Eitruð kvenmennska

Samkvæmt nýlegri skýrslu frá Landlæknisembætti Bandaríkja Norður-Ameríku (BNA), þar sem dregnar eru saman helstu staðreyndir um reykingar mæðra á meðgöngu, þ.e. um fjórðungs mæðra, geta reykingar haft skaðvænlegar afleiðingar fyrir fóstrið eða barnið. T.d. óeðlilegan vefjaþroska við fæðingu (lága fæðingarþyngd) og alvarlega fæðingargalla. Embættið bendir einnig á, að reykingar mæðra verði um eitt þúsund reifabörnum í BNA að fjörlesti árlega. Þar af eru um fjörutíu af hundraði dauðsfalla flokkuð sem vöggudauði eða heilkenni skyndilegs andláts hvítvoðungs (sudden infant death syndrome). Þar að auki er sérstök hætta á fósturláti, ótímabærri fæðingu, fæðingu andvana barns og höfuðsmæð.

Um sjö þúsund börn í BNA fæðast með skarð í vör (oral cleft) eða holgóm (cleft palate), sem rakið er til reykinga mæðra þeirra. Hvort tveggja kann að hafa í för með sér erfiðleika með inntöku fæðu, eyrnabólgu, heyrnarskerðingu, talörðugleika og tannvanda.

Óhóflega neysla lyfseðilsskyldra lyfja, þ.e. löglegra efna, þar með talin þunglyndislyf, er einnig þekkt fósturmeiðandi hegðun mæðra. Hún er svo algeng, að í BNA er stundum talað um þjóðarheilbrigðisvanda – og ekki að ósekju. Á þriðja tug þúsunda nýbura þjást af þessari fíkn mæðra sinna, þ.e. þjást af því, sem kallað er heilkenni fráhvarfseinkenna nýbura (neonatal abstinence syndrome – neonatal withdrawal syndrome). Þessi fjöldi samsvarar því, að um tvö börn á hverri klukkustundu hljóti slík örlög. Einstök einkenni geta verið m.a.: vandræði með svefn og andardrátt, niðurgangur, uppsölur, aukinn hjartsláttur, skerandi grátur, skjálfti og skert fæðuinntaka. Það kveður svo rammt að þessu, að fjöldi krílanna fjórfaldaðist á árabilinu 2004 til 2013, sem endurspeglaðist í sjöföldun innlagna á bráðadeildir fyrir nýbura.

Neysla ólöglegra fíkniefna (drug abuse) er býsna algeng. Í BNA segjast – samkvæmt Lyfjastofnun í þvísa landi (National Institute on Drug Abuse) - tæpar tuttugu milljónir kvenna eða rúm fimmtán af hundraði, hafa neytt fíkniefna síðasta árið. Sú tala felur reyndar einnig í sér misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja. Sá hópur kvenna er talinn um átta og hálf milljón eða 6.6 af hundraði kvenna. Þetta á við um konur, átján ára og eldri, ári áður en rannsóknirnar voru gerðar. Á árabilinu 1999 til 2014 fjórfaldaðist fjöldi fæðandi fíkniefnamæðra (opioid use disorder).

Stofnunin minnir á, að „[f]lest lyfja, þar með talin ópíöt [deyfandi og kvalastillandi lyf] og örvunarlyf (stimulants), geti haft skaðleg áhrif á hið ófædda barn. Neysla nokkurra efna getur aukið líkur á fósturláti og geta valdið heilakveisu (migraine - mígreni), krömpum og háum blóðþrýstingi móður, sem geta haft áhrif á fóstur hennar.“

Einnig bendir stofnunin á, að „áhætta á andláti barns við fæðingu sé tvisvar til þrisvar sinnum meiri hjá mæðrum, sem reykja tóbak eða hamp (marijuana), taka verkjalyf eða neyta ólöglegra lyfja, meðan á meðgöngu stendur.“

Umrædd stofnun er kvenvæn: „Það getur reynst hverjum og einum fíkniefnaneytanda erfitt að losa sig úr greipum fíknarinnar. Það gildir um konur sérstaklega, að þær hræðist hjálp, meðan á meðgöngu stendur eða að henni lokinni, þar sem hugsanleg ógn kynni að stafa af laganna vörðum (legal) eða barnavernd (social), ásamt vöntun á barnagæslu, meðan á lækningu stendur. Konur í meðferð þarfnast oft og tíðum stuðnings til að axla vinnubyrði, [sinna] heimili, umönnun barna, og öðrum verkefnum innan fjölskyldunnar.“

Óhófleg áfengisneysla móður er skeinuhætt fóstri, barni, hennar og getur leitt til skelfilegra afleiðinga fyrir afkvæmið; áfengiseitrunarheilkenni fósturs (foetal alcohol syndrome – fetal alcoholic syndrome – foetal alcohol spectrum disorder), sem tekur til margvíslegra þroskaskerðinga.

Tæp fimm af hundraði mæðra í BNA eru greindar með áfengissýki. Kannanir úr álfu þeirri sýna, að um tíu af hundrað mæðra drukku áfengi í þeim mánuði, sem könnun var gerð, en hins vegar höfðu tuttugu til þrjátíu af hundraði drukkið á meðgöngu. Í BNA fæðast árlega fimm til tólf þúsund börn vegna áfengiseitrunar í móðurkviði.

Dæmigerð einkenni: Afbrigðilegir drættir í andliti, lítið höfuð, hamlaður vöxtur, ónóg þyngd, skert samhæfing hreyfinga, ofvirkni, athyglibrestur, minnisleysi, námsörðugleikar, skertur málþroski, greindarskerðing, dómgreindarskortur, svefnvandamál, brengluð sogþörf, skert sjón eða heyrn, brenglun í starfsemi hjarta, nýrna eða beina.

Árið 2014 skýrði BBC frá sérstökum málaferlum í þessu sambandi. Hópur lögfræðinga ákærði áfengissjúka móður sjö ára stúlkubarns og kröfðust bóta fyrir heilaskaðann, sem móðirin olli dóttur sinni í móðurkviði. Dómarinn sýknaði móðurina með þeim rökum, að til að unnt væri að skilgreina glæp, þyrfti að eiga sér stað „íþynging við alvarlegan skaða á einstaklingi – alvarlegur skaði á fóstri ætti þar ekki við.“

Kvenfrelsunarfrömuðurnir, Rebecca Schiller og Ann Marie (Bradley) Furedi (f. 1960), töldu dóminn viðbrigðamikilvægan fyrir frelsi mæðra. Sú síðarnefnda sagði m.a.: „Uppkvaðning dómsins er mikilvægur fyrir konur hvarvetna. … Æðstu dómstólar í Sameinaða konungsríkinu (UK) hafa viðurkennt rétt kvenna til að ákvarða sjálfar um þungun sína.“ Rebecca þessi er meðstofnandi „Fæðingarréttar“ (Birthright), félagsskapar, sem berst fyrir mannréttindum við fæðingar. Ann Furedi var aðalframkvæmdastjóri hinnar „Bresku ráðgjafarþjónustu við meðgöngu“ (British Pregnancy Advisoru Service)

Til viðbótar þeim fóstrum, sem týna lífinu í móðurkviði, er um níu hundruð þúsund fóstrum eytt í BNA árlega. Engar tölur eru til um hin svokölluðu „sorpgámabörn“, þ.e. nýbura, sem mæður losa sig (oft) við í sorpgáma. Árið 1998 var áætlað, samkvæmt fréttaflutningi víðsvegar um BNA, að þau væru um hundrað og fimmtíu. Um þriðjungur þeirra var látinn. Mæðurnar eru venjulega ungar að árum, unglingar eða konur á þrítugsaldri. Reyndar eru kunnar fleiri aðferðir en útburður í sorpgám eins og t.d. að kasta nýburunum út um glugga, skilja þau eftir í lækjum eða í vegarkanti, drekkja þeim eða kyrkja þau.

Í Los Angeles er í burðarliðnum ný löggjöf, sem tekur mið af svipaðri löggjöf í Arizona og Texas. Mæðrum er boðið að losa sig við nýbura sína nafnlaust og án viðurlaga á bráðadeildum sjúkrahúsa, í nýburaathvarf eða öryggiskjól (Safe Haven), innan þriggja sólarhringa frá fæðingu. Í Indiana og víðar er þeim boðið að losa sig við börnin í þar til gerða hitakassa, athvarfskassa (Safe Haven Baby Box) eða vonarkassa (Hope Box). Árið 2017 var 478 börnum kastað í þessa kassa í Georgíu, en 774 í Kaliforníu. Þetta gæti gefið vísbendingar um þann fjölda, sem áður hvarf sporlaust. Eins kynnu kassarnir að hvetja til útburðar. Þrátt fyrir þetta úrræði, finnast enn útborin börn víða um álfuna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband