hann er bara skotinn í þér.” Það virtist gefa honum leyfi til að beita mig líkamlegu ofbeldi. Þegar ég las Píkutorfuna áttaði ég mig betur á hvað hefur verið að angra mig. …

[A]llar stelpur frá 12 ára aldri ættu að lesa bókina. Þar er nefnilega fjallað um mörg mál sem koma fyrst fram við kynþroskaaldur, t.d. er bent á að þó maður sé orðin kynþroska þá er maður ekki almenningseign.” (Helga Baldvinsdóttir)

”Mér finnst Píkutorfan vera hálfgerð Biblía fyrir konur.” (Anna Guðlaugsdóttir)

Eins og fram kemur í þessum umsögnum fjalla greinarnar um raunir unglingsstúlkna í uppvextinum. Þetta eru harmsögur í anda ævisögu Jóhannesar Birkilands, „Harmsögu ævi minnar.“ Fjallað er um svívirðilega greddu drengja og dólgshátt þeirra, sjálfsmyndarkvalir stúlkna, átraskanir, (vonda) kynfræðslu, ofbeldi gegn konum og börnum, kynlíf, getnaðarvarnir, drusluuppnefningu og allra handa samfélagslegt óréttlæti í þeirra garð, m.a. í íþróttum. Fórnarlambsandinn svífur yfir vötnum, líka í grein Jenny Svendberg: „Takk fyrir Guð, að ég er lesbía.“

Að mínum dómi bera tvær greinar af: „Mínir svokölluðu vinir. Um vinkonur,“ eftir Lindu, og „Tyrkneska stelpan. Um að vera sett á bás,“ eftir Aysegül S. Sungur.

Aysegül segir m.a.: „Það er auðvelt fyrir fjölmiðla að freistast til að sýna konur með erlendan bakgrunn sem undirokaðar, að þeim sé misþyrmt og þær fangelsaðar af karlkynsmeðlimum fjölskyldunnar. En það búa ekki allar múslímskar konur við slíkan hrylling, langt í frá. Vitið þið hversu oft ég hef þurft að sanna fyrir einhverjum að pabbi minn sé ekki vondur einræðisherra? …

Það besta við goðsögnina um konur sem koma frá löndum utan Evrópu eigi í meiri vandræðum en aðrar konur er að þær konur sem virkilega eiga í vandræðum og lifa við undirokun og misþyrmingar fá enga athygli eða hjálp. Það versta er að litið er á þetta sem sérstakt nýbúavandamál en ekki sem hlutskipti margra kvenna. Allt of margar konur nenna ekki að spyrna á móti goðsögninni um að þær séu undirokaðar.“

Linda segir: „Mín heitasta ósk er að Kenneth bjóði mér upp í vangadans. … Ég er að deyja úr ást. Ég held að það séu ekki bara fullorðnir sem geta verið graðir því ef maður er virkilega skotin getur maður líka verið það þótt maður sé bara tíu ára. …

Sjöundi bekkur: Við erum heima hjá Caroline og tölum um það hvernig það er að vera graður. Ég segi þeim að mér finnist það vera eins og að hafa pissað í buxurnar.“ …

Menntó 1.B. „Ég er ástfanginn af Daníel,“ segi ég og besta vinkona mín fer heim með honum eftir skóla. Daginn eftir segir hún: „Hann fór undir beltið hjá mér.“ Hún kallar það að fara „undir beltið“ þegar strákur gerir það við hana með puttunum. Hún á bók sem hún skrifar í alla stráka sem hún hefur kelað við. Nöfn og dagsetningar. Það eru örugglega 40 strákar í henni.

Menntó 3. B. „Ég fer út á land í fríinu,“ segi ég við vinkonu mína og hún notar tækifærið og ríður stráknum sem ég er ástfanginn af. „Það er þér sjálfri að kenna því að þú fórst,“ segir hún fúl. Hún er fúl út í mig þegar það er í raun ég sem ætti að vera fúl út í hana.

Eftir allar þessar raunir var erfitt að vita hvað mér fannst um stelpur. Það var orðið eðlilegt að þær eyðilegðu fyrir mér ástarlífið og teldu mér trú að ég væri misheppnuð og ljót. … Ég hataði líf mitt, mig langaði til að geta hætt að anda. Ég hataði allar stelpur. … Við baktöluðum þær sem ekki voru með í frímínútum. …

Það eina sem ég vildi var að einhver myndi káfa á mér. Ég vildi vera með í leiknum, láta klípa í mig, en enginn vildi snerta mig. Það var sárt að fá ekki þá staðfestingu. Væri aldrei káfað á manni voru það skilaboð um að maður væri ljótur og myndi aldrei eignast kærasta, maður var gubbufýla. …

Stelpur fæðast ekki falskar, það er ekkert náttúrulegt. Það er sjálfsagður hluti af menningu okkar að stelpur rífist og reyni að sigrast hver á annarri. … Við þroskumst ekkert sjálfar né komumst áfram í samfélaginu því við verjum dýrmætum tíma okkar í það eitt að baktala og rífa hver aðra niður. …

Í sjötta bekk, þegar við vorum tólf ára, bað kennarinn allar stelpurnar að vera eftir í kennslustofunni en strákarnir fóru út í frímínútur. „Ég sé að strákarnir eru byrjaðir að káfa á ykkur,“ sagði hún, „passið ykkur nú á því að verða ekki almannagjár. Ég sjálf leyfi bara manninum mínum að snerta mig.“

Lýsing Ann-Linn Guillou á kynþörfinni eru svipaðar og hjá Lindu: „Þegar ég var fimmtán ára fór ég á tungumálanámskeið á frönsku Rivierunni. Þar hitt ég ítalskan þjón … [ég] kiknaði í hnjánum og fór að skjálfa, hann var það fallegasta sem ég hafði nokkurn tíma séð. Hann var með svart hár, græn augu og snjóhvíta húð …“ Hrifningunni lauk með fúsum tveggja mínútna samförum og degi síðar með „nístandi kulda“ af reiðfélagans hálfu.

Að þessu sögðu gæti verið fróðlegt að skoða skilgreiningar greinarhöfunda á kvenfrelsun, femínisma: „Fordómar gegn femínisma eru fáfræði og skeytingarleysi gagnvart því ástandi sem ungar stelpur búa við.“ (Þýðendur) Femínismi er; „Lífsstíll“ (Bríet); „að vera meðvituð um að við búum í karllægu samfélagi og að hafa vilja til að gera eitthvað í því“ (Linda Johansson); „Rock and roll all night and party very day“ (Jonna Bergh); „Farmiði fram og til baka umhverfis jörðina sem maður getur notað eins oft og maður vill“ (Belinda Olsson); „Baráttan fyrir jafnvægi í samfélagi sem stjórnað er af körlum. Og alger nauðsyn.“ (Rebecca Facey); „Hugrekki“ (Sisela Lindblom); „Öll fundarlaunin og hálft konungsríkið“ (Pernilla Glaser); „Eitt: Réttur allra til eigin tilveru og löngun til að þurrka út línurnar sem afmarka hið „kvenlega“ og „karllega.“ Tvö: Að sjá samkynhneigð sem eitthvað mannlegt þrátt fyrir viðtekin gildi samfélagsins. Að vilja brjóta upp samfélagsnormin og sjá samkynhneigð blandast mannlegri getu og margbreytileika.“ (Jenny Svendberg)

Guðrún Margrét Guðmundsdóttir: „Ég hef ekki alltaf verið femínisti. Þvert á móti, því frá 16 til 25 ára aldurs var ég undirgefin eiginkona af svæsnum toga eða þar til ég gafst upp á eiginmanni mínum.“ Það var Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, mannfræðingur og kvenfrelsari, sem hristi hana úr undirgefninni: „ Hún sagði okkur að samkvæmt áætlun Sameinuðu þjóðanna væri minna en 1% af auði jarðar í eigu kvenna.“ Svo beni Sigríður Dúna einnig á, að móðurhlutverkið þyrfti ekki að vera kvenfrelsurum til trafala, „því til dæmis hjá Agta fólkinu á Filippseyjum færu bæði kynin út að veiða sér til matar og þegar kona væri ófrísk veiddi hún fram á síðustu stundu, tæki sér svo nokkurra vikna frí og að því loknu skyldi hún svo barnið eftir hjá eldri börnum eða foreldrum og héldi áfram [að veiða].“

Guðrún Margrét valdi að ala dætur sínar upp að mestu einsömul og lagði sig fram upp að vekja þær til vitundar um feðraveldið og hættur þess, þ.e. „femínískt barnauppeldi.“ Ein af aðferðunum var að meta hlutfall karlkyns og kvenkyns bílstjóra, þegar mæðgurnar fóru í bíltúr. Ég er sannfærð um „að vænn skammtur af femínisma í uppeldi dætra minna muni skila sér í stolti þeirra af kynferði sínu og meira sjálfsöryggi bæði sem konur og meðlimir í heimsþorpinu.“

Og ugglaust mun þetta rit líka skila miklu, jafnvel koma hinu langþráða gyðjuveldi á koppinn. Ritstýrur munu vafalaust sannspáar: „Píkutorfan á eftir að yfirtaka heiminn.“ Sandra von Plato hnykkir: „Það verður unaðslegt.“


Tengslaofbeldi kvenna Sænskar rannsóknir

Árið 2011 skrifaði Elin Arvidsson ritgerð í félagsráðgjöf við Miðháskólann (Mittuniversitetet) í Sundsvald. Titill ritgerðarinnar er: „Fórnarlamb á forsendum samfélagsins: Eigindleg tilviksrannsókn um ofbeldi kvenna gegn körlum í nánum samböndum og viðbrögð samfélagsins við þessum flókna vanda“ (Offer på samhällets villkor: En kvalitativ fallstudie om kvinnors våld mot män í näre relationer och samhällets bemötande av denna komplexa problematik.

Aðferðin fólst sem sé í viðtali við einn karlmann, sem orðið hafði fyrir ofbeldi eiginkonunnar. Elín segir: „

Rannsóknin beinir athygli að og vekur spurningu um, að hve miklu leyti kynhlutverk skipti máli með tilliti til aðgerða og samfélagslegra úrræða fyrir þá karlmenn, sem berskjaldaðir eru fyrir ofbeldi. Ofbeldi kvenna í nánum tengslum er samfélagslegur vandi, sem sjaldan ber á góma í fjölmiðlum og vísindalegri umræðu. Það leiðir til, að vandinn fellur í gleymsku og dá, ásamt nauðsynlegum samfélagsúrræðum.“

Árið 2012 skrifuðu þær Madeleine Högsander og Sanna Sandin kandidatsritgerð í félagsráðgjöf við Háskólann (Högskola) í Gävle. Titill ritgerðarinnar er, ”Hún réði því, hvort ég dró lífsandann eða ekki. Reynsla karla af ofbeldi kvenna í nánum tengslum (”Det var hon som bestämde om jag skulle andas eller inte.” Mäns erfarenheter av kvinnors våld i nära relationer).

Stöllurnar áttu viðtöl við fjóra karla, sem buðu sig fram í kjölfar eftirgrennslanar á karlaathvörfum (mansjour) í Mið og Norður Svíþjóð. Þeir voru allir yfir tvítugu. Þær segja:

”Niðurstöður rannsóknarinnar drógu fram í dagsljósið angist, sjálfmeiðandi hugsanir, hræðslu, skömm og sektarkennd hjá þátttakendum. Sektarkenndin tengdist sjálfsskilningi þeirra og atlögum gegn honum. [Sektarkenndin] ]átti rætur í þeirri reynslu að vera fórnarlamb kvenkyns árásarmanns. Karlarnir urðu þess einnig varir, að samfélagið hvorki gæti, né kærði sig um að liðsinna þeim. Niðurstöðurnar benda til, að karlar, sem verða fyrir ofbeldi af hálfu [kvenkyns] lífsförunautar, kynnu að búa við andlegar kaunir. [Enn fremur] kynnu viðhorf til „karlmennsku“ að stuðla að andlegri vanheilsu. [Jafnframt] þyrftu valdhafar að koma betur til móts við hlutaðeigandi karla.“

Sama ár skrifaði Linda Dackemo lokaritgerð í sálfræði við Tækniháskólann í Luleå. Titill ritgerðar hennar er: „Ofbeldi kvenna gegn körlum. Hvernig berskjölduðum körlum, fórnarlömbum ofbeldis náinna kvenna, líður í Svíþjóð“ (Kvinnors våld mot män. Hur män utsatte för intimt partnervåld av kvinnor har det í dagens Sverige).

Aðferðin er eigindleg, viðtöl við tólf karla, sem berskjaldaðir voru fyrir ofbeldi [kven]lífsförunautar. Linda segir m.a.:

„Þegar fjallað er um ofbeldi karla gegn konum í Svíþjóð er oft og tíðum bent á, að orsökina megi finna í misrétti kynjanna (bristande jämställdhet). Þrátt fyrir umræðu um jafnrétti ber ofbeldi kvenna gegn körlum ekki á góma. …

Niðurstöður sýna, að umræddir karlar höfðu mátt þola andlegt, líkamlegt og jafnvel kynferðislegt ofbeldi í nokkrum tilvikum. Þegar þeir bára sig illa undan ofbeldinu við valdhafa voru þeir gerðir að athlægi, lítilsvirtir (nonchalarade) og ekki teknir góðir og gildir.“

https://www.aftonbladet.se/relationer/a/KvWpJE/misshandlad--och-hanad


Kynjafræðsla í skólum. Námsefni

Bandaríki Norður-Ameríku eru forustusauðir samfélagsþróunar á Vesturlöndum. Það á einnig við um skóla og menntun. Í námsgreininni, kynjafræði, er kennt, að kyn séu í raun ekki til, hugarfóstur. Því skuli hver og einn skilgreina og endurskilgreina eigin kynskilning.

Foreldrar eru greinilega ekki einhuga um ágæti þessarar fræðslu. Hér er frétt um efnið. Móðir gerir uppreisn á fundi skólanefndar og les m.a. úr því lesefni, sem skólabörnum er ætlaður. Nefndin reyndi að þagga niður í henni. Samkvæmt fréttinni tísti einn nefndarmanna, Karl Frisch, svohljóðandi:

„Svo það sé alveg á hreinu; ekkert mun trufla trúfestu skólanefndar gagnvart lesbíum, hommum, tvíkynungum, kynskiptingum, hvorugkynungum (hinsegin), millikynungum og kynleysum [LGBTQIA – lesbian, gay, bisexual, transgender, queer, intersex, asexual], svo og nemendum, fjölskyldum og starfsliði. Ekkert!“

Bækurnar fjalla um kynlíf fullorðinna karla og drengja, alls konar kynferði eða kynleysur, allra handa kynlif að öðru leyti, t.d.: um kyn- og kynþáttarörvæntingu drengs, sem enn hefur ekki uppgötvað, að hann sé samkynhneigður; um hugarvíl stúlku, þegar rennur upp fyrir henni, að hún sé tveggja-anda persóna í kjölfar umræðu við vinkonurnar, sem upplýsa hana um, að hin fornu „kynrit“ útiloki „hið góða líf;“ um uppgötvun þeldökkrar telpu á kynferði sínu, kúgun kvenna og blakkskinna; um valdeflingu unglingsstúlku í anda töfraraunhyggju, en með hana að vopni brýtur mærin til mergjar sameiginlega þætti kynþáttafordóma, kynárása og kynslóðaáfalla, og svellur móður að greiningu lokinni; um blökkustúlku, sem yfirgefur vinahóp hvítra stúlkna, leitar á náðir litsystra sinna og kemst þá að því, hvernig mismunun svertingja, örýgi eða örárásir (microaggression) og meðvirkni sjálfrar hennar, móta tengslin heima við og í skólanum.

Þessum kennslubókum er mælt með af deild í „Samtökum norður-amerískra bókasafna“ (American Library Association), sem nefnd er „Bókasafnsþjónustu fyrir yngri fullorðna,“ (Young Adult Library Services – YALSA). Samkvæmt sama miðli hefur þessi þjónustudeild talsverð áhrif á, hvers konar bækur skólabókasöfnin kaupa inn. Þar sé lögð áhersla á, að mæla með róttækum bókum (far-left political influence), sem áhrif hafa á móttækilega, unga huga.

Það er ekki síður athyglivert, að þjónustudeildin mælir með bókum, sem innihalda kynferðislegar og hugmyndafræðilegar öfgar – nú einnig myndablöð um efnið. Eitt slíkra rita, sem um ræðir fyrir aldurshópinn 12 til 18 ára, er „Hinseginkynið (hvorugkynið). Minningar“ (Gender Queer: A Memoir), eftir Maia Kobabe (f. 1991). Kynskilningur „þess“ er á þá leið, að „það“ sé hinsegin, kynlaus og margskauta (nonbinary).

Íbúar í landi hinna frjálsu bregða upp framtíðarspegli Íslendinga. „Spegill, spegill, herm þú mér….“

https://www.dailywire.com/news/watch-mom-reads-graphic-gay-porn-found-in-school-library-to-school-board?utm_source=facebook&utm_medium=social&utm_campaign=benshapiro&fbclid=IwAR2uFF1RFb0wwgfxVEQ_8KFek7fmZAy9cVCF7S4BugsQd3qn0c4iR8nUnsc


Kerlingin með kúgarann í kjallaranum

Þar heitir á Hálogalandi. Fyrir nokkrum árum féll í því „landi“ dómur, sem þótti eftirtektarverður. Réttað var í máli látins karls, fjölskylduföður frá Búðarey (Bodö), sem er höfuðstaður Norðurlandsfylkis í Noregi. Þar um slóðir virðast skjaldmeyjar enn lifa góðu lífi.

Norska kvöldpóstinum (Aftenposten) segist svo frá: „Héraðsdómstóli í Hálogalandi þótti á það færðar sönnur, að eiginkarlinn hefði árum saman orðið fyrir líkamlegu ofbeldi, ógnandi hátterni og andlegri misnotkun. Ár á ár ofan var karl rekinn niður í kjallarastofu. Þar hafði hann ekki aðgang að baði, salerni og eldhúsi.“

Skjaldmær þessi á áttræðisaldri, eiginkona karls og móðir þriggja barna þeirra – og amma – var vissulega hörð í horn að taka. Jafnaðarlega fékk hún fólskuköst. Þegar svo bar undir rústaði hún húsinu og réðist að karli sínum.

Dóttirin segir, að móðir hennar hafi pyntað þau í fjóra áratugi. Hún varð m.a. vitni að því, þegar móðir hennar skar föðurinn í handlegginn með hnífi. Meðan blóðið fossaði hótaði kerla að stúta karli. Hún gekk berserksgang froðufellandi og barði hann með hverju því, sem hönd á festi. Slíkar uppákomur voru venjulegar.

Í bílskúrnum geymdi hann mat og hafði með sér lyfin sín, hvert sem leið hans lá. Að öðrum kosti hefði hún getað neitað honum um lyfin, en líf hans lá við. Það hafði hún reyndar gert. Persónulegan póst lét hann senda á annað póstfang.

Einu sinni datt karli í hug að vera viðstaddur fermingu barnabarnsins. En kerling greip þá til þess ráðs að mála yfir glugga bifreiðarinnar, svo karl komst hvergi.

Hin ákærða neitaði öllum sakargiftum, sagði karl sinn hafa borið lygar í börnin, sem öll vitnuðu gegn henni. Dóttirin segir móður sína hafa fengið makleg málagjöld; þriggja ára fangelsisvist. Hæstiréttur hafnaði áfrýjun málsins.

Því má svo við bæta, að tveim árum, áður en til réttarhalda kom, hafði frúin snúið sér til lögreglu með beiðni um, að karlinn yrði fjarlægður af heimilinu.

https://www.nrk.no/nordland/_-mishandlet-ektemannen-i-40-ar-1.8138189


Ljósagöngur og lygar kolsvartar um kynofbeldi

Það er líklega alkunna, að Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) hafa helgað 25. nóvember á ári hverju baráttu gegn kynbundnu ofbeldi, þ.e. kynofbeldi karla gegn konum. Um er að ræða upphafsdag sextán daga baráttulotu. Í nafni „jafnréttis“ gefur að skilja, að SÞ þyki ekki bera nauðsyn til að berjast með viðlíka hætti gegn ofbeldi í garð karla.

SÞ reka reyndar sérstaka áróðursstofnun, „Kvenfrelsunarstofunun SÞ“ (UN Women), með landsdeildir á víð og dreif um heiminn. „Karlfrelsunarstofnun“ innan vébanda þeirra hefur enn ekki séð dagsins ljós.

Stella Samúelsdóttir er forstýra Íslandsdeildar SÞ. Hún tjáir sig jafnaðarlega um nauðsyn þess að trúa konum, sem kveðast hafa orðið fyrir kynofbeldi. Slíkir sakaráberar eru kallaðir þolendur. Hún segir: „Við verðum að hætta að rengja trúverðugleika þolenda ...“

Fleiri stofnanir SÞ láta iðulega til sín taka í þessu efni, m.a. „Upplýsingamiðstöð“ þess (United Nations Information Centre – UNIC). Áður en til lokunar kom árið 2015, beitti Upplýsingamiðstöð Evrópusambandsins sér einnig fyrir málefninu. Hugmyndafræðin um almenna kúgun og ofbeldi karla í garð kvenna endurspeglast líka í alþjóðlegum samningum, sem leiddir hafa verið lög á Alþingi Íslendinga.

Umrædd barátta á sem sé víðtæka skírskotun og er háð á mörgum vígstöðvum. T.d. svaraði forstýra Hörpu, Svanhildur Konráðsdóttir, ákalli Stellu: „Harpa verður lýst upp í appelsínugulum lit, sem er táknrænn litur fyrir von og bjarta framtíð kvenna og stúlkna án ofbeldis.“ Utanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins, Guðlaugur Þór Þórðarson, lék aðra fiðlu. Utanríkisráðuneytið geislaði glóaldingulu ljósi þennan merka baráttudag til að minna þjóðina á kynofbeldishneigð karla.

Árið 2019 flutti fyrrum forstýra Kvennaathvarfs og núverandi forsæta ASÍ, Drífa Snædal, barátturæðuna í ljósagöngu Kvenfrelsunarstofnunar SÞ. Hún sagði m.a.:

„Ég hef alltaf dáðst að því hvað konur eru friðelskandi. Þrátt fyrir aldalangt misrétti og skipulagða kúgun hafa konur ekki gripið til vopna. …

[L]aun kvenna [eru] kerfisbundið lægri en karla, kynbundið ofbeldi er staðreynd og konur ná síður framgangi en karlar. Hið dulda kerfi sem er svo óskaplega erfitt að vinna á köllum við feðraveldi. ...

Feðraveldið birtist í sinni tærustu mynd þegar stjórnmálamenn hampa jafnréttisparadísinni Íslandi á sama tíma og þeir tala um konur eins og nytjahluti og meta þær eftir útliti. Feðraveldið birtist líka þegar minnt er á það að karlar hjálpa körlum að arðræna og svíkja þjóðir úti í heimi …

Og feðraveldið birtist þegar minnt er á kynbundið ofbeldi en það verður alltaf að taka fram hið sjálfsagða að ekki allir karlar nauðga. Allir eru fylgjandi jafnrétti í orði en við verðum öll vör við andstöðuna í hinu smáa. Kynjamisrétti er þannig hversdagslegt og svo algengt að ýmsir eiga erfitt með að greina það. …

Þegar það er ekki lengur í lagi að vera karlremba opinberlega þá er það gert í lokaðri hópum á börum.“ Og það eru fleiri samtök sem hasla sér völl á vígstöðvunum kynofbeldis. Bandalag starfsmanna ríkis og bæja (BSRB), undir forystu Sonju Ýrar Þorbergsdóttur, lögfræðings (sem tók við af Elínu Björku Jónsdóttur), sendi á frá sér eftirfarandi tilkynningu:

„BSRB hvetur sem flesta til að taka þátt í ljósgöngunni og styðja átak gegn kynbundu ofbeldi á vinnustöðum.“

Fyrrnefnd forsæta ASÍ hefur áður staðhæft: "Það er alveg horft fram hjá því að 95% þeirra sem beita heimilisofbeldi eru karlar og 95% sem verða fyrir því eru konur." Enn hefur Drífa ekki orðið við þeirri áskorun Þorsteins Sæmundssonar að birta heimildir fyrir slíkri staðhæfingu. Enda eru engar slíkar heimildir til. Staðhæfingin lýsir hugarfari Drífu og kvenfrelsunarhugmyndafræði hennar. Alvöru rannsóknir hafa í áratugi leitt í ljós tiltölulegt „jafnrétti“ kynjanna við barsmíðar á hvoru öðru í nánum samböndum.

Þrátt fyrir blekkingu Drífu og sálufélaga hennar um friðelskandi konur, virðast kynsysturnar leita ýmissa leiða til að klekkja á körlum. Dálætisvopnið um áratugi og aldir er ásökun um kynofbeldi. Þjóðin hefur þráfaldlega orðið vitni að því síðustu árin. En það gæti farið að renna upp fyrir skynsömu fólki, að slíkar sakargiftir sýni oft og tíðum dæmigerðan vopnaburð kvenna í heilagri baráttu þeirra gegn karlillskunni. Drífu verður skiljanlega ekki tíðrætt um hann, enda blinduð af aðdáun sinni á friðareðli kynsystra sinna.

Peter Joyce tæki vafalítið treglega undir orð Drífu. Hann er kennari að mennt, eftirlaunaþegi frá Nýja-Sjálandi. Peter hefur eins og margir aðrir karlmenn þurft að sitja undir fölskum ákærum um kynofbeldi og neyðst til að verja sig gegn feðraveldislöggæslunni. Dóttir vinar hans, tæplega fertug, lagði fram kæru um nauðgun. Hún kærði einnig föður sinn fyrir endurteknar nauðganir. Hann hafði, að sögn dótturinnar, fengið vini í lið með sér til að svívirða hana. Peter var sem sé einn þeirra, enda þótt þau hefðu aldrei sést. Þetta er þekkt tilbrigði við grundvallarstefið.

Peter hefur skrifað bók um reynslu sína, „Þurraís. Sönn frásögn um falska nauðgunarákæru“ (Dry Ice. The True Story of a False Rape Complaint). Hana má fá sem rafbók (Kindle). Peter heldur einnig úti heimasíðu: blackstonesdrum.com. Auk þess hefur hann skrifað blogg um martröðina á „thedailyblog.co.nz. Neðanmáls má finna krækju á spjall við Bettina Arndt.

Í Nýja-Sjálandi eru einnig „Drífur og Katrínar.“ Þjáningasystur þeirra setja – eins og víða á Vesturlöndum – fram kröfur um fleiri kynofbeldisdómsmál gegn körlum, fleiri sakfellingar og þyngri dóma. Stöðugt er sótt að löggjafanum um útþynningu skilgreininga á kynbundu ofbeldi og afléttingu sönnunarfærslu við sakaráburð, þ.e. koma skal til móts við kröfur kvenfrelsunarhreyfinganna um að trúa „þolendum.“ Sú trú skal duga til sakfellingar.

Á grundvelli reynslu sinnar segir Peter m.a. um frumvarp (Sexual violence bill) þess efnis, sem nú bíður afgreiðslu á ný-sjálenska þinginu: „Regluna um sakleysi uns sekt sé sönnuð hefur rýrð þegar verið varpað á. Þegar dæmt er í kynafbrotamálum er einungis um þvælt kjörorð að ræða. Og verði fyrirliggjandi frumvarp samþykkt verður á hærri bratta að sækja fyrir saklausa karla, sem sæta ákæru [fyrir kynofbeldi]. Ég tala af skelfilegri reynslu sem saklaus sökunautur. Mér var ekki varpað í fangelsi, en svo hefði hæglega getað orðið eins og á við um ókunnan fjölda saklausra karla.“

Peter heldur áfram: „Falskar sakargiftir eru algengar, en þeim er lítill gaumur gefinn …“ Jafnvel þegar færðar eru sönnur á „óheiðarleika sakarábera er fátítt að þeir séu sóttir til saka vegna „opinberra hagsmuna“ (public interest). … [M]ál eins og mitt eru ekki flokkuð sem falskar ákærur, heldur eru þau sett á ís sem „opnar“ ásakanir um kynofbeldi. Það er kaldhæðnislegt, að farið sé með þær sem „sannar“ væru í staðtöluyfirlitinu (tölfræðinni). Það veldur bólgu í þeim misvísandi „gögnum,“ [sem sýna lágt] hlutfall sakfellinga í [kynafbrota]málum og flytjendur frumvarpsins beita fyrir sig.“

„Það er eingöngu fólk, sem hefur blinda tiltrú á lögreglu og réttarkerfi, sem ekki elur á ótta við ásakanir um kynofbeldi, sem kunna að koma eins og þruma úr heiðskíru lofti. Það er of einfalt til að bera skynbragð á þann einskæra hrylling, sem gæti verið handan við hornið. Svo ógeðfelldum furðum mun fjölga, verði frumvarpið samþykkt. [Sömuleiðis] verða fleiri saklausnir karlar ákærðir.“

Ros Burnett, afbrotafræðingur við Oxford háskólann, höfundur bókarinnar: „Rangar ásakanir um kynofbeldi og misnotkun barna“ (Wrongful Allegations of Sexual and Child Abuse), segir í umsögn um bók Peter:

„Við rannsóknir mínar á áhrifum rangra ásakanna hafa mér ósjaldan flogið í hug upphafsorðin í skáldsögu [tékkneska, þýskumælandi skáldsins, Franz] Kafka [1883-1924], „Réttarhaldinu“ [Der Process]. Þau lýsa því skelfilega, en fáránlega andartaki, þegar maður er tekinn höndum, án þess að þekkja ástæðuna. Frásögn Peter Joyce er nýlegt bergmál [slíkrar reynslu], þegar hann, skekinn eftir heimsókn lögreglunnar, minnist laglína í bragi The Doors: „Við lifum torkennilega daga, undarlegir dagar hafa elt okkur uppi. Þeir munu tortíma græskulausri gleði okkar.“

Hún segir enn fremur: „Peter Joyce lýsir á skýran, ljóslifandi, einlægan og aðdáunarverðan hátt hugsunum, sem svo margir aðrir, sem að ósekju hafa verið ásakaðir um hryllilega glæpi, líkast til hafa hugsað.“

Í grein sinni um efnið, birt á heimasíðu stuðningssamtaka fyrir fórnarlömb tilhæfulausra ásakanna um misnotkun, FACT (supporting victims of unfounded allegations), segir Ros: „Almennt er það svo, að oft og tíðum eru engin áþreifanleg ummerki því til sönnunar, að glæpur hafi verið framinn. Framburður sakarábera er vitnisburðurinn. Og því er treyst, að hann sé góður og gildur, þegar ekki er um andstæðan vitnisburð að ræða. Eins og í öðrum lögsagnarumdæmum (að Skotlandi undanskildu) í Englandi og Wales eru ekki gerðar kröfur til yfirlýsts sökunautar um vitnisburð til stuðnings ásökun. [Hún dugar ein og sér] til málssóknar af hálfu saksóknara og til sakfellingar kviðdóms.“ (Eftir því sem ég best veit, hafa lög um skoska réttarkerfið nú verið færðar til svipaðs horfs.)

Íslenskir kvenfrelsarar með Katrínu Jakobsdóttur í broddi fylkingar berjast fyrir ofangreindum breytingum á íslenska réttarkerfinu. Katrín kallar það umbætur.

https://www.bettinaarndt.com.au/video/surviving-a-false-historical-rape-allegation/


Börnin tapa í jafnréttis- og kynjastríðinu.

Því miður virðist stríðið fyrir eiginlegu jafnrétti tapað. Leiðtogar allra flokka eru með kynjafræðakveisu. Það er í senn bæði nöturlegt og sorglegt að sjá bjálfaþægðina og þörfina fyrir athygli og viðurkenningu. Hugsanlega vita þeir ekki, hvað kynjafræði er, en hún er kennd við háskóla á Vesturlöndum og heitir þar "woman studies" eða "gender studies." Þeir hafa hugsanlega ekki áttað sig á því, að þeir hafi þegar lögfest eina grundvallarkennisetningu kynjafræðanna, þ.e. að konur séu fórnarlömb karla. Reyndar er langt síðan, að þeir samþykktu þvíumlíka kennslu í skólum landsins. Ætli þeir hafi ámóta gullfiskaminni og kjósendur?

Það kemur varla á óvart að Kynjafræða-Katrín vilji slík fræði inn í skólana. Hún hefur barist fyrir því með oddi og eggju, að svo verði. Hún lét semja kynjafræðibiblíu handa börnum, "Kynungabók." Lilja Alfreðsdóttir lét semja uppfært álit eða bók, "Sólborgarbók," í sama anda. Þar eru karl- og kvenkyn meira að segja upprætt. Ríkisstjórnin hefur þegar styrkt alþýðufræðslu um karlmennsku (Þorsteinn Einarsson), grundvallaða á kynjafræðihugtakinu um "eitraða karlmennsku." Hún hefur líka puðrað peningum í ofbeldisiðnaðinn, sem grundvallaður er á sama kynjafræðahugtakinu.

VG fól tveim kvenfrelsurum, heilbrigðisráðherra sínum, Svandísi Svarvarsdóttur, og Uglu Stefaníu Kristjönudóttur Jónsdóttur, kynjafræðingi og einni af valdamestu konum veraldar, að semja frumvarp til laga um "Kynrænt sjálfræði." Þar segir t.d. að börnum skuli úthlutað kyni eins og um kvóta væri að ræða. Þessi lög sömdu Alþingismenn nær athugasemdalaust. Þeir eru kynjafræðingar inni við beinið.

Ætli nýir þingmenn sjái að sér? Varla þó Sigmar Guðmundsson, sem breytt hefur um leikhús. Hann hefur yfirgefið RÚV. Í viðtalsþætti sínum undraðist hann, að fólk væri að agnúast út í "femínisma." Því "femínisti" bæri jú barasta jafnréttisbarátta. Hvílíkt og átakanlegt þekkingarleysi. Þetta fólk minnir mig á rekstur bjöllusauða úr haga.

Það er skelfingarhugsun, að íslensk börn eigi framtíð sína í lífi og skóla undir þeim. Ætli námsefni Kynungabókar eða það námsefni, sem samið verður af kvennahernum í uppeldis- og kennslugeiranum í anda Sólborgarhópsins, stuðli að því, að drengir verði þægari í skóla, læri að lesa, verði hreyknir af kyni sínu og beini meðfæddri samkeppnisþörf til sköpunar þekkingar og lista?

Eða ætli það fari svo, að blásið verði nýju lífi í tilhneigingar til að leggja árar í bát, gefa skít í skóla, kennara, menntun og atvinnu? Ætli uppivöðslusemi og afbrotavilji vaxi, þrátt fyrir hækkandi skammta af róandi lyfjum og fleiri sálfræðinga? Ætli enn fleiri grípi til þess ráðs til að deyfa vansæld sína með aukinni neyslu fíkniefna og sjálfsvígi?

Við erum nær daglega vitni að þjáningafullum glundroða og hugarvíli ungs fólks um skilning á eign kynferði. Það tengist m.a. upplausn fjölskyldunnar og oft brengluðum tengslum við foreldra. Stöðugt fjölgar "móðurheimilium," þ.e. feður eru utangarðs, ótengdir eða laustengdir afkvæmum sínum. Þörf þeirra fyrir hið karllega er ekki fullnægt. Karlmennsku sjá þau oft í blekkjandi spéspegli fjölmiðla, kvenkennara og mæðra sinna, sem segja þeim eða gefa í skyn, að karlar séu óalandi og óferjandi misyndismenn - sérstaklega í öllu því, sem að kynferði og kynlífi lýtur. Það er kynjafræði.

Fyrir örfáum áratugum síðan voru drengir í meirihluta þeirra, sem vildu skipta um kyn, gerast konur. Nú fjölgar ógnvænlega stúlkum, sem vilja slá á tilvistar- og kynótta sinn með því að skipta um kyn. Það er angistarfull tilraun til að bæta sér upp missi hins karllega. Ungt fólk er beinlínis hvatt til kynskipta. Það er kynjafræði.

Umtalsverður fjöldi barna nýtur ekki samvista við feður sína, eftir skilnað. Langoftast er það þannig - jafnvel, þótt um sameiginlega forsjá sé að ræða - að embættismenn og dómarar kveði svo á um, að börn skuli hafa heimilisfesti hjá mæðrum sínum. Það er kynjafræði.

Kvenfrelsunardómstólum götunnar og samfélagsmiðla vex stöðugt fiskur um hrygg. Fjöldi karlmanna er þar "tekinn af lífi." Það er kynjafræði.

Katrín kvenfrelsari og þjáningasystur hennar (og nokkrir þjáningabræður) vinna að því eins og iðnir maurar að sveigja löggjöf, löggæslu og stjórnsýslu, að kvenfrelsunarviðhorfum sínum, grundvallaða á hugtakinu um eitraða karlmennsku. Í svokölluðum "Jafnréttislögum" er kynfólska af karla hálfu sérstaklega tiltekin, kölluð "kynbundið ofbeldi." Kynjafræðingar klifa stöðugt á "kynbundu ofbeldi." Það er vissulega kynjafræði.

https://www.visir.is/g/20212161040d/allir-flokkarnir-vilja-kynjafraedi-kennda-i-skolum


Kvennaathvarf í krumlum kvenfrelsaranna. Chiswick-athvarfið fimmtíu ára. Erin Pizzey Hálfrar aldar lygar um heimilisofbeldi

Fyrir nákvæmlega hálfri öld síðan opnaði Erin Pizzey (f. 1939) í Lundúnum, „Chiswick terrance,“ athvarf fyrir konur, sem orðið höfðu fyrir ofbeldi af hálfu maka. Athvarfið var rekið af hugsjón, af vanefnum. Erin þekkti ofbeldi af eigin raun. Móðir hennar var ofbeldismaður. Því kom henni ekki á óvart, að fjöldi þeirra kvenna, sem barðar voru af körlum sínum, væru sjálfar ofbeldismenn, þ.e. beittu líkamlegu ofbeldi.

Samtök kvenfrelsara sáu sér leik á borði til að færa sér í nyt þörf karla til að koma bágstöddum konum til hjálpar og bylgjuna til frelsunar kvenna, sem þá var að komast í algleyming. Þarna var aura von. Það skipti engum togum. Samtökin lögðu undir sig athvörf Eirin, sem þá voru orðin nokkur að tölu. Kenningum þeirra samkvæmt var ofbeldi kvenna „úthýst,“ þaggað niður. Samtökin höfðu eignast mjólkurkú. Nytin er afbragð.

Við þekkjum framhaldið. Ofbeldi karla gegn konum varð að síþulu, eins konar möntru, sem brenglaði skynsemi almennings, fag- og stjórnmálamanna, sem kepptust við að klappa kvenfrelsunarhreyfingunum lof í lófa og ausa í þær fjármagni. Stofnun kvennaathvarfs var meira að segja beitt sem atvinnuskapandi úrræði ríkisstjórnar VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar á síðasta Herrans ári. Ríkisstjórninni þótti þó ekki ástæða til að styðja við stofnun karlaathvarfs.

Erin Pizzey var bolað út í horn, varð hornreka. Síðar neyddist hún til að flýja land sökum ofsókna kvenfrelsaranna. Hún var þó ekki alveg af baki dottin. Í útlegðinni hélt hún áfram að fræða um hina sönnu ásjónu heimilisofbeldis. Hún lifir nú í hárri elli og fátækt í Lundúnum.

Um áratugi hafa alvörurannsóknir (kvenfrelsunarrannsóknir frátaldar) sýnt svipaða mynd af ofbeldi á heimilum og Erin reyndi að bregða birtu á. En kvenfrelsarar og stjórnmálamenn almennt skella skollaeyrum við þeirri þekkingu. Líka á Íslandi. T.d. hefur Katrín forsætisráðherra stundum látið hafa eftir sér, að í þjóðmálum skuli taka tillit til vísindalegra rannsókna. En það gerir hún og hennar sálufélagar bara, þegar þeim hentar.

Í þeirri kosningaumræðu, sem nú stendur yfir, ber málefnið ekki á góma, nema að sjálfsögðu hjá Katrínu, sem lætur ekki deigan síga við að kynna meinlokur sínar um kynbundið ofbeldi, kynbundna áreitni og kynferðislega áreitni og svo framvegis. En vel gæti verið, að fólk annars staðar en á Íslandi sé að vakna til vitundar.

Í Bandaríkjum Norður-Ameríku hefur verið stofnað „Bandalag til höfuðs heimilisofbeldi,“ (Coalition to End Domestic Violence). Bandlagið sendi frá sér sérstaka skýrslu nýverið, „Hálfsannleik, falsanir og lygar um heimilisofbeldi í þrjátíu ár“ (Thirty-Years of Domestic Violence Half-Truths, Falsehoods, and Lies). (Sjá: endtodv.org.) Þar er m.a. fjallað um nýjustu fjáröflunarherferðina, sem RÚV þreytist seint á að auglýsa, þ.e. aukið ofbeldi karla gegn konum í kófinu.

Í Ástralíu standa vonir til, nú þegar „Þjóðarátak til að andæfa ofbeldi gegn konum og börnum þeirra“ (National Plan to Reduce Violence against Women and their Children) rennur sitt skeið á enda innan skamms, að unnt verði að spyrna gegn kvenfrelsunarofbeldishugmyndafræðinni í framhaldinu. Þetta mikla átak – að mestu fjárveitingar til kvenfrelsunarstofnanna – mun kosta þrjá milljarða dala.

En þrátt fyrir, að gælt sé við slíkar hugmyndir í skýrslum frá ástralska þinginu, er við ramman reip að draga. Kvenfrelsarar vilja nauðugir missa spón úr aski sínum. Velta jafnréttis- og ofbeldisiðnaðarins er gífurleg og völd þeirra, bein og óbein, eru blátt áfram ógnvænleg, hvor heldur er á heimavelli eða alþjóðlegum vettvangi.

Ein umræddra stofnana í þvísa landi, er „Þjóðarrannsóknarstofnunin til rannsókna á öryggi kvenna“ (National Research Organisation for Women‘s Safety). Hún mun vafalítið hanga á skattpeningum eins og hundur á roði.

Pistillinn er saminn við innblástur frá Bettina Arndt. Sjá nýjasta fréttabréf hennar, „Hálfrar aldar lygar um heimilisofbeldi. Aurakú kvenfrelsaranna afhjúpuð“ (Fifty years of lies about domestic violence. Exposing the feminist‘ cash cow).

https://bettinaarndt.substack.com/p/fifty-years-of-lies-about-domestic?token=eyJ1c2VyX2lkIjo0Njk0NzAxNCwicG9zdF9pZCI6NDE2Mjk5ODAsIl8iOiJvVEw4TCIsImlhdCI6MTYzMjQxNzQ0NSwiZXhwIjoxNjMyNDIxMDQ1LCJpc3MiOiJwdWItNDQ4MjYzIiwic3ViIjoicG9zdC1yZWFjdGlvbiJ9.CM2ROfbJRu0rQy9w7ojkdCIUSCMhGY7J7aa0K0CYrT4


Kynungabók Katrínar. Kvenfrelsunarbiblía handa börnum

Katrín Jakobsdóttir var mennta- og menningarmálaráðherra í stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur árin 2009 til 2013. Hún beitti sér fyrir samningu „Kynungabókar: Upplýsingarits fyrir ungt fólk um jafnrétti kynja,“ sem kom út árið 2010.

Ritstjórar verksins eru: Berglind Rós Magnúsdóttir, uppeldisfræðingur; Guðrún Margrét Guðmundsdóttir, mannfræðingur; Jóna Pálsdóttir, menntunarfræðingur; Kristín Ástgeirsdóttir, sagnfræðingur, og Kristín Jóndóttir, sagnfræðingur. Allar eru þær ástríðuþrungnir kvenfrelsarar, kennarar og fyrirmyndir hinna ungu og miðaldra meyja, sem um þessar mundir gera kvenfrelsunargarðinn frægan eins og t.d. félagsskapurinn, „Öfgar.“

Markmið:

„Veita raunsæja mynd af stöðu kynjanna í samfélaginu. Sýna fram á að jafnréttismál varða bæði kynin. Vekja ungt fólk til umhugsunar um áhrif kynferðis á líf þess. Fjalla um mismunandi mótun kynjanna út frá menningu, umhverfi og tíma. Vekja ungt fólk til meðvitundar um réttindi sín.“

Formáli Katrínar:

„Í ár eru liðin 95 ár síðan konur öðluðust kosningarétt og kjörgengi á við karla …“ (Katrín hikar ekki við að hagræða staðreyndum. Árið 1915 öðlaðist nefnilega einnig lunginn úr íslenska karlastofninum kosningarétt.)

Katrín vísar til orða John Stuart Mill (1806-1873), sem margt sagði skynsamlegt, en viðurkenndi, að þegar talið bærist að kvenfrelsun, ætti hann í stökustu vandræðum með að greina eigin hugsanir frá hugsunum ástkonunnar, Harriet Taylor Mill (1807-1858).

„Á 19. öld benti enski heimspekingurinn John Stuart Mill á að: „Tilfinningar vorar til hinnar misjöfnu stöðu karla og kvenna [eru] … rótgrónari en allar aðrar tilfinningar sem geyma og vernda venjur fortíðarinnar. Það er því eigi að furða þótt þær séu öflugastar af öllum og hafi varist best gegn andlegum byltingum sem orðið hafa í mannfélaginu á seinni tímum“.

Þessi orð Mills eiga enn við. Kynungabók er mikilvægt framlag til að efla andlega byltingu gegn rótgrónum tilfinningum fortíðar.“

Hugmyndafræðin:

„Smám saman hefur dregið úr því kynjamisrétti sem viðgengist hafði í aldanna rás. … Talið er að rekja megi núverandi kynjamisrétti til þeirra tíma er eingöngu karlar úr valdastétt höfðu tækifæri til að móta samfélagið en það gerðu þeir út frá hagsmunum sínum. Gildismat þeirra varð undirliggjandi í trúarbrögðum, lögum, reglum, hefðum og siðum, eða í samfélaginu öllu. …

„Hugmyndir um að kynin séu ólík að eðlisfari eru algengar. Þær geta verið varhugaverðar, … Segja má að margs konar orsakir liggi að baki kynjamisrétti en ljóst er að rótgrónar hugmyndir um karlmennsku og kvenleika sem eru innbyggðar í samfélagsgerð okkar eru helsti þröskuldurinn. Þau sem berjast gegn þessum viðtekna hugmyndaheimi og vilja auka fjölbreytni og athafnarými fyrir hvort kyn skilgreina sig gjarnan sem femínista. … Femínisti er kona eða karl sem veit að jafnrétti kynjanna er ekki náð og vill gera eitthvað í því. …

Kynungabók byggir á femínískum hugmyndum og mótunarhyggju sem er andstæða eðlishyggju. Mótunarhyggja hafnar því að ólíkt eðli kynja sé ástæðan fyrir ólíkri hegðun, hlutverki og stöðu kynjanna. Hver einstaklingur fæðist með ólíka skapgerð en ekki er hægt að setja alla einstaklinga sem fæðast af sama kyni undir einn hatt hvað varðar eiginleika og skapgerð. Manneskjan mótast af þeim hugmyndum um karlmennsku og kvenleika sem eru við lýði hverju sinni. …“

Fjölskyldan:

„Frá og með 27. júní 2006 fengu samkynhneigð pör sama lagalega rétt og gagnkynhneigð pör um ættleiðingar og tæknifrjóvganir. …

27. júní 2010 gengu í gildi ný hjúskaparlög. Breytingin felur í sér frelsi einstaklinga til að velja sér maka af sama kyni. …

Skilnaðir og sambúðarslit eru algeng í nútímasamfélagi. Árið 2008 voru 1.309 skilnaðir á Íslandi en á árunum 2001-2005 var meðaltal hjúskaparslita og skilnaða að borði og sæng 1.247 á ári. Sú breyting hefur orðið undanfarin ár að margir foreldrar nýta sér þann möguleika sem var lögfestur 1992, að hafa sameiginlega forsjá barns eða barna þegar þau skilja. Árið 2008 völdu 81% foreldra sameiginlega forsjá. Þó svo að forsjáin sé sameiginleg þarf barnið að eiga lögheimili hjá öðru hvoru foreldranna og þannig eru tölur um einstætt foreldri fundnar út. …

Árið 2009 voru einstæðar mæður mun fleiri en einstæðir feður. Þær voru 11.402 eða 91% en einstæðir feður 1.090 eða 9%. …

Könnun sem gerð var meðal 12-16 ára nemenda vorið 2006 leiddi í ljós að 73% bjuggu hjá báðum foreldrum og 24% áttu tvö heimili. Þar af voru 8% sögðust búa reglulega á báðum stöðum og 4% sem sögðust búa jafnt til skiptis á tveimur heimilum, til dæmis aðra hverja viku á hvoru heimili.“

Skólaganga

„Stjórnvöld á Norðurlöndum voru fyrst til að koma á almennri fræðsluskyldu sem var skipulögð og greidd af hinu opinbera. [Líklega er átt við greiðslu skólagöngu.] Fræðsluskylda í þeim anda varð almenn árið 1907 á Íslandi. Fram að því þótti mörgum „óþarft af kvenfólki og meðalgáfuðum drengjum að læra skrift og reikning“. Bóklegt nám umfram það sem krafist var til fermingarfræðslu taldist óþarfi fyrir almúgadrengi og allar stúlkur en þrátt fyrir það var lestrarkunnátta orðin nokkuð almenn um aldamótin 1900 þótt fáir kynnu að skrifa.

… Fyrir tæpum100 árum fengu konur jafnan rétt og karlar til alls náms, styrkja og opinberra embætta. …

[S]kipting í karla- og kvennagreinar er athyglisverð og vekur upp margar spurningar um félagsmótun kynjanna. Sífellt fleiri konur hafa farið inn á svið karla. Það að sama gildir ekki um karla [hvað svið kvenna varðar]. Fræðimenn hafa leitað skýringa í virðingarmun milli hins kvenlæga og karllæga þar sem hið karllæga er skilgreint sem mikilvægara og verðmætara.“

Vinnumarkaður:

„Tekjur kvenna voru að meðaltali um 66% af tekjum karla árið 2008. Þessi tekjumunur útskýrist að nokkru leyti af því að konur vinna færri vinnustundir í launavinnu en karlar og hefðbundin kvennastörf eru metin til lægri launa en hefðbundin störf karla. …

Þegar talað er um leiðréttan mun er átt við þann mun á launum karla og kvenna sem ekki verður útskýrður með ólíkri menntun, aldri, starfsaldri, starfshlutfalli, starfsstétt, yfirvinnu og … mældist16,3% árið 2008. …

Einn af grundvallarþáttum í lýðræðislegu þjóðfélagi er sá að ákvarðanir, skipulag og lög byggi á og endurspegli jafnt reynslu og þekkingu kvenna og karla. Það eru sjálfsögð mannréttindi að þátttaka kvenna, á sviði stjórnmála og við stjórnun fyrirtækja, sem og annars staðar þar sem ráðum er ráðið, sé til jafns við karla.“

Fjölmiðlar:

„Í rannsókn sem gerð var árið 2005 var kynjahlutfallið í fréttum og í fréttatengdum þáttum Ríkissjónvarpsins og Stöðvar 2 tekið til skoðunar. Í ljós kom að konur birtust á skjánum í tæplega þriðjungi tilfella. Einnig kom í ljós munur á því hversu oft þær voru sýndar og hversu oft var rætt við þær. Þegar um var að ræða bein viðtöl voru konur eingöngu fimmtungur viðmælenda. Kastljósið skar sig þó úr með konur í meirihluta.“

Heilsufar: [B]ilið [á]milli lífaldurs kvenna og karla [hefur] minnkað. Á árunum 1971–1975 lifðu konur að meðaltali 5,9 árum lengur en karlar. Árið 2007 lifðu þær 3,5 árum lengur. Lífslíkur karla hafa aukist um 7,8 ár frá árinu 1971 en lífslíkur kvenna um 5,4 ár á sama tímabili. …

Ýmis skilaboð eru undirliggjandi í menningu karla sem hafa slæm áhrif á heilsu þeirra og skerðir lífslíkur. Meðal þeirra má nefna hugmyndir um dugnað og hreysti, svo og upphafningu á áhættuhegðun og í sumum tilfellum árásarhneigð. Sumir karlar stunda þannig vinnu að henni fylgir álagssjúkdómar og hætta á vinnuslysum. Algengara er að þeir eigi við áfengis- og fíkniefnavanda að etja en konur.

Einnig falla karlar oftar fyrir eigin hendi. Þessir neikvæðu þættir í tilveru karla eru stundum nefndir: gjald karlmennskunnar. Eitt helsta markmið jafnréttisbaráttu sem snýr að körlum er að draga úr þessum fórnarkostnaði. …

Þó að konur á Íslandi lifi að öllu jöfnu lengur en karlar eru vísbendingar um að heilsa þeirra sé að sumu leyti verri en karla. Konur fá frekar ýmsa sjálfsofnæmissjúkdóma, gigt og langvinna sjúkdóma svo sem beinþynningu. Þær nota heilbrigðisþjónustuna í meiri mæli en karlar, eru sendar í fleiri rannsóknir, fá oftar sjúkdómsgreiningu og fá oftar ávísun á lyf. Þessi staðreynd er stundum kölluð hin kynjabundna þversögn í heilsufari. Munurinn fer þó sífellt minnkandi með hækkandi aldri. …

Eftirsóknarvert markmið í uppeldi ungs fólks er að draga úr árásarhegðun sem er meiri hjá körlum en konum. Langflestir þeirra sem gerast sekir um minniháttar líkamsárás eru 20 til 24 ára. Þegar þessi hópur er skoðaður eftir kynjum koma fram ólíkar niðurstöður. Karlar eru í miklum meirihluta þeirra sem fremja þessi brot en þeir eru 90% brotamanna. …

Kynbundið ofbeldi

Hugtakið kynbundið ofbeldi er notað um ofbeldi sem karlar beita konur svo sem nauðganir, mansal, vændi, ofbeldi í nánum samböndum, kynferðisleg áreitni og klám. Ofbeldið miðar að því að lítillækka, hlutgera og/eða ráða yfir öðrum einstaklingi án tillits til vilja eða líðan [líðanar] þess sem fyrir því verður.

Áður en lengra er haldið skal tekið fram að fæstir karlar beita konur ofbeldi né telja það réttlætanlegt. Þótt konur séu í meirihluta þolenda og karlar mikill meirihluti gerenda eru til dæmi um að fólk af báðum kynjum verði fyrir kynbundnu ofbeldi.“ (Helstu heimildir: Kristín Ása Einarsdóttir, 2008; Kvennaathvarfið, 2004; Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla ; Margrét Valdimarsdóttir, 2005; María H. Marinósdóttir og Viktoría Rut Smáradóttir, 2008; Stígamót, 2008; Þórdís Elva Þorvaldsdóttir, 2009.) …

Í klámi er kynlífi blandað saman við misnotkun og niðurlægingu á konum. …

Á Alþingi Íslendinga hafa verið tekin tvö mikilvæg skref til að sporna við þeirri auknu klámvæðingu sem orðið hefur í vestrænum samfélögum. [Alþingi er greinilega máttug stofnun.] Fyrsta skrefið var samþykkt laga um breytingu á almennum hegningarlögum nr.19/1940 þar sem kaup á vændi eru gerð refsiverð. Í lögunum segir að hver sem greiðir eða heitir greiðslu eða annars konar endurgjaldi fyrir vændi skal sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári. Löggjöfin miðast við að sporna við sölu á kynlífi, enda sé óásættanlegt að líta á mannslíkamann sem söluvöru.

Ábyrgðin er talin hvíla á herðum kaupandans en ekki seljandans, þar sem aðstöðumunur þeirra sé ávallt mikill. Kaupandinn hefur val í krafti peninga en seljandi oft og tíðum ekki.

Næsta skref var samþykkt laga um breytingu á lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald þar sem gert er ráð fyrir fortakslausu banni við því að bjóða upp á nektarsýningar eða að gera með öðrum hætti út á nekt starfsmanna eða annarra sem á staðnum eru. …

Árið 2008 leituðu 253 einstaklingar til Stígamóta í fyrsta sinn; en 108 einstaklingar leituðu þangað vegna nauðgunar og afleiðinga hennar. Ofbeldismennirnir í málunum voru karlar í nánast öllum tilfellum. Árið 2008 komu 285 einstaklingar í viðtal til Aflsins á Akureyri en þau eru systursamtök Stígamóta. …

Þótt algengara sé að karlar beiti slíku ofbeldi er ekki óþekkt að konur geri það. …

Á vef Kvennaathvarfsins eru upplýsingar um ofbeldi og spurningalisti til að meta ofbeldi.“

Staðreyndir um heimilisofbeldi:

„Skráðar komur í Kvennaathvarfið voru 549 árið 2008. Af þeim komu 419 í viðtöl en 130 konur komu í dvöl og höfðu þær 77 börn með sér. Fimmtungur kvennanna kærði ofbeldið til lögreglunnar. Verkefnið Karlar til ábyrgðar miðar að því að hjálpa mönnum, sem beitt hafa ástvini sína ofbeldi, að læra aðferðir til að hemja ofbeldishneigð sína.“

Ritdómur:

Kynungabók er raunalegt rit, höfundum sínum til vansa. Þrátt fyrir, að miðlað sé óbrenglað nokkrum staðreyndum, getur ritið með engu móti talist fræðilegt og yfirvegað fræðslurit um jafnrétti. Stundum er það villandi og stundum blasir við æpandi þekkingarleysi og fræðileg einfeldni eins og t.d. í umfjöllun um ofbeldi.

Kynungabók er að meginstofni til umfjöllun um þjáningarsögu kvenna frá hugmyndafræðilegum sjónarhóli kvenfrelsunar, áróðursrit til heilaþvotta á börnum. Þrátt fyrir margan ljóðinn, má þó segja höfundum til lofs, að tilvist karl- og kvenkyns sé ekki dregin í efa. En það hefur breyst í vitund Katrínar og sálufélaga hennar, sbr. „Lög um kynrænt sjálfræði.“ Síðan Kynungabók kom út hefur Alþingi Íslendinga leitt í lög, að konur séu fórnarlömb karla.


Ofbeldiseftirlitsstofnun ríkisins. Sósíalistaflokkurinn

Í eyrum mér hljóma stöðugt hugmyndir og gylliboð af öllu tagi frá löndum mínum, sem á nýju Alþingi vilja hafa vit fyrir mér og fullnægja þörfum mínum. Þökk sé þeim og skattgreiðendum, sem kosta þessa gylliboðasýningu. En þrátt fyrir, að Sjálfstæðisflokkurinn strengi þess nú heit að efna kosningaloforð frá síðustu gylliboðaherferð, þ.e. að láta af skerðingu ellilífeyris, vekur hugmynd Sósíalistaflokksins um Ofbeldiseftirlit ríkisins mestan áhuga minn. Ætli það eigi að tillíkjast hinu andvana „Bifreiðaeftirliti ríkisins“? Allavega bliknar Draumaland Samfylkingarinnar og Tækifærisland Sjálfstæðisflokksins í samanburði. En speki Miðflokksins; „ostur er alltaf ostur,“ heldur mér þó í jarðsambandi. (Varla nota flokkarnir sömu auglýsingastofuna?)

Að þessu sögðu skulum við skoða, hvað hugmyndafræðingar Sósíalistaflokksins, sóssasysturnar, María og Margrét (MogM) Pétursdætur, segja: „Sú alvarlega staða sem nú er uppi og hefur verið til langs tíma í ofbeldismálum kallar á … að setja á laggirnar stofnun með eftirlits og rannsóknarheimildum sem festar verði í lög svo fljótt sem verða má.“

Stofnunin skal „vinna að fræðslu og inngripum þar sem þörf er á í opinberum stofnunum og með því uppræta kerfisbundið og tilfallandi ofbeldi þar sem það viðgengst, vegna valdamismunar af einhverju tagi. … [Og] [u]ppræta þarf úr sér gengin og stór varasöm vinnubrögð eins og að nota foreldrafirringarheilkenni eða PAS í meðferð fjölskylduréttar mála.“ Þessi orð leika líka á tungu forsvarsfreyja félagsskaparins, „Lífs án ofbeldis.“ (Þetta merkir í raun, að líta eigi fram hjá því ofbeldi foreldris (oftast mæðra) að meina barni samvistir við hitt foreldrið, en það er gamalkunnugt fyrirbæri.)

Hætti menn að taka tillit til foreldrafirringar verður kátt í höllinni: „Þannig verði heilbrigðum samskiptum haldið á lofti í samfélaginu og fræðsla aðlöguð mismunandi stofnunum svo sem leikskólum, skólum, hjúkrunarstofnunum og skrifstofum, en fræðsla um ofbeldi og kynjafræði ekki bundin við ákveðin skólastig eingöngu.

Á sama hátt og fólk er krafið um að hafa lokið námskeiði í skyndihjálp áður en það gegnir ákveðnum störfum skulu allir yfirmenn opinberra stofnana hafa lokið námskeiði um ofbeldi og kynjafræði.“ Nú slær Sósíalistaflokkurinn vopnin úr höndum VG og „svolitlu frenjunnar,“ Katrínar, kvenfrelsara. Það er greinilega hlaupin hressileg samkeppni í þá iðju að frelsa konur.

Ofbeldiseftirlitsstofnun ríkisins á líka „[a]ð koma á laggirnar stoðdeild skipaða sjálfstæðu lögreglu- og ákæruvaldi, sem fylgir þolendum ofbeldis í gegnum réttarkerfið og sérhæfi sig í rannsókn og málsmeðferð kynbundinna ofbeldismála.“

Sömuleiðis „[e]f brotaþoli kærir þá sjái ofbeldiseftirlitið um að styðja við brotaþola í gegnum allan málarekstur og tryggði að brotaþoli fengi viðurkenningu og hlustun og að velferð og sanngirni yrði í gegnum allt ferlið. Brotaþoli fengi auk þess sálfræðiþjónustu, áfallahjálp og slíkan stuðning hvort sem hann ákveður að kæra eða ekki. Þá fengi hann aðstoð við að sækja miskabætur með minni kröfu um sönnunarbyrði.“

Hér eru lögð drög að nýju skrifræðisbákni. En hverjir eru þessir hugumstóru hugmyndafræðingar Sósíalistaflokksins. Gluggum í kynningar hans á MogM:

Margrét Pétursdóttir, frambjóðandi í Norðausturkjördæmi, önnur á lista, er kynnt í stuttu máli: Hún er „utanskólamenntuð verkakona sem hefur unnið með börnum og gamalmennum og aldurshópum þar á milli. Margrét hefur unnið margvísleg sjálfboðaliðastörf og verið með fólki á verstu og bestu stundum lífsins og samsamað sig með flestum þeirra.

Hún er róttækur aktivisti í umhverfismálum og félagi í náttúruverndarsamtökum og hefur starfað með þeim í aktivisma. Margrét er sósíalískur femínisti og vakti athygli á Borgarafundi í Háskólabíó og þegar hún klæddi styttuna af Jóni Sigurðssyni í bleik peysuföt til að beina spjótum að Neyðarstjórn kvenna sem starfaði í hruninu. Margrét aðhyllist húmanisma og vill að mannréttindastofnun verði sett á laggirnar sem fyrst af ríkisvaldinu.“ Margrét er greinilega mikill stofnanabaráttumaður; þ.e. vill setja á laggirnar bæði Mannréttindastofnun Íslands og Ofbeldisstofnun Íslands. Vonandi verður hún fljótlega fyrir þeirri hugljómun að stofna „Afeitrunarstöð ríkisins fyrir karlmenn,“ en vísir að henni er þegar til.

Nafna hennar í fyrsta sæti í Kraganum, er aftur á móti kynnt í löngu máli: „[M]yndlistamaður, öryrki og aðgerðarsinni, sem hefur starfað innan Sósíalistaflokksins síðustu fjögur árin sem formaður Málefnastjórnar. Auk listtengdra starfa hafði María umsjón með þáttunum Öryrkjaráðinu á Samstöðinni á síðasta ári en hún starfar einnig að málefnastarfi hjá ÖBÍ [Öryrkjabandalagi Íslands] þar sem hún er aðalfulltrúi MS félagsins innan bandalagsins. …

Erindi Sósíalista til fólks í Kraganum er það sama og til allra landsmanna. Við viljum draga völdin til fólksins þar sem þau eiga heima og það mun leiða til aukins jöfnuðar og réttlætis. Við viljum tryggja öllum réttinn til mannsæmandi lífs, öruggs húsnæðis og losa fólk undan nagandi afkomukvíða. Við viljum að allir sjáist og heyrist.”

María á sér langa áfallasögu og glímir við skæðan sjúkdóm. Ágrip frásagnar hennar:

„[Y]fir minni kynslóð vofði skuggi yfir, kalda stríðið og kjarnorkuváin. Móðursystir mín kynnti mig fyrir þeim Marx og Lenín þegar ég var krakki, en ég var þá strax mjög meðvituð um að ég væri vinstrisinnuð. …

Mér finnst stundum í minningunni eins og ég hafi orðið fyrir loftsteini þegar ég varð unglingur en það var auðvitað ekki svo. Ég varð fyrir grófu kynferðisofbeldi sem hafði gríðarleg áhrif á mig og fjölskylduna. …

Ég breyttist í vandræðaungling á einni nóttu. Ég var þessi krakki sem lögreglan auglýsti eftir og leitaði að um nætur. … Ég var rekin úr skólanum þegar ég var í 8. bekk fyrir að rífa kjaft og vilja ekki læra. …

Börnin mín, sem eru fimmtán ára og þrítugt í dag, eru bæði transfólk en auk þeirra á ég 36 ára stjúpdóttur og tvö barnabörn. … Húsið hefur hýst okkur [hana og seinni lífsförunaut], hánið okkar og dóttur fram eftir aldri, … [É]g er mjög fegin að hafa alið börnin mín upp í snertingu við Hinsegin samfélagið því það hefur eflaust gefið þeim styrk og öryggi til að vera þau sjálf.“

Snemma beygðist krókurinn: „Þær systur María og Kristín voru mjög samrýmdar og fylgdu móður sinni á fundi og á kosningaskrifstofu Kvennalistans í Kópavogi. Þar upplifðu þær hvernig kvennabaráttan náði flugi og nýtt stjórnmálaafl varð til.“

Nú lyftir María kvenfrelsuninni á æðra flug í Sósíalistaflokknum.

https://sosialistaflokkurinn.is/2021/08/31/ef-ksi-hefdi-haft-adgang-ad-ofbeldiseftirlitinu/?fbclid=IwAR22FxglEKc01p03yIgZr_nSnDaA2cFkzdGJK3xPLhrTVUFwpcETROxOj8g


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Okt. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband