Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2021

Kvenfrelsunarsálfræði Háskólans á Akureyri

Eins og flestum mun kunnugt hafa kvenfrelsarar náð – eða eru í þann mund að ná - undirtökum í vestrænum háskólum. Flestar vísindagreinar má nú sjá í kvenfrelsunarútgáfu eins og t.a.m. kvenfrelsunareðlisfræði, kvenfrelsunarvistfræði, kvenfrelsunarlandbúnaðarfræði og kvenfrelsunarsafnafræði.

Konur eru sum sé yfirgnæfandi hluti nemenda við æðri menntastofnanir. Það stefnir hraðbyri í, að þær verði einráðar í deildum samfélags-, heilbrigðis- og hugvísinda. Ritgerðum um kvenfrelsun virðist fjölga samtímis þessari ólíkindaþróun. Nú er t.d. fædd kvenfrelsunarsálfræði við Háskólann á Akureyri.

„Birtingarmyndir kynferðislegrar áreitni innan íslenskra starfsstétta: Innihaldsgreining á hluta af mee-too frásögnum kvenna“ heitir BA ritgerð í sálfræði frá 2019. Höfundar eru Ásrún Ósk Einarsdóttir (f. 1995), Rúna Sævarsdóttir (f. 1985) og Tanja Mjöll Ísfjörð Magnúsdóttir (f. 1995). Aðalleiðbeinandi er kvenfrelsarinn, Arndís Bergsdóttir (f. 1968). Silja Bára Ómarsdóttir (f. 1971), kvenfrelsunarstjórnmálafræðingur við HÍ, er einnig sögð leiðbeinandi. Raunar er engu líkara, en að um kvenfrelsunarhópefli sé að ræða: „Viljum við einnig þakka góðum hópi femínista fyrir góð og skjót svör við öllum þeim vangaveltum sem við höfðum,“ segja höfundar.

Doktorsritgerð Arndísar Bergsdóttur ber titilinn: „(Ó)sýnileg: Samofin fjarvera kvenna á íslenskum söfnum og mótun femínískrar safnafræði." Í doktorsnefnd sat m.a. Þorgerður Einarsdóttir (f. 1957), kynjafræðingur.

HÍ lýsir ritgerðinni svo: „Doktorsritgerð Arndísar er innlegg í femíníska safnafræði og miðar að því að draga fram þaggaðar raddir og kerfislægan ósýnileika kvenna á sýningum menningarminjasafna. Með það markmið að leiðarljósi beitir Arndís nýstárlegum hugmyndum ný-efnishyggju (new materialism) sem, meðal annars, taka mið af lögmálum skammtafræði og eru viðleitni til að skilja flókna og óreiðukennda veröld samtímans.“ Hún er sögð hafa grunngráðu, BA, í félagsfræði frá skólanum. Arndís hefur skrifað fjölda áhugaverðra greina, t.d.: „Ó(?)sýnilegt álfatyppi: Kynjapólitísk sjónarhorn á fjarverandi hluti.“

Á spjöld ritgerðarinnar, sem hér er fjallað um, eru því í ákveðnum skilningi skráð fræðileg afrek fleiri kynslóða íslenskra kvenfrelsunarfræðimanna. Sú elsta ætti að geta vel við unað. Fræði hennar bergmála í hugum yngstu kynslóðanna og í öllu skólakerfinu (og reyndar um allt samfélagið). Þess má og geta, að sjálfur kvenfrelsunarkennsluforkólfurinn á framhaldsskólastigi, kynjafræðingurinn, Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, var kennari Tönju Mjallar Ísfjörð Magnúsdóttur.

Grunnstef kvenfrelsunarfræðinganna um illsku karla í garð kvenna frá upphafi vega í „karllægri“ kúgunarstofnun, sem þeir kalla feðraveldi, ætti flestum að vera kunn. Kvenfrelsunarvísindi hafa þann megintilgang að varpa hulunni af birtingarmyndum þessarar kúgunar. Það er kvenfrelsun í sjálfu sér. Afhjúpunin leiðir svo til aðgerðakvenfrelsunar, þ.e. að umbylta mannlífinu til frelsunar kvenna. Kvenfrelsunarfræðamóðir leiðbeinanda og höfunda, Þorgerður Einarsdóttir, hefur skrifað merka grein með titlinum: „Hið vísindalega er pólitískt. Femínismi sem fræðikenning andófs og breytinga,“ þar sem þetta er tíundað.

Í feðraveldinu eru konur eins og gefur að skilja undirskipaðar körlum. Þessi viska er endurtekin í hverri ritgerðinni á fætur annarri frá háskólum þjóðarinnar. Hvergi hef ég í þeim ritgerðum, sem ég hef gluggað í, séð örla á gagnrýni eða viðleitni til að leggja þuluna í dóm sögu, veruleikaskynsemi eða fágaðri fræða. Kvenfrelsunarskytturnar þrjár eru hér engin undantekning. Málfarið er óskemmtilega bjagað.

Að dómi höfunda búa ungar konur eins og þær, við tvöfalda undirskipun: „Þegar um ungar konur er að ræða væri hægt að tala um tvöfalda undirskipun …“ - „Femínismi … er hugtak í hugmyndafræði sem einkennir jafnréttisbaráttu kynjanna …“. - „Líkami kvenna er frá toppi til táar undir valdi samfélagsins í þeim skilningi að það er ekki einn partur látinn ósnortinn fyrir gagnrýni.“ - „Eitt útbreiddasta valdakerfi í heiminum í dag er feðraveldið… Hugtakið feðraveldi vísar til karlaveldis þar sem konur eru undirokaðar körlum. Það hefur lengi verið notað innan kvennahreyfinga til að greina undirstöðuatriðin tengdum undirskipun kvenna .... Feðraveldið er kerfi þar sem karlar fara með völdin og eru yfir á heimilinu. Þetta valdakerfi gefur körlum því vald yfir konum, börnum og eignum innan heimilisins ... Konur hafa jaðarhlutverk í heiminum, þar sem þær og gildi þeirra eru skilgreind út frá feðraveldinu …“ - „Feðraveldið er ein helsta hindrun fyrir frama og þróun kvenna. Þrátt fyrir að yfirráðið geti verið með mismunandi hætti innan þessa valdakerfis, þá er meginreglan sú sama – að karlar séu með yfirráðin … - „Í því valdakerfi sem feðraveldið er, þrífst sú hugmynd að konur og karlar eigi að haga sér á öðruvísi hátt. … Femínistar nota orðið feðraveldi til að lýsa valdasambandi á milli karla og kvenna. Þeir nota það því ekki einungis sem orð, heldur meira sem hugtak til að nýta til að skilja raunveruleika kvenna betur ...“

Með skírskotun til ofangreinds er ofur skiljanlegt, að konur eigi bágt. Konan er bæði fóstra og frilla. „Nútímakonan er kennd við hina kynferðislega aðgengilegu konu og er talin vera glansmynd sem samanstendur af hlutverki sem frumkvöðli og vændiskonu. Hin kynferðislega aðgengilega kona vísar m.a. til þess að kynverund kvenna sé markaðssett. Nútímakonan er því bæði neytandi og neysluvara ... Kynverund kvenna hefur verið talin mynda kjarna feðraveldisins og er kynferðislegt aðgengi karla að konum grundvöllur og forsenda þess að hægt sé að viðhalda því …“

„Þegar afhjúpað kyngervi kvenna hefur runnið saman við kvenlega kynverund þá virðist kynfrelsi kvenna hafa snúist upp í andhverfu sína. Hin vestræna nútímakona er því talin ofurseld feðraveldinu á þann hátt að kynverund hennar er undirskipuð vegna tilvísana í kynferðislegt aðgengi ... Sú forsenda að nútímakonur í samfélaginu eigi að vera kynferðislega aðgengilegar gæti ýtt undir að karlar leyfi sér að áreita þær kynferðislega. Þegar viðmið kvenlegs kyngervis er samofið nekt verða mörk og forsendur hins kynferðislega aðgengis óljós. Valdaleysi kvenna endurspeglast síðan í kyngervinu ... Það sem áður þótti tvennt ólíkt rann saman í eina glansmynd af nútímakonunni og innihélt hún bæði fóstruna og frilluna, sem áður þóttu ósamræmanleg kvenhlutverk þar sem annað hlutverkið útilokaði hitt ... Fóstran og frillan á við um tvær tegundir kvenna með birtingarmyndinar spillingu og sakleysi. Þær birtingarmyndir hafa áhrif á bæði mótun og möguleika kvenna …“

Það er fleira uppljómandi í fræðum þremenninganna: „[Sandra Ruth Lipsitz ]Bem … [1944-2014], norður-amerískur kvenfrelsunarsálfræðingur] [kom] fram með þrjár linsur kyngervis, þar sem hann nefndi líffræðilega eðlishyggju sem eina þeirra. Hún taldi að linsa líffræðilegrar eðlishyggju gæfi skynsamleg rök fyrir kynskautun og gerði hana lögmæta ásamt yfirráði karla.“

Það er einnig slegið á stóru trommurnar: „[Franski heimspekingurinn] Simone de Beauvoir [1908-1986]… gerir greinarmun á kyni og kyngervi, þar sem hún bendir á að engin fæðist kona heldur verði kona. … Hún talar um kvenkyn sem seinna kynið, þar sem að konur séu alltaf skilgreindar út frá körlum. Beauvoir talaði einnig um hvernig undirokun sé í eðli sínu óvænt, þrátt fyrir að vera óhjákvæmileg. … Hún bendir á að konur séu skilgreindar út frá líffræði og út frá þeirri skilgreiningu séu þær undirokaðar, sem er þá vísunin í að þær séu hið seinna kyn ... Hún kemur jafnframt fram með þá byltingarkenndu staðhæfingu, að líffræði stjórni ekki lífi kvenna eða örlögum þeirra ... (Bókin, sem vísað er til í enskri útgáfu í heimildaskrá, er: „Le Deuxiéme Sexe. Það er ný og skrítin þýðing að tala um seinna kynið. Réttara væri „síðra kynið.“)

Það er nánast skylda í virðulegri kvenfrelsunarfræðum að nefna norður-ameríska heimspekinginn (sem flestum virðist skiljanlega afar torskilinn), Judith Butler (f. 1956): „Butler … kom fram með hugmyndina um kyngervis gjörning (e. gender performativity), sem vísar til þess að kyngervi sé ákveðinn gjörningur og sé aldrei fullmótað. Hún gerir greinarmun á kyni sem sé náttúrulega úthlutað okkur og kyngervi sem sé félagslegt og mótað af samfélaginu og þeirri tíð sem þú lifir í.“ (Hér tala höfundar um, „að kyn sé náttúrlega úthlutað okkur.“ Íslenskir Alþingimenn tala um, að því sé úthlutað af einhvers konar mennskum valdhöfum.) Fleira afreksfólk er nefnt til sögu; forngríski heimspekingurinn Aristoteles (384-322), enski heimspekingurinn og kvenfrelsarinn, John Stuart Mill (1806-1873), þýski samfélagsfræðingurinn, Maximillian Karl Emil Weber (1864-1920), þýski heimspekingurinn, Friedrich Engels (1820-1895) og franski félagsfræðingurinn, Pierre Bourdieu (1930-2002). Nokkurra verka flestra þeirra er getið í heimildaskrá, en aldrei vísað til þeirra beint eða fjallað um fræði þeirra. Í megindráttum er vísað í upptuggur kvenfrelsunarheimildamanna höfunda. Þetta eru því vafalítið skrauthöfundar þrenningarinnar.

Þá að aðferðinni (enn sem fyrr er tungumálið bjagað): „Innan femínisma má m.a. nefna róttækan femínisma (e. radical feminism) og sjónarmiðsfemínisma (e. standpoint feminism), en þeir hugmyndaskólar voru valdir til að veita viðfangsefni okkar skil þó þeir séu ekki tæmandi. Ástæðan fyrir valinu á þessum tilteknu hugmyndaskólum er sú að undanfarið hefur mikilvægi þess að beita róttækum aðgerðum við rótgrónum vanda verið áberandi. Me too hreyfinguna má rekja til róttækra aðgerða kvenna um heim allan. Sjónarmiðsfemínismi er áhugaverð kenning í tengslum við feðraveldið, eða kynjakerfið eins og sumir kalla það, sem er mikið til umræðu í þessari rannsókn.

Með sjónarmiðsfemínisma er átt við kvenpólitíska fræðikenningu …, og tengist hún kenningum um feðraveldið …. Sjónarmiðskenningar ganga aðallega út á það að fá þekkingarfræðilega viðurkenningu á félagslegum og pólitískum viðfangsefnum út frá sjónarmiðum kerfisbundið kúgaðra félagshópa samanborið við þá hópa sem hafa yfirráðin yfir þeim fyrrnefndu... „ … „Sjónarmiðsfemínismi tengist inn á margt eins og t.d. undirskipun kvenna. Samkvæmt [norður-ameríska kvenfrelsunarþekkingarfræðingnum, Elizabeth Secor] Anderson [f. 1959] … þá eru konur undirskipaðar og hafa því sjónarmiðsfemínistar áhuga á að kafa dýpra í þá staðreynd. Þessi kenning hefur sætt nokkru mótlæti en [norður-ameríski heimspekingurinn og kvenfrelsarinn, Bat-Ami] Bar On [f. 1948] … talar gegn því að nýta kvenlegar skilvitlegar aðferðir sem undirstöðu í að skoða þekkingarfræðileg forréttindi varðandi undirskipun kvenna.“ (Þetta vona ég, að velviljaður lesandi útskýri fyrir mér.)

Greinar Kjarnans um „mee-too“ frásagnir eru lagðar til grundvallar innihaldsgreiningunni. „[Á]kveðið [var að skoðað] frásagnir fjögurra ólíkra starfsstétta sem stigu fram í kjölfar hreyfingarinnar. Fyrir valinu voru konur í stjórnmálum, flugfreyjur, konur í heilbrigðisþjónustu og að lokum konur í sviðslistum og kvikmyndagerð.

Greiningarflokkarnir eru eftirtaldir: Orðbundið ofbeldi, táknrænt ofbeldi, líkamlegt ofbeldi, hlutgerving, vandamisræmi og þöggun. Þetta er óneitanlega furðulegur hugmyndafræðilegur hugtakagrautur. „Í fyrstu yfirferð unnum við að innihaldsgreiningu frásagna hver í sínu lagi en framkvæmdum innihaldsgreiningu í sameiningu í seinni yfirferðinni. Fyrri og seinni yfirferðirnar voru að lokum bornar saman og voru þær samsvarandi, sem eykur bæði réttmæti og áreiðanleika rannsóknarinnar. Ein okkar vann að lokum innihaldsgreininguna sem sneri að gerendum þar sem engin tvímæli voru um hvað féll undir hvaða flokk.“ Réttmæti og áreiðanleiki eru í þessu sambandi tölfræðileg hugtök. Ég sé hvergi merki um eiginlega tölfræðilega vinnslu gagna.

„Niðurstöður gáfu til kynna að kynferðislega áreitni megi rekja að stórum hluta til valdamisræmis. Með því er átt við að konur séu hlutgerðar og að mikil þöggun hafi ríkt um málefnið í gegn um tíðina. … Niðurstöður sýndu einnig fram á að kynferðisleg áreitni hefur ólíkar birtingarmyndir á milli starfstétta þar sem flugfreyjur skera sig einna helst úr. Innan þeirrar starfstéttar kom fram að valdamisræmi væri nánast allsráðandi er varðar hver það er sem áreitir. Það tengist inn á þá staðreynd að starfstéttin hefur verið kyngerð í auglýsinga og hagnaðarskyni í gegnum tíðina.“

Að lokum: Á heimasíðu HA stendur: „Rannsóknir eru einn af hornsteinunum í starfsemi Háskólans á Akureyri.“ Kröfur um BA ritgerðir (í sálfræði) og rannsóknir hef ég þar ekki fundið.


Feðrafólska. Sigrún Sif sveiflar stríðsöxinni

Sigrún Sif Jóelsdóttir (SS) er menntaður sálfræðingur frá Háskóla Íslands (HÍ). Hún titlar sig „sérfræðing við rannsóknir“ og hefur starfað sem slíkur við Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri. Um þessar mundir starfar SS sem verkefnisstjóri rannsókna við Menntavísindastofnun HÍ.

SS er í forsvari fyrir (eða talskona eins og hún orðar það) samtaka mæðra, „Lífs án ofbeldis.“ Hafi ég rétt skilið berst sá félagsskapur gegn ofbeldi, sem þær telja börn sín hafa orðið fyrir af hendi feðra þeirra.

Sigrún Sif lýsir sér svo: „37 ára, móðir og tónlistarmaður, ættuð af Norðurlandi. Forvitin að eðlisfari, heilluð af nýrri þekkingu og hagnýtingu til lausnar og fólki til framdráttar. Áreiðanleg og samviskusöm í starfi. Heilluð af mannshuganum og hegðun og valdi þess vegna taugafræðilega hugfræði og skynjun mannsins sem viðfangsefni rannsókna. Sjálfstæð í vinnubrögðum og skapandi. Reynd bæði í sjálfstæðum verkefnum, rannsóknum og samstarfsverkefnum.“ Markmið hennar í lífi og starfi: „Að vinna í krefjandi og framsæknu umhverfi og samstarfi þar sem menntun mín, reynsla og hæfileikar nýtast á uppbyggilegan hátt.“

SS hefur skrifað afar áhugaverð grein, sem ég hvet fólk til að lesa (hjálögð). Áður hefur hún birt í erlendu riti áþekkar hugleiðingar, sem ég hef annars staðar gert skil (arnarsverrisson.is). SS er iðinn við kolann, hefur skrifað fleiri greinar um hugðarefni sitt og hefur margar sorgarsögur að segja. Allar segja þær frá ljótum körlum – einkum feðrum – sem misnota börn sín kynferðislega. Og vei þeim!! Því miður eru þeir til og varla efamál, að margir þeirra sleppa undan hrammi laganna.

Ofbeldi kvenna og mæðra gegn börnum, fæddum sem ófæddum, er henni hins vegar ekki hugleikin. Ei heldur teygðar og togaðar skilgreiningar á kynferðislegu ofbeldi. Ei heldur þau áhrif, sem foreldrar (oftar en ekki mæður) og fagaðiljar geta haft á hugsanagang og framburð barna sinna og skjólstæðinga.

Dæmi um þetta gæti t.d. verið eftirfarandi sorgarsaga (dótturinnar væntanlega): „Þriggja ára gömul, þegar hún er talin hafa aldur til, hefur þetta litla barn stöðu brotaþola gagnvart föður sínum. … Hún veit að pabbi hennar má ekki meiða hana og segir í samtali við nákominn aðila „hann má það ekki ég á klobbann minn sjálf“. Hver ætli hafi kennt barninu þetta orðalag? Barnið var reyndar meintur brotaþoli samkvæmt skilgreiningu móður þess. (Í þessu sambandi mætti minna á þekkta kvenfrelsunarkenningu þess efnis, að feður skuli ekki annast þrifnað dætra sinna að neðanverðu, eftir tveggja ára aldur, vegna hættu á kynferðislegum misþyrmingum af þeirra hálfu.)

Svo dóttir sem móðir, mætti halda, sbr. píslarsögu þeirrar síðarnefndu, sem einnig er rakin í greininni (að hluta alla vega): „Ég gæti sagt frá barni sem var gert að kynferðislegu viðfangi fullorðins manns þegar það var tveggja og hálfs árs. Þetta unga barn upplifði fullkomið valdleysi gagnvart honum sem ákvað að svala fýsnum sínum og nota barnslíkama til þess.“ [Það er afar fátítt, að fólk sé svo langminnugt. Egill Skallagrímsson rak þó minni til atburða, þegar hann var þriggja vetra.] … „Ég stökk út úr bíl frá öðrum manni þá um 10 ára aldur en slapp ekki 14, 15, 16 og 17 ára við kynferðislega áreitni og ofbeldi af hendi fullorðinna karla.“ … „Sem fullorðin kona bjó ég með karlmanni sem beitti mig líkamlegu ofbeldi og kúgun. Þegar ég skildi þörf hans til að yfirbuga mig brast eitthvað með holu hljóði innra með mér.“

Þetta eru skelfilegar og sorglegar lýsingar. Í hörmungaljósi þeirra er skiljanleg ástríðuþrungin andúð SS á karlkyni og löggæslu, enda þótt alhæfingarfákur SS láti illa að stjórn: „Það var fyrst þá sem mér lærðist hversu ráðandi hún er í okkar menningarvitund, sú trú að karlmönnum sé eðlislægt að beita ofbeldi sem ekki ætti að hamla. Sú trú að það sé hlutverk kvenna og barna að bera þungann af þessu ofbeldi í þágu samfélagsins.“ Slíkar hörmungasögur, þ.e. endurtekin (sjálfsskilgreind) nauðgun og annað kynofbeldi, segja fleiri samherjar SS frá. (Þetta er samsæriskenning svipuð þeirri, sem Kristín Ástgeirsdóttir (f. 1951), sagnfræðingur, fyrrum Kvennalistaþingmaður, forstýra Jafnréttisstofu og forstöðukona Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum við HÍ, hefur sett fram um karlkyns heilbrigðisstarfsmenn.)

Enn sem fyrr er SS ofboðslega illa við hugtakið tálmun, þ.e. þegar foreldri (venjulega móðir) meinar barni samskipti við hitt foreldrið. Lögfræðingurinn, María Júlía Rúnarsdóttir, fær á baukinn í þessu sambandi:

„Sem löglærð hefur María helst getið sér orð fyrir að vera einn ötulasti talsmaður kenningarinnar um svokallað „foreldrafirringarheilkenni“ á Íslandi (e. Parental Alienation Syndrome, PAS) sem gengur út frá því að ásakanir um ofbeldi föður gegn barni, bornar upp af barni eða móður þess, séu nánast alltaf falskar. Þessi alræmda kvenhaturs kenning sem fræðimenn hafa sett í flokk ruslvísinda og hefur verið hafnað af öllum leiðandi samtökum innan geðlæknisfræði, sálfræði og læknisfræði á Vesturlöndum fékk samnefnara við „tálmun á umgengni“ í meistaraprófsritgerð Maríu Júlíu í lögfræði árið 2009.“ (Ég fæ með engu móti skilið, hvernig heilkenni „gangi út frá.“ En geri ráð fyrir, að höfundur eigi við inntak umrædds heilkennis.)

SS tekur djúpt í árinni um „ruslvísindi.“ Hún vísar til hugleiðinga þriggja fræðimanna frá Háskólanum í Nevada. Þar er í raun bara þvargað um, hvort kalla eigi fyrirbærið heilkenni eða ekki - og lýst eftir betri rannsóknum. Og hvar er þeirra ekki þörf? En fyrirbærið er jafn mikilvægt, þrátt fyrir það.

Hin „sönnunin“ kemur úr orðabók norður-ameríska sálfræðingafélagsins. Þar stendur m.a.: „Þrátt fyrir mikilvægi skoðanaskipta um heilkennið, er hið almenna hugtak um foreldristálmun oft og tíðum talið lýsa með réttmætum hætti raunverulegum átökum við ýmis konar aðstæður í fjölskyldum. [Það] lýsir ógn við öryggistilfinningu barns gagnvart öðru foreldranna (caregiver) vegna auðsýndrar gagnrýni eða misjafns athæfis í garð þess af hálfu hins.“

Það er ljúft og skylt að slást í lið með höfundi í baráttunni fyrir lífi án ofbeldis. Ofbeldi er ógeðfellt. En því miður er það og hefur verið snar og órofinn þáttur á öllum sviðum mannlífsins frá ómunatíð. Líf án ofbeldis er tálsýn, mýrarljós. En það má vitaskuld reyna að stemma stigu við því.

Baráttan fyrir betra dómskerfi er virðingarverð. Oft þarf að sækja réttarbætur til útlendra dómstóla. Því má ala þá von í brjósti, að það gerist við Mannréttindadómstólinn nú í máli meintra nauðgunarfórnarlamba.

Það ber vott um manngildi að berjast fyrir góðum aðbúnaði barna eins og réttlæti í dómskerfinu. En rangfærslur, skætingur, einsýni og öfgar eru trauðla vænlegar leiðir til árangurs í því efni.

https://www.visir.is/g/20212137755d/valdbeitingarmenning-a-hverfanda-hveli


Druslu- eða valkyrjukór. B.Y. Valkyrja Guðmundsdóttir

Brynhildur Yrsa Valkyrja Guð¬mundsdóttir, kennari, er merk kona á fimmtugsaldri, einhverfur þolandi kynofbeldis, sæmd hetjuviðurkenningu Stígamóta fyrir baráttu gegn nauðgunum og öðru kynofbeldi, stofnandi Druslukórsins, ritstjóri vefmiðilsins, Flóru, svo eitthvað sé til tínt.

Hún er jafnframt forystumaður hóps kvenna eða kvenfrelsara, sem heldur úti baráttusíðu á félagsmiðlum, Öfgum, og háir baráttu við „Ingó veðurguð“ (Ingólf Þórarinsson). (Stígamótahetjur er virðulegur hópur. Þar er m.a. að finna Hildi Lilliendahl Viggósdóttur, menningarfrömuð hjá Reykjavíkurborg, Hönnu Björgu Vilhjálmsdóttur, kennara, og Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrum forsætisráðherra.)

Það er sterkt andlegt samband baráttusystranna í Öfgum. B.Y. Valkyrja hefur nú látið flúra á skrokk sinn byltingarspeki vinkonunnar, Ólafar Töru Harðardóttur, sem sú lét falla um ofangreindan „guð:“ „Kærðu það sorpið þitt.“

Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, blaðamaður, sem er umvafinn karlkyns misyndismönnum (sbr. grein hennar í Stundinni), átti fróðlegt viðtal við B.Y. Valkyrju í sama miðli fyrir skemmstu. Hún skrifar m.a.:

„Brynhildur Yrsa Valkyrja Guðmundsdóttir á að baki langa sögu af ofbeldi, en hún var fyrst beitt kynferðisofbeldi í æsku og hefur síðan lent í ýmsu sem hún hefur þurft að vinna úr. Samhliða þeirri vinnu hefur hún hlotið viðurkenningar Stígamóta fyrir baráttu sína gegn ofbeldi. Sem kona komin á fimmtugsaldur taldi hún að nú væri þessi tími að baki, að ofbeldið tilheyrði fortíðinni. Þar til henni var nauðgað á ný, inni á heimili sínu nú í vor. Í þetta sinn brást hún öðruvísi við en áður og ákvað að mæta nauðgara sínum.

Sársaukinn er minn og verður minn. Ég má gera allt við hann, hvað sem ég vil,“ segir Brynhildur Yrsa Valkyrja, einstæð móðir sem kynntist manninum sem nauðgaði henni í gegnum stefnumótaappið Tinder. Hún segist nota appið mikið, ekki endilega til að verða sér úti um stefnumót heldur til að kynnast fólki og spjalla við það. „Ég nota þetta líka fyrir femínískan aktívisma og finnst áhugavert að sjá hvaða pælingar eru í höfðinu á fólki. Mér finnst áberandi að ungir íslenskir strákar virðast vera að upplifa miklar breytingar og fá betri fræðslu þannig að þeir vita betur hvað má og hvað má ekki. Á meðan skilja þessir eldri ekkert hvað er í gangi, sem er síðan hægt að yfirfæra yfir á útlendinga, sem skilja ekki hvar mörkin liggja.“

Nauðgun virðist hafa verið snar þáttur í lífi B.Y. Valkyrju. Það er afspyrnu raunalegt. Í viðtali við Mannlíf 20. október 2018, segir hún: „Þetta eru fleiri sögur en ég kæri mig að hugsa um. Það er erfitt að rifa þetta upp. Það á samt við um allar mínar sögur að ekki í eitt einasta skipti kom til greina að ræða þetta við einhvern alveg í blábyrjun. Ég treysti mér ekki til að ræða þetta við mitt nánasta fólk, hvað þá að fara með þetta eitthvað annað,“ segir Brynhildur sem varð meðal annars fyrir hópnauðgun á Þjóðhátíð í Eyjum þegar hún var tvítug, árið 1997. „Það var bara þungt skammarský yfir mér í langan tíma eftir á. Á meðan ég var að reyna að fóta mig eftir þetta og átta mig á hvað hafði gerst þá var ég engan veginn tilbúin til að fara til lögreglu eða upp á bráðamóttöku. Ég var bara ungur kjáni á þessum tíma og þar var ekkert í umræðunni hvað maður ætti að gera ef svona kæmi fyrir. Þannig að það var bara ekki inni í myndinni.“

B.Y. Valkyrja er ötull baráttumaður gegn kynferðislegri áreitni karla gegn konum. Hún hefur – áður en Öfgar komu til sögu – unnið myndband, „Performance – Birta,“ hlaðið upp á vefi Hugvísindasviðs Háskóla Íslands (You Tube), ásamt þjáningasystrum sínum Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur, leikritahöfundi, og Brynhildi Björnsdóttur, blaðamanni. Þar kemur m.a. fram sú reynsla einhverrar þeirrar, að níu af hverjum tíu vinkonum hafi orðið fyrir kynofbeldi af hálfu karla. (Síðastnefndu tvær hafa m.a. gert fræðslumyndir um kynlíf fyrir börn á vegum hins opinbera.)

B.Y.Valkyrja er kona ekki einhöm og vokir yfir kynofbeldisvalnum. Hún stofnaði meira að segja kór til að boða fagnaðarerindi sitt. Stjórnandi er kórstjóri Hinsegin kórsins. B.Y. Valkyrja segir:

Ég „kannaði strax hvort fólk hefði áhuga á að stofna Druslukórinn. Móttökur voru vægast sagt góðar. Á örskömmum tíma höfðu yfir eitthundrað konur lýst yfir áhuga sínum og þá var ekki aftur snúið.“ …

„Einn karlmaður hefur bæst í hópinn okkar og tók það tíma fyrir hann að leggja í það að mæta þar sem hann taldi kórinn mögulega einungis vera fyrir konur. Kórinn er femínískur og býðst öllum femínistum að vera með í starfi okkar. … Ef þig langar að vera með og titlar þig kinnroðalaust sem femínista, þá áttu heima í kórnum okkar. … Druslukórinn æfir á fimmtudögum frá klukkan 19:30 til 22:00 og tökum við fagnandi á móti nýliðum.“ …

„Ef þú ert femínisti sem hefur áhuga á að pönkast meðal annars í nauðgunarmenningu og drusluskömmun, ef þú hefur gaman að söng og langar að vera með – þá skaltu ekki hika við að hafa samband við okkur.“

Nú er tækifærið að brýna (kvenfrelsunar)busana og hefja upp raust sína.

https://flora-utgafa.is/7-utgafa/velkomin-i-druslukorinn/


Kynrándýrin Cosby og Weinstein

Réttarhöldin yfir William (Bill) Henry Cosby jr. (f. 1937), gamanleikara, og kvikmyndaframleiðandanum, Harvey Weinstein (f. 1952), eru í fersku minni. Enn er reyndar ekki bitið úr nálinni í máli Harvey. Verjendur hans berjast fyrir endurupptöku málsins, innblásnir af árangri lögfræðinga Bill, sem hæstiréttur Pennsylvania (ríki í Bandaríkjum Norður-Ameríku – BNA) lýsti saklausan.

Meðan umræðan stóð sem hæst varð mér hugsað til orða Simone de Beauvoir (1918-1986) úr bók hennar, „Síðra (hinu) kyninu“ (Le Deuxiéme Sexe). Hún segir þar fullum fetum (og líklega er það alkunna og sjaldan lýgur almannarómur), að kvenleikarar beiti kyntöfrum sér til framdráttar í afþreyingariðnaðinum. Hún segir: „[K]ona, sem stígur á svið til að afla sér lífsviðurværis fellur oft og tíðum í þá freistni að nota töfra sína sjálfri sér til framdráttar með innilegum hætti. … Kvikmyndastjarnan er nýlega tilkomin holdgervingur fylgikonunnar (heterunnar- hetaera). … Hugsanlega er það svo, að kvenskemmtikraft sé fremur ambátt að telja heldur en vændiskonu, sem einungis selur aðgang að líkama sínum.“

Simone er í miklum metum hjá kvenfrelsurum, enda mikilvægasta fræðamóðir þeirra. „Hún [Simone de Beauvoir] var fyrirmynd og vegvísir án þess að við værum nokkuð að sökkva okkur í verk hennar eða leita þar að hugmyndafræðilegum lausnum. Hún var konan með kyndilinn ... Sem slík hafði hún bein áhrif á íslenska kvennabaráttu á seinni hluta þessarar aldar [síðustu].“ (Irma Erlingsdóttir)

Undir ofangreindri umræðu skaut einnig upp í hugskotinu orðum norður-ameríska sálfræðingsins, Paul Elam (f. 1957), sem sagði eitt sinn – minnir mig – að karlar beittu valdi til að útvega sér kynlíf, en konur beittu kynlífi til að öðlast vald. Orð beggja er vert að hafa í huga, þegar hann er leiddur að hamförunum í sambandi við fyrrgreindar kynófreskjur. Meira að segja kvenfrelsarinn, norður-ameríski heimspekingurinn, Christina Hoff Sommers (f. 1950), sem bæði er vitur og háttvís, uppnefndi Harvey „rándýrsófreskju“ (predatory monster).

Eitt og annað er sameiginlegt réttarhöldunum yfir bæði Bill og Harvey. Árið 2005 ákærði kanadíska körfuknattleikskonan, Andrea Constand (f. 1973) Bill fyrir að hafa dópað sig og haft við sig samræði ári fyrr. Eftir, að „glæpurinn“ var framinn, fór Andrea þess á leit við Bill að kynna foreldrana fyrir honum.

Þáverandi saksóknari vísaði málinu frá sem sakamáli, gegn því, að Bill bæri vitni í einkamáli. Hann viðurkenndi að hafa látið Andreu í té slakandi lyf, en þau hafði hann í lyfjaskápi sínum eins og allflestir landa hans (og Íslendingar). Bill viðurkenndi einnig samfarir. Bæði voru meðfús, að hans sögn. Bill féllst á að greiða Andreu um 3.4 milljónir dala gegn friðhelgi dómstóla.

Þrátt fyrir þetta höfðaði Andrea, þ.e. síðari saksóknari, sakamál á hendur Bill 2015. Fjöldi kvenna eða um sex tugir, stigu á stokk og lýstu svipuðum ódæðisverkum og Andrea gerði. Margar þeirra tóku frumkvæði að vinsamlegum samskiptum við „nauðgarann,“ eftir að ódæðið var unnið. Fimm þessara fórnarlamba báru vitni við réttarhöldin í þeim tilgangi að draga upp svipmynd af „sökudólgnum.“ Bill hefur staðfastlega neitað sök og iðrast hvergi. Eftir tvö ár í fangelsi, af dómi, sem hljóðaði upp á þrjú til fimmtán ár, náðaði Hæstiréttur hann.

Í kjölfar dómsins urðu „jarðhræringar.“ Flóðbylgjan, þekkt sem „me-too“- hreyfing (movement) í útlöndum, en kvenfrelsunarfréttastofa RÚV hefur skírt „byltingu,“ reis með ógnarkrafti. Kvikmyndastjarnan, Alyssa Milano (f. 1972) tók við keflinu af kvenfrelsunaraðgerðasinninn, Tarna Burke (f. 1973), sem fyrst notað myllumerkið árið 2006.

Harvey var hrifinn af flóðbylgjunni og ljáði henni samtímis aukinn kraft. Fjöldi kvenna sakaði hann um kynáreitni, árásir og nauðganir. Það væri að æra óstöðugan að telja þær saman, en líklega voru þær stórt íslensk hundrað, þegar upp var staðið. Þrátt fyrir þennan gríðarlega fjölda, var Harvey einungis lögsóttur fyrir afbrot gegn tveim konum.

Önnur þeirra er Miriam (Mimi) Haley (f. 1977), sænskur kvikmyndaframleiðandi og aðstoðarmaður hans til margra ára. Ákæra hennar var á þá leið, að vinnuveitandi hennar (og elskhugi) hefði sleikt láfu hennar á ofbeldisfullan hátt. (Þetta er ekki fyrsti dómur af því tagi. Fyrir nokkrum árum síðan var kvenlæknir dæmdur fyrir að sleikja gás sjúklings, trúlega saurmengaða vegna sjúkdóms.)

Hin konan er Jessica Mann (f. 1984). Harvey var henni svo kær, að hún vildi kynna móður sína fyrir honum sem kærasta sinn - si svona endrum og sinnum. Jessica hélt sambandi við Harvey löngu eftir, að hann nauðgaði henni.

Ámóta elsku virtust fleiri nauðgaðar konur bera til Harvey. Ein þeirra skrifaði t.d.: „Ég sakna þín, stóri gaur.“ Önnur skrifaði: „Enginn þeirra, sem ég vildi endurnýja kynni við, sýnir mér ámóta skilning og þú.“

Harvey var dæmdur í tuttugu og þriggja ára fangelsi, þ.e. þriðju gráðu (eftir atvikum milda) nauðgun og kynafbrot (criminal sexual act) af fyrstu gráðu. Þar með var hann sýknaður af alvarlegustu ákærunum, þ.e. rándýrslegri kynárás (predatory sexual assault) og nauðgun af fyrstu gráðu.

Harvey afplánar dóm sinn. Æra hans er löngu horfinn út í veður og vind og fyrirtæki hans er hrunið.

Mennirnir voru báðir dæmdir af dómstóli götunnar og fjölmiðla, löngu áður en þeir settust á sakamannabekkinn. Náðarstungan var vitnisburður konu, sem nú er nefnd til sögu.

Babara Ziv er réttargeðlæknir við Temple háskólann í Pennsylvaníu og lækningaforstjóri hjá tryggingafyrirtækinu, Aetna.Þar að auki á hún sæti í Kynglæpamatsráði Pensylvaníu (Pennsylvania Sexual Offender Assessment Board). Hermt er, að hún hafi brotið til mergjar sálir mörg hundraða kynglæpamanna og annan eins fjölda fórnarlambasálna. Því er hún talin þjóðkunnar sérfræðingur í kynglæpum í heimalandi sínu og hefur borið vitni við um það bil tvö hundruð réttarhöld af þessum toga. Þar að auki hefur hún komið víða fram í fjölmiðlum og frætt um „nauðgunargoðsögnina.“

Og hvað er nú það? Gef Barböru orðið: “Fólk heldur, að það kunni skil á kynárás (sexual assault). Það er nefnd nauðgunargoðsögn. Í nauðgunargoðsögnum er fólgin misskilningur um nauðgun og kynárás.“

Til að mynda er það regla, en ekki undantekning, að kona hafi samband – jafnvel kærleiksríkt samband við nauðgara sinn, eftir fyrstu nauðun. Það leiðir alla jafnan til annarrar nauðgunar, sem er sársaukafyllri en sú fyrri. Reglan er sú, að tilkynning eða kæra vegna nauðgunar komi með seinni skipum. Það er einnig goðsögn, að draga megi ályktun á grundvelli tiltekinnar hegðunar, að nauðgun hafi átt sér stað. Stundum „misskilur“ fórnarlambið nauðgunina og velkist því í vafa um rétt viðbrögð. Því er hún ekki hugleidd frekar.

„Fjölmörg fórnarlömb kynódæðis segja einhverjum frá reynslunni; vini. Þetta á ekki við um alla, heldur marga. Afar fá fórnarlömb tilkynna [ódæðið] til læknis, ráðgjafa eða leiðbeinanda. Næsta stig er löggæslan. Þangað leita enn þá færri.“ …

„Hlutaðeigendur vilja forðast stimpil sem fórnarlamb kynárásar og hluti þeirra lýkur aldrei upp munni af hræðslu við endurgjald.“ …

„Síðbúin tilkynning getur komið dögum, vikum, mánuðum eða árum [eftir nauðgunina]. Við álösum fórnarlömbunum fyrir að vera ekki sú tegund fórnarlamba, sem við gerum okkur í hugarlund. Það er hluti nauðgunargoðsagnarinnar, að fórnarlömb tilkynni glæpinn, þegar í stað, og sýni af sér ákveðin einkenni. Reglan er sú að halda sambandi í einhverri mynd í einhvern tíma. Sumt fólk rýfur ekki sambandið.“ …

„Stundum hafa konur samband við árásarmanninn í kjölfar [ódæðisins]. Þær geta ekki trúað því að það hafi átt sér stað. Þær vona, að einungis sé um að ræða frávik.“ …

„Ef túlkun mín sem fórnarlambs er á þá lund, að hér sé um að ræða árásarmann, sem ég átti vingott við í gagnkvæmri virðingu og átti góðar stundir með, verður að viðurkennast, að í raun og sann hafi ég ekkert gildi haft. Það er hverjum og einum bitur pilla að kyngja.“ …

„Ástæður þessa eru flóknar. Ein af ástæðunum fyrir órofnu sambandi við árásamanninn er sú staðreynd, að þrátt fyrir það reiðarslag, sem kynárás er, hugsa flestir með sér; „ég er fær um að leggja [nauðgunina] að baki og halda áfram að lifa eins og ekkert hafi í skorist … Ég vil komast hjá því, að [ástandið] versni. Ég vil koma í veg fyrir, að árásarmanninum takist að spilla orðspori mínu, að segja fólki frá, eyðileggja starfsframa minn.“ Það er reyndar „ofuralgengt“ (extremely common), að sakaráberar haldi sambandi við árásarmanninn. Sumir láta eins og ekkert hafi í skorist.

„Í kjölfar kynárásar sjást alls konar viðbragðstilbrigði. Ekkert þeirra gefur til kynna, hvort kynárás hefur átt sér stað. … Það er meira en eitt hundrað hegðunartilbrigði sem gætu verið viðbrögð við kynmisnotkun.“ …

„Það er ekki bara svo, að kynárásarmennirnir beri konu oft og tíðum líkamlegu ofurliði – og sýni henni þannig fram á, að þeir séu færir um að yfirbuga hana líkamlega – heldur felst ógn [í atburðinum sjálfum] eða, að ógnin er látin í veðri vaka.“

Minni fórnarlamba kynofbeldis er frábrugðið minni annars fólks. „Þau muna ekki út í hörgul, en reka minni til eins og annars, sem fyrir þau hefur borið. Tíminn getur hafa áhrif á tilfinningaleg viðbrögð í tengslum við árásina.“

Nauðgunarsérfræðingurinn rær oss út í öldurót og hafvillur, land er hvergi í sjónmáli. Áróðurshaukar kvenfrelsaranna hafa lengi haldið því fram, að kynferðisleg misnotkun hefði í för með sér áfallastreituröskun. Hún er skilgreind. Hver nauðgaði hverjum? Minnið er undursamlegur og skapandi hæfileiki, galopið fyrir bylgjum í umhverfinu og umróti hugans – sérstaklega sefjun.

https://www.cnbc.com/2021/06/30/court-overturns-bill-cosbys-sex-assault-conviction-bars-further-prosecution.html


Eitruð karlmennska, knattspyrna og klámvæðing

Viðar Halldórsson (f. 1970) er félagsfræðingur og varð doktor í greininni frá Háskóla Íslands árið 2012. Hann er sérfróður um íþróttir og lætur frelsun kvenna til sín taka. Heimilisofbeldi er Viðari hugleikið og svo klámvæðing. Í því efni lætur hann rödd sína heyrast á alþjóðvettvangi. Nýlega „tísti“ hann til að mynda um sýningu á ruðningsmóti (Super Bowl) í Norður-Ameríku:

„Hin rómaða sýning í leikhléi (halftime show) er dæmigerð fyrir klámvæðingu samfélagsins. Hví er svo klén áhersla lögð á söng þessara frábæru tónlistarmanna og fremur lögð áhersla á afhjúpun kynþokka líkama þeirra, [þegar þeir eru] glenntir framan í myndavélarnar?“ (Sjá krækju neðanmáls – lauslega snarað af mér.)

Í hljóðvarpsfréttum stöðvar eitt í RÚV þann 11. júlí 2021, talaði fréttamaður, Sigríður Hagalín Björnsdóttir, um, að hugsanlegt ofbeldi í sambandi við leik Englendinga og Ítala í knattspyrnu kynni að vera áhyggjuefni. Hún bar það undir Viðar.

Hann svaraði: „Já, heldur betur. Það er mikil ástæða til að hafa áhyggjur af, hvað gerist í kringum þennan leik. Það skiptir þá ekki endilega máli, hvort England vinnur eða tapar. T.d. sýna rannsóknir það, að þegar England er að spila á stórmótum í fótbolta, þá eykst heimilisofbeldi í kjölfar leikjanna. Þannig, ef England tapar, þá verður það sérstaklega mikið, en þó að England vinni, þá verður heimilisofbeldi meira en öllu jafna.“

Í framhaldi af þessu fjallaði fréttamaður um ólæti í tengslum við karlaknattspyrnu. Hún sagði það algengara en gerist og gengur hjá stuðningsmönnum enska liðsins. Það sé kallað enska vandamálið.

Viðar var inntur eftir skýringu og segir: „Vegna þess, að það sem gerist, hvort sem þeir spila heima eða heiman, þá verður einhvers konar múgstemming, sem magnast upp við ákveðnar aðstæður. Og fótboltinn veitir einhvers konar umgjörð, sem samþættir eða dregur saman alls konar vandamál og alls konar þætti eins og þjóðarstolt, eins og sjálfsmynd, eins og vímuefnaneyslu, eins og eitraða karlmennsku, alls konar svona hluti, harka leiksins, tilheyra einhverjum hópi, dregur þetta saman, sem að gerir það að verkum, að þetta verður stundum einhvers konar svona suðupottur, þegar svona hugmyndir og svona tilfinningar koma saman og brjótast út í gegn á íþróttakappleik.“

Í fréttum sjónvarps, degi síðar, lauk Ólöf Ragnardóttir upp munni. Hún trúði áhorfendum fyrir því, að um væri að ræða 38% aukningu á heimilisofbeldi, samkvæmt rannsóknum.

Heimiliofbeldi var ekki skilgreint. En varla er ástæða til að efast um skilning Viðars og fréttamanna RÚV, þ.e. að um sé að ræða karla, sem berja á konum sínum. Ei heldur var í fréttinni getið um heimildir, en Viðar var svo vinsamlegur að upplýsa mig um þær.

Undirstöðuheimildin er greinin: „Má tengja heimsmeistaramót FIFA í knattspyrnu við aukningu á heimilisofbeldi?“ (Can the FIFA World Cup Football (Soccer) Tournament Be Associated with an Increase in Domstic Abuse). Greinin birtist í: „Journal of Research in Crime and Delinquency“, 22 júlí 2013. Höfundar eru breski sálfræðingurinn, Stuart Kirby og fl.

Rannsakað er tölfræðilegt samhengi tilkynninga um heimilisofbeldi í kjölfar heimsmeistarakeppninnar 2002, 2006 og 2010 með samanburði á fjölda tilkynninga til lögreglu í litlu lögregluumdæmi á Norður-Englandi. Um er að ræða tilkynningar sjálfsskilgreindra fórnarlamba, sem tjá sig um ofbeldi eða hótun um ógn frá núverandi eða fyrrverandi lífsförunauti (sambýlismanni, unnustu eða unnusta). Kyn er ekki aðgreint. Ei heldur er inntak tilkynninga sundurliðað.

Niðurstaða um tölfræðilegt samhengi; hafi enska landsliðið unnið er um 26% aukningu tilkynninga að ræða; hafi það tapað um 38%. Fjöldi tilkynninga jókst við hverja keppni. Höfundar benda á, að viðfangsefnið sé aðferðafræðilega flókið og rannsóknin sé smá í sniðum og engar rannsóknir hafi áður verið gerðar á efninu. Þeir ýja einnig að nauðsyn frekari rannsókna.

Það er í sjálfu sér athyglivert, að heimilisofbeldi sé ekki skilgreint eins og kvenfrelsunarfræðimönnum er tamt að gera; þ.e. misnotkun á heimili eða í nánum samböndum er sögð „hið dulda ofbeldi gegn konum.“

Hin heimildin er grein eftir Anna Trendl (aðalhöfundur), atferlisfræðing, og fl. „Hlutverk áfengis í sambandi knattspyrnukeppna þjóðarinnar og heimilisofbeldis. Vísbendingar frá Englandi“ (The role of alcohol in the link between national football (soccer) tournaments and domestic abuse – Evidence from England), sem birtist í tímaritinu „Social Science & Medicine“ í janúar 2021. Anna hefur einnig skrifað blogg um rannsóknina á bloggsvæði Hagfræðiháskólans í Lundúnum (London School of Economics). Það benti Viðar mér á.

Anna lætur áðurgreindrar undirstöðurannsóknar getið, en þó ekki beinlínis þeirrar staðreyndar, að þar sé kyn sjálfsskilgreindra fórnarlamba, þ.e. þeirra, er tilkynntu um ofbeldi, ekki sundurgreint.

Skoðaður er fjöldi tilkynninga um ölvunartengt heimilisofbeldi til þriðja stærsta lögregluumdæmis í Englandi, „West Midlands Police.“ Aukning var mæld 47%, þegar Englendingar báru sigurorð af andstæðingum sínum.

Í hvorugri rannsóknanna er skoðað nánar eðli tilkynnts ofbeldis og tildrög. Í rannsókn Önnu og félaga eru tilkynningar þó kyngreindar. Anna bendir á hið sjálfgefna, að sé áfengi haft um hönd, aukist ofbeldi. Áfengisdrykkja stuðlar að hömluleysi og hömluleysi að ofbeldi. Það þarf ekki knattspyrnuleik til.

Höfundur bendir sömuleiðis á staðtölur frá Hagstofunni (Office for National Statistics frá 2019), þar sem fjöldi heimilisofbeldistilkynninga er kyngreindur. Á grundvelli þessa segir hún: „Hver og einn getur orðið fórnarlamb heimilisofbeldis (domestic abuse), en konur þó oftar: Samkvæmt mati [ofangreindrar stofnunar] tilkynntu 7.5% kvenna og 3.8% karla í Englandi og Wales um reynslu af einhvers konar heimilisofbeldi á einu ári, til loka marsmánaðar að telja.“ Þetta eru kunnuglegar tölur, sem trúlega lýsa því, að karlar séu fjarri því jafniðnir við að tilkynna ofbeldi kvenna sinna til lögreglu og konur karla sinna. En séu þeir spurðir í þaula í könnunum, kemur ævinlega hið sama í ljós. Kynin eru tiltölulega jafnvíg á ofbeldi.

Önnu er mjög í mun að draga karlógn fram í dagsljósið. Hún segir: „Í fyrri rannsóknum af eigindlegum toga [hafa höfundar] ýjað að því, að návígisíþróttir (contact sport) í sjónmiðlum kynnu að þjóna þeim tilgangi fyrir íþróttaáhugamenn [meðal karla] að geta endurskilgreint karlmennsku sína á þann hátt að leyfa sér yfirráð [og] stjórnun, sem að lokum gæti leitt til, að þeir, séu slíkar tilhneigingar til staðar, fremji heimilisofbeldi.“

Anna vísar í þessu efni til tveggja greina. Sú fyrri, bókarkafli, ber titilinn: „Heimilisofbeldi og sjónvarpsútsendingar íþróttaviðburða. „Það er karlamál.““ (Domestic Violence and Televised Athletic Events: „It‘s a Man Thing.“ Aðalhöfundur er Don Sabo. Eitt atriðisorðanna er „drottnunarkarlmennska“ (hegemonic masculinity). Kaflinn hefst á frásögn um Jennifer á fimmtugsaldri. Eiginkarlinn tók uppá því að ganga í skrokk á henni, þegar uppáhaldsliðið hans, „Buffalo Bills,“ laut í lægra halda á ruðningsmeistaramóti (Super Bowl). Lýsingar Jennifer voru ófagrar. Svo sáraeinfalt er nú það.

Hin tilvísunin er reyndar til doktorsritgerðar eftir Jodie Swallow frá 2017. Jodie er kvenfrelsunarfræðimaður, sem spyr til reynslu níu kvenna af ofbeldishneigðum körlum sínum. Hún kallar aðferðina „stöðuþekkingarfræði (standpoint epistemology): „[E]ðli og jafnvægi valda var miðdepill þessarar rannsóknar. Kjarni hennar er raddir jaðarsettra kvenna.“

Anna sér ástæðu til að geta þess, að (óopinber áhugamanna-) Þjóðarmiðstöð gegn heimilisofbeldi (National Centre for Domestic Violence) hafi hleypt af stokkunum herferð, meðan á síðasta heimsmeistaramóti stóð. Áróðurþulan hljómaði svo: “Lúti Englendingar í lægra haldi, gerir hún það líka, ímyndin er blóði drifin ásjóna hennar.” (Þetta eru reyndar áþekk vinnubrögð og Stígamót beita í sambandi við „nauðgunarhátíðir“ víða um land og ofbeldisiðnaðurinn yfirleitt.) Anna heldur því fram, að þessi svipmynd endurspeglist í nefndri undirstöðurannsókn, en fyrir því er enginn fótur. Það er rangt.

Í téðri rannsókn Önnu koma 78% tilkynninga frá konum, sem segjast hafa verið beittar heimilisofbeldi. Þar með megi álykta sem svo, að heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu sé tilefni ofurölvunar og æsi enska karlmenn til ofbeldis gegn konum sínum. En þetta lögmál virðist, samkvæmt greininni, ekki eiga við um ruðningsíþróttina (rugby). Kyngreining tilkynninga leiðir i ljós, að konur tilkynna ofbeldi við umræddar aðstæður hlutfallslega oftar – miðað við karlmenn - en þær gera venjulega. Hún telur sem sé, að hér sé um orsakasamband að ræða, þ.e. meðan á knattspyrnuleikjum standi, sjá karlar sér leik á borði og telji sér trú um, að þeir megi ganga í skrokk á konum sínum eða beita þær annars konar ofbeldi.

En vafalaust gætir sömu meginreglu og fyrr er getið, að karlar hlaupi síður til lögreglu, þótt þeir hljóti pústra frá kerlu sinni eða meiðandi ummæli, hvort heldur þeir eru alls gáðir eða sauðdrukknir. Höfundar skoða ekki þessa reglu.

Skyntúlkun fólks (fræðimenn meðtaldir) er með þeim hætti, að nálægð fyrirbæris við annað í tíma og rúmi feli í sér orsakasamband. En það er fjarri lagi. Þetta vörpuðu þýskir tilraunasálfræðingar ljósi á fyrir einni og hálfri öld síðan. Það sama gildir um tölfræðileg tengsl tveggja þátta eða atburða. Það verður einungis útskýrt við túlkun og merkingarleit.

Byggist hugmyndafræði fræðimanns á þeirri rökfærslu; að konur séu kúgaðar af körlum; að ofbeldi sé afbrigði þeirrar kúgunar; að markmið rannsóknar sé að skoða birtingarmynd þessarar kúgunar; er niðurstaðan sjálfgefin. Það á við um rannsókn Önnu og þær tvær, sem hún vísar til og hér er getið. Um er að ræða býsna dæmigerðar kvenfrelsunarrannsóknir.

Það er væntanlega á allra vitorði, að fólk, sturlað af áfengisdrykkju, gefi alls konar fýsnum lausan tauminn. Því lýsa elstu heimildir um mannlífið. Það kemur því varla á óvart, að tilkynningum um ofbeldi til lögreglu fjölgi, þegar knattspyrnuheimsmeistarasvall á sér stað. Það kemur heldur ekki á óvart, að konur skuli tilkynna meira ofbeldi en karlar til lögreglu. Það er nánast „lögmál“ að telja og í samræmi við látlausan áróður kvenfrelsunaraiðnaðarins. Kvensakaráberum er hampað sem hetjum. Og hver vill ekki vera hetja?

En öðru máli gegnir, hvort karlar sýni meira ofbeldi í nánum samböndum en konur. Svo er almennt ekki. Það er margrannsakað fyrirbæri. (Vísa til viðeigandi greina á: arnarsverrisson.is)

Umgetnar rannsóknir eru öldungis ófullnægjandi fræðileg heimild fyrir staðhæfingum þess efnis, að enskir karlar noti heimsmeistaramótið í knattspyrnu sem átyllu til að berja konur sínar.

Og svo er það „eitraða karlmennskan.“ Það er ærið snúið að henda reiður á skilgreiningu fyrirbærisins. Það er nefnilega líka talað fullum fetum um „sjúka karlmennsku.“ Ég rek ekki minni til þess, að kvenfrelsunarfræðimenn hafi greint þar á milli. Svo virðist, að það eigi við um alla karlmennsku, sem fer í taugarnar á kvenfrelsurunum. En sé um að ræða ofbeldishegðun sérstaklega, hlýtur það að eiga við um ofbeldishegðun kvenna einnig. Taki lesendur mark á endurteknum, vönduðum rannsóknum á efninu, er niðurstaðan sú, að í nánum samböndum séu kynin ámóta eitruð.

Hins vegar beita karlar kynbræður sína áþreifanlegu ofbeldi í miklu meira mæli en konur kynsysturnar. En það merkir í sjálfu sér ekki, að þær búi yfir minni grimmd í þeirra garð. Hún á sér öðruvísi birtingarmyndir. En konur hafa „vinninginn,“ þegar um er að ræða ofbeldi gegn börnum og fóstrum.

Svo „eitrunar-„ eða „sjúkleikadæmið“ er torvelt að fá hlutfallslegan botn í, þ.e. hvort jafnrétti ríki í þessu efni milli hinna hefðbundnu (eitruðu) kynja.

https://www.youtube.com/watch?v=pILCn6VO_RU


Eitruð kvenmennska

Samkvæmt nýlegri skýrslu frá Landlæknisembætti Bandaríkja Norður-Ameríku (BNA), þar sem dregnar eru saman helstu staðreyndir um reykingar mæðra á meðgöngu, þ.e. um fjórðungs mæðra, geta reykingar haft skaðvænlegar afleiðingar fyrir fóstrið eða barnið. T.d. óeðlilegan vefjaþroska við fæðingu (lága fæðingarþyngd) og alvarlega fæðingargalla. Embættið bendir einnig á, að reykingar mæðra verði um eitt þúsund reifabörnum í BNA að fjörlesti árlega. Þar af eru um fjörutíu af hundraði dauðsfalla flokkuð sem vöggudauði eða heilkenni skyndilegs andláts hvítvoðungs (sudden infant death syndrome). Þar að auki er sérstök hætta á fósturláti, ótímabærri fæðingu, fæðingu andvana barns og höfuðsmæð.

Um sjö þúsund börn í BNA fæðast með skarð í vör (oral cleft) eða holgóm (cleft palate), sem rakið er til reykinga mæðra þeirra. Hvort tveggja kann að hafa í för með sér erfiðleika með inntöku fæðu, eyrnabólgu, heyrnarskerðingu, talörðugleika og tannvanda.

Óhóflega neysla lyfseðilsskyldra lyfja, þ.e. löglegra efna, þar með talin þunglyndislyf, er einnig þekkt fósturmeiðandi hegðun mæðra. Hún er svo algeng, að í BNA er stundum talað um þjóðarheilbrigðisvanda – og ekki að ósekju. Á þriðja tug þúsunda nýbura þjást af þessari fíkn mæðra sinna, þ.e. þjást af því, sem kallað er heilkenni fráhvarfseinkenna nýbura (neonatal abstinence syndrome – neonatal withdrawal syndrome). Þessi fjöldi samsvarar því, að um tvö börn á hverri klukkustundu hljóti slík örlög. Einstök einkenni geta verið m.a.: vandræði með svefn og andardrátt, niðurgangur, uppsölur, aukinn hjartsláttur, skerandi grátur, skjálfti og skert fæðuinntaka. Það kveður svo rammt að þessu, að fjöldi krílanna fjórfaldaðist á árabilinu 2004 til 2013, sem endurspeglaðist í sjöföldun innlagna á bráðadeildir fyrir nýbura.

Neysla ólöglegra fíkniefna (drug abuse) er býsna algeng. Í BNA segjast – samkvæmt Lyfjastofnun í þvísa landi (National Institute on Drug Abuse) - tæpar tuttugu milljónir kvenna eða rúm fimmtán af hundraði, hafa neytt fíkniefna síðasta árið. Sú tala felur reyndar einnig í sér misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja. Sá hópur kvenna er talinn um átta og hálf milljón eða 6.6 af hundraði kvenna. Þetta á við um konur, átján ára og eldri, ári áður en rannsóknirnar voru gerðar. Á árabilinu 1999 til 2014 fjórfaldaðist fjöldi fæðandi fíkniefnamæðra (opioid use disorder).

Stofnunin minnir á, að „[f]lest lyfja, þar með talin ópíöt [deyfandi og kvalastillandi lyf] og örvunarlyf (stimulants), geti haft skaðleg áhrif á hið ófædda barn. Neysla nokkurra efna getur aukið líkur á fósturláti og geta valdið heilakveisu (migraine - mígreni), krömpum og háum blóðþrýstingi móður, sem geta haft áhrif á fóstur hennar.“

Einnig bendir stofnunin á, að „áhætta á andláti barns við fæðingu sé tvisvar til þrisvar sinnum meiri hjá mæðrum, sem reykja tóbak eða hamp (marijuana), taka verkjalyf eða neyta ólöglegra lyfja, meðan á meðgöngu stendur.“

Umrædd stofnun er kvenvæn: „Það getur reynst hverjum og einum fíkniefnaneytanda erfitt að losa sig úr greipum fíknarinnar. Það gildir um konur sérstaklega, að þær hræðist hjálp, meðan á meðgöngu stendur eða að henni lokinni, þar sem hugsanleg ógn kynni að stafa af laganna vörðum (legal) eða barnavernd (social), ásamt vöntun á barnagæslu, meðan á lækningu stendur. Konur í meðferð þarfnast oft og tíðum stuðnings til að axla vinnubyrði, [sinna] heimili, umönnun barna, og öðrum verkefnum innan fjölskyldunnar.“

Óhófleg áfengisneysla móður er skeinuhætt fóstri, barni, hennar og getur leitt til skelfilegra afleiðinga fyrir afkvæmið; áfengiseitrunarheilkenni fósturs (foetal alcohol syndrome – fetal alcoholic syndrome – foetal alcohol spectrum disorder), sem tekur til margvíslegra þroskaskerðinga.

Tæp fimm af hundraði mæðra í BNA eru greindar með áfengissýki. Kannanir úr álfu þeirri sýna, að um tíu af hundrað mæðra drukku áfengi í þeim mánuði, sem könnun var gerð, en hins vegar höfðu tuttugu til þrjátíu af hundraði drukkið á meðgöngu. Í BNA fæðast árlega fimm til tólf þúsund börn vegna áfengiseitrunar í móðurkviði.

Dæmigerð einkenni: Afbrigðilegir drættir í andliti, lítið höfuð, hamlaður vöxtur, ónóg þyngd, skert samhæfing hreyfinga, ofvirkni, athyglibrestur, minnisleysi, námsörðugleikar, skertur málþroski, greindarskerðing, dómgreindarskortur, svefnvandamál, brengluð sogþörf, skert sjón eða heyrn, brenglun í starfsemi hjarta, nýrna eða beina.

Árið 2014 skýrði BBC frá sérstökum málaferlum í þessu sambandi. Hópur lögfræðinga ákærði áfengissjúka móður sjö ára stúlkubarns og kröfðust bóta fyrir heilaskaðann, sem móðirin olli dóttur sinni í móðurkviði. Dómarinn sýknaði móðurina með þeim rökum, að til að unnt væri að skilgreina glæp, þyrfti að eiga sér stað „íþynging við alvarlegan skaða á einstaklingi – alvarlegur skaði á fóstri ætti þar ekki við.“

Kvenfrelsunarfrömuðurnir, Rebecca Schiller og Ann Marie (Bradley) Furedi (f. 1960), töldu dóminn viðbrigðamikilvægan fyrir frelsi mæðra. Sú síðarnefnda sagði m.a.: „Uppkvaðning dómsins er mikilvægur fyrir konur hvarvetna. … Æðstu dómstólar í Sameinaða konungsríkinu (UK) hafa viðurkennt rétt kvenna til að ákvarða sjálfar um þungun sína.“ Rebecca þessi er meðstofnandi „Fæðingarréttar“ (Birthright), félagsskapar, sem berst fyrir mannréttindum við fæðingar. Ann Furedi var aðalframkvæmdastjóri hinnar „Bresku ráðgjafarþjónustu við meðgöngu“ (British Pregnancy Advisoru Service)

Til viðbótar þeim fóstrum, sem týna lífinu í móðurkviði, er um níu hundruð þúsund fóstrum eytt í BNA árlega. Engar tölur eru til um hin svokölluðu „sorpgámabörn“, þ.e. nýbura, sem mæður losa sig (oft) við í sorpgáma. Árið 1998 var áætlað, samkvæmt fréttaflutningi víðsvegar um BNA, að þau væru um hundrað og fimmtíu. Um þriðjungur þeirra var látinn. Mæðurnar eru venjulega ungar að árum, unglingar eða konur á þrítugsaldri. Reyndar eru kunnar fleiri aðferðir en útburður í sorpgám eins og t.d. að kasta nýburunum út um glugga, skilja þau eftir í lækjum eða í vegarkanti, drekkja þeim eða kyrkja þau.

Í Los Angeles er í burðarliðnum ný löggjöf, sem tekur mið af svipaðri löggjöf í Arizona og Texas. Mæðrum er boðið að losa sig við nýbura sína nafnlaust og án viðurlaga á bráðadeildum sjúkrahúsa, í nýburaathvarf eða öryggiskjól (Safe Haven), innan þriggja sólarhringa frá fæðingu. Í Indiana og víðar er þeim boðið að losa sig við börnin í þar til gerða hitakassa, athvarfskassa (Safe Haven Baby Box) eða vonarkassa (Hope Box). Árið 2017 var 478 börnum kastað í þessa kassa í Georgíu, en 774 í Kaliforníu. Þetta gæti gefið vísbendingar um þann fjölda, sem áður hvarf sporlaust. Eins kynnu kassarnir að hvetja til útburðar. Þrátt fyrir þetta úrræði, finnast enn útborin börn víða um álfuna.


Víti til varnaðar. Siðrof í sögunni

Það er oft háttur manna, þegar snuðra hleypur á þráðinn í samskiptum og samvinnu, að draga sig inn í skel sína, sýna tortryggni, hverfast gagnrýnislaust um sjálfan sig, sýna andúð og láta ill orð fjúka. Þetta virðist eiga við um öll mannanna samskipti frá minnstu félagseiningum til þeirra stærstu. Þetta verður stundum grátbroslegt í samskiptum stjórnmálamanna og þjóðarleiðtoga.

Það kastar þó tólfunum, þegar ríki eða bandalög þeirra fara í fýlu og beita svokölluðum refsiaðgerðum. (Ég vil ekki vera „memm,“ segja börnin í sandkassanum. „Þú færð ekki að smakka nammið mitt.“) Slík viðbrögð og afstaða herðir á hnútnum og skapar óþarfa deilur, þegar mest liggur við að tala saman, kæla höfuðið og finna lausnir. Stríð hefur í mannkynssögunni aldrei verið farsæl laun á samskiptum fjölskyldna, ættflokka, þjóða og bandalaga. Þegar stríð eru ekki háð vegna óöryggis og misskilinnar sæmdar, er um græðgi, ávinning og útrás fyrir grimmd að ræða. Grimmd mannsins eru engin takmörk sett, enda hefur mannkynið búið til fjölþætta viðspyrnu gegn óheftri útrás hvata, grimmd eða ýgisvalli. Það er menningin, okið, sem upphafsmaður sálgreiningarinnar, hinn austurríski Sigmund Freud (1856-1939), kallaði svo.

Þegar litið er um öxl í sögu mannkyns og hún brotin til mergjar, sjást engin augljós merki þess, að eðli mannsins hafi breyst að neinu marki um aldir alda. Stundum er haft á orði, að við skyldum læra af sögunni. En það er hægara sagt en gert. Fólk er gleymið, sagan breytist í meðförum þess, sérstaklega hafi það hagsmuni eða sjálfsvirðingu að verja. Minnið er skapandi hæfileiki bæði hjá einstaklingum og þjóðum. Því er viðleitni til þess arna eins og ókleifur hamar. Norður-ameríska rithöfundinum, Mark Twain (Samuel Langhorne Clemens 1835-1910), fórust orð á þá leið, að enda þótt sagan endurtæki sig ekki, „rímuðu“ stundum einstakir atburðir eða skeið.

Þegar umræða og samtal einkennist af einstrengingi, heift, hatri og nafnaskoðun, eykst hættan á upplausn, sundurlyndi, múgæsingu, vansæld, örvæntingu, útilokun og útlegð. Þá er viðbúið að bresti siðgildi og siðsboð. Slíkt háttalag er farvegur bókstaflegra árása, átaka og aftaka. Franski gáfumaðurinn og félagsfræðingurinn, Emile Durkheim (1858-1917) nefndi fyrirbærið „anomie“ á tungu sinni. Það mætti íslenska sem siðrof. Þá byltist samfélagið áfram í hatri, óöryggi og örvinglun. Fólk lætur stjórnast af frumstæðum hvötum og múgsefjun. Vitsmunalega er hún knúin áfram af einfaldri hugmyndafræði og rétttrúnaði. Tilraunir til gagnrýninnar umræðu eru unnar fyrir gýg og málfrelsi er fótum troðið. Þessi þróun blasir við okkur í dag.

Hjálögð grein kanadíska sagnfræðingsins, Margaret Olwen MacMillan (f. 1943), er skrifuð af yfirgripsþekkingu og frjósömu innsæi. Höfundur bendir á ýmis mannkynsvíti í sögunni, bæði er snerta innra hrun samfélaga og hamfarir á alþjóðavettvangi. Það ætti að vinda bráðan bug að því að slá varnagla við ýmsu því í samfélagsþróun samtímans, sem í ljósi sögunnar gæti reynst örlagaríkt, og jafnframt opna augun upp á gátt fyrir nýrri þróun, sem vafalítið verður skeinuhætt hinu opna lýðræðissamfélagi og réttarríkinu.

https://www.foreignaffairs.com/articles/united-states/2020-08-11/history-which-past-prologue?utm_medium=newsletters&utm_source=summer_reads&utm_campaign=summer_reads_2021_newsletter&utm_content=20210711&utm_term=fa-summer-newsletter-20200702


Nauðgunarmærð Margrétar Tryggvadóttur

Það hefur löngum verið mér hugleikið, hvers vegrna kostum prýddar atgerviskonur skuli þrástagast á því, að þær og kynsysturnar séu fórnarlömb karla? Er hin margumrædda „valdefling“ kvenna í því fólgin að geta skírskotað til kvenvonsku karla og þannig réttlætt misrétti gegn þeim og hefndir. Skynsemi og staðreyndir hripa af þeim eins og vatn af gæs.

Hlutaðeigandi konur – og kvenundirgefnir karlar – beita sífellt öflugri múgsefjun og gera kröfur um „réttarbætur“ í málum, sem hafa með áreitni og glæpi af kynferðislegum toga að gera. Réttarbætur á öðrum sviðum virðast síður skipta máli. Það er harla fátt orðið í mannlífinu, sem fellur ekki undir kynferðislegan dólgshátt karla. Konur eru dauðhreinsaðar af slíkri ósvinnu. Nauðgun er viðmiðun alls í frelsisbaráttu og naflaskoðun kúgaðra kvenna. Hér um bil allir eru vondir við konur og lögregla og dómstólar eru svo ósvífnir að trúa þeim ekki umsvifalaust, þegar þær ásaka karla um nauðgun eða annan kynóþokkaskap.

Stundum vaknar þó von mín um, að konur séu að opna hug sinn og meðtaka skynsemi og staðreyndir, séu að losna úr þeim álögum, sem kvenfrelsarar hafa á þær lagt. Því var það með nokkurri eftirvæntingu, að ég las grein Margrétar Tryggvadóttur, rithöfundar, „Uns sekt er sönnuð,“ enda þótt hún birtist í kvenfrelsunarblaðinu, Kjarnanum.

Margrét vill augljóslega láta í veðri vaka, að rétt skuli vera rétt, réttlæti ríkja og sekt sönnuð. Hún notar orðið manneskja. (Það kallaði íslenskukennari minn „mannsveskju.“) Það virðist hafa sama tilgang og þegar kvenfrelsarar tala um aðgerðir til jafnréttis, þ.e. að villa um fyrir lesendum. Venjulega er átt við misrétti gegn körlum, aðför að þeim og sérstök hlunnindi handa konum og ívilnanir, sbr. bleiku skattana. „Mannsveskja“ merkir sum sé kona.

Greinin fjallar í reynd um nauðgun á konum. Margrét segir og fellir grímuna:

„Ég vil lifa í samfélagi þar sem enginn er fundinn sekur uns en sekt er sönnuð en þá verður líka að taka kynferðisbrot alvarlega, hlusta á brotaþola, styrkja stöðu þeirra í réttarvörslukerfinu, rannsaka málin og fylgja þeim eftir. Á meðan málsmeðferð þessara mála er jafn broguð og raun ber vitni hafa brotaþolar engin önnur úrræði en að segja frá – nýta málfrelsi sitt, jafnvel þótt töluverðar líkur séu á að þeir hljóti dóm fyrir meiðyrði. Samt er tjáningarfrelsi brotaþola er líka mannréttindi og allir eiga rétt á að greina frá reynslu sinni og upplifun án þess að hljóta dóma fyrir.“ Brotaþoli er greinilega sá, sem telur sig hafa orðið fyrir afbroti, án þess að dæmt hafi verið í málinu. Mannréttindi og málfrelsi er það talið að ásaka karla um glæp og meiðyrðadómur enn ein birtingarmynd kúgunar kvenna.

Margrét er óneitanlega hjáróma í alþjóðakór kvenfrelsara, sem sungið hafa sama stef í áratugi. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, er kórstjórinn um þessar mundir í Íslandsdeildinni, enda hafa henni verið skapaðar kjöraðstæður til að sinna sérstökum hugðarefnum sínum á kostnað skattgreiðenda. Eitt gæluverkefnanna er skýrsla Hildar Fjólu Antonsdóttur, réttarfélagsfræðings og kvenfrelsara. Hún er nýlega bakaður doktor úr Svíþjóð. Hildur Fjóla kemst að alkunnri niðurstöðu, samkvæmt greininni, ærandi kvenfrelsunarþulu:

„„Erlendar rannsóknir á upplifun þolenda kynferðisbrota sem leita réttar síns hafa einnig leitt í ljós að lögregla, saksóknarar, dómarar og læknar líta í sumum tilvikum svo á að brotaþoli hafi með einhverjum hætti borið ábyrgð á ofbeldinu eða sé jafnvel að ljúga til um það (Campbell o.fl. 2001). Slík viðbrögð geta valdið því að brotaþolar upplifa það sem kallað er önnur árás eða annað áfall (Williams 1984; Madigan og Gamble 1991; Martin og Powell 1994). Það eru ekki eingöngu neikvæð viðbrögð opinberra aðila sem geta valdið brotaþolum öðru áfalli heldur einnig ákvörðun yfirvalda um að ekki verði aðhafst í málinu. Brotaþolar geta upplifað annað áfall ef lögregla ákveður að hætta rannsókn eða þegar saksóknarar ákveða að gefa ekki út ákæru í málinu (Campbell 1998; Hildur Fjóla Antonsdóttir 2018). Viðmót fagaðila innan réttarkerfisins og hvernig málið er meðhöndlað getur því verið gríðarlega mikilvægt fyrir andlega og líkamlega heilsu þeirra sem kæra brot.““ Hildur Fjóla notar hugtakið, brotaþola, í sömu merkingu og greinarhöfundur. Þetta er dæmigert kvenfrelsunarhandbragð í áróðri. Við skulum finna til með nauðgaðri konu. Og hver gerir það ekki?

„Brolaþolum“ er sýnd sérstök umhyggja í heilbrigðiskerfinu. Margrét segir: „Manneskja verður fyrir kynferðisofbeldi af hálfu maka, kunningja eða þjóðþekkts manns af handahófi. Hún leitar á Bráðamóttöku þar sem Neyðarmóttaka fyrir þolendur kynferðisofbeldis er staðsett. Þar er opið allan sólarhringinn og þolendur kynferðisbrota eru í forgangi og þurfa aldrei að bíða frammi. Þolendur fá aðstoð, geta fengið sálfræðiþjónustu, réttargæslumann, upplýsingar og ráðgjöf, lífsýnum og sakagögnum er safnað sem og atvikalýsing tekin niður. Einnig er gert að áverkum brotaþolans eftir atvikum.“ Faðmur Kvennaathvarfs og Stígmóta stendur þeim (og börnum þeirra) vissulega opinn.

Konur, sem tjá sig um meint kynaferðisfbrot, kallar lögregla, stjórnmálamenn, kvenfrelsarar og almenningur, hetjur. Þær eiga öruggan fagnaðarfund í fjölmiðlum, sem baða þær ógagnrýnið í sviðsljósinu. Það líður varla sá dagur, að kvenfrelsunarfréttastofa „útvarps okkar allra“ kynni ekki nýja hetju til sögu þrálátrar kveneymdar. Hún tjáir landsmönnum, að önnur „kvenfrelsunar(me-too)byltingarbylgja“ sé hafin. Fórnarlömbin koma í hundraðakippum jafnvel. Um það leyti, sem þessi orð voru kröbbuð, stigu þau á stokk í tengslum við „nauðgunarhátíðina“ í Eyjum, eitt hundrað og þrjátíu kvaldar systur. Brekkusöngvastrákurinn hefur nú skotið bæði Weinstein og Cosby ref fyrir rass. Íslendingar hafa löngum verið heimsmeistarar.

Konum, sem segja sig beittar kynofbeldi, er veitt sérstök aðhlynning í heilbrigðiskerfinu. Raunar á það sama við um löggæslu- og réttarkerfi, þó eigi sé það fullkomið frekar en önnur kerfi. Stöðugt er réttað í fleiri málum, minni kröfur gerðar um sönnunarbyrði og lögreglurannsókn. Það leiðir óhjákvæmilega til þess, að sakfellingar verða færri. Það ber ekki á góma hjá Margréti.

Og hver er svo niðurstaða höfundar? Hvernig mætti, að dómi hans, taka nauðgunarákærur í meiri alvöru og forðast dóma „uns sekt er sönnuð.“ Niðurstaðan er vandfundin í greininni, en sú ályktun verður varla umflúin, að höfundur trúi því, að réttlætið felist í trúnni á orð kvenna og í trúnni sé sektin sönnuð. Sé dómur rangur, að dómi sakarábera, má alténd leggja málið í dóm götunnar. Það er „neyðarréttur“ hans og „málfrelsi.“

Vonandi fjallar Margrét í síðari grein um kynofbeldi kvenna, rangar sakargiftir í kynferðisafbrotamálum, m.a. falskar nauðgunarákærur, og mismunandi „nauðganir.“ Ábyrgð kvenna á sjálfum sér væri einnig áhugavert umræðuefni, en það forðast kvenfrelsarar eins og heitan eldinn.

Ég - eins og væntanlega flestir lesenda - get vitaskuld tekið undir þessi orð greinarhöfundar: „Kynferðisbrot eru hræðilegir glæpir og afleiðingarnar geta verið langvarandi.“ En það geta afleiðingar annarra hræðilegra glæpa einnig verið. Hvað er svona merkilegt við kynferðisafbrot umfram aðra glæpi? Viðbrögðin ráðast að töluverðu leyti af þroska þolanda og almenningsálitinu. En það er alrangt, að afleiðing nauðgunar sé óhjákvæmilega „áfallastreituröskun,“ eins og starfsmenn í nauðgunariðnaðinum hafa fullyrt.

https://kjarninn.is/skodun/uns-sekt-er-sonnud/


Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband