Færsluflokkur: Bloggar

Kvenfrelsun og kvenverndarlög

(Birtist í Vísi 23. mars 2020)

Rituð löggjöf á langa sögu að baki. Hún sprettur úr jarðvegi siða og óskráðra laga hinna ýmsu ættflokka og þjóða. Má þá einu gilda, hvort samfélagið sé flokkað sem móðurveldis- eða föðurveldissamfélag eða blendingsafbrigði.

Siðboð kváðu í grófum dráttum á um hlutverk kynjanna, hvernig bæri að standa að æxlun, feðrun, uppeldi og framfærslu, ásamt vernd kvenna og barna. Kynin þurftu að koma sér saman um, hvernig haga ætti hjónabandi og eignarhaldi. Þau tóku vitaskuld einnig til samskiptahátta innan hjónabands og utan, ásamt viðbrögðum við ósiðlegu eða ólöglegu afhæfi. Þau kváðu einnig á um réttindi, skyldur og ábyrgð. Heiður fólst í því að virða siði og hefðir samfélagsins, að vera maður með mönnum, og rækja hlutverk sitt óaðfinnanlega af hendi í samræmi við væntingar. Í því fólst sjálfsvirðing fólks.

Inntak laga og refsinga gefur stundum fróðlega mynd af samskiptum kynjanna, valdi og ábyrgð hvors um sig. Ábyrgð og vald er í meginatriðum tengd hlutverkaskiptingunni. Það flækir þó alla skoðun, að í blómagarði mannlífsins hafa hlutverkin oft og tíðum skarast. T.d. tóku konur stundum þátt í hermennsku, veiðum, bygginu híbýla og stjórnun ytri málefni.Völd kynjanna hafa hefðbundið tengst dæmigerðum vettvangi þeirra.

Lagabálkur (salverskra) Franka (germansks ættflokks) frá miðöldum eða frá því snemma á sjöttu öld, „Lex Salica,“ varð kjölfestan í síðari löggjöf í Evrópu norðanverðri og um miðbik álfunnar. Um er að ræða samantekt laga hinna ýmsu ættbálka af germönsku og keltnesku kyni. Samantektin var gerð að skipun Klovis fyrsta (466? – 511), sem stofnaði fyrsta ættarveldi Franka (Frakka). Þar er m.a. útlistun á sök og sekt. Í lagasafni þessu lifir enn lögarfur umræddra þjóðflokka, t.d. í ákvæðum um vígsbætur eða vergjöld (þ.wargeld). Þau réðust af kyni eða stöðu. Alamanni þjóðflokkurinn mat t.a.m. gildi kvenna sinna tvöfalt gildi karla, en Saxar til helmings karla.

Löggjöfin breyttist í samhljómi við breytta tíma. Iðnbyltingin hafði umtalsverð áhrif á samfélagsgerðina og hristi rækilega upp í gildandi hefðum og fyrirkomulagi mannlífsins. Í heimsveldi Breta var þetta t.a.m. áberandi. M.a. kom lýðræði enn á ný í brennidepil sem og samskipti kynjanna innan hjónabands og utan. Upplausn hins hefðbundna samfélags ætta, stórfjölskyldusamfélags og nærumhverfis, kallaði á nýja réttarhugsun. Svo virðist sem vernd kvenna hafi verið mikilvægt hreyfiafl í þessu sambandi. Konum var stöðugt gert hærra undir höfði, hvað löggjöf og dóma snerti.

Nú heyrðust háværar kröfur um kosningarétt fyrir alla karla og konur. Kosningaréttarhreyfing kvenna (e. suffragettes) aðhylltist hugmyndafræði kynsystra sinna vestanhafs um, að karlar hefðu kúgað konur frá upphafi vega. Með þessa söguskoðun að vopni réðust þær til atlögu við „karlaveldið“ eða „feðraveldið.“ Því var m.a. haldið fram (og reyndar enn), að umrædd kúgun endurspeglaðist í lögum.

Fáir urðu til að ganga í berhögg við málflutning kvenfrelsaranna. Enski lög- og sagnfræðingurinn, Ernest Belfor Bax (1845-1925), kvaddi sér þó hljóðs í bók sinni „Blekkingarleiki kvenfrelsaranna“ (The Fraud of Feminism). Bókin kom út nokkrum árum síðar en „Lagaleg kúgun karla,“ sem hann skrifaði ásamt ónefndum, írskum starfsbróður, og gaf út árið 1896.

Hvatanum að verki sínu lýsir höfundur svo: „Tilgangurinn með ritinu er að andæfa [kvenfrelsunarhreyfingunni], sérstaklega að elta uppi og afhjúpa fyrir almenningssjónum (gibbet) svívirðilegar falsanir, hefðbundnar fullyrðingar, sem eru ekki einasta skrumstæling sannleikans, heldur beinlínis afskræming hans. [Hún] hefur öðlast hylli í krafti þess afls, sem í endurtekningunni felst, og enginn hreyfir mótmælum við.“

Ernest útskýrir ennfremur: „Samkvæmt skilningi mínum á kvenfrelsurum samtímans er um að ræða ákveðið viðhorf til kvenna. Þetta viðhorf er oft og tíðum mótsagnakennt í sjálfu sér og órökrétt. Á annan bóginn er krafist - með skírskotun til þeirra skoðunar, að konur séu jafnvígar körlum að siðgæðum og greind - ívilnunar kosningaréttar, ..., aðgengis kvenna að öllum störfum og stöðum ásamt fullri þátttöku á opinberum vettvangi. Á hinn bóginn er heiftúðlega barist fyrir varðveislu og eflingu forréttinda og friðhelgi í lögum, hvort tveggja í almennri löggjöf og refsilöggjöf. [Þetta] skipar konum skör hærra [en körlum]. [Breytingar í þá veru] hafa skotið rótum á nítjándu öldinni.“ T.d. var vinnutími kvenna í kolanámum mjög takmarkaður.

Bresk lög giltu að verulegu leyti í nýlendum heimsveldisins. Þó gátu t.d. einstök ríki Bandaríkja Norður-Ameríku (BNA) sett sér eigin lög. Um miðja sautjándu öldina bannaði t.d. löggjafarsamkunda Massachusettes barsmíðar hjóna, að viðlagðri refsingu. Rúmum tveim öldum síðar rann feðrum og bræðrum enn blóðið til verndarskyldunnar í Maryland. Væri eiginkarl dóttur eða systur illskeyttur, átti hann á fæti nákomna karlættingja eða jafnvel karlgranna.

Óskráð lög og skráð hafa frá dögun mannlegs samfélags yfirleitt kveðið á um sérstaka vernd kvenna og réttindi þeim til handa umfram karla. Eins og að ofan er greint frá var hert á slíkri löggjöf á nítjándu öldinni. Hún gekk síðan í endurnýjun lífdaganna á þeirri tuttugustu fyrir tilstilli áróðurs kvenfrelsaranna, ýmist grímuklædd sem jafnréttislöggjöf eða ódulin sérréttindalöggjöf.

Allt frá kvenfrelsunarsamþykktinni í Seneca Falls um miðbik nítjándu aldar störfuðu kvenfrelsarar ljóst og leynt að breytingum á lögum BNA. Á þriðja áratugi síðustu aldar börðust þeir m.a. fyrir sérstakri vinnuverndarlöggjöf fyrir konur; þ.e. styttri vinnutíma, banni við næturvinnu og banni við þungum byrðum. Árið 1923 var lögð fram á alríkisþinginu frumvarp til laga til breytinga á stjórnarskránni, svonefnd „Jafnréttisumbót“ (Equal Rights Amendment), í letur færð af kvenfrelsurunum, Alice Stokes Paul (1885-1977) og Crystal Catherine Eastman (1881-1928).

Enda þótt konur af betri stéttum eða þær, sem frá upphafi vega höfðu háð baráttuna fyrir frelsun kvenna, styddu frumvarpið umvörpum, mótmæltu alþýðukonur hástöfum. Alice og flokkur hennar, Þjóðarkvenflokkurinn (National Woman‘s Party), staðhæfðu, að umbótin skipuðu körlum og konum í sömu skör, en ógiltu um leið gildandi kvennaverndarlöggjöf, sem t.d. tryggði konum styttri vinnutíma, ásamt banni við næturvinnu og þungum byrðum eins og áður er ýjað að.

Það gekk því hvorki né rak, þar til árið 1953, að umbótin var samþykkt í alríkisþinginu með svonefndri Carl Hayden lagfæringu, sem svo hljómar: „Ákvæðum í þessari grein skal ekki beita, hvorki nú né síðar, í þá veru að skerða nokkur þau réttindi, hlunnindi eða undanþágur, sem konur njóta í lögum.“

Nú hófst ný þrautarganga, þ.e. að fá umbótina samþykkta í öllum ríkjum Bandaríkjanna. Það er skemmst frá því að segja, að ekki hefur tekst að róa lögnum í höfn. Phyllis Schlafly (1924-2016), sem kvenfrelsarar vildu brenna á báli, skapaði þann ólgusjó, sem úrslitum réði. Hún benti kynsystrum sínum á, að þær myndu tapa enn fleiri forréttindum, en áður eru talin, t.d. forsjá barna og framfærslueyri við skilnað. Liðsmaður hennar var m.a. Anna Elanor Roosevelt (1884-1962). (Phyllis þessi hafði gaman að því að stríða kvenfrelsurunum. Oft og tíðum hóf hún mál sitt svo: „Ég leyfi mér að þakka eiginkarli mínum fyrir að leyfa mér að koma á þennan fund.“)

En kvenfrelsarar voru ekki af baki dottnir, þó lengi megi þá reyna. Áróðursvél þeirra er vel smurð. Eitt dæmi um þetta er samþykkt „Laga gegn ofbeldi í garð kvenna“ (Violence against women Act) í BNA. Ámóta löggjöf endurómar um alla Evrópu einnig. Kvenfrelsarar sömdu sömuleiðis þennan lagatexta eins og hinn fyrri. Þær fóru hvergi leynt með hróður sinn og afrek. Leslie R. Wolfe (1943-2017), sagði t.d.: „Hér er eiginlega ný löggjöf um borgaraleg réttindi (civil law), sem konur geta beitt til að lögsækja árásarmenn fyrir að brjóta á borgaralegum réttindum sínum. ... Þau lýsa í hve stóru umfangi glæpir gegn konum ... hatur, kvenfyrirlitning, stjórnun og drottnun, eru til þess ... fallnir að halda öllum konum í skelfingu.“

Nornin, sem brenna átti á kvenfrelsunarbálinu, fyrrnefnd Phyllis, andæfði m.a. með þessum orðum. (Hún reyndist afar spámannlega vaxin): „Lögin örva konur til að leggja fram falskar ásakanir [gegn eiginmanni, föður], sem leggja því næst fram beiðni um fulla forsjá yfir börnunum og neita föðurnum um samvistir við þau. Lögin stuðla að skefjalausri beitingu nálgunarbanns, sem fjölskyldurétti er heimilt að gefa út, að ósk konu. Þessi öflugi vopnabúnaður (...) er hluti kvenvilhallrar leikfléttu við skilnað, sem í raun tryggir, að feður séu reknir út úr lífi barna sinna.“ ...

Phyllis heldur áfram: „Lögin skulu fjármagna endurmenntun dómara og starfsmanna í löggæslu í því skyni að kenna þeim staðalímyndir kvenfrelsaranna um karlofbeldismenn og kvenkyns fórnarlömb, hvernig leika megi á kerfið til að efla konur að valdi og hvernig megi traðka á stjórnarskrárbundnum réttindum karla.“ ...

Phyllis bendir einnig á: „Hinum ákærðu körlum er ekki boðin lækning við Raunverulegum sjúkdómi (problem), heldur eru þeim skipað á bekk, þar sem kvenfrelsarar kenna um skömm og sekt vegna umsvifamikils kúgunarsamsæris karla.“

Þegar leið að lokum annarrar bylgju kvenfrelsunar var undirbúningur hafin að styrjöld gegn körlum. Sjóðir kvenfrelsaranna höfðu nú gildnað mjög vegna framlaga frá karlkyns auðjöfrum og í vaxandi mæli vegna fjármögnunar úr vasa skattgreiðenda. Styrjöldin gegn körlum var háð á mörgum vígstöðvum og mörg spjót hent á lofti. Eitt þeirra var ofbeldi karla gegn eiginkonum sínum og elskum, heimilisofbeldi. Einn herstjóranna, Gloria Steinem (f. 1934), gaf út stríðsyfirlýsinguna: „Konu stafar ekki mest hætta af ókunnugum karlmanni út á götu. Ei heldur fjanda í stríði. Heldur [er henni skeinuhættastur] eiginmaður eða elskhugi í tvísemd innan veggja heimilisins.“

„Lögin“ um þumalfingurregluna svonefndu, þ.e. að (breskum) körlum væri heimilt að tukta kerlur sínar með þumlungsgildu priki, rataði inn í baráttu kvenfrelsara fyrir kvenvænni löggjöf, enn ein sönnunin fyrir fólsku karla í garð kvenna. Kvenfrelsarinn, Dorothy Louise Taliaferro „Del“ Martin (1921-2008), hóf hugtakið til vegs og virðingar um miðjan áttunda áratug síðustu aldar. En það var galli á gjöf Njarðar. Ákvæði þessa efnis er hvergi að finna, hvorki í breskum lögum, né lögum BNA. En kvenfrelsarar kæra sig þó kollótta um það. Staðreyndir hafa þeim aldrei verið til trafala. En þumalfingurreglan varð að goðsögn og rataði inn í hugskot dómara. Hún hefur orðið ámóta lífseig og goðsögnin um glerþakið.

Breytingar á menntunarlöggjöfinni , einkum grein níu (Title IX), venjulega kennd við kvenlögfræðinginn, Patsy Matsu Takemoto Mink (1927-2002), var nýr hvalreki fyrir kvenfrelsarana. Hann hljómar svo: „Engan þegn Bandaríkja Norður-Ameríku skal vegna kynferðis útiloka frá þátttöku í aðgerðum eða áætlunum, sem hljóta fjárhagslegs stuðnings frá alríkisstjórninni. Ei heldur skal meina honum að njóta góðs af ellegar mismuna honum.“ Eins og gefur að skilja hefur þessari grein óspart verið beitt fyrir kvenfrelsunarvagninn á fjölmörgum sviðum eins og t.d. í íþróttum

Kvenfrelsunarsamtökin, „Feminist majority“ vildu beita lögunum á grundvelli eftirfarandi fullyrðingar: „[Í]þróttakörlum í einstökum greinum er kennt að lítilsvirða konur og smána. ... [M]eð því að ala drengina upp sem herskáa íþróttamenn og með því að ala stúlkurnar upp til að hylla þá, er styrktur vítahringur ýgi og ofbeldis karla gegn konum .“

Jafnréttislög eru oftar en ekki túlkuð í ljósi kvenfrelsunarhugmyndafræði. Raunar er konum ennþá sýnd sérstök nærgætni í dómskerfinu, þ.e. heiðursmannatúlkun laga og dómar samkvæmt henni (e. chivalry justice). Michale Corriero, dómara í hæstarétti BNA, er þetta fullljóst. Hann segir um dómskerfið „Þetta er karlakerfi. Þegar kona stígur inn í það, ruglast hugsun mín í ríminu. Og ennþá frekar, sé um stúlku að ræða.“

Kvenfrelsunarlöggjöf grefur um sig á alþjóðavettvangi, ekki síst á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðsins eins og í samningi um baráttu gegn ofbeldi karla í garð kvenna - og heimilisofbeldi, svokölluðum Miklagarðssamningi (Istanbúl-) frá 2011. Þegar Alþingismenn vorir samþykktu lögleiðingu hans, gerðu þeir eftirfarandi játningu:

Sem aðiljar samningsins gera þeir sér grein „fyrir að ofbeldi gegn konum er birtingarform sögulegs ójafnvægis í valdahlutföllum milli kvenna og karla sem leitt hefur til drottnunar karla yfir og mismununar gegn konum og kemur í veg fyrir fullan framgang þeirra [og] viðurkenna að ofbeldi gegn konum er í eðli sínu kynbundið ofbeldi og ofbeldi gegn þeim er eitt helsta félagslega tækið til að neyða konur til að skipa lægri sess í samfélaginu en karlar, ...“ „[K]ynbundið ofbeldi gegn konum“ merkir ofbeldi sem er beint að konu vegna þess að hún er kona eða ofbeldi sem konur verða hlutfallslega meira fyrir,...“ (Hvílík hrærigrautarlangloka!!)

Til viðbótar kristinni trú hafa Alþingismenn nú lögleitt trúna á konuna sem fórnarlamb.Orð norður-ameríska heimspekingsins, Michael Levin, gætu verið hollt vegarnesti á leið til næsta áfanga kvenfrelsunar (t.d. lögleiðingar fóstureyðingar fram að fæðingu): „Enda þótt kvenfrelsarar segist í orði kveðnu berjast fyrir frelsi, velsæld, valfrelsi - og að ryðja veg - eiga þeir í raun ævinlega við hið andstæða og dulbúa [þannig] aðgerðaskrá öndverða við hugsjón hins frjálsa samfélags. ... Kvenfrelsun er ólýðræðisleg, jafnvel hugmyndafræði alræðishyggjunnar.“


Í vitstola veröld hatrammra heimsveldissinna. Árás á Ísrael og Rússland

Bandarísk yfirvöld og allir forsetaframbjóðendur í landi hinna hugprúðu og frjálsu hafa hvergi farið í grafgötur með gildi Ísraels fyrir heimsvaldastefnu sína í Miðausturlöndum.

Útþenslu- og stríðsáætlun þeirra, „Hreini skurðurinn“ (Clean Cut), er enn í fullu gildi. Skorið hefur verið í Írak og Sýrlandi, enda þótt skurðurinn sé hvergi nærri hreinn. Því verki er ólokið. Frelsi, öryggi og lýðræði, er hvergi nærri tryggt. En það var yfirlýstur tilgangur árása á ríkin. Olían er kaupauki.

Nýlega birtist í tímariti alheimsauðvaldsins í Bandaríkjunum, „Utanríkismálum“ (Foreign Affairs) skuggaleg grein með titlinum, „Réttan leiðin til að ljúka stríðinu í Úkraínu“ (The Right Way to Quickly End the War in Ukraine). Svarið er kjarnorkuvopnastríð gegn Rússum.

Áætlun Bandaríkjanna um beitingu kjarnorkuvopna, frá því um síðustu aldamót, er skýr. Þegar verja þarf öryggi ríkisins (self defense) má beita þeim í varnarskyni (pre emptive). Úkraínumenn sjá um varnir Bandaríkjanna og Nató í heimalandi sínu. Nýlega fengu þeir F16 orrustuþotur, sem geta borið kjarnorkuvopn. Rússar hafa lýst þær réttmæt skotmörk.

Úkraínumenn hafa sóst eftir umræddum vopnum í tvö ár u.þ.b. Það leiddi til þess, að Rússar og Hvít-Rússar skerptu sinn viðbúnað. Enn þá segjast Rússar þó einungis munu beita kjarnorkuvopnum, verði þeir fyrir kjarnorkuvopnaárás. Kjarnorkuvopn eru væntanlega þegar komin í skotstöðu í Póllandi. Þetta er leikur að eldinum.

Eins og allir vita er öryggi Bandaríkjanna ógnað bæði hér og þar og frjálslega farið með skilgreiningar. Í áætluninni er getið um um Rússa og Kínverja, sem sitt á hvað eru skilgreindir erkióvinir Bandaríkjanna og Nató. „Öxulveldi hins illa“ eru líka talin upp; Afganistan, Írak, Íran og Sýrland eru þar á meðal. Nú er sum sé komið að Íran.

Í því efni hefur dregið til tíðinda, eftir að Brjálaði-Bensi var tilbeðinn á bandaríska þinginu og lofað stuðningi við stríðsrekstur sinn í Miðausturlöndum, svo færa megi út kvíar Ísraelsríkis og ræna auðlindum grannríkja.

Nú er komið að „hreinum skurði“ í Líbanon og Íran, þrátt yfir að hann hafi mistekist í Írak og Sýrlandi og heimveldisstefna samrunaheimsveldis Bandaríkjamann og Ísraels njóti ekki lengur sama stuðnings og þegar áætluninni var ýtt úr vör.

Ísraelar hafa plægt akurinn ötullega. Nýleg morð á einum forystumanna Hamas, Ismail Haniyeh, í Teheran, og herforingja Hesbolla í Líbanon, Fuad Shukr, eru órækar stríðsyfirlýsingar. Og stríð fá þeir með þátttöku Bandaríkjamann og Breta. Herskipfloti Bandaríkjamanna vaggar á Persaflóa og við innanvert Miðjarðarhaf.

Sagnfræðingurinn, Anton Chaikin, er meðal margra sem vara við þessari vitfirringu. Hann segir bandarísk yfirvöld ekki vinna í þágu almennings: „Þau starfa á vegum hóps, sem hefur gífurleg völd og ógnar tilvist mannkyns.“

Vitfirrt yfirvöld Ísraels búa nú þjóðina undir árás bandalags andstöðuríkja; Palestínu, Jemens, Íraks, Líbanon og Írans. Sýrlendingar gætu slegist í hópinn, enda stór hluti lands þeirra hernuminn af Ísrael og Bandaríkjunum.

Stór flugfélög á borð við Lufthansa, United, Delta og Swiss, hafa aflýst flugi til Ísraels.

Vesturlönd láta skeika að sköpuðu. Rússar hafa á vettvangi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna gert örvæntingarfulla tilraun til að halda aftur af Ísrael og Bandaríkjunum með því að fordæma morðið á Ismail Haniyeh, sem vafalítið hefur verið framið í vitorði með yfirvöldum í Bandaríkjunum. Vesturveldin beittu neitunarvaldi – vitaskuld.

Það ber ekki á öðru, en að trúarbrjálæðingunum, sem predika tortímingu heimsins, svo Guð almáttugur geti snúið aftur til að frelsa mannkyn, verði að ósk sinni. Þá er að finna í Alheimsefnahagsráðinu (World Economic Forum) og öllum Abrahamstrúarbrögðum (Gyðingdómi, Kristni og Múhammeðstrú).

Hugsanlega má líta á yfirvofandi fjármálakreppu í þessu samhengi. Forseti Bandaríkjanna og Alheimsefnahagsráðið, sem rúmar fulltrúa hergagnaiðnaðarins og aðra flugumenn hans í stjórnmálum, hefur „lofað“ okkur að byggt verði betur og Paradís endurræst á rústum eyðileggingarinnar.

https://michelchossudovsky.substack.com/p/secret-plan-outlines-unthinkable?utm_source=post-email-title&publication_id=1910355&post_id=147368798&utm_campaign=email-post-title&isFreemail=true&r=ry8jq&triedRedirect=true&utm_medium=email https://geopolitiq.substack.com/p/israel-on-a-rampage https://expose-news.com/2024/08/05/global-stock-markets-slump-and-unrest-in-the-uk/ https://geopoliticaleconomy.substack.com/p/debt-political-wealth-flows-poor-rich?utm_source=post-email-title&publication_id=457596&post_id=147352506&utm_campaign=email-post-title&isFreemail=true&r=ry8jq&triedRedirect=true&utm_medium=email https://www.globalresearch.ca/russia-nuclear-exercises-dutch-f-16-ukraine/5864451 https://www.globalresearch.ca/pipe-dreams-american-voters/5864500 https://geopolitiq.substack.com/p/so-spoke-sayyed-hassan-nasrallah?utm_source=post-email-title&publication_id=2232768&post_id=147252306&utm_campaign=email-post-title&isFreemail=true&r=103ae5&triedRedirect=true&utm_medium=email https://tass.com/world/1823869 https://www.globalresearch.ca/hamas-leader-killed-iran-inflame-sectarian-conflict/5864537 https://steigan.no/2024/08/hezbollah-angriper-israelsk-militaerhovedkvarter-forsmak-pa-offensiven/?utm_source=substack&utm_medium=email https://matthewehret.substack.com/p/an-emergency-public-service-announcement?utm_source=post-email-title&publication_id=260045&post_id=147329727&utm_campaign=email-post-title&isFreemail=true&r=ry8jq&triedRedirect=true&utm_medium=email https://finance.yahoo.com/news/israel-braces-attack-iran-us-004159249.html https://www.timesofisrael.com/idf-document-shared-with-northern-mayors-sets-out-hezbollah-war-scenarios/ https://www.axios.com/2024/08/01/us-iran-israel-attack-preparation https://steigan.no/2024/08/usa-sender-krigsskip-til-midtosten-og-utsteder-sikkerhetsvarsel/?utm_source=substack&utm_medium=email https://www.whitehouse.gov/briefing-room/statements-releases/2024/08/01/readout-of-president-joe-bidens-call-with-prime-minister-netanyahu-of-israel-7/ https://www.youtube.com/watch?v=wEr3f5yt4m4 https://www.globalresearch.ca/america-great-nation-if/5864490?doing_wp_cron=1722870598.1193289756774902343750 https://www.foreignaffairs.com/ukraine/right-way-quickly-end-war-ukraine https://steigan.no/2024/08/biden-forteller-netanyahu-at-usa-vil-forsvare-israel-lover-nye-militaere-utplasseringer/?utm_source=substack&utm_medium=email


Kvenfrelsun og kvennaathvarf

(Birtist í Kvennablaðinu 20. maí 2017)

Frelsun kvenna á Vesturlöndum hefur staðið yfir í drjúgar tvær aldir. Í upphafi voru kvenfrelsunarhóparnir sundurgerðarlegir rétt eins og í dag. Þá eins og nú bar á öfgum og ofbeldi. Rússneskur kvenfrelsari myrti um aldamótin 1900 um þrjú hundruð eiginmenn kvenna, sem töldu sig beittar ofbeldi af körlum sínum. Á sama méli unnu kvenréttindakonur í Lundúnum skemmdarverk og gerðu árásir á (karlkyns) lögreglumenn.

Konur úr röðum kvenfrelsunarsamtaka tóku þátt í starfi breskra og þýskra nasista. Konur tóku þátt í útrýmingu gyðinga. Atkvæði kvenna vógu þungt við valdatöku nasista í Þýskalandi og fasista á Ítalíu. Konur börðust ötullega á vígvöllum Austur-Evrópu í seinna heimsstríði og aukin heldur héldu þær vopnaframleiðslunni gangandi, meðan karlar þeirra öttu kappi á vígvöllunum. Hugmyndafræðingar jafnaðarstefnu börðust gegn hjónabandinu.

Í ríkjandi hjónabandslöggjöf Vesturlanda stóð konan í skjóli karlsins. Einungis efnahagslega sjálfstæðar konur voru lögaðiljar. Þetta fól m.a. í sér, að erfitt var að koma lögum yfir giftar konur. T.d. var ekki unnt að draga sænska kvensjóræningjann, Christina Anna Skytte, fyrir dóm af þeim sökum. En eiginkarl hennar sat í súpunni. Þegar kosningaréttur kom til sögunnar voru það einungis konur (og karlar reyndar einnig), er voru sjálfs sín ráðandi, sem öðluðust þann rétt.

Kosningaréttur kvenna var önnur þungamiðja í kvenfrelsisbaráttunni um og upp úr aldamóttunum 1900. Fjöldi karla lagði þar þung lóð á vogarskálarnir. Meðal annars skrifuðu fjórir þekktustu karlrithöfunda Noregs ávarp til kvenna og þings um breytingar á hjónabandsráðgjöfinni. Þeir, Björnstjerne Björnsson, Henrik Ibsen, Jonas Lie og Alexander Kielland, sögðu:

“Hún [konan] verður að skilja og finna, að hún stofni til hjónabands á jafnréttisgrundvelli, hafi sama lagarétt og karlmaðurinn. Slíkt er siðferðilega gott báðum aðiljum og sambúðin mun verða auðveldari, bera vott gagnkvæmri virðingu.”

Margir íslenskir karlmenn voru einnig ákafir talsmenn sömu lýðréttinda handa körlum og konum og brautryðjendur í baráttunni fyrir þeim. Karlar á þjóðþingum Vesturlanda greiddu götu löggjafar, sem tryggði slík réttindi. (Fyrstir voru reyndar karlar í bresku nýlendunni, Nýja-Sjálandi, fyrir aldamótin 1900.)

Þrátt fyrir að karlar Vesturlanda hefðu samþykkt óskorðuð lýðréttindi handa öllum körlum og konum, hélt kvenfrelsunin áfram. Konur tóku ótvíræða forystu. Spjótunum er beint að svonefndu feðraveldi eða karlaveldi. Kvenfrelsunarfræðimenn á borð við Simone de Beauvoir, Betty Friedan, Carol Hanisch, Juliett Mitchell og Germaine Greer, hafa gríðarleg áhrif.

Boðskapurinn er í hnotskurn sá, að konur eigi körlum illt upp að unna, að karlar um víða veröld hafi verið og séu kúgarar. Kúgunarþörf karla býr í eðli þeirra eða í samfélagsgerðinni og tungumálinu, sem karlar eru ábyrgir fyrir. Þannig er hvert sveinbarn kúgari.

Sumar baráttuhreyfingar kvenna aðhylltast fyrrnefnda eðlishyggju.

„Treystið engu sem karlar hafa skrifað um konur, því þeir eru í senn kúgarar og dómarar.“ (Simone de Beauvoir)

„Frelsun kvenna er annað og meira en „jafnrétti“ til að lifa eins og „fjötraðir“ karlmenn. (Germaine Greer)

„Oft og réttilega er á það bent, að konur eigi ekki að stíga fram á svið þjóðlífsins sem einhver eftirlíking þeirra ímyndar, sem karlmannasamfélagið hefur getið af sér og birtist sem einhliða, mótaður, tilfinningafirrtur einstaklingur.“ (Soffía Guðmundsdóttir)

„Karlmaðurinn er meinið. Því má einu gilda úr hvaða sjónarhorni stjórnmála eða hagfræða tilveran er skoðuð.“ (Nina Karin Monsen)

„Ég lít svo á að konur séu kúgaðar vegna þess að þær eru konur.“ (Stefanía Traustadóttir)

„Launamisrétti, fátækt kvenna, valdaleysi þeirra og kynbundið ofbeldi, eru allt greinar af sama meiði. Þann meið kalla ég karlveldi.“ (Valgerður Bjarnadóttir)

„Hér á landi eru þúsundir kvenna og barna sem hræðast hversdaginn. Þau eru ekki örugg heima hjá sér, finna fyrir daglegum ótta, vanmætti og niðurlægingu. … Ástæðan er kynbundið ofbeldi [þ.e. ofbeldi karla] sem þrífst í skjóli þagnarinnar, …“ (Drífa Snædal)

Staðreyndin er að undirrót vandans er valdbeiting karlsins innan fjölskyldunnar. (Pia Bäcklund) Öfgafyllstu kvenfrelsararnir láta að því liggja, að karlar hafi gagngert tekið höndum saman um að kúga konur og börn. Lykilhugtakið er þöggun:

„Hvernig stendur á því að karlar, sem lengstum hafa ráðið ríkjum í stéttum lækna og sálfræðinga hafa ekki [fyrir] löngu kannað rækilega þessa hegðun [kynferðislegt ofbeldi gegn konum og börnum] meðbræðra sinna. Hefur verið í gildi einhvers konar þegjandi samtrygging karla um að tala ekki um þessi mál og taka mildilega á þeim, jafnt í dómstólum sem annars staðar?“ (Kristín Ástgeirsdóttir.)

„Karlar hafa haft greiðan aðgang að umræðunni um jafnrétti og ofbeldi. Þeir hafa hins vegar hundsað hana og ég held að ástæðan sé óþægilega einföld. Allt of mörgum hefur hentað það ljómandi að ástandið breyttist ekki. Þeir hafa völdin, launin og ofbeldi karla gegn konum hefur verið áhrifarík leið til þess að viðhalda ástandinu.“ (Guðrún Jónsdóttir)

Kvennaathvarfið, stofnað árið 1982 af ýmsum samtökum kvenna, grundvallast á ofangreindri hugmyndafræði – og Stígmót reyndar einnig. Þangað er konum, sem telja sig fórnarlömb karla, boðið að koma með börn sín (og feðra þeirra). Það er gildur aðgöngumiði. Konurnar nema börnin á brott frá heimili og föður. Feðrum er meinað að hafa samband við börn sín í Kvennaathvarfinu.

„Enginn viðmælendanna var í sambandi við föður sinn eftir að þeir komu í Kvennaathvarfið.“ (Bergdís Ýr Guðmundsdóttir) Logið er að börnunum um dvalarstaðinn.

„Barn [er] ekki upplýst um þann stað sem kvennaathvarf er, því er sagt t.d. að dvalið sé á hóteli, erlendis eða að það sé í fríi.“ … „Staðsetningu athvarfsins [er] haldið leyndri.“ … „Barn [er] ekki upplýst um að dvöl í kvennaathvarfi sé í vændum.“ (Anni Haugen og Bergdís Ýr Guðmundsdóttir)

Fátt er vitað um mæður barnanna; um 36 af hundraði þeirra eru öryrkjar og um helmingur þeirra snýr aftur til ofbeldiskarla sinna með börnin. Fáar kæra staðhæft ofbeldi. Um 87 af hundraði segja það andlegt. Nánari skilgreining fylgir ekki.

Hluti kvennanna á margar vistanir að baki. „Þetta eru sterkar konur sem hafa kjark til að leita aðstoðar fyrir sig og börnin sín – hafa kjark til að rjúfa þögnina.“ (Drifa Snædal)

Frá stofnun Kvennaathvarfs til ársins 2013 höfðu 3.400 kjarkaðar konur lagt leið sína til stofnunarinnar. Árið 2004 dvöldu 55 börn í Athvarfinu, árið 2012 voru þar vistuð 87 börn. Meðaldvalartími var 24 dagar. Mæður og börn koma stundum í fylgd fulltrúa barnaverndarnefndar, stundum með fulltingi fulltrúa Barnaverndarstofu. Þessi fulltrúi veitir jafnvel „meðferðarviðtöl“ í Athvarfinu.

Stundum koma konur í fylgd lögreglu, sem veitir þeim ýmis konar þjónustu: „Lögregla kemur með sumar konur og börn þeirra í Athvarfið eftir að hafa verið kölluð á heimili þar sem ofbeldi á sér stað. Einnig geta dvalarkonur fengið lögreglufylgd heim til að ná í helstu nauðsynjar/persónulegar eigur ef þannig stendur á. Undanfarin ár hefur Athvarfið átt sinn sérstaka tengilið hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Starfskonur eiga greiðan aðgang að þessari lögreglukonu … [sem] kemur einnig í Athvarfið ef nauðsyn krefur og ræðir við konur þar.“ (Hildur Guðmundsdóttir)

Heilbrigðisstarfmenn eru sumir hverjir afar greiningasnjallir, þegar ofbeldi er annars vegar: “[Kvenlæknirinn var fljótur] að sjá að konan bjó við ofbeldi bara á því hvernig maðurinn hennar talaði við hana á sjúkrahúsinu. Læknirinn sagði henni frá Kvennaathvarfinu og bauð henni að hringja sem hún gerði.“ (Hildur Guðmundsdóttir)

Í hverju felst svo aðstoðin við börnin?

„Starfskonur“ bjóða upp á klínísk viðtöl: „Starfskonurnar nefndu allar að sú hugmynd að bjóða börnum upp á viðtöl hefði snert þær á skrítinn hátt og þær hefðu ekki verið vissar um hvort þær myndu treysta sér til þess að taka viðtöl við þau.“ (Bergdís Ýr Guðmundsdóttir)

Viðtöl við börnin byggja á ofanrakinni hugmyndafræði:

„Starfið hefur … einkennst af hugmyndum kvennahreyfinga … enda sprottið upp úr kvennahreyfingum og með áherslu á að rétta við hlut kvenna í samfélaginu og berjast gegn feðraveldi. … [S]ko það er kannski asnalegt að segja það en það er rauðsokkugangur yfir starfsseminni, en mér finnst það ekki neikvætt,…“ (Starfskona)

Áður var rekinn skóli í Kvennaathvarfinu. Nú ganga börn af höfuðborgarsvæðinu venjulega í skóla sína og dagvistarstofnanir. Börn utan svæðisins fá ekki skólagöngu. Sum þeirra eru lokuð inni í Athvarfinu að mestu, jafnvel 133 daga. „Starfskonur“ leggja sig fram um að vinna úr ofbeldisreynslu vistbarna, sem þau, að sögn móður, hafa orðið fyrir. Og hvernig skyldu nú börnunum líða, meðan á meðferð stendur?

Norsk rannsókn frá sams konar starfsemi í Noregi árið 2009 gæti gefið vísbendingu:

„Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru að börnum fannst staða þeirra oft vera ruglingsleg, þau skorti upplýsingar … [Á]herslan á að halda staðsetningu athvarfsins leyndri flækti líf sumra, þau þurftu sum hver að ljúga og skipuleggja sögu sína vel til þess að koma ekki upp um staðsetninguna. Í nokkrum tilfellum leiddi það til þess að barnið einangraði sig frá lífinu utan athvarfsins. Þátttakendur kvörtuðu yfir því að hafa ekki fengið mikilvægar upplýsingar um dvöl sína, svo sem hvar þau voru, hver væri ástæða dvalar þeirra og hvað tæki við er dvöl í kvennaathvarfinu lyki.“ (Bergdís Ýr Guðmundsdóttir)

Sú spurning hlýtur að vakna, hvert sé eðli téðrar starfsemi og hverjar séu lagalegar og kerfislegar forsendur hennar. Hér er greinilega rekin starfssemi, sem í senn fellur undir barnalög og barnaverndarlög, enda koma bæði barnaverndarnefndir og Barnaverndarstofa að starfseminni.

Sé um heilbrigðisþjónustu að ræða er starfsemin skilyrt leyfi landlæknis, sem einnig hefur eftirlitsskyldu að gegna. Þáttur löggæslunnar stangast á við lög. Engum er heimilt að nema barn brott af heimili sínu, nema að undangengnum úrskurði barnaverndarnefndar eða dómstóla. Lögreglan tekur þátt í slíkum hráskinnaleiki. Sama gildir um tálmun á umgengni foreldris við barn sitt.

Í þessu efni er Kvennaathvarf, barnavernd og lögregla samsek. Að þessu sögðu hlýt ég að beina þeim tilmælum til hlutaðeigandi stofnanna og yfirvalda að útskýra hlutdeild sína. Þá væri fróðlegt að lesa rökstuðning hins opinbera, ríkisvalds og sveitarfélaga, fyrir fjármögnun þeirrar starfsemi, sem hér er fjallað um.


Kvenfrelsun og hrunadans hnappheldunnar

(Skrifað í maí 2020)

Öld upplýsingar og fræðslu hafði í för með sér ýmis konar hræringar í mannlífinu. Gömul sannindi kirkju og yfirstéttar um tilhögun samfélagsins voru brotin til mergjar. Heimspekilegar vangaveltur gæddu lífi aldalanga þrætu kvenna og karla miðalda um eiginleika kynjanna með skírskotun til biblíusagnanna. Hið eldforna hjónaband eða tryggðasamband karls og konu, kom í brennidepil.

Hjónavígslusiðir miðalda Evrópu eiga sér rætur í sáttmála þeim, sem fól í sér undirgefni þræls gagnvart herra, þ.e. að krjúpa á hné og gefa brúðinni hring, táknið um ríkisdæmi brúðgumans. Þjónustulund, hollusta og lotning var innsigluð með kossi. (Peter Wright)

Í ljóði enska skáldsins, Samuel Butler (1612-1680), „Hudibras,“ sem birtist fyrst árið 1663, les kvensöguhetjan yfir karlpeningnum í þessum anda:

Það erum við, sem ríkjum ráðum

og reynumst best í öllum dáðum.

Við semjum einar landsins lög,

látum skoða dómaranna fög.

Við stjórnum öllum fjöldafundum,

fylgjum ykkur löngum stundum.

Við ráðum borg og bæ og þorpi,

bláeygir þótt í skikkju gorti.

Við verndum og vekjum ótta,

verjum auðæfum að geðsins þótta.

Því skulið ráðum hollir hlíta

og hamast við úr nál að bíta.

 

Landi hans, rithöfundurinn Mary Astell (1666-1731) leit silfrið öðrum augum. Árið 1700 gaf hún út bókina: „Hugleiðingar um hjónabandið“ (Reflections Upon Marriage). Mary gagnrýnir þar bæði hefðir tengdar hjónabandinu og lög, er það snerta. Hún lét í ljósi þá skoðun, að sjaldan fyndi fólk hamingjuna í hnappheldunni. Körlum væri þar venjulega um að kenna.

Þeir giftust fremur til fjár eða „fegurðar,“ heldur en ástar. Hvort heldur sem væri „stjórnuðust þeir af óviðurkvæmilegum hvötum. ... Þegar kona játaðist karli „gæfi hún sig gjörsamlega á vald honum og yxi hjónabandsokið henni yfir höfðuð, byðu hvorki lög né hefð þá leiðréttingu, sem karlinn gæti nýtt sér.“ Mary réð því kynsystrum sínum frá því „að velja sér lífseinvald,“ ellegar að mennta sig í því skyni að öðlast betri skilning á hjónabandinu og „einvaldi sínum.“ Skilnað taldi hún ekki koma til greina, þar eð hjónabandið væri heilög sameining í augliti Guðs.

Nafna hennar, Wollstonecraft (1759-1797) hélt sig við svipað heygarðshorn í bók sinni „Málsvörn réttinda kvenna“ (Vindication of the Rights of Women), árið 1792, eða þrem árum, eftir upphaf frönsku byltingarinnar. Hún mælir svo:

„Svo fremi, að karlmenn myndu af veglyndi sínu losa okkur, konur, úr læðingi, og gera sér að góðu samneyti í skynsemi í stað þrælslundaðrar undirgefni af okkar hálfu, væru við athugulli dætur, alúðlegri systur, tryggari eiginkonur og skyni gæddari mæður – í einu orði sagt, betri borgarar. Við myndum þá unna körlum í sannleika, vegna þess, að við myndum læra að meta okkur sjálfar að verðleikum.“

Theodor Gottlieb von Hippel (1741-1796) var þýskur rithöfundur, nemandi þýska heimspekingsins, Immanuel Kant (1724-1804). Hann setti kúgun kvenna í hjónabandinu gagngert á dagskrá. Þeódór nam guðfræði og lögfræði, vann afrek á síðastnefndu sviðinu og gerðist baráttumaður fyrir jafnrétti kynjanna. Hann skrifaði m.a. ritgerðina, „Um umbætur á stöðu kvenna,“ (Über die bürgerliche Verbesserung der Weiber) árið 1792. Hann sagði þar m.a.:

„Kúgun kvenna er orsök allra handa kúgunar í veröldinni.“ (Anderson) Hann andmælti kröftuglega þeirri ósvinnu, að jafnrétti kvenna, helmingi þjóðarinnar, væri ekki tryggt í frönsku byltingunni og í kjölfar hennar.

Fyrrgreinda bók kallar Ruth Pritchard Dawson „Kvenfrelsunarávarpið (Feminist manifesto).“ Hún segir svo: „Bókin er byltingarkennd. Endurtúlkun [höfundar] leiðir konuna fram í dagsljósið sem fórnarlamb í samfélagi, sem er í senn ósanngjarnt og hirðulaust, báðum kynjum til vansæmdar.“ (Ruth Pritchard Dawson)

Vansæld með kjör manna varð kveikjan að draumórasamfélögun, t.d. í draumasmiðju hins franska Francois-Marie-Charles Fourier (1772-1837). Hann dreymdi um samfélög jafnaðar og sjálfsbjargar, þar sem oki hjónabandsins væri aflétt, en fólk nyti frjálsra ásta í frjálsum samböndum. Hjónabandið taldi hann spennitreyju á útrás eðlilegra hvata. Kynin voru jöfn að rétti. Konuna skyldi frelsa frá skyldum heimilisins, svo hún hefði tóm til að njóta lífsins. Um miðja nítjándu öldina voru stofnuð samyrkjubú í anda Fourier í Frakklandi og í Bandaríkjum Norður-Ameríku (BNA). Þau dóu út eftir nokkur ár.

Friedrich Engels (1820-1895) spann áfram af þræði draumórajafnaðarmanna samtímamanna sinna. Í fyrndinni sköpuðu karlar og konur frumstæð sameignarfélög, segir Friðrik. Þar nutu kynin hamingjusamlega sameiginlegs gróður jarðar – og allir voru jafnir. Svo kom vágesturinn, landbúnaðurinn, og með honum einkaeignin. Frelsunin manna taldi hann felast í launavinnu beggja kynja í draumríki, sem lyti alræði öreiganna.

Alræði öreiganna var reyndar sett á stofn í Ráðstjórnarríkjunum með byltingunni í Sanki Pétursborg árið 1917. Þar var Alexandra Mikhailovna Kollontai (1872-1952) innsti koppur í búri í málefnum, er lutu að kvenfrelsun. „Nokkru eftir aldamót [1900] taldi hún borgaralega kvenréttindabaráttu miða helst að því að tryggja arðrán kapítalista á báðum kynjum jafnt. Sigur ynnist ekki á þann hátt að konur yrðu jafnokar karla í erfiðisvinnu.

Meginatriðið væri að konan öðlaðist frelsi sem kona. Samfarir karls og konu taldi hún ekki meira mál en að svala þorsta sínum og þannig vildi hún að konur litu á kynlíf. Ef afleiðingin af ást konu á karlmanni ætti að tákna þrælkun hennar, þá ætti konan að fara sína leið. Engin kona ætti að vera karli fjárhagslega háð og þungun hennar ekki að tákna eilífa kúgun.“ (Ólafur Jens Pétursson)

Í „villta vestrinu“ (BNA) tók kvenfrelsunarbaráttan nýja stefnu, þ.e. baráttunni gegn gagngerri karlfólsku, ásamt því, að gamlar yfirburðahugmyndir um konur voru hafnar til vegs og virðingar á ný. Meginhugmyndafræðingur kvenfrelsaranna þar um slóðir, Elizabeth Cady Stanton (1815-1902), sagði 1868:

„Karlinn er þrunginn tortímingu; harðneskjulegur [og] sjálfselskur. Hann unnir stríði, ofbeldi [og] sigurvinningi, miklast af sjálfum sér og leggur að fótum sér. Eins og í hinum veraldlega heimi sáir hann í siðferðið ósætti, glundroða, sjúkdómum og dauða.“ ... „Yfirburðir kynferðis okkar sem kvenna eru óendanlegir.“ Það má nærri geta, hvers vegna slíkt óargadýr stofnar til hjúskapar.

Rétt um öld síðar eða árið 1949, kveður hinn meginhugmyndafræðinga vestrænnar kvenfrelsunarbaráttu sér hljóðs, hin franska Simone de Beauvoir (1918-1986) með bókinni, „Síðra kyninu“ (Le Deuxiéme sexe). Þar hefur hún eins og vænta má, sitt hvað um hnapphelduna að segja:

„Jafnvel þótt sjálfstæði standi [konu] til boða, virðist sem leið [ástar og hnappheldu] hafi mest aðdráttarafl fyrir flestar þeirra. Það er þraut að taka ábyrgð á lífi sínu.“ ... „Eðli fýsna konunnar ásamt tormerkjum hins frjálsa kynlífs ýta henni inn í hnapphelduna.“ ... „Það er list að snara sér eiginmann, fagmennska að halda honum föngnum. Það krefst umtalverðra hæfileika.“

En það syrtir í álinn: „Hjónabandstilþrifin eru ekki þau, að loforðið um hamingju, sem í loftinu lá, sé ekki efnt – trygging fyrir hamingju er ekki til – heldur hrynjandi og endurtekning, sem dæmir hana til misþyrmingar.“

Þjáningin í hnappeldunni er reyndar gagnkvæm: „Tilgangurinn með hjónabandssiðvenjunum var í upphafi sá að vernda karlinn gegn konunni; hún varð eign hans; en allt, sem við eignumst, öðlast eignarhald á okkur [sjálfum]; hjónabandið er ánauð fyrir karlinn einnig; þannig gengur hann í gildru náttúrunnar, [þ.e.] ástarþrá í garð yndislegrar stúlku hefur í för með sér, að hann er knúinn til þess allt sitt líf að ala önn fyrir gildri gæslukonu (matron), uppþornuðu gamalmenni.

Hinn yndisfagri gimsteinn, sem lýsa skyldi líf hans, umbreytist í ógeðfellda byrði.“ ... „Oft og tíðum veldur hjónabandið kreppu hjá karlmanninum einnig. Því til sannindamerkis eru margs konar tilbrigði við geðveiki karla, sem skjóta upp kollinum í tilhugalífinu eða snemma í hjónabandinu.“

Simone eignaðist aðskiljanlega aðdáendur meðal kvenfrelsara um hinn vestræna heim. Sú firra hennar, að óskhyggja skapaði kynin, öðlaðist miklar vinsældir. Íslenskir kvenfrelsarar þóttust hafa himinn höndum tekið til dæmis. Svo djúp var spekin. Hin norður-ameríska Shulamith Firestone (1945-2012) tileinkaði hinni frönsku fræðamóður bók sína: „Þrætubók um kynin: Málatilbúnaður kvenfrelsunarbyltingar“ (1970) (The Dialectic of Sex: The Case for Feminist Revolution), sem út kom árið 1970. (Colette Price kallaði Shulamith hina norður-amerísku Simone de Beauvoir.)

Boðskapur Shulamith er í stuttu máli sá, að forkólfar efnishyggjunnar (dialectical materialism), Karl Marx (1818-1883) og Friedrich Engels (1820-1895) hefðu gengið of skammt í greiningu sinni, þ.e. að kynferðisleg kúgun karla á konum ætti sér dýpri rætur, en kúgun auðvaldsins á alþýðunni eða öreigastéttinni. Konur og karlar ættu nefnilega heima í sitt hvorri „kynstéttinni.“ Shulamith segir:

„[V]ið getum með engu móti lengur réttlætt kynstéttarmismunun með skírskotun til náttúrulegs upphafs hans.“ Bylting á auðvaldssamfélaginu væri því engin trygging fyrir því, að oki og kúgun konunnar yrði aflétt. Shulamith ítrekar: „Það verður ekki gengið milli bols og höfuðs á bandormi þrælkunarinnar, nema byltingin uppræti grundvallarstofnunina, hina náttúrulegu (biological) fjölskyldu, [því] hún getur [auðveldlega] orðið gróðrarstía andlegs valds.“

Samhliða því, að konur öðluðust vald yfir framleiðslutækjunum í öreigabyltingunni, yrði kynbylting að eiga sér stað – sem og kynlífsbylting. Hugmyndir sínar um kynlífsbyltinguna og kynok kvenna grundvallaði Sulamith á túlkun kenninga sálkönnuðanna, Sigmund Freud (1856-1939) og Wilhelm Reich (1897-1957).

Shulamith endurómaði skoðanir fyrirmyndar sinnar, Simone de Beauvoir; æxlun og móðurhlutverk konunnar fólu í sér kúgun hennar. Því væri einboðið, að sundurgreina þyrfti kveneðli og kvenvitund, kynsamsemd, því kona væri ekki fædd kona, heldur væri hún skilgreind sem slík af vondum körlum. Þannig varð hún fórnarlamb feðraveldisins.

Svo fórust Shulamith orð: „Lokatakmark kvenfrelsunarbyltingarinnar er ekki einvörðungu uppræting karlforréttinda eins og fyrsta kvenfrelsunarhreyfingin [fyrsta bylgja kvenfrelsunar] barðist fyrir, heldur að þurrka út kynjamun í sjálfum sér. Mismunandi kynfæri fólks ættu ekki lengur að skipta máli í menningarlegu samhengi.“ Gervöll menningin var undir í kvenfrelsunarbyltingunni: „[K]venfrelsarar verða ekki einasta að brjóta til mergjar vestræna menningu eins og leggur sig, heldur einnig innri skipan hennar og ... jafnvel skipan náttúrunnar [sjálfrar].“

Meðgöngu kallaði Shulamith „ófágaða“ og barnsburði líkti hún við „hægja graskeri.“ Því lá beint við að mæla með æxlun utan móðurlífs. Þar sem hjónabandið eða uppeldi í umsjá tveggja gagnkynhneigðra foreldra fæli í sér innrætingu og kúgun á svipaðan hátt og konur mættu þola, þyrfti að frelsa börnin undan því oki og ala þau upp á þar til gerðum stofnunum í kynhlutlausu umhverfi. Shmulamith segir t.d.: „[B]ernskan er martröð undir handleiðslu.„ ... „[U]mgjörð fjölskyldunnar er uppspretta kúgunar í sálarlegum, efnahagslegum og stjórnmálalegum skilningi.“

Í kjölfar Shulamith komu fjölmargir kynbyltingarfræðingar fram á sjónarsviðið, sem beindu spjótum sínum að feðrum, hjónabandinu og fjölskyldunni: Kate Millet segir t.d.: „Almennt hefur líf kvenna einskorðast við dýrslegt líferni í rás menningarsögunnar, þar eð þær hafa veitt körlum kynferðislega útrás og sinnt því dýrslega verkefni að æxlast og fóstra ungviðið.“ ... „Eyðing hefðbundins hjónabands er „hið byltingarkennda og draumórakennda (utopian)“ markmið kvenfrelsunar.“

Norður-ameríski rithöfundurinn, Adrienne Cecile Rich (1929-2012), segir: „Tengsl móður og barns eru frumtengsl mannkyns. Þessi frumeining mannlífsins varð fyrir ofbeldi við stofnun feðraveldisins. Byltingin gengur út að það að endurheimta þetta samband, þannig að móðir ráði hlutverki föðurins. Þegar að þessu kemur, er feðraveldið dautt.“

Norður-ameríski heimspekingurinn, Ti-Grace Atkinson (f. 1938), segir:„Samfarir eru andstæðar kvenfrelsun.“

Norður-ameríski sagnfræðingurinn og kvenfrelsarinn, Linda Gordon (f. 1940) segir: „Ganga verður milli bols og höfuðs á kjarnafjölskyldunni ... Nú er komið að því að rústa fjölskyldunni, hvert svo sem [...] gildi hennar kann að vera. Það er óhjákvæmileg bylting. ... [E]ngin kona ætti að láta sérstakar skuldbindingar vegna barna hindra sig í að grípa tækifærin ...“

Sheila Cronin, leiðtogi „Þjóðarsamtaka kvenna“ (National Organization of Women) í BNA, segir: „Þar eð hjónabandið felur í sér þrælahald fyrir konur, ætti það að vera augljóst kvennahreyfingunum að einbeita sér að árás á þessa stofnun. Frelsun kvenna verður ekki að veruleika, nema hjónabandið sé afnumið.“

Norður-ameríski kvenfrelsunarfræðimaðurinn, Andrea Dworkin (1946-2005), segir: „Hjónabandið á upptök sín í raðnauðgun [kvenna].“

Það er varla neinum vafa undirorpið, að kvenfrelsararnir vilji hjónaband og kjarnafjölskylduna feiga. Þeir hafa barist gegn henni leynt og ljóst í rúma öld. í Ráðstjórnarríkjunum var kjarnafjölskyldan leyst upp í byltingunni 1917. Sú ráðstöfun stuðlaði að allsherjar, félagslegri upplausn. Því hlaut kjarnafjölskyldan og hjónabandið uppreisn æru rúmum áratugi síðar. Í vestrænum samfélögum er hún nú í dauðateygjum sem tryggðasamband karls og konu, sem saman ala upp börn sín. Móðurveldisfjölskyldum fjölgar stöðugt með tilheyrandi raðkvæni, þar sem börn búa við föðurleysi eða skert samband við föður.

Kanadíski lögfræðingurinn, Mary F. Southin (f. 1931), segir: „[L]öggjafinn lítur ekki lengur svo á, að hjónabandið ... sé samfélagsstofnun ... sem hafi þýðingu að ráði. Löggjafinn hefur ákvarðað, að feður séu réttlausir.“


Kúgun kvenna samkvæmt John Stuart Mill

(Birtist í Vísi 16. des 2019)

Menn hafa löngum velt vöngum yfir þeirri staðreynd, að konur, sem aldrei dýfðu hendi í kalt vatn, hafi risið upp á nítjándu öldinni og krafist frelsunar kvenna. Í iðnbyltingunni, sem einkum gætti í Evrópu og Norður-Ameríku, skaraði millistéttin miskunnarlaust eld að eigin köku og fitnaði eins og púki á fjósbita.

Eiginkonur og dætur iðnjöfra og velstæðra kaupmanna af karlkyni bættust nú í hóp iðjulausra húsfreyja úr gömlu yfirstéttunum. Sumar þeirra menntuðust fyrir tilstilli maka, bræðra, frænda og karlkyns velunnara. Góðu heilli fjölgaði kvensnillingum á sviði mennta, fræða og lista. En konur voru ekki sjálfstæðar gagnvart lögum. Brytu þær lög, var eiginkarlinn ábyrgur. Kvenfrelsarar svokallaðrar fyrstu bylgju kvenfrelsunar (um þessar mundir gætir þeirrar fjórðu) komu úr fyrrnefndri stétt. Að áliðinni nítjándu öldinni kom út bók um efnið, sem skipti líklega sköpum.

Enski heimspekingurinn, John Stuart Mill (1806-1873), sem játaði þakkarskuld við ástmey sína og síðar eiginkonu, kvenfrelsarann og heimspekinginn, Harriet Taylor Mill (1807-1858), gaf árið 1869 út bókina, Kúgun kvenna (On the Subjection of Women), tuttugu og einu ári, eftir að frelsisyfirlýsing kvenna, samin í Seneca Falls í Bandaríkjum Norður-Ameríku, var samin.

Bókin var fljótlega þýdd á fjölmargar tungur. Íslensk þýðing Sigurðar Jónassonar (1863-1887) á danskri þýðingu Georg Brandes (1842-1927) var gefin út árið 1900 á kostnað „hins íslenzka kvennfélags.“ Íslenskir kvenfrelsarar hafa bókina í hávegum: „Með réttu er John Stuart Mill kallaður kvenréttindamaður og má jafnvel skipa honum á bekk með öndvegis femínistum.“ (Auður Styrkársdóttir) Kvenfrelsarar víða um veröld taka undir orð Auðar.

„Kúgun kvenna er fyrsta bókin eftir þekktan hugsuð þar sem færð eru rök fyrir jafnrétti kynjanna – og þar er þetta gert af öllum þeim sannfæringarkrafti sem Mill hafði til að bera. Af þessari ástæðu er hún, eins og vænta má, enn í miklum metum hjá femínistum hvarvetna.“ (Bryan Magee (þýðandi Róbert Jack))

John Stuart Mill segir m.a.: „[F]rá bernsku mannkynsins hefur konan talið sig ofurselda sem ambátt manninum [karlinum] sem þótti vænt um að eiga yfir henni að segja og honum gat hún eigi veitt mótþróa sökum þess að hún var kraftaminni.“ ... „Og þar sem mönnum [körlum] einu sinni hafa boðist þessi kostakjör til þess að ná völdum yfir konum og hafa áhrif á þær, hafa þeir af nokkurs konar ósjálfráðri eigingirnishvöt notað tækifærið, sem þeim þótti einkar hentugt, til þess að halda þeim í kúgun með því að leiða þeim fyrir sjónir að það sem menn gengjust mest fyrir hjá konum væri veikleiki þeirra, sjálfsafneitun og það að þær legðu sinn eigin vilja í mannsins hendur.“

Hinar kúgúðu konur eru þó sundurgerðarlegar, tekur hann fram. Þær sundurgreinast fyrst í konur, sem eru starfssamar og þrekmiklar, og þær, sem það eru ekki. Því næst kemur flokkurinn “uppstökkar og einþykkar konur.” Þær eru líklegar til að beita valdi sínu með varhugaverðum hætti. Þær gerast harðstjórar og kúgarar karla. Aðalvopn þeirra er “rifrildið” eða “húskrossvaldboð mislyndisins.” En því beita ekki “blíðlyndar konur” annars vegar og “sómakærar konur” hins vegar. Þær síðastnefndu beita “bænastaðnum.” Fyrir bænastaðinn samlagast karlar, sem ekki eru of einþykkir, konum sínum, gera óskir þeirra að sínum. „Yfirmennirnir [eiginkarlarnir] láta leiðast fyrir bænastað þeirra og án þess þeir viti af verða tilfinningar og tilhneigingar kvennanna að tilfinningum og tilhneigingum þeirra sjálfra.”

Höfundur heldur áfram: „Með öllu þessu nær konan geysimiklu valdi yfir manninum [karlinum] og hefur áhrif á framferði hans, jafnvel þar sem þessi áhrif eru eigi góð þar sem þau eru eigi aðeins óhyggileg heldur verða jafnvel til þess að greiða götu einhverju sem er siðferðilega illt. Þar mundi maðurinn breyta betur ef hann færi eftir eigin hvötum. En hvorki í heimilislífinu né í ríkinu er unnt að bæta upp frelsismissi með valdi.“

Valda hinnar kúguðu konu gætir óbeint utanstokks, segir John Stuart Mill: „Þannig getur hún notið þeirrar gleði að hafa áhrif á hann [eiginkarlinn] og glepja fyrir honum þegar hann fæst við málefni sem hún aldrei hefur aflað þekkingar á eða þar sem hún lætur algerlega stjórnast af hleypidómum eða af einhverjum persónulegum hvötum. Meðan þannig er ástatt hafa því þeir sem fúsastir hafa verið til þess að hlýða ráðum eiginkvenna sinna oftsinnis breytt verr vegna þess, einkum þegar svo hefur borið undir að áhrif konunnar hafa orðið ráðandi í þeim málum sem eigi hafa snert fjölskylduna.”

Hin kúgaða kona hefur jafnframt bein áhrif á stjórnmál, að dómi heimspekingsins: „[K]onur hafa ætíð haft mikil áhrif á ásigkomulag opinberrar skoðunar eða hafa að minnsta kosti haft það frá fyrstu sagnatímum. ... Nú sem stendur eru hin siðlegu áhrif kvenna eigi síður veruleg en þau sjást eigi framar eins glögglega.“ Spekingurinn hefur áhyggjur af kvennaráðum: „[A]fleiðingin er reyndar sú að áhrif konunnar eru allt annað en happasæl fyrir almennar dyggðir.“

Þrátt fyrir óheppileg áhrif, finnur karlinn hjá sér öfluga hvöt til að sameinast konunni og vernda hana: „Annað atriði þar sem áhrif af skoðun kvenna hafa verið ljós er að þær hafa verið hin öflugasta hvöt fyrir þá eiginleika hjá karlmönnunum, sem konurnar sjálfar samkvæmt uppeldi sínu hafa eigi til að bera, og þeim því var nauðsynlegt að finna hjá verndurum sínum.“

Kvenhyggja í fari karla skýtur snemma rótum, því þrátt fyrir kúgunareðli sitt hafa karlar frábærlega góða eiginleika fyrir tilstuðlan mæðra í uppeldinu og kvenna yfirleitt, eins og fórnarlund, háttprýði og hugprýði. Körlum er það í blóð borið að sækjast eftir hylli kvenna. Snjallastir eru þeir, er hafa sannað sig meðal kynbræðra sinna. Konur óska m.a. verndar þeirra. Þær umbuna verndurum sínum með eftirlæti.

Sjálfsfórn og riddaramennska á skiljanlega rætur í þörf karla fyrir aðdáun kvenna: „Hugprýði og hermannlegar dyggðir yfir höfuð hafa á öllum tímum stórum verið að þakka löngun þeirri sem karlmenn hafa til þess að vera dáðir af konum og þessi frameggjun nær langtum lengra en til þess flokks af frábærum eignleikum þar sem fremsta skilyrði til þess að njóta aðdáunar og hylli kvenna hefur ávallt verið það að njóta mikillar virðingar meðal karlmanna.”

Vegna hinna „siðlegu áhrifa sem konur þannig höfðu á karlmenn spratt upp riddarastefnan og var aðaleinkenni hennar að sameina æðstu fyrirmynd hermannlegra eiginleika hinum fjarskyldustu dyggðum, kurteisi, veglyndi og sjálfsafneitun gagnvart öllum óherskáum og varnalausum flokkum, loks sérstök undirgefni og lotning fyrir konum því að þær voru öðrum varnarlausum flokkum ólíkar að því leyti að þær höfðu vald til af frjálsum vilja að umbuna þeim mönnum mikillega sem lögðu sig fram um að ná hylli þeirra í stað þess að þvinga þær til undirgefni með ofbeldi.“

Karlriddarinn lifir enn góðu lífi meðal vor og mótar afstöðu karla gagnvart konum með afgerandi hætti. Þeir öfgafyllstu eru ýmist kallaðir „hvítir riddarar“ eða „heiðurskonur.“

Hjónabandið var konunni helsi eða hnapphelda kúgunar. Húsbóndinn var ábyrgur fyrir eiginkonu og öðru heimilisfólki gagnvart lögum og bar skylda til að sjá þeim farborða, mennta, leiðbeina og aga eða tukta til, þegar svo bar undir, sbr. hina íslensku húsagatilskipun (Anordning om Hustugt paa Island) Kristjáns sjötta konungs vors, lýðum gjörð kunnug 1746. John Stuart Mill segir: „Hjónabandið er hin eina verulega ánauð er lög vor viðurkenna. Eftir lögunum er eigi framar neinn þræll til nema húsfreyjan á hverju heimili.“

Hamingjusamlega hafa flestir húsbændur þó sjálfsstjórn til að bera. „Því fer betur að tilfinningar og hagnaður margra manna býður þeim að bæla niður hvatir þær og tilhneigingar sem leiða til harðstjórnar, að minnsta kosti oftast að draga úr þeim, og af öllum þessum tilfinningum er band það sem tengir saman mann [karl] og konu hið öflugasta og má ekkert við það jafnast.“

Þó er það svo, að sjaldan veldur einn, þá tveir deila. John Stuart Mill gerir sér fullkomlega grein fyrir þessum ævaforna sannleiki: „Í raun og veru sjáum vér aldrei í nokkru sambandi að allt valdið sé öðru megin, nema þar sem sambandið hefur fullkomlega misheppnast og þar sem best mundi vera fyrir báða málsparta að losast við byrði sína.“

En fleiri nafntogaðir samtímakarlar voru einnig andsnúnir hjónabandinu fyrir þær sakir, að það væri kúgunartæki, beitt gegn konum. M.a. skrifuðu fjórir þekktustu rithöfunda Noregs ávarp til kvenna og Stórþings um breytingar á hjónabandsráðgjöfinni. Þeir, Björnstjerne Björnsson (1832-1910) , Henrik Ibsen (1828-1906) , Jonas Lie (1833-1908) og Alexander Kielland (1849-1906), rituðu:

“Hún [konan] verður að skilja og finna, að hún stofni til hjónabands á jafnréttisgrundvelli, hafi sama lagarétt og karlmaðurinn. Slíkt er siðferðilega gott báðum aðiljum og sambúðin mun verða auðveldari, bera vott gagnkvæmri virðingu.” (Henrik Ibsen skrifaði sem kunnugt er, ódauðlegt leikrit um andlega eymd hinnar velstæðu millistéttarkonu, Nóru.)

En það er engu líkara, en John Stuart Mill eigi í vandræðum með kvenkúgunarskilning sinn á hjónabandinu: „Sambúð, sem engan þroska né upphvatning veitir, kemur í stað þess sem hann [eiginkarlinn] annars hefði verið neyddur til að leita; samvistar við jafningja sína í hæfileikum og félaga sína í eftirleitun hins æðra. Vér sjáum því, sem og almennt er viðurkennt, að ungir menn [kalar] sem virst hafa mjög vænlegir hættu að taka framförum undir eins og þeir voru kvæntir. Þegar þeir tóku eigi framförum hlaut þeim að sjálfssögðu að hnigna. Ef konan knýr eigi mann sinn áfram, þá hamlar hún ávallt viðleitni hans.“

Kúgunartæki karlanna, hjónabandið, getur jafnvel snúist upp í andhverfu sína fyrir ofbeldiskarlinn, segir heimspekingurinn. “Ég veit að þótt konan geti eigi veitt mótstöðu getur hún þó goldið líku líkt. Hún hefur sín megin vald til þess að gera mann [eiginkarl] sinn mjög ófarsælan í lífinu og hún getur neytt þessa valds til þess að koma fram vilja sínum í mörgum atriðum þar sem hann ætti að vera ráðandi en auk þess oft þar sem hann ætti eigi að vera það.”

Ætli hjónabandið sé, þrátt fyrir allt ekki algalið. Alla vega lætur höfundur svo í veðri vaka. „Ég er boðinn og búinn til þess að kannast við [...] að hjá mörgum hjónum, meira að segja að líkindum hjá meirihluta hjóna af hærri stigum, ríki andi réttláts jafnaðarlögmáls þótt lögin séu eins og þau eru nú.“ Heimspekingurinn túlkar kvenverndarlöggjöfina þó einhliða, þ.e. að karlar hafi hag af því að axla lagalega ábyrgð á fjölskyldunni, að eiginkonu meðtalinni.

(Hvernig ætli umræddur spekingur hefði fjallað um hina rammskökku ábyrgð eiginkarla bíræfinna kvensjóræningja grannþjóðanna, sem ekki var unnt að sækja til saka, þar eð þær voru giftar konur, og því ekki taldar sjálfs sín ráðandi í lagalegum skilningi. T.d. hefðarkonan, Christina Anna Skytte frá Dudenhof (1643-1677), sem herjaði á Eystrasalti eða landar hennar, Ingela Olofsdottir Gatenhielm (1692-1729) og Johanna Hård (1789 – 1851). Líklega hefur John Stuart Mill ekki þekkt til fyrrgreindra kvenofurskörunga.)

Hann segir um lög og hlunnindi: „Í æðri stéttum á Englandi er konum veitt ... hlunnindi með sérstökum samningum er sveigja lögin og þar konum er leyft að ráða sjálfar yfir vissri fjárupphæð er kallast „nálapeningar.“ Þar sem föður tilfinningarnar hjá karlmönnum eru almennt máttugri en tilfinningin fyrir eigin kyni, þá tekur faðirinn almennt dótturina fram yfir tengdason sinn [...].“

Ætli ójafnréttið felist þá í skorti á kosningarétti, sem langflestir karla og konur höfðu ekki? John Stuart Mill segir: „[H]versu útbreidd sem einhver venja er, þá er þó þess vegna engin ástæða til að vera hlynntur fyrirkomulagi þar sem konunni hvað mannleg og pólitísk réttindi snertir er skipað skör lægra en manninum [karlinum].“ En konur virðast ekki allar vansælar með hlutskipti sitt. Það verður að leiða þeim kúgunina fyrir sjónir: “Hvernig ætti kona sem fædd er við hin núverandi kjör kvenna og er ánægð með þau að geta metið gildi þess að vera eigi háður öðrum en sjálfum sér.“

Hvernig svo sem menn vilja túlka jafnréttisskekkju í lögum á umræddu tímaskeiði og eiginlegt vald kynjanna, geta vonandi flestir tekið undir eftirfarandi orð hins mikla spekings: „En hin sanna dyggð mannanna [fólks] er hæfileikinn til þess að geta lifað saman sem jafningjar þannig að hver einstakur krefjist eigi annars fyrir sjálfan sig en þess sem hann veitir öðrum af frjálsum vilja.“


Kúga bændur kýr sínar kynferðislega?

(Skrifað í september 2020)

Í fyrra eða 2019 voru birtar niðurstöður merkrar rannsóknar á kúgun kúa. Greinin, sem birtist í tímariti Kven- og kynfræðadeildar háskólans í Nýju Jórvík (NY), heitir: „Undirbúningur fyrir píslarbekk nauðgunarinnar: Kvenfrelsun og rányrkja á æxlunarfærum dýra“ (Readying the Rape Rack: Feminism and the Exploitation of Non-Human Reproductive Systems).

Fyrir höfundi, Mackenzie April, vakir að afhjúpa „ kvenfrelsunartilbrigði við landbúnað með dýr.“ Höfundur er aðgerðasinni og beitir sér fyrir rétti dýra og neyslu grænmetis. Hún fræðir lesandann um, að því miður sé skortur á slíkum rannsóknum, sem engu að síður séu þýðingarmiklar, því að á sama hátt og „heilsa kvenna hafi verið í húfi árum saman, hafi æxlunarlíffærum mjólkurkúa verið misþyrmt (poded and prodded).“

Mackenzie vekur athygli á því, hvernig slík misþyrming stingi í stúf við þá mynd kýrinnar, sem frá blautu barnsbeini hefur borið fyrir hugskotssjónir okkar, þ.e. „mjólkurkýr á beit á fögru engi, þar sem þær „leika við hvurn sinn fingur“ (sow and play) og leggjast til svefns í rúmgóðu bóli. Við sjónum okkar blasir hamingjuríkt líf [kúanna], en þegar dráp hinna sömu ber undir, blasir [hins vegar] við ógeðfelldur veruleiki.“

Rannsókn Mackenzie leiddi m.a. í ljós, að bændur nauðgi kúm sínum með sæðingum og misnoti þær kynferðislega, þegar þær eru mjólkaðar. Þannig býður mjólkuriðnaðurinn heim umsvifamikilli kynferðislegri misnotkun; „vettvangur kynferðislegar árásar og hlutgervingar á grundvelli sköpunarverksins.“

Fólk er hvatt til andófs gegn bændum, sem slíka ósvinnu stunda, svo að „til fullnustu megi vinna bug á kynferðislegri kúgun [þ.e. kúgun kvenna].“ [Kúgunin] er verulega útbreidd, en fram hjá henni litið, þar sem við kjósum að virða að vettugi dýrin, sem við deilum jörðinni með.“ ... „Samfélaginu ber einnig skylda til að láta sig hlutskipti mjólkurkúa skipta.“ Þær séu fórnarlömb (subjects) „kynferðislegs misréttis og ofbeldis,“ enda þótt þær hvorki „hafi hátt um það né séu skiljanlegar.“

Mackenzie elur þá von í brjósti, að rannsókn hennar ljúki augum almennings upp fyrir því, hvernig mjólkuriðnaðurinn „styðji og sé [um leið] dæmi um niðurlægjandi meðferð kvenlíkama og æxlunar.“ Hún gælir einnig við þá tilhugsun, að rannsókn hennar verði kvenfrelsurum og öðrum réttlætissinnum hvatning til „að taka tillit til dýralíkama í kvenfrelsunarviðhorfum sínum. ... og virða líf dýra eins og væri eigið líf.“ Hún leggur einnig að lesendum, að leggja að jöfnu baráttuna fyrir rétti kúa „með svipuðum röksemdum og aðgerðum og í baráttunni fyrir rétti kvenna, [baráttu] sem fólki er hlíft við sökum forréttinda tengdum kynþætti, kynferði, stétt og svo framvegis.“

„Vaki það fyrir okkur að færa rök fyrir rétti allra lífvera í veröld, þar sem ríkir kynferðisleg og kynbundin kúgun [þ.e. kúgun af karla hálfu], ætti að taka tillit til mjólkurkúa, þegar æxlunarheilsa kvenna er rædd. Það eiga mjólkurkýr skilið,“ segir Mackenzie.

Greinarhöfundur ber saman ófrjóar kusur og óbyrjur, sem svo eru, að eigin ósk. „Konur, sem óska þess að fæða ekki börn, eru skammaðar. Sé kýr [hins vegar] ófrjósöm, liggur leið þeirra í sláturhúsið. Þar eð æxlunarfæri þeirra eru gagnslaus, eru þær ónytjungar [taldar] sem lífverur.“ Þetta kallar höfundur „tvöfalt siðgæði,“ þar sem siðvætt samfélag mundi kveinka sér við því að myrða konur um leið og þær yrðu ófrjósamar.

„Hin úr sér gengna ímynd konunnar sem móðir og uppalandi, lifir góðu lífi í mjólkuriðnaðinum, sérstaklega með hliðsjón af því, hvernig rányrkjunni á skepnunum er hagað,“ t.d. við þá „nauðgun,“ sem í sæðingu felst; við mjöltina, sem er „kynferðislegri misnotkun“ líkust; við „tilfinningalegt áfall kelfdrar kýr,“ sem einnig hefur mátt þola „kynvakameðferð án samþykkis.“

Lokaorð höfundar eru þessi: „Á meðan við berjumst gegn kynferðislegu ofbeldi gegn konum, lokum við augunum fyrir sams konar ofbeldi, sem aðrar lífverður verða fyrir, þrátt fyrir, að leiðir séu færar til að haga lífi sínu á sjálfbærari hátt og sem leiða ekki til misþyrminga á milljónum kvenlíkama.“ Höfundur spyr að lokum, hvers vegna fólk haldi í heiðri auðvaldinu, kynfólskunni og feðraveldinu, þegar því er í lófa lagið að losna við þann ófögnuð allan á einu bretti og stuðla um leið að æxlunarréttlæti dýra.


Kóra (koro) – karlmennskuveiran

(Skrifað 2020)

Í kínverskri menningu er sjúklegt ástand meðal karla nefnt kóra (koro). (Orðið (kura) er sótt til malæ (malay), tungumáls í suð-austur Asíu. Það merkir haus á skjaldböku, sem er dreginn inn í skelina.) Í sjúkdómaskrá norður-ameríska geðlæknafélagsins (Diagnostic Statistical Manual of Mental Disorders – DSM-5) er sjúkdómurinn kallaður reðurrýrnun (shrinking penis), einnig þekktur sem „kynfærarýrnun“ (genital retraction syndrome). Kóra er einnig útbreidd í suð-austur Asíu, Taívan, Indónesíu, Taílandi og Indlandi. Hann þekkist raunar um víða veröld. Sóttin virðist ekki í rénum, heldur færist þvert á móti í aukana - farsótt líkust – einkum þegar um er að ræða samfélagslega upplausn eða óróa. (Á Vesturlöndum er ekki óalgengt, að karlar kvarti undan getuleysi, stinningarvandræðum og kynlöngunarskorti.)

Hinn dæmigerði sjúklingur er veikgeðja, ungur karlmaður, ósjálfstæður og óöruggur í fasi, sem þykir kvíðvænlegt að takast á herðar skyldur karlmannsins, „karlmóðursýki.“ Sóttinni fylgir angist, kvíði, óþægindi frá hjarta, skjálfti og ótti við dauðann. Kórusjúklingar eru haldnir þeirri trú, að reðurinn sé að skreppa saman eða hverfa inn í búkinn, kyngetan að hverfa; að karlmennskan sé á flótta. Sumir upplifa þverrandi manndóm við ósjálfráð sáðlát (spermatorrhea) og óþol, ásamt ónotum í húð skaufans (paresthesia). Aðrir trúa því, að kyn þeirra hverfist í kvenkyn eða þeir verði geldingar. Í Afríku sums staðar trúa karlar því, að fyðli þeirra og kynfjöri hafi verið stolið með galdrabrögðum. Það hefur í einstöku tilvikum leitt til múgsefjunaraftöku hins grunaða.

Kórusóttin var rannsökuð á Taívan, þegar á árunum 1963 – 1965. Hennar gætti sérlega meðal ungra karla, sem áttu í vandræðum með að rísa undir kröfum fullorðinslífsins, gátu ekki séð fjölskyldum sínum farborða. „Svo fór að þeir misstu vinnu sína og drógu sig í hlé frá skelfilegum veruleika og hurfu á vit sjálfmiðaðrar ímyndunar. Þetta afturhvarf lýsti sér síðan táknrænt sem umbreytingareinkenni, þ.e. ofsahræðsla um upplausn og rýrnun reðursins. Í hnotskurn; kóra er karlmóðursýki, sem endurspeglar viðbrögð við stöðugri kröfu um „áorkunarkarlmennsku“ (performative manhood) ... (David D. Gilmore)

Meðal indverskra karla er greindur kyngetukvíði (virility anxiety), sem er eins konar karlsefasýki eða ótti um manndómsskort, getuskort. Til lækninga er notaður frjósemisvökvi, áþekkur sæði, úr eggjahvítu og mjólk.

Kyngetuótti karla er vissulega þekktur aftur um aldir í Evrópu. „Skemmtilega“ sögu er að finna í galdraofsóknahandbókinni frá 1486 (Malleus Maleficarum), eftir galdrafræðinganna, Heinrich Kramer (1430? – 1505) og James Sprenger (1435? – 1495). Þar segir svo frá, að ungur karlmaður varð heltekinn ótta sökum getuleysis. Taldi hann norn eina í þorpinu hafa lagt á sig slík álög, en sú hin sama neitaði sakargiftum.

Söguhetjan tók það til bragðs, að ráfa inn á þorpskrána til að drekkja sorgum sínum. Það vildi honum til happs, að eldri kona ljáði honum eyra. Það stóð ekki á ráðgjöfinni: „Takist þér ekki að telja norninni hughvarf, verður þú að beita hæfilegu ofbeldi, svo þú megir endurheimta heilsu þína.“

Staulinn fór að ráðum drykkjufélaga síns, leitaði uppi nornina, tók hana hálstaki og herti að. Hún náði með erfiðismunum að stynja upp: „Slepptu mér, ég skal lækna þig.“ Að því búnu læddi hún höndunum milli fóta hans og gerði honum glingrur - og mælti: „Nú færðu það, sem þú þráir.“ Að svo búnu læknaðist söguhetjan af kórunni. (Sömu aðferð hafa íslenskar konur beitt til að sefa karla sína allt frá landnámi. Einu sinni var alsiða einnig að sefa drengi með kyngælum. Það heitir kynferðisleg misnotkun í dag.)

(Áþekkur sjúkdómur kóru getur einnig herjað á konur. Hræðsla um rýrnum geirvörtunnar er þá í fyrirrúmi.)

Sem ítarefni mæli ég með viðbrigðagóðri grein um efnið í Wikipedíu.


Konur eiga að vera konum bestar

Þessi áhugaverðu orð hrutu af vörum Huldu Ragnheiðar Árnadóttur við blaðamann Fréttablaðsins 22. sept. síðastliðinn. Hún er talsmaður kvenfélags í atvinnulífinu, tilnefnd af félagi sínu í aðgerðahóp „í því skyni að vinna gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum,“ eins og ritað er á heimasíðu ráðuneytisins. (Það fylgir ekki sögunni, hvað ókynbundin áreitni sé.) Hópurinn er skipaður af hinum efnilega Framsóknarflokksráðherra félags- og jafnréttismála, Ásmundi Einari Daðasyni, 24. ágúst á þessu ári.

Hulda Ragnheiður er einnig álitsgjafi fréttastofu RÚV um samskipti kynjanna á vinnustöðum - og jafnréttismál. Fyrrgreind orð eru eins konar einkunnarorð félags hennar. „Þegar konur taka þátt í þöggun á ofbeldi gegn kynsystur sinni eða þegar þær leggja þær í einelti á vinnustað, það skil ég ekki – [þ]á verð ég hrygg,“ heldur Hulda Ragnheiður áfram. Ofbeldi kynjanna hrærir væntanlega flesta til sömu tilfinningar – skiljanlega. En Huldu Ragnheiði undrar. Stefaníu hina áströlsku undraði einnig, þegar henni var nauðgað af kynsystur sinni. „[É]g átti engan veginn von á því, að kona réðist að mér og nauðgaði, því konur eru í sama liði.“ Sjálfur er ég eins og Lísa í Undralandi.

Hvernig má það vera á upplýstri öld vorri, að ofbeldi kvenna í garð kvenna sé slíkt undrunarefni? Kynsystraofbeldi hefur verið þekkt ámóta lengi og ofbeldi kvenna gegn körlum og börnum af báðum kynjum. Simone de Beauvoir (1918-1986), hinn ágæti heimsspekingur og rithöfundur, sem margir málsmetandi kvenfrelsarar kalla „konuna með kyndilinn,“ undraðist ekki:

„Það er ekki orðhengilsháttur úr bókmenntunum, þegar haft er á orði, að kona sitji á svikráðum við bestu vinkonu sína. Það er staðreynd, að þeim mun nánara sem sambandið verður, þeim mun skeinuhættara verður það einnig,“ skrifaði hún í hinu rómaða verki sína um síðra kynið, þ.e. konuna. Konur eru ekki einungis vondar hverri annarri í vinkvennasamböndum, heldur einnig í atvinnulífinu. Og þær notast við karlana, þegar svo ber undir:

„Á framabrautinni auðsýna konur, að þær standi jafnfætis körlum, [en engu að síður] er það háttur margra kvenna að reiða sig á stuðning karla með kynlífi. Þær leika á báða strengi; krefjast gamalkunnrar virðingar og hinar nýju viðurkenningar. Þannig beita þær gömlum töfrabrögðum og nýta sér nýtilkominn rétt sinn. Það er auðskilið, að þetta [háttalag] fari í taugar karli og að hann snúist til varnar.“ Það gneistar stundum, þegar kona er yfirmaður, því „[kvenyfirmaður] geislar ekki sama öryggi [og karlinn í sömu stöðu]. Konan stífnar, fer yfir strikið, gengur út í öfgar. Í atvinnulífinu svífst hún einskis, er ágeng og kröfuhörð um hollustu (stickler). Einnig í námi skortir hana trú á sjálfa sig, innblástur og hugrekki. Viðleitni hennar til að standa sig skapar spennu. Hátterni hennar einkennist af ögrun og óhlutkenndri staðfestingu á sjálfri sér.“

Rannsóknir síðustu áratuga hafa afhjúpað alls konar ofbeldi kvenna, gagn- og samkynhneigðra, gegn stúlkubörnum, unglingsstúlkum og fullvaxta kynsystrum. Skipa má þeim í nokkra flokka: (1) Samkynhneigðir kvenáreitendur (noncriminal homosexual offenders); fórnarlömb þessa hóps eru unglingsstúlkur um þrettán ára aldur. (2) Samkynhneigðir kven-kynferðisafbrotamenn (homosexual criminals).

Frami þessarar undirgerðar hefst, þegar konurnar eru rúmlega tvítugar. Svo virðist sem þær kunni að vera knúnar áfram af hagnaðarvon, þar eð þær þvinga kynsystur sínar til vændis. Fórnarlömb þeirra eru iðulega stúlkur um ellefu ára aldur. (3) Ýgir, samkynhneigðir kven-kynferðisglæpamenn; konur af þessari gerð ráðast oft og tíðum að kynsystrum á fertugsaldri og eru sjálfar eldri heldur en gerist og gengur meðal kynsystranna í öðrum undirhópum. (4) Ungir kvenbarnaníðingar (young adult child exploiters): Þessir níðingar fara síst í kyngreiningarálit og níða börn af báðum kynjum. Meðalaldur þeirra er 28 ár, en fórnarlömbin um 7 ára. (5) Kven-kynofbeldisvargar (female sexual predators): Þessir vargar eru rétt undir þrítugu og velja sér fremur drengi, en stúlkur að fórnarlömbum. Konur í þessum undirhópi virðast oftar en konur í öðrum hópum eiga fortíð á annars konar glæpabraut. (Stærsti hópurinn er reyndar gagnkynhneigðar konur, sem velja sér drengi sem fórnarlömb. En hér er ekki gagngert fjallað um kvenofbeldi gegn drengjum.)

Rannsóknir benda ennfremur til, að langstærsti hluti kvenkyns ofbeldismanna komi úr fjölskyldu fórnarlambsins, en um fjórðungur þeirra eru barnapíur, kennarar eða dagmömmur/leikskólakennarar. Ýmist er talið, að unglingsstúlkur misnoti kynin til jafns eða stúlkur heldur oftar. Fórnarlömbin eru að jafnaði 5.2 ára og í helmingi tilvika eru afbrotin hrottaleg. Hlutföll eru mismunandi, hvað flokkun afbrotamanna viðkemur, barnapíur eru ýmist taldar eiga sökina í 68% til 100% tilvika.

Í þessu ljósi er því ekki að undra, að kvenfræðimenn um okkar mundir taki sumir hverjir undir áður tilgreind orð Simone de Beauvoir: Dæmi: „[O]fbeldi kvenna gegn kynsystrum sínum er látið í þagnargildi, sökum afneitunar kynferðisofbeldis af hálfu kvenna.“ (Lori B. Girshick.) „[Það er] misskilningur að halda, að konur sýni öðrum konum samstöðu vegna kynferðis. Þvíumlíkur misskilningur getur [þvert á móti] torveldað uppgötvun ofbeldis konu í garð konu.“ – „Slík „sjónskekkja“ stuðlar að því, að ekki er um málið fjallað (discursive impossibility).“ (Laura Sjoberg.)

Hugsanlega talar kanadíski blaðamaðurinn og rithöfundurinn, Patricia Pearson, afdráttarlausast: „Allar konur, hvort sem þær hafa meiri eða minni völd í fyrirtækjum, stjórnmálum og fjölskyldum, stunda hernað eða löggæslu – láta sitt ekki eftir liggja, hvað ofbeldi viðkemur.“ Hún varar við þöggun kvennaofbeldis gagngert: „Það hefur margs konar afleiðingar að horfast ekki í augu við þátttöku kvenna í ofbeldi. Það hefur áhrif á hæfni okkar til að kynna okkur [konur] sem sjálfstæðar og ábyrgðarfullar mannverur. Það hefur áhrif á hæfni okkar til að segja sögur um sjálfar okkur og leika á alla strengi mannlegra tilfinninga og reynslu. Það óvirðir fórnarlömb okkar. ...

En umfram allt er það líklega svo, að afneitun kvenýginnar grefur rækilega undan tilraunum okkar, menningarinnar, til að taka til róta ofbeldisins og uppræta það.“ Patricia lét þessi orð falla um það leyti, þ.e. undir lok síðustu aldar, þegar stóðu yfir fleirþjóðleg réttarhöld vegna stríðsglæpa í Júgóslavíu og Rúanda. Réttarhöldin leiddu í ljós hryllilega glæpi kvenna gegn konum og stúlkum (og drengjum vitaskuld); nauðganir með prikum, hnífum og flöskum, hvatningu til nauðgunar af hálfu karla og tilskipanir til karlhermanna um kynferðislegt ofbeldi.

Kunnastar eru trúlega Pauline Nyiramasuhuko frá Rúanda og Bijana Plavsic frá Bosníu. Sú fyrrnefnda skipaði m.a. karlhermönnum sínum (að eigin syni meðtöldum) að nauðga kynsystrum og kveikja síðan í þeim. Það er kaldhæðnislegt til þess að hugsa, að áðurnefndar konur neituðu báðar sök í réttinum og héldu því fram fullum fetum, að óhugsandi væri, að mæður og ömmur sýndu slíka mannvonsku.

Aðrar konur fóru mildilegar að. T.d. í Darfúr (Súdan) og Rúanda létu konur sér nægja að kyrja hvatningarsöngva til karla sinna, meðan þeir nauðguðu kynsystrunum. Laura Sjoberg hefur m.a. skoðað umrædda kvenglæpamenn - „konuna óhugsandi.“ Hún segir: „„[K]onan óhugsandi“ – ofbeldiskonan, sem í átökum og stríði beitir kynferðislegu ofbeldi – á sína tilveru. Og hún er ekki afbrigðileg. „Hana“ er að finna ... við átök víðs vegar í veröldinni á hinum og þessum tímaskeiðum og við alls konar aðstæður, tengdum menningu, tungumálum, trúarbrögðum, þjóðerni, stétt og tilbrigðum við kynferði í alþjóðamálum.“

Um leið og ég tek undir orð Patricíu og Lauru, geri ég vonglaður boðskap Simone de Beauvoir að mínum: „Ásteyting [kynjanna] mun halda áfram, meðan karlar og konur viðurkenna ekki hvort annað sem jafningja; þ.e. meðan kvenmennskan sem slík er óbreytt. ... Það er fánýtt að útdeila sök og hrósi. Í raun er svo torsótt að rjúfa vítahringinn, þar eð hvort kynið um sig er fórnarlamb sjálfs sín og hins. ... [E]ngum er þetta stríð til góðs.“


Kjöt og kynjastjórnmál. Karlar eru dýraníðingar

(Birtist í Bændablaðinu 4. júní 2020)

Á áttunda áratugi liðinnar aldar óx svonefndum vistkvenfrelsunarfræðum fiskur um hrygg. „Vistkvenfrelsun er það svið kvenfrelsunar, þar sem litið er til umhverfishyggju (environmentalism) og tengsla kvenna við jörðina sem grundvöll greiningar og starfs.“ (Wikipedia) Kjötneysla er í brennidepli:

„Kjötneysla er í eðli sínu kynbundin aðgerð, sem er nátengd kerfisbundinni hlutgervingu kvenna og (annarra) dýra,“ segir norður-ameríski heimspekingurinn, Christina van Dyke, í bókarkafla sínum; „Karlmannlegt kjöt og kynbundið át“ (Í safnritinu: Heimspekin er komin til kvöldverðar: rökræður um siðferði átsins. (Philosophy Comes to Dinner: Argument About the Esthics of Eating (2016)).

Grundvallarkennisetning vistkvenfrelsunar eins og annarra sviða kvenfrelsunarfræða, er sótt til frumherjans, Elizabeth Cady Stanton (1815-1902) árið 1868, tuttugu árum, eftir að hún færði í letur frelsisyfirlýsingu kvenna í Seneca Falls. Kennisetningin hljómar svo: „Karlinn er þrunginn tortímingu; harðneskjulegur [og] sjálfselskur. Hann unnir stríði, ofbeldi [og] sigurvinningi, miklast af sjálfum sér og leggur að fótum sér. Eins og í hinum veraldlega heimi sáir hann í siðferðið ósætti, glundroða, sjúkdómum og dauða.“

Franskir kvenfrelsarar með heimspekijöfurinn,Simone de Beauvoir (1918-1986) í broddi fylkingar, plægðu fyrstar þann akur, sem nú er kallaður kvenvistfræði (eco-feminism) upp úr miðri tuttugustu öldinni. Í verki sínu, „Síðra kyninu“ (eða „hinu“ kyninu; Le Deuxiéme Sexe), gaf hún tóninn í anda fræðamóður sinnar frá Norður-Ameríku: „Hvarvetna og á öllum skeiðum sögunnar hafa karlar notið þess blygðunarlaust að vera herrar sköpunarverksins.“ Náttúra og kona eru lögð að jöfnu sem kúgunarviðfang karlsins.

Næst kveður sér hljóðs á frönsku vígstöðvunum, Francoise d‘Eaubonne (1920-2005) í bókinni, „Kvenfrelsun eða dauðinn ella“ (Féminisme ou la Mort), sem útkom árið 1974. Þar heldur hún því fram, að feðraveldið hafi kúgað og drottnað yfir konum, litskinnum, börnum, fátæklingum og náttúrunni, og hafi þegar valdið óbætanlegum skaða.

Nú tóku norður-amerískir kvenfrelsarar við keflinu, m.a. Mary Daly (1928-2010) með bók sinni „Kynvistfræði. Grundvallarsiðferði róttækrar kvenfrelsunar“ (Gyn/Ecology: The Metaethics of Radical Feminism).“ Bókin kom út árið 1978.

Samkvæmt Mary sagði Francoise d‘Eaubonne, að „engin „bylting“ undir forystu karlmanna myndi spyrna við hryllingi offjölgunar mannkyns og eyðileggingar auðlinda. Ég geri þessa forsendu að minni, en nálgun mín og áhersla er önnur. Enda þótt mér séu hugleikin allra handa tilbrigði mengunar í reðurtæknisamfélagi [voru], er í bók þessari, „Kynvistfræði “ (GynEcology – „kvenlækningar!“) einkum fjallað um hug/anda/líkams-mengun, sem átt hefur sér stað við goðsagnir og tungumál feðraveldisins á öllum stigum.“

Árið 1990 gaf nemandi Mary, Carol J. Adams (f. 1951), út afar merka bók, „Kynjastjórmál kjötsins: Gagnrýnin kenning á grundvelli grænkerakvenfrelsunar“ (The Sexual Politics of Meat: A Feminst-Vegetarian Critical Theory (1990). Fjórtán árum síðar fylgdi hún bókinni eftir með verkinu, „Kjötklámi“ (The Pornography of Meat).

Í hnotskurn er boðskapur höfundar sá, að snar þáttur menningar vorrar sé að smætta dýr í neysluvöru. Kjötið og neysla þess sé athöfn, sem tákni drottnun karla á konum. Rauði þráðurinn í bókinni er limlesting karla á dýrum, sem minnir á misnotkun karla á konum, hvernig þeir notfæra sér og niðurlægja konukroppinn.

Dýrið er beitt ofbeldi, segir Carol: „Þegar dýrum er slátrað, verða þau fjarstödd viðmið. Dýrið og nafnið og líkaminn er firrtur til að dýr megi verða að kjöti. Líf dýra er forsenda ... tilurðar kjötsins. Lifandi dýr gætu ekki verið kjöt. Þannig kemur dauður líkami í stað lifandi dýrs. Kjötát ætti sér ekki stað án dýra. Engu að síður eru þau fjarstödd við átið, því þeim hefur verið umbreytt í fæðu.“

Karlar virðast ekki vilja gangast við dýraofbeldinu: „Tungumálið varpar hulu á raunveruleika kjötátsins og styrkir þannig táknræna merkingu þess, [þ.e.] að það sé eðlislægt feðraveldinu og körlum. Kjötát verður að tákni þess, sem sjónum er hulið, en ævinlega til staðar – drottnun feðraveldisins yfir dýrum og tungumáli.“ ...

„Að sumu leyti eru allir meðvitaðir um kjöt og kynjastjórnmál. Þegar við hugsum sem svo, að karlmenn – sérstaklega karlíþróttamenn – hafi þurft fyrir kjöt eða þegar eiginkonur, sem gefið hafa kjöt upp á bátinn, elda það fyrir karla sína, koma í ljós tengsl kjötáts og þróttmikils karls.“ Konur eru annars flokks borgarar, hið síðra kyn Simone de Beauvoir:

„Konur, annars flokks borgarar, leggja sér fremur til munns það, sem álitið er vera annars flokks fæða í feðraveldismenningunni; grænmeti, ávexti og korn, í stað kjöt. Með kynfólskunni, sem í kjötsnæðingnum er fólgin, er endurtekin stéttaaðgreiningin [milli kvenna og karla] með viðauka; þeirri goðsögn, sem tekur sér bólfestu í öllum stéttum manna, að kjöt sé karlmennafæða og að hvoma í sig kjöti sé karlmannlegur gjörningur.“

Kjötát karla felur í sér ofbeldi gegn dýrum á sama hátt og gegn konum: „Á sama hátt og kvenfrelsarar lýstu því yfir, að „nauðgun“ væri ofbeldi, en ekki kynlíf, stendur hugur grænkera til þess að tala um ofbeldi kjötátsins.“ ... „Karlar sem berja konur [sínar] nota oft og tíðum kjötleysi sem afsökun fyrir ofbeldi gegn þeim.“

Því snýst kvenfrelsun ekki einvörðungu um konur: „Fremur er um að ræða víðtækari kúgunargreiningu, sem felur í sér frelsunarhugsjón langt út yfir mörk frjálslyndisjafnréttis, og tekur til annars konar lífs handan þess mannlega.“ ...

„Það er trú okkar, að kvenfrelsunarfræði sé umbreytingarheimspeki, sem miði að umbótum á öllu lífi jarðar, öllum tilbrigðum þess, öllum náttúrulegum einingum þess. Það trú okkar, að kúgun í öllum myndum sé samtengd. Frelsi einnar lífveru er hjóm, þar til tekst að frelsa allar frá misnotkun, niðurlægingu, rányrkju, mengun og viðskiptum.“ (Carol J. Adams og Josephine Donovan: Animals and Women: Feminist Theoretical Explorations)

Persónuleg yfirlýsing Carol hljómar svo: „Ég er grænkerakvenfrelsari, þar eð ég er eitt dýr meðal margra og ég óska þess ekki, að þetta samband einkennist af neyslustigveldi.“


Katrín mikla, knattspyrna og kosningar

Á lokadegi ágústmánaðar (2021) bauð RÚV upp á prýðilega dagskrá, þar sem leiðtogar stjórnmálaflokkanna kynntu stefnu sína og flokkanna. Þannig er eins áður í pottinn búið, að landsmönnum er boðið upp á það gervilýðræði, sem í flokkakosningu felst. Hver og einn Alþingismaður á það við samvisku sína, hvað hann segir og gerir á Alþingi. Íslenska flokkakerfið hefur verið vettvangur siðspillingar, velgjörða og hyglina, í áratugi, enda ber stjórnsýslan (framkvæmdarvaldið) og dómskerfið því vitni.

Ég beið þess í ofvæni, hvort einhverjum leiðtoganna hefði vitrast sú stjórnmálasýn, að gera gangskör að því að auka sjálfsvald fólks í bága við þá forsjárhyggju, sem liggur eins og rauður þráður um flokkana og rimpar þeim hugmyndafræðilega saman. Allir eru sammála um, að það sé þeim falið að kunna fótum landsins barna forráð, enda eru þeir uppteknir við það – á bærilegum launum – að semja hinar og þessar stefnur eins og skólastefnu, lýðheilsustefnu og fjölskyldustefnu. Í því efni var grátbroslegt að heyra frá formanni áberandi kvenfrelsunarflokks, að hann ætlaði að efla fjölskylduna. Það ætti að vera fólgin greinileg mótsögn í því.

Samstaðan um forsjána birtist skemmtilega í orðaskiptum fulltrúa Sjálfstæðisflokks (dulbúinn jafnaðarmannaflokkur með séríslensku yfirbragði) og Sósíalistaflokks (sem er yfirlýstur jafnaðarmannaflokkur, þó ekki þrunginn byltingaranda) um heilbrigðismál. Sá frjálslyndari þeirra vill leggja á mig skatt til að versla síðar fyrir hann þá heilbrigðisþjónustu í einkageiranum, sem læknar hjá hinu opinbera kynnu að skilgreina hyggilega eða nauðsynlega. Sósíalistaflokkurinn (og Vinstri-græn) vill gera það sama, en þó ekki versla fyrir mig hjá einkaaðiljum. Hann bíður líklega ekki í grun, hvað mér leiðast biðraðir og heimska.

Ég hef lengi velt vöngum um árangurinn af starfi ríkisstjórnarinnar. VG telur það helst til afreka að hafa fengið þingheim til að samþykkja kvenfrelsunar- og hinsegin lög um tilurð kynleysunnar. Framsóknarflokkurinn hefur unnið þarfaverk, þ.e. að leggja niður stjórnmálamannakjörnar barnaverndarnefndir og stækka umdæmi þeirra. En því miður fylgdi engin alvöru umræða um barnavernd og þá laumulegu stjórnarstefnu, að færa ábyrgð og völd í sífellt meira mæli frá foreldrum til sérfræðinga opinberra stofnanna og skrifræðis.

Hver eru afrek ríkisstjórnarinnar í atvinnu- og fjármálum? Hún valdi þann kost (einfalda smithugsun) í veirufárinu, sem skaðskemmdi atvinnulífið. Lækningin var umtalsverð lántaka til að bjarga því, sem bjargað varð. Ríkissjóður stendur rammskakkur eftir. Hin nýja þula í ríkisfjármálum er einföld; eyða sig út úr fjárhagsvandræðum, m.a. með hinni fáránlegu „ferðagjöf“ (endurgreiddur skattur) og stuðningi við hin og þess fyrirtæki, risafyrirtæki jafnt sem sprotafyrirtæki. Ofbeldisiðnaðurinn var einnig studdur til að bæta hag kvenna og skapa kvenfrelsurum atvinnu.

Stjórnmálamenn eru oft og tíðum spaugsamir. Aðalskemmtiatriði kvöldsins var sjálfsánægja ríkisstjórnarflokkanna með árangurinn í efnahagsmálum. Það gengur nefnilega miklu betur, en hefði verið hægt að hugsa sér að gengi.

Ég hafði einnig átt von á því að heyra um fjölmiðlastefnu, sérstaklega með tilliti til RÚV. Ekki bofs! Undir lok þáttarins var ég farinn að örvænta. Ætluðu leiðtogarnir ekki að nefna „jafnrétti“ á nafn heldur. En umræða um þann grip snýst iðulega um hlutföll, þegar hallar á konur, og kynferðislegt ofbeldi af hálfu karla stöðugt og hvarvetna.

En eins og oft áður kom Katrín mér til bjargar – eitilhörð að vanda: „Af því að það hefur ekki verið spurt um jafnréttismál, þá er það þannig, að við verðum að halda áfram að berjast gegn kynbundu og kynferðislegu ofbeldi og áreitni. Umræða dagsins [aðför RÚV að Knattspyrnusambandi Íslands á rásmarkinu] segir okkur það, umræða síðustu fjögurra ára hefur sagt okkur það. Það er búið að gera margt; réttarbætur, forvarnaráætlanir og fleira. En þetta er auðvitað algerlega óásættanlegt. …

Ég er 45 ára, ég er búin að horfa upp á þetta alla mína ævi, og vil sjá meiri árangur á minni ævi. Þess vegna ætla ég að halda áfram að berjast fyrir því, að þetta verði forgangsmál í stjórnmálunum og rati alltaf á dagskrá í öllum umræðuþáttum fyrir allar kosningar.“ [Hún gerir þetta reyndar á fundum á alþjóðavettvangi eins og NATO.]

Þáttur Katrínar í kvenfrelsun Íslendinga verður seint ofmetin. Hún er dugnaðarforkur á því sviði sem öðrum. Á stjórnmálaferlinum hefur hún markvisst unnið að því að koma fyrir í stjórnkerfinu kynsystrum sínum með sömu meinloku og hún sjálf, þ.e. að kven(eðlis)væða íslensk samfélag. Nú er svo sannarlega lag, því kyni er, lögum samkvæmt, úthlutað. „Úthlutunarráðið,“ sem vafalítið er í burðarliðnum í einhverri mynd, mætti skipa kvenfrelsunarsystrum. Það yrði enn þá eitt víghreiðrið.

Katrín hefur í ráðuneyti sínu stofnað enn eitt verkfæri til áróðurs og kvenfrelsunaráhrifa, stjórnsýslueiningu, sem eins og hliðstæð fyrirbæri í stjórnsýslunni, lýtur stjórn sérvalins kvenfrelsara. (Þó ekki Höllu Gunnarsdóttur í þetta sinn. Hún er flúin á vit þjáningasystur sinnar í ASÍ.)

Svokölluð jafnréttismál hafa verið ofarlega á baugi hjá fráfarandi (um stund) ríkisstjórn. Í viðbót við eflingu ofbeldisiðnaðarins var „mee-too“ sefasýkin gerð að nokkurs konar stjórnarstefnu. Meira að segja hinn hógværi, Sigurður Ingi (sem sífellt líkist meira forvera sínum, Ólafi Jóhannessyni, heitnum) skrifaði undirsátum sínum og skipaði þeim að sitja á stráki sínum; þeir mættu alls ekki áreita konur.

Það má Katrín eiga, að hún fer aldrei í grafgötur með meinloku sína: „… samt er það svo að hér á Íslandi bárust lögreglu um níu hundruð tilkynningar um heimilisofbeldi á síðasta ári og fjöldi kvenna og barna þurfti að leita ásjár Kvennaathvarfsins. … [Þær hörfa alla vega ekki í karlaathvarf, því það vill Katrín í nafni jafnréttis ekki styrkja með skattfé.]

Við höldum glugganum opnum, eins og lagt var til með yfirskrift tilraunaverkefnis Lögreglunnar á Suðurnesjum á sínum tíma, en það verkefni hefur nú orðið að fyrirmynd fyrir verklag lögreglu í heimilisofbeldi, ekki aðeins hér á landi heldur víða um heim. [Þ.e. að fjarlægja karl af heimili sínu og stinga honum í tukthús, kvarti húsfreyja um ofbeldi af hans hálfu – eða aðrir, nágrannar, vinkonur.] …

Ofbeldi gegn konum er bæði orsök og afleiðing misréttis kynjanna. #églíka eða #metoo bylgjan afhjúpaði, einu sinni enn, kerfisbundna áreitni og misrétti gegn konum í öllum lögum íslensks samfélags. …

Ég er stolt af því að tilheyra pólitískri hreyfingu, Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, sem hefur um langa hríð haft kvenfrelsi sem einn af hornsteinum sinnar stefnu. Þessar áherslur hafa ratað inn í ríkisstjórnarsamstarfið og get ég meðal annars nefnt að aðgerðaáætlun um úrbætur í meðferð kynferðisbrota hefur verið fjármögnuð að fullu og Istanbúl samningurinn var fullgiltur sl. vor. [Samningur á vettvangi Evrópu um afnám alls misréttis gegn konum, sem leiddur er í lög á Íslandi, þ.e. konur eru lagalega skilgreindar sem fórnarlömb karla.] …

Stýrihópur á mínum vegum vinnur að heildstæðum úrbótum að því er varðar kynferðislegt og kynbundið ofbeldi en þar á meðal stendur til að taka forvarnarmál föstum tökum og að móta stefnu um stafrænt kynferðisofbeldi. Það er jafnframt mín von að þegar jafnréttismálin verða flutt í forsætisráðuneytið – sem mun gerast nú um áramót – getum við nýtt samhæfingarafl forsætisráðuneytisins til að efla jafnréttismálin enn frekar þannig að öll ráðuneyti og allar stofnanir ríkisins séu meðvitaðar um sinn þátt í að stuðla að jafnrétti, frekar en að viðhalda misréttinu.“

Um „me-too“ bylgjuna segir Katrín: „Bylgjan afhjúpaði faraldur kynferðislegrar og kynbundinnar áreitni og ofbeldis sem konur þvert á samfélagið og heiminn hafa þurft að þola. Við skuldum öllum þessum konum, konum sem ekki gátu sagt frá, og framtíðarkynslóðum, að skapa stefnu og þrýsta á breytingar þannig að sá raunveruleiki sem afhjúpaður var í #metoo verði fljótlega eitthvað sem lesið verði um í sögubókum.“ Katrín ítrekar:

„Félagslegar og samfélagslegar breytingar hafa aldrei orðið án baráttu. #metoo krefst þess að við höldum áfram að spyrja erfiðra og ágengra spurninga vegna þess að kynjamisrétti, sem tengist öðru misrétti, er eitt stærsta og þrálátasta böl okkar tíma. Aðeins með því að halda samtalinu gangandi og þrýsta á breytingar til batnaðar getum við færst nær samfélagi jafnréttis.“ Hér mælir karldjöflatrúarmaður af innstu sannfæringu.

Katrín hefur lengi þjáðst af vandlætingu í garð knattspyrnuhreyfingarinnar. En hún er af mörgum kvenfrelsurum talin eitt af höfuðvígjum eitraðrar karlmennsku. Það ríður á að afeitra og kvengera. Þegar Katrín var ráðherra menntamála ávítaði hún hreyfinguna eins og Lilja Alfreðsdóttur nú. Svo hljómar frétt Vísis frá því í nóvember 2009:

„Fjármálastjóri KSÍ á strípibúllu, með kreditkort sambandsins á lofti, skilur eftir blett segir menntmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir. Hún fundaði með yfirstjórn íþróttahreyfingarinnar í dag.

Stjórn Knattspyrnusambands Íslands ákvað að ekkert yrði aðhafst í máli Pálma Jónssonar, fjármálastjóra félagsins, vegna eyðslu hans upp á um 3 milljónir króna á þáverandi gengi á nektarstað í Sviss árið 2005. Greitt var fyrir næturskemmtunina með kreditkorti í eigu KSÍ. Menntamálaráðherra, sem einnig er ráðherra íþróttamála, kallaði eftir útskýringum á málinu og fundaði með formanni og framkvæmdastjóra Íþrótta- og ólympíusambands Íslands í dag. Þar var málið útskýrt og beðist velvirðingar á því. Menntamálaráðherra tekur þeirri afsökunarbeiðni en segir málið ævarandi blett á starfsemi KSÍ.

Kvennahreyfingin fordæmir málalyktirnar og bendir á að íþróttahreyfingin gefi sig út fyrir að vera fyrirmynd fyrir æsku landsins og haldi uppi kröftugu forvarnarstarfi, og þiggi vegna þess miklar fjárhæðir frá hinu opinbera. Hún krefst þess að stjórn KSÍ víki eftir að upp komst um það sem kallað er vítavert framferði fjármálastjórans og máttleysisleg viðbrögð stjórnarinnar í kjölfarið.“

Það er skiljanlegt, að karlvandlætingarmælir Katrínar hafi fyllst við þessi ósköp. En nú, tólf árum síðar, rætist draumur Katrínar um síðir. Stjórn sambandsins og framkvæmdastjóri er kominn á kné og kvenfrelsunarrannsóknarréttur stofnaður. Þegar þáttur Katrínar í kvenfrelsun íslenskrar þjóðar verður brotinn til mergjar, kæmi mér ekki á óvart, að hún hlyti viðurnefnið mikla eins og þýsk/rússnesk kynsystir hennar og stjórnandi eins skæðasta feðraveldis sögunnar.

Nú er sum sé gengið til flokkakosninga einu sinni enn í lýðveldissögunni. Vinstri græn, sem m.a. boða frekari kvenfrelsun (enda þótt slíkt sé rökfræðilegur „ómöguleiki“) – eins og reyndar flestir flokkar - og boða vistkerfisleg ragnarök – eins og reyndar flestir flokkar – telur rúma tíund landsmanna. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur sáu til þess, að Katrín kæmist í lykilstöðu til áhrifa, þrátt fyrir smæð hreyfingarinnar. Þetta er stjórnmálalegt ofbeldi. Við vitum, hvernig kjósa skal, svo rætist draumur leiðtoganna þriggja um að stjórna þjóðinni í fjögur ár til viðbótar.

Katrín mikla er ekki einungis kvenfrelsunarþjóðarleiðtogi. Hún haslar sér einnig völl á hinu alþjóðlega sviði og prikar í fótspor frægasta kvenfrelsara Íslands úr stjórnmálunum, Ingibjörgu Solrúnu Gísladóttur. Hún gæti innan tíðar orðið „kommissar“ hjá Sameinuðu þjóðunum.

https://edition.cnn.com/2019/09/17/opinions/katrn-jakobsdttir-gender-inequality-intl/index.html?no-st=1568708912


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband