Sameinuðu þjóðirnar II: Þjóðabandalagið og Ísland

Sá merki maður, Íslandsráðherra m.m., Einar Arnórsson (1880-1955), þingmaður Sjálfstæðisflokks, reit í Árbók Háskólans árið 1934:

„Þjóðabandalagið er stofnað mest fyrir atbeina Wilsons Bandaríkjaforseta, sem virðist hafa verið bjartsýnn maður á eðli stjórnmálanna í framtíðinni, en ekki að sama skapi slyngur til ráðagerða eða skipulagningar. Ber Þjóðabandalagið þess ýmsar minjar.

En auk þessa hefur það í framkvæmdinni oft gert meira í því að sýnast en vera. Það hefur að vísu gert ýmislegt þarfleg og gott, en höfuðtakmarki sínu, að halda upp friði milli ríkja og draga úr herbúnaði, hefur það alls ekki náð, og engar líkur til þess, að það nái því um langan aldur, þó að það kunni að halda tilvist sinni áfram, sem ýmsir eru nú teknir að efast um.“ …

„Meðan styrjöldin mikla stóð, var mönnum miklu ljósara en áður, hver nauðsyn á því væri, að komið yrði í veg fyrir styrjaldir framvegis. Hörmungar styrjaldarinnar vöktu þá hugsun með mörgum hugsandi mönnum.“ …

„Samkvæmt a-lið 23.gr. sm. Eiga meðlimir bandalagsins að leitast við að tryggja mönnum, konum og börnum, sanngjörn og mannúðleg vinnukjör, bæði í sínum eigin löndum og í löndum, er þeir hafa verzlunar eða fjármálaskipti við, og að stofna og halda við nauðsynlegri milliríkjastofnun í þessu skyni.“

Töluverð umræða um Þjóðabandalagið, eðli þess og hlutverk, átti sér stað á Alþingi Íslendinga. Annar merkur maður, Einar Olgeirsson (1902-1993), síðast þingmaður Alþýðubandalags, lagði t.d. þessi orð í belg (Skrípaleikur Þjóðabandalagsins. Rjettur 1928: 13. árg. 2. hefti):

„Svo sem kunnugt er, hefur þjóðabandalagið það hlutverk á höndum fyrir stórveldin, að dylja sem best að hægt er með fögrum nöfnum og fríðum loforðum alt hið ófagra framferði verstu kúgara heimsins. Eitt af þeim hlutverkum, sem það nú mest fæst við og gengur erfiðlegast, er að dylja hinn augljósa undirbúning undir nýjar styrjaldir, sem stórveldin reka af kappi.

Þjóðabandalaginu er falið að reyna að leiða athygli lýðsins, sem síðar skal leiddur á blóðvöllinn, frá herbúnaðinum, með því að hjala svo hátt um frið, að skvaldur hinna herklæddu friðarengla yfirgnæfi hávaða vopnaverksmiðjanna. Því svívirðilegri sem tilgangurinn er, því slóttugri verða brögð þessara herra.

Þegar svæfa skal meðvitund þjóðanna fyrir hinum nýju ógnum, er bíða þeirra, grípa þeir einmitt til þess að misnota hina heitu þrá allra þeirra eftir friði, sem kvalist hafa í síðasta stríði, sem mist hafa sína nánustu og aldrei geta hugsað til annara eins skelfinga á ný.

Þessum er talin trú um að þjóðabandalagið sje að berjast fyrir heitustu ósk þeirra, blöðin endurtaka sömu blekkingarnar, rósamál ….deyfa skynsemi þeirra og þannig er fjöldinn blindaður uns valdhafarnir loksins einn góðan veðurdag uppgötva, að friðurinn, sem þeir hafa verið að vernda allan þennan tíma, er í hættu vegna t.d. Rússlands (sem er eina landið, er lagði til fullkomna afvopnun) – og nú þurfi allir friðelskandi menn að hætta lífi sínu í síðustu styrjöldinni, sem háð verði, styrjöldinni fyrir friðnum (eins og síðast)! Þjóðabandalagið á að vera besta tækifærið, til að svæfa fjöldann, uns næsta stríð er undir búið – og það er eins og því takist allvel að leiða athygli manna frá því, að alt frá því að Versalafriðurinn var saminn, hafa stórveldin sífelt átt í ófriði við að kúga fátækar þjóðir, sem voru að berjast fyrir frelsi sínu.“

Alþýðuflokksmaðurinn, Haraldur Guðmundsson (1892-1971), var afar andsnúinn aðild að Þjóðabandalaginu. Hann sagði:

”En hitt er augljóst, að Þjóðabandalagið er ekkert annað en hernaðarbandalag stórvelda Vestur-Evrópu undir forustu Breta. Annarsvegar er því beint gegn Bandaríkjum Norður-Ameríku, hinsvegar gegn ráðstjórnarríkjunum, og er það aðalhlutverk þess að reyna að brjóta kommúnismann á bak aftur. Þeir, sem ekki sjá slíkt, eru annaðhvort haldnir brezkum anda eða blindaðir af friðarglamri borgaralegra hræsnara.

Ísland væri því fríviljuglega að ofurselja sig þessum stórveldum, ef það ætlaði að ganga í þetta bandalag. ... Þar sem öllum sjáandi mönnum er vitanlegt, að stríðshættan vex nú með degi hverjum, er það hreinn glæpur að ætla að fleka Ísland til að gefa upp hlutleysi sitt, ganga í hernaðarbandalag og draga landið þannig inn í næsta heimsófrið, sem auðvaldsríkin efna til.

Að gefa upp það eina, sem Ísland hefir þó verndað á öllum sínum þrengingartímum. Það að vera friðarríki út á við þrátt fyrir allan styr innanlands. ... Allt hneyksli hátíðar þeirrar, sem í hönd fer, er smáræði hjá því, ef Ísland yrði tekið í Þjóðabandalagið.

Það er skylda allrar alþýðu að hugsa það mál rækilega, hvort Íslandi á að reyna að vera til sem friðarríki að nafninu til að minnsta kosti, eða hvort við eigum að leggja okkur af frjálsum vilja undir járnhæl stórveldabandalagsins og gera af fúsum vilja landið að blóðvelli þess, hvenær sem Bretar bjóða.

Það er skylda allra hugsandi manna að mótmæla einum rómi, svo máttugt, að hlýða verði rödd þeirri, þeim höfuðglæp, sem á að kóróna kúgun og svívirðingu síðustu 1000 ára, að gefa upp hlutleysi Íslands til að fylkja því af frjálsum vilja inn í fjandaflokk auðvaldsbandalagsins gegn hinum uppvaxandi frjálsu alþýðuríkjum heimsins, ráðstjórnarríkjunum.“

Hvorki Bandaríkjamenn eða Íslendingar urðu þó aðiljar að Þjóðabandalaginu. En nafnarnir, Olgeirs og Arnórssynir, reyndust fremur sannspáir. Sigurvegararnir fyrstu heimsstyrjaldar fóru í öllum aðalatriðum sínu fram, deildu saman og drottnuðu, drógu upp landamæri samkvæmt hagsmunasamkomulagi sínu á milli í öllum heimsins álfum, fóru með stjórnun landa og heimshluta (mandate system) og héldu yfirráðum yfir flestum nýlendnanna.

Það mun óhætt að fullyrða, að Þjóðabandalagið hafi að miklu leyti plægt jarðveginn fyrir þær hörmungar mannkyns, sem við búum við í dag. Enn er til að mynda barist um olíuauðlindir í Miðausturlöndum og Litlu-Asíu/Evróasíu/Kákasus. Í þessum skrifuðu orðum hersitja Bandaríkjamenn olíuauðugasta hluta Sýrlands. Þeir reyndu árangurslaust að kollvarpa stjórn Írans og Georgíu. Bretar og Bandaríkjamenn tóku Írak herskildi eins og kunnugt er.

Á millistríðsárunum, sem svo eru kölluð, vígbjuggust stórveldin, Auðdrottnar hins nýja stórveldis og heimsveldis í burðarliðnum, Bandaríkjanna, sáu sér leik á borði og fjárfestu ótæpilega í iðnaðaruppbyggingu Þýskalands. Eins og oft áður var talað tveim tungum og margir voru tvöfaldir í roðinu.

Einar Olgeirsson sagði á þessum árum: „Það hefir ennfremur gerzt nú á síðustu árunum, að úr Þjóðabandalaginu hafa farið þau ríki, sem nú þegar eru komin á kaf í blóðugar styrjaldir og búast nú óðum við nýrri heimsstyrjöld, --- þau ríki, sem með hernaðarbrölti sínu og harðstjórn hafa sett sig út úr menningarlegu sambandi þjóðanna, svo sem Þýzkaland, Japan og Ítalía. Það síðast talda er að vísu ennþá meðlimur Þjóðabandalagsins, en hagar sér eins og það væri þegar gengið úr því.

Árið 1930 var Þjóðabandalagið samband auðvaldsríka, með Bretland í broddi fylkingar, og notað sem verkfæri til þess að halda þeim þjóðum niðri, er undir höfðu orðið í heimsstyrjöldinni, og til þess að sameina krafta auðvaldsríkjanna gegn sovétríkjunum. Að sjálfsögðu hlaut þá afstaða verkalýðshreyfingarinnar í heiminum að vera sú, að berjast á móti hinum ríkjandi öflum í Þjóðabandalaginu. Síðan hefir viðhorfið gerbreytzt.

Baráttan stóð þá fyrst og fremst milli verkalýðs og auðvalds, sósíalisma og kapítalisma. Nú stendur baráttan í heiminum fyrst og fremst milli fasismans og lýðræðisins, milli fasistaríkjanna annarsvegar og borgaralegra og sósíalistískra lýðræðisríkja hinsvegar.

Nú er svo komið, að Bandaríki Norður-Ameríku virðast tilleiðanleg til náins samstarfs við Þjóðabandalagið, og síðast en ekki sízt eru sovétríkin nú orðin meðlimur þess. Þjóðabandalagið er að verða samband þeirra afla í heiminum, sem vilja frið og framfarir.“

En svo fór þó ekki. Ný lýðræðisleg þjóðernisstjarna reis í Þýskalandi, m.a. fyrir tilstuðlan fjármagnseigenda og iðnjöfra Vesturlanda, nasistaforinginn Adolf Hitler (1889-1945).

Það átti eftir að koma í ljós, að Þjóðverjar tileinkuðu sér það besta úr tækni andstæðinganna. Áróðurstækni er þar meðtalin. Friður var úti og Þjóðabandalagið dó drottni sínum.

https://www.breitbart.com/environment/2023/02/15/u-n-chief-guterres-warns-of-mass-climate-exodus-on-a-biblical-scale/ https://www.britannica.com/event/Peace-of-Westphalia https://www.historytoday.com/archive/months-past/treaty-westphalia https://reclaimthenet.org/un-says-that-censoring-disinformation-will-protect-free-speech https://www.tv4.se/artikel/12XMxo8NdUhochVvvJV15z/kritik-mot-fn-ukrainachefen-foer-unhcr-tjaenar-enorma-summor?utm_medium=social&utm_source=t.co&utm_campaign=kallafakta https://www.history.com/topics/world-war-i/treaty-of-versailles-1 https://www.bbc.co.uk/history/worldwars/wwone/league_nations_01.shtml https://www.history.com/this-day-in-history/wilson-delivers-fourteen-points-speech https://www.history.com/topics/world-war-i/league-of-nations https://www.youtube.com/watch?v=wr5MBrvnPLw https://www.visindavefur.is/svar.php?id=10568 https://www.althingi.is/altext/52/r_txt/2400.txt https://www.althingi.is/altext/cv/is/?nfaerslunr=119 https://www.althingi.is/altext/cv/is/?nfaerslunr=130 https://www.althingi.is/altext/cv/is/?nfaerslunr=237 https://www.evropuvefur.is/svar.php?id=66226 https://timarit.is/page/4915970#page/n115/mode/2up


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband