Kommúnistar voru bestu vinir Bandaríkjanna.
Það er til marks um kaldhæðni sögunnar að bandarískir embættismenn töldu sósíalista meðal sinna bestu stuðningsmanna á Íslandi á árunum 1941-1942. Í leyniskýrslu njósnadeildar bandaríska flotans frá árinu 1942 segir:
Eins og málum er nú háttað, er ekki annað unnt en fagna vexti og viðgangi Kommúnistaflokksins vegna þess stuðnings sem hann hefur veitt. Enda unna Íslendingar frelsinu meir en svo að þeir mundu viljugir ganga einræði á hönd, jafnvel þótt það væri í nafni öreiganna. (A23)
Þjóðaröryggi:
Túlkun Bandaríkjamanna á hugtakinu þjóðaröryggi var ekki aðeins bundin við hernaðarhagsmuni þeirra heldur einnig önnur þjóðfélagsgildi. Þeim gekk það til að verja stjórnarhætti sína og kapitalískt hagkerfi gegn þjóðfélagsskipan kommúnistaríkjanna. Með því að tryggja stöðugan efnahag á Íslandi vildu þeir standa vörð um hernaðarréttindi sín og draga úr áhrifum Sovétríkjanna og bandamanna þeirra. (A404)
Hættulegir sósíalistar og bylting á Íslandi:
Áður en varnarsamningurinn var gerður hafði bandaríska varnarmálaráðuneytið gert áætlanir um að senda her til Íslands ef sósíalistar gerðu byltingu. (B265)
Stjórnvöld höfðu einnig eftirlit með sósíalistum og fengu heimild dómstóla til að stunda símhleranir hjá leiðtogum Sósíalistaflokksins í tengslum við mikilvæga atburði eins og aðildina að NATO og gerð varnarsamningsins. (B265)
Eftir að Bandaríkjaher kom hingað til lands árið 1951 var yfirmanni herstöðvarinnar falið að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir valdarán kommúnista. Þegar Bandaríkjaher fór fram á leyfi til að athafna sig nálægt Reykjavíkurflugvelli í varnarskyni og vera viðbúinn að bregðast við hugsanlegri innlendri skemmdarverkastarfsemi samþykkti [ríkisstjórnin beiðnina] vorið 1952, en aðeins tímabundið eða þangað til herinn var lokaður inni á Keflavíkurflugvelli tveimur árum síðar. (B266)
Íhlutun Bandaríkjahers ef gerð yrði tilraun til að bola íslenskum ráðamönnum frá völdum:
Auk þess ætti að orða beiðnina [um fleiri herstöðvar] á þann veg að unnt yrði að birta hana opinberlega og á alþjóðavettvangi til að hrekja ásakanir sem kommúnistar munu vafalaust setja fram eftir að við höfum beitt her og vopnum til að aðstoða stjórnvöld gegn samsærismönnum kommúnista. (B267)
Yfirráð Bandaríkjamanna yfir flugumferð:
Heimild Bandaríkjamanna til að taka yfir fulla stjórn á almennri flugumferð var haldið inni í varnarsamkomulagi Íslands og Bandaríkjanna frá árinu 2006. (B273)
Efnahagslegur ávinningur Íslendinga eða sníkjulífi:
Íslensk stjórnvöld voru mjög lagin við að útvega lán og aðrar efnahagsívilnanir í Bandaríkjunum, enda fékk þjóðin hvorki meira né minna en 70 milljónir dollara í beina efnahagsaðstoð á árunum 1948-1960. Þessar lán- og styrkveitingar stóðu straum af helstu stórframkvæmdum, sem ráðist var í á Íslandi á þessu tímabili: (A405)
Á árunum 1948-1960 nam efnahagsaðstoð Bandaríkjamanna á bilinu 15-20% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar. Eftir að Marshall-áætluninni lauk fylltu hernaðarframkvæmdir á Keflavíkurflugvelli upp í það skarð sem hún skildi eftir sig, auk frekari lánveitinga. (A405)
Auk þess höfðu stjórnmálaflokkarnir afskipti af því hvaða fyrirtæki nytu góðs af viðskiptum við Bandaríkin. Mikil samkeppni var t.d. um vöruflutninga og innflutning frá Bandaríkjunum milli Sambandsins, sem tengdist Framsóknarflokknum, og ýmissa einkafyrirtækja sem stóðu Sjálfstæðisflokknum nærri. En venjulega var pólitísk samstaða um sjálfar framkvæmdirnar sem ráðist var í fyrir láns- og gjafafé frá Bandaríkjunum.
Í raun má segja að Íslendingar hafi fengið aðra Marshall-aðstoð á árunum 1956-1960: Þá veittu Bandaríkjamenn 30 milljónir [milljónum] dollara í lán og styrki til viðbótar þeim rúmlega 38 milljónum, sem þeim áskotnuðust á árunum 1948-1953.
Auk þess fengu Íslendingar árlega um 10 milljónir dollara í tekjur af hernum og rúmlega átta milljónir í PL-vörukaupalán á þessu seinna Marshall-tímabili (samtals um 60 milljónir dollara). Af beinum lánum hlaut vinstri stjórnin um 14 milljónir dollara, auk PL-480 láns upp á fjórar milljónir dollara.
Viðreisnarstjórnin uppskar um níu milljónir dollara (þar af sex milljónir sem óafturkræft lán) og 4.4 milljónir í PL-480 lán. (A405)
Markmiðið var einnig það sama og með Marshall-aðstoðinni: Með því að stuðla að auknum efnahagsstöðugleika á Íslandi vildu Bandaríkjamenn tryggja stjórnmála- og hernaðarhagsmuni sína og draga úr áhrifum Sovétmanna og Sósíalistaflokksins. Í þetta sinn varð þeim að ósk sinni: Efnahagsstefna viðreisnarstjórnarinnar leiddi til mikils samdráttar í vöruskiptaversluninni við austantjaldsríkin og veikti stöðu Sósíalistaflokksins. (A406)
(Marhall-aðstoðin voru styrkir og lán, sem Bandaríkjamenn veittu stríðshrjáðum þjóðum Vestur-Evrópu í lok síðari heimsstyrjaldar.)
Íslendingar voru aðgangsharðir á herjötunni:
Auk þess nutu stórfyrirtæki eins og Loftleiðir sérréttinda á Atlantshafsleiðinni sem önnur flugfélög gerðu ekki. (B250)
Rainbow Navigation málið svokallaða, þegar bandarískt skipafélag gerði tilkall til flutninga fyrir herinn, vakti töluverða athygli:
Í ljósi hernaðarlegs mikilvægis Íslands féllst Reagan-stjórnin á að gerður yrði sérstakur milliríkjasamningur sem viðbót við varnarsamninginn sem tryggði íslenskum fyrirtækjum, Eimskip og Hafskip, hlutdeild í flutningum fyrir Bandaríkjaher. Þannig hafði Bandaríkjastjórn frumkvæði að því að veikja bandarísk lög um forgang innlendra fyrirtækja til að standa vörð um hernaðarhagsmuni sína á Íslandi. (B251)
Fámennur hópur Sjálfstæðis-, Framsóknar- og Alþýðuflokksmanna réð utanríkismálum Íslendinga: Það var aðeins fámennur hópur stjórnmálamanna sem markaði stefnu Íslands gagnvart Bandaríkjunum á þessu tímabili eins og þeir Ólafur Thors, Bjarni Benediktsson, Stefán Jóhann Stefánsson, Guðmundur Í Guðmundsson, Gylfi Þ. Gíslason, Hermann Jónasson og Eysteinn Jónsson. (A406)
Það var Bjarni Benediktsson, sem hafði mest áhrif á mörkun utanríkisstefnu Íslands í lok fimmta áratugarins og upphafi þess sjötta. Hann og Stefán Jóhann Stefánsson voru alþjóðasinnar og töldu hagsmunum Íslands væri best borgið með þátttöku í vestrænu samstarfi.
Það sama má segja um Eystein Jónsson, enda þótt hann væri tregari til að stíga skrefið til fulls af stjórnmála- og þjóðernisástæðum. Þeir Ólafur Thors og Hermann Jónasson voru meiri þjóðernissinnar, en vildu samt tengjast Vesturveldunum með einum að öðrum hætti. (A407)
Íslendingar fengu fyrstir þjóða efnahagsaðstoð á vegum Atlantshafsbandalagsins sem fram að þessu hafði fengist við vopnaviðskipti en ekki bankaviðskipti.
Margt fer öðruvísi en ætlað er í upphafi. Markmið vinstri stjórnarinnar var að draga úr áhrifum Bandaríkjanna á Íslandi með því að krefjast brottfarar hersins. En reyndin var sú að engin önnur stjórn var háðari bandarísku fjármagni, ef frá er skilin samsteypustjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á árunum 1950-1953. (A412)
Eftir endalok kalda stríðsins hafa það einkum verið Íslendingar sem hafa lagt áherslu á varnarsamstarfið. (A412)
Til umhugsunar: Bandaríkjamenn urðu máttugasta herveldi veraldar, heimsveldi, í lok síðari heimstyrjaldar. Forseti Bandaríkjanna, Franklin Delano Roosevelt, hafði í aðdraganda kosninga lofað að taka ekki þátt í styrjöldinni, sem hófst (aftur) 1939/1940, þegar Frakkar og Bretar sögðu Þjóðverjum stríð á hendur.
Bandaríkjamenn áttu gott hernaðarsamstarf við Ráðstjórnarríkin (Sovétríkin), veittu þeim t.d. gríðarlega hernaðaraðstoð, sem vafalítið skipti sköpum fyrir sigra Rauða hersins.
Síðan hafa Bandaríkjamenn stundað stríð um víða veröld; áróðurstríð, undirróðursstríð (bæði heima og að heiman) og vopnastríð, oftast með skírskotun til heilagrar skyldu sinnar til umbóta á lýðræði eða mannréttindum. Bandaríkin hafa gríðarlegan fjölda herstöðva um allan heim og efnahagur þeirra er stríðsmiðaður, að umtalsverðu leyti.
Upplýsingahernaður og öflugur vitundariðnaður í krafti fjölmiðlunar og afþreyingariðnaðar hefur reynst árangursríkur. Enda eru Bandaríkjamenn öflugir áróðursmenn. Hræðsla við svokallaða kommúnista hefur grafið um sig í sálu Vesturlandabúa og endurspeglast í Nató og varnarsamningnum við Bandaríkin.
Hugtakið er óskýrt; stundum er átt við hryllingsstjórn Jóseps Stalín, stálmannsins frá Georgíu; stundum er átt við óánægða verkamenn, stundum við uppreisnarmenn gegn einvöldum og ógnarstjórn.
Á Íslandi voru það Einar Olgeirsson og Kristinn Andrésson, sem taldir voru helstu uppreisnarforingjar kommúnista. Því var mikil viðbúnaður bæði hjá Hvítliðum eða Heimdellingum Sjálfstæðisflokksins (varaliðs lögreglu) einkum við inngöngu Íslands í Nató 1949 - og bandaríska hernum. Félagar í Nasistaflokknum höfðu þá gengið (aftur) í raðir Sjálfstæðisflokks og lagt flokk sinn niður.
Vopnuð uppreisn á Íslandi fyrir atbeina Rússa (Sovétmanna) í kjölfar heimstyrjaldarinnar hljómar eins og hver önnur fjarstæða, þrátt fyrir Guttóslaginn góða 1932 og óeirðirnar á Austurvelli 1949, þegar inngöngu Íslands í Nató var mótmælt.
Ráðstjórnarríkin voru að sleikja sárin, eftir skelfilegasta missi manna og efnalegs tjóns í veraldarsögunni. Auk þess var í gildi samkomulag stórveldanna, Ráðstjórnarríkjanna, Bretlands og Bandaríkjanna, um skiptingu heimsins.
Kommúnistagrýlan var það skálkaskjól, sem djúpríki (hernaðariðnaður og stjórnkerfi, honum hliðhollt) Bandaríkjanna notaði til hernaðar um víða veröld.
Nató var stofnað til að halda Rússum fjarri, Þjóðverjum niðri og hinum þjóðunum í taumi. Gerðar voru bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi áætlanir um árásir á Rússa, þ.m.t. kjarnorkuvopnaárás.
Kjarnorkuvopnaáætlanir stórveldanna liggja enn fyrir og hernaðaruppbygging á Íslandi er hafin á ný. Og enn eru Íslendingar undirlægjur. Stjórnmálamenn þeirra eru aukin heldur stríðsóðir. Svo var tæpast áður.
Íslenski her Bjarna Ben I og Björns Bjarnasonar hefur ekki séð dagsins ljós, en þjóðin á Víkingasveit, sem er kölluð út við undarlegustu tilefni. En þegar Rússarnir koma má hún sig líklega lítils. Og svo hefur lögreglan fengið rafbyssur til að skjóta fólk með hnífa.
Það er sorglegt áhyggjuefni, að Íslendingar skuli láta hrífast með í stríðs- og aðsóknarsæðinu, sem stríðsvitfirringar veraldar hafa hrundið af stað. Þeir þurfa að varpa af herðum sér valkyrjuokinu, lýsa yfir friði við allar þjóðir, beita sér fyrir friði, segja upp varnarsamningi við Bandaríkin og kveðja stríðsbandalagið, stríðsverkfæri Bandaríkjanna, Nató.
https://heimildin.is/grein/21398/ https://is.wikipedia.org/wiki/%C3%93eir%C3%B0irnar_%C3%A1_Austurvelli_1949 https://www.dv.is/fokus/timavelin/2018/10/07/kreppan-kemur-til-islands/ https://www.hugi.is/saga/greinar/102391/9-november-1932-guttoslagurinn/ https://www.stjornarradid.is/media/utanrikisraduneyti-media/media/varnarmal/varnarsamningur_isl.pdf
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021