Þjóðfundur hinn nýi

Mynd og texti í hjálagðri frétt er tímanna tákn. Auglýsing frá Kvenréttindafélagi Íslands. Hún er jafnframt sorgleg heimild um söguskilning og fórnarlambshugsun. Þegar kvenréttindi ber á góma í sögulegu ljósi er venjulega átt við kosningarétt og þátttöku í opinberu lífi. Þróun mannlegs samfélags var á þann veg, að konur höfðu meginumsjón og völd innanstokks, karlar utanstokks. Karlar eru enn valdalausari í raun á fjölskylduheimilunum, en þeir hafa nokkurn tíma verið.

Það er skringileg fórnarlambshugsun, að 1851 hafi einungis karlar átt sér málsvara, þ.e. að karlar hafi ekki verið málsvarar kvenna. Þessi kynjaaðskilnaðarhugsun er sorgleg. Lærðir og leikir - sérstaklega kvenfrelsarar - hafa gert kosningaréttardag kvenna að tyllidegi. En það er nær aldrei vikið að því, að samtímis fengu flestir karla einnig kosningarétt.

Það er heldur ekki minnst á þá staðreynd, að það voru karlar, sem "veittu" konum kosningarétt á þjóðþingunum. Þess er afar sjaldan getið, að þegar kosningaréttur kvenna til þjóðþings var samþykktur, höfðu konur í sömu stöðu og karlar, þ.e. sjálfs sín megandi, haft kosningarétt í áratugi til sveitarstjórna. Kvenfrelsarar minnast sjaldan á þá staðreynd, að samkvæmt Búalögum frá átjándu öld var boðið, að karlar og konur skyldu þiggja sömu laun fyrir sömu vinnu.

Sagan er enn þá skoðuð í kúgunarljósi, að karlar hafi ævinlega brotið konur á bak aftur. Þetta kúgunarljós er yfir myndinni. Það er athyglivert, að hér baði sig bæði formaður Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar. Kynjastjórnmálin skapa flokksformönnum nú sömu stjórnmálaundirstöðu.

Þarna má einnig berja augum útsendara Jafnréttissjóðs, Þorsteinn nokkur Einarsson, sem sjóðurinn gerði út af örkinni til að fræða landsins börn um eitraða karlmennsku. Sjóðurinn var stofnaður af formönnum allra flokka, fyrir skattfé vitaskuld. Katrín forsætisráðherra klappaði sjálfri sér og hinum lof í lófa fyrir framtakið.

Þetta geta stjórnmálamenn, þegar þeir róa í sama báti; eytt skattfé og sameinast um kvenréttindi. Karlréttindi eða jafnrétti í beggja skauta ljósi, sjá þeir ekki ástæðu til að berjast fyrir, enda helteknir töfrahugsun samtímans, kvenfrelsun. Í fréttinni kemur m.a. fram:„ Þar er vísað til þjóðfundarins sem haldinn var í Lærða skólanum árið 1851 þegar Jón Sigurðsson og aðrir embættismenn töluðu gegn innlimun Íslands í danska ríkið. Á fimmta tug karlmanna stóðu þá á fætur og sögðu: „Vér mótmælum allir.“ Í auglýsingunni eru þessi fleygu orð endurvakin, en að þessu sinni eru það ekki eingöngu karlmenn sem eiga sér málsvara,“ segir í tilkynningunni.

Myndin var tekin í hátíðarsal Menntaskólans í Reykjavík þar sem fundurinn fór fram á sínum tíma. Þátttakendur koma víða að úr samfélaginu og má þar t.a.m. nefna einstaklinga sem eru í forsvari fyrir menntastofnanir, hagsmunasamtök, stjórnsýslu eða atvinnulíf auk einstaklinga sem hafa beitt sér í baráttu fyrir kynbundnu jafnrétti. „Áhersla var lögð á að fá fjölbreyttan hóp fólks til þátttöku til að tákna víðtæka samstöðu allra sviða samfélagsins.“

Þetta endurspegli svo ný yfirskrift: „Vér mótmælum öll.““ Fulltrúar á jafnréttisþjóðfundinum mótmæla því, að konur búi enn við misrétti. Fólkið er stolt:

"„Við erum virkilega stolt af að hafa tekið þátt í þessu metnaðarfulla og kraftmikla verkefni. Það er alltaf ánægjulegt að vinna að því sem stendur manni nærri. Það krefst auðvitað mikillar vinnu og skipulagningar að fá svona stóran hóp fólks til að koma saman og endurskapa þjóðþekkt verk, sem flestir hafa eflaust skoðun á,“ er haft eftir Sigríði Theódóru Pétursdóttur, aðstoðarframkvæmdastjóra Brandenburgar.

„Það var engu að síður mikill samstöðuhugur og gleði sem ríkti í Menntaskólanum í Reykjavík – einmitt í anda verkefnisins. Nú vonum við bara að skilaboðin hafi tilætluð áhrif. Með samstöðu getum við nefnilega gert enn betur í baráttunni fyrir jafnrétti.“

„Við náum aldrei kynjajafnrétti hér á landi ef konur taka ekki fullan og jafnan þátt í allri ákvarðanatöku. Jafnrétti verður aldrei náð ef það er ekki fyrir okkur öll og kvenfrelsi náum við aðeins í sameiningu,“ er haft eftir Tatjönu Latinovic, formanni Kvenréttindafélags Íslands."

Skýrara er varla unnt að komast að orði; það þarf meiri kvenfrelsun til að öðlast meira jafnrétti. Það er ekki nánar útskýrt. En hinn ötuli kvenfrelsunarforsætisráðherra vor hefur sagt, að konur verði að koma að öllum mikilvægum ákvörðunum. Kvenfrelsunarformaður Sjálfstæðisflokksins hefur sagt, að kvenfrelsunarsjónarmið skuli ráða för í (nær) öllum stjórnvaldsaðgerðum.

Í einu máli hefur borið ofurlítið á milli foringjanna tveggja. Katrín vill heimila konum, án samráðs við föður, að eyða fóstri sínu fram að fæðingu. Bjarna ofbauð það að vísu, heldur skemur, sagði hann. Stofnun „Evrópsku fóstureyðingamiðstöðvarinnar“ fékk góðan hljómgrunn meðal fjölda þingmanna flestra flokka, stjórnarflokkanna, „Sjóræningjanna“ og Viðreisnar, svo nokkrir séu nefndir.

Konum er jákvætt mismunað á öllum sviðum mannlífsins. Kvenkyn trompar „aðra hæfni" við ráðningar. Konur ráða heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu, félagskerfinu og stjórnsýslunni að miklu leyti. Einkageiranum er gert að ráða konur með lagaboði.

Hvað skal til bragðs taka til að konur verði "jafnréttháar" körlum? Ég spyr eins og "fávís kona." Það liggur allavega við borð, að þeim mun frjálsari sem konur verða til fóstureyðinga að eigin geðþótta, þeim mun frjálsari verða þær.

Hvenær ætli komi að því, að fórnalambsstaða og -hlutverk kvenna verði numið úr lögum og alþjóðlegum samningum?

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2021/06/19/endurgerdu_thjodfundinn_i_tilefni_dagsins/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband