Ártugum saman hefur á það verið bent, hversu örlagarík áhrif föðurleysið hefur á börn, drengi og stúlkur með sitt hvorum hætti.
Þegar um miðbik síðustu aldar benti norður-ameríski félagsfræðingurinn, Talcott Parsons (1902-1979) á þá andlegu vá, að drengi skorti karlfyrirmyndir, þar sem feður þeirra væru sjaldan heima við. Margir þeirra voru nýkomnir heim frá vígvöllum seinni heimsstyrjaldarinnar. Pabbarnir háðu nú annars konar stríð til að afla fjölskyldunni veraldlegra gæða. Mæðurnar voru hvort tveggja fyrirmyndir sveina og meyja.
Stígandi tæknivæðing var karlanna verk. Tæknin hafði létt heimilisstörf að því marki, að þau voru hjóm eitt orðin, samanborið við strit fyrri tíma. Nú tók að gæta meðal kvenna af millistétt sams konar vanda og hrjáð hafði heldristéttar konur iðnríkja Vesturheims um hálfri öld áður; ónefnda vandans, sem kvenfrelsarar svo kalla, þ.e. iðjulausra húsmæðra eða eiginkvenna, sem ekki gátum á heilum sér tekið og rötuðu inn í tilvistarkreppu. Sumar þeirra höfðu nýlega horfið heim, eftir að hafa framleitt hergögn handa körlunum til að drepa hvern annan í seinni heimsstyrjöldinni.
Konunum var talin trú um, að þær væru kúgaðar af körlum, að launavinna leysti þær úr ánauð og fjötrum Arbeit macht frei, sagði Adolf Hitler (1889-1945.) Forustumenn byltingarinnar í Ráðstjórnarríkjunum (Sovétríkjunum, Rússlandi) boðuðu sams konar frelsun og réðust gegn fjölskyldunni.
Fólk kokgleypti þennan sannleik Adólfs og annarra félagshyggjumanna (socialism), þ.e. að í launvinnu væri frelsið fólgið. Konur/mæður sóttu því auknum mæli út á vinnumarkaðinn og fólu hinu opinbera eða öðrum stofnunum öðrum konum reyndar - umönnun barnanna, meðan þau spruttu úr grasi fyrstu árin. Feðurnir hurfu ekki heim í staðinn.
Kvenfrelsarar héldu á lofti þeirri sannfæringu byltingarforingjanna, að börnum væri betur komið á uppeldisstofnunum heldur en í faðmi fjölskyldu sinnar. Rekstur slíkra stofnanna er nú talin til sjálfsagðra útgjalda skattgreiðenda og mannréttindi fyrir konur og börn.
Þrátt fyrir launavinnu beggja foreldra hækkuðu tekjur heimilisins aðeins óverulega, en kostnaður jókst. Vinnuaflið varð sem sé ódýrara, útgjöld fjölskyldna meiri, skattar og opinberar álögur ruku upp úr öllu valdi Auðmenn fjármögnuðu áróður kvenfrelsaranna framan af, áður en þeir náðu hreðjatökum á stjórnmálamönnum með skattheimtu- og fjárveitingavald. Ríkisafskipti af uppeldi og fjölskyldu urðu sífellt meiri og ristu dýpra.
Afleiðingar á fjölskyldulífið eru þekktar. Konur (sérstaklega) óskuðu skilnaðar í auknum mæli. Helmingur fyrstu hjónabanda leystist upp, um þriðjungur annarra hjónabanda. Fjöldi barna ólst upp með móður einni eða móður og stjúpföður (eða -feðrum). Ofursamsömun við móður (að öllum líkindum) leiddi til þess, að æ fleiri drengir töldu sig konur, en ekki karla.
Fyrstu skurðaðgerðir til leiðréttingar á karlkyni voru framkvæmdar á sjöunda áratugi síðustu aldar. Nú er til orðinn heilbrigðisiðnaður, sem þrífst á því að leiðrétta kyn barna með ýmsum hætti, samtímis því, að kenningin um kynval er orðinn að stjórnmálalegum rétttrúnaði, sbr. Katrínu Jakobsdóttur og Joseph Biden, forseta Bandaríkja Norður-Ameríku.
Fleiri og fleiri drengir rata í ýmiskonar aðlögunarerfiðleika í samfélaginu og skólanum. Konur hafa smám saman orðið meira eða minna einráðar í uppeldis- og menntakerfinu, sækjast með öðrum orðum eftir því að ala upp og kenna annarra kvenna börnum fyrir laun. Karlarnir þumbast við og halda áfram að vinna og berjast til frægðar og frama eins og ekkert hafi í skorist. (Þó ber óneitanlega á því, að karlar dragi sig í hlé af kyn- og vinnumarkaði.)
Börnin tapa stórt. Afbrot drengja er gott dæmi um þetta. Kíkjum á nokkrar rannsóknir og reynslu:
1) Rannsóknir á karlkynsmorðingjum á unglingsaldri benda til, að feður þeirra hafi verið veiklundaðir og látið lítið á sér kræla í skugga eiginkvennanna. Svipað er uppá teningnum, þegar feður vantar alfarið í líf sona sinna. (Mitchell, D. og Warner Wilson. Relationship of father absence to masculinity and popularity of delinquent boys. Psychological Report, 1967).
2) Sálfræðingarnir, Brynjólfur G. Brynjólfsson og Einar Hjörleifsson, gerðu könnun á föngum á Litla-Hrauni á áttunda áratugi síðustu aldar. Niðurstaðan var í grófum dráttum sú, að óviðunandi eða engin tengsl við föður væri að finna í sögu þeirra.
3) Dæmi: Úr annarri átt koma upplýsingar um ofbeldisfanga úr sjávarþorpi. Þegar karlarnir voru langdvölum á sjó, var hann sendur á milli mæðranna í saumklúbbi staðarins til að sinna þeim kynferðislega.
4) Í finnskri rannsókn, er náði til allrar þjóðarinnar voru bornir saman karlkyns morðingjar á unglingsaldri, þ.e. á aldrinum 15 til 19 ára, og fullorðnir karlkyns morðingjar. Rannsóknin bendir til, að greina megi undirhóp siðblindra drengja (psychopathic). Meginauðkenni miðað við pilta almennt: bjuggu sjaldnar með báðum foreldrum; voru oftar settir á fósturheimili; voru oftar til vandræða í skóla; höfðu oftar fengið sérkennslu; höfðu ofar verið í snertingu við heilbrigðiskerfið; sýndu hrottalegasta ofbeldið; höfðu oftar afbrotasögu (áður en þeir myrtu) og höfðu oftar afbrotafyrirmyndir í fjölskyldu.
Snemma ber á hegðunarvandkvæðum umræddra drengja. Fórnarlömbin eru yfirleitt foreldrar eða ígildi foreldra. Hinir fullorðnu af sams konar sauðahúsi sýna fleiri truflanir í samskiptum og tilfinningum. (Geðvilla eða siðblinda er nú oftast talin til manngerðartruflana (personality disorder.) Einkenni; hvatvísi, ábyrgðarfirring, yfirborðskenndar tilfinningar, skortur á gagnúð, sektarkenndarleysi, skortur á eftirsjá, ástríðukenndar lygar og þrálát vanvirðing við reglur og væntingar. Slíkt fólk lítur stórt á sig, sýnir yfirlæti og stærilæti, leikur sér að öðrum (manipulative), hefur stuttan þráð, er uppstökkt, ófært um að stofna til tengsla, sýnir andfélaglega hegðun og ábyrgðarleysi.
Í Finnlandi eru u.þ.b. níu af hundraði morða framin af unglingum, þar af 92% af drengjum. Um helmingur þeirra höfðu greind hegðunarvandkvæði (conduct disorder) eða manngerðartruflun (personality disorder). Sjö af hundraði þjáðust af geðklofa (schizophrenia), 64% voru undir áhrifum áfengis, 21% höfðu neytt (annarra) fíkniefna, en 32% voru hvorki sinnisveikir né höfðu ánetjast fíkniefnum. (Lindberg, N. og fl. Psychopathic traits and offender characteristics a nationwide consecutive sample of homicidal male adolescents. BMC Psychiatry 2009.)
Karlmennska umgetinna pilta er afbrigðileg; þráhyggjukennd og skrumstæld ofurkarlmennska, þ.e. eins konar viðbragð (reaction formation) við uppeldisaðstæðum og sálarlegum aðbúnaði. Hún einkennist af ofbeldi, eyðileggingu og ýgi. (Compulsive masculinity/exaggerated masculinity/homicidal adolescents.)
Fangelsi eru fleytifull af ofurkarlmennsku piltum. Í Bandaríkjum Norður-Ameríku bíða þeir á aftökuganginum. Margir þeirra eru þroskaskertir. Drengir bíða ósigur. En trúlega rísa þeir upp í fyllingu tímans, verði ekkert að gert. Sú uppreisn verður væntanlega blóði drifin. Þess sjást merki víða á Vesturlöndum, þar sem þeir skipa sér í alls konar vopnaða öfgahópa.
Síðustu árin hefur orðið sú óvænta breyting, hvað skilning á kynferði varðar, að skarar stúlkna vilja gerast karlmenn, bæta sér upp föður- og karlmennskuleysi. Afleiðingar föðurleysis og karlveiklunar tekur á sig óvænta mynd. Samtímis veldur vaxandi upplausn fjölskyldu og samfélags því, að hinir ungu ruglast almennt oftar í kynferðisríminu.
Kyn er valfrjálst, segir hið háa Alþingi. Á meðan eykst svimandi há sjálfsvígstíðni drengja. Kynvansæld og kynofbeldi gegn sjálfum sér eykst. Andleg kröm kvenna hefur aldrei verð meiri. Það er með Alþingismenn og almenning eins og ömmuna, sem sat á þakinu og spilaði og söng, meðan húsið brann. Það gerði reyndar einnig merkur keisari Rómverja, meðan heimsveldið liðaðist i sundur.
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021