Bloggfærslur mánaðarins, júní 2021

Góðir strákar og gerendameðvirkni. Hildur Lilliendahl Viggósdóttir, Stígamótahetja

«Góðir strákar» merkir karlfauta, sem meiða konur og nauðga, en hafa barasta ekki hugmynd um það. Þá skortir nefnilega einhvers konar «kynlífsofbeldisnæmi.» Þetta er hugtak, sem áberandi kvenfrelsarar líðandi stundar beita til að opna augu karla og ala okkur upp til betri siða í heilögu frelsunarstríði kvenna. Þórdís Elva Þorvaldsdóttir skrifaði okkur opið bréf nú á vordögum, þar sem sama hugtak var í brennidepli. Ég hef annars staðar gert því skil og fjölyrði því ekki um það hér.

Greinar sínar skrifa Hildur og Þordís ýmist í Stundina (sem sérstaklega hefur auglýst grein hennar á Fésbók) og Kjarnanum, sem, ásamt fréttastofu RÚV, stunda rannsóknarblaðamennsku á útvöldum sviðum. Eitt þeirra er kvenfrelsun.

Hildur skrifaði einmitt grein í Kjarnann (24. maí þ.á.) með fyrirsögninni: „Af reikningskilum og gerendameðvirkni.“ Og þar er góðu strákunum ekki vandaðar kveðjurnar. Það hefur varla farið fram hjá nokkrum manni, að rannsóknarfjölmiðlunum hefur nú tekist að skapa nýja „mee-too-byltingu“ - og meira að segja séríslenska. Samkvæmt skilningi Hildar er svokölluð „gerendameðvirkni“ kveikjan að henni:

”Gerendameðvirkni á sér margvíslegar birtingarmyndir. Sú gerendameðvirkni sem kveikti yfirstandandi #metoo bylgju átti sér stað eftir að sjónvarpsmaður tók viðtal við sjálfan sig þar sem hann öskurgrét yfir ranglætinu sem fólst í kjaftasögunum um að hann beiti konur margvíslegu ofbeldi. Hann lagði þar sérstaka áherslu á að hann væri, eins og allir vita, góður strákur. Þegar hann var svo kærður fyrir téð ofbeldi hvarf hann úr sviðsljósinu.

En gerendameðvirkni birtist ekki bara með góðu strákunum sem sverja ofbeldið af sér. Hún birtist ekki síður, þegar góðu strákarnir stíga fram og „axla ábyrgð“ á öllum mistökunum sínum. Gera „reikningsskil“. Þeir eru nefnilega svo góðir.” (Til samanburðar má geta þess, að nýjasta danska kvenfrelsunarbylgjan reis við uppljóstrun konu um kynhneykslismál. Forustumaður stjórnmálaflokks hafði lagt hönd á hné hennar fyrir u.þ.b. áratugi síðan.)

Hildur heldur áfram: „Samfélagið tollerar þessa menn. Þeim er hrósað fyrir djörfung og hetjuskap, sanna karlmennsku, hreint hjarta, einlægni, heiðarleika, hreinskilni, auðmýkt og þroska. Með þessu fylgjast svo þolendur þessara manna. Brotnar konur sem voru ekki hafðar með í ráðum, fengu ekki tækifæri til að undirbúa sig, fengu ekki að segja skoðun sína, fengu ekki að koma útgáfu sinni af atburðum á framfæri. Hafa aldrei fengið fyrirgefningarbeiðni og kannast bara alls ekki við alla þessa einlægni og auðmýkt.“

Hafi það við rök að styðjast, að körlum sé hampað fyrir játningar um dólgshátt í garð kvenna (kannast reyndar ekki við það), á það ekki síður við um allar kvenhetjurnar, sem stíga á stokk og lýsa eymd sinni og óhamingju. Raunar er Hildur bæði hetja DV og verðlaunuð hetja Stígamóta fyrir baráttu sína gegn kynillsku karla.

En þolendunum fallast ekki hendur, segir Hildur: „Í lokuðum hópum á víðlendum internetsins deila þessir þolendur upplifun sinni hver með annarri. Ég er ein þeirra. Og eftir þessa #metoo bylgju sitja fjöldamargar konur í sárum vegna þess að gerandinn þeirra steig fram opinberlega, sagði afskræmda og sjálfshyllandi útgáfu af ofbeldinu sem hann beitti þær og var fagnað ótæpilega af almenningi í kjölfarið. Það sem að ofan er lýst heitir ekki að axla ábyrgð eða gera reikningsskil. Það heitir að hampa sjálfum sér á kostnað þolenda. Það heitir gaslýsing [andlegt ofbeldi] og áframhaldandi ofbeldi.“

Svo koma ráð til okkur, góðu strákanna: „Ef þú, góði strákur, hefur nauðgað konu, þröngvað þér inn á yfirráðasvæði hennar, troðið tungunni upp í hana, króað hana af, gert hana hrædda, látið hana finna að sjálfsvígshugsanir þínar séu á hennar ábyrgð, suðað um að fá að fara inn í hana þangað til hún örmagnast, tekið hana næstum áfengisdauða með þér heim og klætt hana úr buxunum af því að þú verðir að fá að sýna henni hvað þú ert góður í að fullnægja konum með tungunni, almennt beitt konu eða konur einhverskonar þvingunum, gaslýsingum [andlegu ofbeldi] og ofbeldi, og ert að íhuga að „stíga fram“ og segja hjartnæma sögu af því hvað þú ert góður strákur og ætlar að axla á þessu ábyrgð með því að auðmýkja þig í fjölmiðlum eða hætta tímabundið eða seinna í vinnunni, þá bið ég þig að hugsa þig tvisvar um.“

Það er mikil gæfa karla að mega njóta siðvits Hildar og hirtinga, þrátt fyrir dóma gegn henni fyrir ærumeiðingar á því sviði. Því enn eru dómstólar ekki nægilega kvenráðir og kvenvænir. Hildur og Þórdís Elva eru happafengur Kjarnans og Stundarinnar í rannsóknarblaðamennskunni.

Til umhugsunar má bæta því við, að þegar undirritaður vildi leggja orð í belg kvenfrelsunarumræðunnar, svaraði hinn jafnréttissinnaði ritstjóri Kjarnans, Þórður Snær Júlíusson, erindinu á þann veg, að hann vildi „ekki leggja blaðið undir einhliða umræðu.“ Ætli það lýsi góðri rannsóknarblaðamennsku?

https://kjarninn.is/skodun/af-reikningsskilum-og-gerendamedvirkni/


Strákaskömm

Um áratuga skeið hefur samfélagið lagt fæð á karlmenn og drengi. Inntak þulunnar hefur varla farið fram hjá ungviðinu. Drengir læra, að þeir sér ofbeldisfullir kúgarar stúlkna, og stúlkurnar, að þær séu ábyrgðarlaus fórnarlömb. Foreldrar, ömmur og afar almennt láta þennan meinlega og óheillavænlega áróður sem vind um eyru þjóta.

Þó ekki allir. Í Ástralíu stofnuðu „Mæður sona“ (Mothers of Sons) með sér félagsskap til að andæfa þeirri fæð, sem samfélagið – skólinn ekki síst – leggur á strákhvolpana. Hjálögð er krækja á innihaldsríka mynd um herferð samtakanna gegn smánun stráka í skólanum. Herferðinni er lýst í samtali hinnar óþreytandi skynsemiskonu og kynfræðings, Bettina Arndt (f. 1949), og talsmanns samtakanna, blaðamanninum Prudence Gai MacSween (f. 1952).

Þær stöllur koma víða við. Þær eiga viðtöl við geðlækninn, Tanveer Ahemed (f. 1975), sem rekinn var frá samtökum kvenfrelsunarkarla, Hvíta borðanum (White Ribbon), vegna skorts á trúmennsku við rétttrúnaðinn; kennarann, Christopher Vogel, sem skrifaði mastersritgerð um kvenréttið í einni af jafnréttisáætlunum stjórnvalda; stjórnmála- og þingmanninn Mark Latham (f. 1961), sem barist hefur gegn strákasmánun og Phillip Bligh, talsmann frumbyggja, sem gert hefur alvarlegar athugasemdir við rangfærslur Hvíta borðans um ofbeldi kynjanna meðal frumbyggja. Auk þess er getið hins merka baráttumanns fyrir heillum barna, félagsráðgjafans Frida Briggs (1930-2016), sem fyrir margt löngu benti á þá ósvinnu, sem ætti sér stað gagnvart piltum. Saga kennara nokkurs um æsku í ranni uppeldisfullrar móður er átakanleg.

Sömuleiðis er stuttlega gerð grein fyrir áhugaverðum rannsóknum á heimilisofbeldi og ofbeldi kynjanna, annars vegar frá Áströlsku afbrotamálastofnununni (Australian Institute of Criminology), sem sálfræðingurinn, David Indermaur, stóð fyrir, og hins vegar „Skýrslu um þekkingu á ofbeldi lífsförunauta“ (The Partner Abuse State of Knowledge Report; sjá: Journal of Partner Abuse 2012 og domesticviolenceresearch.org), sem er stærsti gagnagrunnur veraldar um heimilisofbeldi. Í þessu sambandi bregður kanadíska afbrotasálfræðingnum og geðlækninum, Tonia Nicholls fyrir, en hún hefur gert myndband um niðurstöðurnar (The uncomfortable facts on IPV).

Þróunin í Ástralíu gæti verið eins konar framtíðarspegill fyrir íslenska skólakerfið. Þar eins og hér er kvenfrelsunaráróðurfólki boðið í skólana undir því yfirvarpi, að vilja kenna jafnrétti eða ofbeldisvarnir. Í fræðslumyndbandi einu frá yfirvöldum á Íslandi er t.d. fimm mjúkrödduðum konum úr barnavernd, lögreglu og dómskerfi, falið að leiða fórnarlömb kynferðisofbeldis á barnsaldri (stúlkum) um refilstigu kerfisins. Kvenlögreglumaður kennir börnunum um hættu þá, er af körlum stafar.

Áhugamönnum um ofbeldi karla og feðra er boðið að halda fyrirlestra. Boðskapur, fluttur í einum þeirra, var sá, að banna ætti feðrum að skipta um bleyju á dætrum sínum við þriggja ára aldur, því þá ykist hættan á kynferðislegri misnotkun. Eftir því, sem ég best veit, eru íslenskir skólastrákar þó ekki látnir einstaklingsbundið eða í kór sverja kvenhollustu og fara með þulu um syndaaflausn fyrir það eitt að vera karlkyns. Þetta má sjá á myndbandinu.

Námsefni, bæði í skólakerfinu og í æðri menntastofnunum, er markvisst sniðið að kvenfrelsunarhugmyndafræðinni eins og fram kemur greinilega í orðum Christopher. Þar er lögð áhersla á ofbeldi karla gegn konum annars vegar og sakleysi kvenna og stúlkna hins vegar. Nær öll tiltekin dæmi sýna misþyrmingar á konum. Drengir eru meira að segja ávarpaðir sem „hvítir karlkúgarar.“ Þetta hlýtur að vera gullkista nefndar Lilju Alfreðsdóttur um tilhögun kennslu í kvenfrelsunarjafnréttisfræðum í íslenska skólakerfinu.

Nefndar rannsóknir sýna enn sem fyrr þá meginniðurstöðu, að kynin séu í engu eftirbátar hvors annars í ofbeldislistinni. Þó eru vísbendingar um, að frumbyggjakonur séu meðal alofbeldisfyllstu kvenna og tvöfalt ýgari en frumbyggjakarlar. Í tuttugu ára gamalli rannsókn David voru börn innt eftir (líkamlegu) ofbeldi foreldra. Þar var óverulegur á; 22.1% höfðu orðið vitni að ofbeldi af hálfu móður gegn föður, en 23.4% á hinn veginn.

Í skrifum sínum um rannsóknina segir Bettina m.a.: „Ályktunin er sú, að þaggað er niður í öllum litlu börnunum, sem búa við ofbeldi af hálfu mæðra sinna. Hvernig ættu þau að ljóstra upp [um ofbeldið], þegar það er látið í þagnargildi og boðskapurinn segir skýrum stöfum; við viljum ekki vita [af því].“

Að síðustu: Ætli íslenskir foreldrar, afar og ömmur, fari að dæmi þeirra „undir niðri“ (down under)?

https://www.youtube.com/watch?v=GFAu21i91RE


Hver er kominn fram á siðferðisgnípuna? Norræn samtök heimilislækna fordæma skrif heimilislæknis“

Ritstjórar Kjarnans og Stundarinnar hafa um þessar mundir hátt um mikilvægi rannsóknarblaðamennsku fyrir lýðræðið – og fjölmiðla yfirleitt. Þeir tala um faglega blaðamennsku, sem m.a. felst í því að segja sannleikann, fara rétt með staðreyndir og stuðla að lýðræðislega, góðri umræðu.

Hér gefur að líta enn eitt sýnishorn af fagmennsku Stundarinnar,umfjöllun um skoðanir Guðmundar Pálssonar, læknis. Greinin er skrifuð af Ölmu Mjöll Ólafsdóttur. Rannsóknarblaðamennskuhandbragð Stundarinnar er kunnuglegt; neikvæð einhliða og gagnrýnislaus umfjöllun, leyndardómsfull kona, sem er nafnlaus fulltrúi allra kvenna og sérstaklega þeirra, sem nýta sér þjónustu Heilsugæslustöðvarinnar í Grafarholti. Tilgangurinn virðist vera sá að sá fræjum tortryggni í garð læknisins, ekki með skírskotunar til sannaðra misbresta í starfi hans, heldur viðhorfa til baráttu þeirra, sem kvenfrelsarar eru og telja sig berjast fyrir hagsmunum allra kvenna – og siðgæðishugmyndir.

Rannsóknarblaðamanninum, Ölmu Mjöll, kippir í kvenfrelsarakynið. Hún fer með villandi upplýsingar. Hún hefur greinilega átt spjall við Jóhann Ágúst Sigurðsson, formann Samtaka norrænna heimilislækna. Bæði blaðamaður og Jóhann Ágúst láta líta svo út að fjallað hafi verið um kæru á hendur Guðmundi. En það kemur hvergi fram. Því liggur við borð að álykta, að Jóhann Ágúst tali um eigin (for)dóma, en komi ekki fram fyrir hönd fyrrnefndra samtaka. Það er hins vegar grafalvarlegt mál, sem Samtökin ættu að fjalla um. Samtökin ættu einnig að fjalla um það hátterni Jóhanns Ágústs, að benda á skoðanir Guðmundar sem dæmi um auðsýnda vanvirðingu við læknisleg grunngildi. Það er ólíka siðferðilega ósmekklegt og umfjöllun Stundarinnar gervöll.

Þátttaka Stundarinnar í aðför að Guðmundi er ógeðfelld, trúlega fyrsti þáttur réttarhalds götunnar. En miðillinn kann þá kúnst. Það er veruleg hætta á, að maðurinn verði dæmdur í útlegð, þegi menn þunnu hljóði. Enn sem oftar snýst málið um málfrelsi, rétttrúnað og múgsefjun.

Hér má lesa orð Jóhanns Ágústs. En ég hvet fólk til að lesa greinina í heild sinni.

„Jóhann Ágúst Sigurðsson, formaður Samtaka Norrænna heimilislækna eða Nordic Federation of General Practice, segir í samtali við Stundina að „skrif og skoðanir Guðmundar Pálssonar stangast á við grunngildi heimilislækna“.

Í grunngildum heimilislækna segir Jóhann að tekið sé fram að „til þess að varðveita heilsu er mikilvægt að hver og einn njóti réttlætis og virðingar. Þar ber sérstaklega að taka tillit til ójafnvægis eða óréttlætis sem skapast geti vegna kynþáttar/hörundslitar, kyns, kynhegðunar, pólitískra skoðana, atvinnuleysis, trúarbragða, og svo framvegis. Í fyrrnefndum skrifum Guðmundar er vegið að þessum þáttum,“ segir Jóhann.

Þá segir hann að í sömu grein um grunngildin sé bent á að heimilislæknar telji það skyldu sína að tala um eða segja frá ef þeir verði varir við slíkt misrétti í starfi sínu og því telji hann sig vera í þeirri afstöðu [hér á greinarhöfundur vafalaust við aðstöðu] að vekja athygli á þessu vandamáli.

Jóhann segir að Guðmundur hafi tjáningarfrelsi eins og aðrir en það sé alltaf háð þeirri stöðu sem hver og einn sé í. „Þar eð skoðunin tengist oft ekki aðeins persónunni heldur einnig stöðu/fagstétt viðkomandi. Þannig getur til dæmis stjórnmálamaður í valdastöðu ekki tjáð sig um hvað sem er sem persóna, eða hegðað sér hvernig sem er sem persóna, samanber Trump. Læknir er einnig í svipaðri stöðu þar sem fólk getur verið háð honum eða henni vegna heilsu sinnar. Fólk er háð því að læknir sinni vandamálum þeirra óháð þeim þáttum sem ég nefndi hér að ofan. Umræða læknis á Facebook verður þannig bæði tengd persónunni og faginu sem slíku.“

https://stundin.is/grein/13431/norraen-samtok-heimilislaekna-fordaema-skrif-heimilislaeknis/


« Fyrri síða

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband