Eru kýr beittar kynferðislegu ofbeldi?

Vísindunum fleygir fram. T.d. hafa verið birtar niðurstöður merkrar rannsóknar á kúgun kúa. Greinin, sem birtist í tímariti Kven- og kynfræðadeildar háskólans í Nýju Jórvík (NY), heitir: „Undirbúningur fyrir píslarbekk nauðgunarinnar: Kvenfrelsun og rányrkja á æxlunarfærum dýra“ (Readying the Rape Rack: Feminism and the Exploitation of Non-Human Reproductive Systems).

Fyrir höfundi, Mackenzie April, vakir að afhjúpa „ kvenfrelsunartilbrigði við landbúnað með dýr.“ Höfundur er aðgerðasinni og beitir sér fyrir rétti dýra og neyslu grænmetis. Hún fræðir lesandann um, að því miður sé skortur á slíkum rannsóknum, sem engu að síður séu þýðingarmiklar, því að á sama hátt og „heilsa kvenna hafi verið í húfi árum saman, hafi æxlunarlíffærum mjólkurkúa verið misþyrmt (poded and prodded).“

Mackenzie vekur athygli á því, hvernig slík misþyrming stingi í stúf við þá mynd kýrinnar, sem frá blautu barnsbeini hefur borið fyrir hugskotssjónir okkar, þ.e. „mjólkurkýr á beit á fögru engi, þar sem þær „leika við hvurn sinn fingur“ (sow and play) og leggjast til svefns í rúmgóðu bóli. Við sjónum okkar blasir hamingjuríkt líf [kúanna], en þegar dráp hinna sömu ber undir, blasir [hins vegar] við ógeðfelldur veruleiki.“

Rannsókn Mackenzie leiddi m.a. í ljós, að bændur nauðgi kúm sínum með sæðingum og misnoti þær kynferðislega, þegar þær eru mjólkaðar. Þannig býður mjólkuriðnaðurinn heim umsvifamikilli kynferðislegri misnotkun; „vettvangur kynferðislegar árásar og hlutgervingar á grundvelli sköpunarverksins.“

Fólk er hvatt til andófs gegn bændum, sem slíka ósvinnu stunda, svo að „til fullnustu megi vinna bug á kynferðislegri kúgun [þ.e. kúgun kvenna].“ [Kúgunin] er verulega útbreidd, en fram hjá henni litið, þar sem við kjósum að virða að vettugi dýrin, sem við deilum jörðinni með.“ ... „Samfélaginu ber einnig skylda til að láta sig hlutskipti mjólkurkúa skipta.“ Þær séu fórnarlömb (subjects) „kynferðislegs misréttis og ofbeldis,“ enda þótt þær hvorki „hafi hátt um það né séu skiljanlegar.“

Mackenzie elur þá von í brjósti, að rannsókn hennar ljúki augum almennings upp fyrir því, hvernig mjólkuriðnaðurinn „styðji og sé [um leið] dæmi um niðurlægjandi meðferð kvenlíkama og æxlunar.“ Hún gælir einnig við þá tilhugsun, að rannsókn hennar verði kvenfrelsurum og öðrum réttlætissinnum hvatning til „að taka tillit til dýralíkama í kvenfrelsunarviðhorfum sínum. ... og virða líf dýra eins og væri eigið líf.“ Hún leggur einnig að lesendum, að leggja að jöfnu baráttuna fyrir rétti kúa „með svipuðum röksemdum og aðgerðum og í baráttunni fyrir rétti kvenna, [baráttu] sem fólki er hlíft við sökum forréttinda tengdum kynþætti, kynferði, stétt og svo framvegis.“

„Vaki það fyrir okkur að færa rök fyrir rétti allra lífvera í veröld, þar sem ríkir kynferðisleg og kynbundin kúgun [þ.e. kúgun af karla hálfu], ætti að taka tillit til mjólkurkúa, þegar æxlunarheilsa kvenna er rædd. Það eiga mjólkurkýr skilið,“ segir Mackenzie.

Greinarhöfundur ber saman ófrjóar kusur og óbyrjur, sem svo eru, að eigin ósk. „Konur, sem óska þess að fæða ekki börn, eru skammaðar. Sé kýr [hins vegar] ófrjósöm, liggur leið þeirra í sláturhúsið. Þar eð æxlunarfæri þeirra eru gagnslaus, eru þær ónytjungar [taldar] sem lífverur.“ Þetta kallar höfundur „tvöfalt siðferði,“ þar sem siðvætt samfélag mundi kveinka sér við því að myrða konur um leið og þær yrðu ófrjósamar.

„Hin úr sér gengna ímynd konunnar sem móðir og uppalandi, lifir góðu lífi í mjólkuriðnaðinum, sérstaklega með hliðsjón af því, hvernig rányrkjunni á skepnunum er hagað,“ t.d. við þá „nauðgun,“ sem í sæðingu felst; við mjöltina, sem er „kynferðislegri misnotkun“ líkust; við „tilfinningalegt áfall kelfdrar kýr,“ sem einnig hefur mátt þola „kynvakameðferð án samþykkis.“

Lokaorð höfundar eru þessi: „Á meðan við berjumst gegn kynferðislegu ofbeldi gegn konum, lokum við augunum fyrir sams konar ofbeldi, sem aðrar lífverður verða fyrir, þrátt fyrir, að leiðir séu færar til að haga lífi sínu á sjálfbærari hátt og sem leiða ekki til misþyrminga á milljónum kvenlíkama.“ Höfundur spyr að lokum, hvers vegna fólk haldi í heiðri auðvaldinu, kynfólskunni og feðraveldinu, þegar því er í lófa lagið að losna við þann ófögnuð allan á einu bretti og stuðla um leið að æxlunarréttlæti dýra.

Birtist í Morgunblaðinu 18. júní 2021.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband