Kynungabók Katrínar. Kvenfrelsunarbiblía handa börnum

Katrín Jakobsdóttir var mennta- og menningarmálaráðherra í stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur árin 2009 til 2013. Hún beitti sér fyrir samningu „Kynungabókar: Upplýsingarits fyrir ungt fólk um jafnrétti kynja,“ sem kom út árið 2010.

Ritstjórar verksins eru: Berglind Rós Magnúsdóttir, uppeldisfræðingur; Guðrún Margrét Guðmundsdóttir, mannfræðingur; Jóna Pálsdóttir, menntunarfræðingur; Kristín Ástgeirsdóttir, sagnfræðingur, og Kristín Jóndóttir, sagnfræðingur. Allar eru þær ástríðuþrungnir kvenfrelsarar, kennarar og fyrirmyndir hinna ungu og miðaldra meyja, sem um þessar mundir gera kvenfrelsunargarðinn frægan eins og t.d. félagsskapurinn, „Öfgar.“

Markmið:

„Veita raunsæja mynd af stöðu kynjanna í samfélaginu. Sýna fram á að jafnréttismál varða bæði kynin. Vekja ungt fólk til umhugsunar um áhrif kynferðis á líf þess. Fjalla um mismunandi mótun kynjanna út frá menningu, umhverfi og tíma. Vekja ungt fólk til meðvitundar um réttindi sín.“

Formáli Katrínar:

„Í ár eru liðin 95 ár síðan konur öðluðust kosningarétt og kjörgengi á við karla …“ (Katrín hikar ekki við að hagræða staðreyndum. Árið 1915 öðlaðist nefnilega einnig lunginn úr íslenska karlastofninum kosningarétt.)

Katrín vísar til orða John Stuart Mill (1806-1873), sem margt sagði skynsamlegt, en viðurkenndi, að þegar talið bærist að kvenfrelsun, ætti hann í stökustu vandræðum með að greina eigin hugsanir frá hugsunum ástkonunnar, Harriet Taylor Mill (1807-1858).

„Á 19. öld benti enski heimspekingurinn John Stuart Mill á að: „Tilfinningar vorar til hinnar misjöfnu stöðu karla og kvenna [eru] … rótgrónari en allar aðrar tilfinningar sem geyma og vernda venjur fortíðarinnar. Það er því eigi að furða þótt þær séu öflugastar af öllum og hafi varist best gegn andlegum byltingum sem orðið hafa í mannfélaginu á seinni tímum“.

Þessi orð Mills eiga enn við. Kynungabók er mikilvægt framlag til að efla andlega byltingu gegn rótgrónum tilfinningum fortíðar.“

Hugmyndafræðin:

„Smám saman hefur dregið úr því kynjamisrétti sem viðgengist hafði í aldanna rás. … Talið er að rekja megi núverandi kynjamisrétti til þeirra tíma er eingöngu karlar úr valdastétt höfðu tækifæri til að móta samfélagið en það gerðu þeir út frá hagsmunum sínum. Gildismat þeirra varð undirliggjandi í trúarbrögðum, lögum, reglum, hefðum og siðum, eða í samfélaginu öllu. …

„Hugmyndir um að kynin séu ólík að eðlisfari eru algengar. Þær geta verið varhugaverðar, … Segja má að margs konar orsakir liggi að baki kynjamisrétti en ljóst er að rótgrónar hugmyndir um karlmennsku og kvenleika sem eru innbyggðar í samfélagsgerð okkar eru helsti þröskuldurinn. Þau sem berjast gegn þessum viðtekna hugmyndaheimi og vilja auka fjölbreytni og athafnarými fyrir hvort kyn skilgreina sig gjarnan sem femínista. … Femínisti er kona eða karl sem veit að jafnrétti kynjanna er ekki náð og vill gera eitthvað í því. …

Kynungabók byggir á femínískum hugmyndum og mótunarhyggju sem er andstæða eðlishyggju. Mótunarhyggja hafnar því að ólíkt eðli kynja sé ástæðan fyrir ólíkri hegðun, hlutverki og stöðu kynjanna. Hver einstaklingur fæðist með ólíka skapgerð en ekki er hægt að setja alla einstaklinga sem fæðast af sama kyni undir einn hatt hvað varðar eiginleika og skapgerð. Manneskjan mótast af þeim hugmyndum um karlmennsku og kvenleika sem eru við lýði hverju sinni. …“

Fjölskyldan:

„Frá og með 27. júní 2006 fengu samkynhneigð pör sama lagalega rétt og gagnkynhneigð pör um ættleiðingar og tæknifrjóvganir. …

27. júní 2010 gengu í gildi ný hjúskaparlög. Breytingin felur í sér frelsi einstaklinga til að velja sér maka af sama kyni. …

Skilnaðir og sambúðarslit eru algeng í nútímasamfélagi. Árið 2008 voru 1.309 skilnaðir á Íslandi en á árunum 2001-2005 var meðaltal hjúskaparslita og skilnaða að borði og sæng 1.247 á ári. Sú breyting hefur orðið undanfarin ár að margir foreldrar nýta sér þann möguleika sem var lögfestur 1992, að hafa sameiginlega forsjá barns eða barna þegar þau skilja. Árið 2008 völdu 81% foreldra sameiginlega forsjá. Þó svo að forsjáin sé sameiginleg þarf barnið að eiga lögheimili hjá öðru hvoru foreldranna og þannig eru tölur um einstætt foreldri fundnar út. …

Árið 2009 voru einstæðar mæður mun fleiri en einstæðir feður. Þær voru 11.402 eða 91% en einstæðir feður 1.090 eða 9%. …

Könnun sem gerð var meðal 12-16 ára nemenda vorið 2006 leiddi í ljós að 73% bjuggu hjá báðum foreldrum og 24% áttu tvö heimili. Þar af voru 8% sögðust búa reglulega á báðum stöðum og 4% sem sögðust búa jafnt til skiptis á tveimur heimilum, til dæmis aðra hverja viku á hvoru heimili.“

Skólaganga

„Stjórnvöld á Norðurlöndum voru fyrst til að koma á almennri fræðsluskyldu sem var skipulögð og greidd af hinu opinbera. [Líklega er átt við greiðslu skólagöngu.] Fræðsluskylda í þeim anda varð almenn árið 1907 á Íslandi. Fram að því þótti mörgum „óþarft af kvenfólki og meðalgáfuðum drengjum að læra skrift og reikning“. Bóklegt nám umfram það sem krafist var til fermingarfræðslu taldist óþarfi fyrir almúgadrengi og allar stúlkur en þrátt fyrir það var lestrarkunnátta orðin nokkuð almenn um aldamótin 1900 þótt fáir kynnu að skrifa.

… Fyrir tæpum100 árum fengu konur jafnan rétt og karlar til alls náms, styrkja og opinberra embætta. …

[S]kipting í karla- og kvennagreinar er athyglisverð og vekur upp margar spurningar um félagsmótun kynjanna. Sífellt fleiri konur hafa farið inn á svið karla. Það að sama gildir ekki um karla [hvað svið kvenna varðar]. Fræðimenn hafa leitað skýringa í virðingarmun milli hins kvenlæga og karllæga þar sem hið karllæga er skilgreint sem mikilvægara og verðmætara.“

Vinnumarkaður:

„Tekjur kvenna voru að meðaltali um 66% af tekjum karla árið 2008. Þessi tekjumunur útskýrist að nokkru leyti af því að konur vinna færri vinnustundir í launavinnu en karlar og hefðbundin kvennastörf eru metin til lægri launa en hefðbundin störf karla. …

Þegar talað er um leiðréttan mun er átt við þann mun á launum karla og kvenna sem ekki verður útskýrður með ólíkri menntun, aldri, starfsaldri, starfshlutfalli, starfsstétt, yfirvinnu og … mældist16,3% árið 2008. …

Einn af grundvallarþáttum í lýðræðislegu þjóðfélagi er sá að ákvarðanir, skipulag og lög byggi á og endurspegli jafnt reynslu og þekkingu kvenna og karla. Það eru sjálfsögð mannréttindi að þátttaka kvenna, á sviði stjórnmála og við stjórnun fyrirtækja, sem og annars staðar þar sem ráðum er ráðið, sé til jafns við karla.“

Fjölmiðlar:

„Í rannsókn sem gerð var árið 2005 var kynjahlutfallið í fréttum og í fréttatengdum þáttum Ríkissjónvarpsins og Stöðvar 2 tekið til skoðunar. Í ljós kom að konur birtust á skjánum í tæplega þriðjungi tilfella. Einnig kom í ljós munur á því hversu oft þær voru sýndar og hversu oft var rætt við þær. Þegar um var að ræða bein viðtöl voru konur eingöngu fimmtungur viðmælenda. Kastljósið skar sig þó úr með konur í meirihluta.“

Heilsufar: [B]ilið [á]milli lífaldurs kvenna og karla [hefur] minnkað. Á árunum 1971–1975 lifðu konur að meðaltali 5,9 árum lengur en karlar. Árið 2007 lifðu þær 3,5 árum lengur. Lífslíkur karla hafa aukist um 7,8 ár frá árinu 1971 en lífslíkur kvenna um 5,4 ár á sama tímabili. …

Ýmis skilaboð eru undirliggjandi í menningu karla sem hafa slæm áhrif á heilsu þeirra og skerðir lífslíkur. Meðal þeirra má nefna hugmyndir um dugnað og hreysti, svo og upphafningu á áhættuhegðun og í sumum tilfellum árásarhneigð. Sumir karlar stunda þannig vinnu að henni fylgir álagssjúkdómar og hætta á vinnuslysum. Algengara er að þeir eigi við áfengis- og fíkniefnavanda að etja en konur.

Einnig falla karlar oftar fyrir eigin hendi. Þessir neikvæðu þættir í tilveru karla eru stundum nefndir: gjald karlmennskunnar. Eitt helsta markmið jafnréttisbaráttu sem snýr að körlum er að draga úr þessum fórnarkostnaði. …

Þó að konur á Íslandi lifi að öllu jöfnu lengur en karlar eru vísbendingar um að heilsa þeirra sé að sumu leyti verri en karla. Konur fá frekar ýmsa sjálfsofnæmissjúkdóma, gigt og langvinna sjúkdóma svo sem beinþynningu. Þær nota heilbrigðisþjónustuna í meiri mæli en karlar, eru sendar í fleiri rannsóknir, fá oftar sjúkdómsgreiningu og fá oftar ávísun á lyf. Þessi staðreynd er stundum kölluð hin kynjabundna þversögn í heilsufari. Munurinn fer þó sífellt minnkandi með hækkandi aldri. …

Eftirsóknarvert markmið í uppeldi ungs fólks er að draga úr árásarhegðun sem er meiri hjá körlum en konum. Langflestir þeirra sem gerast sekir um minniháttar líkamsárás eru 20 til 24 ára. Þegar þessi hópur er skoðaður eftir kynjum koma fram ólíkar niðurstöður. Karlar eru í miklum meirihluta þeirra sem fremja þessi brot en þeir eru 90% brotamanna. …

Kynbundið ofbeldi

Hugtakið kynbundið ofbeldi er notað um ofbeldi sem karlar beita konur svo sem nauðganir, mansal, vændi, ofbeldi í nánum samböndum, kynferðisleg áreitni og klám. Ofbeldið miðar að því að lítillækka, hlutgera og/eða ráða yfir öðrum einstaklingi án tillits til vilja eða líðan [líðanar] þess sem fyrir því verður.

Áður en lengra er haldið skal tekið fram að fæstir karlar beita konur ofbeldi né telja það réttlætanlegt. Þótt konur séu í meirihluta þolenda og karlar mikill meirihluti gerenda eru til dæmi um að fólk af báðum kynjum verði fyrir kynbundnu ofbeldi.“ (Helstu heimildir: Kristín Ása Einarsdóttir, 2008; Kvennaathvarfið, 2004; Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla ; Margrét Valdimarsdóttir, 2005; María H. Marinósdóttir og Viktoría Rut Smáradóttir, 2008; Stígamót, 2008; Þórdís Elva Þorvaldsdóttir, 2009.) …

Í klámi er kynlífi blandað saman við misnotkun og niðurlægingu á konum. …

Á Alþingi Íslendinga hafa verið tekin tvö mikilvæg skref til að sporna við þeirri auknu klámvæðingu sem orðið hefur í vestrænum samfélögum. [Alþingi er greinilega máttug stofnun.] Fyrsta skrefið var samþykkt laga um breytingu á almennum hegningarlögum nr.19/1940 þar sem kaup á vændi eru gerð refsiverð. Í lögunum segir að hver sem greiðir eða heitir greiðslu eða annars konar endurgjaldi fyrir vændi skal sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári. Löggjöfin miðast við að sporna við sölu á kynlífi, enda sé óásættanlegt að líta á mannslíkamann sem söluvöru.

Ábyrgðin er talin hvíla á herðum kaupandans en ekki seljandans, þar sem aðstöðumunur þeirra sé ávallt mikill. Kaupandinn hefur val í krafti peninga en seljandi oft og tíðum ekki.

Næsta skref var samþykkt laga um breytingu á lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald þar sem gert er ráð fyrir fortakslausu banni við því að bjóða upp á nektarsýningar eða að gera með öðrum hætti út á nekt starfsmanna eða annarra sem á staðnum eru. …

Árið 2008 leituðu 253 einstaklingar til Stígamóta í fyrsta sinn; en 108 einstaklingar leituðu þangað vegna nauðgunar og afleiðinga hennar. Ofbeldismennirnir í málunum voru karlar í nánast öllum tilfellum. Árið 2008 komu 285 einstaklingar í viðtal til Aflsins á Akureyri en þau eru systursamtök Stígamóta. …

Þótt algengara sé að karlar beiti slíku ofbeldi er ekki óþekkt að konur geri það. …

Á vef Kvennaathvarfsins eru upplýsingar um ofbeldi og spurningalisti til að meta ofbeldi.“

Staðreyndir um heimilisofbeldi:

„Skráðar komur í Kvennaathvarfið voru 549 árið 2008. Af þeim komu 419 í viðtöl en 130 konur komu í dvöl og höfðu þær 77 börn með sér. Fimmtungur kvennanna kærði ofbeldið til lögreglunnar. Verkefnið Karlar til ábyrgðar miðar að því að hjálpa mönnum, sem beitt hafa ástvini sína ofbeldi, að læra aðferðir til að hemja ofbeldishneigð sína.“

Ritdómur:

Kynungabók er raunalegt rit, höfundum sínum til vansa. Þrátt fyrir, að miðlað sé óbrenglað nokkrum staðreyndum, getur ritið með engu móti talist fræðilegt og yfirvegað fræðslurit um jafnrétti. Stundum er það villandi og stundum blasir við æpandi þekkingarleysi og fræðileg einfeldni eins og t.d. í umfjöllun um ofbeldi.

Kynungabók er að meginstofni til umfjöllun um þjáningarsögu kvenna frá hugmyndafræðilegum sjónarhóli kvenfrelsunar, áróðursrit til heilaþvotta á börnum. Þrátt fyrir margan ljóðinn, má þó segja höfundum til lofs, að tilvist karl- og kvenkyns sé ekki dregin í efa. En það hefur breyst í vitund Katrínar og sálufélaga hennar, sbr. „Lög um kynrænt sjálfræði.“ Síðan Kynungabók kom út hefur Alþingi Íslendinga leitt í lög, að konur séu fórnarlömb karla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband