Kynhugsun Joseph Biden

Nýkjörinn forseti Bandaríkja Norður-Ameríku (BNA), Joseph Robinette Biden (1942) er einlægur kvenfrelsari. Hann var ötull talsmaður löggjafar til verndar konum (Violence Against Women Act frá árinu 1994) . M.a. á grundvelli þeirra hafa verið stofnsettir eins konar dómstólar og jafnréttisráð (les: kvenréttarráð) við æðri menntastofnanir í BNA. Þar hafa margir piltar hlotið skell fyrir allra handa kyndónaskap. Það sætir því varla undrum, að Jósef hafi verið gæluframbjóðandi kvenfrelsara í síðustu forsetakosningum.

Kosningaloforð Jósefs voru skýr. Hann ætlaði sér að bæta fjárhagsöryggi kvenna, m.a. með því að hækka laun og auka hlunnindi í kvennastörfum; greiða fyrir gæðaþjónustu í heilbrigðiskerfinu; liðsinna þeim við að ná tökum á launavinnu og heimilishaldi, m.a. með því að útvega leikskóla á viðráðanlegu verði, launuð leyfi og annars konar vernd og hlunnindi í starfi; binda endahnút á ofbeldi gegn konum (lögin hafa greinilega ekki virkað sem skyldi); vernda og efla konur að allri dáð um gervalla veröldina. Þetta gildir sérstaklega um blakkskinna. Svona eiga sýslumenn að vera.

Jósef lætur ekki sitja við orðin tóm. Hann hefur nú tilkynnt um stofnun „Kynjajafnréttisráðs Hvíta hússins“ (White House Council on Gender Equality), sem á að helga sig „samþættingu stefnumörkunar stjórnarinnar í málum kvenna og stúlkna á fjölda sviða eins og fjárhagsöryggis, heilbrigðisþjónustu, kynþáttaréttar, kynbundins ofbeldis og utanríkisstjórnmála.“

Reyndir kvenfrelsarar frá stjórnartíð forvera hans, Barack Obama (f. 1961) og William Jefferson (Bill) Clinton (eða Blythe III) (f. 1946), eru ræstir út; sagnfræðingurinn, Jennifer Klein (f. 1967) og Julissa Reynoso Pantaleón (f. 1975). Sú siðarnefnda er einnig starfsmannastjóri forsetafrúarinnar, Jill Tracy Jacobs Biden (f. 1951). Sú fyrrnefnda var ráðgjafi Hillary Diane Rodham Clinton (f. 1947). Jósef hefur hlotið einróma lof kvenfrelsunarhreyfinga fyrir framtakið og útnefningarnar.

Konur þessar hafa svo sannarlega bein í nefinu, kvenfrelsunarhvellhettur hinar mestu. Jennifer segir t.d.: „Meiriháttar sundrung kallar á breytingar á fyrirkomulagi. Nú er lag að hugsa stórt og það er einmitt það, sem við þurfum að gera. .. Við verðum að viðhalda í hnífskörpum (laser) brennidepli sérstökum þörfum og forgangsmálum kvenna og stúlkna.“ Kófharmatárin hrynja af hvarmi hennar: „Atvinnuleysistölur síðustu mánuði segja þá sögu, að fleiri konur hafi misst vinnuna, en áður eru dæmi um (historic numbers). [Þetta á] sérstaklega við um þeldökkur konur. Og umönnunarbyrði þeirra er hlutfalllega meiri [en karla].“

Shannon Melero, höfundur greinar í kvenfrelsunarritinu, Jezebel, er að rifna úr hamingju. (Sjá neðanmáls.) Fyrirsögn greinar hennar er: „Ráðuneyti Biden ætlar að spreyta sig á því að uppræta tíu þúsund ára langa kynfólsku með kynjajafnréttisráði“ (Biden Administration Will Attempt to Correct 10.000 years of Sexism with a Gender Equality Council.) (Málsmetandi kvenfrelsarar segja þó kúgun karla ná aftur að uppruna tegundarinnar, en ekki bara frá landbúnararbyltingunni.)

Jósef virðist stundum eiga í nokkrum vandræðum með að fylgjast með gangi heimsmálanna. Það á einnig við um þróunina á sviði kven- og kynfrelsunar. Í kosningabaráttunni veitti hann ónóga athygli þeim hópi manna, sem eru samkynhneigðir, kynlausir, tvíkynja, hinsegin og skipt hafa um kyn.

En í þingávarpi bætti Jósef ráð sitt. „Ég beini orðum mínum til allra kynskiptinga í Ameríku, sem fylgjast með heima, sérstaklega [til] unga, hugrakka fólksins. Þið skuluð vita, að forseti ykkar er haukur í horni.“ Ofangreindur hópur fékk í heild sinni uppörvun. Það vekti nefnilega fyrir forsetanum að sannfæra alríkisþingið um að afgreiða „Jafnréttislögin“ (Equality Act) til að tryggja rétt lespa-homma-tvíkynunga-kynskiptinga-hinseginfólks (lesbian-gay-bisexual-trans-queer/LGBTQ) í ríkinu.

Á degi kynskiptasýnileika (Transgender Day of Visibility) gaf Jósef viðurkenningu „þeim kynslóðum, sem hafa sýnt hugrekki í baráttu [og] aðgerðum og fært þjóðina nær fullu jafnrétti fyrir kynskiptinga, og þá, sem falla ekki undir tvískautun kynferðis (non-binary people) í BNA og umhverfis heiminn.“

Á öðrum vettvangi hefur Jósef sagt: „Það má með engu móti mismuna átta eða tíu ára gömlu barni, sem tekur ákvörðun um kynskipti til að auðvelda líf sitt.“ Þetta segir hann, þrátt fyrir að nefnd sérfræðinga á snærum Barrack hafi komist að þeirri niðurstöðu, að kynskipti hefðu engin heilsubætandi áhrif á hlutaðeigandi.

Jósef er hinn vænsti maður og vill allt fyrir alla gera, nema drengi og karla. Hinn ötuli baráttumaður fyrir réttindum þeirra, fjölfræðingurinn Warren Thomas Farrell (1943), hefur, ásamt hópi manna, beitt sér fyrir stofnun ámóta ráðs fyrir drengi allar götur síðan Barrack sat við stjórn. En allt kemur fyrir ekki. Það er eins og að brenna sig á heitum eldi fyrir stjórnmálamenn að snerta málefni drengja og feðra. Þeir eru hræddir um að missa fylgi kvenna eins og Warren hefur sannreynt.

https://jezebel.com/biden-administration-will-attempt-to-correct-10-000-yea-1846100751


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband