Íslenska nasistahreyfingin. Fyrri hluti

Ásgeir Guðmundsson skrifaði merka ritgerð um þjóðernishreyfinguna á Íslandi. Hann kynnir einnig verk sitt í ritgerðinni: „Nazismi á Íslandi. Saga Þjóðernishreyfingar Íslendinga og Flokks þjóðernissinna.“ Saga XIV (1976), bls. 5-68. Þessi pistill grundvallast í meginatriðum á fræðistörfum Ásgeirs.

Saga í hnotskurn: Árið 1932 gaf Jón H. Þorbergsson, bóndi Laxamýri, S-Þing, út bæklinginn: Þjóðstjórnarflokkur. Drög að stefnuskrá.

Félag ungra þjóðernissinna, Landsmálafélagið Þórshamar, var stofnað 9. sept. 1933. Um vorið varð til Þjóðernishreyfing Íslendinga (einnig umtöluð af félagsmönnum sem þjóðernisjafnaðarstefna (Nationalsozialismus). Landsfundur var haldinn 10. mars 1934. Hreyfingin sameinaðist Flokki þjóðernissinna (nasistaflokknum) sem var stofn 2. jan. 1934.

Flokkurinn leið undir lok 1938/1939, fundahöld í anda flokksins héldu áfram til 1944. Sjálfstæðisflokksmennirnir hurfu til síns heima. Blaðið, Ísland, sá dagsins ljós. Einkunnarorð: „Íslandi allt.“ Félag þjóðernissinnaðra stúdenta við HÍ gaf einnig út tímaritið, Mjölni.

Flokki þjóðernissinna var verulega uppsigað við „kommúnista.“ Útrýming þeirra var á dagskrá:

„Takmark þjóðernisjafnaðarstefnunnar er að skapa Volksgemeinschaft —þjóðarsamfélag, órjúfandi þjóðarheild … Stéttamunurinn á að hverfa og allur ágreiningur, sem stafað getur af mismunandi uppeldi manna … Í því skyni starfa hin stóru æskulýðsfélög —Hitlersæskufélögin [Hitlerjugend] … „Ef þjóðin á að lifa, verður Marxisminn að deyja." (Ásgeir Guðmundsson).

„Útrýming kommúnista“ (hvað svo sem það nú var) er enn þá snar þáttur í hugsun margra „Sjálfstæðisflokksmanna.“

Seinni hugmyndafræðingar Sjálfstæðisflokksins eins og Friðrik Sophusson og Hannes Hólmsteinn Gissurarson, hafa bent á, að nær væri að kalla hann ristilegan jafnaðarmannaflokk. Nasískur eðliþáttur í hugmyndafræði hans slær einnig út í vígorðum eins og „stétt með stétt,“ sem lék á vörum forystumanna hans um árabil.

Stefnuskrá Þjóðernishreyfingar Íslendinga var svohljóðandi:

„I. Ríkismál.

1.Vjer krefjumst, að ríkisvaldið vinni ávalt fyrst og fremst að verndun og efling sjálfstæðis íslenska ríkisins. 2.Vjer krefjumst öflugs ríkisvalds til þess að halda uppi friði og rjetti í landinu. 3. Vjer krefjumst, að stjórnmálaflokkum og blöðum verði bannað að þiggja erlendan styrk til stjórnmálastarfsemi. 4.Vjer krefjumst, að sambandinu við Dani verði slitið svo fljótt sem unt er og að þegar verði hafinn undirbúningur að sambandsslitum.

II. Menningarmál.

5.Vjer krefjumst eflingar íslenskrar menningar á þjóðlegum grundvelli. 6. Vjer kefjumst, að námsgreinum við Háskóla vorn verði fjölgað hið fyrsta, einkum í hagnýtum fræðum, og að rannsakað verði sem fyrst alt, er lýtur að atvinnuvegum vorum. 7.Vjer krefjumst, að ríkið styrki unga mentamenn til náms við erlendis, einkum í þeim greinum, sem eigi eru kendar við Háskóla vorn og oss vanhagar um. 8. Vjer krefjumst, að í heilbrigðismálum sje þess framar öllu gætt, að kynstofninn spillist eigi af völdum arfgengra sjúkdóma.

Heilbrigði þjóðarinnar sje vernduð og efld á grundvelli mannbótakynfræðinnar (Rassenhygiene, Eugenik). 9. Vjer krefjumst, að strangt eftirlit sje haft með næmum sjúkdómum, sem einkum eru hættulegir heilbrigði þjóðarinnar, svo sem berklaveiki og kynsjúkdómar.

III. Velferðarmál.

10.Vjer krefjumst, að þjóðarheill sitji ávalt í fyrirrúmi fyrir hagmunum stjórnmálaflokka og einstakra manna. 11. Vjer krefjumst, að unnið verði að auknum skilningi og samúð milli allra stjetta þjóðfélagsins meðal annars með því, að verkamenn fái hlutdeild í arði þeirra framleiðslu, er þeir vinna við. 12. Vjer krefjumst, að ríkið beiti sjer fyrir byggingu verkamannabústaða með hagkvæmum lánum og framlagi úr ríkissjóði. Verkamönnum sje gert kleift að eignast bústaðina. 13. Vjer krefjumst, að löggjöfinni sje hagað þannig, að atvinnuvegirnir geti blómgast og veitt landsins börnum nóg brauð.

IV. Atvinnumál.

14. Vjer krefjumst afnáms ríkisrekstrar, þar sem hann brýtur í bága við framtak einstaklingsins eða þjóðarheill. 15. Vjer krefjumst, að ríkið beiti sjer af afefli fyrir því, að kjör sveitanna verði bætt, svo að stöðvist straumurinn úr sveitum landsins í bæina. 16. Vjer krefjumst, að ríkið beiti sjer fyrir því, að landbúnaður vor verði rekinn með nýtísku sniði og að leitað verði nýrra markaða fyrir afurðir hans erlendis. 17. Vjer krefjumst, að ríkið styðji innlendan iðnað og iðju með því að afnema framleiðslutolla og með því að leggja verndartolla á þær erlendar vörur, er framleiða má jafn ódýrar og góðar í landinu sjálfu og með hagkvæmum lánveitingum til iðnaðar. 18. Vjer krefjumst, að efldar verði samgöngur bæði á sjó og landi og að Íslendingar taki á næstunni allar siglinar milli hafna og útlanda í sínar hendur. 19. Vjer krefjumst, að engir erlendir menn stundi atvinnu hjer á landi, nema um sjerfræðinga sje að ræða, og þá því aðeins, að eigi sje völ jafn góðra innlendra. 20. Vjer krefjumst, að komið verði á þegnskylduvinnu hjer á landi.

V. Fjármál.

21. Vjer krefjumst, að ríkið gæti þess jafnan fyrst og fremst að búa skuldlaust. 22. Vjer krefjumst, að fjármál ríkisins sjeu rannsökuð nákvæmlega og að nákvæmt eftirlit sje haft með hag og stjórn bandanna og allra þeirra atvinnufyrirtækja, sem rekin eru eða rekin munu verða af ríkinu. 23. Vjer krefjumst, að skattaálögur sjeu ávalt miðaðar við gjaldþol þegnanna.“

Þorsteinn Bernharðsson í Heimdalli, blaði ungra Sjálfstæðismanna í júní 1933: „Nú vill svo til, að flestir sem ennþá fylla flokk Þjóðernissinna eru gamlir sjálfstæðismenn. Það eru áhugasamir ungir menn, sem hefir fundist of mikil deyfð í flokki sínum, til þess að þeir gætu starfað þar, og heldur kosið að stofna nýjan flokk á svipuðum grundvelli.“

Morgunblaðið 2. Júní 1933 um Þjóðernishreyfinguna: „Kommúnisminn rússneski, stjettahaturspólitík sosíaldemókrata og svikaflækja Hriflunganna [þ.e. stuðningsmanna Jónasar frá Hriflu, Framsóknarflokki] eru sjúkdómar, sem þjáð hafa þjóðina á undanförnum árum.

Allir hafa sjúkdómar þessir beinst með mestri áfergju að æskulýðnum og hinni uppvaxandi kynslóð. Sýkt æska er sama og dauðvona þjóðfjelag. Það hafa þeir vitað, sem mest hafa stutt að útbreiðslu kommúnismans, með kenslustarfsemi, blaðaútgáfu, stjettabaráttu, með því að grafa undan heilbrigðu framleiðslu- og viðskiftalífi.

Æska landsins og hin uppvaxandi kynslóð hefir tekið hinni vaknandi þjóðernishreyfingu með mesta fögnuði ...

En hvernig svo sem starfsemi íslenskra þjóðernissinna veður háttað í framtíðinni ... þá er eitt víst, að þjóðernishreyfing Íslendinga, sú hreyfing, sem að því miðar að verjast kommúnistiskum sjúkdómum og erlendum niðurdrepsáhrifum, er sprottin úr alíslenskum jarðvegi – af innlendri nauðsyn.“

Í Íslenskri endurreisn, málgagni Þjóðernishreyfingarinnar 11. maí 1933: „Af hálfu Sjálfstæðisflokksins hefir Þjóðernishreyfingin fengið yfirleitt vingjarnlegar viðtökur. Það er samt ástæða til þess að vara við þeim misskilningi, er sumstaðar hefir gætt: að Þjóðernishreyfingin sje aðeins afsprengi Sjálfstæðisflokksins, því að svo er ekki.

Að vísu er stefnumunur milli okkar Þjóðernissinna og Sjálfstæðisflokksins ekki verulegur, en við krefjumst, að stefnunni sje fylgt fram hik- og hálfvelgjulaust. Vilji Sjálfstæðisflokkurinn útrýma þeim óheillaöflum, sem undanfarin ár hafa leitt þjóðina á glötunarbarminn, þá verður hann að berjast gegn þeim með meiri krafti en hann hefir gert hingað til.“

Sveinn Jónsson í Þórshamri 19. jan. 1934: „Takmark flokksins er: Sigur Þjóðernisjafnaðarstefnunnar á Íslandi 1943. – Þ.H.Í. er stofnað 1933. – ... Við skorðum á alla þá menn, sem vilja gera Ísland að landi, þar sem enginn stéttamunur og þar af leiðandi engin stéttabarátta er til, að fylkja sér undir merki Þ.H.Í. Við berjumst fyrir hagsmunum allra stétta, fyrir frelsi, vinnu og brauði handa öllum.“

Í málgagninu, Íslenskri endurreisn, 11. maí 1933: „Þjóðernishreyfing Íslendinga er af alíslenskum rótum runnin og á alls engin mök við nokkrar erlendar stefnur eða flokka. Ef svo væri ekki, þá bæri hún heldur ekki nafn sitt með rjettu.“

Ísland, málgagn Flokks þjóðernissinna, 23. maí 1934. Markmið: „Vér viljum afnema stéttabaráttuna og reisa á Íslandi samstarfandi og frjálst þjóðfélag.

Framtíðarlíf þjóðarinnar skal byggt á fortíðarreynslu hennar, á samstarfi allra stétta, á fullkomnum friði, bæði innanlands og við aðrar þjóðir, á réttlæti handa hverjum einasta Íslending, á frelsi einstaklingsins til þess að ná sem mestum þroska, bæði andlega og líkamlega.

Vér viljum vekja trúna á landið, vér viljum í sameiningu leita gæða þess, í sameiningu vinna þau, í sameiningu njóta þeirra.

Vér viljum hagnýta okkur þekkingu og reynslu mannkynsins á hverjum tíma til þess að létta lífsbaráttu þeirra, sem Ísland byggja. Vér viljum lifa í okkar eigin landi, frjálsir og óháðir öllum.

Vér viljum vekja trú þjóðarinnar á hennar eign mátt og megin og auka menningu hennar og þroska, skapa henni verðugan sess meðal annara þjóða.

Vér viljum vekja trúna á lífið – trúna á hið góða í manninum, á þróun lífsins að hinu æðsta marki, fullkomnum friði og bræðralagi, bæði einstaklinga og þjóða.

Réttlæti – frelsi – friður eru kjörorð vor. Í þessum kjörorðum er markmið þjóðernissinna falið. Undir þeim og tákni afls hinnar sameinuðu þjóðar – Þórshamrinum – leggjum við í baráttuna fyrir sigri hins besta málstaðar.“


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband