Bloggfærslur mánaðarins, mars 2021

Kvenfrelsunartónvísindi. Beehhoven og Bartók voru kynfól

Kvenfrelsunartónvísindi hafa rutt sér til rúms á Vesturlöndum. Þau fela í sér gagnrýni á aldagamla tónlistarhefð á grundvelli þeirrar hugmyndafræði, að karlar hafi kúgað konur frá upphafi vega – og að þeir beiti tónlistinni við þá ljótu iðju.

Norður-ameríski tónvísindamaðurinn, Kimberly Reitsma, sagði árið 2014 um kvenfrelsunartónvísindi (feminist musicology): „Tilgangur hinnar nýju nálgunar, sem gengur undir því losaralega nafni, „kvenfrelsunartónvísindi,“ er að uppgötva, greina, ræða og koma á framfæri því, sem að konum lýtur [í tónlist], ásamt „kvenkjarnanum“ í hinum aðskiljanlegu greinum tónlistar. … [Umrædd nálgun] kynnir kvenfrelsunarhugmyndafræði við rannsóknir á tónlist.“

Susan McClary (f. 1946) er brautryðjandi kvenfrelsunartónvísinda. Hún er menntuð í tónlistarfræðum við Harvard háskóla og hefur kennt við marga velmetna háskóla í BNA og Kanada. Susan hefur meira að segja verið prófessor við Háskólann í Osló.

Susan hefur samið grundvallarrit fræðanna, sem hún kallar „Kvenlegar lyktir: Tónlist, kynskilningur og kynferði“ ( Feminine Endings: Music, Gender, and Sexuality), sem kom út árið 1991. Þar kynnir höfundur m.a. ungverska meistarann, Béla Viktor János Bartók (1881-1945), og snillinginn þýska, Ludwig van Beethoven (1770-1827). Verk þeirra, segir hún, eru þrungin ofbeldi, kvenhatri og kynþáttahyggju. Óperutexta þess fyrrnefnda kallar hún kynfautalega (sexist).

Susan segir enn fremur: “Kventónlistarmenn hafa umvörpum verið lattir til þátttöku á tónlistarsviðinu og til að þroska gáfur sínar, á þeirri kynfólskulegu forsendu, að þær gætu með engu móti búið yfir skapandi gáfum. Verk kventónsmiða hafa ekki hlotið verðskuldaða viðurkenningu.”

“[U]ppbygging sígildrar tónlistar er órjúfanlega kynjuð og þess vegna er ekki unnt að líta svo á, að hún hafi til að bera algilda, hlutlæga og forskilvitlega verðleika, sem eigi rætur í fegurðargildi hennar. Það er háð samstillingu kyns tónsmiðs og áheyranda, hvers kyns skírskotun tónlistin kann að hafa.“

“[M]argar hljómkviða Beethoven lýsa verulegri angist með tilliti til kvenlegrar andrár (moment) og bregðast við henni með gífurlegu ofbeldi. … Níunda sinfónía Beehoven leysir úr læðingi hin hryllilegustu ofbeldisatriði í sögu tónlistarinnar. … Trúlega er Níunda sinfónían óviðjafnanlega sannfærandi tjáning í tónum, á þeim mótsagnakenndu hvötum, sem frá upphafi Upplýsingarinnar hafa stuðlað að skipan feðraveldismenningarinnar.“

Um níundu sinfóníu Beehoven segir hún annars staðar: „Ítrekun [grunnstefanna] í fyrsta kafla þeirrar Níundu býður upp á einhverjar skelfilegustu andrár í tónlist. Hin vandlega undirbúna röð hljómanna er sundurtætt, byggir upp spennu, sem að lokum fær útrás í hranalegu morðæði nauðgarans, sem er ófær um að leysa girnd sína.“

Í Óloknu sinfóníu hins kyntvíræða - að hennar sögn - austurríska tónskálds, Franz Peter Schubert (1797-1828), er á hinn bóginn að finna “hið þokkafulla, kvenlega” lag, sem við finnum samhljóm með, en er kveðið niður með hrottafengnum og sorglegum hætti.”

Susan er verulega illa við sónötuna, sem hún telur kynfólskulega, kvenfjandsamlega og þrungna heimvaldastefnu. „[T]óntegundin sjálf – [sem er] til þess fallin að skapa væntingar og sem í kjölfarið heldur aftur af fullnægjunni, þar til hápunkti er náð, var mikilvægasta leið tónlistarmanna á tímabilinu 1600 til 1900 til að vekja þrá og finna henni farveg.“


Pink Floyd. Föðurmissir Bleiks

Það er mikið vatn runnið til sjávar, síðan ég, ungur háskólanemi, hlýddi á ”Vegginn” (The Wall), plötu Pink Floyd, árið 1979. Tónlist þeirra hafði djúpstæð áhrif á mig, mér rann hvað eftir annað kalt vatn milli skinns og hörunds, svo ógnarleg voru umbrotin. Þegar tónlistinni lauk sat ég sem lamaður, stjarfur.

Þessi fyrstu kynni af Veggnum rifjuðust upp fyrir mér um daginn, þegar ég hlustaði á spjall þeirra Janice Fiamengo, Tom Golden og Paul Elan. (Krækja neðanmáls.) Þá varð mér ljóst, að hér er að miklu leyti lýst sálarumbrotum í lífi Roger Waters (f. 1943), sem var meðal stofanda sveitarinnar. Hún var stofnuð í Lundúnum 1965. Roger yfirgaf sveitina árið 1985.

Roger fæddist foreldrum sínum, kennurum að mennt, í Surrey á Englandi. Stóri bróðir var þá barnungur. Faðir Roger skráði sig í herinn, enda þótt friðarsinni væri. Hann féll við Anzio á Ítalíu, þegar Roger var aðeins fimm mánaða gamall. Móðir hans fluttist til Cambridge.

Tónlistin á umræddri skífu varð á árinu 1982 umgjörð kvikmyndaðs söngleiks. Alan Parker (1944-2020) leikstýrði og Robert Frederic Zenon (Bob) Geldof (f. 1951) lék aðalhlutverkið.

Í myndinni er lýst í tónum og myndum innri baráttu rokkstjörnunnar, Bleiks, sem verður brjálæði að bráð, þegar hann missir föður sinn. Í áhrifamiklu upphafsatriði myndarinnar situr drengurinn hrjáður af sorg vegna dauða föðurins og í hugskotinu leiftra myndir af orrustunni við Anzio.

Í öðru eftirtektarverðu atriði er því lýst, þegar Bleikur er niðurlægður af óhamingjusamri kennslukonu fyrir kveðskap sinn. Skólanum er lýst sem kjötkvörn. Í hugarórum söguhetjunnar gera börnin uppreisn og kveikja í skólanum. (Á Íslandi eru dæmi um slíkt, bæði leik- og barnaskóla.)

Á fullorðinsaldri minnist Bleikur ofverndunar af hálfu móður sinnar. Ofverndunarmæður gefa börnum sínum hvorki lausan taum, né skapa þeim skilyrði til andlegs sjálfstæðis. Næsta „móðir“ í lífi hans er eiginkonan, sem svíkur hann í tryggðum.

Þegar Bleikur hverfur á vit herbergis síns í gistihúsi býður hans kvenaðdáandi, iðandi í skinninu. En Bleikur bregst hinn versti við, brýtur allt og bramlar í ofstopakasti. Myrkur þunglyndis hellist yfir hann. Veggurinn eða múrinn einangrar listamanninn frá umheiminum. Heltekinn angist verður Bleikur fangi hugaróra um stríð og ofbeldi, ánetjast fíkniefnum.

Undir lokin sameinast konurnar í líf hans og leita fulltingis hjá réttarkerfinu. Hann er ásakaður fyrir að sýna tilfinningar, sem gætu hér um bil verið mannlegar. Roger eru engin grið gefin. Dómarinn krefst þess, að veggurinn sé rifinn (eins og Berlínarmúrinn nokkrum árum síðar) og móðir hans reynir að særa hann „heim.“ (Að töluverðu leyti byggt á grein í Wikipedia.)

Föðurleysið hefur í áratugi verið mér umhugsunarefni. (Bendi áhugasömum á viðeigandi greinar á: arnarsverrisson.is.) Í viðurstyggð seinni heimsstyrjaldarinnar ber hátt milljónir föðurlausra (og munaðarlausa) barna. Hvaða áhrif hafði hildarleikurinn á þau?

Það liggur beint við að álykta, að þau hafi fæst notið föðurhandleiðslu eða föðurígildishandleiðslu - og fullnægjandi örvunar. Mörg þeirra hafa ratað inn á opinberar uppeldisstofnanir. Gæti verið, að raunveruleg og ímynduð vonbrigði í garð feðra, karla, skýri þá ógnarlegu föðurfjandsemi eða múgsefjun gegn körlum, sem fékk byr undir báða vængi með fyrstu kynslóðum eftir stríð?

Fjandskapur gegn feðrum og körlum vindur upp á sig. Stöðugt ný og endurnýjuð vonbrigði skapa meiri úlfúð. Um þriðjungar barna er nú meira eða minna föður- og karlmannslaus. Hvað ætli þessi börn hugsi um eigin feður og feður almennt?

Það er ófáar sorgar- og haturssögur ungra kvenna um feður sína á allra vörum. Karlar óttast að líta stúlkubarn augum (og börn yfirleitt) af hræðslu við ásakanir um óþverrahátt. Einn þeirra sá litla stúlku ráfa niður að þorpstjörninni. Hann varð skelfingu lostinn eins og allir feður verða við slíkar aðstæður. En óttinn bar dómgreind og föðureðli ofurliði. Stúlkubarnið drukknaði.

Í vitund fólks – meira að segja glöggra kvenna – vofir „vondi karlinn“ sífellt yfir. Vansælar konur, samkynhneigðar konur og kynlausar, eru áberandi meðal hatursfullra fræðimanna kvenfrelsaranna og þeirra, sem boða kvenfrelsunarsamfélagið, hið nýja gyðjuveldi. Þarna gætu verið skilningssamhengi.

https://www.youtube.com/watch?v=17e_KuKRbrM


Kynfólin falla að fótum kvenna. Nornaveiðar á veiðilendum stjórnmálanna

Skammur tími er umliðinn síðan Frank Jensen, yfirborgarstjóri Kaupmannahafnar, sagði af sér vegna ósiðlegrar kvensemi. Samkvæmt sakarábera, Maria Gudme, hafði Frank á ölstofu árið 2012 lagt hendi á læri hennar og strokið upp undir klof. Foringi „Róttæka flokksins,“ (Radikale) Morten Östergaard, ráðherra, var ekki eins kræfur fyrir tíu árum síðan. Hann lét sér nægja að leggja höndina á læri Lotte Rod. Hann missti ráðherradóminn eins og sveindóminn áður. (Hinir dönsku eru lærissæknir mjög.) Gerð er aðför að Jeppe Kofod, sem átti samræði við fimmtán ára stúlku (yfir lögaldri), rúmlega þrítugur. Stúlkan hafði fúslega þegið boð um samverustund á hótelherbergi í teitislok. Fyrrverandi ráðherra þróunaraðstoðar, Christian Friis Bach, liggur óvígur, eftir slúður um kynáreitni.

Á heimavígstöðvunum hefur verið hægt og hljótt, síðan Samfylkingin fórnaði erkikvenfrelsaranum, Ágústi Ólafi Ágústssyni, fyrir ýmis konar kynfólsku. Hann gaf meira að segja í skyn, að núverandi ríkisstjórn væri undir forsæti Bjarna Benediktssonar - fyrir utan meginglæpinn, þ.e. að reyna að stela kossi kvenmanns, lagalega fullveðja, sem bauð honum á mannlausan vinnustað, eftir næturlífsfjör.

Í Bandaríkjum Norður-Ameríku er fjörið mest að vanda. Andrew Como, ríkisstjóri og kvenfrelsari í Nýju Jórvík (NY), er m.a. þekktur fyrir aðfarir að körlum, sem ásakaðir hafa verið fyrir kynáreitni í garð kvenna (og kóf-klúður). En nú snúast spjótin í höndum hans eins og mörgum meðreiðarsveinum kvenkyns kvenfrelsara. Hann er ákærður fyrir kynbundið ofbeldi gegn fjölda kvenna, sjö að tölu, þegar síðast var vitað, sígild ákæra orðin í stjórnmálum og opinberu lífi yfirleitt á Vesturlöndum.

Ákærurnar eru þessar í hnotskurn: 1)Hann kyssti mig án leyfis á varirnar á skrifstofu sinni; 2) Ég fékk á tilfinninguna, að hann vildi eiga við mig kynlíf; 3)Hann kyssti mig á kinnina í giftingarveislu, en bað mig um leyfi; 4)Hann faðmaði mig of innilega í illa lýstri vistarveru á gistihúsi fyrir rúmum tuttugu árum síðan; 5)Hann kallaði mig elsku (sweetheart), kyssti á hönd mína og snerti bak mitt að neðanverðu; 6)Hann otaði að mér pylsu í ásýnd dóttur sinnar – og vildi að ég æti hana (það er hér um bil það sama og að þvinga til munnmaka); 7)Hann hagaði orðum sínum á þann veg, að mér leið eins og ég væri barasta pils; 8)Hann snerti á mér olbogann; 9)Hann stakk hendinni óforvarandis undir skyrtuna og tók að þukla mig. Steininn tók þó úr, þegar ríkisstjórinn kallaði einn sakaráberanna „þekktan andstæðing.“ Það er hér um bil eins og að hika við að trúa nauðgunarákæru.

Jessica Bakeman skrifaði grein í „Intelligencer“ með titlinum: „Cuomo sá til þess, að það liði mér ekki úr minni, að ég væri kona“ (Cuomo Never Let Me Forget I Was a Woman). Sakaráberinn segir m.a.: „Ég hafði fundið fyrir höndum Andrew Cumos á líkama mínum – á handleggjum, öxlum, lágbaki og mitti. Það var nógu oft til að ég hafði ekki löngun til að vera honum samtímis í … teiti ….“

Sakaráberarnir, konurnar umræddu, hrósa hver annarri – sem og fleiri gera og vera ber – fyrir hugprýði, en þær þjást enn af skömm, hugarangri, skelfingu og smán. En ríkisstjórinn situr sem fastast og sýnir alkunnan hrokagikkshátt, sem er dæmigerður fyrir karla. Kappinn segist saklaus vera. Honum virðist ekki ljóst, að við ofurefli sé að etja. Hans vitjunartími er kominn. Örlaganornirnar hafa spunnið vefinn.

Jessica González-Rojas, þing- og samflokksmaður Cuomo, er einn andstæðinga hans. Hún sér, að nú er lag, og bendir á nauðsyn þess að andæfa stærilæti ríkisstjórans og eitraðri karlmennsku hans. „Nú kastar tólfunum – við megum ekki virða að vettugi kynfólsku og valdamisnotkun þessa ríkisstjóra.“ Ætli hún eigi sér ríkisstjóradraum?

Það er róið öllum árum: Shaunna Thomas, meðstofnandi „UltraViolet,“ sem er baráttuhópur kvenfrelsara gegn kynfólsku, kynbundnu ofbeldi og öðru meinlegu hátterni karla, sagði: „Runnin er upp örlagastund réttlætis í garð aflifenda. Nauðsyn ber til að senda kýrskýr skilaboð [þess efnis], að áreitni og misnotkun á vinnustöðum hafi afleiðingar í för með sér eins og [þær] að geta ekki verið ríkisstjóri Nýju-Jórvíkur ríkis.“ Rúsínann í pylsuenda þessa stórkostlega leikrits er forsetapar Bandaríkja Norður-Ameríku, fjölþreifinn forseti (að eigin sögn), sem kvenfrelsararnir með „mee-too“ foringjann, Alyssa Milano, i fararbroddi, fyrirgáfu, sökum tímabundinnar gagnsemi - og varaforseti, sem fór í reiðtúr upp á miðjan alríkistindinn. Reiðskjótinn var roskinn áhrifakarl í stjórnmálum Kaliforníu, þeldökkur og harðgiftur.Kamala er kvenhetja, fyrirmynd kvenna í stjórnmálum Vesturlanda.

https://www.theguardian.com/us-news/2021/mar/14/andrew-cuomo-unraveling-sexual-harassment-bullying-nursing-homes https://nymag.com/intelligencer/article/andrew-cuomo-sexual-harassment-albany-reporter.html


Bret Weinstein útlægur ger. Menningarhrun?


Árið 2017 féll enn þá einn ”útlegðardómur” við æðri menntastofnanir í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Sögusviðið var lítill háskóli í bænum Olympíu í Washington-ríki, ”Sígræni háskólinn” (Evergreen College). Þróunarlíffræðingurinn, Bret Weinstein (f. 1969), sem þar hafði kennt í árafjöld og átti heimili sitt á háskólalóðinni, andmælti þeim ákveðnu tilmælum, að allir bleikskinnar skyldu halda sig frá háskólanum tiltekinn dag. Þann dag kenndi hann í almenningsgarði.

Það skipti engum togum, að reiður múgur fimmtíu námsmanna, gerði honum aðför, og krafðist afsagnar hans fyrir kynþáttahatur. Bret gat enga vernd fengið. Gengið var að kröfum múgsins, þ.e. Bret dró sig í hlé. Síðar höfðuðu Bret og eiginkona hans, Heather Heying (f. 1969), einnig kennari við skólann, mál gegn honum. Það samdist um bætur.

Bret sagði í tengslum við málareksturinn: ”Þetta snýst ekki um málfrelsi og þetta hefur sáralítið með æðri menntastofnanir að gera (college campuses). Málið snýst um bilun í undirstöðum menningarinnar og hennar gætir víða. Æðri menntastofnanir kunna að vera fyrsti vígvöllurinn, en vitaskuld er gatan til dómsstólanna greið. Hennar er nú þegar vart í tæknigeiranum [og] mun rata inn í æðstu stjórnun [þjóðarinnar], séu ekki slegnir varnaglar. Og í raun og sann er viðbúið, að [nefnd bilun] verði menningunni skeinuhætt.”

Ennfremur segir Bret: ”Við höfum plægt akurinn fyrir þykjustusvið [í æðri menntun], sem eru eins konar ígildi menntunarhlunninda (analytical affirmative action), þar sem studdar eru hugmyndir, sem í engu eiga rétt á sér. Þessar hugmyndir eru afar óburðugar og eitraðar. … Sé [þeim] ekki andmælt … [og nái þær til] annarra undirstöðustofnana menningarinnar, mun hún hrynja. Því verður að spyrna við fótum.”

Með ofangreindum gjörningi og ummælum hefur Bret skipað sér í raðir félaga í hinu ”myrka menntamannaandófi” (intellectual dark web), sem berst gegn útlegðarmenningunni (cancel culture), stjórnmálalegum rétttrúnaði og kynja- eða samsömunarstjórnmálum (identity politics). Hugtakið er kennt við stóra bróður Bret, Eric Ross Weinstein (f. 1965), sem er forstjóri og menningarrýnir.

Gerð hefur verið röð þriggja fræðsluþátta um þetta uppistand. Hér er sá fyrsti. Þar er m.a. fjallað um kynþáttakúgunarskilning litskinna við skólann.

https://www.youtube.com/watch?v=FH2WeWgcSMk.


Kynskiptadómar

Um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar urðu læknum á alvarleg mistök, þegar umskera átti tvíburasveinbarn, Bruce, í Kananda. Það vildi ekki betur til en svo, að eyðilagður var reður drengsins.

Í kjölfar slyssins var leitað til nýsjálenska sál- og kynfræðingsins, John William Money (1921-2006). Hann hlaut doktorsnafnbót við Harvard háskólann í Boston og síðar margs konar viðurkenningar fyrir framlag sitt til kynfræðinnar. John starfaði lengst af við John Hopkins háskólann í Baltimore, Maryland, sem prófessor í barnalækningum og lækningasálfræði (medical psychology). Hann stofnaði ásamt franska innkirtlafræðingnum, Claude Migeon (1923-2018), kynskilningsdeild (Gender Identity Clinic) við háskólann árið 1965. Hann var einnig viðriðinn kynhegðunarskor (Sexual Behviors Unit) háskólans. Þar beindust rannsóknir m.a. að „kynleiðréttinga-skurðaðgerðum“ (sex-reassignment surgery).

Kenning John er eins konar undanfari hugmyndarinnar um kyn sem hugarfóstur eða hugsmíði (cognitive (social) construct). Sú hugmynd var tekin upp í kvenfrelsunarfræðin og hefur reynst afdrifarík og lífsseig.

Víkur þá sögu aftur til Bruce. John mælti með því, að hann gengist undir kynbreytingaraðgerð. Eistu hans voru numin á brott, þegar hann var tæpra tveggja ára. Foreldrar Bruce samþykktu kvenkynvakagjöf, en spyrntu við fótum, þegar John lagði til, að mótuð yrði skeið við skurðaðgerð. Jafnframt stuðlaði John að því, að bræðurnir (eða systkinin) stunduðu kynleiki, þar sem hann taldi það heppilegt fyrir kynheilsu og -þroska.

Foreldrarnir sögðu börnunum alla sólarsöguna, þegar þau komust á unglingsaldur. Bruce sagði sig strák og enn var skorið til að „leiðrétta“ líkama hans. Þessari sorgarsögu lauk með því, að tvíburarnir sviptu sig lífi.

Um hálfri öld síðar, haustið 2020, var sögð ný og raunaleg saga í Englandi. Kona, snemma á þrítugsaldri, þekkt sem Keira Bell, stefndi Tavistock sjúkrahúsinu í Lundúnum fyrir mistök. Hún hafði leitað sextán vetra gömul til kyndeildar sjúkrahússins, þar sem henni var, eftir þrjú klukkustundarlöng viðtöl, ráðlagt að gangast undir kynskipti. Henni voru ávísuð lyf til að stöðva kynþroskan, svokölluðum kynþroskahemlum (puberty blockers). Eitt leiddi af öðru eins og Keira orðar það, og fyrr en varði hafði hún þegið gagnkyns-kynvakameðferð (cross-sex hormone therapy). Réttarhaldið snerist einkum um það, hvort ætla mætti, að unglingar væru í stakk búnir til að taka upplýsta ákvörðun um að gangast undir kynskipti. Dómur í máli Keiru féll undir lok fyrra árs.

Í dómsorði segir m.a.: „Það er afar óvenjuleg meðferð að ávísa kynþroskahemlum handa fólki í kynþroskun, af eftirtöldum ástæðum: Í fyrsta lagi er um að ræða raunverulega óvissu með tilliti til afleiðinga meðferðarinnar til skemmri og lengri tíma. Að okkar dómi, er henni með réttu lýst sem tilraunameðferð.

Í öðru lagi ríkir óvissa um tilgang meðferðarinnar; sér í lagi, hvort um sé að ræða „umþóttunarhlé“ í „kynvakahlutlausu“ ástandi eða meðferð til að takmarka áhrif kynþroskunar – og þar með þörf á umfangsmeiri inngripum við skurðaðgerð og lyfjagjafir (chemical), þegar fram líða stundir – eins og fram kemur í skýrslu Heilbrigðisrannsóknastofnunarinnar (Health Research Authority).

Í þriðja lagi eru afleiðingar meðferðarinnar ærið flóknar, hugsanlega ævilangar, og leiða til eins djúptækra umbyltinga í lífinu og hugsast getur. Meðferðin ristir inn að rótum kynskilnings hlutaðeigandi. Því er að þessu leyti um einstæða lækningu að ræða, eftir því sem best verður séð.

Aukin heldur verður að íhuga eðli og tilgang lyfjainngripanna (medical). Kynröskun, KR, ástandið, sem meðferðinni er beint að, er líkamlega ógreinanlegt. Aftur á móti hefur meðferðin, sem i boði er vegna ástandsins, beinar líkamlegar afleiðingar, þar eð tilgangur með lyfjagjöfinni er að koma í veg fyrir þær líkamlegu breytingar, sem ella hefðu orðið, sér í lagi þá lífeðlislegu (biological) þroskun, sem hefði átt sér stað á þessum aldri.

Einnig er það álitamál, hvort réttmætt sé að flokka KR sem sálræna vanheilsu eins og virðist gert í DSM-5 [sjúkraskrá norður-ameríska geðlæknafélagsins, fimmta útgáfu], enda þótt við viðurkennum, að til séu þeir, sem kysu, að ástandið væri ekki þannig flokkað.

Hvernig sem því nú er farið, er að okkar dómi um að ræða – með skírskotun til áðurnefndra raka – lækningainngrip (medical intervention) frábrugðin í eðli sínu annarri meðferð og lækningainngripum. Í öðrum tilvikum er lækningum beitt til að ráða bót á eða milda einkenni greindrar líkamlegrar eða andlegrar vanheilsu – og áhrif þeirrar meðferðar er auðsæ og hnitmiðuð. Afstaðan til kynþroskahemla virðist ekki endurspegla það viðhorf.“

Dómarar líta svo á, að engin von sé til þess, að börn undir sextán ára aldri, geti tekið vitlega afstöðu til slíkrar meðferðar. Einnig er mælt með því, að þess háttar meðferð unglinga, fram að sjálfræðisaldri, sé borin undir dómara.

Birtist í Mbl. 16. mars 2021: https://www.mbl.is/greinasafn/kaupa_grein/1775805/?redirect=%2Fgreinasafn%2Fgrein%2F1775805%2F%3Fitem_num%3D0%26searchid%3Dec28987ad8e870f29ec5d7ea764db4220014e3ef%26t%3D798554561&page_name=article&grein_id=1775805


Góðu strákarnir í Gaukshreiðrinu

Hildarleikur seinni heimsstyrjaldarinnar markaði þáttskil í leit mannsins að frelsinu. Samfélagsrýni millistríðsáranna elfdist. Þar komu t.d. við sögu þýskir heimspekingar og samfélagsfræðingar úr Frankfurt-hópnum við háskólann í Frankurfurt am Main (Institut für Sozialforschung); Max Horkheimer (1895-1973), Theodor W. Adorno (1903-1969) og Herbert Marcuse (1898-1979). Þeir sóttu m.a. innblástur í kenningar þýska hagspekingsins, Karl Marx (1818-1883), og austurríska sálkönnuðarins, Sigmund Freud (1856-1939), í rýni sinni. Rannsóknir hópsins gengu síðar undir nafninu, gagnrýniskenning (Kritische Theorie), og hafði víða áhrif á Vesturlöndum.

Einnig ber að nefna þýska sálkönnuðinn Erich Seligmann Fromm (1900-1980) og austurríska sálkönnuðinn, Wilhelm Reich (1897-1957), sem var áhrifamaður í verkalýðsbaráttunni og lagði grundvöllinn að svonefndum „kynlífsstjórnmálum“ (Sex-pol), sem fólst í því að vekja fólk til vitundar um kúgandi kynlífssiðferði. Hann taldi, að það væri þáttur í „oki siðmenningarinnar,“ sem læriföður hans, Sigmund, var tíðrætt um. Verk Wilhelm voru talin svo hættuleg í landi hinna frjálsu, að þau voru brennd á báli.

Fyrrgreind fræði svo og fræði hins merka franska tilvistarheimspekingsins, Jean-Paul Sarte (1905-1980), urðu hugmyndafræðilegur grundvöllur kynlífsbyltingarinnar á sjöunda áratugnum og afsprengi hennar, blómabarnanna eða hippanna, í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Frjálst kynlíf og frjáls víma, ásamt kerfisrýni og andstöðu við stríðsrekstur, voru kyndlar í baráttunni.

Allar stofnanir samfélagsins voru rýndar. Gerð var hörð hríð að fjölskyldunni undir forystu suður-afríska geðlæknisins, David Graham Cooper (1931-1986), og skoska geðlæknisins, Ronald David Laing (1927-1989). Fjölskyldan var talið hreiður óhollrar samfélagsinnrætingar og kúgunarstofnun, jafnvel uppspretta geðklofa eða geðveiki. Einnig var gerð orrahríð að geðheilbrigðisþjónustunni og stóru geðsjúkrahúsunum sérstaklega.

Franski fræðimaðurinn, Paul-Michel Foucault lagði orð í belg með bók sinni „Geðveiki og brjálæði: Saga vitfirringar á sígildum tíma,“ (Folie et Déraison: Historie de la foile á l‘age classique), sem kom út 1961. Þar lýsti hann, hvernig ríkjandi félagskerfi móta eða skapa vitfirringuna, geðveikina.

Umrótið varð rithöfundum að yrkisefni. Einn þeirra var Kenneth Elton Kesey (1935-2001), ofskynjunarlyfjaneytandi, blómabarn og andófsmaður, ættaður frá Oregon í BNA. Hann skrifaði afar merka bók árið 1962, þar sem geðheilbrigðisþjónustan var í brennidepli, „Gaukshreiðrið“ (One flew over the chuckoo´s nest).

Árið 1975 var gerð kvikmynd eftir sögunni. Hún var áður sviðsett, með kempuna Kirk Douglas/Issur Danielovitch (1916-2020) í aðalhlutverki. Það kom hins vegar í hlut sonarins, Michael Douglas (f. 1944), að framleiða kvikmyndina, þar sem fjöldi snjallra leikara gerðu garðinn frægan.

Leikstjórn var í höndum snillingsins tékkneska, Jan Tomás Forman (1932-2018). Handrit skrifaði Lawrence Alan Hauben (1931-1985). Myndin vann til fimm Óskarsverðlauna (Academy Awards) og fjölda annarra.

Söguþráðurinn er á þá leið, að Randle Patrick McMurphy (Jack Nicholson, f. 1937) er lagður inn á geðsjúkrahús úr fangelsi, þar sem hann afplánar dóm fyrir nauðgun á fimmtán ára stúlku, sem að hann sögn hefði getað verið á þrítugsaldri. Flutningurinn er að hans eigin tilstuðlan. Það vakir fyrir honum að komast hjá erfiðisvinnu í fangelsinu. Þar ræður hins vegar ríkjum Mildred Ratched ((Estelle) Louise Fletcher, f. 1934), hjúkrunarkona.

Þar takast á stálin stinn, kvenmennska Mildrid og karlmennska Randle. Hann fellur í stafi af undrun, þegar hann kemst að því, að allir eru meðsjúklingar hans lagðir inn af fúsum og frjálsum vilja. Í valdataflinu beita Mildrid og Randle sjúklingunum eins og skákmenn séu. Sjúklingarnir eru „erkikynfól,“ spila á kvennektarmyndaspil og gera sig seka um alls konar „kynferðislega áreitni,“ „kynbundið ofbeldi“ og „hatursorðræðu“ í garð kvenna. Gefa þeim meira að segja girndarauga, líta á þær sem kynlífsviðföng.

Meðal sjúklinganna eru margar áhugaverðar söguhetjur eins og t.d. Billy, ístöðulaus, ofvaxinn unglingur, sem á í vandræðum með aðskilnað frá móður sinni og kann því vitaskuld ekki að fóta sig á kynlífsmarkaðnum. Randle sér, hvar skórinn kreppir, og hleypir stráksa til, þegar hann smyglar gleðistúlkum inn á deildina að næturlagi og slær upp svallteiti. Að morgni dags er Billy hamingjusamur, hefur hlotið eins konar manndómsvígslu.

En hann er ekki lengi í Paradís frekar en Adam. Mildred refsar eins og forynjurnar í goðsögnunum og tætir piltinn í sig. Innan skamms er hann örendur, „geltur,“ fórnar sjálfum sér. Hann gerir ekki frekari uppsteit gegn kvenveldinu, móður sinni og vinkonunni, Mildrid. En Randle er ekki óvígur ger – enn þá.

En óhjákvæmilega endaði baráttan með því, að hjúkkan fór með sigur af hólmi. Og enn má nota goðsagnirnar sem hliðstæðu. Karllæknana hafði Mildrid undir handarjaðrinum eins og hinar ófreskjulegu gyðjur, tákn hins gereyðandi móðureðlis, fylgisveina sína og hermenn. Randle var gerður óvirkur með heilaskurðaðgerð, sem var tískulækning á sínum tíma eins og rafstuðið. Karlaflið laut í lægra haldi fyrir kvenaflinu.Hins vegar tók „höfðinginn,“ ógnarlegur „björn“ af frumbyggjakyni, örlögin í eigin hendur og braut sér leið út í frelsið, eftir að hafa kæft vin sinn, Randle.

Leikstjórinn líkti ástandinu á geðsjúkrahúsinu við alræðið í heimalandi sínu, Tékkóslóvakíu. Það er einnig áhugavert að skoða sögusviðið í ljósi þróunar á þeirri hálfu öld, sem umliðin er. Heilbrigðiskerfið er orðið enn kvensælla, félagsþjónustan og skólakerfið er að mestu leyti skipað konum, drengir verða stöðugt „heimskari.“ Fjölskyldan er í hraði upplausn með mæður við stjórnvölinn, fangelsin eru fleytifull af karlmönnum. Ógnarlegur fjöldi karla velur dauðann sem útgönguleið, rétt eins og Billy. Lyfjum er í miklu meira mæli beitt til að halda drengjum í skefjum í skólakerfinu og þau eru einnig miklu útbreiddari í geðheilbrigðiskerfinu. Öfgafull kvenfrelsun er orðin að löggjöf og efni alþjóðasamninga. Þessi þróun er umhugsunarefni.

Áðurnefndur Herbert Marcuse sló varnagla um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar. Varist kúgandi umburðarlyndi (repressive tolerance), sagði hann. Það gæti verið frelsinu villuljós. Frelsi til orðs og æðis gæti umbreyst í helsi fjölmiðlunar, auglýsinga- og réttrúnaðarofríkis. Við erum vitni að „kerfisbundinni hálfvitavæðingu, hvort heldur sem er barna og fullorðinna, með auglýsingum og áróðri,“ sagði hann - og reyndist spámannlega vaxinn.

Hér er krækja á skynsamlega umfjöllun um myndina og lærdóma, sem mætti af henni draga: https://www.youtube.com/watch?v=n0BcF6zM5c8


Kvennafræði - Daphne Patai og Noretta Koertge

Það er oft gagn og gaman að því að rifja upp og lesa gamlar“ bækur. Ein slík er frá árinu 1994, “Að játast undir kvenfrelsun: Varnaðarsögur úr hinni skrítnu veröld kvennafræðanna” (Professing Feminism. Cautionary Tales from the Strange World of Women’s Studies), eftir norður-amerísku kvenfrelsarana Daphne Patai (f. 1943) og Noretta Koertge (f. 1935).

Báðar hafa verið kennarar í kvennafræðum (women studies, gender studies). Sú síðarnefnda er vísindaheimspekingur og sú fyrri prófessor í ensku og bókmenntum. Hér er gripið niður í bókina, áhugasömum til fróðleiks. (Blaðsíðutölur í sviga):

Rannsókn höfunda:

Meginaðferðin er eigindleg, þ.e. ítarleg þriggja klukkutíma löng viðtöl við þrjátíu konur, kennara og nemendur í kvennafræðum/kvenfrelsunarfræðum (women studies, gender studies) víðs vegar um BNA. Einnig er stuðst við upplýsingar, lausari í reipunum, frá öðrum innvígðum sem og â€Å¾International Electronic Forum for Women’s Studies“ – sem er upplýsinga- og spjallvefur um kvennafræði og kvenfrelsun, rekinn af Joan Korenman, við háskólann í Maryland. Allir óskuðu þátttakendur nafnleyndar. (xxviii)

Eðli kvenna:

“[Þ]að ætti að vera öllum morgunljóst, að konur geta verið alveg jafn hugprúðar og huglausar, gjöfular og eigingjarnar, íhugular og sljóar, glöggar og ónæmar, eins og hinn helmingur mannkyns.” (xi)

Kvenfrelsun:

“Kvenfrelsun snerist í upphafi um það loforð að frelsa konur frá afskræmingu kynferðis í feðraveldinu. Því miður er það svo, að kvenfrelsun samtímans dregur dulu fyrir augu kvenna, sem hindrar þær í að veita eftirtekt ýmis konar valkostum í lífi sérhverrar þeirra.“ (78)

Kvennafræði: ”Kvennafræðin spruttu úr jarðvegi stjórnmálahreyfingar. Án atbeina hennar hefðu þau varla komist á koppinn.” (211)

“Upphaflega höfðu kvennafræði í háskólastigi tvíþættan, gildan tilgang: að leita uppi og birta upplýsingar um líf og störf kvenna, sem höfðu ratað í glatkistuna eða [mönnum] sést yfir, og að beina sjónum sérstaklega að lífi kvenna.”(115)

“Kredddubundin kvenfrelsunarfræði valda sérstökum áhyggjum, þar sem þau hindra [þroskun] hæfileika nemandans [individual] til að rýna af sanngirni og skynsemi í orsakir og úrbætur vegna eigin óhamingju og ófullnægju.”78)

Markmið náms í kvennafræðum:

Markmiðin eru keimlík hvarvetna. Svona hljóma þau við Háskólann í Missouri: “[S]tyðja nemendur okkar sem erindreka kvenfrelsunar, [sem] fást við vanda innan háskólans á borð við kynþáttahatur, kynfólsku, og annað óréttlæti.”(169)

Inntak kvennafræða: "Á dæmigerðum inngangsnámskeiðum í kvennafræðum er kennt efni um nauðganir, kynáreitni, barðar konur, kynofbeldi gegn börnum, fóstureyðingar og æxlunarréttindi [kvenna], svo ekki sé minnst á efni líðandi stundar eins og kynþáttahatur, fötlunarfordóma og ráðningafordóma gagnvart ellismellum (ageism).

Oft og tíðum er það svo, að starfsmenn deildanna og eldri nemendur, sem kenna slík námskeið, skorti hæfni og yfirgripsþekkingu á þeim sviðum, sem kennsla tekur til, þar sem þeir hafa litla sem enga þjálfun í félagsfræði, félagssálfræði, hagfræði, læknisfræði ellegar afbrotafræði. Því hafa þeir tilhneigingu til að reiða sig einvörðungu á kvenfrelsunarrit í kennslunni – sérstaklega þau, sem helst njóta vinsælda og eru því aðgengileg sem uppspretta. Árangurinn verður sá, að nemendur læra, að öllum líkindum, hvað kvenfrelsarar hafa að segja um þessu erfiðu og flóknu málefni. Litið er á aðra þekkingu (research) sem hlutdræga í sjálfri sér.” (92)

Námsandi:

Einn viðmælanda, kennari, sagði: “Ég minnist andrúmsloftsins í tímum í þá daga. Ég … var felmtri slegin í kennslustofunni. Einu sinni, þegar ég kenndi framhaldsnámskeið skipuðust nemendur í tvo horn – bókstaflega. Öðrum megin sátu lespurnar og gagnkynhneigðar konur hinum megin. Og ég ól á stöðugum ótta um, að efnt yrði til líkamlegra árása; að hatur myndi kvikna gagnvart hver annarri, mér, [og] að bekkurinn myndi leysast gersamlega upp.“ (15)

Annar sagði: Nemendur stunduðu “linnulaust kreddutal: “Þetta viljum við ekki tala um!”Gagnrýni var vísað á bug með [ásökunum] um samkynhneigðarfælni; að um væri að ræða föðurveldisrembing í dulargervi og bara eitt eða annað – hvort heldur sem gagnrýnin kom frá mér eða bekkjarfélögum. Stjórnmál eru að loka hugskoti þeirra.”(22)

Kennslufræði:

“Einkum voru það sögur um kvenfrelsunarfræðilega [femíníska] kennslufræði, sem komu [okkur] sérstaklega í uppnám. Oftast minnti hún á innrætingu og áreitni í kennslustofunni.” (44)

“Mikilvægasta markmið allra kvennafræðinámskeiða, sem almennt er viðurkennt, er að snúa nemendum til kvenfrelsunar.”(97)

“Á annan bóginn nota kennarar í kvennafræðum kennsluna að yfirlögðu ráði til að afla nýliða og þjálfa nemendur sem aðgerðasinna í þágu kvenfrelsunar. ... Á hinn bóginn er til þess ætlast, að nemendur finni að minnsta kosti smjörþefinn af almennu, frjálsu (liberal) háskólanámi, [en þrátt fyrir það] vænta nemendur þess, að kennari leyfi umræður og frjálsa tjáningu og viðrum alls konar hugmynda og skoðana,...“ (81-82)

Námsmat:

Námsmat er afskaplega frjálslegt. Einn nemenda skilaði t.d. inn þessari ritgerð: “[Sigmund] Freud [(1956-1939) upphafsmaður sálgreiningar] var heltekinn krabbameini, vindlareykháfur og kvenfól.”(117)

Fræðilegar forsendur:

“Kvenfrelsarar ... leggja öfgafulla áherslu á trú sína á einskært nafngiftarvald (power of names). Þeir færa rök að því, að allar götur frá Adam, hafi karlar haft valdið til að skilgreina veröldina með því að gefa henni nöfn. Á grundvelli þessa fullyrða þeir, að frelsun kvenna muni ekki rætast, nema þráðurinn sé tekinn upp aftur, og Evu falið að nefna öll kvikvendi jarðar. Þetta er mjög vinsælt efni í kvenfrelsunarfræðunum.”(Sbr. “Drauminn um kventunguna” (The Dream of a Common Language), eftir Adrienne Rich, og “Aðra móðurtungu” (Another Mother Tounge), eftir Judy Grahn). (132)

Það er grundvallaregla í kvenfrelsunarhugsuninni, að hvort tveggja heimurinn og þekking okkar um hann, séu félagssmíði (socially constructed).” (135)

“Hvergi í nokkru háskólanámi öðru er félagsmíðahyggjunni (social constructionism) gert svo hátt undir höfði og beitt svo viðbrigðaríkt eins og í kvennafræðum. Grundvallarkenning kvenfrelsunarbylgjunnar á líðandi stundu [þeirri þriðju] er sú, að sjálft kynið sé félagsleg smíði,... (140) ... Með því að halda fast í þessa yfirborðsfræðimennsku (pretense) sækja kvenfrelsarar sér þrótt í aðra meginkennisetningu félagssmíðahyggjunnar, sem kveður á um, að ekki einungis séu félagsleg fyrirbæri, heldur einnig sjálf þekkingin, félagslega steypt í mót.”(141) 

“Það er grundvallaregla í kvenfrelsunarhugsuninni, að hvort tveggja heimurinn og þekking okkar um hann, séu félagssmíði.” (135)

“En öflugri og róttækari hugsmíðahyggja kveður á um, að gervöll þekking beri svo sterkan keim af sjálfsskilningi þess, sem hana skapar, og menningu hlutaðeigandi, að aldrei geti hún talist sönn eða gagnleg í öðru umhverfi ..., nema með miklum breytingum. Þessi öfgaafstaða er fram særð í algjörri höfnun sumra kvenfrelsara á vísindum .. [því] þau séu öll menguð af föðurveldisuppruna sínum.”

Aðferð:

Þjóðarsamtök kvennafræðara í BNA (Constitution of the National Women’s Studies Association (NWSA)), segja: “Kvennafræði fela í sér menntunarkænsku, sem veldur straumhvörfum í vitund og þekkingu. Sérstöðu þeirra má marka af viðspyrnu gegn ófrjórri aðgreiningu æðri menntunar og samfélags, samfélags og einstaklings. Því gera kvennafræðin konur í stakk búnar til að umbylta veröldinni, svo frelsa megi frá allri kúgun[og vekur] úr læðingi það afl, sem stuðlar að því, að markmið kvenfrelsunar náist.” (4)

Árið 1986 kom út grundvallarrit um kvenlega þekkingarfræði, þ.e. um það, hvernig konur læra. Höfundar eru Mary Field Belenky (1933-2020), Blythe McVicker Clinchy (1931-2014), Nancy Rule Goldberger (f. 1934) og Jill Mattuck Tarule (1943-2019). Bókin heitir “Leiðir konunnar til þekkingaröflunar. Þroskun sjálfs, raddar og huga” (Women’s Way of Knowing: The Development of Self, Voice, and Mind). Hún er tileinkuð mæðrum höfunda og dætrum.

Noretta og Daphne segja boðskap bókarinnar dæmi um “hvernig hugmyndafræðilegar getgátur gangi í endurnýjun lífdaganna áratugi, eftir birtingu þeirra, sem meint og sjálfstaðfest (will-confirmed) uppgötvun [og] talin nógu haldgóð til að leggja til grundvallar umfangsmikilli stefnu í háskólanámi.... [Bókin er] talin fyrirmynd í kvenfrelsunarfræðimennskunni.” (161)

Í þessu merka riti stendur m.a.: “Árangursrík kvenfrelsunarskoðun (assessment) verður að vera í samræmi við kvenfrelsunarfræðimennsku. Hafa skal hliðsjón af hugtökum eins og móðurhugsun, umhyggju, áhuga og tengingu, leiðum kvenna til þekkingaröflunar og tengináms (connected learning). Þessi hugtök búa gildismati kvenfrelsunar umgjörð, [eru] ferli, þar sem fremur er litið til umbóta en prófana, framvindu í umhyggju heldur en endanlegra dóma.”(160)

“Huglæg þekking er sú meginnámsleið, sem dregin er upp í “Leiðum konunnar til þekkingaröflunar. Þroskun sjálfs, raddar og huga.” Aðferðin er einkum, “innri rödd, eðlisávísun, hugboð og innsæi.”(162)

Boðskapur fræðanna er reistur á tveim meginfullyrðingum: 1. Konur “hafa ræktað með sér og lært gildi magnaðra leiða [til þekkingaröflunar]. En þær hafa verið smánaðar og þeim bolað í burtu af ráðandi anda í vísindum (intellectual ethos) vorra tíma; 2. “[K]ennarar geta aðstoðað konur við að þroska eigin, sönnu rödd, ef þeir leggja áherslu á tenginu fremur en aðgreiningu, skilning og viðurkenningu fremur en mat, samvinnu fremur en rökræður.”(162)

Ályktun:

“[K]venfrelsunartrú sú, sem ríkjum ræður í æðri menntun [college, university] á voru méli hefur oft og tíðum í för með sér eyðileggingu á vísindahefðum. [Eyðileggingin] ristir djúpt. Skortur á umburðarlyndi og vitsmunahyggju, svo og hugmyndafræðileg löggæsla, gerir það að verkum, að þekkingaröflun er – okkur er skapi nær að segja – afskræmd af hugmyndafræði.”


Frumkvöðull kynfræða og jafnfréttis - Katharine Bement Davis

Katharine Bement Davis (1860-1935), var norður-amerískur refsifræðingur (penologist) og umbótasinni, sem m.a varð fyrsta konan til að sinna opinberu embætti í Nýju Jórvík (NY) árið 1914, embætti fangelsismálastjóra. Hún var baráttumaður fyrir kosningarétti kvenna.

Katharine stóð fyrir ýmsum úrbótum í betrunarmálum fangelsanna á vísindalegum grunni. Hún er einnig kunn fyrir tímamótarannsóknir á kynlífi kvenna, sem áttu sér stað fyrir tíma annars brautryðjanda í klíniskri kynfræði, Alfred Charles Kinsey (1894-1956).

Katharine nam við Vassar háskólann, sem er einn þekktasti kvennaháskóli BNA. Framhaldsnám sótti hún við háskólann í Chicago og útskrifaðist þaðan með doktorsgráðu í stjórnmálahagfræði, first kvenna. Katharine stundaði einnig nám við háskólana í Berlin og Vín.

Árið 1910 skrifaði Katherine álitsgerð um kvenfanga, betrun þeirra og tilhögun mála í kvennafangelsum Nýju Jórvíkur. Álitsgerðin hlaut lof yfirvalda og var lögð til grundvallar við umbætur í fangelsismálum. Hún beitti sér m.a. fyrir aðskilnaði kynjanna í fangelsum og setti á stofn landbúnaðarskóla fyrir vandræðadrengi.

Til viðbótar vegtyllu sem fangelsismálastjóri var Katherine einnig skipuð yfirmaður Skrifstofu félagsmála (Burreau of Social Hygiene). Þessi skrifstofa sinnti m.a. málum vændiskvenna. Skrifstofan var sett á stofn fyrir tilstilli auðkýfingsins, John Davison Rockefeller (1874-1960).

Katharine veitti einnig forstöðu Rannsókarstofu í félagsmálum (Laboratroy of Social Hygiene), sem John setti á laggirnar. (Hann var heiðraður fyrir störf sín í þágu velferðarmála (Public Welfare Medal)).

Katherine var hliðholl kynbótahreyfingunni (eugenics), sem taldi sig geta ræktað út ýmsa kvilla í mannkyni eins og geðsjúkdóma og þroskaskerðingu, t.d. við ófrjósemisaðgerðir. (Slík viðhorf voru algeng á þessum árum.) Katharine var einn af leiðtogum hreyfingarinnar.

Í ofangeindu ljósi má einnig skoða rannsókn hennar á kynlífi kvenna. Þátttakendur komu af ýmsum félaga- og námsmeyjalistum, 2200 talsins. Þær svöruðu spurningalista undir nafnleynd. Rannsóknin beindist að “sjálfsfróunarvenjum (auto-erotic), kynlöngun, reynslu af samkynhneigð, notkun getnaðarvarna, samfaratíðni, og kynlífsreynslu fyrir hjónaband, svo og framhjáhöldum. Rannsókninni voru gerð skil í: “Athugun á ákveðnum sjálfsfróunarvenjum” (A Study of Certain Auto-Erotic Practices), sem kom út árið 1924, og “Þáttum í kynlífi tvö þúsund og tvö hundruð kvenna” (Factors in the Sex Life of Twenty-two Hundred Women), sem kom út árið 1929.

Í ritdómi um bókina segir Louis E. Smidt: „Það er áhugavert, að [niðurstöður birtist] um þessar mundir, þegar þeirrar tilhneigingar gætir í [fag]bókmenntum, að ræða sífellt nánar einkahagi í kynlífssamböndum. Það væri að taka of djúpt i árinni, ofmeta bókina og vanmeta [jafnframt], hversu flókið umrætt kynlíf er, að lýsa henni sem uppsprettu fróðleiks.“

Þegar Katharine settist í helgan stein, var haldin hátíðarsamkoma henni til heiðurs. Þar var margt fyrirmenna, m.a. kvenjöfrar í opinberu lífi; Jane Addams (1860-1935), félagsráðgjafi, kvenréttindafrömuður og handhafi friðarverðlauna Nobels; Eleanor Roosevelt (1884-1962), forsetafrú; Carrie Chapman Catt (1859-1947), baráttumaður fyrir tilurð nítjánda viðauka við norður-amerísku stjórnarskrána (um kosningarétt handa konum), og Lillian D. Wald (1867-1940), rithöfundur og mannúðarsinni. Þar var vitaskuld einnig nefndur Rockefeller.

Þess má til fróðleiks geta, að Rockefellerstofnunin (The Rockefeller Foundation) hefur verið atkvæðamikil við fjármögnun kvenfrelsunarhreyfingarinnar æ síðan og líklega skipt sköpum fyrir vöxt hennar, þar til yfirvöld fóru að dæla fjármunum í hana.


Kvenfrelsunartungan - Láadan

Suzette Haden Elgin (Patricia Anne Suzette Wilkins -1936-2015) var norður-amerískur málfræðingur, skáldsagnahöfundur og kvenfrelsari. Hún skrifaði m.a. þríleik vísindaskáldsagna,Móðurtunguna“ (Native Language), og samdi í því sambandi nýtt kvennatungumál, Láadan, árið 1982. Orðið er hebreskt að uppruna og vísar til, að því er virðist, nautnasjúkrar merkiskonu, ljósrar á hörund (enda þótt í Biblíunni sé það (líka) karlmannsnafn).

Suzette hreifst af þeirri gömlu, þýsku speki, að tungumálið hefði áhrif á hugsunarhátt fólks og mótaði skynjun þess. Fullyrðingin á rætur þýskri rannsóknarhefð í sálfræði (Moritz Lazarus (1824-1903) og Heymann (Hermann) Steinthal (1823-1899)), en oft kennd við upphafsmann tilrauna í sálfræði, enn þá eins frumherja hennar, Wilhelm Maximilian Wundt (1832-1920), sem m.a. gerði grein fyrir fræðuum í tíu binda verki sínu, â€Å¾Sálfræði þjóðanna“ (eða Sálfræði menningarinnar – Völkerpsychologie, sem í senn er undanfari samfélagsfræða og sálfræði tungumálsins). Fyrsta bindið kom út 1904.

Hugmyndin hlaut nútímalegri búning í meðförum þýsk/norður-ameríska mann- og málfræðingsins, Edward Sapir (1884-1939), og landa hans, mál- og verkfræðingsins, Benjamin Lee Whorf (1897-1941). Hún er oft og tíðum kölluð Sapir-Whorf tilgátan eða afstæðistilgátan um tungumál (linguistic relativity).

Suzette velti fyrir sér: ”[H]ver yrðu afdrif [norður-]amerískrar menningar, ef konur ættu og beittu tungumáli, sem tjáði skynjun þeirra. Myndi það ganga sjálfseyðingu á vit?” Tungumál hennar hefur enn ekki náð útbreiðslu að gagni meðal kvenna og frelsara þeirra. En von er til, að Eyjólfa hressist.

Niðurstaða Suzette á notagildi kunnra tungumála var, að þau væru ófullnægjandi fyrir konur: (1)Þessar tungur byðu ekki upp á orð, sem eru konum afar mikilvæg og gera [því] tjáningu óþjála og óþægilega. (2) Þau skorti leiðir til að tjá tilfinningalegar upplýsingar á þægilegan hátt, þannig að – sérlega í ensku – þyrfti að tjá sig með líkamanum og [því] hurfu þær hér um bil algjörlega í ritmáli. Þessir vankantar gerðu konur berskjaldaðar fyrir fjandsamlegri tungu. Við smíðar á Láadan einbeitti ég mér að því að berja í þessa tvo bresti.“

Suzette gerði sem sagt gangskör að tungmálssmíðinni, þegar hún skrifaði skáldsagnaþríleikinn, Móðurtunguna“ (Native Tongue). Þetta er vísindahryllingssaga, þar sem jafnréttisbarátta kvenna bíður skipbrot, konur eru litnar hornauga, fá ekki skipun í embætti og er meinað að lifa sem vitibornar verur. Þær eru jafnvel álitnar hættulegar, nema þeim sé â€Å¾haldið í skefjum við nákvæmt eftirlit og stöðuga gæslu grandvars karlmanns, sem tekur á þeim ábyrgð.“ En konur láta sér ekki allt fyrir brjósti brenna. Hópur valinkunnra kvenmálfræðinga tekur höndum saman og smíðar nýtt tungumál, sem er firrt feðraveldiskúgun, þ.e. vekja til lífsins ný hugtök, sem karlar hafa aldrei þurft á að halda og aldrei hefur dreymt um, og breyta þannig veröldinni.“

Norður-ameríski málfræðingurinn, Kelly Rafey, hefur ritað um hin nýju kvennatungu. Henni farast orð á þessa leið: Suzette samdi tungu sína til höfuðs karlmiðaðri tungu, sem þvingaði konur til að hugsa og tjá sig á forsendum karla. Því lá henni á hjarta að semja tungumál, sem væri sniðið að tjáningarþörfum kvenna, t.d. að ótvíræð orð, sem í senn tjáðu inntak og tilfinningu um það. Dæmi: "Rathom“ merkir þann, sem siglir undir fölsku flaggi, vinnur traust, en svíkur. "Ramimelh“ merkir að kinoka sér við spurningu sökum háttprýði eða vinsemdar. Í tungumálinu má finna þrjú mismunandi orð yfir tíðahvörf (menopause), fimm yfir þungun, sjö yfir blæðingar og ellefu orðstofna (root words) fyrir ást, sem margfalda má með þrjátíu stökkbreytingum.

Önnur orð eru flóknari eins og t.d. "doóledosh.“ Það merkir  tap ellegar sársauka, sem þó er léttir. Því það er verra að vita af honum í aðsigi. Byltingarkenndasta orðið í kvenfrelsunarlegum skilningi, er þó "be,“ sem er kynlaust fornafn. Kvenfrelsarar eygja von um að feykja megi feðraveldinu um koll með hinni nýju tungu eins og úlfurinn kofa grísanna í ævintýrinu. Einn þeirra (Cara) segir: ”Ládan [er] sérsmíðað tungumál til að hnitmiða tjáningu okkar svo fullkomlega, að feðraveldið fjúki um koll. ”Meira en bara orð,” ekki satt,” segir hún.

Fleiri kvenfrelsara dreymir um kvenfrelsunartungumál, sbr. bækurnar: “Drauminn um kventunguna” (The Dream of a Common Language), eftir Adrienne Rich, og “Aðra móðurtungu” (Another Mother Tounge), eftir Judy Grahn. Allir hafa höfundarnir ofurtrú á mætti orðanna til að breyta veröldinni, fólki og þekkingu. Grandvörum kvenfrelsunarfræðimönnum ofbýður þó.

Í bók sinni, "Að játast undir kvenfrelsun. Varnaðarsögur úr hinni skrítnu veröld kvennafræðanna“ (Professing feminism. Cautionary tales from the strange world of women’s studies), segja Daphne Patai (f. 1943) og Noretta Koertge, báðar kennarar í kvenfrelsunarfræðum (woman studies, gender studies):

“Kvenfrelsarar leggja öfgafulla áherslu á trú sína á einskært nafngiftarvald (power of names). Þeir færa rök að því, að allar götur frá Adam, hafi karlar haft valdið til að skilgreina veröldina með því að gefa henni nöfn. Á grundvelli þessa fullyrða þeir, að frelsun kvenna muni ekki rætast, nema þráðurinn sé tekinn upp aftur, og Evu falið að nefna öll kvikvendi jarðar. Þetta er mjög vinsælt efni í kvenfrelsunarfræðunum.”

Hér gefst kostur á leiðsögn: https://www.youtube.com/watch?v=ZkVF6MsVgmE


Nauðgunarmenningin

Íslenska ríkisvaldið er jafnaðarlega rassskellt af erlendum, yfirþjóðlegum dómstólum. Það verður fróðlegt að sjá niðurstöðuna í þessu sérstaka máli. Hér stendur talskona Stígmóta, Steinunn Gyðu-og Guðjónsdóttir, í sorgarbúningi, og útskýrir málshöfðun Samtakanna fyrir Mannréttindadómstólnum vegna meintrar ófullnægjandi málmeðferðar lögreglu og saksóknara, að eigin sögn, á kærum kvenna um nauðganir.

Í áróðursherferð Stígamóta - að miklu leyti fjármögnuð af ríki og sveitarfélögum, þ.e. af skattpeningum þínum - er því haldið fram, að einungs 13% kvenna, sem kært hafa nauðgun - oftast kallaðir brotaþolar á þeirra vígstöðvum - sé sýnt réttlæti. Því sé þessum hópi kvenna sýnt 87% óréttlæti. Þessi skemmtilega reikningsaðferð er algeng í baráttunni. Hér er nefnilega gengið út frá því, að allir "brotaþolarnir,” hafi orðið fyrir nauðgun. ”Konum skal alltaf trúa,” er borðorð þeirra. Steinunn sér hvorki ástæðu til að fræða lesendur um meðferða annarra brota, né falskar nauðgunarákærur. Nauðganir á körlum og meðferð slíkra mála þykir heldur ekki áhugaverð í þessu sambandi.

Áróðurshandbragðið er kunnuglegt. Það væri fróðlegt að vita um samning Þjóðleikhússtjóra og Stígamóta um leigu á aðstöðu Þjóðleikhúss fyrir áróðursfund samtakanna. Það er margt fleira áhugavert við fréttina. Hinn ungi kvenfréttamaður sýnir enga viðleitni til að rýna í starfsemina, sem hún auglýsir. Stígamót og Kvennaathvarf eiga greiðan aðgang að hugsunarlausum fjölmiðlum. Í samvinnu við menningarstofnanir eins og Hörpu (og líklega Þjóðleikhúsið) og ríkisfyrirtæki eins og Íslandsbanka og RÚV, er áróðri þeirra og baráttu fyrir tilvist sjálfra sín jafnaðarlega hvolft yfir landsmenn. Þessi áróðurshrina er liður í að viðhalda trú landsmanna á "vonda karlinum," ímynd karla, ungra og aldinna, sem er nauðguanrmenning í blóð borin.

Nauðgunarmenningin hefur náð heljartökum á kvenþjóðinni, sbr. t.d. málflutning fulltrúa Kennarasambands Íslands, Hönnu Björgu Vilhjálmsdóttur, undanfarið, og nauðgunarstæðin fyrir kvengesti í Hörpu. Nauðgunarmenningin hefur hreiðrað um sig í skólum og dagvistarstofnunum og virðist endurspeglast í viðhorfi sumra starfsmanna. Þar eiga kátir og keikir pjakkar oft erfitt uppdráttar. Ein lítil saga nýleg (frá Íslandi að þessu sinni): Hann er þriggja ára, athafnasamur, vakandi, spurull, ræðinn og glettinn - en ekki skýrmæltur, kröfuharður um athygli. Hnokkinn hefur logandi áhuga á félögunum, Karíusi og Baktusi. Því er honum tannpína ofarlega í huga. Hann reyndi að ræða þetta áhugamál sitt við fóstrurnar sínar. Nú hafa þær farið fram á, að barninu verði vísað til sérfræðings, því hann sýni hegðunarerfiðleika og tali um "standpínu." Því sé hann trúlega beittur kynferðislegu ofbeldi og sé ofvirkur með athyglibrest. Nauðgunarmennigin hefur margar ásjónur.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2021/03/08/niu_konur_kaera_islenska_rikid_til_mde/


Næsta síða »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Apríl 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband