Viðskiptanefndin eða þögla hersveitin
Í aðdraganda hernámsins er ótalið lýðræðislega sérstakt og mikilvægt hlutverk viðskiptanefndar, sem skyldi taka ákvarðanir um utanríkisverslun Íslendinga og þar af leiðandi líka ákvarðanir um mikilvæg utanríkismál. Hún var eins konar ríki í ríkinu. Stofnað var sum sé til samvinnu ríkisvalds og atvinnulífs, en það var fyrirkomulag, sem notað var í Þýskalandi og á Ítalíu.
Viðskiptanefndina skipuðu Magnús Sigurðsson (1880-1947), Landsbankastjóri; Jón Árnason (1909-1977), framkvæmdastjóri útflutningsdeildar Sambands íslenskra samvinnufélaga (SÍS); Sveinn Björnsson (1881-1952), sendiherra og verðandi forseti íslenska lýðveldisins; Richard Thors (1888-1945), framkvæmdastjóri Kveldúlfs og Haraldur Guðmundsson (1892-1971), forseti Alþingis. Formaður var Björn Ólafsson (1895-1974), Verslunarráði Íslands.
Bresku samningamennirnir sögðu: Íslendingum yrði að gera fullkomlega ljóst, að þeir ættu ekki annars kost en sætta sig við hafnbannið. (A152) (Um var að ræða hafnbann Breta á skip á leið til Þýskalands og eftirlit í því sambandi.)
Viðskiptanefndin sagði Bretastjórn krefjast yfirráða yfir allri utanríkisverslun Íslands í skiptum fyrir vörukaupalán. Engin íslensk ríkisstjórn gæti samið af sér, beint eða óbeint, réttinn til viðskipta við báða stríðsaðila. Frekar reyndu Íslendingar að leita eftir vörukaupalánum á Norðurlöndunum eða í Bandaríkjunum. (A153)
Sveinn Björnsson sagði, að í tillögunni fælist brot á réttindum og skyldum Íslands sem frjáls, fullvalda og hlutlauss ríkis.
Ekki var allt sem sýndist. Svarbréfi Sveins fylgdi athyglisvert minnisblað, sem stakk í stúf við mótbárur hans og hlutleysisyfirlýsingarnar. Á minnisblaðinu voru settar fram víðtækar [viðskipta]kröfur . (A153)
Viðskiptanefndin svaraði Bretum: Íslendingar gera sér glöggva grein fyrir þeirri staðreynd, að Stóra-Bretland berst fyrir lögum og reglum í Norðurálfu og fyrir rétti smáþjóða, þar á meðal Íslendinga, til að lifa í friði. Við erum því reiðubúnir til að selja hingað kjöt og fisk og hætta lífi sjómanna okkar og fiskimanna til að flytja afurðirnar á breskan markað. Og þetta er hlutverk, sem Íslendingar vilja gegna í styrjöldinni. (A156)
Það er í sjálfu sér magnað, að ókjörin viðskiptanefnd taki sér vald yfir lífi heillar stéttar. Trúlega hafa Þjóðverjar hlíft íslenskum fiskiskipum, þótt þeir ættu Íslendingum ekkert upp að inna. Bretar undruðust, að íslenskir sjómenn slyppu svo undravel við tundurskeyti þýska flotans.
Það má líta svo á, að í raun réttri hafi Þjóðstjórnin samþykkt viðskiptasamninga við Breta í janúar 1940 og hafnbannseftirlit. Jafnframt var í sjálfu sér einnig samþykkt að rifta viðskiptatengslum við Þýskaland. Það er eftirtektarvert, að þögla herveitin hafi talið breska heimsveldið smáþjóðavininn mesta.
Þetta var ekki öllum stjórnarliðum ljúft, enda hlaut málið ekki tilskilda, þinglega meðferð. T.d. var ekki um það fjallað í nefndum þingsins. Jóhann Þ. Jósefsson (1886-1961), Sjálfstæðisflokki reyndi að andæfa, kallaði nefndina sambræðslunefnd.
Sigurður Kristjánsson (1885-1968), Sjálfstæðisflokki, skrifaði greinina: Hinar ellefu nefndir í Frjálsa verzlun 7. júlí 1940:
Bresk íslenska viðskiptanefndin. Þögla hersveitin er hún stundum kölluð þessi nefnd. Almenningur veit lítið um fæðingu hennar, og enn minn um það, sem hún gerir. Hlutverk hennar er mikilvægt fyrir land og lýð, því það er í stuttu máli það, að koma viðskipta-úlfaldanum utanríkisversluninni gegnum hið breska nálarauga.
Fyrirsögn í frétt Þjóðviljans hljóðar svo: Innihald bresku samninganna. Utanríkisverslun Íslands sett undir leynilegt eftirlit bresku ríkisstjórnarinnar. 4 Íslendingar, sem Bretar treysta, eiga að hafa yfirumsjón með útflutningunum til að hindra að vörur komist til Þýskalands . Valdhafarnir, sem ljúga landráðum upp á aðra, eru sjálfir að fremja þau. (A188)
Ræðismaður Þjóðverja, Werner Gerlach, fór ekki dult með skoðun sína: Þegar ég hef nú komist opinberlega að þeirri niðurstöðu, að Íslendingar hafi fórnað sjálfstæði sínu og hlutleysi, er skammarlegt að sjá, af hvílíku þýlyndi dagblöðin, þar á meðal Vísir, skríða fyrir Englendingum. Ekki stakt orð í blöðunum, hvorki um þjófnað á pósti, þar á meðal stjórnarpósti né um þvinganir [Bretastjórnar í viðskiptum] (A193)
Raunin var sú, að Þjóðstjórnin fór með tilurð og starfsemi hinnar ókjörnu viðskiptanefndar sem mannsmorð væri. Það var Winston Leonard Spencer Churchill (1874-1965), forsætisráðherra, sem upplýsti um hana. Það var hans fyrsta embættisverk að hernema Ísland.
Þegar Winston hafði ljóstrað upp um leyndarmálið gerði Brynjólfur Bjarnason (1898-1989), þingmaður, fyrirspurn:
Hann var ekki virtur svars venju fremur. Vonlaust var orðið fyrir þjóðstjórnina að ætla að sverja af sér viðskiptanefndina. (A191) Skrítið lýðræði það!
Ásakanir Werner um ritskoðun á pósti landsmanna voru réttar: Næstu mánuði tóku Bretar til sín og rannsökuðu allan póst til og frá landinu, svo að bréfasendingar fóru gjörsamlega úr skorðum. (A190)
Ljósið í vestri fyrsta ameríska lýðveldið
Jónas [Jónsson] frá Hriflu [1885-1968] hafði eitt sinn líkt Bandaríkjunum við ljós, sem Íslendingar hlytu að stefna á, þegar styrjaldaróveður gengju yfir meginland Evrópu. (A175-6)
En það voru fleiri, sem sáu ljósið í vestri. Thor Thors [1903-1965] alþingismaður [síðar fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum] hvatti til þess á fundi í Stúdentafélagi Reykjavíkur, að Íslendingar stórelfdu viðskipti sín og stjórnmálatengsl við Bandaríkin. Í fyrsta sinn hafði áhrifamaður í þjóðstjórnarflokkunum látið í ljós þá skoðun, að hlutleysið nægði ekki til að tryggja öryggi landsins. (A206)
Annar aðdáandi Bandaríkjanna var Framsóknarmaðurinn, Vilhjálmur Þór (Þórarinsson (1899-1972)), forstjóri Samvinnuhreyfingarinnar, ræðismaður í Bandaríkjunum, frímúrari, Seðlabankastjóri, stjórnarmaður í Alþjóðabankanum og utanríkisráðherra í utanþingsstjórn Björns Þórðarsonar (1879-1963). Vilhjálmur hefur verið kallaður besti vinur Bandaríkjanna á Íslandi.
Vilhjálmi var mjög í mun að fitja samtímis upp á varnar- og viðskiptamálum vestra og taldi það styrkja taflstöðu Íslendinga. (A204)
Vilhjálmi virtist tvennt til varnar einræðisríkjunum. Í fyrsta lagi þyrfti þjóðstjórnin að herða eftirlit með kommúnistum og nasistum og helst að uppleysa og lögbanna öll samtök þeirra, svo sem rætt væri um í Bandaríkjunum.
Hann sagði: Hitt annað, sem er miklu stærra atriði, hvernig megum við varnarlausir fáir veita mótspyrnu ofurefli, hvort sem [það] kemur austan frá Rússlandi eða sunnan frá Þýskalandi. Eins og þér vafalaust er kunnugt, er hér í gildi gamall sáttmáli [Monroe-kenningin] um, að Bandaríkin standi með hverju því ríki í Vesturálfu, sem ráðist verði á af utanaðkomandi hervaldi.
Er ekki besta trygging, sem hægt er að útvega Íslandi, ef hægt væri að koma því undir Monroe Doctrine? Máski er enginn vegur að geta komið Íslandi undir þessa vernd vegna þess, að það tilheyrir ekki Vesturálfu formlega séð.
En dr. V[ilhjálmur] Stefánsson [1879-1962] heldur fram að hægt sé að rökstyðja, að Ísland eigi að tilheyra Vesturheimi og máski væri hægt að fá [Franklin Delano] Roosevelt [(1882-1945) Bandaríkjaforseta] til þess að gefa út yfirlýsinguna á þeim grundvelli. (B175)
Í bréfi Stefáns Jóhanns Stefánssonar til Vilhjálms Þór stendur:
Ríkisstjórninni var og er ljóst, að þar sem Bretland er stríðsaðili, mundi vernd þess lands í raun og veru hafa í för með sér, að Ísland væri ekki lengur hlutlaust. Einmitt í því sambandi datt ríkisstjórninni í hug Bandaríkin, sem eru allt í senn: hlutlaust stórveldi, og lega þess og afstaða á þá lund, að það gæti bæði hindrað, að Ísland yrði lagt undir þýsk yfirráð, og hefði ef til vill áhuga fyrir, að svo yrði ekki.
Út af þessu ákvað ríkisstjórnin að rita yður um þetta mál með það fyrir augum, að þér, og þá ef til vill með fulltingi og aðstoð [Vestur-Íslendingsins] dr. Vilhjálms Stefánssonar, sneruð yður til stjórnar Bandaríkjanna með fyrirspurn um það, hvort Bandaríkin vildu og gætu komið því við [ef ráðist yrði á Danmörku] að veita Íslandi vernd og þá væntanlega með hervaldi. (A178)
Vilhjálmur Stefánsson var kunnur heimskautafari og þjóðfræðingur, en ekki einhamur sem slíkur, því hann stundaði líka erindisrekstur fyrir ríkisstjórn Íslands. Í bandarísku dagblaði er frá framtaki Vilhjálms skýrt í frétt 30. janúar 1940:
Í gærkvöldi tók utanríkisráðuneytið [í Washington] til athugunar tillögu frá heimskautafaranum Vilhjálmi Stefánssyni um, að lýst verði yfir því, að Monroe-kenningin sé víkkuð út, svo að Ísland njóti verndar
Í minnisblaði, sem Vilhjálmur samdi handa [Cordell] Hull (1871-1955) utanríkisráðherra, bendir hann á, að þetta varnarlausa eyland kunni að lokum að verða alræðisríkjunum freistandi bráð í framsókn þeirra, sem Finnar verðust um þessar mundir, en ógnaði jafnframt Noregi, Svíþjóð og Danmörku. Ísland gæti orðið hentugur stökkpallur til loftárása á Kanada og Bandaríkin (A204)
Hugmyndir Vilhjálmanna um yfirlýsingu James Monroe (1758-1831), eins stofnfeðra Bandaríkjanna og forseta, þ.e. Monroe-yfirlýsinguna, eru afar sérstakar. Hún er í raun yfirlýsing til hinna gömlu nýlenduvelda, Breta, Frakka, Rússa og Spánverja, um að halda sig fjarri Ameríku eða Vesturhvelinu, því nú hafi Bandaríkin gert þau að áhrifasvæði sínu.
Það er fjarri lagi, að fyrir Bandaríkjastjórn hafi vakað að vernda smáríki. Sú hugmynd er bergmál af þeirri sannfæringu Hermanns Jónassonar, að Breska heimsveldið sé verndari smáþjóða.
Tíminn og Alþýðublaðið [málgögn Þjóðstjórnarinnar] sögðu frá tillögu Vilhjálms Stefánssonar og töldu hana eðlilegt framhald af þeirri kenningu hans, að Íslandi væri í landfræðilegum skilningi fyrsta ameríska lýðveldið. (A205)
Skyggnst í austur
En íslenskir forystumenn sáu fleiri tækifæri, þar sem viðskipti vógu þyngra en sjálfstæði og hlutleysi. Einn þeirra var Héðinn Valdimarsson (1892-1948), forstjóri Skeljungs (British Petroleum) og formaður verkamannafélagsins, Dagsbrúnar. Hann sagði m.a.:
Að stríði loknu þyrftu Íslendingar að huga að inngöngu í breska samveldið eða önnur frjáls samtök lýðræðisþjóða, sem gætu orðið þeim og öllum heiminum öryggi. Þetta var spásögn um stofnun Atlantshafsbandalagsins níu árum síðar, en inngöngu Íslendinga má rekja til reynslu norrænu ríkjanna af hlutleysi á þessu vori. (A332)
Herrarnir Coca og Cola
Eins og áður er getið var Björn Ólafsson bæði forystumaður Verslunarráðs Íslands og einn nefndarmanna í Þöglu nefndinni. Hann var hlynntur Bandamönnum þó hann léti einkum stjórnast af einka- og þjóðarhagsmunum. (B268)
Björn og viðskiptafélagi hans, Vilhjálmur Þór utanríkisráðherra, voru almennt taldir bestu vinir Bandaríkjanna á Íslandi, stundum nefndir Coca og Cola í skopblaðinu Speglinum. (B268)
Þeir áttu kókverksmiðjuna og Björn aukin heldur dagblaðið, Vísi, sem njósnamenn sögðu 1943 að styddi næstum blindandi sérhvert málefni, sem það teldi njóta góðvildar Bandaríkjamanna og Utanþingsstjórnarinnar, sem væri mjög hliðholl skoðunum Bandaríkjamanna.
Verslunarráð Íslands hafði [eins og fram hefur komið] skipað Björn fulltrúa sinn í bresk-íslensku viðskiptanefndinni, sem hafði umsjón með öllum utanríkisviðskiptum Íslendinga og framfylgdi hafnbanni á Þýskaland í samvinnu við Breta. (B268)
Niðurlag
Íslenska lýðveldið átti erfitt uppdráttar frá fæðingu. Sjálfstæði þess var fengið á viðsjárverðum tímum. Fjöregg lýðveldisins var hlutleysið og frjáls viðskipti sjálf lífæðin. Það má ljóst vera, að landsfeðurnir hafi af yfirlögðu ráði glutrað hvoru tveggja niður og hallað sér til frambúðar að anglósaxneskum vinum okkar, eins og Jónas frá Hriflu kallaði Breta og Bandaríkjamenn. Hlutleysið var í askana látið ekki síður hjá athafnamönnum en alþýðu.
Frekari fróðleik má finna í þessum bókum: Páll Baldvin Baldvinsson: Stríðsárin 1938-1945. Þór Whitehead: Stríð fyrir ströndum. Þór Whitehead: Ófriður í aðsigi. Hannes Hólmsteinn Gissurarson: Íslenskir kommúnistar 1918-1998. Snorri G. Bergson: Roðinn í austri. Alþýðuflokkurinn, Komintern og kommúnistahreyfingin á Íslandi 19191924. Árni Snævarr og Valur Ingimundarson 1992. Liðsmenn Moskvu. Samskipti íslenskra sósíalista við kommúnistaríkin. Jón Ólafsson 1999. Kæru félagar. Íslenskir sósíalistar og Sovétríkin 19201960. Þór Whitehead 2010. Sovét-Ísland. Óskalandið. Aðdragandi byltingar sem aldrei varð. https://www.youtube.com/watch?v=UgXyVL7KgAY
Eldri færslur
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021