Þegar Íslendingar seldu sálu sína og frelsi. Fyrri hluti

Íslendingar höfðu verið hernum þjóð um aldir, þegar þeir urðu fullvalda 1918. Lýðveldið var stofnað 1944. Íslensk stjórnvöld hétu ævarandi hlutleysi. En það breyttist fáum árum síðar.

Breskt innrásarlið afhenti Bandaríkjunum land og þjóð á silfurfati í upphafi hernáms Breta. Forsætisráðherra Íslendinga, formaður Sjálfstæðisflokksins, Ólafur Tryggvason Thors (1892-1964), talaði um að lána landið „í baráttu fyrir frelsinu.“

Eiginlega á hann við varnarsamninginn fyrri við Bandaríkin frá 7. júlí 1941. Sá síðari var gerður tíu árum síðar fyrir tilstuðlan Nató. Þá var Bjarni Ben I, utanríkisráðherra. Hernámsliðið breytti um ham og varð varnarlið, sem hvarf á brott 2006 – en er nú komið aftur.

Áður en að því kom gengu Íslendingar í Nató. Hugsun forsætisráðherra, Ólafs Tryggvasonar Thors, er einkar áhugaverð:

„Atlantshafssáttmálinn liggur nú fyrir, hefur legið fyrir umheiminum um nokkurt skeið, og þá einnig fyrir okkur Íslendingum. Hann er sáttmáli um það, að frjálsar þjóðir efni til frjálsra samtaka til varðveislu friðarins í veröldinni. Hann er hollustueiður frelsisunnandi þjóða til friðar, jafnrjettis og sjálfsákvörðunarrjettar. …

Hann er sáttmáli um það, að aldrei skuli herstöðvar vera á Íslandi á friðartímum. Hann er sáttmáli um það, að Íslendingar láni baráttunni fyrir frelsinu, sömu afnot af landi sínu, ef til átaka kemur sem þeir gerðu í síðustu styrjöld. Hann er sáttmáli um það, að reyni nokkur nokkru sinni að teygja hramm sinn yfir fald fjallkonunnar, þá rísi 330 milljónir best menntu þjóða veraldarinnar upp til varnar frelsi hennar og fullveldi. Sáttmálinn er mesti og merkasti friðarsáttmáli, sem nokkru sinni hefur verið gerður í heiminum.“

En minni stjórnmálamanna og alþýðu var skammt þá eins og nú. Íslenska ríkisstjórnin gerði nýjan herstöðvarsamning einungis tveim árum, eftir inngöngu í Nató. Henni þótti ekki nauðsyn bera til að bera samninginn undir Alþingi. Nató-aðildin var einnig samþykkt með undarlegum hætti.

Í umsögn Kristjáns E. Guðmundssonar um bók Elfars Loftssonar, „Ísland í Nató. Stjórnmálaflokkar og varnarmálefnin“ (Island í NATO – partierna och försvarfrågan), segir hann:

„ … [h]öfundur [fjallar] um aðdraganda þess að við gengum í NATO, hvernig sú ákvörðun var tekin utan alþingis og hvernig sú ákvörðun var keyrð í gegn með miklu offorsi.“

Valur Ingimundarson, sagnfræðingur, hefur trúlega manna mest rannsakað inngöngu Íslendinga í Nató og tildrögin að varnarsamningsgerðinni, sem vissulega er nátengd.

Valur hefur m.a. skrifað bókina [A] „Í eldlínu kalda stríðsins: Samskipti Íslands og Bandaríkjanna 1945-1960,“ og [B] „Framkvæmd varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna. Útvistun hervarna og túlkanir á fullveldi.“ Um er að ræða kafla í safnriti undir ritstjórn Guðmundar Jónssonar: „Frjáls og fullvalda ríki. Ísland 1918-2018.“

Ég leitast í framhaldinu við að koma niðurstöðum rannsókna til hans til skila í hnotskurn. Blaðsíðutal í sviga.

Kalda stríðið á Íslandi:

„Þegar spurt er um upphaf kalda stríðsins á Íslandi er freistandi að miða það við gerð Keflavíkursamningsins árið 1946. Sá samningur batt enda á samstarf hægri og vinstri aflanna í íslenskum stjórnmálum sem komið hafði verið á með myndun nýsköpunarstjórnar Sjálfstæðisflokks, Sósíalistaflokks og Alþýðuflokks árið 1944. Þór Whitehead sagnfræðingur telur að sú stefna sem mörkuð var með Keflavíkursamningnum hafi legið „milli hlutleysis og fullrar samstöðu með Vesturveldunum.“ (A17)

Íslenski herinn og fullveldið:

„Bjarni Benediktsson, helsti hvatamaður varnarsamningsins, taldi að Ísland væri í raun ekki fullkomlega sjálfstætt fyrr en það kæmi sér upp eigin varnarliði, jafnvel þótt það væri aðeins táknrænt.“ (B243)

Herverndarsamningur við Bandaríkin og afsal hlutleysis:

„Með gerð herverndarsamnings við Bandaríkin 1941 sögðu íslensk stjórnvöld í raun skilið við hlutleysisstefnuna sem mörkuð var árið 1918. Ólafur Thors, formaður Sjálfstæðisflokksins, neitaði því reyndar að herverndarsamningurinn bryti í bága við sambandslögin og yfirlýsinguna um ævarandi hlutleysi. Íslensk stjórnvöld hefðu ákveðið „að skipa á hernámsliði styrjaldaraðila og herliði hlutlauss stórveldis, þiggja hervarnir hlutlausrar þjóðar í stað hernáms ófriðaraðila.“ (A17)

„Talsmenn Sameiningarflokks alþýðu – Sósíalistaflokksins héldu því fram að herverndarsamningurinn væri nauðungarsamningur.“ (A17)

Varnarsamningurinn var samþykktur með 39 atkvæðum gegn 3. Fjölmörg samtök og menntamenn mótmæltu herstöðvum á Íslandi, m.a. stuðningsmenn stjórnarinnar Einar Ólafur Sveinsson, Ólafur Lárusson, Gunnar Thoroddsen og Sigurður Bjarnason frá Vigur.

Stjórnarandstaðan hélt því líka fram, að herverndarsamningurinn bryti í bága við 21. greinar stjórnarskrárinnar.

Valur heldur áfram: „En málsmeðferðin var vissulega óeðlileg, enda lagði Alþingi ekki blessun sína yfir herverndina fyrr en Bandaríkjaher var kominn til landsins. Hermann Jónasson viðurkenndi að sér hefði verið þvert um geð að gera þennan samning, en látið raunsæissjónarmið ráða ferðinni. Ekki þarf að ganga að því gruflandi að Hermann átti fáar undankomuleiðir. Breski sendiherranna, Howard Smith, fékk þau fyrirmæli að „sjá til þess“ að Íslendingar samþykktu hervernd Bandaríkjastjórnar.“ (A18)

„Ríkisstjórn Íslands leit heldur rekki svo á að nauðsynlegt væri að afla samþykkis Alþingis fyrir varnarsamningnum árið 1951, þar sem hann var reistur á Norður-Atlantshafssamningnum. Reyndar hafði samsteypustjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tryggt sér skriflegan stuðning 43 þingmanna af 52 áður en Bandaríkjaher kom hingað í upphafi maí 1951. En stjórnin lagði samninginn ekki fyrir Alþingi heldur kaus að gefa út bráðbirgðalög til að lögfesta hann.“ (B247-8)

Kjarnorkuvopn:

„[Bandaríkjamenn] vildu þeir eiga þess kost að staðsetja hér kjarnorkuvopn á ófriðartímum og komu því inn í „leyniviðauka“ varnarsamningsins að þeim yrði gert kleift að taka yfir fulla stjórn á almennri flugstarfsemi og -umferð á Íslandi samkvæmt eigin hættumati.“ (B245)

Samningsgerðin og þrýstingur Bandaríkjamanna - uppsagnarákvæði:

„Bandaríkjamenn gerðu því engar tilraunir til að hundsa uppsagnarákvæði samningsins eða halda hernum í trássi við vilja stjórnvalda. Í skýrslu þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna frá árinu 1957 var reyndar komist svo að orði að ekki væri unnt að „sætta sig við“ það að herinn hyrfi á landi brott. Bandaríkjastjórn var þó ekki reiðubúin að brjóta fullveldi Íslands með því að halda hernum með valdi ef varnarsamningnum yrði sagt upp.“ ….

Bandaríkjamenn gripu þó til „sálfræðihernaðar“, t.d. með því að draga skyndilega úr framkvæmdahraða á Keflavíkurflugvelli í aðdraganda þingkosninganna árið 1956 til að sýna fram á efnahagsafleiðingar þess ef herinn yrði látinn fara.

Sérstakri nefnd var komið á innan bandaríska stjórnkerfisins með þátttöku leyniþjónustunnar CIA til að freista þess að koma í veg fyrir þessi áform. Nefndin vildi að innlendir og erlendir stuðningsmenn „vestrænnar samvinnu“ yrðu fengnir til að fá Alþýðuflokkinn og Framsóknarmenn af fyrirætlunum sínum.

Til að sýna fram á efnahagslegt mikilvægi herstöðvarinnar stöðvuðu Bandaríkjamenn allar framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli og þrýstu á Vestur-Þjóðverja um að halda að sér höndum um lánafyrirgreiðslu til Íslands.

Annað dæmi um slíkan „sálfræðihernað“ var þegar sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Frederick Irving, beitti Einar Ágústsson utanríkisráðherra miklum pólitískum þrýstingi á árunum 1972-1974 til að freista þess að ná málamiðlun í hermálinu sem gerði ráð fyrir fækkun í herliði, en að Bandaríkjaher héldi aðstöðu sinni hér.

Þetta skipti þó ekki sköpum. Bæði í vinstri stjórninni 1956-1958 og 1971-1974 voru skiptar skoðanir um hvort halda ætti fast í þá kröfu að allt herlið hyrfi frá Íslandi. Önnur mál en hermálið höfðu úrslitaáhrif um það að vinstri stjórnirnar tvær fóru frá án þess að ná markmiðum sínum um brottför hersins.“ (B258-259)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband