Byltingar og auðvaldsástir á millistríðsárunum

Þrátt fyrir Friðarráðstefnuna í París 1919, friðarsamninga í Versölum og fögur fyrirheit Þjóðabandalagsins um frið á jörðu, rétt þjóða og þjóðarbrota til sjálfsákvörðunar um eigin málefni, ríkjastofnun og helgi hefðbundinna búsvæða, fór veröldin öll í bál og brand seint á fjórða áratugi síðustu aldar.

Auðgunarþörf auðdrottnanna á fjármálamörkuðum hins vestræna heims, einkum í Bandaríkjunum, sem tekið höfðu við drottnunarhlutverki Bretlands, var friðarást, frelsi og réttlæti, yfirsterkari.

Auðdrottnar og stjórnvöld Vesturlanda seildust til áhrifa, bæði í austri og vestri. Í upphafi fyrsta heimsstríðs var rússneska stórveldið í upplausn og andófi gegn Nicholas II Alexandrovich Romanov (1868-1918), keisara. Andóf fátæks almúgans í Sánkti Pétursborg og hrakfarir gegn Japönum í austri, gerðu það líklega að verkum, að upp úr sauð.

Þjóðverjar sáu sér leik á borði, og hleyptu Vladimir Lenin/Vladimir Ilyich Ulyanov (1870-1924) til borgarinnar og Bandaríkjamenn Leon Trotsky/Lev Davidocich Bronstein (1879-1940). Þessir undirróðurmenn, reknir úr landi eftir fyrri byltingartilraun, og fylgismenn þeirra, bolsévikkar, hleyptu upp byltingarstjórninni og myrtu zarinn og fjölskyldu hans. Í kjölfarið fylgdi borgarastyrjöld í Rússlandi. Vesturlönd blésu óspart í glæðurnar.

Auðævi hins víðfema Rússlands hafa ævinlega haft magnað aðdráttarafl. En það hafði reyndar einnig hugmyndafræðin um alræði öreiganna og leiðtogakenning Vladimir, þ.e. að úrval gáfumanna skyldi leiða öreigana til fyrirheitna landsins, þar sem allri kúgun væri aflétt, öreigarnir hefðu bæði til hnífs og skeiðar, hefðu nóg að bíta og brenna, og yndu glaðir við sitt - í þeirri fullvissu, að þeim væri borgið í faðmi stjórnenda sinna.

Þetta alsælufyrirkomulag, sem Karl Heinrich Marx (1818-1883) og Friedrich Engels (1820-1895), sáu í hillingum og lýst var í Kommúnistaávarpinu, var í sjálfu sér þekkt hugmyndafræði frá síðmiðöldum, sbr. jafnaðardraumórasamfélög auðkýfinganna, Claude-Henri de Rouvroy Comte de Saint-Simon (1760-1825), Robert Owen (1771-1858) og Francois-Marie-Charles Fourier (1772-1837).

Í þessu sambandi og með tilliti til þróunar fasisma, nasisma og tækniauðræðis á líðandu stundu, mætti til skilningsauka nefna verkalýðshyggju Georges Eugéne Sorel (1847-1922). Hann var franskur heimspekingur og verkfræðingur, sem boðaði eignarhald verklýðsfélaga á atvinnutækjunum (syndicalism). Hann var einlægur aðdáandi fasisma Benito Mussolinis (1883-1945).

Það var einmitt Benito sem talaði um „samvinnuríkisvaldið“ (corporate state), þ.e. samvinnu fyrirtækja og stjórnmálamanna. Það er grundvallarhugmyndafræði þjóðernisjafnaðarstefnunnar (nationalsozialismus), ríkisauðvaldsstefnunnar (state capitalism) og samstjórnunarstefnu auðdrottna og ríkisvalds (public-private partnership), sem Alheimsefnahagsráðið rær nú að öllum árum.

Fyrrgreindir hugsjónaauðjöfrar reyndu að láta samfélagsdrauma sína rætast, en án árangurs.

Karl og Friedrich leituðu skýringa og gripu í því skyni til framvindukenninga um mannsandann, sem runnar voru undan rifjum þýska heimspekingsins, Georg Wilhelm Friedrich Hegel (1770-1831). Sá mikli hugsuður taldi menningu heimsins hafa náð hæstum hæðum, þegar hann barði augum franska keisarann, Napoleon Bonaparte (1769-1821), ríða inn í Jena á glæstum, hvítum stóðhesti.

Karl og Friedrich litu hins vegar svo á, að hreyfiafl sögunnar væri framleiðsluhættirnir eða eignarhald á þeim. Þeir töldu, að innbyggðar andstæður í auðvaldsskipulaginu myndu sjálfkrafa verða því að fjörtjóni í fyllingu tímans, á æðsta stigi þess.

Rússneskir byltingarmenn sáu vitanlega í hendi sér, að slík skilyrði væru ekki til staðar í Rússlandi. Í þessu ljósi má skilja velvilja gagnvart iðnjöfrum og fjármagnseigendum Vesturlanda og fyrirgreiðslu þeirra. Í raun réttri má líta á þetta fyrirkomulag, þ.e. þegar úrval öreiganna stjórnar atvinnulífi með hjálp fjármagnseigenda, sem nokkurs konar „sameignarfélag“ (corporate socialism). Þetta fyrirkomulag hefur eins og drepið var á, gengið í endurnýjun lífdaganna undir heitinu blandað eignarhald og samstjórn hins opinbera og einkageirans (private-public ownership), sem auðkýfingar Vesturlanda, Sþ og Alheimsefnahagsráðið (World Economic Forum) hafa tileinkað sér í ríkum mæli. Það má t.d. sjá við framleiðslu hergagna, lyfja og bóluefna.

Í sjálfu sér skeyta auðdrottnar ekkert um hugmyndafræði. Það vakir yfirleitt fyrir þeim að afla fjár, að mata krókinn, að skara eld að eigin köku. Því er engin mótsögn í því, að milli stríða og þegar að önnur heimsstyrjöldin hafði skollið á, græddu sömu aðiljar beggja vegna víglínunnar.

T.d. fjárfestu bandarískir iðnjöfrar bæði í Rússlandi og Þýskalandi. Henry Ford (1863-1947), sem Adolf Hitler (1889-1945) taldi læriföður sinn í mannræktarfræðum (eugenics), reisti bílaverksmiðjur í landi lærisveins síns og einnig í Rússlandi á fjórða áratugi síðustu aldar. Adolf veitti Henry meira að segja orðu, svo hugfanginn var leiðtoginn af hugmyndafræðinni.

Iðnjöfurinn, (William) Averell Harriman (1891-1986), sendiherra Bandaríkjanna í Moskvu, síðar borgarstjóri í Nýju Jórvík (NY) og einn tíu utanríkismálavitringa (The Wise Men) Bandaríkjanna, var í miklu dálæti hjá úrvalsmönnum rússneska byltingarflokksins.

Í meðmælabréfi frá Franklin Delano Roosevelt (1882-1945) til Joseph Vissarionovich Stalin (1878-1953), aðalritara Kommúnistaflokksins, segir:

„Kæri Stalin. … Ég er þess fullviss, að opnast munu leiðir til að útvega gögn og vistir, sem duga mega til að berja á Hitler á öllum vígstöðvum, þínum meðtöldum.“

Franklin talar einnig um hetjulegar varnir sovéska hersins. Nokkrum árum síðar ráðgerði sami forseti Bandaríkjamanna kjarnorkuvopnaárás á þessa vini sína í austrinu.

Averell hafði fjárfest ógnarlegum upphæðum í málmvinnslu. En þegar Joseph sagði samningum við hann upp, í þeirri viðleitni að draga úr fjárfestingum erlendra aðilja, voru fjárfestingarnar endurgreiddar með rausnarlegum hætti. Avarell bar hvergi skarðan hlut frá borði.

Annar auðjöfur skipar eftirminnilegan sess í sögu millistríðsáranna, Gerard Swope (1872-1957), forstjóri General Electric. Hann var heilinn á bak við svokallaða Swope áætlun, sem fól m.a. í sér „New Deal“ hugmyndafræði Frank Roosevelt, þ.e. samvinnu auðjöfra og ríkisvalds í atvinnumálum.

Sömu auðjöfrar fjármögnuðu einnig „Hina nýju skipan“ Adolf Hitler, sem sótti bæði innblástur í þessu efni til Rússa og Benito Amilcare Andrea Mussolini (1883-1945), sem rak ítalsk samfélag samkvæmt sams konar fyrirkomulagi, sameignarríkisskipan (corporate state). Svipað fyrirkomulag er nú kallað „public-private partnership.“ Gerard Swope tók einnig þátt í fjármögnun þýskra nasista og rafvæðingu Ráðstjórnarríkjanna.

Þekkt er einnig þátttaka John Pierpoint Morgan (1837-1913), sem fjármagnaði svonefnda Dawes áætlun (Dawes Plan) frá árinu 1924, svo endurreisa mætti iðnað Þýskalands, eftir fyrsta heimsstríð.

Þess má geta, að J.P. Morgan menntaðist m.a. við háskólann í Göttingen, Þýskalandi. Umrædd áætlun er kennd við Charles Gates Daws (1865-1951), bandarískan bankamann og síðar varaforseta þjóðar sinnar og friðarverðlaunahafa Nóbels.

Fjórum árum síðar fylgdi í kjölfarið svokölluð Young áætlun, kennd við Owen D. Young (1874-1962), forstjóra General Electric. Hann hafði forgöngu um auknar lánveitingar til Þjóðverja, samhliða lækkun þeirra stríðsskaðabóta, sem ákveðnar voru í Versalasamningunum.

Áætlunin kvað einnig á um brottflutning erlends herafla frá þýskri grundu og stofnun ofuralþjóðabanka, sem enn lifir góðu lífi, Bank for International Settlements. Þegar lánabrunnurinn þornaði upp í heimshreppunni um 1930 fór Þýskaland aftur á hvolf og plægði enn betur akurinn fyrir almannahylli Adolf Hitler.

Þjóðverjar voru enn í sárum, eftir þá svívirðulegu „friðarsamninga,“ sem Vesturveldin sveltu þá til að samþykkja. Það var einn af stríðsglæpum Breta og Winston Leonard Spencer Churchill (1874-1965) á fyrsta og öðru skeiði heimsstyrjaldarinnar (fyrstu og annarri heimsstyrjöldinni).

https://www.presidency.ucsb.edu/documents/letter-introducing-w-averell-harriman-stalin https://www.youtube.com/watch?v=zAKRjhzJzN4 https://www.youtube.com/watch?v=28un0dOUnuk https://www.youtube.com/watch?v=sLgCnoz7IBM https://www.history.com/topics/19th-century/manifest-destiny https://www.history.com/topics/19th-century/mexican-american-war https://www.youtube.com/watch?v=26raYPP4n7Q https://www.history.com/this-day-in-history/u-s-takes-possession-of-alaska https://www.smithsonianmag.com/history/how-the-louisiana-purchase-changed-the-world-79715124/ https://www.britannica.com/biography/James-Monroe https://www.britannica.com/event/Monroe-Doctrine https://spartacus-educational.com/GERfunk.htm https://www.bis.org/ https://history.state.gov/milestones/1914-1920/paris-peace https://history.state.gov/milestones/1921-1936/dawes#:~:text=Under%20the%20Dawes%20Plan%2C%20Germany's,currency%2C%20the%20Reichsmark%2C%20adopted. https://propagandainfocus.com/wall-street-the-nazis-and-the-crimes-of-the-deep-state/ https://alphahistory.com/coldwar/truman-doctrine/ https://www.history.com/news/world-war-i-russian-revolution https://www.britannica.com/event/Truman-Doctrine https://responsiblestatecraft.org/2023/02/21/we-made-putin-our-hitler-zelensky-our-churchill-and-the-media-fell-in-line/ https://propagandainfocus.com/wall-street-the-nazis-and-the-crimes-of-the-deep-state/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband