Börnin tapa í jafnréttis- og kynjastríðinu.

Því miður virðist stríðið fyrir eiginlegu jafnrétti tapað. Leiðtogar allra flokka eru með kynjafræðakveisu. Það er í senn bæði nöturlegt og sorglegt að sjá bjálfaþægðina og þörfina fyrir athygli og viðurkenningu. Hugsanlega vita þeir ekki, hvað kynjafræði er, en hún er kennd við háskóla á Vesturlöndum og heitir þar "woman studies" eða "gender studies." Þeir hafa hugsanlega ekki áttað sig á því, að þeir hafi þegar lögfest eina grundvallarkennisetningu kynjafræðanna, þ.e. að konur séu fórnarlömb karla. Reyndar er langt síðan, að þeir samþykktu þvíumlíka kennslu í skólum landsins. Ætli þeir hafi ámóta gullfiskaminni og kjósendur?

Það kemur varla á óvart að Kynjafræða-Katrín vilji slík fræði inn í skólana. Hún hefur barist fyrir því með oddi og eggju, að svo verði. Hún lét semja kynjafræðibiblíu handa börnum, "Kynungabók." Lilja Alfreðsdóttir lét semja uppfært álit eða bók, "Sólborgarbók," í sama anda. Þar eru karl- og kvenkyn meira að segja upprætt. Ríkisstjórnin hefur þegar styrkt alþýðufræðslu um karlmennsku (Þorsteinn Einarsson), grundvallaða á kynjafræðihugtakinu um "eitraða karlmennsku." Hún hefur líka puðrað peningum í ofbeldisiðnaðinn, sem grundvallaður er á sama kynjafræðahugtakinu.

VG fól tveim kvenfrelsurum, heilbrigðisráðherra sínum, Svandísi Svarvarsdóttur, og Uglu Stefaníu Kristjönudóttur Jónsdóttur, kynjafræðingi og einni af valdamestu konum veraldar, að semja frumvarp til laga um "Kynrænt sjálfræði." Þar segir t.d. að börnum skuli úthlutað kyni eins og um kvóta væri að ræða. Þessi lög sömdu Alþingismenn nær athugasemdalaust. Þeir eru kynjafræðingar inni við beinið.

Ætli nýir þingmenn sjái að sér? Varla þó Sigmar Guðmundsson, sem breytt hefur um leikhús. Hann hefur yfirgefið RÚV. Í viðtalsþætti sínum undraðist hann, að fólk væri að agnúast út í "femínisma." Því "femínisti" bæri jú barasta jafnréttisbarátta. Hvílíkt og átakanlegt þekkingarleysi. Þetta fólk minnir mig á rekstur bjöllusauða úr haga.

Það er skelfingarhugsun, að íslensk börn eigi framtíð sína í lífi og skóla undir þeim. Ætli námsefni Kynungabókar eða það námsefni, sem samið verður af kvennahernum í uppeldis- og kennslugeiranum í anda Sólborgarhópsins, stuðli að því, að drengir verði þægari í skóla, læri að lesa, verði hreyknir af kyni sínu og beini meðfæddri samkeppnisþörf til sköpunar þekkingar og lista?

Eða ætli það fari svo, að blásið verði nýju lífi í tilhneigingar til að leggja árar í bát, gefa skít í skóla, kennara, menntun og atvinnu? Ætli uppivöðslusemi og afbrotavilji vaxi, þrátt fyrir hækkandi skammta af róandi lyfjum og fleiri sálfræðinga? Ætli enn fleiri grípi til þess ráðs til að deyfa vansæld sína með aukinni neyslu fíkniefna og sjálfsvígi?

Við erum nær daglega vitni að þjáningafullum glundroða og hugarvíli ungs fólks um skilning á eign kynferði. Það tengist m.a. upplausn fjölskyldunnar og oft brengluðum tengslum við foreldra. Stöðugt fjölgar "móðurheimilium," þ.e. feður eru utangarðs, ótengdir eða laustengdir afkvæmum sínum. Þörf þeirra fyrir hið karllega er ekki fullnægt. Karlmennsku sjá þau oft í blekkjandi spéspegli fjölmiðla, kvenkennara og mæðra sinna, sem segja þeim eða gefa í skyn, að karlar séu óalandi og óferjandi misyndismenn - sérstaklega í öllu því, sem að kynferði og kynlífi lýtur. Það er kynjafræði.

Fyrir örfáum áratugum síðan voru drengir í meirihluta þeirra, sem vildu skipta um kyn, gerast konur. Nú fjölgar ógnvænlega stúlkum, sem vilja slá á tilvistar- og kynótta sinn með því að skipta um kyn. Það er angistarfull tilraun til að bæta sér upp missi hins karllega. Ungt fólk er beinlínis hvatt til kynskipta. Það er kynjafræði.

Umtalsverður fjöldi barna nýtur ekki samvista við feður sína, eftir skilnað. Langoftast er það þannig - jafnvel, þótt um sameiginlega forsjá sé að ræða - að embættismenn og dómarar kveði svo á um, að börn skuli hafa heimilisfesti hjá mæðrum sínum. Það er kynjafræði.

Kvenfrelsunardómstólum götunnar og samfélagsmiðla vex stöðugt fiskur um hrygg. Fjöldi karlmanna er þar "tekinn af lífi." Það er kynjafræði.

Katrín kvenfrelsari og þjáningasystur hennar (og nokkrir þjáningabræður) vinna að því eins og iðnir maurar að sveigja löggjöf, löggæslu og stjórnsýslu, að kvenfrelsunarviðhorfum sínum, grundvallaða á hugtakinu um eitraða karlmennsku. Í svokölluðum "Jafnréttislögum" er kynfólska af karla hálfu sérstaklega tiltekin, kölluð "kynbundið ofbeldi." Kynjafræðingar klifa stöðugt á "kynbundu ofbeldi." Það er vissulega kynjafræði.

https://www.visir.is/g/20212161040d/allir-flokkarnir-vilja-kynjafraedi-kennda-i-skolum


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband