Hin glataða gullöld: Íslendingar áttu sína glæstu fornöld, sem glataðist: Söguöldin er gullöld Íslendinga. Hún er það tímabil í sögu þeirra, sem ól göfugri og þrekmeiri kynslóð en nokkurt annað fyr eða síðar. Við hana eru hnýttar þjóðarinnar dýrustu endurminningar. Hvar sem litið er, þá blasir við augum þjóðlíf í fylsta og fegursta blóma.
Framkvæmdaþrekið, hreystin og hugprýðin haldast þar í hendur við mannúð og göfuglyndi. Sterkar og djúpar tilfinningar eru þar tengdar ráðsnild og hyggjuviti. Hagsýni og dugnaður í veraldlegum efnum eru þar samfara mentaþrá og fegurðarsmekk. Það er eins og víkingalíf fornaldarinnar sé endurvakið í allri sinni fjölbreyttu dýrð, en um leið með nýjan og göfugan siðmenningarblæ yfir sér. (79)
Með siðaskiptunum verður svartnætti í lífi þjóðarinnar að dómi Jóns Aðils: Það er engu líkara en að dimmi af nótt í lífi þjóðarinnar eftir siðaskiftin, og þessi nótt grúfir yfir svört og þungbúin alt fram á 18. öld.
Það er eins og síðustu leifarnar af kjark og þreki og sjálfstæði líði undir lok, og jafnvel tunga þjóðarinnar er orði spilt og dönskublandin. En í náttmyrkrinu má þó öðru hvoru eins og sjá rofa fyrir stjörnu í fjarska. Það er leiðarstjarna þjóðarinnar gegn um hættur og hafvillur, - þjóðernistilfinningin. (179-180)
En þjóðernistilfinningin er vakin af Eggerti Ólafssyni, sem var hrifnæmur upplýsingarmaður: Enn sem komið er hefur ekki sá maður fæst hér á seinni öldum, að einum undanskildum, sem verðugri sé en hann til að skipa öndvegissessinn í hjarta þjóðarinnar. Hann er sannkallaður þjóðræknispostuli, og eigi nokkur maður skilið, að nafn hans sé letrað á gullspjald og varðveitt inst í helgidómi þjóðarinnar, þá er það Eggert Ólafsson, því með ljóðum sínum kvað hann þjóðina til lífsins aftur. (237)
Íslensk þjóðernishreyfing: Þegar öldur hafði lægt í átökunum um sjálfstæði þjóðarinnar og flokkar fóru að skipast í það horf, sem við þekkjum í dag, þ.e. fjórflokkurinn (Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Alþýðuflokkur og Sósíalistaflokkur/Alþýðubandalag), fór að örla á skipulagðri þjóðernishreyfingu (þ.e. annarri en Sjálfstæðisflokknum).
Ásgeir Guðmundsson hefur skrifað ritgerð um efnið. Framsetningu hans er fylgt.
Þjóðernishreyfing Íslendinga stofnuð apríl 1933, fyrsti landsfundur 10. mars 1934, en tveim árum fyrr, þ.e. 1932 , hafði Jón H. Þorbergsson, bóndi Laxamýri, S-Þing, gefið út bæklinginn: Þjóðstjórnarflokkur. Drög að stefnuskrá.
Þannig 11. mars sameinast Þjóðernishreyfingin flokki þjóðernissinna (nasistaflokknum) sem var stofnaður 2.jan. 1934. Flestir flokksmanna voru flokksbundnir í Sjálfstæðisflokknum eða töldu sig Sjálfstæðismenn. Þeir hurfu til síns heima, þegar Nasistaflokkurinn lagði upp laupana 1938/1939, en fundahöld héldu áfram til 1944. Flokkurinn gaf út blaðið, Ísland. Einkunnarorð: Íslandi allt.
Starfandi var einnig félag þjóðernissinnaðra stúdenta við HÍ, sem gaf út tímaritið Mjölnir. Aðalhugmyndafræðingur þess, Birgir Kjaran, var síðar einn helsti hugmyndafræðingur Sjálfstæðisflokksins á tímabili. Enn þá eitt félag starfaði um tíma: Félag ungra þjóðernissinna, stofnað 9. sept. 1933, landsmálafélagið Þórshamar.
Hugmyndafræðilegar uppsprettur þjóðernissinna voru verk Jóns Aðils, sagnfræðings, rit Guðmundar Finnbogasonar, sálfræðings, og rit dansk/þýska leiðtoga danskra nasista, sem var þýskmenntaður læknir Frits Clausen að nafni. Hefti hans, Þjóðernis-jafnaðarstefnan. (Rvk. 1926, Þjóðvörn) (1893-1947) var þýdd á íslensku. Clausen sótti að einhverju leyti innblástur til danska fræðimannsins og klerksins, Nikolai Grundtvig, sem lagði ofuráherslu á norræna goðafræði og þýðingu hennar fyrir þjóðernið, að ógleymdri mikilli áherslu á kristna trú. Clausen segir m.a. (síðutal í sviga):
Þjóðernið er ekki sama og þjóðastofninn eða kynþátturinn, heldu stafar þjóðernið frá þjóðastofninum, sem hver þjóð er af, alveg eins og tónarnir, sem koma frá hljóðfærinu fara eftir efni og gerð hljóðfærisins, sem þeir koma frá. (15) ...
En ofan við hin ólífrænu lögmál efnisins á þjóðernis-jafnaðarstefnan samleið með og sameinist hinum trúarlegu kröftum og þeirri mannúðartilhögun, sem Kristur kemur með í fagnaðarboðskap sínum og lífsfyrirmynd, sem hefir lýst upp og gert andlega bjart yfir löngum tímabilum í sögu alþýðu vorrar, og sem er hin æðsta og hreinasta manndómshugsjón, sem til er. (47) ...
Frjófruman verður til af heild líkamans, og út af henni vaxa svo aðrar frumur, er byggja upp líkamann og mynda hann. Á þennan sama hátt verkar einnig hin þjóðlega hugsjón meðal fólksins, á þann hátt, að einstaklingurinn hefir fengið hæfileika til að móta efnivið þjóðfélagsins og gera hann að einum þjóðarlíkama, og sem þar með öðlast leiðsögn og forustu, þar sem leiðtoginn er beinlínis einskonar táknmynd af hugsjóninni og fylgi hans er framkvæmd hugsjónarinnar innan hinnar skipulögðu heildar, þar sem hugsjónin er ráðandi. Þannig verður þjóð að ríkisheild,... (49)
Eins og hér um bil gefur að skilja kynngimagnast hugsjónir fólksins í nasistaflokknum og leita sér farvegs í leiðtoga fólksins.
Íslenski nasistaflokkurinn stefnir að sjálfsögðu að forustu fyrir Íslendingum, enda þótt aldrei hefði greinilegur leiðtogi risið upp innan hans. Í stefnuskrá íslensku þjóðernishreyfingarinnar var m.a. lögð rík áhersla á íslenska menningu og hreinleika þess kynstofns, sem Jón Aðils (og raunar fleiri, m.a. Guðmundur Finnbogason) höfðu lýst sem afburðakynstofni. Þar segir (síðutal úr grein Ásgeirs):
Vjer krefjumst eflingar íslenskrar menningar á þjóðlegum grundvelli. ... Vjer krefjumst, að í heilbrigðismálum sje þess framar öllu gætt, að kynstofninn spillist eigi af völdum arfgengra sjúkdóma. Heilbrigði þjóðarinnar sje vernduð og efld á grundvelli mannbótakynfræðinnar (Rassenhygiene, Eugenik). (11) Þetta endurómar síðar í stefnuskrá Flokks þjóðernissinna.
Áðurnefndur hugmyndafræðingur þjóðernissinna og Sjálfstæðismanna, Birgir Kjaran, skrifar í Mjölni, málgagni þjóðernissinnaðra stúdenta við HÍ. okt/nov 1935:
Fjölnismenn eru löngu horfnir, en starf þeirra lifir. Þær tilfinningar, sem þeir vöktu hjá þjóðinni, hafa aldrei kulnað út með öllu. Við minnumst bezt aldarafmælis barátturits þeirra, Fjölnis, með því að dusta úr okkur drungann og ganga í raðir þjóðernissinna, sem munu ljúka því verki, sem Fjölnismenn hófu, að gera Ísland að farsælda fróni. (45)
Nasistaflokkur Þýskalands er hin stóra fyrirmynd. Þann 18. júli 1936 ritar Jón Þ. Árnason, formaður Félags ungra þjóðernissinna í Íslandi:
Við íslenzkir þjóðernissinnar getum hvar sem er, hvenær sem er, og hvernig sem á stendur, viðurkennt Þýzkaland sem þann vettvang, sem við sækjum fyrirmyndir okkar á, en á hinn bóginn neitum við því harðlega, ef einhverjum skyldi detta í hug að halda því fram, aða við sækjum þangað fyrirmæli. Við dáum forystumenn þýzku þjóðarinnar og óskum þess af heilum huga, að okkar þjóð, íslenzka þjóðin, megi verða svo gæfusöm að eignast nokkra slíka, það er allt og sumt. (46)
En slíkir leiðtogar komu ekki fram á sjónarsviðið. Ásgeir telur, að samvöxturinn við Sjálfstæðisflokkinn hafi skipt máli. Hann segir:
Erfitt er að gefa viðhlítandi skýringu á því, að Flokkur þjóðernissinna hlaut jafn lítið fylgi og raun bar vitni, en þó má benda á, að flokkurinn var að því leyti ólíkur öðrum nazistaflokkum, að hann skorti óumdeildan foringja. Þau fimm ár, sem hann starfaði, gegndu fjórir menn starfi flokksformanns. Sennilega hefur það átt sinn þátt í, hve flokknum varð lítið ágengt, að hann hafði ekki yfir að ráða forystumönnum, sem höfðu til að bera persónutöfra og gátu náð til fjöldans.
Ein skýring á fylgisleysi flokksins er sú, að honum tókst ekki að vinna kjósendur frá Sjálfstæðisflokknum, en helzt var við því að búast, að þjóðernissinnar fengju fylgi þaðan. Athyglisvert er, að þeir kenndu jafnan Sjálfstæðisflokknum um, hve lítið fylgi flokkurinn fékk. ...
Því hefur oft verið haldið fram, að félagar í Flokki þjóðernissinna hafi nær eingöngu komið frá efnuðum heimilum á þeirra tíma mælikvarða. Þetta er ekki allskostar rétt. Að vísu kom allstór hópur flokksfélaga úr slíku umhverfi, en auk þess voru í flokknum iðnnemar, verzlunarmenn, iðnaðarmenn, sjómenn og verkamenn. Þá má benda á, að sjálfir lýstu þjóðernissinnar sér sem nokkrum ungum umkomulitlum mönnum.
Að öllu samanlögðu virðist mega draga þá ályktun að allmargir þjóðernissinnar hafi verið ungir og efnalitlir menn, sem höfðu margir hverjir lítillar skólagöngu notið. Þeir voru óánægðir með hlutskipti sitt í lífinu og mótmæli þeirra komu fram í því, að þeir gengu í flokk þjóðernissinna og vildu rífa til grunna ríkjandi þjóðskipulag og reisa á rústum þess nýtt og betra þjóðfélag.
En það var ekki eingöngu óánægja, sem olli því, að menn gengu í flokkinn, heldur líka aðdáun á Adolf Hitler og þýzka nazismanum. Ýmsir trúðu því í einlægni, að nazisminn væri lausn á vandamálum mannkynsins og væri það, sem koma skyldi. (60-61)
Að leiðarlokum: Þjóðernishyggjuna kallaði eðlisfræðingurinn, Albert Einstein (1879-1955), barnasjúkdóm eða mislinga mannsins. Það mætti til sanns vegar færa í yfirfærðum skilningi.
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
Bloggvinir
Af mbl.is
Íþróttir
- Glódís Perla: Ég tók þetta inn á mig
- Heilt landslið týnt
- Ekkert eðlilega stoltur
- Það bítur þig í rassinn
- Hollendingurinn var hetjan
- ÍR-ingar sterkari í framlengingu
- Njarðvíkingar unnu Þór í háspennuleik
- Álftanes vann í Keflavík eftir spennu
- Rashford hafnað þremur tilboðum
- Há sekt fyrir að faðma konu