Skakka kynjajafnréttið. Karlhatrið: Fyrri hluti

Fyrir tíu árum eða svo tók bandaríski ráðgjafinn og sállæknandinn (psychotherapist), Tom Golden, saman helstu atriði um jafnrétti kynjanna, með karlaskekkjuna í brennidepli. Nú hefur hann litið um öxl og sýnist fátt hafa breyst til batnaðar.

Það er almælt, að á sumum sviðum mannlífsins eru karlar fjölmennari en konur eins í stétt hæstaréttardómara, hershöfðingja og forstjóra stærri fyrirtækja. Kveinstafir kvenfrelsaranna vegna þessa eru ærandi. Konur eiga að vera hvarvetna, þar sem mikilvægar ákvarðanir eru teknar, segir Katrín kvenfrelsari.

En karlar eru líka miklu fjölmennari í stétt hermanna. Þó heyrast engin ramakvein þess vegna. Síður en svo, þvert á móti! Valkyrjurnar í ríkisstjórn Íslands hvetja t.d. eindregið til, að Úkraínumenn berjist til síðasta karlmanns. Nýlega fermdum unglingspiltum er nú att á stríðsforaðið eins og oft áður.

Kvenfrelsarar gera heldur ekki athugasemd við þá staðreynd, að uppeldi íslenskra barna í skólakerfinu sé að mestu í höndum kvenna, sem og félags- og heilbrigðisþjónusta, eins og ofbeldis- og jafnréttisiðnaðurinn. Leiðarljós kvenfrelsaranna er hlutfallsjafnrétti (nema þegar talið berst að fækkun karla). Hugmyndir um jöfn tækifæri líta þeir aftur á móti hornauga.

En sagan er ekki öll sögð. Lítum á nokkrar staðreyndir og tölur frá Tom (lýsa bandarískum veruleika og vestrænun, eftir atvikum) um jafnréttishlutföll kynjanna á ýmsum sviðum:

Karlar eru 98% fórnarlamba stríðs. Neiti þeir að hlíta herskyldu (í Bandaríkjunum) fá þeir 250.000 dala sekt eða verða að dúsa fimm ár í fangelsi. Konur búa almennt ekki við herskyldu.

Það er einnig miklu fátíðara, að konur séu myrtar. Myrða þyrfti eina konu á klukkutíma í eitt ár, svo hlutföllin yrðu jöfn, að þessu leyti.

Drengir og fullorðnir karlmenn eru 80% þeirra, sem deyða sjálfa sig. Vilji konur standa jafnfætis körlum á þessu sviði, þyrftu sjálfsvígum þeirra að fjölga fjórfalt.

Um 93% þeirra, sem látast í vinnuslysum, eru karlmenn. Svo jafnræði kæmist á milli kynjanna, hvað vinnuslys varðar, þyrfti ein kona að láta lífið á tveggja klukkutíma fresti.

Karlmenn vinna hættulegri og sóðalegri störf en konur. T.d. þyrfti að margfalda fjölda kvensorphirðumanna 35sinnum, til að jafnræði ríkti á því sviði. Dýpra þyrfti að taka í árinni í umhirðu ræsanna. Þar þyrfti að fjölga konum 85sinnum, svo að jafnrétti næðist.

Karlar lifa fimm árum skemur en konur. Þeir deyja sem sé yngri, og má þá hér um bil einu gilda, hver dánarorsökin sé. Til að jafnrétti ríkti, þyrftu miklu fleiri konur að deyja miklu fyrr. Svo að jafnist út fjöldi andláta, án tillits til orsaka, þyrftu 1000 konur að geispa golunni daglega í eitt ár.

Karlar slasast líka í heimiliserjum og bíða fjörtjón. Um 38% hljóta limlestingar. (Enn þá gætir trúlega skekkju við rannsóknir. Karlar eru oft og tíðum taldir „hinir eðlilegu“ ofbeldismenn og þeir kvarta síður og kveina yfir ofbeldi maka. Endurteknar rannsóknir víða um Vesturlönd sýna, að almennt skiptist makaofbeldi til helminga milli kynja. Í lespusamböndum er hlutfallið einnig svipað milli maka.)

Falskar ákærur um ofbeldi karla eru algengar. T.d. eru um 40% ákæra um nauðganir falskar. Hví er svo lítið gert til að vernda unga karlmenn fyrir röngum dómum? (Hvar er lögregla og ríkissaksóknari? Hafa t.d. meiðyrðameyjarnar við Menntaskólann í Hamrahlíð verið saksóttar?)

Misþungir dómar fyrir sams konar brot eru einnig algengir. Dómar kvenna eru yfirleitt vægari en dómar karla. Við rán eru karlar dæmigert dæmdir í tíu ára fangelsi, konur átta. Við höfum tilhneigingu til að líta á karla sem illa, en konur kærleiksríkar og góðar. Leitað er dyrum og dyngjum að einhverju því í lífi konu á sakamannabekki, sem gæti mildað dóm yfir henni. Reynsla (jafnvel þótt upplogin sé) af kynáreitni eða -ofbeldi reynist oft vel.

(Það er til að mynda ekki ýkja langt síðan, að par var látið sæta gæsluvarðhaldi sökum sameiginlegra kynglæpa gagnvart börnum. Það varð mun skemmra hjá konunni, samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjaness, því hún var álitin bera minni sök. Býsna algengt.)

Fangelsin eru fleytifull af körlum. Það þyrfti að fangelsa fjórar konur á hverri sekúndu á eins árs tímabili til að jafna hlutföllin. Fjöldi fangelsaðra karla er greindarskertur.

Hugsanlega stjórnast dómarar af umhyggju kvenfrelsaranna fyrir körlum. Hinn mikli kvenfrelsunarspekingur, Germaine Greer (f. 1939), lætur að því liggja:

„Líklega er öryggisfangelsi einasti staðurinn, þar sem karlar geta talið sig örugga, nema yfir þeim vofi sú hætta að verða leystir úr haldi.“

Karlar eru miklu ofar en konur heimilislausir umrenningar. Svo jafnrétti sé náð á þessu sviði þyrfti að fjölga heimilislausum konum um 1000 á dag.

Óhróður um karla er algengur og almennur. T.d. er það talið skop og spé, þegar karlar meiðast, en samúð er vakin í brjósti fólks, þegar um meiðsli kvenna er að ræða. Þetta á sérstaklega við um allt, er lítur að kynferði og kynlífi.

„Kynofbeldi gegn konum er glæpur. Kynofbeldi gegn körlum er skemmtilegt,“ segir Tom.

Hið opinbera er afskaplega upptekið af heilsu kvenna. Það hefur sett á laggirnar alls konar stofnanir, t.d. rannsóknastofnanir, til að stuðla að góðu heilsufari kvenna. Varla nokkurt sambærilegt er til fyrir karlmenn.

Rúm ein milljón sveinbarna er umskorin árlega. Þetta er eyðileggjandi, sáraukafull og gersamlega ónauðsynleg aðgerð. Limlesting á kynfærum drengja er heimil lögum samkvæmt, en bönnuð á stúlkubörnum. (Afskorin forhúð drengja er notuð í iðnaði.)

Jafnrétti á þessu sviði fæli í sér, að umskera þyrfti milljónir meyja og kvenna, verulegan hluta án deyfingar. Það á nefnilega við um mikinn fjölda núlifandi karlmanna í Bandaríkjunum.

Æxlunarréttur karla er í raun enginn. Konum er selt sjálfdæmi um fóstureyðingar. Þær taka geðþóttaákvarðanir. Þá má einu gilda, hvort faðirinn óskar barnsins eða ekki. „Hún ræður líkama sínum og buddunni hans,“ kemst Tom að orði.

Rangfærsla faðernis er einhvers staðar í námunda við 30%. Feður greiða uppeldi afkvæma móðurinnar, hver svo sem raunfaðirinn er.

Við skilnað fá mæður óskoraðan foreldrarétt í 83% tilvika, en feður í 8% tilvika.

Greind karla og kvenna (mæld á hefðbundnum greindarprófum) dreifist misjafnlega, þ.e. greind kvenna mælist i meira mæli um miðju bjölludreifingar, karla til endanna. Sé jafnvægis óskað, þyrftum við að sjá miklu fleiri þroskaheftar konur og snillinga úr röðum kvenna.

Tom fjallar lítillega um stöðu drengja, sem öllum ætti að vera kunnugt um. Í leik- og grunnskólakerfi, sem fremur er sniðið að þægum stúlkum en fyrirferðarmiklum drengjum - og þar sem (ungar) konur eru nær einráðar - heltast drengir úr lestinni á flestum sviðum.

Sama má um æðri menntun segja. Í Bandaríkjunum yrði að meina 3 milljónum kvenna aðgengi að æðri menntastofnunum, svo jafnvægi skapaðist milli kynjanna. Þessar milljónir kvenna og margar fleiri, yrðu að gerast iðnaðarmenn (trade) til að stuðla að jafnrétti kynjanna. Konur eru einungis 3% byggingaverkamanna, 3% pípulagningamana, 5% sjómanna (eða fiskara eins og það heitir á jafnréttisíslensku Vinsri-grænna), 5% skógarhöggsmanna og 3% rafvirkja.

Hvernig má það vera, að fólk undrist, að drengir – margir án handleiðslu föður – villist af leið, leyti í fíkniefni og afbrot, vilji skipta um kyn eða káli sjálfum sér.

Kvenfrelsararnir segja misrétti og hatur í garð karla réttlætanlegt, því þeir séu eitraðir, fæddir kúgarar kvenna og nauðgarar. Eða eins og annar meiriháttar kvenfrelsunarspekingur, Andrea Dworkin (1946-2005), tók til orða:

„Sonur sérhverrar konu í feðraveldinu situr hugsanlega á svikráðum við móður sína. Hann er óhjákvæmilega nauðgari eða kúgari annarra kvenna.“

https://www.reddit.com/r/MensRights/comments/1v3hjw/equality_a_step_down_for_women_tom_golden_men_are/ https://avoiceformen.com/featured/the-western-butler-and-his-manhood-2/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Apríl 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband