Greindin sem glutraðist niður. Vísinda- og menningarkreppan. VIII: Greind og kvenfrelsunarvísindi

Síðustu áratugi hafa kvenfrelsarar riðið röftum í æðri menntastofnunum á Vesturlöndum, með þann arf í farteskinu, sem áður er gerð grein fyrir.

Steven Goldberg, (f. 1941) benti, þegar árið 1973, á kvenfrelsunarfræðafúskið: „Það er [vísinda]blekking, þegar kvenfrelsarar í nafni fræðilegra rannsókna, eru svo fúsir til að upphugsa staðreyndir, hafna þeim eða taka til sín, eftir því, hvernig [staðreyndirnar] höfða til tilfinninga þeirra.“

Það sama gerði þýsk-argentínski læknirinn og sálfræðingurinn, Esther Vilar: „[K]onur bera enga virðingu fyrir vísindalegum staðreyndum og sýna eingöngu áhuga því, sem kemur þeim að gagni hér og nú.“

Kvenfrelsarar hafa leitast við að glæða lífi augljósa fásinnu, bábiljur, trölla- og goðsögur, með fræðum og vísindum, sem iðulega hafa reynst villuljós.

„Kvenfrelsarar hafa verið óvandaðir að virðingu sinni í því, er lýtur að staðreyndum,“ segja hagfræðingarnir, Diana Furchtgott Roth og Christine Elba, í bók sinni „Kvenfrelsunarkreppunni.“ (The Feminist Paradox.)

Steven Pinker, sem áður er nefndur til sögu, tekur í sama streng: „Kvenfrelsunarbarátta fyrir jafnrétti í stjórnmálalegu og félagslegu tilliti er mikilvæg, en kvenfrelsunarfræðaklíkur á háskólastigi, sem einbeita sér að furðukennisetningum, eru það ekki. ... [því] kynerfðakvenfrelsun steytir gegn vísindunum. ... [Kvenfrelsararnir] berjast með kjafti og klóm gegn rannsóknum á kynferði og mismuni kynjanna. ... [Það er] meginástæðan fyrir því, að heiftúðlega er spyrnt gegn beitingu vitneskju um þróun, erfðafræði og taugafræði, í umræðu um mannshugann.“

Bandaríska sálfræðingnum, Shari L. Thurer, rekst svo sannarlega rétt orð á munn, þegar hún segir: „Upplýsingar af vísindalegum toga eiga erfitt uppdráttar, þegar vinsælar goðsagnir eru annars vegar, sérstaklega þegar þær ganga í berhögg við hleypidóma, sem fólki er annt um.“

Í alvöru vísindum eru gerðar strangar kröfur um sönnunarfærslu, þ.e. að skoða, hvort ákveðin kenning, tilgáta eða fullyrðing, hafi við rök að styðjast, sé raunsönn. Því þarf í sjálfri tilgátunni að segja til um, hvaða niðurstöður eða rannsóknargögn muni annað tveggja, sanna eða afsanna (falcification) hana. Rannsaka má í sjálfu sér, hvað sem er, en samt sem áður er gerð sjálfsögð krafa um, að rannsóknarefnið sé fræðilega undirbyggt með tilliti til þess, sem aðrir hafa gert og í fullum samhljómi við fræðilega (og almenna) skynsemi.

Niðurstöður vísindalegra athuganna verða sem sé að standast gagnrýna skoðun, svo leggja megi mat á áreiðanleika niðurstaðnanna og gildi þeirra mælinga og hugtaka, sem notast er við. Þess vegna er leitast við að staðfesta niðurstöðu með endurtekinni athugun annarra vísindamanna.

Bandaríski stærðfræðingurinn, James A. Lindsay (f. 1979) og breski sagnfræðingurinn, Helen Pluckrose, eru ómyrk í máli um þróun vísindanna:

„Eitthvað hefur farið úrskeiðis í æðri menntastofnunum – sérstaklega á vettvangi hugvísinda. Fræðimennska miðar síður að því að leita sannleikans, en snýst þess í stað um félagsleg harmkvæli (social grievance). [Þetta] er margstaðfest, jafnvel alls ráðandi á nefndum sviðum. [Hlutaðeigandi] fræðimenn iðka það í auknum mæli að þvinga (bully) nemendur, skrifstofumenn og aðrar deildir, til að deila heimsmynd sinni. Þessi heimsmynd er ekki vísindaleg, hún er laus í reipunum (not rigorous).“

Bandaríski vísindablaðamaðurinn, David H. Freedman, segir í grein sinni: „Lygar, bannsettar lygar og læknavísindi“ (Lies, Damned Lies, and Medical Science): Margar af þeim niðurstöðum, sem rannsakendur á sviði lækninga komast að, eru iðulega blátt áfram rangar. Svo hvernig má það vera, að læknar nýti sér falsupplýsingar í daglegu starfi sínu í verulegum mæli?

Bandaríski sálfræðingurinn, Linda Susanne Gottfredson (f. 1947) bendir á, að ástandið við bandarískar menntastofnanir dragi dám af rétttrúnaði við austur-evrópskar stofnanir fyrir hrun Ráðstjórnarríkjanna. Bandarískir vísindamenn játast opinberum rétttrúnaði stjórnvalda og sýsla með sitt. Hún segir:

Vísindasamfélag skal byggt á grunni „fræðilegrar viðmiðunar um hæfni, sköpunargáfu og agaðrar rökvísi (intellectual rigor). En slíkt samfélag verður samt sem áður uppspretta spillingar hugans, þegar félagar þess beita vísindalegum viðmiðunum í þágu annarra hvata – eins og peninga, stjórnmála, trúarbragða [eða] ótta.“

Það er ekki bara svo, að lygar hafi umhverfst í sannleika, heldur er rétttrúnaðaráróður á vegum vísindasamfélagsins, stjórnvalda, fjárglæframanna, fjölmiðla og iðnaðarauðvaldsins, svo yfirgengilegur, að þaggað er miskunnarlaust niður í fólki, vísindalegar niðurstöður fjarlægðar af vefnum og sniðgengnar af almenningsbókasöfnum og upplýsingaveitum.

Danski líffræðingurinn, Kåre Fog (f. 1949) hefur rannsakað fyrirbærið. Hann skrifaði greinina, „Kvenfrelsunarritskoðun,“ í „Tímarit fyrir upplýsingasiðferði“ árið 2018. Hann segir m.a.:

„Formælendur kvenfrelsunar eiga greiðan aðgang að fjölmiðlum. Öðru máli gegnir um þá, sem andmæla málflutningi þeirra, jafnvel þótt í anda jafnréttis sé. Sömu sögu er af sjónvarpsþáttum að segja. Sé kvenfrelsurum andmælt, er tjaldið samstundis dregið niður og aðgangur bannaður. Það er afar erfitt að finna útgefanda að bók, þar sem kvenfrelsun er gagnrýnd. Takist það á annað borð, er líklegt að hún fái ekki umsögn í fjölmiðlum og falli í gleymsku og dá. Þetta á einnig við um fræðibækur, þar sem umfjöllun er mildileg og með skírskotun til margra heimilda.

Rannsókn á alþjóðlegum bókaskrám tíu þúsunda bókasafna leiddi í ljós, að kvenfrelsunarbækur – jafnvel þær, sem boðuðu svæsið karlhatur – eru keyptar inn í meira mæli, heldur en bækur, sem fjalla um sjónarmið karla. Venjulega eru þær einnig þýddar á miklu fleiri tungumál. Bækur, sem höfundur gefur út, eru óvíða aðgengilegar.

Í Bandaríkjum Norður-Ameríku voru skoðuð átta yfirlitstímarit (review jounals) og þrjátíu og fjórir útgefendur. (Dwyer 2016). Niðurstaðan er sú, að 78% almenns starfsliðs eru konur, í framkvæmdastjórn er hlutfallið 58%.

Kvenfrelsarar boða hugmyndafræði, sem elur á hatri gagnvart körlum, sérstaklega þó hatri á karlmönnum, sem kynnu að verða elskhugar þeirra [kvenkyns kvenfrelsara]. Er líklegt, að þeim sé umhugað að ganga með höturum sínum í eina sæng? Hugsanlega mun karlfæðin stuðla að færri barnsfæðingum. Í Danmörku og víðar sjást vísbendingar um samhengi aukinnar kvenfrelsunar, upplausnar fjölskyldna og lækkunar fæðingartíðni.“ …

Þegar allt kemur til alls, er líklegt „að óheft kvenfrelsun muni stuðla að niðurrifi einmitt þeirra samfélaga, sem betur hlúa að og búa í haginn fyrir konur. En það er nýtt í mannkynssögunni.“


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband