Píkutorfan. "Hálfgerð Biblía fyrir konur“

Á nýliðnu aldamótaári kom fyrir almennings sjónir merkilegt kynjafræðirit; Píkutorfan. Bókin er þýdd úr sænsku og heitir á frummálinu „Fittstim,“ gefin út árið 1999. Þýðendur eru Hugrún R. Hjaltadóttir og Kristbjörg Kona Kristjánsdóttir. Þýðendur komast yfirleitt vel frá erfiðu verkefni. Ritstjórar eru: Linda Norrman Skugge, Belinda Olsson og Brita Zilg. Linda og Belinda skrifa báðar greinar í ritið, en þær eru í frumútgáfunni sautján talsins, auk inngangs.

Í íslensku útgáfunni er aukreitis inngang þýðenda að finna, fræðslu um Bríeti, félag ungra kvenfrelsara (femínista), sem stofnað var ári áður en bókin kom út í Svíþjóð, og sérstakan viðauka Guðrúnar Margrétar Guðmundsdóttur, mannfræðings, sem ber heitið: „Femínistasían. Um uppeldi á femíníska vísu.“ Guðrún Margrét er sömuleiðis einn ritstjóra Kynungabókar Katrínar Jakobsdóttur, sem kom út árið 2010.

Hér og hvar er skotið inn athugasemdum; tilvitnunum til kvenfrelsara einkum og fróðleiksmolum úr innlendum og útlendum skýrslum, sem sýna bága stöðu kvenna í veröldinni.

T.d.: „Alveg þangað til að konur fóru að skrifa bækur var bara til ein hlið á málinu. Í gegnum söguna höfðu bækurnar verið skrifaðar með sæði en ekki tíðablóði.“ (Erica Jong: Fear of Flying.)

„Það er álitið að 85 til 114 milljónir kvenna í heiminum séu umskornar. Á hverju ári bætast 2 milljónir við í hópinn.“ (UNICHEF – United Nations International Children‘s Emergency Fund – Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna.)

„1960 voru bestu geimfarar NASA 13 konur. Þær voru betri en allir karlarnir. Þær voru í réttri þjálfun en af röngu kyni. Þess vegna fengu þær ekki að fara út í geim, þess vegna fengu þær ekki að fara til tunglsins. Háttsettur yfirmaður hjá NASA, Chris Kraft, sagði við bandaríska þingið: „Mér líður illa við tilhugsunina um bandaríska kvenkyns geimfara. Ég sendi frekar apa út í geim en hóp af konum.“ (The Sunday Times Magazine)

„Það er karlmannlegt að: Drottna og taka mikið pláss, vera sjálfselskur, taka ákvarðanir, hafa takmark, vera ögrandi, vera sterkur, ráða yfir öðrum, þéna peninga, hafa völd, hafa sterka kynhvöt.“ (Cecilia von Melen, Um frelsi.)

Nafngift bókarinnar vekur athygli, en það er samkvæmt upplýsingum ritstjóra þannig til komið, að árið 1992 ku formaður sænska Alþýðusambandsins hafa kallað félagsskap kvenjafnaðaramanna „helvítis píkutorfu“ (jävla fittstim), sbr. síldartorfu. Orðið „fitta“ á sænsku (d. og n. fitte) merkir kynfæri kvenna, píku. Hins vegar þýðir það líka konu eða stúlku. Hugsanlega þekkja þýðendur ekki þá merkingu.

Hér eru umsagnir ungra kvenna um bókina (Vera 2011): ”Strákur í bekknum mínum hljóp á eftir mér og sparkar svo í rassinn á mér. Þegar ég kvartaði við kennarann sagði hann: ”Iss, hann er bara skotinn í þér.” Það virtist gefa honum leyfi til að beita mig líkamlegu ofbeldi. Þegar ég las Píkutorfuna áttaði ég mig betur á hvað hefur verið að angra mig. …

[A]llar stelpur frá 12 ára aldri ættu að lesa bókina. Þar er nefnilega fjallað um mörg mál sem koma fyrst fram við kynþroskaaldur, t.d. er bent á að þó maður sé orðin kynþroska þá er maður ekki almenningseign.” (Helga Baldvinsdóttir)

”Mér finnst Píkutorfan vera hálfgerð Biblía fyrir konur.” (Anna Guðlaugsdóttir)

Eins og fram kemur í þessum umsögnum fjalla greinarnar um raunir unglingsstúlkna í uppvextinum. Þetta eru harmsögur í anda ævisögu Jóhannesar Birkilands, „Harmsögu ævi minnar.“ Fjallað er um svívirðilega greddu drengja og dólgshátt þeirra, sjálfsmyndarkvalir stúlkna, átraskanir, (vonda) kynfræðslu, ofbeldi gegn konum og börnum, kynlíf, getnaðarvarnir, drusluuppnefningu og allra handa samfélagslegt óréttlæti í þeirra garð, m.a. í íþróttum. Fórnarlambsandinn svífur yfir vötnum, líka í grein Jenny Svendberg: „Takk fyrir Guð, að ég er lesbía.“

Að mínum dómi bera tvær greinar af: „Mínir svokölluðu vinir. Um vinkonur,“ eftir Lindu, og „Tyrkneska stelpan. Um að vera sett á bás,“ eftir Aysegül S. Sungur.

Aysegül segir m.a.: „Það er auðvelt fyrir fjölmiðla að freistast til að sýna konur með erlendan bakgrunn sem undirokaðar, að þeim sé misþyrmt og þær fangelsaðar af karlkynsmeðlimum fjölskyldunnar. En það búa ekki allar múslímskar konur við slíkan hrylling, langt í frá. Vitið þið hversu oft ég hef þurft að sanna fyrir einhverjum að pabbi minn sé ekki vondur einræðisherra? …

Það besta við goðsögnina um konur sem koma frá löndum utan Evrópu eigi í meiri vandræðum en aðrar konur er að þær konur sem virkilega eiga í vandræðum og lifa við undirokun og misþyrmingar fá enga athygli eða hjálp. Það versta er að litið er á þetta sem sérstakt nýbúavandamál en ekki sem hlutskipti margra kvenna. Allt of margar konur nenna ekki að spyrna á móti goðsögninni um að þær séu undirokaðar.“

Linda segir: „Mín heitasta ósk er að Kenneth bjóði mér upp í vangadans. … Ég er að deyja úr ást. Ég held að það séu ekki bara fullorðnir sem geta verið graðir því ef maður er virkilega skotin getur maður líka verið það þótt maður sé bara tíu ára. …

Sjöundi bekkur: Við erum heima hjá Caroline og tölum um það hvernig það er að vera graður. Ég segi þeim að mér finnist það vera eins og að hafa pissað í buxurnar.“ …

Menntó 1.B. „Ég er ástfanginn af Daníel,“ segi ég og besta vinkona mín fer heim með honum eftir skóla. Daginn eftir segir hún: „Hann fór undir beltið hjá mér.“ Hún kallar það að fara „undir beltið“ þegar strákur gerir það við hana með puttunum. Hún á bók sem hún skrifar í alla stráka sem hún hefur kelað við. Nöfn og dagsetningar. Það eru örugglega 40 strákar í henni.

Menntó 3. B. „Ég fer út á land í fríinu,“ segi ég við vinkonu mína og hún notar tækifærið og ríður stráknum sem ég er ástfanginn af. „Það er þér sjálfri að kenna því að þú fórst,“ segir hún fúl. Hún er fúl út í mig þegar það er í raun ég sem ætti að vera fúl út í hana.

Eftir allar þessar raunir var erfitt að vita hvað mér fannst um stelpur. Það var orðið eðlilegt að þær eyðilegðu fyrir mér ástarlífið og teldu mér trú að ég væri misheppnuð og ljót. … Ég hataði líf mitt, mig langaði til að geta hætt að anda. Ég hataði allar stelpur. … Við baktöluðum þær sem ekki voru með í frímínútum. …

Það eina sem ég vildi var að einhver myndi káfa á mér. Ég vildi vera með í leiknum, láta klípa í mig, en enginn vildi snerta mig. Það var sárt að fá ekki þá staðfestingu. Væri aldrei káfað á manni voru það skilaboð um að maður væri ljótur og myndi aldrei eignast kærasta, maður var gubbufýla. …

Stelpur fæðast ekki falskar, það er ekkert náttúrulegt. Það er sjálfsagður hluti af menningu okkar að stelpur rífist og reyni að sigrast hver á annarri. … Við þroskumst ekkert sjálfar né komumst áfram í samfélaginu því við verjum dýrmætum tíma okkar í það eitt að baktala og rífa hver aðra niður. …

Í sjötta bekk, þegar við vorum tólf ára, bað kennarinn allar stelpurnar að vera eftir í kennslustofunni en strákarnir fóru út í frímínútur. „Ég sé að strákarnir eru byrjaðir að káfa á ykkur,“ sagði hún, „passið ykkur nú á því að verða ekki almannagjár. Ég sjálf leyfi bara manninum mínum að snerta mig.“

Lýsing Ann-Linn Guillou á kynþörfinni eru svipaðar og hjá Lindu: „Þegar ég var fimmtán ára fór ég á tungumálanámskeið á frönsku Rivierunni. Þar hitt ég ítalskan þjón … [ég] kiknaði í hnjánum og fór að skjálfa, hann var það fallegasta sem ég hafði nokkurn tíma séð. Hann var með svart hár, græn augu og snjóhvíta húð …“ Hrifningunni lauk með fúsum tveggja mínútna samförum og degi síðar með „nístandi kulda“ af reiðfélagans hálfu.

Að þessu sögðu gæti verið fróðlegt að skoða skilgreiningar greinarhöfunda á kvenfrelsun, femínisma: „Fordómar gegn femínisma eru fáfræði og skeytingarleysi gagnvart því ástandi sem ungar stelpur búa við.“ (Þýðendur) Femínismi er; „Lífsstíll“ (Bríet); „að vera meðvituð um að við búum í karllægu samfélagi og að hafa vilja til að gera eitthvað í því“ (Linda Johansson); „Rock and roll all night and party very day“ (Jonna Bergh); „Farmiði fram og til baka umhverfis jörðina sem maður getur notað eins oft og maður vill“ (Belinda Olsson); „Baráttan fyrir jafnvægi í samfélagi sem stjórnað er af körlum. Og alger nauðsyn.“ (Rebecca Facey); „Hugrekki“ (Sisela Lindblom); „Öll fundarlaunin og hálft konungsríkið“ (Pernilla Glaser); „Eitt: Réttur allra til eigin tilveru og löngun til að þurrka út línurnar sem afmarka hið „kvenlega“ og „karllega.“ Tvö: Að sjá samkynhneigð sem eitthvað mannlegt þrátt fyrir viðtekin gildi samfélagsins. Að vilja brjóta upp samfélagsnormin og sjá samkynhneigð blandast mannlegri getu og margbreytileika.“ (Jenny Svendberg)

Guðrún Margrét Guðmundsdóttir: „Ég hef ekki alltaf verið femínisti. Þvert á móti, því frá 16 til 25 ára aldurs var ég undirgefin eiginkona af svæsnum toga eða þar til ég gafst upp á eiginmanni mínum.“ Það var Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, mannfræðingur og kvenfrelsari, sem hristi hana úr undirgefninni: „ Hún sagði okkur að samkvæmt áætlun Sameinuðu þjóðanna væri minna en 1% af auði jarðar í eigu kvenna.“ Svo beni Sigríður Dúna einnig á, að móðurhlutverkið þyrfti ekki að vera kvenfrelsurum til trafala, „því til dæmis hjá Agta fólkinu á Filippseyjum færu bæði kynin út að veiða sér til matar og þegar kona væri ófrísk veiddi hún fram á síðustu stundu, tæki sér svo nokkurra vikna frí og að því loknu skyldi hún svo barnið eftir hjá eldri börnum eða foreldrum og héldi áfram [að veiða].“

Guðrún Margrét valdi að ala dætur sínar upp að mestu einsömul og lagði sig fram upp að vekja þær til vitundar um feðraveldið og hættur þess, þ.e. „femínískt barnauppeldi.“ Ein af aðferðunum var að meta hlutfall karlkyns og kvenkyns bílstjóra, þegar mæðgurnar fóru í bíltúr. Ég er sannfærð um „að vænn skammtur af femínisma í uppeldi dætra minna muni skila sér í stolti þeirra af kynferði sínu og meira sjálfsöryggi bæði sem konur og meðlimir í heimsþorpinu.“

Og ugglaust mun þetta rit líka skila miklu, jafnvel koma hinu langþráða gyðjuveldi á koppinn. Ritstýrur munu vafalaust sannspáar: „Píkutorfan á eftir að yfirtaka heiminn.“ Sandra von Plato hnykkir: „Það verður unaðslegt.“


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband