Ofbeldiseftirlitsstofnun ríkisins. Sósíalistaflokkurinn

Í eyrum mér hljóma stöðugt hugmyndir og gylliboð af öllu tagi frá löndum mínum, sem á nýju Alþingi vilja hafa vit fyrir mér og fullnægja þörfum mínum. Þökk sé þeim og skattgreiðendum, sem kosta þessa gylliboðasýningu. En þrátt fyrir, að Sjálfstæðisflokkurinn strengi þess nú heit að efna kosningaloforð frá síðustu gylliboðaherferð, þ.e. að láta af skerðingu ellilífeyris, vekur hugmynd Sósíalistaflokksins um Ofbeldiseftirlit ríkisins mestan áhuga minn. Ætli það eigi að tillíkjast hinu andvana „Bifreiðaeftirliti ríkisins“? Allavega bliknar Draumaland Samfylkingarinnar og Tækifærisland Sjálfstæðisflokksins í samanburði. En speki Miðflokksins; „ostur er alltaf ostur,“ heldur mér þó í jarðsambandi. (Varla nota flokkarnir sömu auglýsingastofuna?)

Að þessu sögðu skulum við skoða, hvað hugmyndafræðingar Sósíalistaflokksins, sóssasysturnar, María og Margrét (MogM) Pétursdætur, segja: „Sú alvarlega staða sem nú er uppi og hefur verið til langs tíma í ofbeldismálum kallar á … að setja á laggirnar stofnun með eftirlits og rannsóknarheimildum sem festar verði í lög svo fljótt sem verða má.“

Stofnunin skal „vinna að fræðslu og inngripum þar sem þörf er á í opinberum stofnunum og með því uppræta kerfisbundið og tilfallandi ofbeldi þar sem það viðgengst, vegna valdamismunar af einhverju tagi. … [Og] [u]ppræta þarf úr sér gengin og stór varasöm vinnubrögð eins og að nota foreldrafirringarheilkenni eða PAS í meðferð fjölskylduréttar mála.“ Þessi orð leika líka á tungu forsvarsfreyja félagsskaparins, „Lífs án ofbeldis.“ (Þetta merkir í raun, að líta eigi fram hjá því ofbeldi foreldris (oftast mæðra) að meina barni samvistir við hitt foreldrið, en það er gamalkunnugt fyrirbæri.)

Hætti menn að taka tillit til foreldrafirringar verður kátt í höllinni: „Þannig verði heilbrigðum samskiptum haldið á lofti í samfélaginu og fræðsla aðlöguð mismunandi stofnunum svo sem leikskólum, skólum, hjúkrunarstofnunum og skrifstofum, en fræðsla um ofbeldi og kynjafræði ekki bundin við ákveðin skólastig eingöngu.

Á sama hátt og fólk er krafið um að hafa lokið námskeiði í skyndihjálp áður en það gegnir ákveðnum störfum skulu allir yfirmenn opinberra stofnana hafa lokið námskeiði um ofbeldi og kynjafræði.“ Nú slær Sósíalistaflokkurinn vopnin úr höndum VG og „svolitlu frenjunnar,“ Katrínar, kvenfrelsara. Það er greinilega hlaupin hressileg samkeppni í þá iðju að frelsa konur.

Ofbeldiseftirlitsstofnun ríkisins á líka „[a]ð koma á laggirnar stoðdeild skipaða sjálfstæðu lögreglu- og ákæruvaldi, sem fylgir þolendum ofbeldis í gegnum réttarkerfið og sérhæfi sig í rannsókn og málsmeðferð kynbundinna ofbeldismála.“

Sömuleiðis „[e]f brotaþoli kærir þá sjái ofbeldiseftirlitið um að styðja við brotaþola í gegnum allan málarekstur og tryggði að brotaþoli fengi viðurkenningu og hlustun og að velferð og sanngirni yrði í gegnum allt ferlið. Brotaþoli fengi auk þess sálfræðiþjónustu, áfallahjálp og slíkan stuðning hvort sem hann ákveður að kæra eða ekki. Þá fengi hann aðstoð við að sækja miskabætur með minni kröfu um sönnunarbyrði.“

Hér eru lögð drög að nýju skrifræðisbákni. En hverjir eru þessir hugumstóru hugmyndafræðingar Sósíalistaflokksins. Gluggum í kynningar hans á MogM:

Margrét Pétursdóttir, frambjóðandi í Norðausturkjördæmi, önnur á lista, er kynnt í stuttu máli: Hún er „utanskólamenntuð verkakona sem hefur unnið með börnum og gamalmennum og aldurshópum þar á milli. Margrét hefur unnið margvísleg sjálfboðaliðastörf og verið með fólki á verstu og bestu stundum lífsins og samsamað sig með flestum þeirra.

Hún er róttækur aktivisti í umhverfismálum og félagi í náttúruverndarsamtökum og hefur starfað með þeim í aktivisma. Margrét er sósíalískur femínisti og vakti athygli á Borgarafundi í Háskólabíó og þegar hún klæddi styttuna af Jóni Sigurðssyni í bleik peysuföt til að beina spjótum að Neyðarstjórn kvenna sem starfaði í hruninu. Margrét aðhyllist húmanisma og vill að mannréttindastofnun verði sett á laggirnar sem fyrst af ríkisvaldinu.“ Margrét er greinilega mikill stofnanabaráttumaður; þ.e. vill setja á laggirnar bæði Mannréttindastofnun Íslands og Ofbeldisstofnun Íslands. Vonandi verður hún fljótlega fyrir þeirri hugljómun að stofna „Afeitrunarstöð ríkisins fyrir karlmenn,“ en vísir að henni er þegar til.

Nafna hennar í fyrsta sæti í Kraganum, er aftur á móti kynnt í löngu máli: „[M]yndlistamaður, öryrki og aðgerðarsinni, sem hefur starfað innan Sósíalistaflokksins síðustu fjögur árin sem formaður Málefnastjórnar. Auk listtengdra starfa hafði María umsjón með þáttunum Öryrkjaráðinu á Samstöðinni á síðasta ári en hún starfar einnig að málefnastarfi hjá ÖBÍ [Öryrkjabandalagi Íslands] þar sem hún er aðalfulltrúi MS félagsins innan bandalagsins. …

Erindi Sósíalista til fólks í Kraganum er það sama og til allra landsmanna. Við viljum draga völdin til fólksins þar sem þau eiga heima og það mun leiða til aukins jöfnuðar og réttlætis. Við viljum tryggja öllum réttinn til mannsæmandi lífs, öruggs húsnæðis og losa fólk undan nagandi afkomukvíða. Við viljum að allir sjáist og heyrist.”

María á sér langa áfallasögu og glímir við skæðan sjúkdóm. Ágrip frásagnar hennar:

„[Y]fir minni kynslóð vofði skuggi yfir, kalda stríðið og kjarnorkuváin. Móðursystir mín kynnti mig fyrir þeim Marx og Lenín þegar ég var krakki, en ég var þá strax mjög meðvituð um að ég væri vinstrisinnuð. …

Mér finnst stundum í minningunni eins og ég hafi orðið fyrir loftsteini þegar ég varð unglingur en það var auðvitað ekki svo. Ég varð fyrir grófu kynferðisofbeldi sem hafði gríðarleg áhrif á mig og fjölskylduna. …

Ég breyttist í vandræðaungling á einni nóttu. Ég var þessi krakki sem lögreglan auglýsti eftir og leitaði að um nætur. … Ég var rekin úr skólanum þegar ég var í 8. bekk fyrir að rífa kjaft og vilja ekki læra. …

Börnin mín, sem eru fimmtán ára og þrítugt í dag, eru bæði transfólk en auk þeirra á ég 36 ára stjúpdóttur og tvö barnabörn. … Húsið hefur hýst okkur [hana og seinni lífsförunaut], hánið okkar og dóttur fram eftir aldri, … [É]g er mjög fegin að hafa alið börnin mín upp í snertingu við Hinsegin samfélagið því það hefur eflaust gefið þeim styrk og öryggi til að vera þau sjálf.“

Snemma beygðist krókurinn: „Þær systur María og Kristín voru mjög samrýmdar og fylgdu móður sinni á fundi og á kosningaskrifstofu Kvennalistans í Kópavogi. Þar upplifðu þær hvernig kvennabaráttan náði flugi og nýtt stjórnmálaafl varð til.“

Nú lyftir María kvenfrelsuninni á æðra flug í Sósíalistaflokknum.

https://sosialistaflokkurinn.is/2021/08/31/ef-ksi-hefdi-haft-adgang-ad-ofbeldiseftirlitinu/?fbclid=IwAR22FxglEKc01p03yIgZr_nSnDaA2cFkzdGJK3xPLhrTVUFwpcETROxOj8g


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband