Kynofbeldismeðferð fyrir drengi

RÚV tekur sjálft sig til kostanna um þessar mundir, flugskeið um völl ofbeldis og drengjafæðar. Útvarp okkar allra færir oss nær daglega fréttir um eftirtalin efni; heimilisofbeldi (ofbeldi karla), sem ekki hjaðnar; málþing félagsráðgjafa um vána; aukningu tilkynninga um hópnauðganir (af karla hálfu býst ég við); ýfingu gamalla meina hjá konu, sem varð fyrir karlofbeldi (og fékk sex millur fyrir); karlrudda sem byrla konum eitur til að fá þær til við sig, næstum-nauðganir í því sambandi; ónóga sjúkrabílaþjónustu við brotaþola byrlana, ónóga athygli neyðarmiðstöðva og ónóga þjónustu frá heilbrigðiskerfinu, sem ekki vill greina sýni úr því gutli, sem þær drekka; ósvífin tilboð drengja og karla í nektarmyndir af saklausum og föðurveldishrelldum stúlkum, sem gera þó ekki annað en að selja kyntöfra sína. Það er varla nýlunda.

Hið geigvænlega klámáhorf drengja er sömuleiðis þráfaldlega fjallað um og hver sérfræðingurinn af öðrum leiddur fram. Mér sýndist RÚV meira að segja hafa fundið einn karlmann til skrafs um efnið. Annars eru persónur og leikendur þeir sömu að miklu leyti. Fórnarlamb frá Öfgum, forstýra Stígamóta og forstýra Barnahúss. Nú er reyndar ný spákona mætt til leiks á leiksviði RÚV, María Jónsdóttir, félagsráðgjafi hjá Greiningar og ráðgjafarstöð ríkisins. Rúsínan í enda þessarar fréttapylsu kom í kvöldfréttum sjónvarps RÚV í dag, 26. okt. 2021:

”Mikil þörf er fyrir meðferð fyrir unglingspilta sem sýna óviðeigandi kynhegðun, að mati félagsráðgjafa. Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins býður nú upp á slíka meðferð. Skilgreiningar á óviðeigandi kynhegðun er meðal annars, ef barn undir átján ára aldri tekur þátt í kynferðislegri athöfn, án samþykkis eða þegar það nýtir sér yfirburði sína í þeim tilgangi. Þriðjungur kynferðisbrota á börnum eru framin af öðrum börnum og meirihluti þeirra er með þroskafrávik. Meðferðin sem kallast „Keep Safe“ er ætluð 13 til 18 ára piltum. Hún hefur gefið góða raun í nokkrum löndum og var kynnt á málþingi félagsráðgjafa um ofbeldi í dag.

Viðtal við Maríu Jónsdóttur, félagsráðgjafa: „Eins og staðan er í dag og öll þessi umræða sem hefur átt sér stað þá er mikil þörf fyrir úrræði eins og Keep safe.“ RÚV: Meðferðin nær yfir 10 skipti 1.5 tíma í senn og er í samstarfi við foreldra piltana. Lögð er áhersla á að styrkja sjálfsmynd þeirra og aðstoða þá við að taka réttar ákvarðanir og nú er boðið upp á meðferðina í annað sinn og sex piltar taka þátt í henni. María: „Málin hafa ratað inn í Barnahús og hérna til barnaverndarnefnda og kannski þolendur sem þeir hafa brotið á hafa farið inn í Barnahús. Og þannig hafa þeir ekki fengið dóm sem slíkan.“ RÚV: „María segir erfitt að áætla fjölda pilta, sem þyrftu meðferð sem þessa. María: „Það eru mjög margir að fara yfir, að stíga yfir mörk annarra, og ég held að við ættum alveg að geta verið með, keyrt námskeið hverja einustu önn með 6 til 8 strákum, ef að við komum því í þann farveg, sem við hefðum viljað sjá.“

Við fáum ekkert að vita meira um þessa drengi; hvað hafa þeir unnið sér nákvæmlega til óhelgi; hverjar séu aðstæður þeirra; hvað þeir segja sjálfir? Í fréttinni er talað um foreldra. Hins vegar er ekki ólíklegt, að yfirleitt sé um mæður að ræða. Hugsanlega sjáum við hér í íslenskt skott þeirrar þróunar, sem er lengra komin í fyrirmyndarríkinu, Bandaríkum Norður-Ameríku, landi hinna frjálsu – einkum þó kvenfrelsara. Þar hafa rannsóknir sýnt fram á fylgni milli föðurleysis, hegðunarvandkvæða, vondrar sjálfsmyndar og lélegs árangurs í skóla. Föðurlausar stúlkur verða áberandi gagnrýnislausar í samskiptum við drengi, karlmenn.

Ætli fjölgun sálfræðinga og fleiri viðgerðakostir fyrir drengi séu svar við auknum vanda, vesöld, depurð, óöryggi, ótta og kynfíkn, sem er í eðli sínu lík annarri fíkn eins og t.d. skjáfíkn, vímuefnafíkn, ofbeldisfíkn og símafíkn. Það er hollt að muna grundvallarregluna; börnin læra það sem fyrir þeim er haft. Það er meira að segja góð sálfræði.

En aðferðin við lækningar, meðferðir, handtökur og viðgerðir á drengjum og körlum byggir á sömu grunnspekinni: Karlar eru sökudólgar, vondir, eitraðir og einir ábyrgir fyrir samskiptum, þegar illa fer. Yfirleitt eru það eingöngu konur, sem skilgreina þá og vanda þeirra. Yfirleitt eru það einnig konur, sem gera við þá, lækna þá, beina þeim á rétta braut.

Stundum eru það þó karlmenn, sem koma að lækningu á fullveðja kynbræðrum sínum. Stígamót hafa í sínum röðum einn svoleiðis. Hann hugsar eins og samstarfskonurnar gera.

Ég þekki ekki meðferðina, sem um er rætt í fréttinni. Ég finn engar upplýsingar um hana á heimasíðu Greiningarstöðvarinnar. María býður þar að vísu námskeið um kynlíf unglinga. Við snögga leit á vefnum finn ég heldur ekkert, nema ef vera kynni aðferð félagsskapar, sem kallar sig „Keep Kids Safe.“ Hann vill ekki síður bjarga bágstöddum konum en börnum og unglingum frá afleiðingum kynofbeldis.

Ég væri þakklátur fyrir fræðslu um efnið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband