Mýflugan sem varð að kynofbeldisúlfalda Me too í Stjórnarráðinu Jafnréttisbáknið

Konur ákæra karla stöðugt um kynferðislegan dólgshátt í sinn garð. Það kemur hver flóðbylgjan á fætur annarri. RÚV kallar fyrirbærið ”byltingu.”

Forsætisráðherra vor, Katrín Jakobsdóttir, sem lýsir sér sem „svolítilli frenju“ – og ríkisstjórnin öll – hafði þungar áhyggjur af slíku hátterni karlmanna. Það varð að stefnu stjórnarinnar að uppræta holskeflu „kynbundins“ ofbeldis, þ.e. ofbeldi karla gegn konum, kynferðislega áreitni og alls konar ótilhlýðilega kynhegðun. (Ég hef þó hvergi séð, hvernig löggjafinn aðgreinir kynbundið ofbeldi (gender based) og kynferðislega áreitni (sexual harassment.)

Hin dugmikla Katrín lét nú hendur standa fram úr ermum og fól jafnréttisráðgjafa sínum, Höllu Gunnarsdóttur (sem víða skýtur upp kollinum, nú hjá þjáningasystur sinni, Drífu Snædal hjá ASÍ), að stýra úrbótahópi, enda þótt Vinnueftirlitið sinni málum, þar sem áreitni, ofbeldi og einelti koma við sögu. Betur mætti, ef duga skyldi. Í skýrslunni stendur (krækja neðanmáls):

„Í skipunarbréfi stýrihóps um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi er farið þess á leit að hópurinn geri tillögu um samræmd viðbrögð stjórnvalda við #metoo bylgjunni, bæði að því er lýtur að samfélaginu í heild og að Stjórnarráðinu og stofnunum þess sem vinnuveitenda.“

Eins og jafnan er, þegar slík mál skal brjóta til mergjar, eru konur (iðulega kvenfrelsarar) fremur en karlar fengnar til verksins:

Stýrihópurinn var skipaður 20. febrúar 2018. Hann skipa frá ráðuneytunum: Halla Gunnarsdóttir, Svala Ísfeld Ólafsdóttir, Rósa Guðrún Erlingsdóttir, Sveinn Magnússon, Jóna Pálsdóttir, og Axel Nikulásson.

Starfsmaður hópsins var Fanney Karlsdóttir. Sérstakir ráðgjafar voru: „Í umfjöllun um aðgerðir í kjölfar #metoo fékk stýrihópurinn eftirtalda aðila á sinn fund: Þórkötlu Aðalsteinsdóttur og Einar Gylfa Jónsson frá sálfræðistofunni Líf og sál; Guðnýju Elísabetu Ingadóttur, mannauðsstjóra samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins; Hugrúnu Hjaltadóttur, sérfræðing hjá Jafnréttisstofu, sem jafnframt hefur umsjón með reglubundnum fundum jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna; og Söru Lind Guðbergsdóttur, lögfræðing hjá kjara- og mannauðssýslu.“ Kynjaskipting er því þannig: átta konur og þrír karlar.

Aðferðin fólst einnig í spjalli við lykilpersónur í ráðuneytunum. „Fundirnir voru með óformlegu sniði. Skýrt var tekið fram að ekki yrði vitnað til einstaka samtala eða til málefna einstaka ráðuneyta, heldur væri markmiðið að varpa ljósi á starfsmenningu innan Stjórnarráðsins og hvort – og þá hvað – megi betur fara til að uppræta þá menningu sem kann að leyfa kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi að viðgangast.“

Enda þótt varfærnislega sé til orða tekið, dylst varla nokkrum, að hópurinn sé á höttum eftir „karlakynofbeldismenningunni“, en tilvist hennar er sjálf réttlæting verkefnis hópsins. En lesandi er þó ekki upplýstur um, hvað í þessari menningu sé fólgið.

Vísbending er þó gefin: „Á heildina litið er óþarflega tilviljanakennt hvernig staðið er að fræðslu og forvörnum sem er sérstaklega beint að því að uppræta þá samfélaglegu menningu sem ýtir undir eða leyfir kynferðislegri og kynbundinni áreitni að viðgangast.“

Eftir spjall sitt kemst hópurinn að ánægjulegri niðurstöðu, eftir atvikum, það er að segja: „Kynferðisleg áreitni virðist frekar óalgeng en aðeins 1,4% segjast hafa orðið fyrir slíkri framkomu.“ Þá er í engu kannað, hvaða skilning „gerandinn“ kynni að hafa. Ei heldur er gerð grein fyrir því, hvaðan þetta hlutfall sé komið og hvernig. „Frekar óalgeng“ er skrítið orðalag, þegar um er að ræða 1.4%. „Afar sjaldgæft“ hæfði betur.

Hópurinn virðist hafa orðið fyrir vonbrigðum, því enn er róið: „Hlutfallið eykst lítillega þegar spurt er um hegðun sem telja megi til áreitni, s.s. um óumbeðna snertingu eða kynferðislegar athugasemdir …“ Og hvaða hegðun ætli það sé?

„Þetta getur t.d. átt við um menn [les: karlmenn] sem hegða sér ósæmilega á starfsmannaskemmtunum og nefnd voru dæmi um að konur forðist starfsmannaskemmtanir vegna hegðunar eins eða tveggja einstaklinga.“ … „Dæmi er um formann (eldri karl) sem kallaði starfsmann (yngri konu) alltaf „elskan“ og talaði niður til hennar.“

Að þessu sögðu er ljóst að „vanda [þurfi] sérstaklega til verka þegar valdamisræmi er milli geranda og þolanda, s.s. sökum stöðu, kyns, sérfræðiþekkingar, lífaldurs eða starfsaldurs.“ Hjá Stjórnarráðinu eru konur í talsverðum meirihluta.

Það er sem sé um að ræða 1.4% kvenna, sem finnst sér misboðið. Þetta réttlætir – þrátt fyrir jafnréttis- og öryggisfulltrúa í sérhverju ráðuneyti, allsherjar Vinnueftirlit, löggæslu og dómstóla – margþættar aðgerðir:

„Skipað verði óháð fagráð, sem hefur það hlutverk að taka við, meta og fara með tilkynningar og ábendingar sem því berast um einelti, kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni eða ofbeldi.“

Samhliða er því beint til ráðuneytisstjóra að tryggja að fram fari áhættumat á félagslegum og andlegum þáttum í vinnuumhverfinu og … [l]agt er til að Stjórnarráðsdagurinn árið 2019 verði helgaður #metoo ...“

Enn er ekki nóg að gert: „í samvinnu við stýrihópinn og jafnréttisfulltrúa Stjórnarráðsins, … að … [t]aka saman upplýsingar um fræðslu sem miðar að því að byggja upp vinnustaðamenningu jafnréttis og vinna gegn kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi.“

Fræða skal starfsmenn með margvíslegum hætti, m.a. „sé stefnt að því nýta vettvang Stjórnarráðsskólans fyrir frekari fræðslu þvert á ráðuneyti. Mikilvægt er að fræðslan sé með sterka samfélagslega skírskotun en einblíni ekki um of á lagalega nálgun eða málsmeðferð. … tryggja að ný kynslóð starfsmanna Stjórnarráðsins stuðli að bættri menningu og starfsanda.“

Athyglisvert! Hér er sterklega ýjað að því, að aðferð „me-too“ hreyfingarinnar skuli í heiðri höfð.

Ofbeldismálin eru greinilega jafnréttismál: „Grænu skrefin í ríkisrekstri hafa reynst árangursrík leið til að efla vistvænan rekstur hjá opinberum stofnunum. Lagt er til að Jafnréttisstofu verði falið að kanna fýsileika þess að útbúa sambærilegt ferli á sviði jafnréttismála.“

Þegar jafnréttislög voru samþykkt á Alþingi (nr. 10) 2008, voru þegar í gildi lög um jafnan rétt allra fyrir lögum og meira að segja eldgömul lög, Búalög, sem kváðu á um jöfn laun karla og kvenna fyrir sömu vinnu. Það fer varla á milli mála, að svokölluð jafnréttislög voru sérsamin til; 1) að þjóna hugmyndafræði kvenfrelsunarhreyfinganna með það fyrir augum að berjast hvarvetna og almennt gegn hinu margumrædda „feðraveldi,“ þ.e. að heyja heilagt stríð gegn körlum; 2) að tryggja rétt kvenna til sömu launa og karlar fá, án tillits til menntunar, ábyrgðar, reynslu og vinnutíma; 3) að tryggja svipað hlutfall kynjanna (þá voru þau reyndar tvö), þegar það var talið í þágu „valdeflingar“ kvenna; 4) að leggja lagalegan grundvöll að atlögu að „kynjakerfinu“ (sundurgreiningu fólks í karla og konur) og ofsóknum á hendur körlum, sem myndbirtast einmitt í „me-too.“

Ný „jafnréttislög“ hafa nú tekið gildi. Hér er fróðleg samantekt eftir Arnfríði Aðalsteinsdóttur hjá Jafnréttisstofu, „Til hamingju með ný jafnréttisslög,“ þ.e. Lög um jafna stöðu kynjanna (150/2020) og Lög um stjórnsýslu jafnréttismála (151/2020).

„Helsta breytingin felst í því að ekki er lengur talað um tvö kyn, karl og konu, heldur er nú með kyni einnig átt við fólk með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá. Þetta er í samræmi við lög nr. 80/2019 um kynrænt sjálfræði sem heimila einstaklingum að skilgreina kyn sitt sjálfir.“

Fyrirtæki skulu semja sér jafnréttisáætlun, þar sem m.a. skal kveða á um baráttu gegn „kynbundu ofbeldi, kynbundinni áreitni og kynferðislegri áreitni.“ Nú er sem sé áreitni aðgreind í „kynbundna“ og „kynferðislega.“ Enn er aukið við orðasúpuna í þessu efni frá fyrri lögum.

Jafnréttisstofa er „stóra systir:“ „Jafnréttisstofa vinnur … gegn kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni og kynferðislegri áreitni … [og] neikvæðum kynjaímyndum og neikvæðum staðalímyndum um hlutverk kvenna og karla sem og neikvæðum staðalímyndum byggðum á … kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu.“ Fólk velkist varla í vafa um, hvað sé „neikvætt“ í þessu sambandi.

Jafnréttisstofa öðlast einnig aukin völd til eftirlits og rétt til að beita viðurlögum, sektum: „Bregðist viðkomandi ekki við þrátt fyrir ábendingar um úrbætur og ítrekanir hefur Jafnréttisstofa heimild til að beita dagsektum sbr. 6. gr. laga um stjórnsýslu jafnréttismála. Það sama á við ef fyrirtæki eða stofnanir sinna ekki jafnlaunavottun eða jafnlaunastaðfestingu.“

Svona eru skrifræðisbákn búin til. Hvergi hef ég séð útreikninga á því, hvað þetta bákn kostar skattgreiðendur og atvinnulífið og hversu mikilli hæfni er kastað á glæ í stjórnsýslunni.

https://kjarninn.overcastcdn.com/documents/Skyrsla_um_a%C3%B0ger%C3%B0ir_v._metoo_innan_stjornarra%C3%B0sins.pdf


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband