Ég styðst í megindráttum við tvær bækur Þórs Whitehead, sagnfræðings: (A) Milli vonar og ótta. Ísland í síðari heimstyrjöldinni. Vaka-Helgafell 1995. Og (B) Bretarnir koma. Ísland í síðari heimstyrjöld. Vaka-Helgafell 1999. Síðutal er gefið upp í sviga.
Íslendingar urðu fullvalda, þ.e. fengu heimastjórn, 1918. Ríkisstjórn Íslands lýsti yfir ævarandi hlutleysi og friði við aðrar þjóðir. Danir fóru með utanríkismál.
Fyrsta heimstyrjöldin og heimskreppan setti svip sinn á þjóðlífið, atvinnuleysið var t.d. skelfilegt, aðdrættir tregir. Það liðu rétt um tveir áratugir, þar til næsta stríðsbrjálæði braust út. Íslenska lýðveldið fékk bratta byrjun.
Á kreppuárunum 1934-38 hafði ríkisstjórn Framsóknarflokks og Alþýðuflokks (stjórn hinna vinnandi stétta) undir forsæti Hermanns Jónassonar [1895-1976] gert öll innkaup til landsins háð leyfi stjórnskipaðrar gjaldeyris- og innflutningsnefndar. (A132)
Bretar og Frakkar lýstu yfir stríði á hendur Þjóðverjum. Íslendingar höfðu átt vinsamleg sam- og viðskipti við þessar þjóðir. Bretar og Þjóðverjar renndu hýru auga til landsins. Flotar þeirra tókust á á Atlantshafi. Þetta er í hnotskurn baksvið atburðanna, sem leiddu til stefnubreytinga í utanríkismálum Íslendinga, brotthvarfs frá ævarandi hlutleysi.
Íslendingar bjuggu við þjóðstjórn á þessum válegu tímum, þ.e. 1939-1942. Í Þjóðstjórninni sátu: Eysteinn Jónsson (1906-1993), viðskiptamálaráðherra úr Framsóknarflokki; Jakob Möller (1880-1955), fjármálaráðherra úr Sjálfstæðisflokki; Hermann Jónasson, forsætis-, dómsmála- og landbúnaðarráðherra úr Framsóknarflokki; Stefán Jóhann Stefánsson (1894-1980), félags- og utanríkismálaráðherra úr Alþýðuflokki og Ólafur Tryggvason Thors (1892-1964), atvinnumálaráðherra úr Sjálfstæðisflokki. Viðhorf og nálgun Breta og Þjóðverja er fróðleg.
Hugleiðingar Þjóðverja um Íslendinga
Þjóðverjar ólu á hugmyndum um Íslendinga, sem væru þeir ímynd goðsagnakenndra Aría, afbragð annarra kynstofna á jörðu hér. En vonbrigðin urðu mikil.
Ræðismaður Þjóðverja, læknirinn, Werner Gerlach (1891-1963), sagði t.d.: Afstaða íslensku þjóðarinnar er hvikul og ekki auðvelt að hafa áhrif á hana. Hún ræðst mjög af viðskiptasjónarmiðum því miður eru það aðeins örfáir menn sem hafa skilið eða skilja allt það stórfenglega, sem gerst hefur með þjóð okkar. Vitaskuld legg ég rækt við tengslin við þessa menn, en jafnvel í þessum hópi skortir nær alveg skilning, ekki aðeins á öllum hetjuskap, heldur líka allri hermennsku. (A40)
Naumast er það rembingurinn í þessum 117.000 manns að ætla að stofna sjálfstætt ríki. Þriðjungur þeirra er úrkynjaður og líkamlegir aumingjar. Svo er menningin ekki á háu stig öndvert við það, sem haldið er fram.
Kvikmyndir: Næstum eingöngu amerískar glæpamyndir af versta tagi. Í leikhúsinu sýnir Leikfélagið Sherlock Homes í heilan mánuð. Og hér, þar sem efniviður í leikrit úr fornsögunum blasir við á hverju strái. (A43)
Það er með endemum, að við skulum ganga á eftir Íslendingum með grasið í skónum og skjalla þá í Norræna félaginu og veita þeim alls kyns ívilnanir í bankaviðskiptum, á meðan þeir svíkja okkur samtímis í þágu Englendinga, svívirða okkur í blöðum og útvarpi og í þokkabót selja öðrum það, sem okkur vanhagar mest um fiskimjöl og lýsi. (A52)
Eitt er að minnsta kosti víst og verður að gera mönnum fullkomlega ljóst: Ekkert er eftir af hinum æðra kynstofni eða stolti, heldur aðeins þrælslund, manndómsleysi, skriðdýrslegur undirlægjuháttur og þýlyndi. . Í hnotskurn. Ísland ensk nýlenda undir Danakóngi. (A193)
Hugleiðingar Breta um Ísland og Íslendinga
Í Napóleonsstríðum 19. aldar hafði vísindamaðurinn frægi Sir Joseph Banks (1743-1820) viljað, að Bretakóngur notaði sér ófrið við Dani til að eignast Íslandi. (A254)
Í fyrsta sinn, svo að sögur fara af, festi breskur sjóliðsforingi [admiral] á blað óskir um að nýta Ísland til hernaðar. J.H. [John Hereward] Edelsten kafteinn aðstoðardeildarstjóri, ritaði 2. nóvember 1939, að æskilegt væri að setja upp framvarðarstöðvar í landinu fyrir skip og flugvélar við hafnbanngæslu. Einnig gæti hentað að gera þaðan út flotadeild til að sitja fyrir og elta uppi þýsk víkingaskip, sem reyndu að brjótast út á skipaleiðir Atlantshafs. (A169)
Annar flotaforingi, John Henry Godfrey (1888-1970), tók í mars 1940 undir orð landa síns:
Hernaðarlegt mikilvægi þessa eylands í stríði eða friði er augljóst. Næðum við því á okkar vald með bandalagi eða ríkjasambandi, yrði það varnarkerfi okkar til mesta gagns, en mikil ógn stafaði af yfirráðum einhvers annars stórveldis yfir landinu; Sambandslagasamningurinn við Danmörku rennur út 1943. Íslendingar verða þá að ákveða framtíðarstöðu sína. Þá munu margar leiðir standa þeim opnar, en engin verður þeim í raun fær án samþykkis Breta.
Þeir eru nú einangraðir frá áhrifum Þjóðverja og Rússa. Þeir eru blá fátækir. Meðan svo háttar, er Stóra-Bretland í ákjósanlegri aðstöðu til að hæna Íslendinga að sér fyrir kosningarnar 1943, sem eiga að ákveða framtíð landsins. Við höfum fjögur ár til stefnu, ef til vill fjögur ár án nokkurra keppinauta, Lokatakmarkið yrði að draga landið inn í heimsveldið sem samveldisríki, þótt bandalag eða fyrirheit um að verja landið gæti dugað. (A252-3)
[Charles Reginald Schiller] Harris [(1896-1979) breskur samningamaður] hafði sannfært sendiherrann um, að Íslendingar létu umfram allt stjórnast af því, hve mikið þeir geta fengið í vasa sinn. (A324)
Breska heimsveldi ætlaði að sigra Íslendinga með vinahótum og viðskiptaívilnunum en ekki vopnum. (B11)
Ágengni Breta, tvískinnungur Þjóðstjórnarinnar gagnvart Þjóðverjum og hernám Breta
Í ársbyrjun 1940 hafði stjórnin orðið að gangast undir viðskiptabann Breta á Þýskaland og stóð nú frammi fyrir hótunum Þjóðverja um árásir á íslensk skip og refsingu í viðskiptum að stríði loknu.
Bretar ættu því að bjóða Íslendingum upp á leynilegt, en skriflegt samkomulag, sem leysti stjórnina að nafninu til undan ábyrgð á viðskiptabanni [á Þjóðverja]. (A31)
Bréf flotamálaráðuneytis: Ráðuneytið telur það þess vegna lífshagsmunamál Íslendinga sjálfra, að þeir bregðist við þessari hættu og leyfi ríkisstjórn hans hátignar að leggja sér lið með sjó- og flugher. (A320)
Svar Stefáns Jóhanns Stefánssonar, utanríkismálaráðherra: Afstaða Íslands er hins vegar sú, að þegar sjálfstæði Íslands var viðurkennt 1918, var lýst yfir ævarandi hlutleysi þess, og landið er að auki vopnlaust. Ísland vill því hvorki né getur tekið þátt í hernaðaraðgerðum eða gengið í bandalag við stríðsaðila.
En afstaða utanríkismálaráðherra Íslands mátti Breta einu gilda eins og fram kemur í orðsendingu frá Edward Wood Halifax (1881-1959) til Stefáns Jóhanns:
Ríkisstjórn hans hátignar er hins vegar ráðin í að hindra það, að Ísland hljóti sömu örlög og Danmörk, og mun grípa til allra nauðsynlegra ráðstafanna í því skyni. Slíkar ráðstafanir kunna að krefjast þess, að ríkisstjórn hans hátignar verði veitt einhver aðstaða á íslenskra grundu. Ríkisstjórn hans hátignar treystir því, að ríkisstjórn Íslands muni veita henni slíka aðstöðu í eigin þágu, jafnskjótt og þörf krefur, og eiga almenna samvinnu við ríkisstjórn hans hátignar sem stríðsaðili og bandamaður. (A270)
En Aðgerð Gaffall (Operation Fork ), þ.e. breskt hernám Íslands 1940, varð ekki umflúið. Næstu árin var Ísland hersetið af Bretum, Kanadamönnum, Norðmönnum og Bandaríkjamönnum.
Bréf sendiherra Charles Howard Smith (1888-1942), ágrip: Loks vill stjórn hans hátignar láta í ljós þá föstu trú sína, að ef samkomulag næst um þau viðskipti og verslun, sem fulltrúi hennar hefur fengið umboð til að ræða við íslensku stjórnina, muni koma bresku hersveitanna til landsins í rauninni verða til efnalegs hagnaðar fyrir þjóðina. (B277)
Viðbrögð Íslendinga við ágengni og hernámi Breta og frekari tvískinnungur
Munnleg skýring Hermanns Jónassonar, forsætisráðherra, við áðurgreindu svari Stefáns Jóhanns: Íslandi er það í raun mesta lífshagsmunamál og vörn að fá að halda ævarandi hlutleysi sínu. Það skriflega svar, sem nú er veitt, byggist á þessari staðreynd og öruggri von, að komi enskar liðsveitir sér ekki fyrir í landinu að fyrra bragði i hernaðarskyni, þá láti önnur stórveldi það ógert af ótta við breska heraflann, þótt hann hafi ekki búið um sig hér. (A281-2)
Hermann sagði enn fremur: Ríkisstjórnin hefði ekki óttast innrás Þjóðverja. Breski flotinn væri sterkur á hafinu og stöðug á verði nálægt ströndum Íslands. Ekkert hefði sannast um að Þjóðverjar væru í innrásarhug, hvað svo sem Bretastjórn ályktaði um fyrirætlanir þeirra. En nú hefðu umskipi orðið, hættan af innrás Þjóðverja væri til staðar vegna landgöngu Breta.
Ríkisstjórnin ætlaði vissulega að mótmæla hernáminu, en með því að Bretar hefðu komið með góðum hug, vildi hún vinna með þeim. Bretum hefði þó verið nær að spyrja stjórnina leyfis heldur en að ráðast í þessa skyndilegu og fyrirvaralausu landgöngu. (B82)
Þjóðstjórnin gekk á fund sendiherra Breta og fór fram á skaðabætur: En tengsl Íslendinga við Breta mótuðust af hagsmunum, sem ekki höfðu alltaf farið saman við ströngustu reglur um hlutleysi og siðabálk diplómata. Þjóðstjórnin hafði vissulega mótmælt hernáminu, en hún hafði einnig gefið Smith leynilegt fyrirheit um að halda áfram samstarfi við Breta vegna loforða þeirra um afskiptaleysi og viðskiptaívilnanir. (B96-98)
Frá upphafi stríðsins höfðu Þjóðverjar varað íslenska ráðamenn við því að hvika frá hlutleysinu. Nauðug viljug hafði Þjóðstjórnin samt orðið að taka upp samstarf við Breta um hafnbann á Þýskaland, svo Íslendingum yrðu tryggðar nauðsynjar og aðgangur að ábatasömum fiskmarkaði í Bretlandi. (B122)
Mótstaðan gegn Bretum var greinilega máttlausari en gegn Þjóðverjum og fiskmarkaðir þeirra taldir síðri:
En ríkisstjórn Hermans Jónassonar hafði þá neitað kröfum ríkisflugfélagsins Lufthansa um aðstöðu og flugvallagerð í landinu (B178)
Hlutleysinu kastað fyrir róða, njósnir Breta og Bandaríkjamanna
Bretar héldu uppi persónunjósnum á Íslandi í stríðinu. Það var einkum fólk af þýsku bergi brotið, þýskir gestir, t.d. skipbrotsmenn, og aðrir, sem ætla mætti að hefðu samúð með Þjóðverjum eða Ráðstjórnarríkjunum, kommúnistar. Fjöldi þeirra var handtekinn og settur í fangelsi, jafnvel í Bretlandi. Þar var óvinum ríkisins smalað í fangabúðir eins og gert var í Suður-Afríku, Þýskalandi og Bandaríkjunum.
Handtökur á strokusjómönnum voru ills viti fyrir Þjóðverja á Íslandi. Þær sýndu, að Bretar hneigðust til að líta hér á alla þýska borgara, að undanteknum Gyðingum og kunnum flóttamönnum, sem fjandmenn sína og nasista. (B69)
Tortryggni Bandamanna beindist í senn að einstökum sjálfstæðismönnum og Sjálfstæðisflokknum í heild. Þeir vissu, að flestir þeirra manna, sem borið höfðu uppi samskipti við Þjóðverja og sýnt Þriðja ríkinu mesta aðdáun, voru félagar í flokknum eða kjósendur hans. En við þetta bættist óljós vitneskja þeirra um skipti nasista við Sjálfstæðisflokkinn á fyrri árum. Þar er skemmst frá að segja, að sumir forystumenn Sjálfstæðisflokksins höfðu fagnað því, þegar menn innan og utan flokksins stofnuðu Þjóðernishreyfingu Íslendinga 1933.
Lögreglan hafði þá nýlega orðið að lúta í lægra haldi fyrir kommúnistum og jafnaðarmönnum, sem tóku meirihluta sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Reykjavíkur í hálfgerða gíslingu.
Eftir þessi átök, Gúttóslaginn, höfðu þáverandi flokksformaður, Jón Þorláksson [1877-1935], og ýmsir menn aðrir í forystu og framvarðarsveit flokksins óttast frekara ofbeldi kommúnista og litið á Þjóðernishreyfinguna sem tímabær varnar- og baráttusamtök ungra manna gegn byltingaröflunum.
Hreyfingin gæti átt samleið með Sjálfstæðisflokknum, ef hún héldi tryggð við íslenska þjóðernisstefnu, virti lög landsins og lýðræði og ánetjaðist ekki um of útlendri hugmyndafræði (þýskum nasisma).
Árið 1934 hafði Þjóðernishreyfingin klofnað í tvennt, þegar forysta hennar bauð fram lista til bæjarstjórnar í Reykjavík í samvinnu við Sjálfstæðisflokkinn, en ungliðar efndu til framboðs í nafni Flokks þjóðernissinna. (B257-258)
(Annars staðar hefur höfundar bókanna, Þór Whitehead, lýst þeirri skoðun sinni, að Gúttóslaginn, þar sem verkamenn mótmæltu af harðfylgi kauplækkun borgarstjórnar í atvinnubótavinnunni, bæri að líta á sem tilraun til blóðugrar byltingar kommúnista á Íslandi.)
Guðmundur Jónasson Hlíðdal (1886-1965), þýskmenntaður verkfræðingur og póst- og símamálastjóri, var Bretum líka þyrnir í augum. Þeir gerðu gangskör að því að ræna honum á hafi úti. Það mistókst. Skipið, sem Guðmundur var farþegi í, fann ekki breski sjóherinn. Meira að segja Bjarni Benediktsson (1908-1970), sem numið hafði lögfræði í Berlín, var litinn grunsemdarauga:
Tortryggni Bandamanna í garð Bjarna Benediktssonar, síðar utanríkis- og forsætisráðherra, er frásagnarverð, þegar hugað er að því, að hann hafði forystu um að hverfa endanlega frá hlutleysi Íslands að stríði loknu. (B262).
Bjarni sagði 1941: Hlutleysið hefur hingað til reynst okkur farsælast og mundi svo verða framvegis. [B265) Segja má, að viðhorf Bjarna hafi snúist í heilan hring, því hann varð einnig aðalhvatamaður að inngöngu Íslendinga í Norður-Atlantshafsbandalagið (Nató).
Stefán [Pjetursson (1898-1987), ritstjóri Alþýðublaðsins og þjóðskjalavörður] telur Bjarna hafa staðið nærri miðju evrópskra stjórnmála á þessum tíma. Þar ber honum saman við Bjarna sjálfan, sem kvaðst helst hafa hallast að kaþólska Miðflokknum (fyrirrennara Kristilegra demókrata) á Þýskalandsárunum, (B265)
(Stefán gaf árið 1921 út fræðsluhefti eða bók með titlinum: Byltingin í Rússlandi.)
Bjarni virðist um síðir hafa fengið að njóta fremur sjaldgæfrar undantekningar frá vinnureglum Gagnnjósnadeildar Bandaríkjahers. Deildin sýnist hafa máð nafn hans af Z-listaum [lista um varhugaverða einstaklinga á Íslandi] einhvern tíma á tímabilinu frá nóvember 1942 til maí 1944. Þetta kemur heim og saman við breytta afstöðu Bjarna, sem hvarf frá hlutleysisstefnu og studdi eindregið herverndarsamning Þjóðstjórnarinnar við Bandaríkin sumarið 1941. (B266)
https://www.youtube.com/watch?v=UgXyVL7KgAY
Eldri færslur
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021