Íslenska nasistahreyfingin: Seinni hluti

Stefnuskrá Flokks þjóðernissinna:

„1. Vér viljum vernda íslenskt þjóðerni, meðal annars með róttækum ráðstöfunum gegn kynblöndun og úrkynjun. Jafnframt verði tekin til rækilegrar athugunar dvöl útlendinga á Íslandi og innflutningur þeirra þegar stöðvaður, nema þegar sérstaklega stendur á, svo sem um sérfræðinga, er vér sjálfir eigum ekki völ á.

2. Vér krefjumst samstarfs allra Íslendinga í þágu þjóðarheildarinnar.

3. Vér berjumst fyrir stjórnarfarslegu, fjárhagslegu og menningarlegu sjálfstæði íslensku þjóðarinnar, þannig að hún megi verða það, sem hún áður var, frjóavasti reitur norrænnar menningar.

4. Vér krefjumst þess, að hagsmunir heildarinnar sitji ávallt í fyrirrúmi fyrir hagsmunum einstakra stétta og manna.

5. Vér viljum, að ríkið hafi forgöngu í því að skapa og styrkja nýja atvinnumöguleika og álíti það skyldu sína, að öllum þegnum þess verði séð fyrir vinnu og viðunandi lífskjörum.

6. Vér viljum, að ríkið hafi eftirlit með atvinnurekstrinum, sérstaklega þeim, sem rekinn er með lánsfé hins opinbera; einnig krefjumst vér fyllstu ábyrgðartilfinningar og þjóðhollustu af öllum, er fyrir einkarekstri standa.

7. Vér viljum, að erfðavenjum bændastéttarinnar sé í heiðri haldið, þannig að hún geti um ókomna tíma verið orkugjafi íslensku þjóðarinnar, svo sem hefir reynst frá upphafi. Jarðirnar skal vernda gegn niðurníðslu, veðflækjum og braski, þannig að þær geti haldist í eign frjálsra bænda sem ættaróðul, því að vér álítum, að fjölmenn og dugandi bændastétt, dreyfð um landið allt, sé besta tryggingin fyrir andlegri og efnalegri velferð þjóðar og ríkis.

8. Vér viljum, að reyndir og sérfróðir menn hafi stjórn atvinnuveganna með höndum.

9. Vér viljum, að stofnuð séu samfélög atvinnurekenda og verkamanna, sem tryggi friðsamlega samvinnu þeirra, þannig að þeir í fullri eindrægni og gagnkvæmum skilningi á sameiginlegum hlutverkum, skyldum og göfgi starfa síns, vinni sem einn maður í þágu heildarinnar. Ennfremur viljum vér, að sérhverjum verkamanni verði tryggð sambærileg lífskjör við aðra þegna þjóðfélagsins, og að hann fái hlutdeild í arði fyrirtækjanna, þar sem því verður við komið.

10. Vér viljum, að tekju- og verðmætaöflun, sem ekki byggist á starfi, verði útilokuð, að vaxtaokur verði afnumið og komið í veg fyrir gengis- og verðsveiflur og að gjaldmiðill vor hvíli á framleiðslu og verðmætum landsins sjálfs.

11. Vér viljum, að komið verði á almennri, skipulagðri þegnskylduvinnu í þágu þjóðarheildarinnar, og verði hún jafnframt uppeldis- og íþróttaskóli fyrir hina vinnandi æsku.

12. Vér viljum auka siðferðis- og ábyrgðartilfinningu hjá æskunni og gefa henni aukin tækifæri til menntunar, íþróttaiðkana og holls lífernis.

13. Vér viljum, að fyllsta réttlætis sé gætt í framkvæma laganna, og að strangt sé tekið á afbrotum embættismanna þjóðfélagsins.

14. Vér viljum, að einstaklingar úr hvaða stétt þjóðfélagsins sem er, fái tækifæri til þess að njóta hæfileika sinna, og til þess að það megi verða, viljum vér: a. Að ríkið kosti fátæka hæfileikamenn til náms. B. Að veitt sé í stöður fyrst og fremst eftir hæfileikum og þekkingu. C. Að enginn maður hafi meira en eitt fulllaunað embætti í þágu hins opinbera.

15. Vér viljum vernda og efla heilbrigt trúarlíf með þjóðinni. 16. Til þess að framkvæma þetta markmið vort, krefjumst vér öflugra ríkisvalds, sem hafi fullkomna yfirsýn og óskorað vald yfir öllum málefnum þjóðarinnar, og sem grundvallist á vilja meginhluta hennar.“

Jón Aðils, yngri, skrifar 31. jan. 1936 í tímaritið, Ísland: „Vér viljum vernda þjóðerni það, sem hér býr, inn á við með ítarlegum ráðstöfunum til að hefta það, að aumingjar og vitfirringar og aðrir stórgallaðir menn auki kyn sitt og spilli stofninum ... og út á við með því að stemma stigu fyrir, að útlendingar, og þá helzt menn af ólíkum kynþáttum setjist hér að.“

22. feb. 1936 í tímaritinu, Íslandi. Helgi S. Jónsson lýsir draumaríkinu, „hinu samvirka þjóðríki þjóðernisjafnaðarstefnunnar.“ „Hin mikla hugsjón vor Þjóðernissinna er að skapa hið samvirka þjóðríki friðar og réttlætis, þar sem engar innbyrðis deilur eru til, þar sem þjóðin stendur sem einn maður sameinuð um hag sinn og velmegun.

Í slíku ríki eru útilokaðir allir bitlingar og hlutdrægni, þar sem stjórnin ber ætíð velferð alþjóðar fyrir brjósti og þar sem alþjóð er henni fylgjandi. Í slíku ríki fær framtak einstaklingsins að njóta sín, en þó aldrei þannig, að það nái að skaða hag heildarinnar, sem er fyrst og fremst fyrir brjósti borin ... þá verða innlendir vísindamenn látnir rannsaka möguleika þá, sem land vort hefur að geyma ... í hinu samvirka þjóðríki verður vakað yfir lífi hvers einstaklings og velferð hans ... þá verður ekki hinn ungi iðnaður landsmanna kúgaður með innflutningshöftum og hvers kyns ranglæti ...

Í þegnskylduvinnu hins samvirka þjóðríkis kynnast ungir menn af öllu landinu. Þar lærir æskan að vinna fósturjörðinni gagn ... Í hinu samvirka þjóðríki verður sjómönnum veitt fyllsta öryggi ... Þá verða bændur landsins, kjarni þjóðarinnar, aftur sjálfstæðir, leystir af skuldaklafanum ... Þá verður verzlunarstéttin ekki ofsótt lengur, heldur fær hún frið til að lifa og starfa ... Þá verða lögin ekki lengur verndarvængur glæpamanna, heldur geta allir landsmenn leitað á náðir þeirra og verður rétt úr málum allra skorið ...

Og þegar dagur hins samvirka þjóðríkis rennur upp yfir föðurlandi voru, hafa ekki einungis þeir draumar rætzt, sem í fyrstu urðu til hér hjá nokkrum ungum umkomulitlum mönnum, og sem þeir helguðu líf sitt og starf, heldur hefur þá einnig rætzt draumur allrar þjóðarinnar um nýtt og betra þjóðskiplag, hinn duldi draumur um einingu, frið, vinnu og frelsi.“

Birgir Kjaran í Mjölni, málgagni þjóðernissinnaðra stúdenta við HÍ. okt./nóv. 1935: „Fjölnismenn eru löngu horfnir, en starf þeirra lifir. Þær tilfinningar, sem þeir vöktu hjá þjóðinni, hafa aldrei kulnað út með öllu. Við minnumst bezt aldarafmælis barátturits þeirra, Fjölnis, með því að dusta úr okkur drungann og ganga í raðir þjóðernissinna, sem munu ljúka því verki, sem Fjölnismenn hófu, að gera Ísland að farsælda fróni.“

18. júli 1936 skrifar Jón Þ. Árnason, formaður Félags ungra þjóðernissinna, í tímaritið, Ísland: „Við íslenzkir þjóðernissinnar getum hvar sem er, hvenær sem er, og hvernig sem á stendur, viðurkennt Þýzkaland sem þann vettvang, sem við sækjum fyrirmyndir okkar á, en á hinn bóginn neitum við því harðlega, ef einhverjum skyldi detta í hug að halda því fram, að við sækjum þangað fyrirmæli. Við dáum forystumenn þýzku þjóðarinnar og óskum þess af heilum huga, að okkar þjóð, íslenzka þjóðin, megi verða svo gæfusöm að eignast nokkra slíka, það er allt og sumt.“

„Erfitt er að gefa viðhlítandi skýringu á því, að Flokkur þjóðernissinna hlaut jafn lítið fylgi og raun bar vitni, en þó má benda á, að flokkurinn var að því leyti ólíkur öðrum nazistaflokkum, að hann skorti óumdeildan foringja. Þau fimm ár, sem hann starfaði, gegndu fjórir menn starfi flokksformanns.

Sennilega hefur það átt sinn þátt í, hve flokknum varð lítið ágengt, að hann hafði ekki yfir að ráða forystumönnum, sem höfðu til að bera persónutöfra og gátu náð til fjöldans. Ein skýring á fylgisleysi flokksins er sú, að honum tókst ekki að vinna kjósendur frá Sjálfstæðisflokknum, en helzt var við því að búast, að þjóðernissinnar fengju fylgi þaðan. Athyglisvert er, að þeir kenndu jafnan Sjálfstæðisflokknum um, hve lítið fylgi flokkurinn fékk.

Því hefur oft verið haldið fram, að félagar í Flokki þjóðernissinna hafi nær eingöngu komið frá efnuðum heimilum á þeirra tíma mælikvarða. Þetta er ekki allskostar rétt. Að vísu kom allstór hópur flokksfélaga úr slíku umhverfi, en auk þess voru í flokknum iðnnemar, verzlunarmenn, iðnaðarmenn, sjómenn og verkamenn. Þá má benda á, að sjálfir lýstu þjóðernissinnar sér sem „nokkrum ungum umkomulitlum mönnum“.

Að öllu samanlögðu virðist mega draga þá ályktun að allmargir þjóðernissinnar hafi verið ungir og efnalitlir menn, sem höfðu margir hverjir lítillar skólagöngu notið. Þeir voru óánægðir með hlutskipti sitt í lífinu og mótmæli þeirra komu fram í því, að þeir gengu í flokk þjóðernissinna og vildu rífa til grunna ríkjandi þjóðskipulag og reisa á rústum þess nýtt og betra þjóðfélag.

En það var ekki eingöngu óánægja, sem olli því, að menn gengu í flokkinn, heldur líka aðdáun á Adolf Hitler og þýzka nazismanum. Ýmsir trúðu því í einlægni, að nazisminn væri lausn á vandamálum mannkynsins og væri það, sem koma skyldi.“

Ábending um lesefni: Hrafn og Illugi Jöklulssynir: Íslenskir nasistar


« Síðasta færsla

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband