Ógnir, ótti og skelfingar í Afganistan

Einu sinni enn bíður stórveldi ósigur í Afganistan. Bandaríkjamenn hafa nú háð langvinna styrjöld í landinu með stuðningi Sameinuðu þjóðanna og NATO – ásamt beinni íhlutun þess síðarnefnda. Meira að segja kotþjóðir eins og Danir og Norðmenn létu sig ekki muna um að fórna tugum ungra karla í ”frelsisstyrjöldinni.” Og Norðmenn einni konu, muni ég rétt. Bandaríkjamenn fórnuðu aftur á móti tæplega hálfu þriðja þúsundi hermanna, rúm tuttugu þúsund særðust. Bandarískir skattgreiðendur greiddu um eina trilljón dala fyrir frelsunarævintýrið.

Innrás Bandaríkjamanna og NATO er síður en svo fyrsta innrásin, sem Afganar hafa brotið á bak aftur. Reyndar eru Afganar ekki þjóð í merkingunni tiltölulega samstæð heild manna, sem talar sömu tungu og býr við svipaða menningu. Hið stórskorna og hátignarlega landsvæði, sem vistar Afgana, hefur um aldir verið í þjóðleið milli Mið-Asíu og Suður-Asíu, Miðausturlanda, Litlu-Asíu og Indlands. Það gefur því að skilja, að þjóðir Afganistans, þjóðarbrot, ættbálkar og ættflokkar, geymi flókna sögu menningar, trúarbragða og tungumála.

Um Afganistan hafa legið leiðir fjölda innrásarherja og fólksflutningastrauma eins og til núverandi Pakistans og Indlands og Írans. Afganir eru kunnir tortímendur innrásarherja. Þekktust er líklega innrás Grikkja eða Makedóníumanna (327 e. Kr.), undir forystu Alexanders mikla. Hann lagði undir sig löndin fyrir botni Miðjarðarhafs og hina fornu Persíu (Íran) og Afganistan. En afgönsk ör varð honum næstum að fjörtjóni, svo hetjan hætti við frekari landvinninga í Suður-Asíu.

Það var yfirlýst stefna Alexanders að skapa frið og uppræta illa menningu. Það ætluðu líka Bandaríkjamenn og NATO að gera. Hernaðartilburðir Alexanders marka fyrstu bylgju evrópskra landvinninga og íhlutunar meðal íbúa Miðausturlanda og Suður Asíu. Þjóðir Litlu-Asíu og hluta Mið-Asíu, þ.e. við Svartahaf og Kaspíahaf, höfðu þeir þegar undirokað á þessum tíma.

Tæpast hefur Alexander þó alfarið stundað menningartrúboð, heldur verið að slægjast eftir auðæfum og völdum, þegar allt kemur til alls, jafnvel þótt grísk menning hafi haft upp á ýmislegt gott að bjóða. Sama má segja um alla hina heimsvaldasinnana eins og Mongóla (Genghis Kahn (1158?-1227) og sonarsoninn, Hulagu Kahn (1216-1265)), Rússa og Breta ( sem núorðið standa helst í stríðsrekstri með vinum sínum eða með aðstoð þeirra – meira að segja í Falklandsstríðinu). Því Afganistan er landfræðilega mikilvægt, en aukin heldur ríkt af auðlindum eins og olíu, gasi og málmum. Þrælasala er og var vitaskuld einnig ábatasöm tekjulind.

Enda þótt Múhameðstrú sé nær alls ráðandi í Afganistan, er enn þá unnt að finna ástundun annarra trúarbragða, sem jafnvel eiga rætur í menningu, er blómstraði, áður en arabísku bylgjurnar þrjár skullu á íbúunum. Sú síðasta þeirra átti sér stað, þegar herskáir Arabar gengu til liðs við uppreisnarmenn flestra þjóða Afgana gegn rússneska innrásarliðinu, sem byltingarmenn (marxistar) „báðu ásjár“ árið 1978. (Fyrsta bylgja arabískra áhrifa skall á Afgönum síðla á sjöundu öldinni.) Í landinu eru einnig iðkuð trúarbrögð eins og Búddatrú, Hindúatrú og kristni.

Hugmyndafræði og trúarbrögð eru áberandi í þeim hildarleikjum, sem háðir hafa verið og enn eru háðir í þessu hrjáða landi. Það er nefnilega óbrigðul aðferð innrásarherja að beita trúarbrögðum, hugmyndafræði (annarri), menningu, tungu og vopnum (stundum sjúkdómum) við kúgun sína og hernám samfélags og huga.

Önnur bylgja evrópskrar eða vestrænnar íhlutunar í líf íbúa landa Miðausturlanda og Suður-Asíu hófst með krossferðum kirkju, kónga og stórhöfðingja síðla á elleftu öldinni. Það vakti í orði kveðnu fyrir þeim að frelsa heilagan vettvang kristinnar sögu. Krossfarirnar urðu þrjár og stóðu yfir í um það bil tvær aldir og lögðu grundvöll að hatursfullum samskiptum fólks af kristinni trú og Múhameðstrú, skapaði grundvallarklofning milli þessara trúarbragða.

Þriðja bylgjan hófst með útrás evrópsku stórveldanna um höfin blá að áliðinni fimmtándu öldinni. Bretar gerðu sig sem kunnugt er sérstaklega heimakomna á fyrrgreindum slóðum (og Íslandi einnig). Arfur þeirra og annarra hernaðarvelda evrópskra skiptir enn þá sköpum með tilliti til ríkjamyndunar, þjóðernis, menningar, efnahags og trúarbragða (í veröldinni allri reyndar).

Nefndar þjóðir stofnuðu meira að segja bandalag, þ.e. Þjóðabandalagið, til að leggja blessun yfir valdbrölt sitt og arðrán. Sameinuðu þjóðirnar spruttu úr þeim jarðvegi, enda hafa þar tögl og haldir stórveldi gömul og ný, ásamt yfirumsjón með samningu og samþykkt alls konar laga, samninga, samþykkta og sáttmála, sem yfirleitt gagnast þeim best sjálfum. Dæmi er samningnum um kvenfrelsun og afnáms alls ofbeldis gegn konum, svo og mannréttindasáttmálinn, sem m.a. Eleanor Roosevelt (1884-1962) tók þátt í að semja, en hún var kunnur kvenfrelsari.

Innrás Bandaríkjamanna í Afganistan, sem í mörgu tilliti hafa tekið við stöðu gömlu móðurþjóðarinnar sem alheimsdrottnari, auðvald og „frelsisútvörður,“ er síðasta birtingarmynd hins djúpa klofnings trúarbragða, hagsmuna og menningar Vesturveldanna og hinna. Það mætti jafnvel tala um fjórðu bylgju vestrænnar íhlutunar og ýgi. Slíkur klofningur kyndir undir óeiningu, ófrið, hryðjuverk, morð og fordóma á báða bóga.

Hugmyndafræðilegt vopnabúr vestrænna þjóða, hefur auðgast af markvissri beitingu hugmyndafræði kvenfrelsunar, þ.e. að konur þjóða, sem fyrir innrásinni verða, séu kúgaðar af körlum sínum, og ættu því að snúast á band með innrásarliðinu. Samtímis er höfðað til karlfórnarlundar og riddaralundar innrásaraliðsins með neyð kvenna.

Slík tilhöfðun er þó ekki alveg ný af nálinni. Bresk stjórnvöld beittu þessari brýningu á strákana, sem voru ófúsir að fylgja herforingjum sínum í dauðann. Sögðu þýskum konum nauðgað af ljótum (þýskum) körlum. Í fyrri heimsstyrjöldinni beittu kvenfrelsararnir sömu aðferð á strákana. Væru þeir deigir og bleikir fengu þeir hvíta fjöður, tákn ræfildóms og hugleysis. Eins og ævinlega í rás sögunnar hafa karlmenn aldrei mátt neitt aumt og kvenlegt sjá, án þess að steðja til varnar.

Afganar eru trúlega um þrjátíu og átta milljónir eða svo. Fjórar þjóðir eru þar mest áberandi: Pastún (Pasthun) rúm fjörutíu af hundraði, Tælík (Tajlik) rúmur fjórðungur og Hasarar (Hazara), sem telur um tíunda hluta þjóðarinnar. Nefndir þrír hópar tala tungur eða mállýskur af persneskum eða írönskum toga eins og Pasto (Phasto), farsi og dari. Usbekar (Uzbek) eru einnig um tíund íbúa. Þeir tala aftur á móti túrkmenska eða tyrkneskt ættað tungumál.

Afganir hafa munað sinn fífil fegri, lifað í stórveldi eða heimsveldi. Durrani stórveldið eða Sadozai konungsríkið sá dagsins ljós á átjándu öld og tók til miklu stærra landsvæðis en Afganistan er um þessar mundir. Það var reyndar annað stærsta heimsveldi Múhameðstrúarmanna, næst á eftir Ottóman veldinu á síðari hluta átjándu aldar. Síðasti konungur Afgana var Mohammed Zahir Shad (1914-2007). Honum var velt úr sessi, sex árum áður (1973) en innrásarlið Ráðstjórnarríkjanna (Rússlands) hóf fjögurra ára langan stríðsrekstur sinn í landinu.

Afganistan á landamæri að fjölda landa eins og Pakistan (og Indlandi áður fyrri), Íran, Kína, Túrkmenistan, Usbekistan, Tadsjikistan (og Ráðstjórnarríkjunum eða Rússlandi áður fyrri). Íbúar þess eru á engan hátt einangraðir innan núverandi landamæra, heldur búa einnig í nálægum löndum eða ríkjum. Sambúð hinna mismunandi þjóða og ættbálka, hefur ævinlega verið róstusöm og ofbeldisfull með fjöldamorðum og þjóðernishreinsunum, þar sem í valnum hafa legið karlar, konur og börn. Einkum hafa Múhameðstrúarmenn, sem aðhyllast mismunandi túlkanir Kóransins, borist á banaspjótum. Talibanar eru því ekki einasta nemendur í öfgafgullri Múhameðstrú heldur einnig hermennsku og hryðjuverkum.

Talibanar eða trúarlærlingarnir eru sköpunarverk Pakistana, um aldarfjórðungs gamalt, en þar hefur orðið mikil endurnýjun fyrirmenna og foringja. Pakistan varð til skömmu fyrir miðja síðustu öld, þegar bresk-indverska heimsveldið klofnaði um það bil eftir trúarbrögðum, þ.e. Pakistanar eru eins og flestir Afgana, Múhameðstrúar.

Trúarlærlingarnir eru verkfæri Pakistana til aukinna áhrifa á svæðinu, sögulega einkum gegn áhrifum Írana og Rússa. Þeir hafa eins og aðrar stríðsfylkingar í Afganistan, gerst sekir um skelfileg níðingsverk. En níðingsverk og þjóðernishreinsanir eru þar um slóðir engin nýlunda - eins og víða um heim.

Eftir að Íranir féllu úr náð Bandríkjamanna hafa þeir í auknum mæli veðjað á vináttu við Tyrki, Sádi Araba og arabísku furstadæmin til að varðveita og efla ítök sín á umræddu svæði. Vegna Innrásar Rússa stigu þeir í vænginn við Pakistana. En sem fyrr sagði, eru trúarlæringarnir skilgetið afkvæmi þeirra. Nauðsyn bar því til að strjúka kvið. Það kviknuðu tímabundnar ástir með nefndum fjendum.

Árangur þessara samfara varð allra handa stuðningur við trúarlærlingana, m.a. nýtísku vopn, sem erkifjandi Bandaríkjamanna, Osama bin Laden (1957-2011), sem Barrack Obama (f. 1961), forseti Bandaríkjanna, lét myrða í Pakistan, beitti síðar, ásamt bandamönnum sínum, í baráttunni gegn Rússum og afgönskum bandingjum þeirra. (Bandaríkjamenn framleiddu meira að segja áróðurkennslubækur fyrir Taliban handa Afgönum, þar sem hvatt var til baráttu gegn hernámi útlendra herja.)

Sömu vopnum var síðan beitt í hryllilegri borgarastyrjöld, sem fylgdi í kjölfarið, og lagði endanlega efnahaginn í rúst. Það er reyndar grátbroslegt og sorglegt, að svipuð saga endurtaki sig nú, þegar innrásarlið Bandaríkjamanna og NATO hverfur með skottið milli lappanna. Vopn þeirra og búnaður, sem skattgreiðendur Vesturlanda hafa greitt, fellur í skaut trúarlæringanna og andlegra afkomanda Osama bin Laden til frekari hryðjuverka, kúgunar og landvinninga. Frá eru talin þau hergögn, sem afganski málamyndaherinn flúði með til annarra landa.

Ástandið í Afganistan minnir óneitanlega á önnur „frelsisstríð,“ vestrænna þjóða. Þau stuðla aldrei að eiginlegum friði í kristnum kærleika, heldur skapa hatur og skilja eftir sig sviðna jörð, meðan fordómaklyfturinn stækkar og jarðvegur hryðjuverka auðgast. Stríðið elur af sér kvislinga, sem hljóta vond örlög, nái þeir ekki að flýja. Eins og í Víet Nam leggja innrásarherirnir loftbrú til að forða þeim, sem þeir vildu frelsa undan landsmönnum og menningu.

Í Afganistan hafa þessir herir haft sérstakt lag á því að skapa sér andstöðu meðal almennings með sams konar hryðjuverkum og andstæðingarnir hafa beitt og óbilgjarnri aðför að menningu þeirra. Sama má segja um alla þá spillingu, sem þrifist hefur í skjóli innrásarhersins, samtímis því, að stoðum hefur verið kippt undan eðlilegu atvinnulífi með „neyðaraðstoð“ og alls konar gerviatvinnulífi, þ.e. þjónustu við herliðið og gæluverkefni af vestrænum toga.

Það er fróðlegt að fylgjast með fréttaflutningi af þessum atburðum. Íslenskir stjórnmálamenn geta með engu móti skilið, að allt þeirra starf að kvenfrelsun og mannréttindum – en það var þáttur Íslendinga í innrásinni og hersetunni – skuli unnið fyrir gýg. Utanríkisráðherra er jafnvel enn þá hjárænulegri en vanalega. Fréttastofa RÚV veit varla í hvorn fótinn hún eigi að stíga. Rannsóknarblaðamönnum hennar er torskiljanlegt, að konur í Afganistan vilji ekki láta frelsa sig - og lýsa því svo „dramatískt,“ hversu illir trúarlæringarnir eru við konur. Miðillinn segir trúarlærlingana misþyrma konum, þegar þeir segjast vera að vernda þær (fyrir sjálfum sér væntanlega). Þegar mikið liggur við er Stella Samúelsdóttir, forstýra „UN Women“ á Íslandi kölluð til vitnis.

En sannleikurinn virðist sá, að trúarlærlingarnir eru vondir við margt fólk, karla ekki síður en konur. Þeir eru líka vondir við forna menningu í eigin landi, andlega og áþreifanlega. Sprenging fornfrægra Búddalíkneskja í loft upp er eitt dæmi um eyðileggingarþörf þeirra og öfgafullan rétttrúnað. (Þó voru þeir ekki einhuga um þessa ósvinnu.)

Athygliverðasta nýsköpun trúarlærlinganna í löggæslu er vafalaust Siðvendnilögreglan, sem óneitanlega minnir á siðgæðisdeild lögreglunnar íslensku á hernámsárunum og nú á kvenfrelsunarsiðgæðistímum, þegar hópur manna er að eltast við karla, sem kaupa sér drátt. En kynblíðusölu- og vændiskaupakonurnar eru ekki eltar uppi. Það væri eltihrellaleikur og kynbundin ósvífni. Og hvaða lögreglumaður vill gerast sekur um slíkt athæfi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband