Hermennskukvenfrelsun og jafnrétti

Íslendingar eiga sinn her. Hann heitir «Sérsveitin.» Íslendingar eiga líka jafnréttisráðgjöf, sem segir, að hlutfall kynja skuli vera því sem næst jafnt á öllum sviðum. Katrín kvenfrelsunarforsætisráðherra leggur áherslu á svið, þar sem „mikilvægar ákvarðanir“ eru teknar. Það á þó ekki við um fóstureyðingar. Konur skulu einar geta ráðið eyðingu eigin fóstra og föður fram að fæðingu.

Við eigum einnig kvenfrelsunarríkislögreglustjóra, Sigríði Björk Guðjónsdóttur, sem m.a. hefur tjáð sig um (meinta) sekt ódæmdra karla og unnið brautryðjandastarf á sviði heimilisofbeldis, þ.e. að fjarlægja karla (ofbeldismenn) af heimilum sínu undanbragðalaust, en þó samkvæmt mati lögreglumanna á vettvangi - og skutla „þolenda“ og börnum hennar í Kvennaathvarfið.

Nú er það annar vettvangur, sem veldur Sigríði hugarangri. Sérsveitin. Hún er nefnilega eingöngu skipuð körlum. Samkvæmt neðangreindri frétt í Vísi:

„Sérstök úttekt var gerð hjá embætti Ríkislögreglustjóra á dögunum. „ Þá kom ýmislegt í ljós. Margt er í jákvæðum farvegi en annað þarf að skoða betur og það er til dæmis inngönguskilyrðin í sérsveitina,“ segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri. …

Sérsveit ríkislögreglustjóra auglýsti á dögunum eftir umsækjendum í fjögur laus pláss í sveitinni. Engar konur eru í sérsveitinni en í auglýsingunni eru konur hvattar til að sækja um.

„Það er kannski ekki alveg raunhæft eins og staðan er af því að til þess að uppfylla skilyrði sem sérsveitarmenn að þá þarftu að hafa lokið nýliðanámskeiði og það voru ekki konur sem luku því þetta árið en við viljum horfa til þess að það séu ekki útilokandi þættir í inntökuskilyrðunum,“ segir Sigríður Björk.

Konur nái ekki að standast sum skilyrðin. „Það sem við höfum heyrt mest af er þessi talsverða þyngd í bekkpressu, áttatíu kíló, og samhliða hlaup. Þannig þú þarft bæði að vera mjög sterkur og einnig að geta hlaupið mjög hratt og það er mismunandi hvernig líkamsbygging karla og kvenna er mismunandi. Þess vegna þarf bara að meta það hvort þessar kröfur endurspegla þær raunkröfur sem þarf að gera til fólks sem gegnir þessum störfum og hvort það megi þá prófa það með öðrum hætti,“ segir Sigríður en uppfylla þarf mjög strangar kröfur til að komast í sérsveitina.

Þetta eru meðal annars inntökuskilyrði; 3 kílómetra hlaup á undir 12 mínútum; 80 kíló í hnébeygju, 15 endurtekningar; 80 kíló í bekkpressu, 10 endurtekningar; planki í 2 mínútur.

„Það er ekki þar með sagt að við séum að fara minnka kröfurnar heldur erum við að fara breyta þeim út frá eðli verkefna,“ segir Sigríður. Unnið sé að því að endurskoða inntökuskilyrðin. „Sérsveitin á náttúrulega bara að rúma okkar fólk sem hefur hæfni og getu á þessu sviði og ég sé ekkert sem mælir gegn því að það séu konur. Við eigum að hafa konur og karla í okkar störfum. Við erum að þjóna almenningi sem eru bæði konur og karlar,“ segir Sigríður Björk.“ [Þetta er sannast sagna byltingarkennd röksemd. Það gera skophreinsitæknar líka.]

Málið er allrar athygli vert. Þegar sérsveitin var sett á stofn til að berjast gegn hryðjuverkamönnum, setti dillandi hlátur að kvenfrelsurum meðal glaðbeittra Alþingismanna, sögðu málið snúast um stráka, sem langaði í byssuleiki. Svona væru karlmenn (skellihlátur)! En nú bregður svo við, að konur langar líka í byssuleik. Það er ekkert nema gott um það að segja. Konur mega leika sér með skotvopn eins og bolta. En Sigríður rekst á erfiða hindrun; „guðs gefinn“ mun karla og kvenna (sem talinn er hugarfóstur karlrembusvína) og svo andskotans feðraveldið, sem sett hefur kúgandi inntökuskilyrði. En því hyggst Sigríður breyta. Hún er ekki sú fyrsta á Vesturlöndum.

Ríkislögreglustjóri gæti sem hægast farið norsku leiðina. Þegar Norðmenn herjuðu í öxulveldi hins illa (samkvæmt George Bush yngri (f. 1946), forseta Bandaríkja Norður-Ameríku (BNA), Afganistan, komust þeir að því, að konur í því stríðshrjáða ríki, vildu bara tala við konur, norskar konur í þessu tilviki. Þá fékk kvenhernaður byr undir báða vængi.

Árið 2014 ásetti norski herinn sér að koma á fót kvennahersveit, „Veiðimannasveitinni“ (Jegertroppen). Umsækjendur voru 317, en 88 stóðust inntakskröfur, 20 luku tíu mánaða þjálfun, 13 mynduðu svo hersveitina að lokum. Ári seinna endurtók sagan sig í grófum dráttum. Hlutverk hennar er eftirlit á byggðu bóli. Um er að ræða einustu hreinu kvenhersveit í veröldinni (að líkindum). Norðmenn buðu konum að taka þátt í bardögum árið 1984. Í Noregi þurfa bæði karlar og konur að gegna herskyldu.

En svo er ekki í BNA. Þar er eingöngu körlum skylt, þegar þeir ná átján ára aldri, að skrá sig til herþjónustu (Special Services), svo kalla megi í þá, þegar mikið liggur við. Kvenfrelsarar hafa átt erfitt með að gera upp hug sinn um jafnrétti til að drepa fólk. Oftast hafa þeir talað um rétt kvenna til þess arna (þ.e. með fulltingi ríkisvaldsins). En það eru fleiri hljóð í strokknum.

Eitt af ungstirnum norður-amerískra kvenfrelsara, Marie Stolls, ritar árið 2019 fróðlega grein um efnið í kvenfrelsunarritið, Jezebel, í tengslum við þá ósk „Norður-ameríska sambandsins um borgararéttindi“ (American Civil Liberties Union - ACLU), að hæstiréttur þar í landi dæmdi ólögmæt þau lög um herkvaðningu, sem mismunuðu körlum og konum.

Marie hæðist að jafnréttishugsun kvenfrelsunarystra sinna (og karlkvenfrelsara) og segir: „Hvernig sem á það er litið, virðist sú ákvörðun ACLU að gera herskyldu að kynjamisréttismáli eiga heima í pytti frjálslyndisskilgreininga á kynjajafnrétti, sem boða, að konur verði að gera allt það, sem karlar gera.“ Kvenfrelsarar af þessum meiði hugmyndafræðinnar telja það fullgott jafnrétti að geta sjálfar valið réttindi og skyldur, eftir hentugleikum.

Fyrrum orrustuflugmaður og stjórnmálamaður, Martha Elizabeth McSally (f. 1966), fyrsti kvenkyns ofursti í flughernum, tekur í svipaðan streng. Hún segir bardagahlutverkið velkomið konum, en sér þó öll tormerki á því, að skylda konur til herþjónustu. Oft og tíðum hefur reyndar brugðið svo við, að kvenhermenn verði óléttir, þegar bardagafjör er innan seilingar, jafnvel þótt núverandi ríkisstjórn hafi látið hanna óléttubúninga fyrir verðand mæður meðal (kvenkyns) herflugmanna.

Hæstiréttur BNA virðist sammála þeim Marie og Martha. Beiðni ACLU var hafnað. Enn skal konum – eins og ævinlega hefur verið í mannkynssögunni – hlíft við manndrápum. Röksemdin eða yfirvarpið er það, að nú virðist þingið hugsa um það í alvöru að breyta umræddum lögum. Barrack Obama (f. 1961) hafði um það stór orð, en eins og gengur varð ekkert um efndir.

Engu að síður hefur konum fjölgað í herþjónustu. En umsækjendur í BNA eiga í mesta basli eins og íslenskar og norskar konur. Þær falla kylliflatar á inntökuprófunum (Army Combat Fitness Test). Á síðunni, „military.com“ er fjallað um þetta. Þar kemur m.a. fram, að 44% kvenna falli á prófinu, miðað við 7% karla. Meirihlutinn stenst sem sagt prófið. Sex hundruð eru fullt hús stiga. Sextíu og sex konur fengu 500 hundruð eða fleiri stig, borið saman við 31.978 karla í einum hópi umsækjanda.

Þingmönnum í BNA er brugðið eins og Sigríði. Nú ber brýna nauðsyn til að minnka kröfurnar eða endurskilgreina verkefni – eins og Norðmenn gerðu. Jafnrétti til að drepa fólk lögum samkvæmt er vissulega sjálfsögð mannréttindi.

Því má svo við bæta, að það er alls engin nýlunda, að konur taki þátt í bardögum. Til að mynda beittu Ráðstjórnarríkin (Rússland) kvenhersveitum í seinni heimsstyrjöldinni – meira að segja í flughernum. Kvenherflugmennirnir voru skeinuhættir karlandstæðingum sínum, Rúmenum. Þeir kinokuðu sér nefnilega við að skjóta systurnar niður.

Það mun marka þáttaskil í jafnréttisbaráttunni, þegar kynjunum verður gert kleift að vega hvort (hvert) annað til jafns.

https://www.visir.is/g/20212122256d?fbclid=IwAR3ScMljegltSclQLb6cKSqGhvNVnZBoq4zQ9pee9tjtU_r5WPYsvRyhjZA


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband