Bloggfærslur mánaðarins, júní 2024

Valkyrjan valinkunna og stríðsóvitarnir á Alþingi Íslendinga

Valkyrjan, Þórdís Kolbrún, spyr: Hví kaupum við vopn handa Úkraínumönnum? Hún svarar:

“Vegna þess að fólk sem berst fyrir sjálfstæði sínu og frelsi gegn blóðugri innrás þarf vopn til að verja sig. Ef við ættum vopn, þá myndum við senda þau. En þegar kemur að fjármagni þá viljum við nýta það til brýnustu þarfa Úkraínu, samkvæmt þeirra eigin mati.“ …

„Varnir eru ekki andstaða við frið heldur eru varnir til að verja friðinn.“ …

„Ísland er og verður á hernaðarlega mikilvægum stað.“ …

„Það hefur því verið áhersla mín, í góðu samráði við utanríkismálanefnd Alþingis og ríkisstjórn að Ísland leiti allra leiða til þess að sýna vina- og bandalagsþjóðum okkar fram á að við séum verðugir bandamenn. Sú skuldbinding sem aðrar þjóðir hafa gert gagnvart okkur krefst þess að við séum fær um að taka skýra afstöðu með þeim þegar ógnir steðja að þeim.“ …

„Höfum líka í huga að öll helstu vina- og bandalagsríki ganga mun lengra í stuðningi við Úkraínu og ekkert þessara ríkja lætur beinar hótanir og ógnandi talsmáta Rússa slá sig út af laginu.“ …

„Ísland er friðsælt. Fjarlægð frá heimsins vígaslóð hefur verið okkar besta trygging fyrir þessari friðsæld gegnum aldirnar. Nútíminn virðir slíkar fjarlægðir engu.“ …

Það er næsta augljóst, að Þórdís Kolbrún hefur gengið í utanríkismálaskóla herskáasta jafnaðarmannaflokks þjóðarinnar og þess kristilegasta. En hún mætti að ósekju læra rökhugsun og framsetningu á íslensku, bæði í ræðu og riti. Þekking skiptir reyndar ekki máli í þessu sambandi, því um utanríkistrúmál er að ræða.

En sumir lesenda kynnu að hafa áhuga á því að vita, að Úkraína er ekki aðildarríki Nató (ennþá) og þar af leiðandi eiga Íslendingar engum varnarskyldum að gegna gagnvart íbúum hennar.

En hins vegar gæti Þórdís Kolbrún, ásamt ríkisstjórn og utanríkismálanefnd, orðið sér úti um hjálm og byssu, lagst í austurvíking og höggvið mann og annan.

Andstætt öfugsnúnum þankagangi stríðsóvitanna á Alþingi Íslendinga, hafa Rússar ævinlega verið Íslendingum vinveittir, þrátt fyrir trúboðshyggju stjórnvalda í Kreml á tímum Ráðstjórnarríkjanna.

Það er grandskoðað og almælt, að úkraínsk samfélag sé meðal alspilltustu ríkja heims, og þar eru öll lýðréttindi fótum troðin. Bandaríkin og Bretar (Nató) steyptu lýðræðislega kjörinni stjórn Úkraínu af stóli og málamyndastjórn tók við. Þegar ný stjórn var lýðræðislega kjörin, var friður eitt af kosningaloforðunum. En borgarstríðið, sem málamyndastjórnin lýsti á hendur rússneskumælandi íbúum Donbass, hélt áfram.

Friðarsamningarnir tveir, sem kenndir eru við Minsk, og Rússar áttu frumkvæði að, voru sviknir af Úkraínustjórn, Nató og Öryggiráði Sameinuðu þjóðanna (þ.e. þeir síðari).

Rússar hafa í aldarfjórðung beðið um frið, jafnvel þátttöku í Nató. Þeir hafa þrásinnis bent á, að innganga Úkraínu væri öryggisógn. Þegar þýsku ríkin voru sameinuð og Kremlverjar drógu herlið sitt í Þýskalandi og Austur-Evrópu tilbaka, var þeim lofað, að útþensla Nató í austur myndi ekki eiga sér stað.

Ítrekað hafa Rússar beðið um samninga, síðast á árinu 2021, áður en innrásin í Úkraínu hófst. En Nató hefur skellt skollaeyrum við – og Íslendingar með. Þess má líka geta, að Bandaríkjamenn sögðu upp samningunum um langdræg kjarnorkuvopn, og stofnuðu í Úkraínu og víðar í nágrenni Rússlands, rannsóknastofur, sem sýsluðu með lífefna- og eiturvopn.

Hvar var þá hin friðelskandi þjóð á landinu, sem „.. er og verður á hernaðarlega mikilvægum stað,“ fjarri „heimsins vígaslóð [sem] hefur verið okkar besta trygging... Nútíminn virðir slíkar fjarlægðir engu.“

Ég geri ráð fyrir, að Þórdís Kolbrún eigi við, að fjarlægð dugi ekki til varna. (Það hefur hún reyndar aldrei gert.) Þar rekst henni nefnilega rétt orð á munn.

Þórdís tíundar ógnir frá Rússum. Þeir hafa reyndar engu ríki í Evrópu ógnað, nema Úkraínu nú. Austan Svartahafs vörðust þeir „litskrúðsbyltingum“ (color revolution) Bandaríkjanna og málaliða þeirra í Tétníu og árásum Georgíumanna í Abkasíu.

Öðru máli gegnir um bandamenn okkar, Bandaríkin og Nató. Nató sprengdi Líbíu, Afganistan, Írak og Beógrad, í tætlur, hernam Kosovó og hluta Sýrlands. Ætli Þórdís Kolbrún hafi hugmynd um það? Bandaríkin, sem Nató skópu, hafa stundað sífelldar árásir á önnur ríki á „friðartímum.“ Norðmenn hafa verið sérstaklega liðtækir við að sprengja fólk í loft upp.

Því er það nú sem fyrr, að líklega stafar Íslendingum helst ógn af svokölluðum bandamönnum sínum; Bretum, Bandaríkjamönnum, Dönum og Norðmönnum. Þeir síðastnefndu efndu til borgarastyrjaldar á Íslandi og þráuðust við að viðurkenna sjálfsstæði þjóðarinnar. Hinar þjóðirnar hafa allar hernumið Ísland.

Þórdís Kolbrún lætur hjá líða að nefna, að Natóríki eins og Slóvakía og Ungverjaland, taka afstöðu gegn stríðsbröltinu í Úkraínu. Meira að segja Ítalir harðneita að senda þangað hermenn. Þórdís skipar sér í stríðsóðustu Natósveitina með þjóðum eins og Finnum, Eistum, Lettum, Pólverjum og Frökkum.

Ætli Þórdís Kolbrún, ríkisstjórnin og utanríkismálanefnd, átti sig á því, að veröldin sé á barmi kjarnorkustyrjaldar?

Hvar er nú Þorgeir Ljósvetningagoði?

https://www.visir.is/g/20242581243d?fbclid=IwZXh0bgNhZW0CMTEAAR3NJ1fUa34voisXcVCZHD3A0VX2C6D0JWA5Ht3yEFigTJIO5t62Kf8B7JE_aem_AS09fMn0rdijPUa2LGFCK6zzCbzDKtkm78dvZ6z9L0On3YlR7EV_DbzF1dmgva7lw1Cxs8r2KctMkMYXxSiyVDZH


Robert Fico "upprisinn.“ Fyrsta ræðan: Tilræðismaðurinn var ekki einn á báti

Eins og menn muna væntanlega var Robert Fico, forsætisráðherra Slóvakíu, sýnt morðtilræði þann 15. maí. Hann lifði af og hefur nú flutt sína fyrstu ræðu. Endursegi nokkur aðalatriði:

Robert segist ekki bera kala til tilræðismannsins. Hann sé boðberi illsku og stjórnmálahaturs, fullyrðir Robert. „Ég hef ekki ástæðu til að ætla, að hér sé um að ræða vitfirring, sem einn sé á báti.“

Hann rekur misbeitingu valds fyrrum stjórnvalda í Slóvakíu gegn stjórnarandstæðingum og blaðamönnum, fangelsun og morðum jafnvel, án athugasemda frá alþjóðastofnunum.

Undirgefni fyrri stjórnvalda í Slóvakíu gagnvart stórþjóðum og hagsmunagæslu í þeirra þágu, er honum einnig hugleikin. Sjálfstæð utanríkisstefna var illa séð. Vegið var að fullveldi þjóðarinnar á vettvangi Nató, Evrópusambandsins og af hálfu erlendra félagssamtaka.

Robert lýsir andófinu innan Evrópusambandsins og Nató vegna afstöðu hans til Úkraínustríðsins, stöðvun vopnasendinga og ákalls um friðarsamninga. Það virðist eins konar þráhyggja að koma þurfi Rússum á kné, sama hvað það kosti. Þeir, sem ekki kokgleypa það fagnaðarerindi, eru sakaðir um að ganga erinda Rússa, og þeim útskúfað.

Það gætti óhamingju í Nató, þegar ég neitaði að taka þátt í loftárásum á Beógrad (Serbíu, Júgóslavíu), segir Robert ennfremur eða þegar ég kallaði heim hermenn okkar frá Írak.

Í Evrópusambandinu vakti það ekki lukku, þegar Robert stóð í vegi fyrir afnámi neitunarvaldsins og samþykktar skyldukvóta fyrir ólöglega flóttamenn. Rétturinn til mismunandi skoðana í Evrópusambandinu er horfinn, segir Róbert.

Hví eigum við ekki stjórnmálamenn af þessu bergi á Íslandi?

https://steigan.no/2024/06/robert-fico-jeg-tilgir-attentatmannen-noen-sto-bak-ham/?utm_source=substack&utm_medium=email


Tjáningarfrelsið og kjarnorkuváin. Scott Ritter meinað að ferðast til Rússlands

Úkraínsk stjórnvöld skilgreina bandaríska vopnaeftirlitsmanninn, Scott Ritter, sem „upplýsingahryðjuverkamann.“ Því skal hann tekinn úr umferð, jafnvel drepinn. Hann er á svarta lista þeirra með velþóknun yfirvalda í Bandaríkjunum. Scott hefur gagnrýnt utanríkismálastefnu Bandaríkjanna.

Á John F. Kennedy flugvellinum var hann gripinn glóðvolgur á leiðinni til Sankti Pétursborgar. Hann var sviptur vegabréfi sínu, án skýringa.

Í umræðuþætti Andrew Napolitano, sem reyndar var einnig á leið til sama staðar, er um atvikið fjallað og sömuleiðis um yfirvofandi kjarnorkustríð. Hvernig munu Rússar svara frekari eldflaugaárásum Vesturveldanna inn í Rússland? Skoðanir Scott og Gilbert Doctorow í þessu sambandi eru afar áhugaverðar.

Rússnesk yfirvöld hafa þráfaldlega varað við þessari þróun og leggja áherslu á að beitt verði skammdrægum kjarnorkuvopnum. Scott gerir sér í hugarlund, að Natólönd verði skotmörk, Gilbert ímyndar sér hins vegar, að Kænugarður verði fyrsta skotmark. Reynslan mun skera úr um það. Vesturlönd eru í raun varnarlaus, sökum yfirburða Rússa á vopnasviðinu.

Samtímis heyja bandarísk yfirvöld stríð gegn eigin þegum til að svipta þá lýðréttindum eins og tjáningarfrelsi og ferðafrelsi í nafni lýðræðis, frelsis og þjóðaröryggis. Sömu þróunar gætir víðar eins og t.d. í Kanada. Justin Trudeau sendi fanta sína til að þakka niður í „Rússafræðingnum,“ Patrick Armstrong. Hann gagnrýnir stefnu Kanadastjórnar og Vesturlanda. Hann kallar Nató „pappírskisu.“

https://gilbertdoctorow.com/2024/06/04/10461/ https://www.globalpolitics.se/har-usa-blivit-en-polisstat/ https://www.unz.com/mwhitney/every-escalation-brings-washington-closer-to-defeat-in-ukraine/ https://www.globalresearch.ca/russia-victory-ukraine-near/5859083 https://www.youtube.com/watch?v=0PGxPvK0Bw4 https://patrickarmstrong.ca/author/gparmru/ https://patrickarmstrong.ca/2021/12/16/csis-comes-to-call/ https://patrickarmstrong.ca/2021/12/16/csis-comes-to-call/ https://denniskucinich.substack.com/p/us-targets-journalists-who-criticize?utm_source=post-email-title&publication_id=1441588&post_id=145302471&utm_campaign=email-post-title&isFreemail=true&r=ry8jq&triedRedirect=true&utm_medium=email https://gilbertdoctorow.com/2024/06/04/freedom-of-speech-in-the-u-s-a-think-again/


Sögukennsla Jeffrey Sachs og Vladimir Putin. Heimur á hverfandi hveli

Flestum ætti að vera ljóst, að Íslendingar eru stefnulausir í utanríkismálum eins og Þórdís Kolbrún hefur bent á. Við fylgjum hinum, sagði hún. „Hinir“ eru í raun stríðssjúklingarnir, sem Bandaríkjunum stjórna í blóra við vilja almennings.

Flestum ætti líka að vera ljóst, að bandarísk stjórnvöld hafa háð nær látlaus stríð frá annarri heimstyrjöldinni og þverbrotið alla góða siði, reglur og alþjóðalög, eins og náinn bandamaður, Ísrael – og Nató vissulega einnig.

Stríð og dráp yfirvalda hafa kostað bandarískan almenning gríðarlega fjármuni og orðið hundruðum þúsunda að fjörtjóni, en að sama skapti tryggt Bandaríkjunum yfirburðastöðu með tilliti til stjórnmála, hernaðar og viðskipta. Bandaríkin hafa herstöðvar í 80 löndum eða hér um bil, um 800 að tölu. Ísland er raunverulega slík herstöð.

Herstöðvum Bandaríkjamanna fjölgar skart á Norðurlöndunum og við Eystrasalt, þar sem tekist hefur að æra stjórnvöld til að vígbúast af kappi og blása lífi í Rússafælnina. Norski stríðsfautinn, Jens Stoltenberg, á þar drjúgan hlut að máli.

Stríðið í Úkraínu og Gaza – enn þá háð að mestu við hjálp staðgengla – eru síðustu afrekin. RÚV og ríkisstjórnin hafa viljað telja okkur trú um, að ýmist Rússar eða Palestínumenn hafi tekið frumkvæði að þessum stríðum að tilefnislausu og allt sé þeim að kenna. Í þeirra fátæklega huga byrjaði veraldarsagan í þessu viðfangi annars vegar 7. okt. 2023 og 24. febrúar í 2022.

Þeir, sem söguna þekkja, og eru lausir við stjórnmálatrú, vita, að svo er ekki. Hér gefst áhugasömum kostur á að fræðast af tveim afburðakennurum, sem báðir hafa lifað og hrærst í atburðarásinni um áratugi, gagnmenntaðir báðir.

Jeffrey Sachs er hnífskapur greinandi, bandarískur hagfræðingur og afi. Hinn þekkja trúlega allir af vondu umtali, lögfræðinginn, Vladimir Putin eða Vonda-Valda, forseta Rússneska ríkjasambandsins, sem er maður gagnfróður og snjall, jafnvel þótt hafi látið blekkjast af fagurgala stjórnmálamanna í „Villta vestrinu,“ hvað eftir annað. En það er komið annað hljóð í strokkinn. Nú skulu Bandaríkin og Nató ekki komast upp með meiri moðreyk.

Tucker Carlson er viðmælandi beggja og ferst það hlutverk ljómandi vel úr hendi, enda er maðurinn fróður og beinskeyttur. Sagnfræðingurinn, T.P. Wilkinson, skrifar fróðlegar athugasemdir um viðtölin.

Afskaplega fræðandi, meira að segja um veirustríðin. Fróðleiks- og viskubrunnur! Ausið úr honum, sérstaklega þið, sem hafið látið telja ykkur trú um, að við séum að verjast Rússum, og hugrekki hafið. Rússagrýluafturgangan fer ljósum logum í fjölmiðlum og á ríkisstjórnarfundum. Afinn, Jeffrey, gefur okkur ráð; göngum ekki fram á gnípu kjarnorkustyrjaldar.

Þá er heldur ekki úr vegi að minna á rússneska kafbátaforingjann, sem forðaði heiminum frá kjarnorkustyrjöld 1962, Vasily Arkhipov (1926-1998). Við stöndum öll í þakkarskuld við hann. (Sbr. bók Martin Sherwin (1937-2021), „Heimstortímingaráhættuleikinn: Kjarnorkurúllettuna frá Hirosima til Kúbukreppunnar“ (Gambling with Armageddon: Nuclear Roulette from Hirosima to the Cuben Millile Crises).

Dómgreindarskorturinn og vitfirringin, sem er svo dæmigerð fyrir vestræna stjórnmálamenn um þessar mundir, lýsir sér vel í orðum finnska forsætisráðherrans, Alexander Stubb. „Leiðin til friðar liggur um vígvöllinn.“

Fleiri forystumannaóvitar hafa látið svipaða speki út úr sér eins og Kaja Kallas og okkar ástsæla stríðsgyðja, Þórdís Kolbrún.

Íslensk stjórnvöld beita íslenska skattgreiðendur siðferðilegu og lýðræðislegu ofbeldi með milljarðaflóði skatta þeirra til gjörspilltra og stríðsbrjálaðra yfirvalda í Úkraínu. Það er rík ástæða til að ætla, að drjúgur skerfur þessara fjármuna rati inn á einkareikninga stjórnmála- og embættismanna í „fyrirmyndarlandinu.“

Enn eru nokkrir stráklingar á lífi þar um slóðir, sem etja má á blóðforaðið.

https://www.msn.com/en-us/news/world/finnish-president-stubb-s-grim-forecast-the-path-to-peace-in-ukraine-is-through-the-battlefield/ar-BB1m9cfV https://www.amazon.com/Gambling-Armageddon-Roulette-Hiroshima-1945-1962/dp/0307266885 https://www.bbc.com/news/world-europe-24280831 https://www.vice.com/en/article/bvmdqa/the-story-of-the-soviet-submarine-officer-who-saved-the-world-is-now-an-opera https://allthatsinteresting.com/vasili-arkhipov https://www.globalresearch.ca/unbecoming-american-tucker-carlson-jeffrey-sachs/5858828


Forsætisráðherra friðar í Ungverjalandi og ódælu, íslensku ófriðarmennirnir

Einhver stærsta friðarganga Evrópu fór fram í Budapest nýlega, um það leyti sem valkyrjan íslenska, Þórdís Kolbrún, seildist í vasa íslenskra skattgreiðenda eftir ógnarlegum fjármunum til stríðsins í Úkraínu. Á meðan reyndi Viktor Orban að hugga óhamingjusama landa sína í Úkraínu. Stríðinu lýkur senn, sagði hann.

En það eru óneitanlega blikur á lofti. Nató (og Íslendingar þar með taldir) ætla að orna sér við kjarnorkuelda, eftir því sem best verður séð.

Viktor, sem lengst hefur setið forsætisráðherra í Evrópusambandinu, þykir ódæll alheimssinnum og eymdarhyggjufólkinu (woke); hann hefur stöðvað óheftan flaum flóttamanna, sem hrekst undan stríðum Bandaríkjamanna, Ísraels og Nató. Og svo gefur hann – eins og Vondi-Valdi Putin – kynja- og kynleysufræðingum langt nef. Lengra er varla unnt að komast í skömminni.

Í ræðu sinni, sem Viktor m.a.:

Stríð færir okkur engan sigurvinning, heldur tjón. Fyrrum vorum við neyddir inn á vígvöllinn. Og við lutum í lægra haldi. Og þannig mun það fara nú, á þessu Herrans ári 2024. Í fyrstu heimstyrjöldinni urðum við að sjá á eftir tveimur þriðju hlutum lands okkar. Í öðrum heimsófriðnum var herjum Ungverja tortímt á framandi grundu.

Það voru engir eftir á ættjörðinni til að vernda hana, konur okkar og börn. Við vorum svo magnþrota, að friðarsamningar við sigurvegarana voru torveldir. Í heimstyrjöldunum féll hálf önnur milljón Ungverja – og með þeim börn og barnabörn, sem hinir látnu hefðu eignast.

Ó, hversu sterkt hefðum við ekki staðið, væri þetta fólk meðal okkar í dag. Enn þá einu sinni er þess krafist, að við geysumst fram á vígvöll. En ég skal tala hægt og skýrt, þannig að Brussel megi skilja: Við ætlum okkur ekki í stríð. Við örkum ekki í austurátt í hið þriðja sinn, við höldum ekki til rússnesku víglínunnar aftur.

Við höfum verið þar áður og höfum enga ástæðu til að vera þar. Við ætlum ekki að fórna ungu kynslóðinni á altari stríðsglæframanna og peningapúka. Við höfnum stríðsgróðaáætlunum, svo stríðsherrarnir megi leggja undir sig eignir Úkraínumanna og gæta hagsmuna stórveldanna.

Þessar áætlanir eru ekki nýjar af nálinni og við erum þeim kunnugir. Þegar, fyrir þrem áratugum síðan, skrifaði George Soros [ungversk-bandarískur auðjöfur, sem hagnaðist óhemjulega á falli breska pundsins] eigið undirróðurshandrit. Samkvæmt því átti að leggja Rússa að velli með vestrænni tækni og ódýru, austur-evrópsku vinnuafli. Hefði því verið tortímt mætti nota flóttamenn í staðinn.

P.s. Í umfjöllun Steigan.no um málið er frá því sagt, að norskir vopnaframleiðendur (Kongsberg Gruppen) hefði gert sölusamning að andvirði 141 milljóna Bandaríkjadala um eldflaugar (Joint Strike Missiles) fyrir F-35A (bandarískar) orrustuþotur.

https://steigan.no/2024/06/orban-europa-taler-ikke-en-ny-krig/?utm_source=substack&utm_medium=email https://telex.hu/english/2024/06/03/orban-the-time-has-come-for-exorcism-because-the-only-other-option-is-world-war https://magyarnemzet.hu/english/2024/06/the-biggest-ever-life-changing-peace-march-starts-today#google_vignette https://www.msn.com/en-us/news/world/orb%C3%A1n-stages-a-peace-march-in-hungary-in-a-show-of-strength-before-european-parliament-election/ar-BB1nskDF


« Fyrri síða

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband