Rosmhvalirnir og ragnarök. Freyja og Þór

Það er orðið harla fátítt, að rosmhvalir eða rostungar sæki okkur heim í Rosmhvalahreppi hinum forna á Suðurnesjum. En engu að síður flækjast þeir víða.

Einn þeirra, kvendýrið, Freyja, sótti t.d. norska heim. Frakka Freyja gerði sig býsna heimakomna, prílaði upp á bátsdekk og flatmagaði þar í sólinni. Hún varð umsvifalaust yndi og eftirlæti Norðmanna. Veiðimálastjóri, Frank Bakke-Hansen, fékk vonda útreið, þegar hann lét aflífa þessa grófgerðu fegurðardís, enda augljóslega um kynbundið ofbeldi að ræða. Honum var meira að segja hótað lífláti.

Samkvæmt hamfarahlýnunarspámönnum er tegundin hér um bil útdauð. Líklega hefur Þór, ungrostungur, trúlega ættaður frá Svalbarða, engan gaum því gefið, enda ungur og kærulaus og engar æxlunarkröfur til hans gerðar. Þór kom sér fyrir á grunnsævi við við Scarborough í Jórvíkurskíri á Bretlandi og undi sér þar vel í allsnægtum. Það tókust ástir með honum og íbúum svo miklar, að flugeldaskoti var frestað af virðingu við sævargestinn.

Þór hefur vafalaust látið sér í léttu rúmi liggja geðshræringarnar, sem kæruleysi hans hafði í för með sér í landinu. Hinn kunni bjartsýnismaður og þyrnir í augum hamfarasinna, fjölfræðingurinn, Matthew (Matt) White Ridley, greip tækifærið til að stríða þeim ofurlítið. Hann skrifaði grein: „Endurkoma rosmhvalsins er enn þá ein góðfréttin, sem græningjarnir vilja ekki gangast við“ (Walrus comeback is more good news the greens won´t admit).

Það stóð ekki á viðbrögðunum. Bob nokkur Ward, fjölmiðlamaður á snærum „Grantham rannsóknarstofnunar loftlagsbreytinga og umhverfis“ (Grantham Research Institute on Climate Change and the Environment) skrifaði svargrein með undarlegum titli: „Afneitarar loftlagsbreytinga halda áfram að ata herra David Attenborough auri“ (Climate change deniers continue smear campaign against Sir Daved Attenborough).

Afneiturum er lesinn pistillinn á kunnuglegan hátt; þ.e. að þeir virði að vettugi hlýnun jarðar, þótt hún blasi við augum; að þeir neituðu því, að um gróðurhúsaáhrif væri að ræða, jafnvel þótt fjöldi rannsókna hefði útilokað aðrar skýringar. En nú hafa þeir tekið sinnaskiptum, segir Bob, í ljósi sífjölgandi öfga í veðri, og tali nú um velgju í veðri, sem hafi óveruleg áhrif á loftslag.

Hamfarasinnar hafa verið ötlulir í því trúboði sínu, að heimurinn sé að fara til helvítis, sérstaklega á norðurslóðum, þar sem ísinn bráðnar skart, að sögn. En þeir, sem gera sér far um að vega og mæla og telja og hugsa rökrétt og lesa sögu, segja öðruvísi frá.

Í viðtali við Jordan Peterson, sem ber titilinn „Loftlagsvísindi: Hvað hafa þau að segja“ (Climate Science: What does it Say), rekur loftlagseðlisfræðingurinn, Richard Lindzen, sögu þeirra, og sérstaklega þær breytingar, sem voru greinilegar orðnar á níunda áratugi síðustu aldar, þegar auðmenn og yfirvöld tóku að veita gífurlegum fjármunum í rannsóknir á þessu sviði í kjölfar samþykktar Rómarklúbbsins, alþjóðlegrar auðmannasamkundu, þess efnis, að ofhitunarvá vofði yfir veröldinni en ekki vá vegna ofsakulda. Enda kom fljótlega kom í ljós, hvaða niðurstaða væri forsenda styrkjanna; hamfarahlýnun. Ritstjórnar tveggja tímarita freistuðu þess að birta greinar, sem Richard hafði skrifað. Báðir voru umsvifalaust reknir.

Richard bendir á, að loftslag sé afar flókið fyrirbæri og líkön þau, sem notuð eru til að spá um framtíðarþróun, séu of einföld og ráði ekki við mikilvæga áhrifavalda, sem að verki eru. Sjálfur sat hann á tímabili í Alþjóðaloftlagsbreytingaráðinu (Intergovernmental Panel on Climate Change - IPCC), sem starfar í tengslum við Sameinuðu þjóðirnar (SÞ). Lýsing hans á vinnslu skýrslu, sem ráðið sendir öðru hverju frá sér, er ekki traustvekjandi. Meginkaflinn um vísindalegar rannsóknir er nær óskiljanlegur, segir hann. Enda lesa hann fáir. Stjórnmálamenn og almenningur reiðir sig á stutta, straumlínulagaða samantekt.

Þetta er svipuð niðurstaða og kanadíski blaðamaðurinn, Donna Laframboise, komst að. Donna hefur skrifað bók um umhverfismál, ”Vandræðaunglinginn, sem af misgáningi var talinn fremsti sérfræðingur heims um umhverfismál,” (The Delinquent Teenager Who Was Mistaken for the World’s Top Climate Expert). Þar brýtur hún m.a. til mergjar skýrslu Alþjóðaloftlagsbreytingaráðsins um umhverfismál.

Það er trúlega vænting flestra, að þar sitji að skrafi og rannsóknum úrvalshópur vísindamanna úr víðri veröld. En samkvæmt rannsóknum hennar er því alls ekki að heilsa. Skýrsluhöfundar eru flestir miðlungar á sínu sviði, hálfskólaðir sérfræðingar og námsmenn – að ógleymdum snotrum aðgerðasinnum. Verulegur hluti undirstöðugagna skýrslunnar er vísindalega vafasamur.

Donna hefur, í umboði „Stefnumótunarstofnunar um hlýnun hnattarins“ (Global Warming Policy Foundation), skrifað skýrslu um efnið. Stofnunin hefur aðsetur í Lundúnum. Skýrsla kom út árið 2016. „Þar er útskýrt, að helmingur allra útgefinna vísindagagna [um efnið] gæti verið út í hött, þar með taldar rannsóknir á loftslagi, sem liggja til grundvallar áætlunun stjórnvalda með svimandi háa verðmiða (trillion dollar).“

Donna hefur einnig á vegum ofangreindrar stofnunar skrifað álit um ritrýni, sem ber titilinn: „Ritrýni. Hvers vegna efasemdir eru nauðsynlegar“ (Peer Review. Why Skepticism is Essential). Aðfaraorð rita eðlis- og stærðfræðingurinn, Christopher Essex, og fyrrgreindur Matthew (Matt) Ridley.

Þeir segja m.a., að rannsóknir Donnu á heimildavinnu Alþjóðaloftlagsbreytingaráðsins (Intergovernmental Panel on Climate Change), hafi leitt í ljós, að um fjórðungur tilvitnanna sé sóttur í svokölluð grámóskufæði; fréttatilkynningar, þrýstihópaskýrslur og því um líkt, fjarri því að vera ritrýnd vísindi, jafnvel þótt „[r]itrýni sé ekki og hafi aldrei verið almenn vörn gegn fordómum, rangfærslum eða misskilningi um vísindaleg málefni. … [R]itrýni er sannanlega oft og tíðum bjöguð (biased), fordómafull og til málamynda, andstæð algengum væntingum um vísindin í hvívetna.“

Christopher og Matthew minnast á „umhverfisskýrsluhneykslið“ (climate-gate), þ.e. tölvupósta meðhöfunda margumræddrar skýrslu, þess efnis, að ritrýndar rannsóknir, sem þeim hafði verið bent á, en fluttu boðskap, sem andstæður var rétttrúnaði þeirra um umhverfismál, yrði látnar liggja í láginni. Þeir sögðu á þessa leið; við munum sjá til þess, að boðskapurinn nái ekki inn í skýrsluna, jafnvel þótt við verðum að endurskilgreina ritrýni. Fleiri áþekk dæmi eru nefnd, t.d. svæsin aðferðagagnrýni á nokkrar uppistöðugreinar í skýrslunni.

Þeir félagar segja að lokum: „Hin þrúgandi og menntunarsnauða skírskotun til vísinda sem væru þau steinrunnin [kunnátta], sem einungis mætti leggja mat á samkvæmt siðferðilegum hreinleika fremur en nákvæmni um staðreyndir, hefur gert það að verkum, að sanngjörn umræða er því sem næst óhugsandi. [Þetta] hefur bakað okkur öllum feiknalegt tjón.“

Við þetta bætir Donna: „Reyndin er sú, að á líðandi stundu búa vísindin við „endurgerðarkreppu,“ sem er svo svæsin, að ritstjóri málsmetandi tímarits hefur lýst yfir, að „mikið af vísindaritum, jafnvel helmingur þeirra, gæti einfaldlega verið rangur.“

En óumdeilanlega er það svo, að víða á norðurskautinu hefur ís minnkað að sumarlagi, en miklu minna að vetrinum. Það hefur m.a. í för með sér, að fæðuöflun rosmhvala verður auðveldari. Því hefur þeim t.d. fjölgað við Svalbarða um 109% á tólf ára tímabili, eftir að rányrkju veiðimanna á stofninum linnti. Því er hvorki Atlantshafsstofninn né Kyrrhafsstofninn í hættu vegna loftlagsbreytinga.

Rányrkja mannanna skýrir fækkun hvala að mestu leyti, að því er virðist. Hún skýrir líka útdauða geirfuglsins. Sá ófleygi fugl kemur væntanlega aldrei aftur frekar en móurnar (Moas) á Nýja Sjálandi.

En hver veit, nema rosmhvalurinn snúi aftur til Suðurnesja og bráðum komi betri tíð, með blóm í haga, og kornrækt eins og á landnámsöld.

https://www.youtube.com/watch?v=pGPqV_Fwo4Q https://www.netzerowatch.com/christopher-essex-should-we-trust-science/ https://expose-news.com/2022/06/05/real-climate-experts-are-stepping-forward/ https://www.theatlantic.com/magazine/archive/2010/11/lies-damned-lies-and-medical-science/308269/ https://www.thegwpf.org/donna-laframboise-science-is-in-trouble/ https://www.thegwpf.org/content/uploads/2016/10/PeerReview.pdf https://expose-news.com/2023/01/10/walruses-are-not-in-danger-from-climate-change/ https://www.youtube.com/watch?v=7LVSrTZDopM https://www.nrk.no/tromsogfinnmark/frank-bakke-jensen-far-drapstrusler-fra-hele-verden-etter-at-hvalrossen-freya-ble-avlivet-1.16068564 https://www.nrk.no/osloogviken/hvalrossen-freya-ble-elsket-av-hele-norge-_-du-er-programmert-til-a-like-sarbare-og-sote-dyr-1.16078784 https://www.bbc.com/news/world-europe-62539485 https://mosj.no/en/indikator/fauna/marine-fauna/walrus/ https://www.lse.ac.uk/granthaminstitute/news/climate-change-deniers-continue-smear-campaign-against-sir-david-attenborough/ https://www.thetimes.co.uk/article/walrus-comeback-is-more-good-news-the-greens-wont-admit-bhx99r9kk https://polarbearscience.com/ https://www.bbc.com/news/uk-england-hampshire-63940472 https://www.theguardian.com/uk-news/2023/jan/01/thor-the-walrus-filmed-returning-to-the-sea-at-scarborough


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband