Djöfladýrkunarkvenfrelsun, blót, karlfórnir og sitthvað um kostakonur. VI: Dulspekin, djöflarnir og Kvennabíblían

Gefum aftur gaum kvenfrelsun í kristinni trú. Andófshreyfingin eða kvenfrelsunarhreyfingin, sótti sterkan innblástur í túlkun John Milton (1608-1674) á gömlu arfsöginni um Adam og Evu, Paradísarmissi. (Ljóðið er þýtt af Jóni Þorlákssyni (1744-1819) frá Bægisá.)

Hin nýja túlkun var á þá leið, að Eva hefði haft hugrekki til að eta fyrst af skilningstrénu og gert eins konar bandalag við djöfulinn (Satan, Lúsifer), sem birtist skötuhjúunum, henni og Adam, í líki snáks. Því væru konur bæði áræðnari og viturri en karlar og ættu alls ekki að láta þá kúga sig. Og Adam væri alls engin hetja eins og Milton vildi vera láta. Þetta var síðar útlagt sem svo, að karlinn væri ófullkomin kona.

Þetta átti ekki síst við um hreyfinguna í Bandaríkjunum. Elizabeth Cady Stanton fór fyrir hópi kvenfrelsara vestan hafs og austan, sem endursamdi Bíblíuna. Hópurinn lét sig ekki muna um að gefa út Kvennabíblíu. Konurnar sömdu uppreisnarfrásögn um hetjuna Evu og Satan. Hann var nú talinn vera fallinn engill. Djöfullinn varð kvenhollur spekingur og leiðbeinandi kvenna. Þannig umbreyttist djöfullinn í besta vin kvenfrelsaranna. Hann varð líka skilningsengill byltingarmanna eins og Mikhail Bakunin (1814-1876).

Þessi túlkun endurspeglaðist sömuleiðis í andatrú og guðspeki (theosophy) Helena Petrovna (Hahn von Rottenstern) Blavatsky/Elena Petrowna Blavatskaja (1831-1891). Móðir hennar, Ylena Andrejewna von Fadejew Hahn von Rotternstern (1814-1842), var kunnur kvenfrelsari og rithöfundur í Rússlandi.

Helena giftist sautján ára gömul rússneskum herforingja, en leiðir þeirra skildu fáeinum mánuðum síðar. Sumir hafa talið, að um væri að kenna afbrigðileika kynfæra eða kynhneigðar hennar. „Það er ekkert kvenkyns í mér,“ skrifaði hún og kallaði sig Jack. Gyðjur voru Helenu hugleiknar sem uppsprettur visku. Helena skrifaði m.a. um egypsku gyðjuna, ISIS. Helena átti síðustu árin í Lundúnum.

Helena hafði gríðarleg áhrif á kvenfrelsunarhreyfinguna, m.a. í tímariti sínu, „Djöflinum“ (Lucifer). Þar komu m.a. fram hugmyndir um „flotkynið,“ þ.e. sú kenning, að fólk gæti verið ýmist karlar eða konur, „guðlegt tvíkyn“ (divine hermaphrodite). Susan Elizabeth Gay (1845-1918) var t.d. talsmaður slíkra hugmynda.

Árið 1897 var tilgangi ritsins svo lýst: Að „halda að konum, mæðrum og verðandi mæðrum mannkyns, guðspjallinu (gospel) um vansæld. Konur hafa ekki gert sér grein fyrir, að þær séu þrælar - sofandi fyrir eigin niðurlæginu sem mannverur.“

Per Faxeld segir í frábrigðagóðri bók sinni, „Djöfulleg kvenfrelsun“ (Satanic feminism): „Í guðspeki gætti rófs framsækinna (progressive) viðfangsefna eins og kvenfrelsunar, jafnaðarhyggju (socialism), grænkerahyggju (vegetarianism), andheimsveldisstefnu og andófi gegn stríði.“

Helena var í slagtogi við Elizabeth Cady Stanton, sem hélt sína eigin miðilsfundi. Í guðspekifélagi Helenu var fleiri kvenfrelsara að finna eins og Henrietta Müller (1845-1906) og Florence Fenwick Miller (1854-1935), ritstjóra kvenfrelsunartímaritsins, „Kvennakveikjunnar“ (The Women‘s Signal).

Matilda Joslyn Gage (1826-1898), bandarískur guðspekingur, „konan öðrum konum fremri,“ lét einnig að sér kveða. Frelsun konunnar var henni vitskuld hugstæð, en hún barðist einnig fyrir réttindum blakkra og frumbyggja.

Matilda Joslyn kynnti til sögu fornan djöfladýrkunarsöfnuð, sem var sérstaklega uppsigað við föðurveldið og óréttlæti þess í garð kvenna. Matilda studdist í fræðum sínum við franska djöfla- og sagnfræðinginn mikilhæfa, Jules Michelet (1798-1874). Hann gaf 1862 út bókina, „Nornina“ (La Sorciére), sem er skoðun á sögu nornarinnar.

Samkvæmt Per Faxeld var nornin í skrifum Jule dæmigerður jafnaðarmaður (socialist) með glöggt auga fyrir nánu sambandi Herrans á himni og lénsherranna. Í Svörtu messunni var Eva frelsuð og kvenlíkaminn heilagur ger – af konum í þágu kvenna.

Bandaríski kvenfrelsarinn, Charlotte Perkins Gilman (1860-1935) heldur sig við svipað heygarðshorn og Matida Joslyn. Smásaga hennar frá árinu 1910 heitir „Þegar ég var norn“ (When I was a Witch). Nornaseiðurinn veitti afl til góðra verka.

Samlandi hennar, Renée Vivien/Pauline Mary Tarn (1877-1909), tók djöfladýrkun og andóf gegn feðraveldinu skrefi lengra. Djöflinum var einnig beitt gegn gagnkynhneigð. Renée átti í tygjum við Natalie Clifford Barney (1876-1972). René kynnti í sögum sínum Satan eða Djöfulinn sem guð kvenfrelsunar, verndara samkynhneigðar og skapara konunnar.

Mary Chavelita Dunne (Bright)/(George Egerton (1859-1945) var áströlsk-írsk kynsystir, rithöfundur og heimshornaflakkari. Í hennar huga var nornin ásýnd kvennavalds og myndlíking fyrir hina skapandi konu, sem er jafnoki karlsins á öllum sviðum, holdgervingur hinnar framsæknu „Nýju konu.“

Í einu af þrem hjónaböndum rak hana á norskar fjörur. Það tókst vinskapur með Knut Hamsun (1859-1852). Mary Chavelita þýddi bók hans, „Sult,“ og tileinkaði honum fyrstu bók sína. Mary Chavelita skilgreindi sig ekki sem kvenfrelsara. Kvenfrelsunarhreyfingin, sagði hún, „er bækluð (atrophied) skepna, haldin tilhneigingum til úrkynjunar og kynblöndunar.“ Í raun boðaði hún kynlífsfrelsi konum til handa, en ekki borgaraleg réttindi.

Mary segir karla jafnframt „hafa sést yfir hinn eilífa ofsa (wildness), hina óhömdu, villtu skaphöfn, sem býr innra með konunni, jafnvel þeirri mildilegustu. Í djúpi siðvæðingarinnar um aldir ólgar ofsinn. Það má leyna honum, en ofsinn verður aldrei slökktur af menningunni – [ofsinn er] grunntónn kvennornarinnar og styrkur kenna.“

Elizabeth Cady Stanton og sálusystur hennar voru m.a. undir áhrifum Moncure Daniel Conway (1832-1907). Hann skrifaði bókin „Djöflafræði og djöflamunnmæli“ (Demonology and Devil-lore), sem kom út 1879. Þar var Lillít kölluð Madonna, fyrsti kvenfrelsarinn og „dæmigert fórnarlamb ósjálfstæðis.“

Hann segir m.a., að líkt sé á með konum farið og Lillít, „konur verða brúðir djöfulsins, hverju sinni sem þær láta í ljós vansæld með það að sitja yfir börnum og við kvennasýslan.“ …

„Þegar karlinum auðnast að búa sér heimili og garð, sem ekki er fangelsi, og þar sem þekking ekki er forboðin ávöxtur, neyðist Lillít [heldur] ekki til að berjast fyrir frelsi sínu með því að bylta samfélagi hans.“

Hin mergjaða Lillít naut óblandinnar hrifningar Ada Langworthy Collier, sem skrifaði um hana kvæðið, „Lillít: Munnmælasöguna um fyrstu konuna“ (Lilith: The Legend of the First Woman). Ljóðið var gefið út 1885. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband