Moðreykur um Múhammeðstrú og djöfulsleikar í Miðausturlöndum. II: Fjölskyldan og samskipti kynjanna

Muhammad fékk á unga aldri bónorð frá ríkri ekkju, Khaddija (555-620), sem var fimmtán árum eldri en hann. Verðandi spámaður giftist því til fjár. Að henni látinni kvæntist hann mörgum konum. Hann er sagður hafa verið kærleiksríkur eiginmaður og studdi eiginkonurnar til dáða, jafnvel hermennsku.

Síðar gerði persneski fræðimaðurinn, Abu Hamid Al-Ghazali (1058-1111), samskiptum kynjanna betri skil. Um hjónaband og kynlíf sagði hann m.a.:

„„Hjónabandið hefur fimm kosti; barneignir, fullnægingu kynhvata, heimilisstjórnun, vinskap og þá sjálfsögun að rækta það. Fyrsti kosturinn – barneignir – er meginkostur hjónabandsins og á þeim grundvelli var til þess stofnað. Tilgangurinn felst í því að viðhalda ættinni, svo að ekki hljótist af mannekla.“ …

„Það er áríðandi, að umsjónarmaður [eða faðir] meti, af umhyggju fyrir dóttur sinni, hvað tilvonandi eiginmaður hafi til brunns að bera. Því hún ætti ekki að giftast manni sem er ófríður sýnum, skortir góða siði, er veikur í trúnni, deigur við að halda réttindum hennar á lofti eða lakari henni að ætterni. Spámaðurinn sagði: „Hjónaband er þrælkun, því skyldi gæta varúðar við giftingu dótturinnar.““ ...

„Eigi [karlmaður] margar eiginkonur ætti hann að sýna þeim jafnan áhuga hverri og einni og ekki taka eina fram yfir aðra. Sé ferðalag í vændum og óski hann að hafa með sér eina [eiginkvennanna], ætti hann að varpa hlutkesti milli þeirra eins og Sendiboðinn [Muhammed spámaður] tamdi sér að gera. Svíki hann konu um nótt með sér, ætti hann að bæta henni nóttina. Það er skylda hans. ...

Karlmaðurinn ætti að gera konu sinni glingrur með hlýlegum orðum og kossi á vör. Spámaðurinn komst svo að orði: „Enginn skyldi fara á fjörurnar við konu sína eins og villidýr væri, ástúð (emissary) skyldi ríkja milli þeirra.“ Þá var hann spurður: „Hvað er ástúð, þú Sendiboði Guðs?“ Svarið var: „Kossar og [unaðs]orð.““ (McKay, J. og fl. A History of World Societies, Bedford, Boston 2012, bls. 250-151.)

Í heimi Múhameðstrúaramanna er vítt til veggja, þegar samskipti kynjanna eru annars vegar. Eitt dæmi er Woodabee/Bororo ættkvísl Fulaníþjóðarinnar (Fulani) í Afríku (í Tjad (Chad), Nígeríu, Kamerún (Cameroon) og Mið-afríska lýðveldinu (Central African Republic)).

Konur jafnt sem karlar njóta þar frjálsræðis í kynlífi. Þegar árleg menningarhátíð þeirra gengur í garð, dansa ógiftir karlar eins konar tilhugalífsdans. Þeir skreyta sig og fegra til að ganga í augu stúlknanna.

Kvendómarar velja þann snotrasta meðal karlanna. Þeir líta sérstaklega til hvítu í augum og tönnum. Og svo eiga þeir að vera hávaxnir og samræmis skal gæta í andlitsfalli. Konum er frjálst að velja sér eiginmann að geðþótta, eftir að hafa virt þá fyrir sér í dansinum og við uppröðun. Á hátíðum þessum er giftum konum einnig frjálst að taka sér ástmann meðal giftra karla, jafnvel giftast nokkrum körlum.

Annað dæmi er frá eyjunni Java í Indónesíu. Sagan segir, að eitt sinni hafi konungssonurinn, Pangeran Samodro, stungið af með stjúpu sinni, Nyai Ontrowulan. Uppi á fjalli einu, Kumukus (Gunung) eða Kynlífsfjallinu, áttu þau samræði. En þau náðu ekki að ljúka sér af, áður en þau voru gripin glóðvolg af útsendurum konungs, líflátin, og grafin í sömu holunni.

Sú trú hefur af sögunni sprottið, að eigi ókunnugir samræði sjö sinnum, muni happ þá henda. Þessi siður, viðhafður á rúmlega mánaðar fresti, hefur viðhaldist fram á okkar daga, en er nú á undanhaldi, eftir að fréttist um hinn stóra heim.

Kvennabúr (harem) tíðkuðust einkum meðal yfirdrottnara í samfélagi Múhammeðstrúarmanna, kalífum, rétt eins hjá kínversku keisurum. Kvennanna var venjulega gætt af karlkyns geldingum til að yfirvaldið hefði vissu fyrir því, að börn kvennanna væru getin af honum sjálfum. Sumar frillanna gátu hafist til verulegra metorða og þannig haft mikil áhrif á stjórnun hlutaðeigandi valdsmanna. (Orðið er dregið af arabísku orði, haram, sem merkir forboðið ellegar heilagt.)

Íslamskar konur bera oft og tíðum hulu, slæðu eða huliðsserk (veil, purdha, burca). Á voru méli hefur hugtakið sérstaka skírskotun til höfðuðhulu kvenna. Að öllum líkindum á siðurinn upphaf sitt í Persíu eða Býsanska ríkinu og greindi frjálsbornar konur frá ambáttum. Þetta átti einkum við í þéttbýli, þar sem hulan torveldaði vinnu til sveita og í eyðimörkinni. Kóraninn hefur engin ákvæði um huluna. Sums staðar í íslömskum samfélögum komst á sá siður að hylja líkama konunnar allrar. Huliðsserkurinn var einkum notaður í kvennabúrunum.

Helgiritin boða jafnræði, hvað varðar kynlíf og trúariðkun, og jafnframt hafa konur töluverð efnahagsleg réttindi. Boðaðar eru sömu refsingar fyrir hjúskaparbrot af hálfu karla og kvenna.

Í hinum arabíska heimi á miðöldum var menntun einkum sniðin að trúarskyldum, vísindum eða veraldlegri stjórnsýslu. Slíkt var hlutverk karla og því minni áhersla lögð á menntun kvenna. Engu að síður hlutu margar konur viðhlutamikla menntun fyrir tilstuðlan foreldra eða fjölskyldu; frumkvæði til þessa kom iðulega frá feðrum eða eldri bræðrum. (Svipað mynstur og á Vesturlöndum.)

Arabískar konur létu einnig að sér kveða í stjórnmálum og umsýslu eins og kynsystur þeirra meðal Frankanna. Nafntogaðar eru t.d. Aisha (614-678), dóttir fyrsta kalífans, og þriðja eiginkona Spámannsins. Hún er talin meðal bestu fræðimanna Múhammeðstrúarmanna. Sama má segja um sjöttu eiginkonu hans, Umm Salama/Hind bint Abi Umayya (596-681).

Konur; þ.e. mæður, eiginkonur, tíðleikakonur eða hjákonur, í kvennabúrum höfðingja, höfðu oft töluverð áhrif við hirðarnar, t.d. hirðar kalífanna.

Hlutverk kynjanna endurspeglast að nokkru leyti í söngvum kvenna, þegar þær hvöttu karlana til dáða. Í stríðsátökum í Arabíu árið 625 sungu konur m.a.:

Ó, þið synir Abdaldar,

ó, verndarar heimkynna okkar,

leggið til heiftúðugrar atlögu með sérhverju, beittu spjóti.

Við föðmum ykkur, ef þið sækið fram

og breiðum undir ykkur teppi mjúk.

En ef þið leggið á flótta, skulið þið yfirgefnir,

og ást okkar kólnar að eilífu.

Í kór þessum var kona, að nafni Hind bint Utbah (584-635). Hún hafði harma að hefna, því andstæðingarnir, hersveitir Múhammeðs spámanns, höfðu drepið son, frænda, bróður og föður hennar. Sigur vannst í stríðinu, sem kennt er við Uhud. Af því loknu örkuðu konurnar um vígvöllinn og svívirtu lík fylgisveina spámannsins. Þær skáru eyru þeirra og nef af höfði og andliti, og gerðu úr þeim arm- og öklahringi.

Hind bætti um betur. Hún skar lifrina úr búki banamanns föður síns, Hamza ibn Abd al-Muttlib (568-625), og lagði sér munns. En matarlystin hvarf henni. Hind spúði lifrarbitunum. Síðar gerðist Hind þó spakur fylgismaður Múhammeðs, sem fyrirgaf henni illgjörðirnar.

Í stríði Araba og Rómverja 636, gerði Hind bint Utbah, garðinn aftur frægan og hafði ásamt fleiri konum úrslitaáhrif um gang orrustunnar. Hún söng með kvennakórnum:

Ó þið, sem látið fætur toga á brott frá trygglyndum elskum,

sem geisla af fegurð og bifast ei.

Þið seljið þær í hendur Rómverjum,

sem grípa í hárlokka þeirra og góma.

Þeir munu njóta herfangsins til fullnustu

og berast innbyrðis á banaspjótum.

Valkyrjur þær, er kvennakórinn skipuðu, lögðu til atlögu við Rómverja, og reyndu að snúa veifiskötum og gungum til vígvallarins, þegar þær lögðu á flótta.

Þær kyrjuðu enn: Við erum dætur stjarnanna, er lýsa að nóttu.

mjúk teppi gæla við iljar okkar

og af okkur stafar vináttu.

Hendur okkar eru smurðar ilmsmyrslum

og perlur skrýða háls okkar.

Komdu því og vefðu okkur örmum.

Sá, sem við skirrist, mun einsamall verða.

Sér enginn elskhugi sóma sinn í að vernda þessar konur?

Enn er enginn hörgull á herskáum konum í Íslam. Ein þeirra er Írakinn, Samira Jassam/Samira Ahmed Jassim al-Azzwi (f. 1958), sex barna móðir, sem starfað hefur með ofbeldisfullum Múhammeðstrúarmönnum (Sunni), nefnd Móðir hinna trúuðu. Hún beitti m.a. nauðgunum á kynsystrum sínum til að sannfæra þær um að sprengja sjálfar sig í loft upp við hryðjuverk og styrkja þar með orðsporið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband