Ég styðst í aðalatriðum við rit Jóns Aðils, sagnfræðings, um íslenskt þjóðerni. (Islenzkt þjóðerni. Alþýðufyrirlestar. (Rvk., Sigurður Kristjánsson, 1903) (fyrirlestrarnir voru einnig gefnir út undir titlunum íslenskt þjóðerni, gullöld Íslendinga og Dagrenning 1903 til 1910 vísað er til blaðsíðutals í sviga.)
Önnur tveggja aðalheimilda er rit Ásgeirs Guðmundssonar um íslenska þjóðernishreyfingu. (Nazismi á Íslandi. Saga Þjóðernishreyfingar Íslendinga og Flokks þjóðernissinna. Saga XIV (1976), bls. 5-68.) (Einnig hér er vísað til blaðsíðutals í sviga.) Skrif þeirra um efnið verða rakin og rædd.
Ágrip/niðurlag: Þær þjóðernishreyfingar, sem urðu til á nítjándu öldinni á meginlandi Evrópu, tvinnuðust saman við þjóðernis- og sjálfstæðishugsun íslenskra menntamanna, sem einkum urðu fyrir áhrifum frá þýsk-danskri draumórastefnu (rómantík). En þegar á átjándu öldinni sá Eggert Ólafsson fyrir sér íslenska þjóð, sem hafði endurheimt þjóðerni sitt og glæsileika menningar sinnar.
Íslenskir menntamenn urðu einnig fyrir áhrifum af hugmyndum um svonefnda félagslega Darwinshyggju, sem styrkti íslenska söguskoðun í þá veru, að á Íslandi byggi guðs útvalda þjóð, sem fyrir misskilning örlaganna hafði ekki náð að senda geisla sína til umheimsins. En skín á gull, þótt í skarni liggi. Tími íslenskrar afburðaþjóðar er kominn rétt eins og tími Jóhönnu, þrátt fyrir vissan ómöguleika um aldir.
Nasistaflokkurinn leið undir lok, en fræ hans spíruðu í Sjálfstæðisflokknum og hugmyndafræðilegur arfur hans, þjóðernisjafnaðarstefnan, sem boðaði altumlykjandi forsjárhyggju, lifir góðu lífi með þjóðinni og þrífst eins og púki á fjósbita.
Þjóðernisstefna: Stefnan er venjulega rakin til þýskra skálda og fræðimanna á nítjándu öldinni. Allir eru þó ekki á eitt sáttir. Ágreiningur fræðimanna um tímasetningu kemur aðallega til af mismunandi skilgreiningum á fyrirbærinu, þótt flestir tengi upphaf þjóðernisstefnu við myndun nútíma þjóðríkja. Grunnhugmyndir um þjóðina eru tvær; pólitísk eining og menningarlegt fyrirbæri. (Ragnheiður Kristjánsdóttir. Rætur íslenskrar þjóðernisstefnu. Saga 1996, 131-174, bls. 135-136.)
Jón Aðils segir um þetta: Þar sem upplýsingarstefnan bygði á almennum mannúðargrundvelli, bygði rómantíska stefnan á þjóðlegum grundvelli. Það er þjóðernislögmálið, sem ryður sér til rúms með þessari stefnu. Hennar aðal þýðing er í því fólgin, að hún hjálpar þjóðunum til að finna sjálfar sig. Hún beinir athygli þeirra að fortíðinni, að uppruna sínum, sögu og fornbókmentum, og kveykir við það nýtt líf og nýjan þrótt hjá þeim. (237)
Þjóðernisrannsóknir: Módernismi í þjóðernishyggjurannsóknum, sú kenning að pólitísk þjóðernishyggja, óskin um að mörk þjóðar og ríkis falli saman, hafi lítt eða ekki orðið til fyrr en á nýöld. Spurningar vakna óhjákvæmilega í tilfelli okkar Íslendinga um það frelsi sem forvígismenn sjálfstæðisbaráttunnar þóttust vilja sækja í greipar Dana. (Gunnar Karlsson. Sagan af þjóðríkismyndun Íslendinga 1830 1944 (109-134), bls.127. Íslensk sagnfræði á 20. öld. Útg. Guðmundur J. Guðmundsson og fl. Sögufélag 2009.)
Hugtakið Íslendingur: Hugtökin Ísland og Íslendingar koma fyrir í dróttkvæðum frá tíundu og elleftu öld. Frá og með 12. öld fara konungar á Norðurlöndum að efla samstöðu þegna sinna. Áður var föðurlandið einungis það land sem átti sér sameiginlegt þing.
Íslenskt þjóðerni skipti máli fyrir þá sem voru staddir í erlendu umhverfi og þegar þjóðin þurfti að koma saman til að bregðast við erlendu áreiti. Fyrir 1262 voru íslenskir bændur þjóð erlendis en eftir það þurftu þeir líka að vera það heima hjá sér. Að því leyti markar árið 1262 upphaf íslensks þjóðernis. (Sverrir Jakobsson. Hvers konar þjóð voru Íslendingar á miðöldum? Skírnir, 173. árg., vor 1999, bls. 140.)
Íslensk þjóðernishyggja: Þjóðernishyggja 19. aldar; vildi hún viðhalda fornum þjóðarsiðum og þjóðareinkennum og endurvekja það af slíku tagi sem hefði glatast í tímans rás, einkum ef það hafði glatast vegna útlendra áhrifa og yfirráða. Á hinn bóginn var þjóðernisstefnan líka nývæðingarstefna [modernisation] og framfarastefna [positivism]. (Gunnar Karlsson, Saga Íslands IX, Hib, Rvk. 2008, bls. 255.)
Uppruni Íslendinga: Íslendingar eru búnir til úr tveim úrvalsstofnun; þ.e. Keltum og Norðmönnum. Jón Aðils Jónsson, sagnfræðingur, ritaði töluvert á fræðilegum grunni um uppruna og þjóðerni íslendinga. Jón telur mannval mikið hafa byggt Ísland, ríkt að atgjörvi, lærdómi, menningu og þjóðerniskennd. Hann segir:
Hér á Íslandi blönduðu þessir tveir kynþættir blóði [Keltar og Norðmenn]. Hér rann saman í eitt andlegt fjör, hugvit og snild Keltanna, og djúpskyggi, staðfesta og viljaþrek Norðmannanna, og fæddi af sér þjóðlíf, sem varla hefur átt sinn líka í sögunni. (49)
Í Hafursfjarðarorustu var mest mannval saman komið á mót Haraldi konungi. Þau þrjú fylki, sem aðallega héldu þar upp vörninni, stóðu lang fremst í menningu af öllum fylkjum í Noregi, og var það að (21) þakka viðskiftum þeirra við Vesturlöndin, sem áður er minnst á. Þaðan höfðu víkingaflokkar farið vestur um haf og sótt gull og gersimar til keltnesku þjóðanna. En þeir sóttu um leið það sem meira er í varið, og það var menning og mentaþrá og andleg áhrif í ýmsar áttir. Það eitt sýnir nægilega samband þessara fylkja við Vesturlöndin, að fjölda margir menn komu vestan um haf til að berjast á móti Haraldi konungi í Hafursfirði. (22)
Í fornritum vorum er oft getið um man, bæði þræla og ambáttir, og um margt af því er tekið fram, að það hafi verið af írsku kyni. ... Nú mega menn ekki ætla, að þetta man hafi alt verið þýborið, eða yfir höfuð að tala af auðvirðilegum uppruna. Það var oft af göfugum ættum, jafnvel jarlborið og konungborðið, ... (38)
Írskir klerkar og klaustramenn lögðu sig ekki eingöngu eftir latínu, heldur einnig eftir grísku og hebresku. Þeir hófu fyrstir manna fornrit Grikkja, þennan gimstein alheimsbókmenntanna, upp úr gleymsku og niðurlæginu og auðguðu anda sinn og þekkingu á lestri þeirra. Eftir það skifti svo um, að hver mentakynslóðin á fætur annari hefur nú öld eftir öld ausið þaðan sína beztu undirstöðufræðslu.
Írar voru hugvitsmenn hinir mestu í alls konar listum og snillingar í höndunum. Fornar írskar skinnbækur eru skreyttar hinum margbrotnustu listadráttum, svo óviðjafnanlega vel gerðum, að það ber að fegurð og snild af flest öðru, sem fram hefur komið í þeirri grein alt fram á vora daga. Þeir voru líka lista-smiðir á alla málma og greyptu svo fagurlega alls konar skrautmyndir á smíðisgripi sína, að afbragð þótt meðal annara þjóða. (46)
Ættjarðarást og þjóðernistilfinning: Jón Aðils Jónsson segir um ættjarðarástina: Hún laðar og lokkar í vorblænum, þegar hann leikur um vangann; hún töfrar og seiðir í öldunum, þegar þær gnauða við borðstokkinn; hún vekur já þeim megnast óyndi og sleppir ekki tökunum fyr en þeir snúa stafni heim. (66) ... Hún brann stöðugt eins og heldur fórnareldur í hjörtum landsins beztu sona og var þeirra tryggast vörn gegn öllu því, sem á nokkurn hátt gat miðað til að hnekkja þjóðarsjálfstæðinu. (71)
Þjóðernistilfinningin deyr aldrei út. Hún rénar aða vísu og dofnar annað veifið og lætur aðeins örlítið á sér bera, en reisir þó stöðugt höfuðið á milli og lætur heyra sína gjallandi viðvörunarröddu, þegar sem mestur voði vofir yfir þjóðinni. (1) ...
Flokkur: Bloggar | 30.12.2024 | 15:31 (breytt kl. 15:34) | Facebook
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021