Mikla móðir 4: Frjósemi og fórnir ungviðis

Frjósemi er Miklu móður nauðsyn. Það er lögmálið, sem öllu stjórnar. Áhugi á frjómagni blóðsins virðist hafa vaknað snemma í sögu mannkyns. Erich Neumann segir um þetta í bók sinni, „Uppruna og sögu vitundarinnar:“

„Í grundvallaratriðum skýrir stöðvun blæðinga við meðgöngu tengsl blóðs og frjósemi - ef að líkum lætur. Í hinum frumstæða huga jafngilti það fósturvexti. Þetta innsæi … er rótin að sambandi blóðs og frjósemi. Blóð felur í sér ávöxt og líf, á sama hátt og blóðsúthelling merkir fjörtjón og dauða. Þar af leiðandi var í upphafi litið á blóðsúthellingar sem helgiathöfn, hvort sem um var að ræða blóð villidýrs, búsmala eða manns. … [K]onan er vettvangur blóðsins. Hún býr yfir þeim seiðmætti blóðsins, sem örvar vöxt. Þess vegna er það oft og tíðum sama gyðjan, sem er freyja frjósemi, stríðs … og veiða.“ (EN)

Í huga karla öðlaðist blóð einnig töframátt: “Blóð skipti einnig meginmáli við kventengda bannhelgi. Frá örófi alda og langt inn í tímabil menningar og trúarbragða feðraveldanna hafa karlar sneitt hjá kvennamálum eins og væru þau guðlegs eðlis. Tíðablóð, blóð í tengslum við rof meyjarhaftsins og fæðingu, sannfærði karla um, að konur væru í náttúrulegu sambandi við þá vídd [hina guðlegu]. En í hugarfylgsnunum blundaði þekkingin um blóðvensl Miklu móður, myrkraheimsfreyju lífs og dauða, sem krafðist blóðfórna og virtist háð blóðsúthellingum.” (EN)

„Móðurkviðurinn „gerir háværar kröfur“ um áburð. Blóðfórn og líkamar eru áburðurinn, sem henni fellur best í geð. Þetta er hin hræðilega ásýnd, hin drápslega ásýnd jarðarinnar. Í elstu frjósemisblótunum gengu blóðugir líkamshlutar manna á milli eins og væru góðar gjafir. [Þeir voru] gefnir jörðinni, svo hún mætti verða frjósöm. Mannfórnirnar í þágu frjóseminnar áttu sér stað hvarvetna í veröldinni aldeilis óháðar hver annarri. Helgisiðanna [gætti] í Ameríku og við austanvert Miðjarðarhaf, í Asíu og í Norður-Evrópu. Hvarvetna gætti þeirrar tilhneigingar, að blóð væri mikilvægt í frjósemissiðum og mannfórnum.“ (EN)

„Það er staðreynd, að til forna var manni fórnað, hvort heldur guði, konungi eða presti, til að tryggja frjósemi jarðar. … Hin kvenkennda jörð þarfnaðist frjómáttar blóðs-sæðis karlsins.“ … „Slátrun og fórn, sundurlimun og blóðsúthelling bjuggu yfir töframætti [og] tryggðu frjósemi jarðar.“ (EN)

Börn og synir, móður-elskhugarnir, yndissveinarnir, voru í áhættuhópi: “Hætturnar, sem vofa yfir yngiselskhuganum eru dauði, gelding og sundurlimun. En þær eru þó ekki tæmandi lýsing á sambandinu við Miklu móður. Væri hún einvörðungu hræðileg og gyðja dauðans, myndi vanta í ímyndina eiginleika, sem gerði hana jafnvel enn þá skelfilegri - og gæfi henni samtímis takmarkalaust aðdráttarafl. Því hún er sömuleiðis gyðjan, sem veldur vitfirringu og hrifningu, [hún] táldregur og veitir unað, yfirburða tálkvendi. Hrifning af kynlífi og drykkjusvalli, sem nær hámarki í dulvitund og dauða, er óaðskiljanlega sameinað í henni.“ (EN)

“Því er það, að skaufinn og skaufahelgin sameinast í kynferðinu á gelgjuskeiðinu - og lífshættan, sem [á þessu skeiði] birtist sem dráp skaufans, þ.e. sem vönun. … “Elskhuginn ungi er þátttakandi í kynsvalli og við fullnæginguna leysist sjálfið upp … Á þessu stigi fara fullnæging og dauði hönd í hönd, rétt eins og fullnæging og vönun.” (EN)

Attis var fæddur Miklu móður, móður allra guða, hinni tvíkynja Agdistis eða Kybele (Cybele), og Nönu, dóttur árinnar, Sangarius. Hann var frjósemisguð. Mikla móðir var dýrkuð í hinu forna ríki, Þrygíu (Phrygia) í Litlu-Asíu. Agdistis átti hliðstæður víða í fornri menningu umhverfis Miðjarðarhaf og fljótin Evrat og Tígris (Súmería, Írak). Attis bjó yfir óviðjafnanlegum yndisþokka. Móðir hans festi ástríðuþrungnar ástir á syninum. En Attis felldi aftur á móti hug til skógardísar einnar og hugðist ganga að eiga hana. Móðir guðsins unga varð fá við og illskeytt. Attis varð þess vegna vitskertur og gelti sig, fórnaði reði sínum til að öðlast velþóknun móðurinnar. Upp frá því voru allir þjónar gyðjunnar geltir. (Það var reyndar algengt fyrirkomulag.)

Í Goðafræði Grikkja og Rómverja, segir Jón Gíslason svo frá: „Dýrkun hennar [Kybele] fór fram með trylltum hljóðfæraglaum og geystum æðigangi.“ … „Kunnust er sögnin af Attis, elskhuga hennar. Hann var frygverskur yngissveinn, sem hreif gyðjuna svo, að hún kjöri sér hann fyrir eiginmann. En Attis gerðist henni brátt ótrúr og hugðist ganga að eiga konungsdótturina í Pessinus. Fyrir það refsaði gyðjan honum grimmilega. Er brúðkaupsveislan stóð sem hæst, birtist gyðjan mitt á meðal boðsmanna, og sló þá á gestina felmtri og vitfirring. Flýði Attis upp í fjöll, og svipti hann sig þar lífi í æðiskasti.“

Mikla móðir hafi einnig augastað á börnum til fórna: “Fórnin, dauðinn og upprisan eru miðlægar í öllum barnfórnarhelgisiðum. [Barnið] er fætt til að deyja, deyr til að endurfæðast, barnið er samhæft árstíðabundinni hrynjandi jarðargróðans.” (EN)

Í goðsögnum eru vísbendingar um, að í Karþagó (Túnis) hafi börnum verið fórnað til dýrðar hinni fornu, fönísku gyðju, Tanít. Af Biblíunni má einnig ráða, að í nánd við Jórsali (Jerúsalem) hafi verið hof eða blótstaður, þar sem Kananítar og grannar þeirra, Ísraelsmenn, fórnuðu börnum. Flestum er líklega kunn arfsögn kristinfræðanna um fórn spámannsins, Abrahams, á syni sínum (sem hann reyndar hætti við á síðustu stundu) rúmum þúsund árum fyrir okkar tímatal. Í arfsögum Gyðinga er minnst á hina djöfullegu Lilið (Lilith), ófreskju næturinnar, sem var álitinn sérstakur andskoti barna og kvenna í barnsförum.

Það er rúm öld síðan, að frumbyggjamæðrum í Ástralíu var bannað að fórna frumburðinum og leggja sér til munns til að örva frjósemi sína.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband