Sorfið að Taiwan-Formósu. Nýi kvenskörungurinn, Tsai Ing-Wen, og fleiri slíkir

Á síðmiðöldum höfðu Japanar og Vesturveldin, einkum Bretar og Portúgalar, seilst til áhrifa í kínverska Qing heimsveldinu - eins og víðar um alla suður og austur Asíu. Kínverjar voru þá sem nú samheiti aragrúa þjóða og ættbálka innan landamæra kínverska heimsveldisins.

Eiginleg yfirráð heimsveldisins var í höndum kjarnakonunnar, keisaraynjunnar Dowager Cixi (1835-1908). Þrátt fyrir tilburði í þá átt að aðlagast vestrænum lífsháttum voru árekstrar við Vesturveldin óhjákvæmilegir. Breska heimsveldið háði svokölluð opíumstríð við Kínverja með tæpra tuttugu ára millibili, hið fyrra 1842 og hið síðara 1860. Átta nýlenduveldi; Þýskaland, Japan, Rússland, Breska heimsveldið, Frakkar, Bandaríki Norður-Ameríku, Ítalir og Austurríki-Ungverjaland, gerðu innrás í landið aldamótaárið 1900. Hinir svonefndu „boksarar,“ hreyfing kínverskra bænda, sem snerust öndverðir gegn ásælni útlendinga, veitti sameinuðum innrásarher viðspyrnu. Boksarar nutu stuðnings keisaraynjunnar. Innrásarherinn taldi rúm fimmtíu þúsund hermanna, sem studd voru fjölda herskipa og annarra stríðstóla.

Boksararnir og keisaraynjan lutu í lægra haldi. Í kjölfar hernaðarósigurs ynjunnar fylgdu vopnaðar uppreisnir gegn henni. Náðarhöggið átti sér stað í Xinhai byltingunni árið 1911. Hún ól af sér stofnun hins „Kínverska lýðveldis“ ári síðar. Læknirinn og stjórnspekingurinn, Sun Yat-sen (1866-1925), var fyrsti bráðabirgðaforseti lýðveldisins. Það var fjölmennasta lýðveldi sögunnar árið 1949, í lok borgarastyrjaldarinnar. Sun var einnig fyrsti formaður kínverska þjóðarflokksins, Kuomintang. Nafni hans er haldið í heiðri bæði í Kínverska alþýðulýðveldinu á meginlandinu og í Kínverska lýðveldinu á Taiwan, áður Formósu.

Þriðja eiginkona Sun, Rosamond Soong Ching-ling (1893-1981), komst til verulegra áhrifa í Kínverska alþýðulýðveldinu. En það komst á koppinn árið 1949 í borgarstyrjöldinni undir forustu Mao Zedong (1893-1976 -Maó formanns). Rósamunda var m.a. varaformaður ríkisins og formaður fastanefndar byltingarflokksins (kommúnistaflokksins) á árunum 1976-1978. Síðastnefnda embættið fól í raun í sér hlutverk formanns alþýðulýðveldisins. Rosamond lifði af hina illskeyttu menningarbyltingu Maós formanns og varð fyrsti kvenþjóðarleiðtogi í „lýðræðissögu“ Kínverja um tveggja ára skeið. Við andlát hennar var Rósamundu veittur heiðurstitillinn: „Heiðursforseti kínverska alþýðulýðveldisins.“

Eins og ýjað var að skildu leiðir Kuomintang og Kínverska byltingarflokksins í borgarstyrjöldinni, þegar Kínverjar börðust sameinaðir gegn japanska innrásarhernum. Chiang Kai-Shek (1887-1975) tók við forystu Kuomintang af Sun árið 1928. Við byltingu Maós formanns árið 1949 hrökklaðist hann til Taiwan (þá Formósu) og „flutti með sér“ „Kínverska lýðveldið.“ Chiang var forseti þess fram í andlátið.

Formósa og eyjarnar umhverfis höfðu lengi verið bitbein Kínaverja og Japana. Árið 1895 hafði kínverska Qing ættarveldið afsalað sér eyjunni til Japana. Íbúar þess lýstu yfir lýðveldisstofnun í maí á því ári og kölluðu „Formósu lýðveldið.“ En það varð skammlíft. Japanskar hersveitir greiddu því banahögg tæpu hálfu ári síðar. Í uppgjöri stórveldanna við Japana í lok seinni heimsstyrjaldar var Kínverska lýðveldinu, undir stjórn Kuomintang, veitt yfirráð yfir eyjunni.

Chiang stjórnaði samkvæmt herlögum fram til ársins 1987. Ofbeldisstjórn hans var viðbrugðið, bæði á fastlandinu og á Formósu. Hann var annálaður glæphundur og þaggaði miskunnarlaust niður í erfiðum eyjarskeggjum í anda þeirra ofsókna og ógnarstjórnar, þ.e. „hvítu ógnarstjórnarinnar,“ sem hann áður hafði stundað á meginlandinu. Ofsóknir Kuomintang minntu um margt á ofsóknir stjórnvalda í BNA undir forystu Joseph Raymond McCarty (1908-1957) á sjötta áratugi síðustu aldar. Chiang ríkti jafnlengi og Maó formaður, þ.e. í 46 ár.

Öndvert við Maó hallaði Chiang sér að Vesturveldunum, eftir nokkur „ástarævintýri“ við Rússa, Leon Trotsky (1879-1940) meðal annarra. Hann gerði Formósuríkið að bandamanni Vesturveldanna, undirróðurs- og hernaðarbækistöð i Austur-Asíu. Fyrir vikið hefur lýðveldið hlotið umtalsverða „þróunaraðstoð,“ sér í lagi frá BNA. Kínverska lýðveldið á Taiwan skipaði sæti Kínverja hjá Sameinuðu þjóðunum til ársins 1971, þegar allsherjarþing þeirra útskúfaði því og hafnaði sömuleiðis umsókn þess um aðild árið 2007.

Ríki Chiang á Formósu var aldrei annað en einflokks lýðræði, skipað „innfluttum“ Kínverjum, sem hafði það á stefnuskránni að leggja undir sig Alþýðulýðveldið handan sundsins, þ.e. Taiwan sunds. Á nýrri heimaslóð hegðaði Kuomintang sér eins og hvert annað nýlenduveldi, sem m.a. bannaði tungur innfæddra. „Hvít ógnarstjórn“ Chiang var enn í fullum blóma.

Þrátt fyrir þykjustulýðræðið á Taiwan studdu Vesturveldin ríki Chiang með ráðum og dáð, samtímis því, að atvinnulífið fékk að blómstra að miklu leyti samkvæmt lögmálum hins frjálsa markaðar, en undir undir ríkisforsjá. Því má segja, að Lýðveldið Kína hafði orðið fyrirmynd Alþýðulýðveldisins, að þessu leyti. Á sínum tíma var Taiwan talið einn hinna fjörurra efnahagstígra í Asíu, ásamt Singapore, Suður-Kóreu og Hong Kong.

Alþýðulýðveldið hefur aldrei viðurkennt, hvorki yfirráð nýlenduveldanna yfir fornu kínversku landsvæði, né yfirráð Chiang og félags hans yfir Taiwan. Eins og kunnugt er gerði Alþýðulýðveldið samning við breska heimsveldið í andláti þess, um að Hong Kong yrði skilað. Það hefur nú komið til framkvæmda með svipuðu fyrirkomulagi og á við um fyrrum nýlendu Portúgala, óseyraborgina Macao eða Maká, fyrrum verslunarsetur þeirra, samkvæmt leigusamningi við kínversk yfirvöld. Þau eru bæði kölluð sérstök sjálfsstjórnarhéröð í Alþýðulýðveldinu.

Þegar „rauði hershöfðinginn,“ Chiang, var allur, tók við stjórnartaumunum sonur hans og nafni, Ching-kuo (1910-1988). Hann mætti jafnvel kalla „bleika“ hershöfðingjann. Chiang yngri menntaðist í Rússlandi, meðan flest lék í lyndi milli Kuomintang og hins kínverska byltingarflokks Maó formanns í baráttu þeirra við Japana og innlendar andstöðufylkingar.

Rússnesku bolsévikkarnir, klofningsbyltingarflokkur Vladimir Ilyich Ulyanov eða Lenin (1870-1924), studdu baráttu Kuomintang. Chiang var því vel undir það búinn að starfa í ógnarstjórn föðurins sem innsti koppur í búri, m.a. sem varnarmálaráðherra, forsætisráðherra og yfirmaður leynilögreglunnar. Engin veit nákvæmlega, hvaða óþverragjörningum hann er ábyrgður fyrir og hversu margir hafa horfið fyrir hans atbeina. Þess má „til gamans“ geta, að Joseph Vissarionovich Stalin (1878-1953) sendi hann í námavinnu, þegar Kuomintang sneri við Rússum baki.

Chiang yngri slakaði smám saman á stjórnartaumunum, jók málfrelsi og minnkaði ofsóknir gegn innfæddum og aðfluttum meginlandskínverjum (þangað fluttum eftir 1949). Við embætti Chiang yngri tók Lee Teng-hui (1923-2020), sérvalinn af forvera sínum. Síðar var hann valinn í beinum kosningum af eyjarskeggjum. Lee beitti sér fyrir lýðræðislegum stjórnarháttum og lagði áherslu á að efla tengsl og vináttu á alþjóðagrundvelli. Tsai Ing-Wen (f. 1956) tók við keflinu 2020 og virðist ætla að halda merki forvera síns á lofti eins og hjálögð grein ber með sér, enda þótt úr öðrum flokki sé, þ.e. „Framsækna lýðræðisflokknum.“

Tasi er merkileg kona, hámenntuð í heimalandi sínu, Bandaríkjum Norður-Ameríku (BNA) og Englandi. Hún hefur lagt stund á lögfræði og alþjóðaviðskipti. Tsai nýtur lýðhylli á Taiwan, ógift „kattakona,“ sem á ættir að rekja til frumbyggja eyjarinnar (Paiwan). Hún hlaut yfirburðafylgi í beinu kjöri til forseta.

Í baráttunni fyrir frama í stjórnmálum hefur hún lýst yfir stuðningi við lesbíur-homma-tvíkynunga-og kynskiptinga og beitt sér fyrir hjónabandi fólks af sama kyni. Vígorð hennar voru m.a.: ”Ég er Tsai Ing-Wen, stuðningsmaður jafnréttis til hjónabands” og ”gerum öllum kleift að stunda frjálsar ástir og höndla hamingjuna.” (Lög þess efnis tóku gildi 2019.)

Tsai hefur þar að auki t.d. beitt sér fyrir opinberri jafngildinu upprunalegra tungumála á eyjunni. Mandarín, tungumál kínverska ”innrásarhersins” forðum daga, heldur því ekki lengur velli sem einasta, opinbera tungumál eyjarskeggja. Á alþjóðavettvangi lítur Tsai eins og forverar hennar hafa gert, einkum til BNA, samtímis því að leggja áherslu á eflingu tengsla við ríki á Indlands-Kyrrahafssvæðinu. Hervæðing liggur henni skiljanleg þungt á hjarta, enda er beðið í spenningspínu eftir innrás (alvöru) Kínverja. Hún hefur hafnað nálgun Alþýðulýðveldisins um endursameiningu; „eitt ríki, tvö kerfi.“

https://www.foreignaffairs.com/articles/taiwan/2021-10-05/taiwan-and-fight-democracy?utm_medium=newsletters&utm_source=twofa&utm_campaign=Taiwan%20and%20the%20Fight%20for%20Democracy&utm_content=20211008&utm_term=FA%20This%20Week%20-%20112017


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband