Viska Vestmanna og víkingar eða tilurð íslenskrar ritmenningar

Lindisfarne er lítil eyja heilög út af ströndu Norðymbralands. Þar stofnaði klaustur írski munkurinn, Aodhán (Aidan) (590? – 651) árið 635. Hann var lærisveinn fræðamunksins, Kólumkilla.

Það var friðsælt á eyjunni þann áttunda júní 793, þegar vinnufriður munkanna var skyndilega rofinn af ógurlegum stríðsöskrum illskeyttra og hamslausra stríðsmanna. Þeir drápu, rændu og rupluðu. Þeim var hægt um vik að höggva mann og annan. Hranar þessir fengu einnig útrás við að eyðileggja dýrmætar bækur, list- og lærdómsverk, sem ekki einungis fjölluðu um guðdóminn heldur einnig veraldlega visku. Óbótamennina hefur síst grunað, að fólk af þessum lærdómsmeiði ætti eftir að skrá þeirra eigin menningarsögu á annarri eyju, langt norður í höfum, og trúlega kenna þeim bæði landa- og siglingafræði.

Þegar hér er komið sögu voru um fjögur hundruð ár, síðan mesta stórveldi veraldar fyrr og síðar, Rómarveldi, leið undir lok. Rómverjar hernumu Bretland, þ.e. það landsvæði, sem nú er kallað England og Wales, í upphafi fyrstu aldar eftir Krist. Landið var byggt Keltum, sem töluðu keltnesku eða gelísku. Keltar, trúlega frá Spáni, námu land á Írlandi, en landnám þar áræddu Rómverjar ekki. Aftur á móti stunduðu Írar rán og rupl í Wales, þar sem Rómverjar höfðu komið sér upp bækistöðvum og menningarsetrum. Það mætti færa rök fyrir því, að veldi Rómverja hafi verið í dauðateygjunum í tvær aldir eða svo, þegar vestrómverska ríkið gaf endanlega upp öndina snemma á fimmtu öld. Reyndar hafði þegar átt sér stað uppreisn í setuliði þeirra í Bretlandi, áður en fjórða öldin rann sitt skeið á enda.

Jafnvel þótt kristni hafi ekki verið lögtekin sem ríkistrú í heimsveldinu fyrr en síðla á fjórðu öldinni, gætti áhrifa hennar, bæði á meginlandinu og í nýlendunum. Kristnin gaf fræðimennsku vind í seglin og bókasöfn – einkum í tengslum við klaustrin – voru stofnsett og urðu grunnur að lærdómssetrum, síðar háskólum.

Lærdómssetur í Glamorgan, Wales, þar sem réði ríkjum Cadoc (f. 497?) hinn vísi, er einkar áhugavert með tilliti til íslenskrar eða norrænnar menningar, en á þessum tíma áttu Norðurlandabúar enga bókmenningu og ekkert stafróf, annað en rúnaletur. Þar nam m.a. Finian, sem síðar kemur við sögu. Cadoc menntaði annan andans jöfur, heilagan Illtud, sem stofnaði hliðstætt menntasetur, Bangor Illtyd, í upphafi sjöttu aldar. Undanfari beggja er trúlega lærdómssetur stofnað af Þeódósíusi (401-450) þriðja, Rómarkeisara.

Á menntasetri þessu er líklegt, að heilagur Patrekur (398? – 461?) hafi einnig numið. Patrekur var rómverskur að ætterni, en hafði verið hnepptur í þrældóm af írskum mannræningjum á unglingsaldri. Honum tókst að flýja úr prísundinni, eftir sex ára þrældóm. Patrekur nam við klaustur í Gallíu eða Frakklandi og síðar í nefndu menntasetri í Wales.

En svo virðist sem Írar hafi átt í honum hvert bein. Römm var sú taug, er rekkann dró til Írlands. Hann gerðist athafnasamur trúboði og menningarfrömuður í landi kvalara sinna og lagði grundvöll að stórmerkri lærdómsmenningu. Fulltrúar hennar, nunnur og munkar, skrásettu fornar sagnir og nýjar á móðurmálinu, írsku, og endurrituðu sígild fræði og trúarrit. Þegar bókasöfn meginlandsins stóðu í ljósum logum og menntun varð bæði rýrari í roðinu og fátíðari, urðu írsku klaustrin griðastaður menningar, ritlistar, trúar og fræða. Lærdómsmenn og skrifarar hvaðanæva að úr Rómarveldi leituðu þar skjóls, jafnvel allar götur frá Sýrlandi og Egyptalandi (Koptar).

Kólumkilli (Columcille) (521-597) tók við kefli heilags Patreks við trúboð og menntun. Hann stofnaði frægt klaustur á eyjunni Iona í Suðureyjaklasanum (Hebrides) norðvestur af Skotlandi, sem varð miðstöð trúar-og fræða í veröld Kelta – og trúlega einnig einhverra anglósaxneskra og norrænna manna. Klaustur þetta rændu víkingar einnig, en það var jafnan reist úr öskustónni. Kólumkilli var athafasamur mjög og lagði gjörva hönd á stofnun klaustra víðsvegar um heim Kelta (Piktar meðtaldir). Þar gekk í helgan stein Ólafur Sigtryggsson Kvaran (Amlaíb Cuarán - 926? – 981), konungur af Dyflinni (Dublin).

Keltnesku trúboðarnir gerðust frábærir siglingamenn og sjófarendur. Þeir numu land á fjarlægum slóðum, bjuggu um sig í hellum og frumstæðum steinbyrgjum. Rústir slíkra hafa fundist í Papey. Þeir náðu – að þvi er virðist - alla leið til Norður-Ameríku, trúlega um Færeyjar og Ísland, hugsanlega einnig Grænland. Afar sennilegt má teljast, að þeir hafi sömuleiðis hreiðrað um sig á eyjunum við vesturströnd Noregs. Skammt frá Björgvin í Noregi er t.d. að finna örnefnið, „Papafjörð.“ Keltar höfðu , áður en til útrásar trúboðanna kom, langa reynslu í siglingum, m.a. vöruflutningum alveg síðan á bronsöld eða um 3000 f.Kr.

Heilagur Bréanainn (484? – 577?) (Brendan frá Clonfert), var munkur og sæfari, einn víðkunnra „tólf trúboða“ Íra og víðförulastur þeirra. Hann var snemma sendur í klaustur til heilagar lærdómsnunnu, Íte ingen Chinn Fhalad. Hún var sögð „fósturmóðir“ írsku dýrlinganna. Íte fetaði í slóð annarrar merkrar konu írskrar, heilagrar Naomh Fríd eða Brigídar (451? – 525) frá Kildare, sem er einn af þjóðardýrlingum Íra, ásamt heilögum Patreki og heilögum Kólumkilla.

Framhaldsnám stundaði Brendan hjá meistara Finian frá Clonard, sem stofnaði samnefnt klaustur. Þar menntuðust trúboðarnir tólf. Brendan var afar athafasamur eins og fyrirrennarar hans og fyrirmyndir, stofnaði klaustur víðs vegar m.a. í Bretlandi (landi Bretóna), Wales, Skotlandi og Færeyjum. Hann hafði um þrjú þúsund munka undir handarjaðri sínum. Brendan lét sig heldur ekki muna um að stofna klaustur handa elskaðri systur sinni.

Það var engu líkara en að Brendan fílelfdist eftir því sem leið á ævina. Hálfáttræður lagði karl í hættuför sína um Atlantshafið í leit að eyju dýrlinganna. Eftir Brendan liggur bók um ævintýraferðir hans, rituð á latínu: „Navigatio Sancti Brendai Abbatis“ (Sæfærðir Brendans ábóta), gefin út á sjöttu öldinni.

Í bókinni lýsir Brendan m.a undirbúningi fararinnar, lestri gagna, samráði við sérfræðinga og smíði fararskjótans. Fleyið var skinnbátur, þ.e. skrokkur úr eik og aski, klæddur nautshúðum í líkingu við hefðbundna írska kúrra (currach) og velska báta (cwrwgl - coracle). Skinnið var gert vatnshelt með ullarfitu og gegnvætt með eikarbarkarsoði.

Einn sérfræðinganna kynni að hafa verið Kólumkilli. Sá sigldi nefnilega um höfin blá, vestur og norður af Skotlandi og hefur vafalítið einnig farið um Katanes á kúrru sinni, sjóleiðina milli Skotlands og Orkneyja. Lindisfarne, þar sem lærisveinn hans stofnaði klaustur, er austan við Norðymbraland við suður landamæri Skotlands. Trúlega hefur hann – alla vega lærisveinar hans – líka siglt til Shetlandseyja. Þaðan mun sjást í góðu veðri til Noregs.

Talið er, að kúrrurnar hafi getað verið um níu metra langar og borið um þrjátíu manns. Líkur eru til, að sjálf grundvallarbátsgerðin hafi víða verið þekkt á keltnesku menningarsvæði og náskyld bát- og skipamenningu Norðurlandabúa. Hellaristur, t.d. í Gautlandi gætu bent til, að frumgerð þessa fleys sé ættað sunnan úr höfum. Það má einnig líklegt teljast, að Keltar sunnan af Spáni hafi siglt þannig fleyjum, þegar þeir námu land á Írlandi á nýsteinöld (hugsanlega 7000 til 5000 árum f. Kr.) Um svipað leyti mætti jafnvel tala um sameiginlega sjóferða- og viðskiptamenningu við Norðursjó og Atlantshaf.

Hinn mikli, írski lærdómsmaður við hirð Karls mikla (742? – 814), Cicuil (Dicuilus), lifði og hræðist á áttundu öldinni). Hann skrifaði bókina, „Víðáttur hnattarins“ (De mensura orbis terrae). Höfundur getur þess m.a., að írskir munkar hafi siglt til byggða á Thule (Íslandi). Það er ástæða til að ætla, að landið hafi verið þekkt á keltnesku menningarsvæði á sjöttu öldinni. Cicuil segir einnig frá ferðum írskra einsetumanna til Íslands og áfram norður að ísröndinni við Grænland. Ferð þessi var, að sögn, farin árið 795.

Það er í þessu sambandi áhugavert til þess að hugsa, að mannvistarleifar á Reykjanesi hafi verið aldursgreindar til miðrar áttundu aldar, að keltneskur kross sé klappaður á vegg í Seljaneshelli um átta hundruð og að mannvistarleifar í Kverkhelli megi tímasetja löngu fyrir árið 871.

Ari fróði Þorgilsson (1067-1148) segir frá því í Landnámu eins og kunnugt er, að Paparnir hafi snautað á brott, þegar norrænir menn birtust upp úr miðri níundu öldinni. Þegar haft er í huga, að Keltar þekktu vel til norrænna manna og að fjöldi Kelta væri meðal landnámsmanna, og sú staðreynd íhuguð, að bókmenning hafi orðið til á Íslandi á íslensku, mætti ætla, að orð Ara séu ekki með öllu áreiðanleg.

Það er harla ólíklegt að slík bókmenning hafi orði til, án beinnar aðkomu menntaðra Kelta, aðfluttra eða nauðugra. Þar að auki var kristni snemma lögtekin og friðsamlega. En í anda Ara sjálfs, þ.e. að hafa heldur það, sem sannara reynist, má skoða málið frá fleiri hliðum.

Bjarni Eiríkur Sigurðsson (BE), fyrrum skólastjóri (sbr. Bændablaðið 7. Júlí 2011), ber brigður á orð Ara eins og fleiri reyndar. Bjarni Eiríkur kallar Sæmund fróða og Ara fróða „leigupenna.“ Hann segir:

„Mín kenning er sú að hér hafi verið öflugt bændasamfélag löngu áður en Ingólfur Arnarson og norsku landnámsmennirnir settust hér að. Þetta var friðsamt fólk, hákristið sem hefur flúið hingað frá Orkneyjum og víðar undan ofríki víkinga og víkingakonunga sem réðust á Bretlandseyjar.“ …

„Landbúnaðurinn á Íslandi má gjarnan vita af því að Ari fróði og Sæmundur fróði voru leigupennar. Biskuparnir létu þá skrifa Íslendingabók, Flateyjarbók og Landnámu. Það er sérkennilegt að okkar ágætu fræðimenn, sem margir eru samt afskaplega snjallir, skuli aldrei hafa tekið þessa leigupenna betur í gegn.“ Þess má geta, að Svarti skóli, þar sem Sæmundur fróði menntaðist, var byggður upp af írskum munkum.

BE: „Af hverju kíkja fræðimennirnir ekki á augljós merki eins og tilurð kennileita á borð við Papey og Papós. Einnig Apavatn sem auðvitað hefur heitið Papavatn. Við getum líka nefnt Papafjall í Suðursveit og minjar sem þar eru. Það er skrítið að þessir fræðimenn okkar skuli ekki gera sér grein fyrir því að landnámsmennirnir svokölluðu gátu ekki lifað eingöngu af því sem landið gaf af sér.“

Það eru vísbendingar um, að búandfólk hafi numið landið, áður en „víkingarnir“ komu. T.d. ku Þuríður sundafyllir, sem nam land á Vestfjörðum, hafa krafið „frumbyggja“ um eina ær hvern. Og svo hafa verið færð rök fyrir því, að íslenska landnámshænan sé í raun keltnesk.

Sagnfræðingurinn, Jón Jónsson Aðils (1869-1920), hefur velt vöngum yfir þætti Kelta í íslenskri menningu. Í bók sinni, „Íslenzku þjóðerni,“ segir hann m.a.:

„Í fornritum vorum er oft getið um man, bæði þræla og ambáttir, og um margt af því er tekið fram, að það hafi verið af írsku kyni. ... Nú mega menn ekki ætla, að þetta man hafi alt verið þýborið, eða yfir höfuð að tala af auðvirðilegum uppruna. Það var oft af göfugum ættum, jafnvel jarlborið og konungborðið, ...

Írskir klerkar og klaustramenn lögðu sig ekki eingöngu eftir latínu, heldur einnig eftir grísku og hebresku. Þeir hófu fyrstir manna fornrit Grikkja, þennan gimstein alheimsbókmenntanna, upp úr gleymsku og niðurlæginu og auðguðu anda sinn og þekkingu á lestri þeirra. Eftir það skifti svo um, að hver mentakynslóðin á fætur annari hefur nú öld eftir öld ausið þaðan sína beztu undirstöðufræðslu.

Írar voru hugvitsmenn hinir mestu í alls konar listum og snillingar í höndunum. Fornar írskar skinnbækur eru skreyttar hinum margbrotnustu listadráttum, svo óviðjafnanlega vel gerðum, að það ber að fegurð og snild af flest öðru, sem fram hefur komið í þeirri grein alt fram á vora daga. Þeir voru líka lista-smiðir á alla málma og greyptu svo fagurlega alls konar skrautmyndir á smíðisgripi sína, að afbragð þótti meðal annara þjóða.“

Enn er ekki bitið úr nálinni. En lokaorðin koma frá Jakobi Orra Jónssyni, úr BA ritgerð hans frá 2010, „Þeir es Norðmen kalla papa“:

„Margar tilgátur hafa verið lagðar fram, og einnig hraktar, um papa á Íslandi. Spurningin um það hver tilgátanna er rétt eða hvort að yfirhöfuð sé hægt að tala um „rétta tilgátu“ í þessu sambandi er eitthvað sem fræðimenn munu eflaust þræta um í mörg ár til viðbótar. Mörg tækifæri til nýrra rannsókna, fornleifafræðilegra og annarra, er varða papa-fræði eru enn eftir til á Íslandi. Má þar nefna áframhaldandi uppgröft að Kirkjubæ og frekari rannsóknir á áhrifum íslenskra aðstæðna á geislakolsaldursgreiningar sem dæmi.“

Læt hér fylgja fyrsta þátt heimildamyndar um för breska sagfræðingsins og könnuðarins, Tim Severin (1940-2020), „Sjóferð Brendan“ (The Brendan Voyage), sem fór í „sæspor“ Brendan á heimasmíðaðri kúrru.

https://lookingnorth.blog/2020/07/the-brendan-voyage/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband