Kvennafræði - Daphne Patai og Noretta Koertge

Það er oft gagn og gaman að því að rifja upp og lesa gamlar“ bækur. Ein slík er frá árinu 1994, “Að játast undir kvenfrelsun: Varnaðarsögur úr hinni skrítnu veröld kvennafræðanna” (Professing Feminism. Cautionary Tales from the Strange World of Women’s Studies), eftir norður-amerísku kvenfrelsarana Daphne Patai (f. 1943) og Noretta Koertge (f. 1935).

Báðar hafa verið kennarar í kvennafræðum (women studies, gender studies). Sú síðarnefnda er vísindaheimspekingur og sú fyrri prófessor í ensku og bókmenntum. Hér er gripið niður í bókina, áhugasömum til fróðleiks. (Blaðsíðutölur í sviga):

Rannsókn höfunda:

Meginaðferðin er eigindleg, þ.e. ítarleg þriggja klukkutíma löng viðtöl við þrjátíu konur, kennara og nemendur í kvennafræðum/kvenfrelsunarfræðum (women studies, gender studies) víðs vegar um BNA. Einnig er stuðst við upplýsingar, lausari í reipunum, frá öðrum innvígðum sem og â€Å¾International Electronic Forum for Women’s Studies“ – sem er upplýsinga- og spjallvefur um kvennafræði og kvenfrelsun, rekinn af Joan Korenman, við háskólann í Maryland. Allir óskuðu þátttakendur nafnleyndar. (xxviii)

Eðli kvenna:

“[Þ]að ætti að vera öllum morgunljóst, að konur geta verið alveg jafn hugprúðar og huglausar, gjöfular og eigingjarnar, íhugular og sljóar, glöggar og ónæmar, eins og hinn helmingur mannkyns.” (xi)

Kvenfrelsun:

“Kvenfrelsun snerist í upphafi um það loforð að frelsa konur frá afskræmingu kynferðis í feðraveldinu. Því miður er það svo, að kvenfrelsun samtímans dregur dulu fyrir augu kvenna, sem hindrar þær í að veita eftirtekt ýmis konar valkostum í lífi sérhverrar þeirra.“ (78)

Kvennafræði: ”Kvennafræðin spruttu úr jarðvegi stjórnmálahreyfingar. Án atbeina hennar hefðu þau varla komist á koppinn.” (211)

“Upphaflega höfðu kvennafræði í háskólastigi tvíþættan, gildan tilgang: að leita uppi og birta upplýsingar um líf og störf kvenna, sem höfðu ratað í glatkistuna eða [mönnum] sést yfir, og að beina sjónum sérstaklega að lífi kvenna.”(115)

“Kredddubundin kvenfrelsunarfræði valda sérstökum áhyggjum, þar sem þau hindra [þroskun] hæfileika nemandans [individual] til að rýna af sanngirni og skynsemi í orsakir og úrbætur vegna eigin óhamingju og ófullnægju.”78)

Markmið náms í kvennafræðum:

Markmiðin eru keimlík hvarvetna. Svona hljóma þau við Háskólann í Missouri: “[S]tyðja nemendur okkar sem erindreka kvenfrelsunar, [sem] fást við vanda innan háskólans á borð við kynþáttahatur, kynfólsku, og annað óréttlæti.”(169)

Inntak kvennafræða: "Á dæmigerðum inngangsnámskeiðum í kvennafræðum er kennt efni um nauðganir, kynáreitni, barðar konur, kynofbeldi gegn börnum, fóstureyðingar og æxlunarréttindi [kvenna], svo ekki sé minnst á efni líðandi stundar eins og kynþáttahatur, fötlunarfordóma og ráðningafordóma gagnvart ellismellum (ageism).

Oft og tíðum er það svo, að starfsmenn deildanna og eldri nemendur, sem kenna slík námskeið, skorti hæfni og yfirgripsþekkingu á þeim sviðum, sem kennsla tekur til, þar sem þeir hafa litla sem enga þjálfun í félagsfræði, félagssálfræði, hagfræði, læknisfræði ellegar afbrotafræði. Því hafa þeir tilhneigingu til að reiða sig einvörðungu á kvenfrelsunarrit í kennslunni – sérstaklega þau, sem helst njóta vinsælda og eru því aðgengileg sem uppspretta. Árangurinn verður sá, að nemendur læra, að öllum líkindum, hvað kvenfrelsarar hafa að segja um þessu erfiðu og flóknu málefni. Litið er á aðra þekkingu (research) sem hlutdræga í sjálfri sér.” (92)

Námsandi:

Einn viðmælanda, kennari, sagði: “Ég minnist andrúmsloftsins í tímum í þá daga. Ég … var felmtri slegin í kennslustofunni. Einu sinni, þegar ég kenndi framhaldsnámskeið skipuðust nemendur í tvo horn – bókstaflega. Öðrum megin sátu lespurnar og gagnkynhneigðar konur hinum megin. Og ég ól á stöðugum ótta um, að efnt yrði til líkamlegra árása; að hatur myndi kvikna gagnvart hver annarri, mér, [og] að bekkurinn myndi leysast gersamlega upp.“ (15)

Annar sagði: Nemendur stunduðu “linnulaust kreddutal: “Þetta viljum við ekki tala um!”Gagnrýni var vísað á bug með [ásökunum] um samkynhneigðarfælni; að um væri að ræða föðurveldisrembing í dulargervi og bara eitt eða annað – hvort heldur sem gagnrýnin kom frá mér eða bekkjarfélögum. Stjórnmál eru að loka hugskoti þeirra.”(22)

Kennslufræði:

“Einkum voru það sögur um kvenfrelsunarfræðilega [femíníska] kennslufræði, sem komu [okkur] sérstaklega í uppnám. Oftast minnti hún á innrætingu og áreitni í kennslustofunni.” (44)

“Mikilvægasta markmið allra kvennafræðinámskeiða, sem almennt er viðurkennt, er að snúa nemendum til kvenfrelsunar.”(97)

“Á annan bóginn nota kennarar í kvennafræðum kennsluna að yfirlögðu ráði til að afla nýliða og þjálfa nemendur sem aðgerðasinna í þágu kvenfrelsunar. ... Á hinn bóginn er til þess ætlast, að nemendur finni að minnsta kosti smjörþefinn af almennu, frjálsu (liberal) háskólanámi, [en þrátt fyrir það] vænta nemendur þess, að kennari leyfi umræður og frjálsa tjáningu og viðrum alls konar hugmynda og skoðana,...“ (81-82)

Námsmat:

Námsmat er afskaplega frjálslegt. Einn nemenda skilaði t.d. inn þessari ritgerð: “[Sigmund] Freud [(1956-1939) upphafsmaður sálgreiningar] var heltekinn krabbameini, vindlareykháfur og kvenfól.”(117)

Fræðilegar forsendur:

“Kvenfrelsarar ... leggja öfgafulla áherslu á trú sína á einskært nafngiftarvald (power of names). Þeir færa rök að því, að allar götur frá Adam, hafi karlar haft valdið til að skilgreina veröldina með því að gefa henni nöfn. Á grundvelli þessa fullyrða þeir, að frelsun kvenna muni ekki rætast, nema þráðurinn sé tekinn upp aftur, og Evu falið að nefna öll kvikvendi jarðar. Þetta er mjög vinsælt efni í kvenfrelsunarfræðunum.”(Sbr. “Drauminn um kventunguna” (The Dream of a Common Language), eftir Adrienne Rich, og “Aðra móðurtungu” (Another Mother Tounge), eftir Judy Grahn). (132)

Það er grundvallaregla í kvenfrelsunarhugsuninni, að hvort tveggja heimurinn og þekking okkar um hann, séu félagssmíði (socially constructed).” (135)

“Hvergi í nokkru háskólanámi öðru er félagsmíðahyggjunni (social constructionism) gert svo hátt undir höfði og beitt svo viðbrigðaríkt eins og í kvennafræðum. Grundvallarkenning kvenfrelsunarbylgjunnar á líðandi stundu [þeirri þriðju] er sú, að sjálft kynið sé félagsleg smíði,... (140) ... Með því að halda fast í þessa yfirborðsfræðimennsku (pretense) sækja kvenfrelsarar sér þrótt í aðra meginkennisetningu félagssmíðahyggjunnar, sem kveður á um, að ekki einungis séu félagsleg fyrirbæri, heldur einnig sjálf þekkingin, félagslega steypt í mót.”(141) 

“Það er grundvallaregla í kvenfrelsunarhugsuninni, að hvort tveggja heimurinn og þekking okkar um hann, séu félagssmíði.” (135)

“En öflugri og róttækari hugsmíðahyggja kveður á um, að gervöll þekking beri svo sterkan keim af sjálfsskilningi þess, sem hana skapar, og menningu hlutaðeigandi, að aldrei geti hún talist sönn eða gagnleg í öðru umhverfi ..., nema með miklum breytingum. Þessi öfgaafstaða er fram særð í algjörri höfnun sumra kvenfrelsara á vísindum .. [því] þau séu öll menguð af föðurveldisuppruna sínum.”

Aðferð:

Þjóðarsamtök kvennafræðara í BNA (Constitution of the National Women’s Studies Association (NWSA)), segja: “Kvennafræði fela í sér menntunarkænsku, sem veldur straumhvörfum í vitund og þekkingu. Sérstöðu þeirra má marka af viðspyrnu gegn ófrjórri aðgreiningu æðri menntunar og samfélags, samfélags og einstaklings. Því gera kvennafræðin konur í stakk búnar til að umbylta veröldinni, svo frelsa megi frá allri kúgun[og vekur] úr læðingi það afl, sem stuðlar að því, að markmið kvenfrelsunar náist.” (4)

Árið 1986 kom út grundvallarrit um kvenlega þekkingarfræði, þ.e. um það, hvernig konur læra. Höfundar eru Mary Field Belenky (1933-2020), Blythe McVicker Clinchy (1931-2014), Nancy Rule Goldberger (f. 1934) og Jill Mattuck Tarule (1943-2019). Bókin heitir “Leiðir konunnar til þekkingaröflunar. Þroskun sjálfs, raddar og huga” (Women’s Way of Knowing: The Development of Self, Voice, and Mind). Hún er tileinkuð mæðrum höfunda og dætrum.

Noretta og Daphne segja boðskap bókarinnar dæmi um “hvernig hugmyndafræðilegar getgátur gangi í endurnýjun lífdaganna áratugi, eftir birtingu þeirra, sem meint og sjálfstaðfest (will-confirmed) uppgötvun [og] talin nógu haldgóð til að leggja til grundvallar umfangsmikilli stefnu í háskólanámi.... [Bókin er] talin fyrirmynd í kvenfrelsunarfræðimennskunni.” (161)

Í þessu merka riti stendur m.a.: “Árangursrík kvenfrelsunarskoðun (assessment) verður að vera í samræmi við kvenfrelsunarfræðimennsku. Hafa skal hliðsjón af hugtökum eins og móðurhugsun, umhyggju, áhuga og tengingu, leiðum kvenna til þekkingaröflunar og tengináms (connected learning). Þessi hugtök búa gildismati kvenfrelsunar umgjörð, [eru] ferli, þar sem fremur er litið til umbóta en prófana, framvindu í umhyggju heldur en endanlegra dóma.”(160)

“Huglæg þekking er sú meginnámsleið, sem dregin er upp í “Leiðum konunnar til þekkingaröflunar. Þroskun sjálfs, raddar og huga.” Aðferðin er einkum, “innri rödd, eðlisávísun, hugboð og innsæi.”(162)

Boðskapur fræðanna er reistur á tveim meginfullyrðingum: 1. Konur “hafa ræktað með sér og lært gildi magnaðra leiða [til þekkingaröflunar]. En þær hafa verið smánaðar og þeim bolað í burtu af ráðandi anda í vísindum (intellectual ethos) vorra tíma; 2. “[K]ennarar geta aðstoðað konur við að þroska eigin, sönnu rödd, ef þeir leggja áherslu á tenginu fremur en aðgreiningu, skilning og viðurkenningu fremur en mat, samvinnu fremur en rökræður.”(162)

Ályktun:

“[K]venfrelsunartrú sú, sem ríkjum ræður í æðri menntun [college, university] á voru méli hefur oft og tíðum í för með sér eyðileggingu á vísindahefðum. [Eyðileggingin] ristir djúpt. Skortur á umburðarlyndi og vitsmunahyggju, svo og hugmyndafræðileg löggæsla, gerir það að verkum, að þekkingaröflun er – okkur er skapi nær að segja – afskræmd af hugmyndafræði.”


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband