Kvenfrelsarar á borð við Marilyn French (1929-2009), Barbara Ehrenreich (f. 1941), Gloria Steinem (f. 1934) og Deidre English (f. 1948), tóku hugmyndunum um gyðjuveldið opnum örmum.
Þessir kvenfrelsarar annarrar bylgju telja það sögulega staðreynd, að sjálfstæðar, keikar og klárar konur, hafi verið ofsóttar í gervi norna af evrópsku feðraveldi . En, en! Gyðjuveldið er ævintýri. Sömuleiðis kenningarnar um sérstaka útrýmingu klárra kvenna á miðöldum.
Bandaríski sagnfræðingurinn, Charlotte Allen (f. 1941) hefur rýnt í tilurð ofangreindra kvenfrelsunarkenninga og kvendýrkunartrúarbragða:
[F]ræðimenn eru almennt einhuga um, að hvorki sé stafkrók að finna né fornleifafundi um fornar þjóðir, sem nokkurn tímann hafa dýrkað eina frumgerðargyðju. Niðurstaða rannsókna á nornaveiðum er þessi, segir Charlotte:
Ákærðar nornir voru langt frá því að vera sjálfstæðar konur með bein í nefinu. Flestar þeirra voru fátækar og óvinsælar. Þær voru dæmigert ákærðar af almennum borgara (oft og tíðum öðrum konum), hvorki veraldlegum né kirkjulegum yfirvöldum. Satt best að segja þótti yfirvöldum nornaréttarhöldin ógeðfelld og sýknuðu rúmlega helming hinna ákærðu.
Í bók sinni, Goðsögnum um móðurgjörninginn. Hvernig menningin endurskapar hina góðu móður (The myths of motherhood: How culture reinvents the good mother), spinnur Shari L. Thurer, sálfræðingur og sálkönnuður, prófessor við háskólann í Boston, áþekkar gyðjuhugmyndir áfram:
[F]eðraveldið, altæk [alheims]drottnun karla á konum, hefur verið við lýði allar götur síðan [mæðraveldinu var tortímt]. Konan varð fórnarlamb:
[F]eðraveldisvaldaránið átti sér stað, áður en ritmál kom til sögunnar. Því hefur sérhvert rit öðlast merkingu (refract through the prism) í [mál]vitund karldrottnunar. Því sem næst allur ritaður boðskapur fyrr og síðar, hvort heldur gefinn í skyn eða ógreinilegur (subliminal, liminal), er þrunginn skynbragði feðraveldisins. Allir [karlkyns] heimssöguritarar eru vilhallir.
Heimssagan er skrifuð af sjónarhóli sigurvegara kynjastríðsins. Og þar eð feðraveldið er allsráðandi, er tungan og ritmálið gegnsýrt, svo að er erfitt að henda reiður á því.
Móðirin varð líka fórnarlamb: [Þ]egar framlag þeirra til æxlunar rann upp fyrir körlum og þeir tók tögl og haldir og höfðu þannig að mestu leyti hönd í bagga með meginstraumi mannkynssögunnar var móðirin gerð ómennsk. Það er, annað hvort var hún hafin upp til skýjanna (þannig urðu mæður fangar eigin táknupphafningar) eða gerðar að skynlausum skepnum (degraded) (sem litið var á sem undaneldishryssur). ... Alveg síðan karldrottnunin [brast á] hefur kynferði [konunnar] verið klofið frá móðerni og líkamsstarfsemi. Blæðingar, barnsburður [og] brjóstagjöf hefur þar með verið talin ótilhlýðileg [eða klúr].
En hvað segir Biblían? Þar er m.a. sögð sagan af ógnargrimmri móður, Söru. Mæður í fornöld voru greinilega engin lömb að leika sér við, þegar hagsmunir þeirra voru í húfi, frekar en í dag. Sara, eiginkona Abrahams, gerði elju sína, Hagar, brottræka sem og soninn Ishmael Abrahamsson.
Hagar var þjónustustúlka Söru, sem var óbyrja. Því gaf Sara Abraham stúlkuna, svo hann mætti auka kyn sitt. Sagan endurspeglar þekkta tegund ýgi mæðra, þ.e. að gera út af við eljur og afkvæmi þeirra. Það er mikilvægt fyrir vöxt og viðgang eigin ættar. Því getur fóstur- og stjúpbörnum verið hætta búin eins og lýsir sér í ævintýrinu um Hans og Grétu til að mynda. Þessa háttar ýgi mæðra er einnig áberandi í fjölkvænissamfélögum.
Í grískri goðafræði birtist móðir í svipuðu ljósi. Medea var alræmd galdranorn, segir Jón Gíslason í bók sinni, Grískri goðafræði. Hún var viti sínu fjær af ást til Jasons. Tilreiddi hún honum töfrasmyrsl, svo að eldur fékk ekki grandað honum. Í viðureign við dreka [s]væfði Medea þá með göldrum. Jason og Medea lögðu á flótta. Medea hafði og með sér ungan bróður sinn. ... brytjaði hún sveininn í sundur og kastaði líkinu lim fyrir lim í sjóinn.
Í baráttu um yfirtöku konungsdæmis [n]eytti Medúsa ... hatrammlegra bragða. Taldi hún dætur hins aldurhnigna konungs á að höggva föður sinn í stykki og sjóða þau í töfralegi nokkrum, er hún hafði bruggað.
En Jason varð afhuga Medúsu og gekk að eiga Kreúsu. Í brúðargjöf sendi Medea Kreúsu skikkju og ennishlað. Voru gripir þeir eitraðir og urðu hinni ófarsælu brúði að fjörlesti. Drap Medea síðan börn þau, er hún hafði átt við Jasoni og flýði á gandreið til Aþenuborgar.
Elizabeth Gould Davis (1910-1974), hafði eins og Shari, ýmislegt til málanna að leggja um gyðjudýrkun í bók sinni, Úrvalskyninu (The First Sex). Hún segir m.a.:
Konur eru sjálft mannkynið ... hið öfluga úrvalskyn. Karlinn er lífeðlislegur bakþanki. ... Fyrstu karlarnir voru stökkbrigði, viðrini, sem urðu til við tjón á erfðavísum. [Þau] orsökuðust hugsanlega vegna sjúkdóms eða heiftarlegrar geislunar frá sólinni.
Móðirin er Elísabetu einnig hugleikin: Æxlunarfæri konunnar eru miklu eldri og þróaðri, heldur en [æxlunarfæri] karlsins. ... Sönnun þess, að reðurinn varð til miklu síðar í þróunarsögunni, heldur en sköp kvenna, er rakinn til ummerkja þess efnis, að karlinn sjálfur sé síðkomin stökkbreyting frá hinni upphaflegu kvenveru. Því er karlinn bara ófullkomin kona.
Karlinn er einnig ófullkominn í þeim skilningi, að börn hans virða hann varla viðlits: Hugmyndin um kvenvaldið hefur rækilega skotið rótum í mannlegri undirvitund. Þrátt fyrir að hafa um aldir búið við föðurrétt, líta börn sjálfkrafa á móðurina sem hið hæsta yfirvald. Barnið lítur á föður sinn sem jafningja í sömu skör settan og það sjálft. Það verður að kenna börnum að elska föður sinn, heiðra hann og virða. Það verkefni tekur móðirin venjulega að sér.
En þrátt fyrir það þjáist karlinn af þrálátri afbrýði í garð konunnar, sem brýst út í niðurlægingu hennar:
Í menningarsamfélögum samtímans ... tekur snípöfund og skautafbrýði á sig óræðar myndir. Óseðjandi þörf karlsins til að til að smána konuna, auðmýkja hana, meina henni um jafnrétti og gera lítið úr afrekum hennar eru tilbrigði við meðfædda afbrýði og ótta hans [gagnvart konunni].
En höfundur elur þá von í brjósti, að aftur muni birta til í kvenheimum: Í nýjum vísindum tuttugustu og fyrstu aldarinnar verður kraftur andans allsráðandi á kostnað hins efnislega. Eftirspurn eftir efnislegum hæfileikum mun réna, en aukast eftir hæfileikum til huga og anda. Skynvit mun víkja fyrir yfirskilviti. Konan mun aftur sýna yfirburði á þessu sviði. Hún, sem einu sinni var dáð og dýrkuð af hinum fyrsta karli fyrir hæfileikann til að rýna í hið óræða, mun aftur verða þungamiðjan ekki sem kynvera, heldur sem gyðja. Í hinni nýju menningu verður hún miðdepillinn.
Feðraveldið birtist í skráðri mannkynssögu. Látum framhaldið verða gagnbyltingu mæðraveldisins. Það er einasta vonin um að mannkynið lifi af.
Geraldine Sharp kynnir í verki sínu frá 2018, Slóð sæðisins um aldirnar. Týndi hlekkurinn í kenningum um karlinn (A Trail of Semen Down Through the Ages. The Missing Link in the Theories of Male), svipaðar hugmyndir um valdarán karlkynsins og kúgun konunnar í kjölfarið:
Í upphafi skóp hin Mikla móðir heiminn. Síðan útvegaði hún sér fylgdarsvein. Jafnræði var á með þeim. Síðan tókst honum að ríkja án hennar. Lokatakmarki allsherjardrottnunarinnar [yfir konum] var náð, þegar karlinn hrifsaði til sín fæðinguna.
Karlinn áleit sig nú upphaf nýs lífs skapara, drottnara alheimsins. ... Konur hafa skipað stærsta kynþátt olnbogabarna í veröldinni. Sagan greinir einungis frá helmingi mannkyns, körlum. Gagnrýninn lestur sögunnar dregur fram í dagsljósið grimmd og ofbeldi við sífelldar árásir karla á konur, allt frá barsmíðum á eiginkonum til nornaveiða, frá löskun kynfæra til morða.
Hin mikla móðir var miðdepill alls, segir áðurnefnd Shari. Hún var móðurgyðjan, allt í öllu, almáttug, breytti um ham, fæddi börn, dó og endurfæddist. Hinir dauðlegu fylgdu fordæmi hennar. Hún var móðir allra guða og gyðja. Hún samdi reglurnar. Þó hafði hún einnig síðri hliðar, gat verið órökrétt, óraunsæ, óskipuleg og tortímandi. Þegar skoðuð er gyðjudýrkunin í Catal Hüyük (Tyrklandi) á nýsteinöld er engu líkara en gjörvallt mannlífið hafi snúist um tilbeiðslu og dýrkun gyðjunnar, sem ýmist var ólétt og frjósöm eða grönn og geislandi af fjöri.
Móðurgyðjan velur sér elskhuga til fylgilags og hefur af þeim kynferðislega nautn. Skilaboðin eru þau, að kynlíf móður jafnvel utan hjónabands, í blóðskömm og án æxlunartilgangs sé gott. Það er einnig athyglisvert, að karlguð ... er [bókstaflega] fórnarlamb, einnota afæta, kynnautnarleikfang konunnar, segir Shari.
Hún bætir svo við: Í augum sumra kvenfrelsara, ... jafnvel margra skynsamra fræðimanna, eru gyðjurnar í senn bæði fyrirmyndir og innblástur til andlegra iðkana og listsköpunar. ... Þeir færa rök fyrir því, að samsvörun gyðjutilbeiðslu, sáttar og samlyndis, sé [síður en svo] tilviljunarkennd, því í móðureðlinu felist friðsæld og jafnvægi, náttúra og munúð [og losti].
Simone de Beauvoir (1908-1986) segir: Móðirin er rótin, er greinist djúpt í iðrum alheimsins. [Hún getur] sogað upp safana; hún er uppsprettan. Þaðan gýs hið lifandi vatn, sem einnig er næringarrík mjólk.
Móðurgyðjurnar beittu kyntöfrum sínum óspart. Svo var t.d. um hina fornu gyðju Súmera, Inanna, sem var gyðja ástar, frjósemi og vígaferla. Í verkum akkadíska (Akkar voru fornþjóð í Miðausturlöndum) skáldsins og hofgyðjunnar Enheduanna (2285-2250) rennur Inanna saman við Ishtar, hernaðargyðju Semíta (fornþjóð fyrir botni Miðjarðarhafs).
Inanna umbreyttist þannig úr alþýðlegri frjósemisgyðju Súmera (Íraka) í himnadrottningu, sem vinsælust varð meðal gyðja í hinni fornu Mesópótamíu. Faðir Enheduönnu blótaði gyðjuna til frama í stjórnmálum og sigurs á vígvöllum. Meginhof Inönnu eða Ístar var að finna í borginni, Úrúk í Mesópótamíu.
Í fornaldarkviðunni um hetjuna, Gilgames, sem er afrendur að afli, ... eru móðurgyðjur í mikilvægu hlutverki. Hin mikla móðurgyðja Arúrú mótaði líkamsmynd hans, hún réð hverju hann líktist, fegurstur allra manna, fullkominn. Gilgames þekkti gjörla tælingarmátt kvenna. Þegar fyrir veiðimanni nokkrum lá að ná tökum á manni máttarins, Enkídú, ráðlagði Gilgames svo:
Tak þú yndiskonuna Sjamat með úr musterinu. Hún mun sigra manninn með eðli sínu, jafnstyrku afli hans. Fylgstu með því hvenær dýrin drekka úr vatnsbólinu og láttu hana kasta skikkjunni og afhjúpa kyn sitt. ... Sjamat losaði um barminn, afhjúpaði kyn sitt og hann hreif til sín munúðsemi hennar líkt og stormur. Hún hélt ekki aftur af sér, tók honum af fullu afli.
Hún breiddi út skikkjuna og hann lagðist ofan á hana, hún sýndi frummanninum hvers kona er megnug. Hann þrumaði af losta yfir henni; sex daga og sjö nætur hélt Enkídú risi og átti mök við yndiskonuna. Þegar samförum þeirra var lokið, leiddi Sjamat ástmann sinn til hofsins þar sem helgar yndiskonur stilla sér upp prýðilega og úthella munúðsemi sinni hláturmildar en lökin eru breidd á beðinn þegar kvöldar. Um Ístar segir m.a.: Gakktu nærri Eannahofi, þar býr Ístar, aldrei varð nokkur maður né konungur jafningi hennar. (Þýðing: Stefán Steinsson.)
Móður- eða frjósemisgyðjur sambærilegar Ístar ástunduðu helgar samfarir. Það sama gerðu hofgyðjurnar og konur almennt. Forngríski sagnfræðingurinn, Herodotus (484?-420?) lýsir samfélaginu á Kýpur svo: Allar konur skulu einu sinni á ævinni mæta í musteri Venusar og hafa samræði við ókunnugan karl. Konan býður sig þeim, er fyrstur greiðir.
Fornaldargyðjur eins og hin hebreska Lillít (Lilith), drottning djöflanna, var af mörgum kvenfrelsunarhugmyndafræðingum talin fyrsti kvenfrelsarinn. Hún varð fyrirmynd að áþekkum gyðjum til forna.
Lillít var líka lega ættuð frá Súmer. Þar var hún kölluð Lilaka. Í súmersku arfsögninni um Gilgamesh er hún sögð fögur og óspjölluð mey. En tæki hún upp á því að taka sér ástmann, sá hún til þess, að sá losnaði aldrei úr greipum hennar og yrði aldrei fullnægt. Lilít varð uppistaðan í djöfladýrkun Gyðinga, þegar á seinna Musteristímabilinu (530-70).
Í Akkadíu (Akkadia) varð Lillít að Ardat Lillith og í Grikklandi að Lamia. Sums staðar er hún gædd þeirri náttúru að ræna börnum og stela sæði karla eins og sumar konur ástunda reyndar um þessar mundir. Hún var djöfullinn, sem misþyrmdi börnum, sem dró karla á tálar og falbauð blíðu sína. Enda var körlum bannað að sofa aleinir að nóttu, samkvæmt Talmud, trúarriti Gyðinga. Annars staðar var litið á Lillít sem frumgerð hinnar sönnu konu; leiðbeindi og verndari. Hún sýndi sérstaka greiðvikni, þegar drengstaula var fórnað henni til dýrðar.
Líllit hafð gríðarlega skírskotun og öðlaðist vinsældir víða; í Persíu, Asíu, á Englandi og í Rómarveldi, þekkt í Kristni, Múhammeðstrú og Gyðingdómi. Sumar arfsagnir segja hana fyrstu eiginkonu Adams í Paradís.
Kvenfrelsarar samtímans líta á Lillít sem tákn frjálsræðis kvenna og valds, sem veitir innblástur til hugmyndafræðilegra landvinninga. Túlkunin er m.a. sett fram í grein nöfnu hennar, Lilly Rivlin, í Ms Magazine árið 1972. Árið 1998 kom út bók eftir Lilly, Hvaða Lillít (What Lilith). Þar segir hún m.a.:
Konur, sem nógar eru sjálfum sér við innblástur frá kvenfrelsunarhreyfingunni, hafa tekið Lillít að hjarta sér og gert að sinni eigin. Þær hafa umsnúið henni til tákns um sjálfstæði, valkosta í kynlífi og stjórnar yfir eigin örlögum.
Þessari fornu gyðju, sem hefur gengið í endurnýjun lífdaganna hjá kvenfrelsurum, er sýndur margvíslegur sómi. T.d. ber gyðinglegt kvenfrelsunartímarit nafn hennar.
Í tímarit þetta skrifar Aviva Cantor Zuckkoff: Hún [Lillít) geislar styrkleika, ákveðni; hún neitar að taka þátt í eigin kúgun (victimation).
Í foröld má finna fjölda gyðja, sem gæddar voru svipuðum eiginleikum og Líllít. Aðrar voru frjósemis- og hernaðargyðjur eða gyðlur (nymph). Dæmi: ISIS í Egyptalandi, karlatortímandinn, Kali í Indlandi, Istar (Ishtar) í Mesópótamíu og hin ógleymanlega, gríska Calypso á eyjunni, Ogygia, sem hélt Odysseifi (Odyssey) í kynlífsþrælkun árum saman. Dýrkun þeirra átti að styrkja konur og efla.
Gyðju- og guðadýrkun átti sér stað í fornum blótum. Eins og minnst var á, þótti árangursríkt að fórna strákhvolpi, ef afla skyldi vinsælda hjá Lillít. Kali má jafnvel líta á sem gyðju karlafórna. Blót af þessu tagi áttu sér t.d. stað í Grikklandi hinu forna og í landnámi Föníkumanna í Karþagó. Fræg eru t.d. blót til heiðurs Díonýsos (Dionysus) öðru nafni Bakkus (Bacchus).
Frjósemisguðirnir voru fylgjugoð í þjónustu frumjarðargyðjunnar, Miklu móður. Blótin, þeim til dýrðar, voru algeng um allan hinn forna heim og fram undir okkar daga. Dionýsos (Dionysus) var guð jarðargróða, víns, nauta, glaðværðar, brjálæðis og taumleysis. Hann er sýndur umvafinn blótkonum, aðdáendum, villimeyjum, ýmist í gervi eldri skeggjaðs karls eða kvenlegs, síðhærðs unglings. Samkvæmt arf- og goðsögnum átti hann sér hliðstæðu í Egyptalandi (Osiris) og Ítalíu (Liber). Á rómverskri styttu er hann tilhöggvinn sem tvíkynjungur.
Víða voru haldin frjósemisblót og teiti, þar sem konur voru við stjórnvölinn. Dísablót eru þekkt úr norrænni menningu. Völsinn kemur þar mjög við sögu. Í gríska haloa frjósemisgildinu dönsuðu konur t.d. kringum völsatákn. Það var svallað í víni og kynlífi og hold fórnardýrsins etið. Það eru til frásagnir af hliðstæðum blótum til dýrðar guðinum, Dionysos, þar sem konurnar fórnuðu karlmönnum. En um það ber heimildum ekki saman, en hliðstæðu er að finna í afrískum kvenveldum, þar sem elskhugum drottningar var fargað, að kynsvalli loknu.
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021