Ljósagöngur og lygar kolsvartar um kynofbeldi

Það er líklega alkunna, að Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) hafa helgað 25. nóvember á ári hverju baráttu gegn kynbundnu ofbeldi, þ.e. kynofbeldi karla gegn konum. Um er að ræða upphafsdag sextán daga baráttulotu. Í nafni „jafnréttis“ gefur að skilja, að SÞ þyki ekki bera nauðsyn til að berjast með viðlíka hætti gegn ofbeldi í garð karla.

SÞ reka reyndar sérstaka áróðursstofnun, „Kvenfrelsunarstofunun SÞ“ (UN Women), með landsdeildir á víð og dreif um heiminn. „Karlfrelsunarstofnun“ innan vébanda þeirra hefur enn ekki séð dagsins ljós.

Stella Samúelsdóttir er forstýra Íslandsdeildar SÞ. Hún tjáir sig jafnaðarlega um nauðsyn þess að trúa konum, sem kveðast hafa orðið fyrir kynofbeldi. Slíkir sakaráberar eru kallaðir þolendur. Hún segir: „Við verðum að hætta að rengja trúverðugleika þolenda ...“

Fleiri stofnanir SÞ láta iðulega til sín taka í þessu efni, m.a. „Upplýsingamiðstöð“ þess (United Nations Information Centre – UNIC). Áður en til lokunar kom árið 2015, beitti Upplýsingamiðstöð Evrópusambandsins sér einnig fyrir málefninu. Hugmyndafræðin um almenna kúgun og ofbeldi karla í garð kvenna endurspeglast líka í alþjóðlegum samningum, sem leiddir hafa verið lög á Alþingi Íslendinga.

Umrædd barátta á sem sé víðtæka skírskotun og er háð á mörgum vígstöðvum. T.d. svaraði forstýra Hörpu, Svanhildur Konráðsdóttir, ákalli Stellu: „Harpa verður lýst upp í appelsínugulum lit, sem er táknrænn litur fyrir von og bjarta framtíð kvenna og stúlkna án ofbeldis.“ Utanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins, Guðlaugur Þór Þórðarson, lék aðra fiðlu. Utanríkisráðuneytið geislaði glóaldingulu ljósi þennan merka baráttudag til að minna þjóðina á kynofbeldishneigð karla.

Árið 2019 flutti fyrrum forstýra Kvennaathvarfs og núverandi forsæta ASÍ, Drífa Snædal, barátturæðuna í ljósagöngu Kvenfrelsunarstofnunar SÞ. Hún sagði m.a.:

„Ég hef alltaf dáðst að því hvað konur eru friðelskandi. Þrátt fyrir aldalangt misrétti og skipulagða kúgun hafa konur ekki gripið til vopna. …

[L]aun kvenna [eru] kerfisbundið lægri en karla, kynbundið ofbeldi er staðreynd og konur ná síður framgangi en karlar. Hið dulda kerfi sem er svo óskaplega erfitt að vinna á köllum við feðraveldi. ...

Feðraveldið birtist í sinni tærustu mynd þegar stjórnmálamenn hampa jafnréttisparadísinni Íslandi á sama tíma og þeir tala um konur eins og nytjahluti og meta þær eftir útliti. Feðraveldið birtist líka þegar minnt er á það að karlar hjálpa körlum að arðræna og svíkja þjóðir úti í heimi …

Og feðraveldið birtist þegar minnt er á kynbundið ofbeldi en það verður alltaf að taka fram hið sjálfsagða að ekki allir karlar nauðga. Allir eru fylgjandi jafnrétti í orði en við verðum öll vör við andstöðuna í hinu smáa. Kynjamisrétti er þannig hversdagslegt og svo algengt að ýmsir eiga erfitt með að greina það. …

Þegar það er ekki lengur í lagi að vera karlremba opinberlega þá er það gert í lokaðri hópum á börum.“ Og það eru fleiri samtök sem hasla sér völl á vígstöðvunum kynofbeldis. Bandalag starfsmanna ríkis og bæja (BSRB), undir forystu Sonju Ýrar Þorbergsdóttur, lögfræðings (sem tók við af Elínu Björku Jónsdóttur), sendi á frá sér eftirfarandi tilkynningu:

„BSRB hvetur sem flesta til að taka þátt í ljósgöngunni og styðja átak gegn kynbundu ofbeldi á vinnustöðum.“

Fyrrnefnd forsæta ASÍ hefur áður staðhæft: "Það er alveg horft fram hjá því að 95% þeirra sem beita heimilisofbeldi eru karlar og 95% sem verða fyrir því eru konur." Enn hefur Drífa ekki orðið við þeirri áskorun Þorsteins Sæmundssonar að birta heimildir fyrir slíkri staðhæfingu. Enda eru engar slíkar heimildir til. Staðhæfingin lýsir hugarfari Drífu og kvenfrelsunarhugmyndafræði hennar. Alvöru rannsóknir hafa í áratugi leitt í ljós tiltölulegt „jafnrétti“ kynjanna við barsmíðar á hvoru öðru í nánum samböndum.

Þrátt fyrir blekkingu Drífu og sálufélaga hennar um friðelskandi konur, virðast kynsysturnar leita ýmissa leiða til að klekkja á körlum. Dálætisvopnið um áratugi og aldir er ásökun um kynofbeldi. Þjóðin hefur þráfaldlega orðið vitni að því síðustu árin. En það gæti farið að renna upp fyrir skynsömu fólki, að slíkar sakargiftir sýni oft og tíðum dæmigerðan vopnaburð kvenna í heilagri baráttu þeirra gegn karlillskunni. Drífu verður skiljanlega ekki tíðrætt um hann, enda blinduð af aðdáun sinni á friðareðli kynsystra sinna.

Peter Joyce tæki vafalítið treglega undir orð Drífu. Hann er kennari að mennt, eftirlaunaþegi frá Nýja-Sjálandi. Peter hefur eins og margir aðrir karlmenn þurft að sitja undir fölskum ákærum um kynofbeldi og neyðst til að verja sig gegn feðraveldislöggæslunni. Dóttir vinar hans, tæplega fertug, lagði fram kæru um nauðgun. Hún kærði einnig föður sinn fyrir endurteknar nauðganir. Hann hafði, að sögn dótturinnar, fengið vini í lið með sér til að svívirða hana. Peter var sem sé einn þeirra, enda þótt þau hefðu aldrei sést. Þetta er þekkt tilbrigði við grundvallarstefið.

Peter hefur skrifað bók um reynslu sína, „Þurraís. Sönn frásögn um falska nauðgunarákæru“ (Dry Ice. The True Story of a False Rape Complaint). Hana má fá sem rafbók (Kindle). Peter heldur einnig úti heimasíðu: blackstonesdrum.com. Auk þess hefur hann skrifað blogg um martröðina á „thedailyblog.co.nz. Neðanmáls má finna krækju á spjall við Bettina Arndt.

Í Nýja-Sjálandi eru einnig „Drífur og Katrínar.“ Þjáningasystur þeirra setja – eins og víða á Vesturlöndum – fram kröfur um fleiri kynofbeldisdómsmál gegn körlum, fleiri sakfellingar og þyngri dóma. Stöðugt er sótt að löggjafanum um útþynningu skilgreininga á kynbundu ofbeldi og afléttingu sönnunarfærslu við sakaráburð, þ.e. koma skal til móts við kröfur kvenfrelsunarhreyfinganna um að trúa „þolendum.“ Sú trú skal duga til sakfellingar.

Á grundvelli reynslu sinnar segir Peter m.a. um frumvarp (Sexual violence bill) þess efnis, sem nú bíður afgreiðslu á ný-sjálenska þinginu: „Regluna um sakleysi uns sekt sé sönnuð hefur rýrð þegar verið varpað á. Þegar dæmt er í kynafbrotamálum er einungis um þvælt kjörorð að ræða. Og verði fyrirliggjandi frumvarp samþykkt verður á hærri bratta að sækja fyrir saklausa karla, sem sæta ákæru [fyrir kynofbeldi]. Ég tala af skelfilegri reynslu sem saklaus sökunautur. Mér var ekki varpað í fangelsi, en svo hefði hæglega getað orðið eins og á við um ókunnan fjölda saklausra karla.“

Peter heldur áfram: „Falskar sakargiftir eru algengar, en þeim er lítill gaumur gefinn …“ Jafnvel þegar færðar eru sönnur á „óheiðarleika sakarábera er fátítt að þeir séu sóttir til saka vegna „opinberra hagsmuna“ (public interest). … [M]ál eins og mitt eru ekki flokkuð sem falskar ákærur, heldur eru þau sett á ís sem „opnar“ ásakanir um kynofbeldi. Það er kaldhæðnislegt, að farið sé með þær sem „sannar“ væru í staðtöluyfirlitinu (tölfræðinni). Það veldur bólgu í þeim misvísandi „gögnum,“ [sem sýna lágt] hlutfall sakfellinga í [kynafbrota]málum og flytjendur frumvarpsins beita fyrir sig.“

„Það er eingöngu fólk, sem hefur blinda tiltrú á lögreglu og réttarkerfi, sem ekki elur á ótta við ásakanir um kynofbeldi, sem kunna að koma eins og þruma úr heiðskíru lofti. Það er of einfalt til að bera skynbragð á þann einskæra hrylling, sem gæti verið handan við hornið. Svo ógeðfelldum furðum mun fjölga, verði frumvarpið samþykkt. [Sömuleiðis] verða fleiri saklausnir karlar ákærðir.“

Ros Burnett, afbrotafræðingur við Oxford háskólann, höfundur bókarinnar: „Rangar ásakanir um kynofbeldi og misnotkun barna“ (Wrongful Allegations of Sexual and Child Abuse), segir í umsögn um bók Peter:

„Við rannsóknir mínar á áhrifum rangra ásakanna hafa mér ósjaldan flogið í hug upphafsorðin í skáldsögu [tékkneska, þýskumælandi skáldsins, Franz] Kafka [1883-1924], „Réttarhaldinu“ [Der Process]. Þau lýsa því skelfilega, en fáránlega andartaki, þegar maður er tekinn höndum, án þess að þekkja ástæðuna. Frásögn Peter Joyce er nýlegt bergmál [slíkrar reynslu], þegar hann, skekinn eftir heimsókn lögreglunnar, minnist laglína í bragi The Doors: „Við lifum torkennilega daga, undarlegir dagar hafa elt okkur uppi. Þeir munu tortíma græskulausri gleði okkar.“

Hún segir enn fremur: „Peter Joyce lýsir á skýran, ljóslifandi, einlægan og aðdáunarverðan hátt hugsunum, sem svo margir aðrir, sem að ósekju hafa verið ásakaðir um hryllilega glæpi, líkast til hafa hugsað.“

Í grein sinni um efnið, birt á heimasíðu stuðningssamtaka fyrir fórnarlömb tilhæfulausra ásakanna um misnotkun, FACT (supporting victims of unfounded allegations), segir Ros: „Almennt er það svo, að oft og tíðum eru engin áþreifanleg ummerki því til sönnunar, að glæpur hafi verið framinn. Framburður sakarábera er vitnisburðurinn. Og því er treyst, að hann sé góður og gildur, þegar ekki er um andstæðan vitnisburð að ræða. Eins og í öðrum lögsagnarumdæmum (að Skotlandi undanskildu) í Englandi og Wales eru ekki gerðar kröfur til yfirlýsts sökunautar um vitnisburð til stuðnings ásökun. [Hún dugar ein og sér] til málssóknar af hálfu saksóknara og til sakfellingar kviðdóms.“ (Eftir því sem ég best veit, hafa lög um skoska réttarkerfið nú verið færðar til svipaðs horfs.)

Íslenskir kvenfrelsarar með Katrínu Jakobsdóttur í broddi fylkingar berjast fyrir ofangreindum breytingum á íslenska réttarkerfinu. Katrín kallar það umbætur.

https://www.bettinaarndt.com.au/video/surviving-a-false-historical-rape-allegation/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband