Eflingarávarpið. Sólveig Anna Jónsdóttir

Sólveig Anna Jónsdóttir (SA/SÖ) er forkona Eflingar. Stéttarfélagið berst fyrir hagsmunum þrjátíu þúsunda félagsmanna á höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi. Það er annað stærsta stéttarfélag landsins.

Hún hefur nú sent frá sér ávarp. (Forsæta ASÍ, Drífa Snædal, hefur – held ég ekki – samið slíkt ávarp, en hefur aldrei farið í launkofa með kvenfrelsunarhugmyndafræði sína. Heldur ekki forkona Starfsmanna ríkis og bæja, Sonja Ýr Þorbergsdóttir, og fráfarandi forkona Bandalags háskólamenntaðra, Þórunn Sveinbjarnardóttir, núverandi þingmaður Samfylkingarinnar. (Friðrik Jónsson er tekinn við.).

Þess má til fróðleiks geta, að ávarpið birtist nokkurn veginn samtímis síðasta gjörningi Kvenfélags atvinnulífsins, sem RÚV skýrði skilmerkilega frá í fréttum 11. okt. 2021. Félagið bendir á dapurlegt hlutfall kynjanna í stjórn fyrirtækja í Kauphöllinni, þrátt fyrir ríkjandi ”jafnrétti” á Íslandi. Með skírskotun til þessa skora ég hér með á stjórn Katrínar kvenfrelsara að reka eins og helming forstjóra þeirra og ráða konur í staðinn. Það er jafnrétti. Sömuleiðis legg ég til, að konum verði greidd þau laun, sem þær telja sig verðskulda – hvarvetna og í hvívetna.

Þessi tillaga sækir einnig innblástur í ávarp SÖ; Ávarp hennar ber hið auðmjúklega heiti: „Nokkur orð um feðraveldi.“ Verðugri titill væri þó: Konur allra landa sameinist.

Ávarpið hljómar í ágripi svo:

„Í því flókna nútímasamfélagi sem við byggjum, þar sem þversagnirnar magnast upp og verða sífellt fleiri og ótrúlegri, þar sem „allir nýskapaðir lífshættir ganga úr sér áður en þeir verða fullharðnaðir“, er áhugavert og nauðsynlegt að velta því fyrir sér, í það minnsta fyrir okkur sem trúum á mikilvægi kvenfrelsisbaráttunnar, hverskonar „feðraveldi“ við búum inn í og hvaða afleiðingar það hefur í lífi okkar, eftir því hvaða hópum við tilheyrum o.s.frv..“

Þrátt fyrir, að nokkrar konur hljóti vegsemd „er þó enn notast við samfélagslegt stýrikerfi sem kalla má feðraveldi. Það kynbundna ofbeldi sem konur þurfa að þola í persónulegu lífi sínu og í opinberum rýmum, og sú sjúka þöggun sem fengið hefur að viðgangast um ýmis brot manna gegn konum er afleiðing feðraveldis.

Annað mikilvægt dæmi sem sannar að við búum í feðraveldi er sú fráleita staða sem upp er komin, að vestrænt frelsi manna og kvenna á ekki síst að vera okkur sjáanlegt í fjöldaframleiddu klámi, þar sem konur sem hópur (women as a class) hafi verið „leystar“ undan þeim sammannlegu „skorðum“ sem tilvist sálar og hjarta í líkama af holdi og blóði hafa sett homo sapiens, og Menn hafa fengið frelsið til að „njóta“ þessara hamskipta fyrirbærisins Konu.“ … (SA notar orðið, „maður“ eins og RÚV í merkingunni karlmaður.)

„Þetta er samfélag mótað af gildum hins risavaxna og einstaklega árangursríka menningarstjórnunar-verkefni kapítalismans, því sem kallað er nýfrjálshyggja [ein ásýnd auðvaldsins]. Og það feðraveldi sem nú er við lýði er feðraveldi sem lifað getur í innilegu sambandi við nýfrjálshyggjuna.

Ein helsta ástæðan fyrir því að nýfrjálshyggjan er svo árangursríkt hugsana og hugmyndastjórnunartæki, þrátt fyrir alla ömurðina og allt óréttlætið sem raungerst hefur í „valdatíð“ hennar er hin einstaklingsmiðaða nálgun þegar kemur að „frelsi“.

Annarrar bylgju femínisminn tuttugustu aldarinnar, stórkostleg hreyfing um kvenfrelsun, sem í fyrstu var róttæk og innihélt magnaðar útópískar hugmyndir um möguleika kvenna til að ákveða reglurnar um eigin tilveru breyttist; miðlæg hugmynd baráttunnar um samstöðu kvenna þvert á stétt og bakgrunn hvarf, og inn í femínisminn kom í hennar stað einstaklingshyggja nýfrjálshyggjunnar. Krafan um samstöðu hvarf, dýrkun á sigrum einstakra kvenna inn í kapítalismanum kom í staðinn.“

„[L]ítið hefur batnað í lífi kvenna sem dvelja neðarlega í stigveldinu; þær konur sem vinna við hin hefðbundnu kvennastörf og eru ekki með sérstaka menntun, eru, þrátt fyrir að vera kerfinu algjörlega ómissandi, þær sem minnst virði eru af öllum á vinnumarkaði. Þær eru, þrátt fyrir að nú hafi í töluverðan tíma ýmsar konur stjórnað ýmsu og haft ýmis völd, enn ofur-arðrændar og með slíkum þrótti að sífellt fleiri úr þeirra stétt lifa við fátækt og heilsu þeirra hrakar hratt eftir að þær ná miðjum aldri, bæði andlegri og líkamlegri. Þær valdakonur sem stjórnað hafa fyrirtækjum eða pólitík hafa ekki sýnt áhuga á að koma þessum kynsystrum sínum til aðstoðar; …“ …

„Óforskömmuð atlaga hálauna-konunnar Aldísar Hafsteinsdóttur gegn ómissandi starfsfólki sveitarfélaganna, mest láglaunakonum í umönnunarstörfum er einstaklega góð dæmisaga; Aldís telur að versta bölvun sem hægt er að hugsa sér sé að borga kven-vinnuaflinu laun og sýnir með framferði sínu (hvað eftir annað) að láglaunakonur geta aldrei treyst á það að kona í stjórnunarstöðu muni nota völdin sín til að bæta þeirra hag, sérstaklega ekki ef það kostar. Það er nákvæmlega engin samfélagsleg, kvenréttindaleg krafa um að hálauna-konurnar noti platformin sín og völdin til að liðsinna láglaunakonunum.“ …

„Engin feminísk krafa um samstöðu háttsettra kvenna með lágt settum konum er til staðar. Aðeins mestu brjálæðingarnir, félagslegir endurframleiðslu-marxistar og rad-femmur, láta sér detta til hugar að setja fram slíka kröfu.“ …

Láglaunakonur eru „[f]angar þessarar gömlu og grjóthörðu reglu feðraveldisins; allt það sem kellingar hafa gert í gegnum tíðina er einskis virði og bókstaflega galið að ætlast til þess að valdastéttin, peningaleg og pólitísk, eigi að axla nokkra ábyrgð á að tilvistar-skilyrðum Konunnar sem kyndir ofninn. Sú óþolandi gella á að halda áfram að vinna verk sín hljóð og ekki trufla stjórana, hvort sem þeir eru karlar eða með eggjastokka og leg eins og hún.“ …

Í niðurstöðu er SA skorinorð: „Feðraveldi íslenskrar nýfrjálshyggju snýst fyrst og fremst um að arðræna, kúga og pína verka og láglaunakonur.“

Alda Lóa Leifsdóttir bregður frekari birtu á fyrirbærið: „Feðraveldi nýfrjálshyggjunnar sundrar öllu sem er fallegt og gott. Vekjum upp systrabandið, lyftum upp systur okkar sem er kerfislægt mest smáð og lítillækkuð, upp til skýja. Þar byrjum við.“

Hugmyndir SÖ og Öldu Lóu eru allrar athygli verðar. Hér glittir í fornan klyft millum byltingarkvenfrelsara (kommúnista, sósíalista) og jafnaðarlýðræðiskvenfrelsara (sósíaldemókrata) þarsíðustu aldamótaára annars vegar og borgaralegra hins vegar. En barátta beggja hreyfinga var að nær öllu leyti háð af konum, sem menntast höfðu – oft fyrir tilstilli feðra sinna – við menntastofnanir feðraveldisins, og á annan hátt studdar af hinum kúgandi karlpeningi.

Það er hárrétt hjá SÖ, að ýmsir baráttumenn annarrar bylgju kvenfrelsunar hættu að lemja á auðvaldinu. Það fjármagnaði nefnilega baráttu þeirra eins og nákomnari karlar höfðu áður gert. Hins vegar voru einnig kvenfrelsarar á boð við Camille Paglia, sem þökkuðu auðvaldinu fyrir batnandi lífskjör á Vesturlöndum – sem þær nutu í ríkum mæli ávaxtanna af eins og allir hinir kvenfrelsararnir.

SA sér í þessum ágæta pistli ekki ástæðu til að nefna, að margar hugsjónir annarrar bylgju kvenfrelsunar eru í þann mund að rætast, þrátt fyrir, að konur sæki umvörpum í svokölluð „kvennastörf.“ (Hvers vegna ætli þær geri það?) Konur, kvenfrelsarar fyrst og fremst, hafa eða eru í þann mund að leggja undir sig stóran hluta opinberrar þjónustu, gera karla að hornrekum á mörgum sviðum, t.d. í æðri menntun, og stuðla að kynlausu kvenveldi (gyðjuveldi, Grýluveldi). (Þá dettur væntanlega botninn úr kvenfrelsun, þegar engar verða konurnar til að frelsa– eða hvað??)

Kvenfrelsarar annarrar bylgju höfðu fleiri markmið: Til dæmis: 1) Upplausn fjölskyldunnar og yfirtöku hins opinbera á uppeldi og menntun barna, sem konur vilja sinna. Hvort tveggja er langt komið. 2) Alþjóðlegt samstarf í anda kvenfrelsunar. Því markmiði er náð. Það er staðfest í alþjóðasamningum og lögum víðsvegar, að konur séu fórnarlömb karla. 3) Breytingar á löggjöf, konum í hag. Þær eiga sér stað nær daglega, sumar undir dulnefninu; jafnrétti. 4) Endurritun sögu mannkyns samkvæmt þeirri hugmynd, að karlar hafi kúgað konur frá upphafi vega. Hún er komin vel á veg. 5) Útskúfun karla. Þessu ætlunarverki hafa kvenfrelsarar lagt gangskör að, t.d. með því að beita þeirri margreyndu aðferð að „gelda“ þá og auðmýkja. 6) Leggja undir sig stofnanir og félög af öllu tagi (stéttarfélög og íþróttafélög vitaskuld meðtalin), stjórnmálaflokka og þjóðþing. Þeim miðar vel. Íslenskt dæmi: Eins og flestum mun kunnugt, var Knattspyrnusamband Íslands lagt að velli nýlega. Eftir vandlegan undirbúning við áróður, hálfsannleik og auðmýkingu, birtist frelsarinn, að eigin sögn „rétt kona, á réttum staði og á réttum tíma.“ Að hætti gamalla páfa hefur hún rannsóknarrétt kvenfrelsara sér til stuðnings.

Þetta hlýtur að vera SÖ huggun harmi gegn. Útlitið er fráleitt eins svart og SA lætur í veðri vaka. Ég vona sannarlega, að maður gangi undir manns hönd einu sinni enn og hvetji konur til að leggja umönnunar- og uppeldisstörfin á hilluna og gerast forstjórar fyrirtækja, skráðum í kauphöllinni. Ég nenni því alla vega ekki. Leiðtogastörf í feðraveldinu eru oft og tíðum mannskemmandi.

https://www.facebook.com/solveig.a.jonsdottir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband