Heimuglegi hvalurinn, Hvaldimir. Hvalreki í öryggismálum

Íslendingar eru uggandi um öryggi sitt, samkvæmt utanríkisráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnardóttur og Jónasi Gunnari Allanssyni hjá Utanríkisráðuneytinu. Bæði benda á Rússa. Rússneska þjóðin, sem ævinlega hefur verið vinveitt Íslendingum, er Íslendingaskelfir mikill – ógn við Vesturlandabúa alla í raun.

Jónas Gunnar segist eiga á öllu von frá ríki, sem háir stríð „í hjarta Evrópu.“ Í ljósi þessa er skiljanlegt, að landsmenn þurfi að vera varir um sig og auka umsvif með Natóvinum sínum á Keflavíkurflugvelli og í Helguvík.

„Fælingarmáttur“ leikur fyrrnefndum á vörum. Það hljóta allir að sjá í hendi sér, að hrollur fari um Rússa við tilhugsunina um skemmur Bandaríkjahers, jafnvel þótt nokkrar úreltar F-35 þotur séu þar í skjóli.

Hermálaráðuneytið og íslenskir hernaðarsérfræðingar þess búast við stríðsátökum á láði og í lofti eins og í annarri heimstyrjöldinni. Þeir virðast ekki gera sér grein fyrir, að Rússum dugi að senda okkur kveðju, ofurhraðaeldflaug loftleiðis frá Moskvu. „With Love from Moscow“ yrði vafalaust skrautletrað á hana.

Radarstöðvar eru á hverju landshorni og menntaðir, íslenskir sérfræðingar á vakt við skjána. Varnarþotur eru umsvifalaust sendar á loft, verði þeir varir við grunsamleg loftför eða fljúgandi furðuhluti.

Íslendingar hafa einnig eignast nether, sem fylgist með netskæruliðum Rússa. Annar armur hans fylgist með sæstrengjum.

Allt er þetta lofsamlegt, vekur mér öryggi og kostar svo sem ekkert að ráði. Öryggið á oddinn segi ég nú barasta. Tveir milljarðar í bili eru smáaurar. Bandarískir og evrópskir skattgreiðendur borga brúsann að mestu leyti. Ein gloppa all alvarleg kynni þó að vera í þessu kerfi, íhugulli samvinnu Landhelgisgæslunnar, Netvarnadeildarinnar, Hermálaráðuneytisins, Eftirlits- og njósnadeildar Nató, CIA, MI6, stríðsvarnadeildar Ríkislögreglustjóra og aðgerðastjóra Víkingasveitarinnar, nefnilega njósnahvalir.

Eins og menn kynnu að muna var einn slíkur gómaður við Noreg. Hvaldimir var hann kallaður, enda sterkur svipur með honum og Vladimir eða Vonda-Valda. Það þótti augljóst, að þarna væri um njósnahval frá Rússum að ræða, því hann hafði myndavélarfestingu um sig, sem á stóð, að hún væri framleidd í Sankti Pétursborg.

Auðsýnd mannelska hans hefði þó átt að vera frábending, þar sem Rússar eru annálaðir tuddar í framkomu við hvali og menn.

Hvaldimir dó á þessu ári, líklega drepinn af rússnesku leyniþjónustunni. Eða lést þessi rússneski ljúflingur af völdum veirusýkingar eins og ýjað var að í krufningarskýrslu. Covid-19 hefði það getað verið, enda óhægt um vik að bera grímu í hafdjúpunum. Svo var hann heldur ekki bólusettur. Blessuð skepnan skildi ekki mikilvægi sitt.

Hvaldimir var krufinn af norskum yfirvöldum. Einkennileg hegðun Hvaldimirs gæti bent til þess, að hann hafi farið offari í vodkadrykkju eins og Boris Yeltsin.

Innrásaruggur minn eykst við þá tilhugsun, að hvalir – eins og allir kafbátarnir – séu að njósna um mig. En ég er ekki vitund smeykur við vini mína í CIA, MI6 eða íslensku leyniþjónustunni. (Nema þeir fari á stjá með rafbyssur.)

Ég beini þeim vinsamlegu tilmælum til Öryggismálastofnunar, að komið verði upp öryggismyndavélum neðansjávar, sem fylgjast með hvalavánni. Ég svæfi betur á nóttunni, væri því við komið.

En það mætti vissulega líka senda Kristján Loftsson og Hval sex í stríð við þá.

https://www.bbc.com/news/articles/cje2p3z8nlyo https://www.bbc.com/news/world-europe-56956365 https://www.rferl.org/a/news-russia-norway-beluga-whale-hvaldimir/33105923.html https://www.cbsnews.com/news/russia-spy-whale-hvaldimir-cause-of-death/ https://oceanographicmagazine.com/news/hvaldimir-post-mortem-confirms-death-by-natural-causes/ https://theconversation.com/the-worlds-most-bizarre-secret-weapons-how-pigeons-cats-whales-and-even-robotic-catfish-have-acted-as-spies-through-the-ages-244227 https://www.youtube.com/watch?v=JoLeUfwkUjY


« Síðasta færsla

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Des. 2024

S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband