Feðrafólska. Sigrún Sif sveiflar stríðsöxinni

Sigrún Sif Jóelsdóttir (SS) er menntaður sálfræðingur frá Háskóla Íslands (HÍ). Hún titlar sig „sérfræðing við rannsóknir“ og hefur starfað sem slíkur við Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri. Um þessar mundir starfar SS sem verkefnisstjóri rannsókna við Menntavísindastofnun HÍ.

SS er í forsvari fyrir (eða talskona eins og hún orðar það) samtaka mæðra, „Lífs án ofbeldis.“ Hafi ég rétt skilið berst sá félagsskapur gegn ofbeldi, sem þær telja börn sín hafa orðið fyrir af hendi feðra þeirra.

Sigrún Sif lýsir sér svo: „37 ára, móðir og tónlistarmaður, ættuð af Norðurlandi. Forvitin að eðlisfari, heilluð af nýrri þekkingu og hagnýtingu til lausnar og fólki til framdráttar. Áreiðanleg og samviskusöm í starfi. Heilluð af mannshuganum og hegðun og valdi þess vegna taugafræðilega hugfræði og skynjun mannsins sem viðfangsefni rannsókna. Sjálfstæð í vinnubrögðum og skapandi. Reynd bæði í sjálfstæðum verkefnum, rannsóknum og samstarfsverkefnum.“ Markmið hennar í lífi og starfi: „Að vinna í krefjandi og framsæknu umhverfi og samstarfi þar sem menntun mín, reynsla og hæfileikar nýtast á uppbyggilegan hátt.“

SS hefur skrifað afar áhugaverð grein, sem ég hvet fólk til að lesa (hjálögð). Áður hefur hún birt í erlendu riti áþekkar hugleiðingar, sem ég hef annars staðar gert skil (arnarsverrisson.is). SS er iðinn við kolann, hefur skrifað fleiri greinar um hugðarefni sitt og hefur margar sorgarsögur að segja. Allar segja þær frá ljótum körlum – einkum feðrum – sem misnota börn sín kynferðislega. Og vei þeim!! Því miður eru þeir til og varla efamál, að margir þeirra sleppa undan hrammi laganna.

Ofbeldi kvenna og mæðra gegn börnum, fæddum sem ófæddum, er henni hins vegar ekki hugleikin. Ei heldur teygðar og togaðar skilgreiningar á kynferðislegu ofbeldi. Ei heldur þau áhrif, sem foreldrar (oftar en ekki mæður) og fagaðiljar geta haft á hugsanagang og framburð barna sinna og skjólstæðinga.

Dæmi um þetta gæti t.d. verið eftirfarandi sorgarsaga (dótturinnar væntanlega): „Þriggja ára gömul, þegar hún er talin hafa aldur til, hefur þetta litla barn stöðu brotaþola gagnvart föður sínum. … Hún veit að pabbi hennar má ekki meiða hana og segir í samtali við nákominn aðila „hann má það ekki ég á klobbann minn sjálf“. Hver ætli hafi kennt barninu þetta orðalag? Barnið var reyndar meintur brotaþoli samkvæmt skilgreiningu móður þess. (Í þessu sambandi mætti minna á þekkta kvenfrelsunarkenningu þess efnis, að feður skuli ekki annast þrifnað dætra sinna að neðanverðu, eftir tveggja ára aldur, vegna hættu á kynferðislegum misþyrmingum af þeirra hálfu.)

Svo dóttir sem móðir, mætti halda, sbr. píslarsögu þeirrar síðarnefndu, sem einnig er rakin í greininni (að hluta alla vega): „Ég gæti sagt frá barni sem var gert að kynferðislegu viðfangi fullorðins manns þegar það var tveggja og hálfs árs. Þetta unga barn upplifði fullkomið valdleysi gagnvart honum sem ákvað að svala fýsnum sínum og nota barnslíkama til þess.“ [Það er afar fátítt, að fólk sé svo langminnugt. Egill Skallagrímsson rak þó minni til atburða, þegar hann var þriggja vetra.] … „Ég stökk út úr bíl frá öðrum manni þá um 10 ára aldur en slapp ekki 14, 15, 16 og 17 ára við kynferðislega áreitni og ofbeldi af hendi fullorðinna karla.“ … „Sem fullorðin kona bjó ég með karlmanni sem beitti mig líkamlegu ofbeldi og kúgun. Þegar ég skildi þörf hans til að yfirbuga mig brast eitthvað með holu hljóði innra með mér.“

Þetta eru skelfilegar og sorglegar lýsingar. Í hörmungaljósi þeirra er skiljanleg ástríðuþrungin andúð SS á karlkyni og löggæslu, enda þótt alhæfingarfákur SS láti illa að stjórn: „Það var fyrst þá sem mér lærðist hversu ráðandi hún er í okkar menningarvitund, sú trú að karlmönnum sé eðlislægt að beita ofbeldi sem ekki ætti að hamla. Sú trú að það sé hlutverk kvenna og barna að bera þungann af þessu ofbeldi í þágu samfélagsins.“ Slíkar hörmungasögur, þ.e. endurtekin (sjálfsskilgreind) nauðgun og annað kynofbeldi, segja fleiri samherjar SS frá. (Þetta er samsæriskenning svipuð þeirri, sem Kristín Ástgeirsdóttir (f. 1951), sagnfræðingur, fyrrum Kvennalistaþingmaður, forstýra Jafnréttisstofu og forstöðukona Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum við HÍ, hefur sett fram um karlkyns heilbrigðisstarfsmenn.)

Enn sem fyrr er SS ofboðslega illa við hugtakið tálmun, þ.e. þegar foreldri (venjulega móðir) meinar barni samskipti við hitt foreldrið. Lögfræðingurinn, María Júlía Rúnarsdóttir, fær á baukinn í þessu sambandi:

„Sem löglærð hefur María helst getið sér orð fyrir að vera einn ötulasti talsmaður kenningarinnar um svokallað „foreldrafirringarheilkenni“ á Íslandi (e. Parental Alienation Syndrome, PAS) sem gengur út frá því að ásakanir um ofbeldi föður gegn barni, bornar upp af barni eða móður þess, séu nánast alltaf falskar. Þessi alræmda kvenhaturs kenning sem fræðimenn hafa sett í flokk ruslvísinda og hefur verið hafnað af öllum leiðandi samtökum innan geðlæknisfræði, sálfræði og læknisfræði á Vesturlöndum fékk samnefnara við „tálmun á umgengni“ í meistaraprófsritgerð Maríu Júlíu í lögfræði árið 2009.“ (Ég fæ með engu móti skilið, hvernig heilkenni „gangi út frá.“ En geri ráð fyrir, að höfundur eigi við inntak umrædds heilkennis.)

SS tekur djúpt í árinni um „ruslvísindi.“ Hún vísar til hugleiðinga þriggja fræðimanna frá Háskólanum í Nevada. Þar er í raun bara þvargað um, hvort kalla eigi fyrirbærið heilkenni eða ekki - og lýst eftir betri rannsóknum. Og hvar er þeirra ekki þörf? En fyrirbærið er jafn mikilvægt, þrátt fyrir það.

Hin „sönnunin“ kemur úr orðabók norður-ameríska sálfræðingafélagsins. Þar stendur m.a.: „Þrátt fyrir mikilvægi skoðanaskipta um heilkennið, er hið almenna hugtak um foreldristálmun oft og tíðum talið lýsa með réttmætum hætti raunverulegum átökum við ýmis konar aðstæður í fjölskyldum. [Það] lýsir ógn við öryggistilfinningu barns gagnvart öðru foreldranna (caregiver) vegna auðsýndrar gagnrýni eða misjafns athæfis í garð þess af hálfu hins.“

Það er ljúft og skylt að slást í lið með höfundi í baráttunni fyrir lífi án ofbeldis. Ofbeldi er ógeðfellt. En því miður er það og hefur verið snar og órofinn þáttur á öllum sviðum mannlífsins frá ómunatíð. Líf án ofbeldis er tálsýn, mýrarljós. En það má vitaskuld reyna að stemma stigu við því.

Baráttan fyrir betra dómskerfi er virðingarverð. Oft þarf að sækja réttarbætur til útlendra dómstóla. Því má ala þá von í brjósti, að það gerist við Mannréttindadómstólinn nú í máli meintra nauðgunarfórnarlamba.

Það ber vott um manngildi að berjast fyrir góðum aðbúnaði barna eins og réttlæti í dómskerfinu. En rangfærslur, skætingur, einsýni og öfgar eru trauðla vænlegar leiðir til árangurs í því efni.

https://www.visir.is/g/20212137755d/valdbeitingarmenning-a-hverfanda-hveli


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband