Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2021
Nola Webb er hæstaréttardómari frá Nýja Suður-Wales í Ástralíu. Þar sem fjöldi skilnaðarmæðra hafði borið sig illa undan fjölskyldudómstólum ríkisins, sérstaklega með tilliti til staðhæfinga þeirra um kynferðislega misnotkun feðra á börnum sínum, ákvað hún, ásamt þrem öðrum að gera rannsókn á efninu. Einn samstarfsmanna hennar er sálfræðingurinn, Lawrence Moloney, við La Trobe háskólann.
Frumúrtakið tekur til í 521 máls, þar sem ákærur um kynferðislega misnotkun af hendi feðra, höfðu verið settar fram. Öll þeirra eru tíunduð í gagnasafni Lagaupplýsingarstofnunar Ástralasíu (Australasian Legal Information Institute). Um er að ræða mál, sem komu fyrir dóm á árabilinu 2012-2019. Í endanlegu úrtaki voru 380 mál, sem hlotið höfðu fullnaðarmeðferð í dómskerfinu, þ.e. við fjölskyldudómstól.
Það vekur nokkra furðu, þegar endanlegt þýði er skoðað, að felld voru út mál, þar sem mæður einnig settu fram annars konar ákærur. Þetta er greinilega þýðissnyrting, ekki ósvipuð þeirri, sem oft og tíðum á sér stað við kvenfrelsunarrannsóknir. Þegar slíkar rannsóknir eru gerðar er þýðið eða úrtakið ósjaldan sérvalið til að tryggja, að niðurstöður verði í samræmi við kvenfrelsunarhugmyndafræðina.
Niðurstöðurnar eru í stuttu máli þessar: Fölsk ákæra af ásetningi 20%; fölsk ákæra af misgáningi 43%; fölsk ákæra af öðrum orsökum 25%. Réttar ásakanir voru 12% - sem vissulega er 12% of mikið. En mig býður sterklega í grun, að hefði þýðið ekki verið snyrt, sæum við hærra hlutfall falskra ákæra.
Lawrence segir: Lykilniðurstaðan er í raun sú, að andstætt almennum væntingum, er hlutfall kynofbeldis [af hálfu feðra í garð barna] lágt.
Þessar niðurstöður eru kvenfrelsurum sár vonbrigði. Einn þeirra, Grant Wyeth, þjóðmálasérfræðingur, skrifar í The Diplomat, að niðurstöður rannsóknarinnar bendi til, að konur séu litnar tortryggnisaugum við fjölskyldudómstólana: Þessi vantrú á mæðrum, og þörfin fyrir að refsa þeim fyrir ákærur um misnotkun barna, sýnir fram á harðneskju í þeirra garð af hendi ástralska ríkisins í blóra við almenn gildi. Hann heldur áfram: Ríkisvaldið leikur varhugaverðan leik með manngæsku okkar með því að grafa undan [gildi] móðurhvatarinnar [við mat] á sálarheill barnanna. Hér er um að ræða náttúrlögmál, sem ríkisvaldið ætti að sýna miklu meiri virðingu. (Slíkar staðhæfingar myndu vafalaust fá hárin til að rísa í makka margra kvenfrelsara sérstaklega kynleysukvenfrelsaranna.) Nánari skýringu telur Grant vera þá, að ofríkiskarlar (supramacist) hafi náð tökum á opinberum stofnunum til óheilla fyrir lýðheilsuna.
Þess má að lokum geta, að hér er ljóslifandi kominn hinn skapskyggni heiðursmaður, Grant Wyeth, sem var meðhöfundur Sigrúnar Sifjar Jóelsdóttur að greininni: The Misogynist Violence of Icelands Feminist Paradise. Sannast nú sem oftar; líkur sækir líkan heim. (Bjóði þeim svo við að horfa, gætu áhugasamir gluggað í grein mína um þau skötuhjú: Sigrún Sif Jóelsdóttir; ofbeldi íslensku kvenfrelsunarpardísarinnar, á: arnarsverrisson.is og arnarsverrisson.blog.is.)
https://onlinelibrary.wiley.com/doi/full/10.1002/ajs4.171
Jafnrétti er þula eða mantra vorra tíma. Það má einu gilda, hvert litið er, til eigin samfélags eða alþjóðastofnana. Jafnrétti kynjanna er mál málanna. Og hver vill ekki jafnrétti?
Kvenfrelsunarhreyfingar hafa gert jafnrétti að þungmiðju stefnu sinnar og helsta baráttumáli. Einu sinni þótti það t.d. hagsmunamál kvenna að stofna sérstaka skóla handa þeim. Körlum var bannaður aðgangur. En konur hafa almennt verið boðnar velkomnar í menntastofnanir, sem opnar voru körlum, í um það bil eina og hálfa öld. Þannig hefur jafnrétti frá upphafi svonefndrar frelsisbaráttu kvenna, verið rammskakkt. Jafnréttisskútan siglir í alvarlegum hliðarhalla, en skríður glatt fyrir það í með- og beitivindi. Það eru auðkýfingar og lýðræðislegar ríkisstjórnir, sem blása vindi í seglin. Svo hefur verið frá upphafi. Hvernig má það vera?
Áróður kvenfrelsaranna hefur verið svo árangursríkur, að misréttisjafnréttishugsun hefur skotið rótum í hugskoti almennings. Löggjöf vestrænna ríkja er orðin alvarlega menguð þessari hugsun, svo og allt opinbert líf. Sú hugsun hefur meira að segja ratað inn í íslenska löggjöf, alþjóðasamninga og -stofnanir, t.d. Sameinuðu þjóðirnar, Evrópusambandið, Alþjóðaefnahagsráðið (World Economic Forum) og fleiri, að konur hafi um aldir alda verið kúgaðar af körlum og séu það enn.
Það heyrist þó gagnrýnisrödd á stangli. Hérna ritar norður-amerískur lögfræðingur, Robert Franklin, um málefnið á grundvelli gagnrýni sinnar á jafnréttisstefnu Gates-stofnunar auðkýfinganna, Bill og Melinda Gates, sem feta í fótspor fyrri sjóða af þessu tagi og bera morð fjár á kvenfrelsara í baráttunni fyrir misréttisjafnréttinu. Starfsemi kvenfrelsunarsamtaka er fjármögnuð af auðkýfingum og hinu opinbera.
Höfundur kemur víða við og fjallar skilmerkilega um stöðu kynjanna; við skilnað fá mæður miklu frekar forsjá barna; konur eiga auðveldara með að ættleiða börn; faðernissvik (Í Frakklandi er það einn þá ólöglegt fyrir föður að biðja um prófun erfðaefnis (DNA); harðneskjulegri meðferð afbrotastráka en -stúlkna; skemmri ævi karla; yfirgnæfandi fjöldi þeirra, sem sjálfsmorð fremja, eru karlar; rammskakkt jafnvægi kynjanna í æðri menntun (höfundar segir karla vera fjörutíu og þrjá að hundraði, en sjötíu er nær lagi); drengir eru um sextíu af hundraði þeirra, sem heltast úr lestinni í framhaldsskóla; litið er fram hjá þeirri staðreynd, sem legið hefur fyrir í tæpa hálfa öld, að kynin berja hvort annað ámóta oft á heimavelli; hlutfall kynjanna í athvörfum er hins vegar einn karl á móti fimm hundruð konum.
Umfjöllun höfundar um nýjustu getnaðarvörnina, Vasalgel, fyrir karla er athyglisverð. Samkvæmt heimasíðu Parsemus Foundation, sem vinnur að þróun hennar (Revolution Contraceptives), þ.e. vörn, sem ekki truflar kynvakastarfsemi, hefur langan verkunartíma og ekki er skaðleg líkamanum. Áþekk vörn var reyndar fundin upp af brasilískum vísindamanni fyrir áratugum síðan en eftirminnilega hafnað af forkólfum kvenfrelsaranna. Hvers vegna? Jú! Þeir töldu nefnilega, að getnaðarvörn myndi knýja karla til frekara kynofbeldis gegn konum.
Greinarhöfundur gerir orð mexíkanska skáldsins, Octavio Paz Lozano (1914-1998) að sínum: Í spilltu samfélagi ber brýna nauðsyn til að hreinsa kolbruna tungunnar. Því byrjar gagnrýnin á samfélagið með málfræði og endurheimt merkingar.
Niðurlagsorðin eru: Það færi vel á því að byrja á hugtakinu; kynjajafnrétti.
https://thewordofdamocles.com/blogs/family-law/gates-foundation-funds-gender-equality-nope
Einu sinni enn bíður stórveldi ósigur í Afganistan. Bandaríkjamenn hafa nú háð langvinna styrjöld í landinu með stuðningi Sameinuðu þjóðanna og NATO ásamt beinni íhlutun þess síðarnefnda. Meira að segja kotþjóðir eins og Danir og Norðmenn létu sig ekki muna um að fórna tugum ungra karla í frelsisstyrjöldinni. Og Norðmenn einni konu, muni ég rétt. Bandaríkjamenn fórnuðu aftur á móti tæplega hálfu þriðja þúsundi hermanna, rúm tuttugu þúsund særðust. Bandarískir skattgreiðendur greiddu um eina trilljón dala fyrir frelsunarævintýrið.
Innrás Bandaríkjamanna og NATO er síður en svo fyrsta innrásin, sem Afganar hafa brotið á bak aftur. Reyndar eru Afganar ekki þjóð í merkingunni tiltölulega samstæð heild manna, sem talar sömu tungu og býr við svipaða menningu. Hið stórskorna og hátignarlega landsvæði, sem vistar Afgana, hefur um aldir verið í þjóðleið milli Mið-Asíu og Suður-Asíu, Miðausturlanda, Litlu-Asíu og Indlands. Það gefur því að skilja, að þjóðir Afganistans, þjóðarbrot, ættbálkar og ættflokkar, geymi flókna sögu menningar, trúarbragða og tungumála.
Um Afganistan hafa legið leiðir fjölda innrásarherja og fólksflutningastrauma eins og til núverandi Pakistans og Indlands og Írans. Afganir eru kunnir tortímendur innrásarherja. Þekktust er líklega innrás Grikkja eða Makedóníumanna (327 e. Kr.), undir forystu Alexanders mikla. Hann lagði undir sig löndin fyrir botni Miðjarðarhafs og hina fornu Persíu (Íran) og Afganistan. En afgönsk ör varð honum næstum að fjörtjóni, svo hetjan hætti við frekari landvinninga í Suður-Asíu.
Það var yfirlýst stefna Alexanders að skapa frið og uppræta illa menningu. Það ætluðu líka Bandaríkjamenn og NATO að gera. Hernaðartilburðir Alexanders marka fyrstu bylgju evrópskra landvinninga og íhlutunar meðal íbúa Miðausturlanda og Suður Asíu. Þjóðir Litlu-Asíu og hluta Mið-Asíu, þ.e. við Svartahaf og Kaspíahaf, höfðu þeir þegar undirokað á þessum tíma.
Tæpast hefur Alexander þó alfarið stundað menningartrúboð, heldur verið að slægjast eftir auðæfum og völdum, þegar allt kemur til alls, jafnvel þótt grísk menning hafi haft upp á ýmislegt gott að bjóða. Sama má segja um alla hina heimsvaldasinnana eins og Mongóla (Genghis Kahn (1158?-1227) og sonarsoninn, Hulagu Kahn (1216-1265)), Rússa og Breta ( sem núorðið standa helst í stríðsrekstri með vinum sínum eða með aðstoð þeirra meira að segja í Falklandsstríðinu). Því Afganistan er landfræðilega mikilvægt, en aukin heldur ríkt af auðlindum eins og olíu, gasi og málmum. Þrælasala er og var vitaskuld einnig ábatasöm tekjulind.
Enda þótt Múhameðstrú sé nær alls ráðandi í Afganistan, er enn þá unnt að finna ástundun annarra trúarbragða, sem jafnvel eiga rætur í menningu, er blómstraði, áður en arabísku bylgjurnar þrjár skullu á íbúunum. Sú síðasta þeirra átti sér stað, þegar herskáir Arabar gengu til liðs við uppreisnarmenn flestra þjóða Afgana gegn rússneska innrásarliðinu, sem byltingarmenn (marxistar) báðu ásjár árið 1978. (Fyrsta bylgja arabískra áhrifa skall á Afgönum síðla á sjöundu öldinni.) Í landinu eru einnig iðkuð trúarbrögð eins og Búddatrú, Hindúatrú og kristni.
Hugmyndafræði og trúarbrögð eru áberandi í þeim hildarleikjum, sem háðir hafa verið og enn eru háðir í þessu hrjáða landi. Það er nefnilega óbrigðul aðferð innrásarherja að beita trúarbrögðum, hugmyndafræði (annarri), menningu, tungu og vopnum (stundum sjúkdómum) við kúgun sína og hernám samfélags og huga.
Önnur bylgja evrópskrar eða vestrænnar íhlutunar í líf íbúa landa Miðausturlanda og Suður-Asíu hófst með krossferðum kirkju, kónga og stórhöfðingja síðla á elleftu öldinni. Það vakti í orði kveðnu fyrir þeim að frelsa heilagan vettvang kristinnar sögu. Krossfarirnar urðu þrjár og stóðu yfir í um það bil tvær aldir og lögðu grundvöll að hatursfullum samskiptum fólks af kristinni trú og Múhameðstrú, skapaði grundvallarklofning milli þessara trúarbragða.
Þriðja bylgjan hófst með útrás evrópsku stórveldanna um höfin blá að áliðinni fimmtándu öldinni. Bretar gerðu sig sem kunnugt er sérstaklega heimakomna á fyrrgreindum slóðum (og Íslandi einnig). Arfur þeirra og annarra hernaðarvelda evrópskra skiptir enn þá sköpum með tilliti til ríkjamyndunar, þjóðernis, menningar, efnahags og trúarbragða (í veröldinni allri reyndar).
Nefndar þjóðir stofnuðu meira að segja bandalag, þ.e. Þjóðabandalagið, til að leggja blessun yfir valdbrölt sitt og arðrán. Sameinuðu þjóðirnar spruttu úr þeim jarðvegi, enda hafa þar tögl og haldir stórveldi gömul og ný, ásamt yfirumsjón með samningu og samþykkt alls konar laga, samninga, samþykkta og sáttmála, sem yfirleitt gagnast þeim best sjálfum. Dæmi er samningnum um kvenfrelsun og afnáms alls ofbeldis gegn konum, svo og mannréttindasáttmálinn, sem m.a. Eleanor Roosevelt (1884-1962) tók þátt í að semja, en hún var kunnur kvenfrelsari.
Innrás Bandaríkjamanna í Afganistan, sem í mörgu tilliti hafa tekið við stöðu gömlu móðurþjóðarinnar sem alheimsdrottnari, auðvald og frelsisútvörður, er síðasta birtingarmynd hins djúpa klofnings trúarbragða, hagsmuna og menningar Vesturveldanna og hinna. Það mætti jafnvel tala um fjórðu bylgju vestrænnar íhlutunar og ýgi. Slíkur klofningur kyndir undir óeiningu, ófrið, hryðjuverk, morð og fordóma á báða bóga.
Hugmyndafræðilegt vopnabúr vestrænna þjóða, hefur auðgast af markvissri beitingu hugmyndafræði kvenfrelsunar, þ.e. að konur þjóða, sem fyrir innrásinni verða, séu kúgaðar af körlum sínum, og ættu því að snúast á band með innrásarliðinu. Samtímis er höfðað til karlfórnarlundar og riddaralundar innrásaraliðsins með neyð kvenna.
Slík tilhöfðun er þó ekki alveg ný af nálinni. Bresk stjórnvöld beittu þessari brýningu á strákana, sem voru ófúsir að fylgja herforingjum sínum í dauðann. Sögðu þýskum konum nauðgað af ljótum (þýskum) körlum. Í fyrri heimsstyrjöldinni beittu kvenfrelsararnir sömu aðferð á strákana. Væru þeir deigir og bleikir fengu þeir hvíta fjöður, tákn ræfildóms og hugleysis. Eins og ævinlega í rás sögunnar hafa karlmenn aldrei mátt neitt aumt og kvenlegt sjá, án þess að steðja til varnar.
Afganar eru trúlega um þrjátíu og átta milljónir eða svo. Fjórar þjóðir eru þar mest áberandi: Pastún (Pasthun) rúm fjörutíu af hundraði, Tælík (Tajlik) rúmur fjórðungur og Hasarar (Hazara), sem telur um tíunda hluta þjóðarinnar. Nefndir þrír hópar tala tungur eða mállýskur af persneskum eða írönskum toga eins og Pasto (Phasto), farsi og dari. Usbekar (Uzbek) eru einnig um tíund íbúa. Þeir tala aftur á móti túrkmenska eða tyrkneskt ættað tungumál.
Afganir hafa munað sinn fífil fegri, lifað í stórveldi eða heimsveldi. Durrani stórveldið eða Sadozai konungsríkið sá dagsins ljós á átjándu öld og tók til miklu stærra landsvæðis en Afganistan er um þessar mundir. Það var reyndar annað stærsta heimsveldi Múhameðstrúarmanna, næst á eftir Ottóman veldinu á síðari hluta átjándu aldar. Síðasti konungur Afgana var Mohammed Zahir Shad (1914-2007). Honum var velt úr sessi, sex árum áður (1973) en innrásarlið Ráðstjórnarríkjanna (Rússlands) hóf fjögurra ára langan stríðsrekstur sinn í landinu.
Afganistan á landamæri að fjölda landa eins og Pakistan (og Indlandi áður fyrri), Íran, Kína, Túrkmenistan, Usbekistan, Tadsjikistan (og Ráðstjórnarríkjunum eða Rússlandi áður fyrri). Íbúar þess eru á engan hátt einangraðir innan núverandi landamæra, heldur búa einnig í nálægum löndum eða ríkjum. Sambúð hinna mismunandi þjóða og ættbálka, hefur ævinlega verið róstusöm og ofbeldisfull með fjöldamorðum og þjóðernishreinsunum, þar sem í valnum hafa legið karlar, konur og börn. Einkum hafa Múhameðstrúarmenn, sem aðhyllast mismunandi túlkanir Kóransins, borist á banaspjótum. Talibanar eru því ekki einasta nemendur í öfgafgullri Múhameðstrú heldur einnig hermennsku og hryðjuverkum.
Talibanar eða trúarlærlingarnir eru sköpunarverk Pakistana, um aldarfjórðungs gamalt, en þar hefur orðið mikil endurnýjun fyrirmenna og foringja. Pakistan varð til skömmu fyrir miðja síðustu öld, þegar bresk-indverska heimsveldið klofnaði um það bil eftir trúarbrögðum, þ.e. Pakistanar eru eins og flestir Afgana, Múhameðstrúar.
Trúarlærlingarnir eru verkfæri Pakistana til aukinna áhrifa á svæðinu, sögulega einkum gegn áhrifum Írana og Rússa. Þeir hafa eins og aðrar stríðsfylkingar í Afganistan, gerst sekir um skelfileg níðingsverk. En níðingsverk og þjóðernishreinsanir eru þar um slóðir engin nýlunda - eins og víða um heim.
Eftir að Íranir féllu úr náð Bandríkjamanna hafa þeir í auknum mæli veðjað á vináttu við Tyrki, Sádi Araba og arabísku furstadæmin til að varðveita og efla ítök sín á umræddu svæði. Vegna Innrásar Rússa stigu þeir í vænginn við Pakistana. En sem fyrr sagði, eru trúarlæringarnir skilgetið afkvæmi þeirra. Nauðsyn bar því til að strjúka kvið. Það kviknuðu tímabundnar ástir með nefndum fjendum.
Árangur þessara samfara varð allra handa stuðningur við trúarlærlingana, m.a. nýtísku vopn, sem erkifjandi Bandaríkjamanna, Osama bin Laden (1957-2011), sem Barrack Obama (f. 1961), forseti Bandaríkjanna, lét myrða í Pakistan, beitti síðar, ásamt bandamönnum sínum, í baráttunni gegn Rússum og afgönskum bandingjum þeirra. (Bandaríkjamenn framleiddu meira að segja áróðurkennslubækur fyrir Taliban handa Afgönum, þar sem hvatt var til baráttu gegn hernámi útlendra herja.)
Sömu vopnum var síðan beitt í hryllilegri borgarastyrjöld, sem fylgdi í kjölfarið, og lagði endanlega efnahaginn í rúst. Það er reyndar grátbroslegt og sorglegt, að svipuð saga endurtaki sig nú, þegar innrásarlið Bandaríkjamanna og NATO hverfur með skottið milli lappanna. Vopn þeirra og búnaður, sem skattgreiðendur Vesturlanda hafa greitt, fellur í skaut trúarlæringanna og andlegra afkomanda Osama bin Laden til frekari hryðjuverka, kúgunar og landvinninga. Frá eru talin þau hergögn, sem afganski málamyndaherinn flúði með til annarra landa.
Ástandið í Afganistan minnir óneitanlega á önnur frelsisstríð, vestrænna þjóða. Þau stuðla aldrei að eiginlegum friði í kristnum kærleika, heldur skapa hatur og skilja eftir sig sviðna jörð, meðan fordómaklyfturinn stækkar og jarðvegur hryðjuverka auðgast. Stríðið elur af sér kvislinga, sem hljóta vond örlög, nái þeir ekki að flýja. Eins og í Víet Nam leggja innrásarherirnir loftbrú til að forða þeim, sem þeir vildu frelsa undan landsmönnum og menningu.
Í Afganistan hafa þessir herir haft sérstakt lag á því að skapa sér andstöðu meðal almennings með sams konar hryðjuverkum og andstæðingarnir hafa beitt og óbilgjarnri aðför að menningu þeirra. Sama má segja um alla þá spillingu, sem þrifist hefur í skjóli innrásarhersins, samtímis því, að stoðum hefur verið kippt undan eðlilegu atvinnulífi með neyðaraðstoð og alls konar gerviatvinnulífi, þ.e. þjónustu við herliðið og gæluverkefni af vestrænum toga.
Það er fróðlegt að fylgjast með fréttaflutningi af þessum atburðum. Íslenskir stjórnmálamenn geta með engu móti skilið, að allt þeirra starf að kvenfrelsun og mannréttindum en það var þáttur Íslendinga í innrásinni og hersetunni skuli unnið fyrir gýg. Utanríkisráðherra er jafnvel enn þá hjárænulegri en vanalega. Fréttastofa RÚV veit varla í hvorn fótinn hún eigi að stíga. Rannsóknarblaðamönnum hennar er torskiljanlegt, að konur í Afganistan vilji ekki láta frelsa sig - og lýsa því svo dramatískt, hversu illir trúarlæringarnir eru við konur. Miðillinn segir trúarlærlingana misþyrma konum, þegar þeir segjast vera að vernda þær (fyrir sjálfum sér væntanlega). Þegar mikið liggur við er Stella Samúelsdóttir, forstýra UN Women á Íslandi kölluð til vitnis.
En sannleikurinn virðist sá, að trúarlærlingarnir eru vondir við margt fólk, karla ekki síður en konur. Þeir eru líka vondir við forna menningu í eigin landi, andlega og áþreifanlega. Sprenging fornfrægra Búddalíkneskja í loft upp er eitt dæmi um eyðileggingarþörf þeirra og öfgafullan rétttrúnað. (Þó voru þeir ekki einhuga um þessa ósvinnu.)
Athygliverðasta nýsköpun trúarlærlinganna í löggæslu er vafalaust Siðvendnilögreglan, sem óneitanlega minnir á siðgæðisdeild lögreglunnar íslensku á hernámsárunum og nú á kvenfrelsunarsiðgæðistímum, þegar hópur manna er að eltast við karla, sem kaupa sér drátt. En kynblíðusölu- og vændiskaupakonurnar eru ekki eltar uppi. Það væri eltihrellaleikur og kynbundin ósvífni. Og hvaða lögreglumaður vill gerast sekur um slíkt athæfi.
Athyglisverð greining hjá Glúmi. Því má við bæta, að enginn flokkanna andæfði breytingu á refsilöggjöfinni, þegar kaup á vændi voru gerð refsiverð og þegar leidd var í lög sú söguskoðun, að konur væru fórnarlömb karla. Sömuleiðis hefur enginn flokkur beitt sér í alvöru fyrir stjórnarskrárbreytingum og allir styðji þeir í raun skerðingu ellilífeyris og opinbera forsjá á öllum sviðum mannlífsins.
Allir flokkar ríghalda í RÚV, opinbera þjónustu og lífeyrissjóðskerfið. Flokkur fólksins og Miðflokkurinn andmæltu auknu svigrúmi til geðþóttafóstureyðinga mæðra og hinum undarlegu lögum um "kynrænt sjálfræði." Það má hrósa þeim fyrir það. En mikilvægir haukar Miðflokksins hverfa af næsta þingi. Fornri stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins gegn stjórnlyndi, þ.e. að leggja áherslu á sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga, frelsi til athafna, án aðþrengingar af ríkisvaldsins hálfu, hafa aldrei verið nema orðin tóm. Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti jafnaðarmannaflokkur Íslands.
Einu sinni hrærðist innan hans "stuttbuxnadeild," sem barðist gegn ríkisumsvifum. Sú deild tapaði. Rétt eins og á við um lífeyrissjóðs- og velferðarkerfið hefur flokkurinn stutt óhemjulega útþenslu hins opinbera, sem ekki síst bíður eftir og býður kvenfrelsunarfræðingum, sbr. Jafnréttisstofu, störf hjá hinu opinbera.
Allir flokkar styðja ofbeldisiðnaðinn og enginn þeirra hefur gengið fram fyrir skjöldu og andmælt opinberum "aftökum" karla í hrönnum af kvenfrelsunardómstóli götunnar og fréttamiðla. "Mee-too" var meira að segja gerð á stjórnarstefnu og Samfylkingin stofnaði eigin kynósvífnidómstól - eins og kirkjan og fleiri.
Enginn flokkanna á í eigu sinni gagnrýnisrödd gagnvart Sameinuðu þjóðunum; boðskapi þeirra og gjörningi. Og gagnvart NATO enn þá síður. Allir taka þeir gagnrýnislaust undir sönginn um ragnarök. Enginn flokkanna hefur sýnt tilburði til gagnrýninnar utanríkisstefnu, síðan Jón Baldvin viðurkenndi baltnesku ríkin - að vísu með velþóknun BNA og Nato. Enginn flokkur þorir í raun að hreyfa við hugsanlegri Evrópusambandsaðild og útgönu úr EFTA, innleiðingu evru eða gjaldmiðlasamstarfi á grunni gæfulegri gjaldmiðils en íslenska krónan er, svo bæta megi afkomu almennings og takmarka að einhverju leyti efnahagsleg völd Íslandseigenda.
Á meðan öllu þessu gengur yfirtaka kvenfrelsarar æðri menntun í landinu, íslenska skólakerfið hrynur og stöðu drengja, námslegri jafnt sem heilsufarslegri, hnignar. Þegar ég velti vöngum yfir stöðu mála í dag, koma mér stundum í hug Neró keisari, sem lék á hörpu, meðan Róm brann, og amma, sem sat á þakinu, þegar "eldurinn bálaði um glugga og göng." En hún sat eins og allir vita upp á þaki "og spilaði og söng." Nú syngja frambjóðendur lýðskrumssönginn eina ferðina einn - oft og tíðum hjáróma og holhljóma. Okkur er enn á ný boðið að kjósa flokka. En hvern þeirra?
https://www.dv.is/eyjan/2021/8/21/glumur-taetir-sig-forystu-islensku-stjornmalaflokkanna-leggur-aherslu-ofbeldisfeminisma-og-ad-skolaborn-gerist-vegan/?fbclid=IwAR12idMr5GjLf90ddJDrDKO4CQ-_YSdUENhN5K6z_YvPsjTEWxDNcjzMHpk
Heimilisofbeldisiðnaðurinn blómstrar á Vesturlöndum ekki síst á Íslandi. Það var eftirtektarvert, að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, afréð að styrkja þennan iðnað í veirukreppunni, m.a. með stofnun Kvennaathvarfs á Akureyri. Eins og allir vita, snýst þessi iðnaður um að hlúa að konum, refsa körlum og endurhæfa þá sökum ofbeldishegðunar, sem fórnarlömbin, konurnar, yfirleitt bera vitni um.
Það er væntanlega einnig á flestra vitorði, að kvenfrelsarar íslenska ríkistjórnin meðtalin berst fyrir að auðvelda konum að ákæra karla fyrir kynofbeldi og ofbeldi af öðru tagi gegn þeim og börnum. Fyrsta skrefið er oft og tíðum hringing til lögreglu, sem kemur með blikkandi ljósum og fjarlægir samkvæmt lögum Alþingis karlinn (föðurinn, elskhugann). Konunni er þá gjarnan ekið með börnunum í Kvennaathvarf. Stígmót taka slíkum þolendum ofbeldis opnum örmum. Haldi konan því fram, að karlinn sé varhugaverður henni eða börnunum, gefur lögreglu út nálgunarbann. Konur snúa sér einnig beint til lögreglu og félagsmálastofnana til að setja ofbeldisekjuna af stað.
Kvenfrelsarar leggja þunga áherslu á, að konum skuli trúað um meint ofbeldi karla.Þeir afneita venjulega þeirri staðreynd, að bæði kyn beri ábyrgð á heimilisofbeldi nokkurn veginn til jafns. Þetta er gamalkunn vísindaleg staðreynd. Sjá til dæmis samantekt Martin S. Fribert, við háskólann í Kaliforníu. (References examining assaults by women on their spouses or male parners. An annotated biblipgraphy.) Samantektin hljómar svo: Lagt er mat á 286 vísindarannsóknir: 221 einstakar raunrannsóknir (empirical studies) og 65 yfirlit og/eða greiningar. Sýnt er fram á, að konur séu jafn áþreifanlega ýgar, og ýgari heldur en karlar í samböndum við maka eða karlkyns lífsförunauta. Samantekið er um að ræða meira en 371.600 manns í úrtökum þeim, sem yfirlitsrannsóknirnar taka til.
Sálfræðingarnir, Nicola Graham-Kevan og Deboah Powney, frá háskólanum í Mið-Lanscshire á Englandi, benda á rannsóknir, sem sýna frama á, að konur séu líklegri til að greiða fyrsta höggið. Þegar konur efna til handalögmála er líklegra að þær, frekar en karlmaðurinn, verði fyrir meiðslum. (Þetta sýna þó ekki allar rannsóknir.) Þær segja: Það er athyglivert, að þessi gögn hafa legið fyrir, meðan kvennahreyfingarnar hafa haldið uppi áróði fyrir kynjuðu viðhorfi [þ.e. að karlar beiti svo til einir ofbeldi við heimiliserjur]. En sökum þess, að farið hefur verið með þessa staðreynd í launkofa eða hún þögguð niður, er flestum hreyfinganna, svo og fólki almennt, ókunnugt um hana.
Sama á við um falskar ákærur. Kvenfrelsarar afneita venjulega, að þær eigi sér stað. Lögregluyfirvöldum og einstökum lögreglumönnum virðist nú ofboðið í Ástralíu, en þar gildir svipuð löggjöf og hér og kvenfrelsunaráróðurinn er sá sami. Fyrir skemmstu benti Samband lögreglumanna í Queensland ríki á, að fölskum ákærum um heimilisofbeldi væri jafnaðarlega beitt til ávinnings í fjölskyldudeilum. Þetta er velþekkt fyrirbæri á Íslandi.
Lögreglumaður skrifaði: Við erum líka sérfræðingar í heimilisofbeldi. Við tökumst í raun á við það, sem að lögreglunni snýr eins og að reyna að tjasla uppá ónýt og gagnlaus lög um heimilisofbeldi. Og aðiljar í heimilisofbeldisiðnaðinum álasa okkur fyrir það.
Annar lögreglumaður lét hafa eftir sér: Á starfsævinni hef ég orði vitni að mýgrúti tilvika, þar sem konur leggja á ráðin með kynsystrum sínum: Segðu bara, að hann nauðgi eða lumbri á þér eða börnunum. Það hrífur ávallt.
Sá þriðji sagði: Í raun og sann var það svo, að kona kom í afgreiðslu á lögreglustöðinni og sagði umbúðalaust: Mér var sagt að fara hingað og fara fram á nálgunarbann gegn kærastanum, því ég vil hindra, að hann fái forsjá barnanna.
Ástralski kynfræðingurinn, Bettina Arndt, átti viðtal við fyrrum yfirmann í lögreglunni (police officer), sem bendi á, hvernig reglan, saklaus uns sekt er sönnuð, er fótum troðin. Nú eru þessi grundvallarregla og vinnubrögð [samkvæmt henni] skrumstæld í þágu hugmyndafræði. Góðir og vitrir menn láta það líðast. Aðrir eru of óttaslegnir til að andæfa.
Hann heldur áfram: Sjálfur er ég fórnarlamb hins skelfilegasta ofbeldis í æsku og á fullorðinsárum. Faðir okkar lagði aldrei hendur á okkur allt sitt líf. Það var mamma sem gerði á okkur hinar grimmilegustu árásir.
Það er sjaldgæft að heyra lögreglumenn tjá sig hispurslaust um starf sitt að heimilisofbeldismálum. Þeir hafa nú fengið námskeið í kvenfrelsunarhugmyndafræðinni um ofbeldi karla og liggja undir ámæli fyrir of fáar ákærur, líkt og dómarar fyrir of fáa sektardóma. Aukin heldur má í Ástralíu víðast hvar og í Bandaríkjum Norður-Ameríku sums staðar gera lögreglumenn ábyrga, sé ekki rannsakað og kært.
Hér að neðan er krækja á viðtal, sem áðurnefnd Bettina átti við kvenlögreglumann, sem lét staðar numið, eftir tólf ára feril í lögreglunni, Evelyn Rae. Spjall þeirra er einkar fróðlegt.
https://www.bettinaarndt.com.au/video/police-resent-enforcing-unjust-feminist-laws-former-police-officer-speaks-out-2/
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021