Djöfladýrkunarkvenfrelsun, blót, karlfórnir og sitthvað um kostakonur IX: Kosningaréttur, kynofbeldi og kynþáttahatur kvenna

Bandarískir kvenfrelsarar á nítjándu öldinni stigu margir hverjir sín fyrstu skref á hugmyndafræði- og aðgerðabrautinni, eftir hina mögnuðu sjálfstæðisyfirlýsingu kvenna um miðja öldina. Yfirleitt fóru þar yfirstéttarkonur fremstar í flokki.

Eins og drepið var á, börðust konurnar einkum fyrir kosningarétti, bindindi og getnaðarvörnum. Sumar þeirra beittu sér sömuleiðis fyrir afnámi þrælahalds. Það gerði Rebecca Ann (Latimer) Felton (1835-1930) hins vegar ekki. Hún var kynþáttahatari eins og fleiri kvenfrelsarar þeirra tíma.

Orðstír Rebekku reis líklega hæst, þegar hún tók sæti á alríkisþinginu, þótt það væri skammgóður vermir. Hún þjónaði á þeim vettvangi einungis einn sólarhring. Næsti kvenfulltrúi frá Georgíu, tók þar sæti um heilli öld síðar. Rebekka var þó öllum hnútum kunnug á þeim vígstöðvum. Hún studdi nefnilega karl sinn, William Harrel, Alríkisþingmann, með ráðum og dáð.

Aðgerðaskrá Rebekku tók m.a. til bindindis, kosningaréttar og jafnréttis til launa, þ.e. fyrir hvítar konur. Rebekka hundskammaði Suðurríkjakarla fyrir að tala tveim tungum. Þeir teldu sig öðrum körlum riddaralegri eða fórnfúsari (chivalry), en andæfðu kröfum kvenna um kosningarétt.

Rebekku lá ekki gott orð til blakkskinna, kallaði karlana „hálfsiðaðar górillur,“ sem byggju yfir „hrottafengnum kynlosta“ gagnvart hvítum konum. (Þetta var reyndar algengt viðhorf hvítra kvenna – og karla.) Skiljanlega taldi hún því aftökur hinna hálfsiðuðu, lostafullu górilla, dýrlegan gjörning og hvatti eindregið til þeirra.

Skömmu fyrir þar síðustu aldamót (1898) sagði Rebekka: „Þegar skortir trúarlegar áherslur úr prédikunarstólnum, svo að skipuleggja megi herferð á hendur syndinni; [þegar skortir] réttlæti í réttarsalnum, svo refsa megi með réttu fyrir glæpi; [þegar skortir] karlmennsku þegnanna til verndar sakleysi og dygð – sé þörf aftöku til að vernda hið dýrmætasta í fari konu (possession) frá kynþyrstum karlófreskjum – þá segi ég; takið af lífi, þúsund sinnum í viku hverri, bjóði nauðsyn svo.“

Bindindi karla var eitt af þýðingarmeiri baráttumálum kvenfrelsara eins og stofnun kvennaríkjanna ber vott um. Það var talinn verulegur löstur í fari karla, að þeir gerðust sauðdrukknir og sóuðu heimilispeningunum á kránum. Aðgangsharðasta baráttukonan gekk á milli kráa og hótaði karlræflunum með reiddri öxi.

Bandaríski menntafrömuðurinn og kvenfrelsarinn (suffragist), Frances Elizabeth Caroline Willard (1839-1898), tók málin líka í sínar hendur eins og forystumenn kvennaríkjanna. Hún stofnaði Samband kristinna bindindiskvenna (Woman‘s Christian Temperance Union - WCTU) 1883 og gerðist leiðtogi Bindindisflokksins (Prohibition Party). Frances Elizabeth var margt til lista lagt. T.d. skrifaði hún 1867 bókina, “Kynfræðin er heimspeki lífsins” (Sexology as the Philosophy of Life).

Það dró líka til stórra tíðinda á vígvelli heimiliserjanna á austurvígstöðvunum. Um aldamótin 1900, þegar kvenfrelsunarhreyfingin fór annars vegar að berjast fyrir blóðugri byltingu og hins vegar fyrir kosningarétti kvenna. (Kosningaréttur karla lá þeim í léttu rúmi.) Baráttan gegn körlum var háð innan veggja heimilisins sem utan.

Banatilræði við borgarstjórann í Sankti-Pétursborg misheppnaðist, en drápssveit kvenna undir forystu Alexe Popova (d. 1909) tókst að granda um þrjú hundruð körlum fyrir meint heimilisofbeldi. Óopinber kviðdómur kvenna kvað upp dómana og fullnægði þeim. Orðum þeirra var almennt trúað. Fyrirkomulagið gildir við sýndardómstóla stofnana og fyrirtækja í vestrænni menningu rúmri öld síðar – ekki síst í fjölmiðlum. Kvenfrelsarar berjast fyrir því, að það verði einnig tekið upp við opinbera réttargæslu.

Ofbeldi er snar þáttur í stríði kvenfrelsaranna gegn körlum og samfélagi. Það sást t.d. í Frönsku byltingunni og í kjölfar hennar. Hubertine Auclert (1848-1914) er eitt dæmi um slíkt ofbeldi. Hún var franskur kvenréttindafrömuður, ákafur talsmaður kosningaréttar kvenna og stofnaði 1876 fyrstu hreyfingu Frakka, sem beitti sér sérstaklega í þá veru (Le Droit des femmes). Hubertine sagði sig halla undir djöfulinn.

Síðar eða 1900 stofnaði hún félag um kosningarétt kvenna (Suffrage des femmes) og stofnaði sömuleiðis og fjármagnaði tímaritið (La Citoynne – kvenborgarinn). Hún stóð fyrir herskárri hugmyndafræði (militant feminism, militant suffragettes) og sótti fyrirmyndir til kynsystra sinna af því sauðahúsi í Bretlandi. Hún hlaut dóm fyrir skemmdarverk.

Fyrir dómara útskýrði Hubertine: „Mér er eftirsjá í háttsemi þeirri, [braut atkvæðaseðlakassa og gluggarúðu] sem hér er tekin fyrir; eftirsjá vegna þess, að ég er verulega andsnúin ofbeldi. En ég hegðaði mér með þessum hætti, þvinguð fram á gnípu eins og allir félagar mínir í baráttunni fyrir kosningarétti [kvenna] eru. Því veldur sjálfumgleði karlanna.“

Það skarst í odda með Hubertine og hinum hófstilltari baráttumönnum í sambandi við ráðstefnu um réttindi kvenna árið 1878. Hubertine andæfði og skrifaði:

„Mér er kunnugt um, að skæruliðar í baráttunni fyrir frelsun kvenna telji það ekki tímabært að krefjast stjórnmálalegra réttinda. Mitt eina svar til þeirra er þetta; konan er rænd og rupluð vera, sem krefst réttlætis. Hún er ekki betlari, sem auðmjúklegast biður um góðverk. ...

Hvað gætu kúgararnir hugsað, ef baráttumenn fyrir frelsun kvenna væru hræddir um að móðga þá, og biðja feimnislega um svolitlu betri menntun, heldur stærri brauðskammt [og] heldur minni auðmýkingu í hjónabandinu.“

Uppihald sitt fjármagnaði Hubertine með arfi eftir foreldra sína, sem voru landeigendur. Hubertine sagði: „Ég læt körlunum eftir þau forréttindi að greiða skatt þann, sem þeir taka upp og ráðstafa að eigin vild.... Ég er réttlaus og greiði því enga skatta. Ég kýs ekki, ég greiði ekki.“

Annað dæmi hliðstætt er Marie-Anne Charlotte de Corday d‘Armont/Charlotte Corday (1768-1793), franskur byltingarsinni. Hún er trúlega kunnust fyrir morðið á einum leiðtoga byltingarinnar, Jean-Paul Marat, sem var talsmaður þess vængs byltingarmanna, sem trúði á skefjalaust ofbeldi og aftökur svokallaðra andstæðinga byltingarinnar.

Sjálf átti hún heima í hópi þeirra (Gironde/Brisonist), sem höfðu mildari áherslur í baráttunni á heimavettvangi, enda þótt þeir hafi att Frökkum í stríð við Austurríkismenn. Charlotte var gerð höfðinu styttri í fallöxi byltingarinnar. Hún var einnig talsmaður þátttöku kvenna á opinberum vettvangi. Charlotte hlaut viðurnefnið, Morðengillinn (l‘ange de l‘assassinat).

Í Stóra-Bretlandi þróaðist kosningaréttarhreyfingin í hryðjuverkasamtök. Í baráttu bresku „súffanna“ (suffragettes) kastaði þó tólfunum í þessu efni. Þær beittu harðskeyttum hryðjuverkahernaði, drápum og skemmdarverkum. (Sjá t.d. bók Simon Webb: The Suffragette Bombers: Britain´s Forgotten Terrorists.)

Súffurnar börðust sem sagt fyrir kosningarétti kvenna. Þá var einungis fámennum hópi efnaðra karla leyft að kjósa (eins og á Íslandi). Þær stofnuðu „Félags- og stjórnmálasamband kvenna“ (Women‘s Social and Political Union - WSPU) með „ættmóðurina,“ Emmeline Pankhurst (1858-1928), efnaða efrimillistéttarfrú, í fararbroddi.

Saga þessa hryðjuverkahóps er að sumu leyti einnig fjölskyldusaga, hryggileg í mörgu tilliti. Dætur Emmeline tók allar þátt í baráttunni. Þær voru: Christabel Harriette Pankhurst (1880-1958), Estelle Sylvia Pankhurst og sú yngsta, Adela Constantia Mary Pankhurst Walsh (1885-1961).

Christabel fórust svo orð, að jafningjar leystu ágreining með samtali, en það væri fánýtt háttalag, þegar karlar ættu í hlut, því „annað kynið [karlar] haldi hinu í ánauð. … það gerði konum gott að skera upp herör. Þær hafi feykt burtu dömubölinu, feimnislegri hæversku, sem væri dæmigerður kvenleiki á öndverðu Viktoríutímabilinu, en frábrugðinn [eiginlegri] kvenmennsku.“

Það var ekki orðum aukið. Hersveit kvenfrelsaranna stundaði sprengingar, skemmdarverk, íkveikjur, sýruárásir og handalögmál – og vitaskuld alls konar óspektir.

Fjölda hinna ungu stríðsmeyja var stungið í steininn. Oft og tíðum fóru þær í hungurverkfall til að mótmæla því, að þeim væru „boðin kjör“ venjulegra fanga. Þær sögðust eiga betra atlæti skilið. Margar þeirra voru þvingunarfóðraðar. Stríðsmeyjarnar voru sæmdar sérstökum orðum WFPU.

Hryðjuverkasveit Súffanna lét sverfa til stáls „Svarta föstudaginn“ í nóvember 1910. Um þrjú hundruð súffur efndu til ofbeldismótmæla. Þeim var svarað í sömu mynt af lögreglu, sem var gagnrýnd harkalega fyrir framgöngu sína, sérstaklega þó kynferðislega áreitni. Að sögn urðu brjóst súffanna fyrir hnjaski í slagsmálunum.

Lögreglumennirnir voru beinlínis óskammfeilnir. Elisabeth Freeman (1876-1942) segir svo frá, að einn þeirra hafi gripið um læri hennar. Hún útskýrði:

„Ég krafðist þess, að hann sleppti takinu á læri mínu. Það væri hatursfullt tiltæki gagnvart konu.“ Hann ku hafa svarað: „Ó, gamla, gæskan mín, í dag get ég gripið í þig, hvar sem er.“

(Það er eins og gerst hafi í gær. Ávirðing um kynferðislega áreitni hefur verið öflugt vopn gegn körlum í hálfa aðra öld. Það er mýgrútur dæma um slíkt. Hæst reis hernaðurinn í „mee-too“ bylgjunni. Fyrir nokkrum árum varð t.d. gamalt læraþukl dönskum borgarstjóra að falli.

En spænski kossinn er líklega eftirminnilegastur. Luis Rubiables, forseti Spænska knattspyrnusambandsins, réði sér ekki fyrir kæti, þegar spænska kvennalandsliðið bar sigur úr býtum, og rak Jenni Hermoso rembingskoss. Jenni fór að dæmi fjölda kvenna og kærði Luis fyrir kynofbeldi. Hann var rekinn úr stöðu sinni.)

Kennarinn, Emily Wilding Davison (1872-1913), var ein af skrautfjöðrum súffuhreyfingarinnar. Sú var þvingunarfóðruð 49 sinnum. Einu sinni stakk hún sér fram af háum stiga í fangelsinu til að mótmæla kúgun kvenna.

Emily útskýrði síðar: „Ég notaði allan minn viljastyrk og gerði þetta af ásettu ráði, því mér þótti sýnt, að einungis sjálfsfórn mannveru mundi duga til þess að opna augu þjóðarinnar fyrir þeim skelfilegu pyndingum, sem konur sæta. Ég er þess fullviss, að hefði mér tekist ætlunarverkið, hefði þvingunarfóðrun ekki verið tekin upp aftur.“

Ofangreind Elisabeth, sem mátti þola hramm lögreglumannsins á læri sér, kom frá Bandaríkjum Norður-Ameríku. Breskar súffur fengu einnig liðstyrk frá Kanada, Mary Raleigh Richardson (1882/83-1961). Sú vann sér það m.a. til afreka að tæta sundur málverkið, Rokeby Venus, eftir spænska málarann, Diego Velázquez. Eins og Emily áður útskýrði hún gjörning sinn:

„Ég hef reynt að eyðileggja málverk af fegurstu konu goðsagnanna. Í því felast mótmæli gegn eyðileggingu ríkisstjórnarinnar á frú Pankhurst, sem býr yfir fegurstu manngerð samtímasögunnar.“

Konur úr kvenréttindasamtökunum tóku þátt í flokksstarfi breskra fasista, þar á meðal Norah Elam (1878-19161), sem m.a. var í framboði fyrir flokkinn, og Mary Richardson (18882/1883-1961), kanadískur blaðamaður, sem veitti forstöðu kvennadeild flokksins. Hún var annáluð fyrir ofbeldi, enda ákafur stuðningsmaður breskra kvenréttindakvenna, sér í lagi Emmeline Pankhurst. Hún var margsinnis fangelsuð fyrir skemmdarverk og íkveikjur.. Mary Sophia Allen er einnig nefnd til sögu.

Eftirmæli Helen Lewis, sem skrifaði bók um sögu „Erfiðra kvenna“ (Difficult Women) eru þessi: “Ef til vill var það svo, að fyrsta heimsstríðið – sem leiddi til þess, að Emmeline Pankhurt stöðvaði hernaðaraðgerðir [kvennahreyfingarnar] – hafi komið í veg fyrir, að konur … [úr hryðjuverkahópi súffanna] hefðu valdið dauða … manna jafnvel hundruðum saman.” …

„Þessar konur [súffurnar] höfðu þjáðst undan þvingunarfóðrun, fangelsun, kynferðislegum árásum og eftirliti af hálfu breska ríkisins. Í kjölfar þess bjuggu þær við blóðugasta eyðingarstríð, sem nokkurn tíma hafði verð háð. Ó, já! Aukin heldur bættist það smáræði við, sem Spænska veikin hét og drap 228.000 manns í Bretlandi.”

(Eftir því sem ég best veit, drap Spænska veikin ekki konur sérstaklega, kom upp meðal hermanna (karla) í Kaliforníu. Í síðasta veirufaraldri var viðkvæðið enn það sama; konur þjást meira en karlar. Hillary Clinton hefur einnig haldið því fram, að konur þjáist mest í stríðum.)

https://www.youtube.com/watch?v=47z8DZQAx7Y


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband