Ofbeldisiðnaðurinn: Stríðið gegn fjölskyldunni

Samfélagið löðrar í ofbeldi. Það hefur mannlífið ævinlega gert. Og varla er unnt að gera sér það í hugarlund öðruvísi. En vissulega er það ófagurt. Siðvendni felst m.a. í því að draga úr ofbeldinu, uppræta, ef kostur er.

Það er ofbeldi, þegar fólk er þvingað til að gera það, sem því er á móti skapi - og stafar ógn af viðurlögunum. Lýðræðisofbeldið þekkja allir; þjóðlegt sem alþjóðlegt. Það búum við stöðugt við.

Einelti, útskúfun og útlegð í ýmsum myndum er ofbeldi. Það á sér víða stað; í opinberu lífi, stjórnsýslu, fyrirtækjum og skólum. Vopnaðar innrásir, ýmist með báli og brandi, áróðri eða ósiðlegri löggjöf, í líf þjóða, hópa eða einstaklinga, er einnig ofbeldi.

Ofbeldi innan fjölskyldna hefur verið í brennidepli síðustu áratugi, áróðurskeppikefli kvenfrelsaranna. Samkvæmt þeirra kokkabókum er karlmönnum um að kenna. Því þeir eru svo vondir við konur. Stofnuðu m.a. feðraveldið þeim til höfuðs. Barátta kvenfrelsara af öllum kynjum gegn körlum er harðvítug og hefur fengið umtalsverðan hljómgrunn meðal almennings, skóla, fyrirtækja og yfirvalda.

Ofbeldisiðnaður þeirra er nú að mestu leyti rekinn fyrir skattfé á þjóðlegum og alþjóðlegum grunni. Það sama á við um áróðurinn, stundum undir yfirvarpi vísinda og fræða (sem iðulega eru hjóm eitt). Það er stöðugt blásið í glæðurnar.

„Barnavernd“ er angi þessarar hreyfingar. Konur spyrða sig nefnilega einatt við börn. Hagsmunir kvenna og barna fara saman, að þeirra sögn. Opinber afskipti af börnum og fjölskyldum vex stöðugt.

Einn helsti talsmaður barnaverndar í Bandaríkjum Norður-Ameríku tók upp á því að brjóta til mergjar ógnarlega fjölgum tilkynninga um mannvonsku í garð barna. Í stuttu máli komst hann að því, að einungis örlítið brot þeirra réttlætti í raun skynsamleg inngrip hins opinbera. Hann sneri við blaðinu. En þá lágu ótaldar fjölskyldur í valnum.

Íslendingar vakna hvað eftir annað við martraðir ríkisuppeldis og ríkisumönnunar barna og fatlaðra af ýmsu tagi. Það eru margar sögur, sem aldrei komast í hámæli um ofbeldi barnaverndar og félagsmálastofnana. Stundum vinna þær þó þarft verk. Samtímis martröðunum vokir ofbeldisiðnaðurinn yfir okkur. Hann fitnar eins og púki á fjósbita.

Áróðurinn er yfirgengilegur. Jafnaðarlega birtast í fjölmiðlum auglýsingar, þar sem þessi iðnaður er markaðssettur; Bjarkarhlíð, Konur Sameinuðu þjóðanna (UN Women), Kvenréttindafélag Íslands, Stígamót og Kvennaathvarf, svo þau helstu séu upptalin. Iðnaðurinn er vitaskuld niðurgreiddur af ríki og sveitarfélögum eins og ýjað var að. Það var meira að segja glæðing fyrir atvinnulífið að stofna kvennaathvarf á Akureyri. Enda kusu Íslendingar sér kvenfrelsunarríkisstjórn.

Stuðningur löggæslunnar og þátttaka er eftirtektarverð. Þegar kvennaathvarfið á Akureyri var stofnað, tók t.d. Ríkislögreglustjóri þátt í opnunarhátíðinni. Hún hefur með ljósum hætti tekið þátt í áróðri og aðgerðum gegn körlum. T.d. því óyndisúrræði að fjarlægja þá af heimili sínu fyrir atbeina húsfreyja eða annarra, sem dettur í hug að núa þeim ofbeldi um nasir.

Ríkislögreglustjóri hefur sungið skæra rödd í kvenfrelsunarkórnum, sem syngur um ófarir kvenna í kófinu. Hún er hluti áberandi kvennakvartetts, sem auk hennar er skipaður forstýru Barnaverndarstofu, forstýru „UN Women“ og aðalforstýrunni, forsætisráðherra vorum. Allar hafa þær áhyggjur af „aukinni“ kúgun og auknu álagi kvenna. Færri tilkynningar um misþyrmingar á börnum er einnig nagandi áhyggjuefni þeirra.

Markaðssetning ofbeldisiðnaðarins heldur áfram. Tvær markaðsherferðir eru nú áberandi. Neyðarlínan hefur aukið umsvif sín og hyggst nú auka markaðhlutdeildina. Nú er það ofbeldi að vera afundinn og láta síga í brúnir. Á sama hátt og það er kynbundið ofbeldi að líta konu hýru auga.Lögreglustjóri er þátttakandi í hinni herferðinni. Hún snýst um mannvonsku í garð gamalmenna – í fjölskyldum, að mér skilst.

Öll spjót standa, þegar þessu er á botninn hvolft, á fjölskyldunni sem stofnun. Í fjölskyldunni á bæði gott og illt mannlíf sér stað – og svo hefur verið frá stofnunn hennar í árdaga, ef að líkum lætur.

Jafnaðarmenn og byltingarmenn af ýmsum toga hafa viljað hana feiga. Flestir hafa gefist upp, meira að segja byltingarjöfur Ráðstjórnarríkjanna sálugu, Josef Stalin. Samyrkjubúin hans voru misheppnuð í efnahagslegu og uppeldislegu tilliti. Börn, sem ólust upp á kibbútsunum í Ísrael dreymdi og að vera hjá mömmu og pabba.

Allar tilraunir af svipuðum toga á síðustu öldum, þ.e. að eyða fjölskyldunni, nánu samneyti mömmu og pabba og barna, hafa orðið skammlífar. Engum hefur sum sé tekist að granda fjölskyldunni, nema ríkisstjórnum Vesturlanda um þessar mundir. Þær eru á góðri leið með að gera hana höfðinu styttri.

Stríðsvagn þeirra er barnavernd, kvenfrelsun og ofbeldisvörn; ofbeldisiðnaðurinn. Stjórnunarofbeldi forsjárhyggjufólksins kemur auðhyggjufólkinu vel. Það lifir í lukkulegu hjónabandi. Bráðum mun það í sameiningu stjórna lífi okkar í smáatriðum með auglýsingum, löggjöf og löggæslu – meira að segja kyni.

Nú er Kynúthlutunarstofnun ríkisins í burðarliðnum til viðbótar öllum hinum. Og hver veit, nema „Fóstureyðingastofnun Evrópu“ sjái líka dagsins ljós á landinu bláa, meðan fjölgar bleikum sköttum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband