"Síðasti“ forsetinn. Í minningu John F. Kennedy – og annarra "myrtra“ forseta Bandaríkjanna

Það var árið, sem ég grét tvisvar. Yndislegur afi minn hné niður við prentvélina sína að vori ársins 1963. Um haustið, þann 22. nóvember, myrti leyniþjónusta Bandaríkjanna forseta sinn, John Fitzgerald Kennedy (f. 1917). Þá grét líka Nikita Khruschchev (1894-1971), aðalritari byltingarflokks (kommúnistaflokks) Ráðstjórnarríkjanna.

John F. hafði sagt leyniþjónustunni stríð á hendur. Hún var deild í djúpríkinu eða huliðsstjórn illmenna, sem andsett voru af græðgi og drápsfýsn, rétt eins og arftakar þeirra í dag.

Huliðsstjórnin hræddist John F. eins og þá forseta Bandaríkjanna, sem dirfðust að standa upp í hárinu á henni, völdu, að sögn kanadísku sagnfræðinganna, Cynthia Chung og Matthew Ehret, hina bandarísku leið (Norðurríkjaleiðina (American way); sameiningu, útþenslu, sjálfstæði (líka í ríkisfjármálum), fullveldi, uppbyggingu, iðnvæðingu, viðskipti).

Þessir forsetar hafa ýmist verið myrtir eða hlotið dularfullan skyndidauða:

William Henry Harrison (1773-1841), sonur stofnföðurins, Benjamin Harrison (1726-1791), þingmaður, ríkisstjóri og hershöfðingi, sem ávann sér frægð í stríði gegn indíánum og Bretum. Opinber dánarorsök var lungabólga. (Óopinber dánarorsök var „bölvun Tecumseh,“ frelsishetju Indíána, sem bróðir hans hafði gert William Henry og öllum forsetum Bandaríkjanna, sem kosnir voru á 0-ári.). William var sagður hafa ofkælst í rigningu.

Zachary Taylor (1784-1850), hershöfðingi, sem barðist við indíána, Breta og Mexíkana, lofaður fyrir landvinninga. Sjálfur var hann landeigandi og þrælahaldari, en bakaði sér óvild annarra landeigenda í Suðurríkjunum. Hann veiktist skyndilega og dó úr meltingartruflun. Borðaði of mörg kirsuber.

Warren G. Harding (1865-1923), þekktur fyrir framhjáhald og fjárhagslegt misferli í ráðuneyti sínu, lést ýmist af slæmu sjárvarfangi eða hjartabilun, að sögn.

Franklin Delano Roosevelt (1882-1945), m.a. þekktur fyrir stórfelldar framkvæmdir á vegum ríkisins, jafnaðarmennsku, að hafa þvælt Bandaríkjunum inn í aðra heimstyrjöld og vinsamleg samskipti við Ráðstjórnarríkin, enda þótt hann hefði líka beitt sér fyrir frekari þróun kjarnorkusprengja til að varpa á þau. Hann lést skyndilega af heilablæðingu, að sögn.

Abraham Lincoln (1809 – 1865) var þekktastur fyrir sigur Norðurríkjanna í bandarísku borgarastyrjöldinni. Að áliðnu stríði sagði hann frelsun þræla eina orsök stríðsins. Morðingi Abraham var hlynntur málstaði Suðurríkjanna.

Í Suðurríkjunum höfðu auðdrottnar Breta og Frakka (Evrópu), með Rotschild ættina í fararbroddi, náð fótfestu og tryggt stuðning hervalds Breta og Frakka. Alexander II Nikolayevich (1830 – 1881), Rússakeisari sendi hins vegar flota sinn til varnar Norðurríkjunum.

James Aram Garfield (1831-1881), majór í her Norðurríkjanna, var skotinn af óánægðum andstæðingi.

William McKinley (1843-1901), major í her Norðurríkjanna, er líklega þekktastur fyrir stríðið gegn Spánverjum, með frelsun Kúbverja sem réttlætingu. Þó var hann líklega ofurliði borinn af hernaðarsamsteypunni og stjórnmálamönnum hennar.

Þetta var nýtt skref í heimsvaldastefnu Bandaríkjanna og það fyrsta handan meginlandsins - og líklega í fyrsta sinn, sem útflutning frelsis og lýðræðis bar á góma.

Tildrögin voru þau, að Spánverjar voru í óða önn að berja niður uppreisn í nýlendunni af mikilli grimmd. Þeim var legið á hálsi fyrir að hafa sökkt herskipinu, Maine. Atburðurinn var notaður til að réttlæta hernað Bandaríkjamanna. (Ámóta átylla var einnig notuð í stríðinu um Texas.) Bandaríkjamenn höfðu í raun sagt spænska heimsveldinu stríð á hendur.

Á heimavettvangi vildi William vernda atvinnuvegi landsmanna og var talsmaður gullviðmiðunar gjaldmiðilsins. Það er rík ástæða til að ætla, að jafnvel hans eigið ráðuneyti hafi unnið gegn honum. William var skotinn af stjórnleysingja.

Stríðsæsingamaðurinn og flotamálaráðherrann, Theodore Roosevelt (1858 – 1919), sem var lykilmaðurinn í stríðinu gegn Spánverjum, tók við. Hann sendi bandarískt herlið til að berja á Kinverjum (Boxer Rebellion).

Víkur þá sögunni aftur að aðalsöguhetjunni. Huliðsstjórnin hræddist John F. fyrir þær sakir, að hann vildi gera „heimsbyltingu,“ andæfa heimveldisstefnu og styðja við fullveldi þjóða og sjálfstæði.

John T. hugsaði í anda Abraham Lincoln, Alexander II Nikolayevich (1830 – 1881), Rússakeisara, sem hlaut sömu örlög og John F., og stjórnvitringsins, Otto Eduard Leopold von Bismarck (1815-1898). Undir hans stjórn varð þýska stórveldið til. Fyrir öllum þessum mönnum vakti friður, uppbygging og endurreisn í samvinnu og bandalagi, andstætt því sem á við um stríðs- og tortímingarauðvaldið og stjórnmálamenn þess.

John F. vildi draga Bandaríkjamenn út úr Víetnamstríðinu og hætta stuðningi við franska heimsveldisstefnu í Suðaustur Asíu. Hann studdi Algeríu, Ghana, Kongó og fleiri nýlendur í frelsisstríði þeirra. Hann skapaði sér vitaskuld heiftarlega óvild angló-bandaríska bankaauðvaldsins, nýlenduveldanna, ráðandi stéttar Breta og konungsfjölskyldu Breta og Belga.

John F. var lýðræðissinni, hlynntur opnu samfélagi, vann gegn leyndarhyggju og fláræði. Hann minnti landsmenn sína á starf stofnfeðranna, unnendur lýðræðis og réttlætis. Þeir sögðu alla jafna fyrir augliti skaparans. Frá honum þægju þeir sjálfgefið vald. Það kæmi hvorki frá kóngum, keisurum, né auðkýfingum.

Í innsetningarræðunni sagði John F.: „Samreiðarmenn mínir í veröldinni! Spyrjið ekki, hvað Bandaríkin geti fyrir yður gert, heldur, hverju við í sameiningu fáum áorkað í þágu friðar milli manna.“

Úr ræðu árið 1961: „Sjálft orðið, leyndarhjúpur, velur hrolli í frjálsu og opnu samfélagi. Við [Bandaríkjamenn] erum þjóð, sem í eðli sínu og sögunni samkvæmt, er andsnúin leynifélögum og leyndareiðum og leyniaðgerðum. Við tókum þá ákvörðum fyrir löngu síðan, að hætturnar, sem fælust í óhóflegri og ónauðsynlegri leynd yfir mikilvægum staðreyndum, væru meiri en hætturnar, sem talið var að réttlættu slíkt. …

Það hefur takmarkað gildi að tryggja eftirlit með þjóð okkar, ef hefðir okkar líða þar með undir lok. Og sú hætta blasir við, að þörfin fyrir það aukna eftirlit, sem um er rætt, muni verða gripin á lofti af þeim, sem hafa hug á því að færast í aukana, að því marki, að stofna til opinberrar ritskoðunar og launungar. Ég mun gera allt, sem í mínu valdi stendur til að banna það. Enginn embættismaður í ráðuneyti mínu, hvorki hátt, né lágt settur, ætti að túlka orð mín í kvöld sem afsökun fyrir því að ritskoða fréttir til að forðast misklíð, að breiða yfir mistök eða leyna fjölmiðla eða almenningi fréttum, sem þeim ber að þekkja til.“

Úr ræðu árið 1945: „Hver sú stjórn í Miðausturlöndum, sem vanrækir samráð og stjórnar, án stuðnings landanna í heimshlutanum, mun magna upp andstöðuhreyfingar, sem um þessar mundir starfa á svæðinu. Af hernaðarlegum sjónarhóli séð er hún dæmd til að mistakast. Hvert lítið sandkorn eyðimerkurinnar myndi fjúka til andspyrnu gegn utanaðkomandi þvingunarstjórn á örlögum þessara stoltu þjóða.

Eiginlegur óvinur þjóða Araba er fátækt og skortur. Inngrip okkar í þágu olíufjárfestinga Englendinga í Íran, eru fremur til þess fallnar að gæta framandi hagsmuna en styðja við þróun Írana sjálfra.

Við höfum brugðist í þeim skelfilega harmleiki fyrir þrem árum síðan, þegar rúmlega 700.000 Palestínuarabar voru gerðir að flóttamönnum. Slíkir atburðir fara illa saman við þrár Araba og gera að engu loforð úr munni Bandaríkjamanna.

Í Indókína höfum við gerst liðsmenn franskrar stjórnar, sem í örvæntingu hangir eins og hundur á roði leifanna af heimsveldi. Það má skilja viðleitni til að halda í skefjum framrás byltingarmanna (kommúnista). En vopnuð barátta dugar ekki eins og sér.“

Fimm mánuðum, áður en John var myrtur, hélt hann enn eina merkilega ræðu, friðarræðuna, við Ameríska háskólann í Washington. Hann minntist orða nafna síns, enska skáldsins og stofnanda háskólans, John Edward Masefield (1878-1967), um þá mannbætandi viðleitni, sem iðkuð væri í háskólum; að vinna bug á fáviskunni, leita sannleikans og ljúka upp augum þeirra, sem á hann væru blindir. Forsetinn sagði:

„Því er það, að ég hef valið þennan stað og stund til að ræða málefni, sem alltof oft er rætt af fávisku og brýtur í bága við sannleikanum. Og þetta er mikilvægasta málefni á allri jarðarkringlunni. Hvers konar frið á ég við og hvers konar friði sækjumst við eftir?

Hvorki Ameríska [bandaríska] friðnum (Pax Americana), sem grundvallast á amerísku [bandarísku] vopnaskaki, né gröfinni eða þrælslundinni (security of the slave). Ég tala um ósvikinn frið. Þess konar frið, sem stuðlar að vexti þjóða og von um að skapa börnunum betra líf, en ekki einvörðungu frið í heimahögum Norður-Ameríkumanna, heldur frið sem allir karlar og konur megi búa við, nú á voru méli og um alla framtíð.“

John F. vildi samvinnu við Ráðstjórnarríkin. Í ræðu á þingi Sameinuðu þjóðanna fjallaði hann um geiminn, „… vettvang, þar sem Ráðstjórnarríkin og Bandaríkin hefðu sitthvað einstakt fram að færa … og þar sem rúm væri fyrir nýja samvinnu, sameiginleg verkefni í skipulagi og könnun geimsins. Í þessu efni tel ég með sameiginlega tunglför. Úti í geimnum þurfum við ekki að kljást um fullveldi.“

Ég er sannfærður um, að væri John vitni að þróun menntunar og stjórnmála á líðandi stundu, myndi hann fella tár eins og Nikita og ég árið 1963. Djúpríki fanta og illmenna, hefur unnið allsherjar sigur á Vesturlöndum, samsteypur iðnaðar-, fjármála- fjölmiðla- og vísindaauðvalds - og sjóða þeirra.

Lýðræðið er í andarslitrunum. Almúginn er heilaþveginn og rennur ljúflega til réttar við klingjandi klið bjöllunnar. Þar er hann jarmandi dreginn í dilka.

Auðjöfrar alheimsríkisins hafa slegið eign sinni á nær allar stofnanir æðri menntunar og fjölmiðla. Þeir eiga hér um bil alla atvinnuvegi og hafa undirtökin í ríkisstjórnum og alþjóðastofnunum. Gamall draumur þeirra um alheimsríki undir eigin úrvalsstjórn er að rætast.

Tungutak fólks eru öfugmæli. Stríð er talin friðargjörð, slátrun barna er sögð barátta fyrir lýðræði og frelsi, bólusetningar drepa og limlesta, karlar eru kúgarar kvenna og barna, kyn er valfrjálst, staðreyndir eru samkomulag þeirra, sem hæst hrópa og völdin hafa.

Vitundariðnaðurinn er að sönnu öflugur. Heimurinn er einu sinni enn á heljarþröm. Ófriður logar og hatrið fer eins og eldur í sinu. Ætli fólk hafi gleymt boðskapi friðarhöfðingjans frá Nasaret – jafnvel kristilegir jafnaðarmenn?

https://matthewehret.substack.com/p/breaking-history-ep-20-reviving-the?utm_source=post-email-title&publication_id=260045&post_id=139094574&utm_campaign=email-post-title&isFreemail=true&r=ry8jq&utm_medium=email https://www.history.com/topics/us-presidents/franklin-d-roosevelt https://www.history.com/topics/us-presidents/warren-g-harding https://www.history.com/news/the-unexpected-death-of-president-harding https://www.history.com/topics/us-presidents/william-henry-harrison https://www.thoughtco.com/tecumsehs-curse-and-the-us-presidents-105440 https://rumble.com/v3xbe6m-ep454-jfkgladio.html?utm_source=substack&utm_medium=email https://www.corbettreport.com/jfkgladio/ https://www.youtube.com/watch?v=kbZyGDIPMaE https://markcrispinmiller.substack.com/p/on-this-60th-anniversary-of-jfks?utm_source=post-email-title&publication_id=383085&post_id=139080229&utm_campaign=email-post-title&isFreemail=true&r=ry8jq&utm_medium=email Viðbót: https://informationclearinghouse.blog/2023/11/24/the-life-and-public-assassination-of-president-john-f-kennedy-by-the-cia/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband