Mikla móðir 6: Hetjan og frelsun mannkyns

Sveinninn er augljóslega ofurseldur Miklu móður, gyðjunni einu. Því er sjálfstæði hans til orðs, æðis og hugsunar, varla nokkurt.

„Í arfmyndinni eru skilgreind yfirráð Miklu móður yfir sjálfi sveinsins, [þ.e.] í grimmilegum þáttaskilum svallteitanna, þar sem sveinninn og reður hans er í miðju atburðarásarinnar, og hann í kjölfarið vanaður og drepinn eins og helgisiðirnir bjóða. Enda þótt um sé að ræða sögulega og menningarlega atburði ber að skilja þá í ljósi sálrænnar þróunar sjálfsins. Tengsl sonarelskhugans og Miklu móður lýsir arfmynd, sem í dag er einnig [virk] og skýr. Frekari vöxtur vitundarinnar er háð því, að á henni sé unninn bugur.“ (Erich Neumann: Uppruni og saga vitundarinnar.)

Það rennur smám saman upp fyrir karlmanninum ljós, skilningsljós. Það örlar á vísi frumstæðs sjálfs og karlmenningar: “Völsamenning (phallicism) er tákngervingur frumskeiðs í karlvitundinni. Smám saman verður honum ljóst eigið gildi í veröldinni. Í upphafi er hann sæðisgjafi, ekki faðir; jafnvel þó reðurinn sé blótaður af konum sem frjósemistákn. [Reyndar] er hann miklu fremur opnari skautsins – eins og sumir þjóðflokkar trúa – en sæðisgjafi, sá, sem unað veitir fremur en frjósemi.“ (EN)

Fyrirætlun karlsins er óttaleg, uppreisn gegn illu móður og dulvitundinni: „Stjórn á óttanum … er megineinkenni sjálfs-hetjunnar, sem hefur dirfsku til að taka næsta þróunarstökk og forðast, andstætt meðalmenninu, rótgróinn nýjungafjanda, sem hangir íhaldssamur á kunnuglegu kerfi eins og hundur á roði. Svona kemur hin raunverulega byltingarhetja okkur fyrir sjónir. Það er bara henni, sem lánast að kasta óttanum fyrir róða, kveðja eldra skeið og umbreyta honum í fögnuð.“ (EN)

Karlinum vex ásmegin og leggur til atlögu við dulvitundina og þau örlög, sem honum eru spunnin. Hetjan birtist á sjónarsviðinu. “Dulvitundin tætir, eyðileggur og gleypir í sig. [Þar liggja] hætturnar. [Þær] standa andspænis hetjunni sem ófreskjur, furðuverk, óþokkar, risar og svo framvegis, sem hann verður að leggja að velli. Þegar brotið er til mergjar, kemur í ljós, að þessar ókindur eru tvíkynja eins og frumveran (uroboros), prýddar kven- og karlkenndum eiginleikum.“ (EN)

Það er karlinum nauðsyn að eflast og þroskast við undirbúning tvísýnnar baráttu: „Með því að sameina kven- og karlkennda þætti í sjálfum sér - vel að merkja ekki „föðurlega“ og „móðurlega“ – og styrkja [þannig] innsta kjarna manngerðar [sinnar] … slær hetjan smiðshöggið á þroskun, sem birtist í samvitundinni sem goðsöguleg hetjuarfsögn. [Hennar] gætir einnig í þroskun einstaklingsbundinnar manngerðar.“ (EN)

“Þetta er hetja sjálfsins. Hún er tákngervingur baráttu vitundar og sjálfs og sjálfsins gegn dulvitundinni. Karlkenning og styrking sjálfsins eins og það birtist greinilega í auknum stríðsmætti, vinnur gegn hræðslunni við drekann og blæs henni í brjóst hugrekki gagnvart ókindinni, hugprýði til að takast á við hina hræðilegu móður [og bandamenn hennar]. Hetjan er æðra karlmenni, hinn „stinni völsi.“ Hann tjáir mátt sinn [táknrænt] í höfðinu, auganu og sólartáknum.“ (EN)

Hvarvetna er þess getið í goðsögnum, arfsögnum og munnmælum, að hetja sé meyju fædd: „Hetjan er ótvírætt talin getin af óspjallaðri mey. Mærin og sjávarskrímslið, sem hetjan verður að bana, eru tvær hliðar sömu móðurarfmyndar. Að baki hinnar hræðilegu myrkramóður stendur hin, velgjörðamóðirin, björt yfirlitum.“ Hetjan ”klýfur konuna í herðar niður,“ skilur hið vonda frá því góða: “Hetjan grandar einungis hinni skelfilegu ásjónu konunnar. Hún fremur [verknaðinn] í þeim tilgangi að leysa úr fjötrum hina frjósömu og glaðbeittu ásjónu, sem berst við hlið hans. Frelsun hins jákvæða kvenþáttar og sundurgreining frá hræðilegri ásjónu Miklu móður, felur í sér frelsun fangans og dráp drekans. Í fangelsisvistinni veslaðist hún [góða móðirin] upp.“ (EN)

Sigur í viðureigninni við drekann er forsenda þróunar æðri karlmennsku og menningar: „Það er engum tilviljunum háð, að menning hvarvetna á byggðu bóli – ekki einungis Vestræn menning – er karlkennd, allt frá gyðing-kristilegum menningarvettvangi til Indlands og landa Múhameðstrúar. Enda þótt hlutur kvenna í menningunni sé illsjáanlegur og dulvitaður, ættum við að gæta þess að vanmeta ekki mikilvægi hans og umfang. Þar eð karlmaðurinn uppgötvar sitt sanna sjálf í vitundinni – framandi sjálfum sér í dulvitundinni, sem hann óhjákvæmilega skilur sem kvenkennda – felur efling karlmenningar í sér þroskun vitundarinnar.“ (EN)

Eftir viðureignina við drekann stíga þrenns konar hetjur fram á sjónarsviðið, sú innhverfa, sjálfhverfa og úthverfa: „Úthverfa hetjan vill aðgerðir; hún er stofnandi, leiðtogi og frelsari. Afrek hennar breyta ásjónu veraldarinnar. Innhverfa gerðin skapar menningu, er bjargvættur og frelsari, sem uppgötvar innri gildi, hefur þau upp [á æðra stig] sem þekkingu og visku, lög og trú – verk, sem hljóta lof og gefa fordæmi … Þriðja gerð hetjunnar gerir sér ekki far um að breyta heiminum í baráttu hið innra eða ytra, heldur umbyltir manngerðinni.“ (EN)

Allt að einu. Maður árroðans eða dagrenningarinnar hefur séð dagsins ljós. Nýtt skeið er runnið upp: „Á skeiði árroðans var mikilvægt að greina skynsemina í táknunum. Það var þá sem heimsljósið rann upp fyrir karlmanninum, hið táknbundna vék fyrir hinu skynsamlega. Framsóknin frá órökréttri til rökréttrar hugsunar var einnig tengd tákninu. Það má sýna fram á, að við stigbundna frelsun frá tilfinningaöflum dulvitundarinnar fjarlægðist heimsspekileg og vísindaleg hugsun smám saman heim táknanna.“ (EN)

Enn óx karli fiskur um hrygg: „Vitundarandrárnar gerðu það að verkum, að í smáum skrefum leysti nútímamaðurinn árroðamanninn af hólmi. Sjálf hans er meira eða minna í stöðugum vexti í heimi menningar, sem er afurð samvitundar kyns hans og gjörvalls mannkyns.“ (EN)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband