Emmanuel Todd (f. 1951) er franskur sagn-, lýð- og mannfræðingur. Hann nam fræði sín í Oxford undir leiðsögn sagnfræðinganna, Peter Laslett (1915-2001) og Alan Donald James McFarlane (f. 1941). Emmanuel Le Roy Laduire (1929-2023) kallar hann andlegan læriföður sinn innan sagnfræðinnar. Sömuleiðis segist hann vera aðdáandi Emilie Durkheim (1858-1917).
Emmanuel er síðasti söguskeiðssagnfræðingurinn, þ.e. í þeim hópi sagnfræðinga, sem rýna í sögu lengri tímabila í þeirri viðleitni að uppgötva lögmál og tilhneigingar um þróun þeirra (Annales). Slík fræði geta haft ákveðið spádómsgildi með tilliti til framtíðarþróunar.
Emmanuel hefur skrifað fjölda bóka um sögu og menningu þjóða alheimsins, þróun þeirra vöxt og viðgang. Hann varð t.d. frægur fyrir það að spá fyrir um upplausn Ráðstjórnarríkjanna (Sovétríkjanna) á sínum tíma (La Chute Finale: Essai sur lan décomposition de la sphére soviétique).
Emmanuel hefur sökkt sér niður í greiningu mismunandi fjölskyldugerða og þýðingu þeirra með tilliti til þróunar. Þá fjölskyldugerð, er að hans dómi réði úrslitum sem aflvaki Norður-Evrópskrar menningar og þar af leiðandi þeirrar bandarísku kallar hann hreina kjarnafjölskyldu.
Nýjasta bók Emmanuel er: Ósigur Vesturlanda (La Défaite de lOccident), sem kom út í janúar 2024. Hún hefur verið þýdd á rúmlega tuttugu tungumál, þó ekki á ensku. Bókin er m.a. til í sænskri (Vesterlandets nederlag) og þýskri þýðingu (Der Western Niedergang).
Hrunið er víðtækt, þ.e. félagslegt, fjárhagslegt og siðlegt. Brasilíski blaðamaðurinn snjalli, Pepe Escobar, hefur skrifað um bókina áhugaverðan ritdóm. Sama má um ritdóma Ramin Mazaheri segja (sjá heimildaskrá).
Hið óheillavænlega stríð í Úkraínu hefur varpað frekara ljósi á hnignun Vesturlanda. Það er í raun hvatinn að samningu bókarinnar. Síðan stríðið hófst hefur Emmanuel leitt að líkum, að Rússar myndu sigra Úkraínu og Nató, telur að lyktir þess verði á vígvellinum.
Emmanuel hefur trú á því, að Rússar og Þjóðverjar muni í fyllingu tímans ná sáttum og hefja uppbyggingu samfélaga sína á ný. Ósigur Vesturlanda telur höfundur í sjálfu sér ekki sigur Rússa sem slíkra, því Vesturlönd séu í raun að sálga sjálfum sér.
Um Nató segir Emmanuel: Við veitum því athygli, að gangverk þess í hernaðar-, hugmyndafræði- og sálfræðilegu tilliti, er ekki til þess fallið að vernda Vestur-Evrópu heldur að hafa eftirlit með henni.
Emmanuel bætir við í þessu sambandi: Um þessar mundir eru Vesturlönd fyrst og fremst sameinuð undir stjórn Bandaríkjamanna, undirlögð hernaðarstjórn Atlantshafsbandalagsins. Tækifærið til að hirða ágóða af hnattvæðingunni þjappar þeim líka saman. Undirlægjuháttur gagnvart Bandaríkjunum og arðrán annarra í veröldinni, eru [óbrigðul] kennimerki þess að vera með í Vestrinu.
Emmanuel leiðir líkum að því, að stríðið í Úkraínu sé aðeins forleikurinn að þriðju heimsstyrjöldinni, þar sem það snúist um tilvistaröryggi bæði Rússlands og bandaríska heimsveldisins, sem hefur gert Evrópu að eins konar verndarsvæði sínu.
Emmanuel gaf út bókina, Þriðja heimsstríðið er hafið (La Troiséme Guerre mondiale a commencé) 2023. Í viðtali Figaro um efni bókarinnar kemur fram, að hún hafi verið gefin út í 100.000 eintökum í Japan. Samkvæmt því, sem blaðamaðurinn, Ben Norton, segir, er hún ekki aðgengileg á Vesturlöndum. Ben stiklar á stóru um efni hennar í hjálagðri umfjöllun.
Emmanuel bendir á, að viðskiptaþvinganir gegn Rússum hafi ekki haft tilætluð áhrif, m.a. vegna stuðnings þjóða handan verndarsvæðanna, þ.e. Evrópu og Japans. Hann bendir einnig á, að mælingar vestrænna hagfræðinga á þjóðarframleiðslu gefi skakka mynd af fjárhagi Rússa, þar eð fjármálabrask vegi þungt við slíkar mælingar.
Í Rússneska hagkerfinu sé því aftur á móti ekki þannig farið. Þar sé framleiðsla í öndvegi. Því er hætt við því, að auðsýnd seigla þess grafi undan hagkerfum, þar sem Bandaríkjamenn drottna í krafti dalsins og látlausrar peningaprentunar. Því er það svo, að tapi Bandaríkjamenn stríðinu í Úkraínu, hrynur gjaldmiðill þeirra og veldi í allri sinni dýrð eins og spilaborg.
Emmanuel heldur því fram, að á Evrópska verndarsvæðinu sé Nató í raun klofið. Stríðsreksturinn, áróður fyrir honum og þátttaka, sé að mestu í höndum Bandaríkjamanna, Pólverja og Breta og Norðmanna. Meðan Bandaríkjamenn missa tökin á alþjóðavettvangi, herða þeir hreðjatakið á Evrópuþjóðunum.
Emmanuel kynnir líka þá skoðun sína, að Vesturlandabúar búi ekki við lýðræði. Um það fjallar hann sérstaklega í bók sinni: Að lýðræðinu horfnu (Aprés la démocratie) Hann nefnir sem dæmi, þegar þjóðaratkvæði Frakka um Stjórnarskrá Evrópusambandsins var að engu höfð við gerð Lissabon-samningsins.
Stjórnarhætti Vesturlanda í dag kallar Emmanuel frjálslynt auðræði (liberal oligarchy). Það má til fróðleiks geta þess, að Emmanuel líkir vestrænum lýðræðisríkjum við njósnarann, 007. Þau veita eins og ofursnillingurinn breski, James Bond, sjálfum sér leyfi til að drepa.
Í síðustu bókum sínum hefur Emmanuel bent á fjölda óheillavænlegra teikna um hrörnun í menningu vorri, þ.e. samfélaganna á Vesturlöndum; lækkandi fæðingartíðni; hnignandi kristin trú; vaxandi andúð á Múhammeðstrú; slakt skólakerfi og vaxandi tómhyggja. Kynskiptahugmyndafræðina, sem óx út úr kvenfrelsunarhreyfingunni, fjallar hann sérstaklega um.
Skerðing fullveldis þjóða er Emmanuel einnig hugleikin í þessu viðfangi eins og staða alþjóðamála. Þess má og geta, að í bók sinni: Félagsfræði trúarkreppu. Hver er Charlie (Sociologie dune crise religieouse: Qui est Charlie) gerir höfundur skil Íslamsfælni (Islamophobia) Frakka og annarra Vesturlandabúa.
Í greiningu sinni á þýðingu trúarbragða fyrir þróun samfélagsins styðst Emmanuel m.a. við hinn snjalla, þýska samfélagsfræðing, Max Weber (1864-1920). Hann taldi mótmælandatrú eina mikilvægustu forsendu eflingar Norður-Evrópskra samfélaga einkum á nítjándu og tuttugustu öldinni. Guðsóttinn, læsi (á Bíblína) og sókn í menntun, hefði stuðlað að mikilli vinnusemi og siðferðisþreki.
Þessi grunnstoð auðsældarsamfélagsins (kapítalisma) tók að bresta á síðari helmingi tuttugustu aldarinnar. Í heimstyrjöldunum tveim færðist þungamiðja tækniframfara og vöruframleiðslu frá Englandi og Þýskalandi til Bandaríkjanna. Samtímis herti alheimsbankaauðvaldið tökin á bandarísku samfélagi. Afgerandi sigur vannst, þegar Einkaseðlabanki Bandaríkjanna, Federal Reserve, var settur á stofn.
Heimstyrjaldirnar höfðu í för með sér margvíslegar breytingar. M.a. féll það í hlut kvenna að taka að sér verksmiðjustörf í hergagnaiðnaði, meðan karlar þeirra stunduðu hjaðningavíg á vígvöllunum í baráttu fyrir frelsi, lýðræði og mannréttindum eða fyrir drottningar, kónga og keisara eða svo var þeim sagt. Verksmiðjustörf höfðu áður verið á könnu karlanna eins og önnur störf utan heimilis.
Þegar eftirlifandi karlar sneru heim úr stríðinu, hurfu konur almennt til síns heima. En umrótið ýtti undir kvenfrelsunarhugmyndir frá miðri nítjándu öldinni um kúgun karla og kynjaójafnrétti. Í nýrri bylgju kvenfrelsunar var konum talin trú um, að frelsi og hamingja þeirra fælist í launavinnu. Áður hafði þeim verið talin trú um, að reykingar væru snar þáttur í jafnrétti kynjanna.
Kvenþjóðin tók nú stefnuna inn á hefðbundinn starfsvettvang karla til að finna þroska, menntun og hamingju. Atvinnurekendur réðu sér ekki fyrir kæti og studdu kvenfrelsunarhreyfingar af ráði og dáð með myndarlegum fjárframlögum.
Kaupgjald hríðféll, það fjölgaði í svokölluðum kvennastéttum, lýst var yfir stríði gegn karlmönnum og hugmyndafræði kvenfrelsaranna var bæði lögleidd og gerð um hana alþjóðlegir sáttmálar. Innanlandsstríðið gegn körlum varð að menningarstríði. Um síðustu aldamót, segir Emmanuel, höfðu konur unnið sitt frelsisstríð.
Reyndar er það svo, að Emmanuel helgaði heila bók þessu viðfangsefni: Hverjar eru konurnar: Drög að sögu kvenna (Qú en sont-elles? Une esquisse de lhistorie des femmes - Lineages of the Feminine; An Outline of the History of Women).
Ginerva Davis hefur skrifað ítarlegan ritdóm um verkið: Konur marka sögu Vesturlanda í auknum mæli. Þær eru ekki lengur fórnarlömb. Síðustu tvo áratugina eða svo eru þessar tilhneigingar áberandi í Kvenfrelsunarlandinu; afiðnvæðing eykst, samhuga stéttaaðgerðir eru nær horfnar, beiting mýktarvalds (soft power) eins og útskúfunar hefur aukist.
Eitt skyggir þó á valdaalgleymi stelpnanna. Hin karllega sköpunargleði og ákefð, er á hverfanda hveli. Kvenfrelsunarsamfélagið þarf að reiða sig á karlasamfélögin, sem framleiða handa þeim vörur.
Í Kvenfrelsunarlandinu virðist ekki allt með felldu: Konur eru veikari, þreyttari og kvíðnari en áður, taka upp á því að svelta sig eða kýla vömbina, skera sig og svo framvegis. Nýir kvensjúkdómar hafa orðið til. Emmanuel bendir á, að á Norðurlöndum, í Kvenfrelsunarlandinu, sé stríðsæði áberandi.
Ginerva segir í umræðu um heilsufarsógnir kvenna og kostnað við þær:
Í okkar augum er heimurinn klippimynd (collage) hugsanlegra ógna, ekki svið uppgötvana; við kvíðum því fremur að styggja vini okkar og reita karlpeninginn til reiði; við tökum síður áhættu meðal félaga og í starfi. Það gæti gert okkur berskjaldaðar. Heimur kvenna er smærri í sniðum. Þar ríkir að sönnu minni metnaður.
En ef markmið kvenfrelsunar er fullkomið kynjajafnrétti þ.e. að hugurinn þurfi aldrei að færa fórnir, hvorki í ástarlífi né lífsvafstri, vegna líkama hans þá hljóta lyktir kvenfrelsunar óhjákvæmilega að verða endalok konunnar. Það er engin önnur leið.
Konan er orðin afar flókið fyrirbæri og viðkvæmt - sérstaklega er hún orðin svo brothætt og viðkvæm fyrir kynáreitni - að hana má varla snerta eða á hana að líta og vanda þarf mál sitt gaumgæfilega í návist hennar eða eins og skáldið sagði: Sýna skal aðgát í nærveru [kven]sálar.
Það er þó sérstaklega sorglegt að samfara frelsuninni endalausu vex hatur kvenna í garð sjálfra sín. Hatrið og vansældin skapar örvæntingu og samhliða örvæntingunni vex líka andúðin á blórabögglinum, karlmanninum - eins og karlahatursbylgjur á borð við me-too hreyfinguna og fleiri slíkar.
Konur eru að hverfa af sjónarsviðinu, enda veit enginn, hvers konar fyrirbæri hún er. Allra síst hún sjálf. Alþingismenn Íslendinga eru öðrum gjálpum, skjálpum og stálpum gleggri. Þeir kalla þetta útdauða fyrirbæri leghafa. Tíðablæðingar eru hugsmíð, segja kynjafræðingarnir.
En eftir að Alþingismenn komust að því, að kyn væri ekki til, er viðbúið að leghafarnir hverfi líka af sjónarsviðinu. Kyn manna er nefnilega fljótandi, segja þeir. Því þarf að úthluta börnum kyni, nýskriðnum úr móðurkviði. En það er ekki hundrað í hættunni, því Alþingismenn hafa slegið þann varnagla við rangri kynúthlutun að ráða lækna, sálfræðinga og hjúkkur til að breyta röngu kyni.
Um þetta hefur Emmanuel m.a. sagt: Sú fullyrðing, að karl geti orðið að konu og kona að karli, er lífeðlislegur ógjörningur og fals, afneitun raunveruleikans.
Höfundur bætir við: Kynskiptahugmyndafræðin er því, að mínum dómi, eitt skilmerkja tómhyggjunnar (nihilism), sem um þessar mundir skilgreinir Vesturlönd, hvötin til að tortíma bæði hlutum og fólki. Kvenforeldrið eða leghafinn hefur venjulega síðasta orðið um kynskiptingu afkvæmisins.
Þetta kynjafimbulfamb hefur náð að skjóta rótum í Evrópu. Rétturinn til kynskipta er orðinn að mannréttindum og ofarlega á forgangslista stjórnmálamanna. Sameinuðu þjóðirnar hafa gert frelsun kvenna og barna þeirra að sérstöku markmiði meðal Sjálfbærnimarkmiða 2030.
Alheimsefnahagsráðið (World Economic Forum) hefur tekið kyntilbrigðahreyfinguna upp á arma sína (baðaða í regnbogaljósi) og beitir á sama hátt og kvenfrelsunarhreyfingunni til að skapa usla, óeiningu og upplausn, svo auðveldara sé að móta múginn og sætta hann við alheimsstjórn og tölvuuppfærslu.
Það heitir því snotra nafni: Samstarf í þágu LGBTIQ og jafnréttis á heimsvísu (Partnership for Global LGBTIQ + Equality). (Lespur, hommar, tvíkynungar, kynskiptingar, millikynungar og kynleysingjar.)
Fjöldi kvenna (og karla) menntast á kvennaháskólum, þar sem fimbulfambið og kvenfórnarlambsfræði eru kennd að langmestu leyti af konum. Þetta á einkum við um mann-, félags- líf- og sálfræði.
Karlkúgararnir meina þeim inngöngu í raungreinar, segja konurnar. Hvernig sem því líður fór frammistaða í stærðfræði og tungumálum að versna um miðjan sjöunda áratuginn.
Um svipað leyti og kynlífsbyltingin (sexual revolution) geisaði á sjöunda áratugi síðustu aldar mögnuð upp af annarri kvenfrelsunarbylgjunni fór að halla á Bandaríkjamenn sem heims- og herveldi, bæði með tilliti til framleiðslu og siðferðis. (Stundum eru þau kölluð auðugu anglósaxísku mótmælendurnir (WASP).)
Þetta varð jarðvegur nýíhaldssinna (neo-conservative), sem Emmanuel kallar sálar-, sið- og heilalausa stríðsvél, sem beitt er við útþenslu heimsveldisins, meðan iðnaðarframleiðsla dregst saman.
Tandurhrein raunfirring og hamslaus græðgi er það, sem einkum einkennir þessa stefnu. Minni í þessu sambandi á orð Margaret Hilda Thatcher (1925-2013) sem var svo illa við kvenfrelsara: Það er ekkert til, sem samfélag heitir. En líklega hefði hún þó gengist við því, að konur væru til.
Heimildir:
Ritdómar Ramin Mazaheri: https://raminmazaheri.substack.com/p/the-ukrainian-suicide-reading-emmanuel https://raminmazaheri.substack.com/p/eastern-europes-pro-west-shift-is https://raminmazaheri.substack.com/p/emmanuel-todd-asks-what-is-the-west https://raminmazaheri.substack.com/p/the-defeat-of-the-west-necessarily?r=jn0xv&utm_campaign=post&utm_medium=web&triedRedirect=true https://raminmazaheri.substack.com/p/emmanuel-todd-on-the-uks-russophobia https://raminmazaheri.substack.com/p/emmanuel-todd-beats-democrats-by https://raminmazaheri.substack.com/p/why-the-rest-sided-with-russia-against ----------------
Annað: https://booknode.com/auteur/emmanuel-todd/livres https://geopoliticaleconomy.com/2023/01/14/world-war-3-us-russia-china-emmanuel-todd/ https://www.youtube.com/watch?v=82WPLWEN_9M https://www.adlibris.com/se/bok/vasterlandets-nederlag-9789189494664 https://www.youtube.com/watch?v=IYwOiwi3baA https://www.youtube.com/watch?v=jr3GMNPU8ro https://www.youtube.com/watch?v=U_YuhLFjYRM https://www.youtube.com/watch?v=Si_tvJPfgUc https://ednews.net/en/news/world/641606-emmanuel-todd-are-witnessing-the https://en.interaffairs.ru/article/emmanuel-todd-i-clearly-document-the-dynamics-of-the-decline-of-protestant-passionarity-in-the-wes/ https://americanaffairsjournal.org/2024/02/how-feminism-ends/ https://eng.globalaffairs.ru/articles/emmanuel-todd-russias-role/ https://rai.onlinelibrary.wiley.com/doi/10.1111/1467-9655.13801?af=R https://link.springer.com/content/pdf/10.1007/s12108-017-9345-1.pdf https://unser-mitteleuropa.com/156843 https://steigan.no/2024/01/emmanuel-todd-vi-er-vitne-til-vestens-endelige-undergang/ https://www.lindelof.nu/emmanuel-todd-om-vasterlandets-nederlag/ https://www.lindelof.nu/emmanuel-todd-i-usa-tar-kontroll-over-europas-eliter-och-oligarker/ https://www.lindelof.nu/emmanuel-todd-ii-det-brittiska-samhallets-utarmning-och-skandinaviens-markliga-svangning/ https://jyllands-posten.dk/debat/breve/ECE16808417/vi-er-blevet-slatne-i-vesten/ https://www.lefigaro.fr/vox/monde/emmanuel-todd-la-troisieme-guerre-mondiale-a-commence-20230112#Echobox=1673601494-1 https://sputnikglobe.com/20240118/how-the-west-was-defeated-1116245840.html
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021