Nauðgun: Eva Huld Ívarsdóttir

Fyrir skemmstu greindu fjölmiðlar frá sýningu listamannsins, Evu Huldar Ívarsdóttur (EH, f. 1984). „Handmótuð áhrif – 1600 niðurfelld nauðgunarmál,“ er hún kölluð. Ég skrifaði eftirfarandi athugasemd: „Hver ætli sé boðskapur þessa kvenlistamanns …? Skortur á 1600 dómum fyrir nauðgun? Vafalaust hafa einhverjir afbrotamenn sloppið sökum ónógra sönnunargagna. … Ætli konan hafi kynnt sér staðreyndir um nauðganir og nauðgunarákærur?“

Hinn prúði listamaður og lögfræðingur svarar: „Markmið er að vekja athygli á því hve mörg mál eru felld niður. … Svo jú þessi lögfræðingur og listakona hefur eitthvað kynnt sér staðreyndir þessara mála og getur t.d. frætt … um að hinar víðfrægu og títtnefndu fölsku kærur eru u.þ.b. 1%. … [Þ]að [er] líklegra að karl verði fyrir nauðgun en að hann verði fyrir hinum frægu fölsku ákærum.“

Síðar benti EH mér á danskar og norður-amerískar rannsóknir, máli sínu til stuðnings, og segir: „Hafirðu frekari áhuga á minni afstöðu og rannsóknum vil ég benda þér á meistararitgerð mína „Um sönnun í nauðgunarmálum – in dubio pro reo.“ Hún fékk hæstu einkunn og var valin besta ritgerð lagadeildar HÍ af óháðri dómnefnd 2019.“

Hér er fjallað um ritgerðina og önnur skrif EH eins og t.d. grein, sem hún skrifaði, ásamt Ólöfu Magnúsdóttur, oddynju Kvennahreyfingarinnar. (Ætli oddynja sé hliðstætt fyrirbærinu forystuær eða forystufrenja?). Greinin heitir: „Feðraveldið er Voldemort,“ og birtist í Kjarnanum 28. maí 2018. Þær segja margt fróðlegt eins og t.d.:

„Feðraveldið er nefnilega bannorð, eins og Voldemort. Fólk óttast að tala um það en ef við nefnum það ekki sínu rétta nafni styrkist það. Það þrífst á því að allt þyki vera í lagi eins og það er. Það þrífst á klisjum eins og „konur eru konum verstar“ og „konum er ekki treystandi til að taka ákvarðanir, þær gætu verið á túr.“ Ef þú minnist á feðraveldið ertu risaeðla eða rauðsokka, búin að missa marks og ómarktæk. Það sem femínistar hins vegar sjá, lesa og finna með hverri frumu í líkama sínum er að feðraveldið iðar af lífi. Það fær aukinn kraft í hvert sinn sem reynt er að þagga niður í okkur og í hvert sinn sem kyrjað er „saklaus uns sekt er sönnuð.“ (Það eru reyndar til áhugaverðar rannsóknir á því, hvernig vakar (hormón) hafa áhrif á andlegt líf kvenna, sem stöllurnar gætu kynnt sér.)

Og: „Frasanum „saklaus uns sekt er sönnuð“ sem er lögfest regla í sakamálaréttarfari er hins vegar kastað hægri og vinstri í umræðum kommentakerfanna sem náttúrulögmáli og oftast í þeim tilgangi að þagga niður raddir kvenna sem tjá sig um kynbundin ofbeldismál. Hann þýðir nefnilega að fórnarlambið sé lygari þar til annað fáist sannað. Í verstu tilvikunum leiðir það til meiðyrðamála að kona tjái sig um reynslu sína og er þess iðulega krafist að hún hafi haldbær gögn máli sínu til stuðnings, ella brjóti hún gegn samfélagssáttmálanum. Lög og reglur hafa vafalaust áhrif á viðhorf okkar og skoðanir en er ekki full langt gengið gera sömu kröfur til brotaþola, hins almenna borgara og við gerum til ákæruvaldsins?“

Grein EH í Vísi frá 1.des. 2020: „Brúum réttlætisgjána og upprætum kynbundið ofbeldi.“ Samkvæmt henni vísar réttlætisgjá „til þess breiða bils sem er til staðar á annars vegar vitneskju okkar um gríðarlegan fjölda kynferðisbrota sem framin eru og hins vegar þeirra fáu mála sem rata til dómstóla.

Tilurð þessarar gjáar er meðal annars djúpstæðar og oft ómeðvitaðar hugmyndir okkar um kynin og háttsemi þeirra, svonefndar nauðgunarmýtur. Nauðgunarmýtur hafa þau áhrif að brotaþolar tilkynna síður nauðgunarbrot og þær hafa einnig áhrif á meðferð málanna innan dómskerfisins. Þessar mýtur birtast meðal annars í lífsseigum hugmyndum líkt og þeim að konur sem er nauðgað tilkynni verknaðinn strax til lögreglu og að þær ljúgi til um brotin í hefndarskyni á meðan staðreyndin er sú að konur kæra nauðgunarbrot til þess að stöðva ofbeldið.“ (Varla er þó stöðvað ofbeldi, sem þegar hefur á sér stað – eða hvað?)

Í ritgerðinni segir höfundur: „Í ljósi réttlætisgjárinnar er augljóst að saklausir menn eru ekki sakfelldir heldur gengur fjöldi gerenda um án þess að sæta ábyrgð gjörða sinna á kostnað réttaröryggis kvenna og öryggis þeirra almennt. Að lokum er nauðsynlegt að fleiri konur skipi Hæstarétt Íslands því reynsluheimur kvenna þarf að hljóta aukið vægi við mat á því hvað sé talið hafið yfir skynsamlegan vafa í nauðgunarmálum.“

EH hefur þann leiða ávana, að tala um þolendur og gerendur, án þess að réttað hafi verið í viðeigandi kærumáli. Henni dettur greinilega ekki í hug, að í þeim málum, sem vísað er frá, sé um að ræða falskar ákærur. Hún velur að túlka sem svo, að gerendur valsi um völl án dóms og laga.

Viðtal í RÚV (18. maí) um list höfundar og fræðimennsku. Þar kemur reyndar fram, að talan 1600 sé getgáta, grundvölluð á annarri getgátu tveggja nauðgunarfræðinga. Þetta er kunnuglegt áróðursbragð kvenfrelsara.

Þá er það ritgerðin sjálf. EH skrifar ritgerðina á prýðilegri íslensku. Hún á hrós skilið fyrir það. Því er mér það óskiljanlegt, að hún skuli þrástagast á orðskrípinu, „mýtu.“

Leiðbeinandi EH er Ragnheiður Bragadóttir (f. 1956). Tilvísanir til hennar eru áberandi, svo og til Brynhildar G. Flóvenz (f. 1954): „Ég þakka leiðbeinanda mínum, Ragnheiði Bragadóttur, vandaða leiðsögn og góðar umræður við vinnu þessa verks og Brynhildi G. Flóvenz fyrir að næra áhuga minn á efninu. Ég kann þeim báðum bestu þakkir fyrir að hafa rutt brautina fyrir femínískar rannsóknir á íslenskri lögfræði.“ Eiginkarlinn fær klapp á bakið.

Sjálf nauðgunarfræðadrottningin, Catharine Alice Mackinnon (f. 1946) er einnig nefnd til sögu og tveggja höfuðrita hennar getið í heimildum. Þó er hvorki um beinar tilvísanir að ræða, né gagnrýna umfjöllun um kenningar hennar. Það gæti verið með hennar verk eins og verk kvenfrelsunarspekingsins, Simone de Beauvoir (1908-1986). Íslenskir kvenfrelsarar vísa stöðugt til meginverks hennar, „Síðra kynsins“ (Le Deuxiéme Sexe), en játa samt að hafa ekki lesið það. Það er reyndar leiður ávani að skreyta skrif sín með áhrifamiklum fræðimönnum, án þess að fjalla í sjálfu sér um fræði þeirra. EH gerir þetta líka með andans stórmenni eins og heimspekinginn, Martin Heidegger (1889-1976) (hann heitir Martin, en ekki Martein eins og EH skrifar), og túlkunarfræðinginn, Hans-Georg Gadamer (1900 – 2002).

Grundvallarfræðaviðhorf höfundar: „Í þessari ritgerð er gert grein fyrir femínískum lögfræðikenningum og hvaða áhrif þær hafa haft á þróun nauðgunarhugtaksins í réttinum frá því að verndarhagsmunir afbrotsins voru hagur fjölskyldunnar til þess að vera kynfrelsi konunnar sjálfrar. Í femínískri lögfræði er tekið mið af því hvaða reynsluheimur birtist í réttinum og hvers siðferði það er sem lagt er til grundvallar í meðförum og túlkun réttarins.“ Þetta er svei mér ekki auðskilið. Geta afbrot haft „verndarhagsmuna“ að gæta?

Hugsanlega fjallar höfundur um þá eldfornu skyldu eiginkarls, föður, bræðra og frænda, að verja heiður og líf nákominnar konu. Það á einnig við um nauðgun. Síðust tvær aldirnar eða svo hefur þróun refsinga í dómstólum karlanna verið í þá átt að hlífa konum, milda glæpi þeirra og afsaka eða láta þá sem vind um eyru þjóta. Það á svo sannarlega einnig við um þann glæp að bera karlmann röngum sakargiftum um kynferðislegt ódæði. Venjulega er konum hlíft við dómi og refsingu í þeim efnum.

Það þarf ekki lengi að leita að kvenfrelsunarþulunum: „Innan kenninga femínískrar lögfræði er hins vegar almennt lagt til grundvallar að réttur og siðferði verði ekki aðskilin heldur sé spurningin hvers siðferði það er sem endurspeglast í réttinum. Í ljósi þess er vert að gefa því gaum að í gegnum aldirnar hafa konur verið álitnar körlum óæðri, bæði afls- og vitsmunalega.“

EH heldur áfram og hefur nú nokkuð til síns máls: „Því var réttarstaða kvenna lengi eins og um eign væri að ræða þar sem karlar fóru lengst af með lögræði þeirra og lögðu þeim línurnar.“ Í ljósi þróunar mannlegs samfélags var það skiljanlegt hlutskipi karla að sýsla með lög. Á sama hátt var þeim falin framfærsla og vernd kvenna og barna. Hluti þessarar skyldu var m.a. axla lagaábyrgð á háttsemi kvenna sinna. Það var skynsamlegt baráttumál að losa karla undan þeirri ábyrgð, þegar samfélagsaðstæður svo leyfðu – karlfrelsun ekki síður en kvenfrelsun. En hins vegar bregður svo við, að kvenfrelsunarbaráttan snýst að hluta til um að firra konur ábyrgð á sjálfum sér. Þær skulu vera eilíf fórnarlömb karla. Konur og karlar gátu átt þræla eða ambáttir. En að öðru leyti er merkingarlaust að tala um eign karla á eiginkonum sínum.

EH ber kvenfrelsunarsystrum sínum á brjóst – og með réttu: „Femínistar hafa náð ótrúlegum árangri í að hafa áhrif á framþróun réttarins þegar kemur að kynferðisbrotum.“ Þetta eru sannast sagna ótrúlegar „framfarir,“ þar sem reglan, sem EH er greinilega í nöp við, um að teljast sýkn, uns sekt er sönnuð, verður sífellt ógreinilegri. Orð kvenna skulu gilda til sakfellingar. Þrátt fyrir þennan „ótrúlega árangur“ verður stundum að leita annarra leiða. EH lýsir sig sammála – eins og Kvennahreyfingin, Kvenfrelsunarhreyfingar, Kvenréttindahreyfingar og ríkisstjórn Íslands – orðum Catharine A. McKinnon, að „mee-too-byltingin“ hafði náð til nauðgara og annarra kyndólga, þegar lögregla og dómstólar dugðu ekki til.

Hrifning af fræðamóðurinni er óblandin: „Kenningin á rætur að rekja til skrifa fræðikonunnar Catharine A. MacKinnon sem sýnir fram á hvernig yfirráð karla á kostnað kvenna eru studd með flóknu menningarlegu og félagslegu kerfi af helstu stofnunum samfélagsins. … Í þessari ritgerð er fallist á þá skoðun sem á rætur að rekja til róttæks femínisma að nauðgun sé afbrot sem framið er gegn konum vegna þess að þær eru samfélagslega undirsettar körlum.“ (Venjulega tala kvenfrelsarar við HÍ um undirskipun.)

Hugtakið nauðgunargoðsögn er kjarninn í aðferð EH: „Nauðgunarmýtur eru hluti af menningargerð sem samþykkir, viðheldur og ýtir undir ofbeldi gegn konum. Nauðgunarmenning er hugtak sem lýsir þessari samfélagsgerð og var skilgreint af Buckwald o.fl. sem: ...flókið samspil hugmynda sem ýtir undir kynferðislegan yfirgang karla og viðheldur ofbeldi gegn konum. Það er samfélag þar sem valdbeiting er álitin kynæsandi og kynverund ofbeldisfull. Í nauðgunarmenningu skynja konur stöðugt ótta við ofbeldi, allt frá kynferðislegum athugasemdum til kynferðislegrar snertingar eða nauðgana. Nauðgunarmenning samþykkir líkamleg og tilfinningaleg hryðjuverk gegn konum, og setur það fram sem norm.“ (Þýðing: Gyða Margrét Pétursdóttir og Finnborg Salome Steinþórsdóttir. Verk Buckwald og fl. vantar í heimildaskrá. Trúlega er um að ræða grein úr: „Transforming a Rape Culture,“ ritstýrðu af Emilie Buchwald, Pamela Fletcher og Martha Roth.)

Hugtakið útfærir EH í nokkrum liðum og metur fjórtán dóma Hæstaréttar Íslands á þeim grundvelli. Það er kjarni rannsóknaraðferðar hennar. Niðurstaða rannsóknarinnar er sjálfgefin eins og títt er um kvenfrelsunarannsóknir: „Af rannsókninni má draga þá ályktun að nauðgunarmýtur hafi áhrif á sönnunarmat dómara.“ Það sannast enn sem oftar, að feðraveldið – hugarórahugtak kvenfrelsara – er enn og aftur fundið sekt – nú um nauðgunarmenningu og nauðgunargoðsagnir. Við erum allir undir, hluthafar í kúgunarfyrirtækinu. Hugsanlega er eiginkarlinn tekinn undan.

EH fremur góða kvenfrelsunarfræðimennsku. Grundvallarhugtökin eru sótt til kvenfrelsunarfræða, m.a. til sjálfrar nauðgunargyðjunnar, Catharine A. Mackinnon (hún heitir sem sé Catharine, en ekki Catherine), sem heldur því fram (ásamt mörgum fleiri) að allt kynlíf karls og konu feli í sér nauðgun á konunni. Hugtakið, nauðgunargoðsögn, er sótt í svipaðan rann. Á því grundvallast rannsóknin á fjórtán málum. Alhæfingargildi þessarar niðurstöðu er í sjálfu sér ekkert.

Ritgerðin ber eins og ýjað er að, megineinkenni kvenfrelsunarfræðimennsku; þ.e. sjálfgefna niðurstöðu og hringrásarhugsun. EH virðir að vettugi – eins og kvenfrelsurum er tamt – staðreyndir, fræði og vísindi, sem ríma illa við eigin kvenfrelsunarbábiljur. EH er „eineygð.“ Þegar kemur að því, að hún opni bæði augun og skoði efniviðinn í víðara samhengi sögulega, sálarlega og félagslega, t.d. ofbeldi kynjanna almennt, upplognar nauðganir, nauðganir kvenna á börnum og körlum, nauðganir kvenna á konum með og án staðgengils og verkfæra/ hluta og nauðgana karla á körlum, vænti ég mikils af henni.

EH hefur einnig til að bera háttprýði í samskiptum, sem ég sjaldan rekst á, þegar öfgafullir kvenfrelsarar eru annars vegar. Ég hef trú á Evu Huld til góðra verka.

Að lokum má því við bæta, að engan stafkrók er að finna um fyrrgreindar rannsóknir á fölskum nauðgunarákærum í ritgerðinni. Hins vegar geta áhugasamir fundið greinar (og heimildir) um falskar ákærur á: arnarsverrisson.is.

https://skemman.is/bitstream/1946/32691/4/Um%20s%c3%b6nnun%20%c3%ad%20nau%c3%b0gunarm%c3%a1lum.pdf


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband